Færslur

Vestari-Lækur

Í Krýsuvík eru tvær lækir; Vestari-Lækur (Vesturlækur/Krýsuvíkurlækur vestri/Fitjalækur) og Eystri-Lækur (Nýjabæjarlækur/Krýsuvíkurlækur/Eystrilækur). Sá fyrrnefndi á uppruna sinn í mýrinni sunnan við Gestsstaðavatn og sá síðarnefndi í Dýjakrókum ofan bæjarstæðis Stóra-Nýjabæjar. Krýsuvíkurtorfan hefur stundum verið nefnd “byggðin milli lækja”, en það getur ekki verið alls kostar rétt því sjálfur Krýsuvíkurbærinn, auk Suðurbæjar, Norðurbæjar og Snorrakots, eru vestan Vestari-Lækjar.

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn í “eðlilegu” ástandi.

Báðir lækirnir steypast fram af Krýsuvíkurbergi, sá eystri austan Bergsenda eystri og sá vestari neðan Fitja undir Selöldu. Vestari-Lækur hefur náð að grafa sig niður í móbergið áður en hann fellur niður í fjöruna, en Eystri-Lækur hefur þurft að sætta sig við ýmist að falla ofan af skarpri hárri hraunbrúninni eða falla niður í sprungur ofan brúnarinnar, allt eftir því hvernig hún hefur þróast af sjóbarningnum neðanverðum eða áhrifum jarðskjálfta hverju sinni.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – nafnlausi fossinn.

Eystri fossinn hafði ekki nafn fyrrum, en í seinni tíð hafa einstaka ferðamenn reynt að nefna hann “Krýsuvíkurfoss”, sem varla getur talist frumlegt örnefni. Lækurinn ofan bjargbrúnarinnar var áður einnig nefndur “Lækur á Bergi”. Vestari fossinn heitir Mígandi í örnefnaskrám.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um lækina: “Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn í víkina [Hælsvík] vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.
Vestur frá Litlahrauni [austan Bergsenda eystri] tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. Um hana rennur Eystri-Lækur og rennur í sjó á austanverðu berginu.”

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn þegar hann fellur niður um ofanverðar sprungumyndanir.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) segir m.a. um lækina og fossana í Krýsuvík: “Að austan var Nýjabæjarlækur. Hann átti upptök sín spölkorn fyrir ofan túnið í Dýjakrókum. Þegar nokkuð var komið frá Nýjabæjartúni, nefndist Nýjabæjarlækur, Krýsuvíkurlækur eystri eða Eystrilækur. Nokkuð niður með honum er Austurlækjarvað, liggur þar gata yfir um lítið holt er nefnist Reiðholt, en gatan lá heim milli garða heim til Krýsuvíkurbæjar. Svæðið sunnan Vesturlækjar og Austurlækjar mætti með réttu nefnast Milli lækja.

Vestari-Lækur

Vestari-Lækur, ónefndur foss ofan Míganda. Fallegur berggangur í rauðamölskriðunni.

Hér vestur undan fellinu [Bæjarfelli] er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði. Takmarkast að norðan af Hálsinum, en að sunnan af Krýsuvíkurlæk vestri eða Vesturlæk. Vesturlækur á uppruna sinn í mýrinni neðan undir Gestsstaðavatni. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist þá Fitjalækur.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Þegar haldið var vestur Bergið þá varð fyrst fyrir í sjónum Selasker og ofan við það Selalón. Vestar var komið að allmiklu viki eða vík, Keflavík. Þar var Keflavíkurkampur stórgrýttur, og þar voru Keflavíkurrekar. Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hér fellur Mígandi fram af berginu í skoruna nær.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er er undir Hei[ð]nabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri.”

Mígandagróf

Mígandagróf.

Nafngiftin “Mígandi” er einnig til á litlum fossi í Hvalfirði, háum fossi norður af Dalvík, myndarlegum fossi í Vatnsdal Austur-Húnavatnssýslu (einnig nefndur Hjallafoss), á fossi austur af Bjarnanúp á Vestfjörðum og auk þess má finna örnefnið Mígandagróf ofan Lönguhlíða á Reykjanesskaganum.

Sjá myndband um austanvert Krýsuvíkurberg HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn nafnlausi á góðum degi.

Krýsuvíkurbjarg

“Hvernig þætti þér að taka heilt fuglabjarg á leigu? Ekki svo galið kannski, ef þú hefðir eitthvað við það að gera.. . og værir hvergi banginn við að síga í bjargið.
Þetta gera þeir björgunarsveitarmenn í björgunarsveit Fiskakletts í Hafnarfirði. Þeir félagar hafa síðustu fimm ár verið með Krýsuvíkurbjarg á leigu. Þangað fara þeir á hverju vori til eggjatöku, selja síðan eggin og ágóðinn rennur til endurnýjunar og viðhalds tækja björgunarsveitarinnar.
Fyrir skemmstu fóru björgunarsveitarmenn í leiðangur út í Krýsuvíkurbjarg. Við slógumst í för með þeim og fylgdumst með í ærandi fuglagargi.. .

Sigið í bjargið.

Þrjú til fjögur þúsund egg eftir vorið

Í björgunarsveit Fiskakletts eru 25 menn. Eggjatakan í Krýsuvíkurbjargi er orðin árviss viðburður, svo árviss að sumum finnst vorið og sumarið ekki komið fyrr en búið er að síga í bjargið.
„Við förum alltaf annað slagið hingað út þegar fer að vora, svona til að fylgjast með að
allt sé í lagi,” segir einn björgunar- sveitarmanna, Einar Ólafsson. ,,En aðaleggjatakan fer fram um mánaðamótin maí-júní. Venjulega höfum við þetta þrjú til fjögur þúsund egg upp úr krafsinu og þau seljum við í verslanir í Hafnarfirði. En eggjatakan er ein fjáröflunarleiða björgunarsveitarinnar.”
— Þið leigið bjargið segirðu, hver á það?
„Það er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Við hirðum líka reka undir bjarginu en það fylgir þeim hlunnindum sem bærinn á. Þar er þó ekkert timbur, aðeins einstaka netabelgir.”
Þótt björgunarsveitarmenn séu 25 síga þeir ekki allir í bjargið. Það sér þriggja til fjögurra manna hópur einkum um. Hver þeirra á „sinn sigstað”, ef svo má að orði komast. Það er að segja, hann sígur nánast alltaf á sömu stöðum í bjargið. Þannig þekkir hann bjargið og um leið eykst öryggið. Það eru bílar björgunarsveitarinnar sem draga sigmennina og þeir eru í talstöðvarsambandi við viðkomandi bíl og gefa þannig fyrirskipanir um hvort eigi að slaka á eða draga.

Lipurð og hugrekki er það sem þarf

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

— En er þetta ekki stórhættulegt þrátt f yrir allt öryggið?
„Ja, er ekki allt hættulegt? Ef varlega er farið gengur þetta slysalaust og það hefur það gert hjá okkur fram að þessu. Allur öryggisbúnaður hjá okkur er í mjög góöu lagi, svo í raun er ekkert að óttast. Það sem þarf hjá sigmönnunum er lipurð og hugrekki og það hafa þeir. Við höfum á að skipa mjög reyndum sigmanni, Bjarna Björnssyni, sem er ótrúlega fljótur og snar í snúningum þegar í bjargið er komið. Hann hefur sigið víða, meðal annars í Látrabjargi, svo hann er öllum hnútum kunnugur. Hann hefur líka verið að segja yngri mönnunum til og þeir eru smám saman að taka við af honum. Einn þeirra er sonur hans, allt efnilegir sigmenn. Það er viss sjarmi yfir þessu bjargsigi á vorin. Þetta er eiginlega fyrsta útiveran á árinu. Við liggjum gjarnan í tjöldum og erum þarna í nokkra daga. Og við borðum auðvitað egg, ýmist soðin eða étum þau hrá.”
Krýsuvíkurbjarg er nokkuð gróið, það gerir fugladritið. Þar verpir svartfugl, fýll og rita. Uppi á bjarginu er virkur gasviti enda eru fengsæl fiskimið fyrir utan og mikið af bátum.

Eggjaþjófar
„Við verðum töluvert fyrir ágangi þarna,” segir Einar. „Ku það einkum menn sem vilja síga í bjargið og gera þeir það i óleyfi og í okkar óþökk. Það hefur gengið svo langt, að við höfum þurft að kæra menn fyrir vikið. Það hefur meira að segja verið reynt að komast sjóleiðina í bjargið enda til töluverðs að vinna því eggin eru eftirsótt vara.”
— Takið þið hvaða egg sem er?
“Nei.við tökum svartfuglsegg eingöngu. Við hirðum hvorki fýls- né rituegg. Þau síðarnefndu eru til dæmis svo viðkvæm að það væri varla hægt að koma þeim upp. Þau þola ekkert hnjask.”
— Þú talar um eftirsótta vöru. Hvað fáið þið fyrir eggið?
„Í vor seldum við stykkið á 14 krónur í verslanir. Þetta er því töluverð fjáröflunarleið hjá okkur þó ekki sé hún stærst. Það er kannski ekki aðalatriðið heldur hitt hversu gaman við höfum af þessum vorferðum í Krýsuvikurbjarg,” sagði Einar Ólafsson. -KÞ.

Heimild:
-DV – laugardagur 18. júní 1983, bls. 12-13.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg.

Keflavík

Ekið var eftir slóða niður í Litlahraun og að Bergsendum, austast á Krýsuvíkurbjargi. “En það sólskin um mýrar og móa, merki vorsins um haga og tún, gróandi tún”.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Áður hafði verið ekið framhjá tóttum “Gvendarhellis (Gvendarstekks)” suðvestast í hrauninu.
Frá Bergsendum blasti neðsti hluti bergsins vestan Keflavíkur við. Gengið var eftir forna stígnum niður Endana og áfram austur hraunið. “Forðast skaltu götunnar glymjandi hó, en gæfunnar leitar í kyrrð og ró”.
Eftir u.þ.b. fimm mínútna göngu var gengið á brattann og komið upp á efri brún bjargsins. Þar beint fyrir ofan er op Krýsuvíkurhellis. Greinilegt var að einhvern tímann hafði verið hlaðið byrgi skammt ofan við opið, en þak þess var fallið niður. Þá hafði nýlega brotnað úr opinu sjálfu og það stækkað nokkuð.

Hellirinn sjálfur, tvískiptur, er meistarasmíð. Hann hefur verið mikill geymir, en er nú víða hruninn. Þó má vel sjá hversu hraunrásin hefur verið mikil. Þegar komið er niður í hellinn að vestanverðu verður beinagrind af kind þar fyrir.

Krúsvíkurhellir

Við op Krýsuvíkurhellis.

Neðar er mikið súluverk og göng og op upp og niður. Þau voru vandlega þrædd og skoðuð. Austan megin er hins vegar gólfið sléttara og hellirinn rúmbetri. Þar hefur verið hlaðið skjól eða byrgi og er hellirinn talsvert “sótugur” þeim megin. Þrædd voru göng til suðurs í átt að gamla bjarginu. Eftir um 30 metra göngu um gönginn var komið að gati á bjarginu og blasti þá við útsýni yfir svo til allt neðra bjargið. Hægt er fyrir ólofthrædda að klifra upp eða niður úr gatinu, en sjálft er það vel rúmt.

Keflavík

Hellnastígur milli Bergsenda og Keflavíkur.

Grösugar brekkur eru neðan undir gatinu. Auðvelt hefur t.d. verið fyrir smala að athafna sig þarna og fylgjast með ánum á beit fyrir neðan. Einnig í þessum hluta virtist vera talsvert sót.
Ofar er jarðfall og úr henni liggur hraunrásin lengra upp hraunið. Ákveðið var að bíða með frekari skoðun á þeim hluta þangað til síðar.

Gönguleiðin frá Bergsendum að Keflavík er einkar falleg. Bæði er fallegt útsýni vestur með Krýsuvíkurbjargi, auk þess sem hraunið á þessari leið er sérstaklega stórbrotið. Keflavíkin sjálf er verðug skoðunar. Einstigi liggur niður í hana.

Keflavík

Keflavík.

Í botninn er gras næst klettunum, en utar eru sjóbarið grágrýti. Þegar staðið er úti á grjótinu sést vel stór gataklettur austar á bjarginu. Vestan við víkina sést enn hluti gamla bjargsins, en uppi á því trjóna Geldingasteinar. Toppar bjargsins eru grasi vaxnir, en mjög auðvelt er að ganga að þeim undir bjarginu og upp með þeim að vestanverðu.
“Ef virðist þér örðugt og víðsjálft um geim, veldu þér götuna sem liggur heim”.
Frábært veður.

Herdísarvíkurberg

Gatketill.

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var frá Grænavatni að Austurengjahver (Stórahver), um Vegghamra að Stóru-Eldborg, þaðan um Borgarhraun niður á Krýsuvíkurbjarg vestan við Bergsenda, eftir bjarginu (13 km) að Selöldu, upp að Arnarfelli og yfir að Bæjarfelli með viðkomu í Krýsuvíkurkirkju. Loks var haldið upp að Augum og hringnum lokað við Grænavatn.

Grænavatn

Grænavatn.

Krýsuvík er mikið jarðhitasvæði. Þar eru bæði leir- og gufuhverir en einnig sprengigígar. Stærsti sprengigígurinn á svæðinu er Grænavatn.
Í grein Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem nefnist Náttúruvernd og birtist árið 1950 í tímariti Náttúrurfræðingurinn segir hann m.a. frá Grænavatni:
“Suður í Krýsuvík er lítið stöðuvatn, Grænavatn, sem fengið hefur nafn af hinum sérkennilega græna lit vatnsins, er stafar af brennisteinssamböndum. Þetta litla vatn, nokkur hundruð metra breitt, en 45 metra djúpt, er myndað eftir ísöld, við eldgos, sem orðið hefur með sérkennilegum hætti, sem hér er ekki tími til að rekja. Meðal annars hafa í því gosi, sem myndaði vatnið, þeyst upp hraunkúlur, sem hafa gabbrókjarna, en bergtegundin gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.

Grænavatn

Grænavatn.

Vatnið er óefað meðal merkustu náttúrurfyrirbrigða í sinni röð, og þar sem það liggur í sérkennilegu umhverfi, við þjóðveg, og ekki nema klukkutímakeyrslu frá höfuðstaðnum, kemur vart sá útlendur jarðfræðingur til landsins, að ekki sé keyrt með hann um um Krýsuvíkurveg og honum sýnt Grænavatn, og fjöldi annarra útlendinga fer um þann veg.”
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Hafa þeir eflaust komið að Austurengjahver, en einnig í Hveradal (Seltún) og Baðstofu. Sveinn þórðarson segir frá því að bændur hafi í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby  brennisteinsnámurnar í Krýsuvík.

Seltún

Seltún – brennisteinn.

Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann.

Bora þurfti því eftir brennisteininum.  Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum.
Gengið var í syðri Kálfadalinn. Þar er fallegur hraunfoss, Víti. Haldið var yfir að Vegghömrum vestan Geitahlíðar, niður með henni og yfir að Stóru-Eldborg.
Eldborgir eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar árið 1987. Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Á leiðinni áleiðis niður á Krýsuvíkurbjarg um Litlahraun var rifjað upp ýmislegt um Krýsuvíkina. Hún er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogsósum þjónaði m.a. Krýsuvíkur prestakalli.
Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður var eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi.
KrýsuvíkurkirkjaMeð órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.
Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938).

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.
Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: ” Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.” Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.

Ætlunin var að senda Magnús í verbúðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík, á Nýjabæ.
Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvík sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.

“Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.”
Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.

Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þar dvaldi hann í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.
Tóft, sem blasti við efst á Krýsuvíkurheiði er ein minjanna um Magnús. Þar er sagt að hann hafi setið yfir sauðum á unga aldri að undirlægi Árna sýslumanns.
Skoðaðar voru minjarnar í Litlahrauni og síðan haldið vestur með Krýsuvíkurbjargi. Frábært útsýni er af bjargbrúninni svo til alla leiðina.
Skoðaðar voru minjarnar við Selöldu, upp við Arnarfell og kíkt inn í Krýsuvíkurkirkju áður en haldið var upp að Augunum. Þau eru tveir sprengigígar með vatni í, þó mun minni en Grænavatn. Þjóðvegurinn liggur milli þeirra.
Frábært veður – Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.islandsvefurinn.is/photo2.asp?ID=471
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm
-http://saga.khi.is/torf/2002/nyibaer/
-http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1089

Graenavatn-221

Grænavatn.

Selalda

Gengið var frá Krýsuvíkurréttinni eftir vegslóðanum niður að Selöldu. Um er að ræða greiðfæra og ákjósanlega leið fyrir alla aldurshópa. Framundan horfið Selaldan við, móbergshryggur sem vatn og vindar hafa sorfið til að ofanverðu og myndað þar alls kyns fígúrur. Rjúpa situr efst á steini, steinrunnin, fálki steypir sér niður og tröll horfa hreyfingarlaus á.

Selalda

Selalda – berggangur.

Vestarilækur rennur þarna niður með vestanverðri Selöldu, liðast um tún bæjarins Fitja og steypist síðan fram af Krýsuvíkurbergi vestan Heiðnabergs. Vestan við túnkantinn, yfir lækinn, er gömul hlaðin brú. Garðar eru með túnunum að norðanverðu og tóftir bæjarins eru bæði miklar og heillagar. Saga Fitja er rakin í annarri FERLIRslýsingu.
Gengið var upp að Strákum, stórum klettum á vestanverðri Selöldu. Undir þeim er fallega hlaðið og heillegt fjárhús. Frá því er ágætt útsýni eftir Selöldunni til austurs og neðanmóa. Haldið var á ný niður á slóðann og hann rakin niður á bjargbrúnina. Heiðnabergið gefur Vestfjarðarbjörgunum lítið eftir í góðu veðri. Í því austanverðu sést enn hluti Ræningastígsins, en stutt er síðan að sjórinn braut af neðsta hluta hans.

Selalda

Selalda – Strákar.

Áður var hægt að ganga þarna niður og undir bjargið. Líklegt er að stígnum hafi að nokkru verið haldið við þegar búið var ofan við bjargið svo hægt væri að komast niður og sækja reka, sem þar lendir, og önnur hlunnindi.

Eyri

Krýsuvíkursel við Eyri undir Selöldu.

Annars dregur stígurinn nafn sitt af Tyrkjunum, sem eiga að hafa komið að bjarginu, haldið upp stíginn og komið að selsmatsstúlkum í Krýsuvíkurseli þar fyrir ofan. Smali sá til þeirra og flúðu heim að Krýsuvíkurkirkju þar sem séra Eiríkur í Vogsósum á að hafa verið við messugjörð. Hann afgreiddi síðan ræningjana er þá bar að garði og eiga þeir að hafa verið dysjaðir í Ræningjadys í Ræningjahól vestan við kirkjuna.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var upp að tóftum bæjarins Eyri, þær skoðaðar sem og fjárborgirnar tvær sunnan þeirra og loks haldið upp að tóftum Krýsuvíkursels austast í Selöldunni, áður en gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Fitjar

Fitjar.

Krýsuvíkurbjarg

Haldið var niður í Krýsuvíkurhraun. Ætlunin var að skoða ströndina vestan Seljabótar, en hún er ein sú fáfarnasta á landinu, þrátt fyrir nálægðina við höfðuborgarsvæðið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg).

Þegar gangan var farin voru samningar lögreglumanna lausir og lítið dregið saman með aðilum. Umhverfið minnti þátttakendur á launasamninganefnd ríkisins og fulltrúa Landssambandsins. Hafið, óráðið og óendanlegt, ólagandi og óviðræðuhæft annars vegar og stórbrotnir klettarnir með ströndinni hins vegar, standandi vörð um landið, óhagganlegir, áreiðanlegir, en vanmetnir.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg (-bjarg).

Ströndin er fjölbreytileg og útsýni með henni víða mjög fagurt. Sjá mátti berar hraunæðar, sem sjórinn hafði sorfið, djúpa svelgi og mikla hraunhella inn undir bjargið. Hrauná rann fram af því á einum stað og annars staðar mátti sjá skrautlegt hraungrýti sem myndi sóma sér vel sem stáss í hvaða stofu sem er.
Veður var með ágætum þrátt fyrir þungan himninn með fjöllunum. Leiðin niður að ströndinni er 2.2 km um rollulaust hraunið, sem allt er að koma til eftir ofbeit liðinna ára.

Krysuvikurbjarg-802

Krýsuvíkurbjarg.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg er bjarg sem rís úr sjó í Krýsuvíkurhrauni á sunnanverðum Reykjanesskaga.
Bjargið er Krysuvikurbjarg-301langstærsta fuglabjarg skagans. Þar verpa um 60.000 fuglapör, mest rita en líka langvía, álka, stuttnefja og fýll, og eitthvað af lunda, toppskarf, silfurmáf og teistu. Áður fyrr var algengt að menn sigu í bjargið eftir eggjum og 1724 fórust þar þrír menn sem urðu fyrir grjóthruni. Efst á bjarginu er viti sem var reistur árið 1965. Við bjargið hafa orðið nokkrir skipsskaðar, eins og þegar Steindór GK strandaði þar 1991 og Þorsteinn GK 1998. Í báðum þessum tilvikum varð mannbjörg.
“Það er eftirtektarvert, að þúsundir manna skuli á hverju sumri aka eftir Krýsuvíkurveginum, án þess að vita það, að hálftíma gang frá þessum vegi er eitt af mestu náttúruundrum landsins.
Fyrir neðan Eldborg, austan við Krýsuvík er fjárrétt, en þaðan liggur vegslóði í suðaustur, í átt til Krysuvikurbjarg-405strandarinnar nokkuð niður eftir. — Frá þjóðveginum og niður á Krýsuvíkurbjarg er aðeins hálftíma hægur gangur. Þarna koma menn að austurenda bergsins, þar sem komast má niður að sjó og sjá bergið opnast. Um varptímann er þarna ótrúlegt ævintýraland, hundruð þúsunda af lunda, álku og langvíu verpa þarna á sillum og skútum í berginu. Fuglinn er spakur á þessum slóðum, svo víða má komast næstum því að efstu hreiðrunum, enda má heita að bjargið hafi verið í friðun allt að því hálfa öld. Bjargið er hátt og tilbreytingamikið. Höfðar og snasir skaga fram, en milli þeirra beygja hamravíkur sig inn.
Beint niður af hinni fornu Krýsuvík er lítil eyja framan við bergið, er nefnist Fuglasteinn, og það er næsta ótrúlegt hvílík mergð fugla getur þar rúmast. — Um fjöru koma flasir og klappir sumstaðar upp. Þar má sjá skarfa í stórhópum baða vængum, til að þurrka þá. Frá hinni fornu Krýsuvík, þar sem kirkjuhrófið stendur eitt eftir, má líka ganga niður í bjarg, og liggur skemmsta leiðin milli tveggja hóla, sem sjá má niðri á sléttunni, sú ferð er klukkustundargangur. Við vesturenda bjargsins eru Selatangar, forn veiðistöð, en þangað er stundargangur frá austustu byggð í Grindavík. Verstöðin í Selatöngum lagðist niður af mögnuðum draugagangi. — Fróðir menn telja að þar hafi verið sjódraugar á ferð.
Krysuvik-980Ferðafélag Íslands þarf þegar á næsta vori að hefjast handa og hlutast til um að nefndur vegslóði, frá Eldborg og niður að bjargi, verði gerður greiðfærari og skilti sett við veginn til þess að vísa ókunnugum á rétta leið.
Svo mátti heita, að Krýsuvík væri í eyði um langan tíma. Síðasti bóndinn bjó þar rausnarbúi frá 1907—1914. En jörðin var fólksfrek til fullrar nýtingar. Sérstakur bjargmaður var sóttur austur í Mýrdal á hverju vori. Gerði hann ekkert annað en stunda bjargið, safna eggjum framan af sumri, en síðan veiða fugl. Vann hann þar einn á daginn, en var á kvöldin sóttur niður á bjarg, eggjakassar og -fuglakippur dregnar upp á vaði og reiddar heim. — Á hverjum stað er síga varð í bjargið, hringaði sigmaðurinn enda vaðsins á bjargbrúnina og kastaði nokkrum steinvölum yfir, rakti síðan vaðinn fram af brúninni og las sig niður. Þessar steinahrúgur liggja þarna enn og eru þær ótrúlega léttar. — Eggjatekjan fór allt upp í tíu þúsund á vori. Voru þau þvegin og aðgætt og reidd á klökkum til Hafnarfjarðar og seld á 10 aura stykkið.
Efri leiðin frá Krýsuvík, eftir Ketilsstíg sunnan við hverina, yfir Sveifluháls til Hafnarfjarðar, var þá um það bil 8 tíma lestargangur. Mikill straumur erlendra ferðamanna lagði á þessum árum leið sína til Krýsuvíkur og niður á bjarg, og ekki dró það úr, að Krýsuvíkurheimilið var annálað fyrir gestrisni og höfðingsskap.”
Sv. Þ.

Heimild:
-wikipedia.org
-Vísir, Undir Krýsuvíkurbjargi, 24. janúar 1962, bls. 9 og 10.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurbjarg (h.m.) og -berg (v.m.) við fossinn af Eystri-Læk.

 

Krýsuvíkurbjarg

Í Morgunblaðinu 1951 skrifar Kjartan Sveinsson minningarorð um Ingibjörgu Sigurðardóttur. Ingibjörg bjó ásamt eiginmanni sínum, Jóni Magnússyni, í Krýsuvík á árunum 1907-1914. Of sjaldan hefur kvennanna fyrrum verið minnst með svo sanngjörnum hætti.
Hér á eftir verður í framhaldinu endurbirtar lýsingar tveggja manna á ferðum þeirra um Krýsuvíkurberg (-bjarg) eftir miðja síðustu öld. Lýsingarnar þarf að skoða á takmörkuðum áhuga á huldum minjum fyrri tíða, en þess meiri á sögnum og upplifun ferðalangsins á náttúru svæðisins.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn 1909. Bæjarfell fjær.

“Góð kona er horfin úr þessum bæ, frú Ingibjörg Sigurðardóttir. Hún var í heiminn borin 13. mars 1877 að Esjubergi á Kjalarnesi.
Ingibjörg var elsta barn foreldra sinna og var vart meir en unglingur að árum, þegar lífið lagði á hana hinar fyrstu kvaðir. Móðir hennar missti heilsu á besta aldri og lá oft rúmföst og þjáð síðustu sex árin er hún lifði, Og kom því aðallega í hlut Ingibjargar að stunda hana og jafnframt að standa fyrir búi föður síns. Ingibjörgu vannst þó tími til skólagöngu í hinum íslenska kvennaskóla.
Árið 1903 þann 31. maí giftist hún Jóni Magnússyni, ættuðum frá Syðra-Langholti, sem nú er nær 87 ára að aldri. Hófu þau þá búskap á eignarjörð sinni, Reykjum í Mosfellssveit. Árið 1907 fluttu þau búferlum til Krýsuvíkur og bjuggu þar til 1914 að þau fluttu alfarin til Reykjavíkur. Þeim varð sex barna auðið og eru fjögur þeirra á lífi.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1910.

Krýsuvík var stór jörð og erfið. Þá var um átta stunda lestagangur til Reykjavíkur og yfir fjall að fara, en nú má aka þessa leið á 2—3 stundarfjórðungum. Þau hjón ráku þarna búskap með hinum mesta myndarbrag, og jafnvel hið erfiða Krýsuvíkurbjarg var nytjað hvert vor. Þar við bættist að fjöldi ferðamanna erlendra og innlendra sótti staðinn heim, þó sú leið væri hvorki greiðfær nje góðviðrasöm, að mestu hraun og öræfi. Og mitt í þessari auðn reis Krýsuvík sem hof íslenskrar gestrisni, enda kom það sjer betur, því þarna var ekki um aðra gististaði að ræða.
Það beit sig í mig atvik frá tímum, sem eru löngu liðnir. Jeg var staddur hjá tveim kunningjum mínum í gamla skálanum á Þingvöllum og hjá þeim sat síðskeggjaður þýskur háskólakennari. Hann var að teigja ýmsar ferðaminningar sínar frá Íslandi.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

Eitt sinn hafði hann á leið frá Heklu, komið til Krýsuvíkur í haustmyrkri og óveðri og „Þá var jeg bæði þreyttur og svangur”, bætti hann við. Það kom bókstaflega einhver andakt yfir þetta gamla andlit þegar hann minntist á móttökurnar þar. Svona var landkynning þeirra tíma. Mjer varð það ljósara en áður, vegna hvers þessi útlendingur hafði tekið slíka tryggð við land og þjóð.
En í Krýsuvík átti frú Ingibjörg marga ónæðisama nótt við að hlynna að þreyttum ferðamönnum, jafnframt því sem hin venjulegu skyldustörf kölluðu að morgni. — Þannig var öllum tekið, sem til Krýsuvíkur komu, með djörfung og hjartahlýju, hvort heldur gesturinn var þýskur fræðaþulur, íslenskt skáld, enskur náttúrufræðingur eða göngumóður fjárleitarmaður úr Grindavík.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja brann á nýársnótt 2910. Legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Einn skugga bar á líf þessara hjóna í Krýsuvík. Þar misstu þau ungan dreng, einkar efnilegan, og var hann þeim harmdauði alla tíð. Hann var jarðsettur hjá leiði Árna sýslumanns við austurgafl á kirkjuhrófi því, sem enn stendur þar uppi. Og jeg held jeg megi segja, að þegar frú Ingibjörg flutti alfarin frá Krýsuvík, þá hafi hugur hennar orðið eftir hjá þessari þúfu. Hún kvartaði aldrei yfir missi þessa drengs, hún kvartaði aldrei yfir neinu.
Það var jafnan hljótt um þessa konu. Hún kunni kyrrðinni best, því þar var hvorki hugað nje spurt til launa. Heimilið, stundum mannmargt og ávallt gestkvæmt, var fyrst og fremst hennar starfssvið. Að því vann hún vakin og sofin meðan kraftar entust hvern dag allan ársins hring, með stöðugri umhyggju með öllum og öllu, sem lifði og lífsanda dró. Jeg skildi það aldrei til fulls hvernig henni vannst tími til allra sinna starfa og að rækja þau jafnvel og raun varð á, ekki síst uppeldi barna sinna.
Jeg skal hreinskilningslega játa, að það er sannfæring mín, að Ingibjörg Sigurðardóttir hafi skipað sess með hinum bestu konum þessa lands, bæði fyr og síðar, þeim sem hafa hlúð að nýgræðingnum í þessu landi, líknað og lýst í kringum sig á alla vegu og byggt upp þessa þjóð í meir en þúsund ár. – Í því ljósi hverfur þessi kona, ástsæl og jafnan mikils metin af öllum sem henni kynntust, vanmetin af engum nema þá helst af sjálfri sjer.” – Kjartan Sveinsson.

Í Vísi 1962 er eftirfarandi lýsing Sv. Þ.; Undir Krýsuvíkurbergi:

Eldborgarrétt

Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).

“Góður vinur minn, stangaveiðimaður oo náttúruskoðari mikill bauð mér í ágústmánuði. Í sumar er leið í stutta skemmtiferð suður á Krýsuvíkurbjarg. Ég þykist vita, að þú hafir aldrei komið fram á bergið, en þar er margt merkilegt að sjá, sagði hann. Eg myndi vilja opna Krýsuvíkurbjarg, sem ferðamannaatraksjón, bætti hann við. Það er rétt að blaðamenn veki á þessu athygli, ef þeir telja þetta mál til sín taka, athuguðu allar hliðar þess vandlega.
Ég kem á bílnum á eftir og við skulum skjótast, því nú er veðrið svo gott. Og að lítilli stundu liðinni voru við lagðir af stað. Það bar margt á góma í þessari ferð suður á bjargið. Vinur minn, kom með marga athyglisverðar ábendingar um þetta mál og hann nam stöku sinni staðar við sögu sögusviðsins, á langri göngu okkar þennan sólfagra dag.
Um daginn fór ég að rifja þetta ferðalag upp aftur. Það er eftirtektarvert, að þúsundir manna skuli á hverju sumri aka eftir Krýsuvíkurveginum, án þess að vita það, að hálftímagang frá þessum vegi er eitt af mestu náttúruundrum landsins.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Fyrir neðan Eldborg, austan við Krýsuvík er fjárrétt, en þaðan liggur vegslóði í suðaustur, í átt til strandarinnar nokkuð niður eftir. — Frá þjóðveginum og niður á Krýsuvíkurbjarg er aðeins hálftíma hægur gangur.
Þarna koma menn að austurenda bergsins, þar sem komast má niður að sjó og sjá bergið opnast. Um varptímann er þarna ótrúlegt ævintýraland, hundruð þúsunda af lunda, álku og langvíu verpa þarna á sillum og skútum í berginu. Fuglinn er spakur á þessum slóðum, svo víða má komast næstum því að efstu hreiðrunum, enda má heita að bjargið hafi verið í friðun allt að því hálfa öld. Bjargið er hátt og tilbreytingamikið. Höfðar og snasir skaga fram, en milli þeirra beygja hamravíkur sig inn.

skarfur

Skafur neðan Krýsuvíkurbjargs.

Beint niður af hinni fornu Krýsuvík er lítil eyja framan við bergið, er nefnist Fuglasteinn, og það er næsta ótrúlegt hvílík mergð fugla getur þar rúmast. — Um fjöru koma flasir og klappir sumstaðar upp. Þar má sjá skarfa í stórhópum baða vængum, til að þurrka þá.
Frá hinni fornu Krýsuvík, þar sem kirkjuhrófið stendur eitt eftir, má líka ganga niður í bjarg, og liggur skemmsta leiðin milli tveggja hóla, sem sjá má niðri á sléttunni, sú ferð er klukkustundargangur.
Við vesturenda bjargsins eru Selatangar, forn veiðistöð, en þangað er stundargangur frá austustu byggð í Grindavík. Verstöðin í Selatöngum lagðist niður af mögnuðum draugagangi. — Fróðir menn telja að þar hafi verið sjódraugar á ferð.
Krýsuvíkurbjarg
Ferðafélag Íslands þarf þegar á næsta vori að hefjast handa og hlutast til um að nefndur vegslóði, frá Eldborg og niður að bjargi, verði gerður greiðfærari og skilti sett við veginn til þess að vísa ókunnugum á rétta leið.
Svo mátti heita, að Krýsuvík væri í eyði um langan tíma. Síðasti bóndinn bjó þar rausnarbúi frá 1907—1914. En jörðin var fólksfrek til fullrar nýtingar. Sérstakur bjargmaður var sóttur austur í Mýrdal á hverju vori. Gerði hann ekkert annað en stunda bjargið, safna eggjum framan af sumri, en síðan veiða fugl. Vann hann þar einn á daginn, en var á kvöldin sóttur niður á bjarg, eggjakassar og fuglakippur dregnar upp á vaði og reiddar heim. — Á hverjum stað er síga varð í bjargið, hringaði sigmaðurinn enda vaðsins á bjargbrúnina og kastaði nokkrum steinvölum yfir, rakti síðan vaðinn fram af brúninni og las sig niður. Þessar steinahrúgur liggja þarna enn og eru þær ótrúlega léttar. —

Krýsuvíkurbjarg

Sigið í Krýsuvíkurbjarg 1983.

Eggjatekjan fór allt upp í tíu þúsund á vori. Voru þau þvegin og aðgætt og reidd á klökkum til Hafnarfjarðar og seld á 10 aura stykkið. Eri leiðin frá Krýsuvík, eftir Ketilsstíg sunnan við hverina, yfir Sveifluháls til Hafnarfjarðar, var þá um það bil 8 tíma lestargangur.
Mikill straumur erlendra ferðamanna lagði á þessum árum leið sína til Krýsuvíkur og niður á bjarg, og ekki dró það úr, að Krýsuvíkurheimilið var annálað fyrir gestrisni og höfðingsskap.” – Sv. Þ.

Í Morgunblaðinu 1982 er lýsing Tómasar Einarssonar “Á ferð um Krýsuvíkurbjarg“:

Litla-Hraun

Krýsuvíkursel í Litla-Hrauni ofan Krýsuvíkurbjargs.

“Mörgum þykir gaman að ganga með sjó til að fylgjast með hreyfingum úthafsöldunnar. Heyra öldugjálfrið við fjörusteininn eða hlusta á brimniðinn og sjá öldufaldana þeytast hátt í loft upp eftir fangabrögðin við hina brimsorfnu kletta. Við slíkar sýnir er unnt að dvelja löngum stundum. Þeim fylgir einhver seiðandi kraftur sem iætur fáa ósnortna, sem hafinu kynnast á annað borð.
Í nágrenni höfuðborgarinnar er víða unnt að kynnast hafinu á þennan hátt en samt er óhætt að fullyrða að sá staður er vandfundinn þar sem leikur þess er stórkostlegri en undir Krýsuvíkurbjargi. Í þessum pistli leggjum við leið okkar á þær slóðir.

Krýsuvíkurheiði

Jónsbúð á krýsuvíkurheiði. Geitahlíð fjær.

Fyrir sunnan byggðina í Krýsuvík er landið flatt og greiðfært yfirferðar. Það nefnist Krýsuvíkurheiði og liggur hún milli Ögmundarhrauns að vestan og Krýsuvíkurhrauns að austan. Syðsti hluti heiðarinnar nær fram að sjó. Þar endar hún í þverhníptu bjargi sem víða er allt að 40 m hátt.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Við yfirgefum bílinn hjá gamalli fjárrétt, sem er neðan við veginn gegnt Geitahlíð og tökum stefnuna niður á bjarg. Réttarsvæðið er athyglisvert, því frá Stóru-Eldborg, sem er þar fyrir ofan, liggur eldtröð niður fyrir veg. Í enda traðarinnar hefur þessi rétt verið gerð og mynda traðarbarmarnir réttarveggina að nokkru leyti. Við höfum Krýsuvíkurhraunið á vinstri hönd. Þí.ð hefur komið frá eldvörpunum sunnan undir Geitahlíð, bæði Stóru- og Litlu-Eldborg og mun vera nokkur þúsund ára gamalt. Það hefur runnið í sjó fram við Keflavík og þar fyrir austan og myndað landauka í seinni tíð.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – loftmynd.

Þegar komið er fram á bjargbrún tökum við stefnuna til hægri og höldum vestur eftir. Brún bjargsins er grasi gróin og mjög greiðfær yfirferðar. Ætti gangan því að sækjast greitt, en hætt er við að hún verði nokkuð tafsöm, því það er svo ótal margt sem vekur forvitni og krefst nánari skoðunar. Fyrri hluta sumars er bjargið kvikt af fugli og bera syllurnar þess glögg merki. Þar er svartfuglinn mest áberandi og svo ritan. Þá er þröng á þingi og þegar garg þessara bjargbúa blandast við sjávarniðinn hljómar svo sannarlega stef úr „Íslandslagi”. En lögun og gerð bjargsins er ekki síður athyglisverð því þar liggur hvert grágrýtislagið ofan á öðru og gefa þau glöggt til kynna gerð þess og myndun. En það hefur gerst fyrir mörg þúsund árum.

Eystri-lækur

Eystri-lækur.

Margir halda að vatn sé ekki að finna á bjarginu, en það er rangt, því brátt verður Eystri-lækur á leið okkar. Hann á upptök sín í Bleiksmýri austan undir Arnarfelli og fellur fram af bjargbrúninni beint ofan í sjó í fallegum, lóðréttum fossi. Er sá foss sannarlega augnayndi.

Krýsuvíkurbjarg

Við vitann á Krýsuvíkurbjargi.

Nokkru vestan við lækinn komum við að litlum vita er stendur frammi við bjargbrún. Þar er tilvalið að setjast niður um stund og fá sér bita af nestinu, því drjúgur spölur er enn eftir af göngunni.
En svo breytir bjargið um svip. Hin lagskiptu berglög hverfa um stund en slétt berg með rauðum gjalllögum á milli tekur við. Þetta er suðurhluti Skriðunnar, en svo nefnist smáhæð sem gengur fram að sjó nokkru fyrir vestan vitann.
Skriðan er forn eldstöð, sem hafaldan hefur sorfið og fægt þeim megin er að sjónum snýr. Og þar á einum stað er unnt að ganga alla leið niður í fjöru. Er þá farið skáhallt eftir syllum utan í bjarginu. Nefnist þessi gata Ræningjastígur. Segir þjóðsagan að forðum daga hafi Tyrkir komið þar að landi og gengið upp á brún eftir þessum stíg. Síðan sóttu þeir heim að Krýsuvíkurbæ og hugðust vinna þar á fólki og ræna. En svo vel vildi til, að galdraklerkurinn kunni, séra Eiríkur í Vogsósum var þar staddur. Er hann sá þennan voða nálgast beitti hann kunnáttu sinni með þeim afleiðingum, að Tyrkirnir réðust hver á annan og drápust þeir þar allir. Nú liggur kaðall niður stíginn þeim til styrktar er hyggja á fjöruferð.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Vestan við Skriðuna er Hælsvík og þar fyrir ofan er Selalda og Strákar. Selalda er eldstöð eins og Skriðan, en Strákar eru veðraðir bergdrangar sérkennilegir að gerð. Á sléttum bala vestan undir Strákum eru rústir af eyðibýlinu Fitjum. Standa veggir þess furðu vel og er fróðlegt að virða þar fyrir sér húsaskipan á kotbýli fyrri tíma.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961.

Við Fitjar lýkur þessari leiðarlýsingu. Að vísu er bjargið vestan Hælsvíkur skoðunarvert og ekki myndi það spilla að skreppa að Húshólmanum í Ögmundarhrauni og virða fyrir sér rústirnar af býlinu sem þar var einu sinni en mun hafa eyðst þegar Ögmunarhraun brann. En fyrir ókunnuga er það nokkrum erfiðleikum háð að finna rústirnar og svo lengir krókurinn þangað gönguna allmikið. Því er best að snúa við hjá Fitjum og ganga frá Strákum beinustu leið yfir Krýsuvíkurheiðina að bílnum er bíður hjá gömlu réttinni neðan undir Stóru-Eldborg.
Þangað verður svo komið aftur eftir 5—6 klst. rólega gönguferð.” – Tómas Einarsson.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Hælsvík/Heiðnaberg).

Reyndar vantar talsvert upp á að Krýsuvíkurbjargi (-bergi) sé gerð tæmandi skil í framangreindum lýsingum. Mögulega stafar það af ókunnugleik hlutaðeigandi eða takmörkuðu ritplássi. Vestan við Eystri-Bergsenda, austasta hluta Krýsuvíkurbjargs, er t.d. Litla-Hraun. Í því er að finna minjar sels frá Krýsuvík, réttar, fjárhúss og athvarfs þar sem stundaðar hafa verið bæði refa- og fuglaveiðar. Ofar í heiðinni er Jónsbúð, fjárhús frá bænum.

Selalda

Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri – Uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Skriðu eru minjar Eyris, bæjar frá 17. öld, og hið gamla Krýsuvíkursel er segir frá í þjóðsögum af Tyrkjum er komu upp frá Heiðnabergi (Hælsvík) – svo fátt eitt annað sé nefnt.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 80. tbl. 11.04.1951, Ingibjörg Sigurðardóttir – minningarorð, Kjartan Sveinsson, bls. 2 og 7.
-Vísir, 18. tbl. 21.01.1962, Undir Krýsuvíkurbergi, Sv. Þ., bls. 9 og 10.
-Morgunblaðið, 182. tbl. 21.08.1982, Á ferð um Krýsuvíkurbjarg, Tómas Einarsson, bls. 31.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – horft frá Bergsenda vestari til austurs. Reynir Sveinsson skreytir forgrunninn.