Í Morgunblaðinu 1951 skrifar Kjartan Sveinsson minningarorð um Ingibjörgu Sigurðardóttur. Ingibjörg bjó ásamt eiginmanni sínum, Jóni Magnússyni, í Krýsuvík á árunum 1907-1914. Of sjaldan hefur kvennanna fyrrum verið minnst með svo sanngjörnum hætti.
Hér á eftir verður í framhaldinu endurbirtar lýsingar tveggja manna á ferðum þeirra um Krýsuvíkurberg (-bjarg) eftir miðja síðustu öld. Lýsingarnar þarf að skoða á takmörkuðum áhuga á huldum minjum fyrri tíða, en þess meiri á sögnum og upplifun ferðalangsins á náttúru svæðisins.
Krýsuvíkurbærinn 1909. Bæjarfell fjær.
“Góð kona er horfin úr þessum bæ, frú Ingibjörg Sigurðardóttir. Hún var í heiminn borin 13. mars 1877 að Esjubergi á Kjalarnesi.
Ingibjörg var elsta barn foreldra sinna og var vart meir en unglingur að árum, þegar lífið lagði á hana hinar fyrstu kvaðir. Móðir hennar missti heilsu á besta aldri og lá oft rúmföst og þjáð síðustu sex árin er hún lifði, Og kom því aðallega í hlut Ingibjargar að stunda hana og jafnframt að standa fyrir búi föður síns. Ingibjörgu vannst þó tími til skólagöngu í hinum íslenska kvennaskóla.
Árið 1903 þann 31. maí giftist hún Jóni Magnússyni, ættuðum frá Syðra-Langholti, sem nú er nær 87 ára að aldri. Hófu þau þá búskap á eignarjörð sinni, Reykjum í Mosfellssveit. Árið 1907 fluttu þau búferlum til Krýsuvíkur og bjuggu þar til 1914 að þau fluttu alfarin til Reykjavíkur. Þeim varð sex barna auðið og eru fjögur þeirra á lífi.
Krýsuvíkurbærinn um 1910.
Krýsuvík var stór jörð og erfið. Þá var um átta stunda lestagangur til Reykjavíkur og yfir fjall að fara, en nú má aka þessa leið á 2—3 stundarfjórðungum. Þau hjón ráku þarna búskap með hinum mesta myndarbrag, og jafnvel hið erfiða Krýsuvíkurbjarg var nytjað hvert vor. Þar við bættist að fjöldi ferðamanna erlendra og innlendra sótti staðinn heim, þó sú leið væri hvorki greiðfær nje góðviðrasöm, að mestu hraun og öræfi. Og mitt í þessari auðn reis Krýsuvík sem hof íslenskrar gestrisni, enda kom það sjer betur, því þarna var ekki um aðra gististaði að ræða.
Það beit sig í mig atvik frá tímum, sem eru löngu liðnir. Jeg var staddur hjá tveim kunningjum mínum í gamla skálanum á Þingvöllum og hjá þeim sat síðskeggjaður þýskur háskólakennari. Hann var að teigja ýmsar ferðaminningar sínar frá Íslandi.
Krýsuvík 1923.
Eitt sinn hafði hann á leið frá Heklu, komið til Krýsuvíkur í haustmyrkri og óveðri og „Þá var jeg bæði þreyttur og svangur”, bætti hann við. Það kom bókstaflega einhver andakt yfir þetta gamla andlit þegar hann minntist á móttökurnar þar. Svona var landkynning þeirra tíma. Mjer varð það ljósara en áður, vegna hvers þessi útlendingur hafði tekið slíka tryggð við land og þjóð.
En í Krýsuvík átti frú Ingibjörg marga ónæðisama nótt við að hlynna að þreyttum ferðamönnum, jafnframt því sem hin venjulegu skyldustörf kölluðu að morgni. — Þannig var öllum tekið, sem til Krýsuvíkur komu, með djörfung og hjartahlýju, hvort heldur gesturinn var þýskur fræðaþulur, íslenskt skáld, enskur náttúrufræðingur eða göngumóður fjárleitarmaður úr Grindavík.
Krýsuvíkurkirkja brann á nýársnótt 2910. Legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.
Einn skugga bar á líf þessara hjóna í Krýsuvík. Þar misstu þau ungan dreng, einkar efnilegan, og var hann þeim harmdauði alla tíð. Hann var jarðsettur hjá leiði Árna sýslumanns við austurgafl á kirkjuhrófi því, sem enn stendur þar uppi. Og jeg held jeg megi segja, að þegar frú Ingibjörg flutti alfarin frá Krýsuvík, þá hafi hugur hennar orðið eftir hjá þessari þúfu. Hún kvartaði aldrei yfir missi þessa drengs, hún kvartaði aldrei yfir neinu.
Það var jafnan hljótt um þessa konu. Hún kunni kyrrðinni best, því þar var hvorki hugað nje spurt til launa. Heimilið, stundum mannmargt og ávallt gestkvæmt, var fyrst og fremst hennar starfssvið. Að því vann hún vakin og sofin meðan kraftar entust hvern dag allan ársins hring, með stöðugri umhyggju með öllum og öllu, sem lifði og lífsanda dró. Jeg skildi það aldrei til fulls hvernig henni vannst tími til allra sinna starfa og að rækja þau jafnvel og raun varð á, ekki síst uppeldi barna sinna.
Jeg skal hreinskilningslega játa, að það er sannfæring mín, að Ingibjörg Sigurðardóttir hafi skipað sess með hinum bestu konum þessa lands, bæði fyr og síðar, þeim sem hafa hlúð að nýgræðingnum í þessu landi, líknað og lýst í kringum sig á alla vegu og byggt upp þessa þjóð í meir en þúsund ár. – Í því ljósi hverfur þessi kona, ástsæl og jafnan mikils metin af öllum sem henni kynntust, vanmetin af engum nema þá helst af sjálfri sjer.” – Kjartan Sveinsson.
Í Vísi 1962 er eftirfarandi lýsing Sv. Þ.; Undir Krýsuvíkurbergi:
Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).
“Góður vinur minn, stangaveiðimaður oo náttúruskoðari mikill bauð mér í ágústmánuði. Í sumar er leið í stutta skemmtiferð suður á Krýsuvíkurbjarg. Ég þykist vita, að þú hafir aldrei komið fram á bergið, en þar er margt merkilegt að sjá, sagði hann. Eg myndi vilja opna Krýsuvíkurbjarg, sem ferðamannaatraksjón, bætti hann við. Það er rétt að blaðamenn veki á þessu athygli, ef þeir telja þetta mál til sín taka, athuguðu allar hliðar þess vandlega.
Ég kem á bílnum á eftir og við skulum skjótast, því nú er veðrið svo gott. Og að lítilli stundu liðinni voru við lagðir af stað. Það bar margt á góma í þessari ferð suður á bjargið. Vinur minn, kom með marga athyglisverðar ábendingar um þetta mál og hann nam stöku sinni staðar við sögu sögusviðsins, á langri göngu okkar þennan sólfagra dag.
Um daginn fór ég að rifja þetta ferðalag upp aftur. Það er eftirtektarvert, að þúsundir manna skuli á hverju sumri aka eftir Krýsuvíkurveginum, án þess að vita það, að hálftímagang frá þessum vegi er eitt af mestu náttúruundrum landsins.
Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.
Fyrir neðan Eldborg, austan við Krýsuvík er fjárrétt, en þaðan liggur vegslóði í suðaustur, í átt til strandarinnar nokkuð niður eftir. — Frá þjóðveginum og niður á Krýsuvíkurbjarg er aðeins hálftíma hægur gangur.
Þarna koma menn að austurenda bergsins, þar sem komast má niður að sjó og sjá bergið opnast. Um varptímann er þarna ótrúlegt ævintýraland, hundruð þúsunda af lunda, álku og langvíu verpa þarna á sillum og skútum í berginu. Fuglinn er spakur á þessum slóðum, svo víða má komast næstum því að efstu hreiðrunum, enda má heita að bjargið hafi verið í friðun allt að því hálfa öld. Bjargið er hátt og tilbreytingamikið. Höfðar og snasir skaga fram, en milli þeirra beygja hamravíkur sig inn.
Skafur neðan Krýsuvíkurbjargs.
Beint niður af hinni fornu Krýsuvík er lítil eyja framan við bergið, er nefnist Fuglasteinn, og það er næsta ótrúlegt hvílík mergð fugla getur þar rúmast. — Um fjöru koma flasir og klappir sumstaðar upp. Þar má sjá skarfa í stórhópum baða vængum, til að þurrka þá.
Frá hinni fornu Krýsuvík, þar sem kirkjuhrófið stendur eitt eftir, má líka ganga niður í bjarg, og liggur skemmsta leiðin milli tveggja hóla, sem sjá má niðri á sléttunni, sú ferð er klukkustundargangur.
Við vesturenda bjargsins eru Selatangar, forn veiðistöð, en þangað er stundargangur frá austustu byggð í Grindavík. Verstöðin í Selatöngum lagðist niður af mögnuðum draugagangi. — Fróðir menn telja að þar hafi verið sjódraugar á ferð.
Ferðafélag Íslands þarf þegar á næsta vori að hefjast handa og hlutast til um að nefndur vegslóði, frá Eldborg og niður að bjargi, verði gerður greiðfærari og skilti sett við veginn til þess að vísa ókunnugum á rétta leið.
Svo mátti heita, að Krýsuvík væri í eyði um langan tíma. Síðasti bóndinn bjó þar rausnarbúi frá 1907—1914. En jörðin var fólksfrek til fullrar nýtingar. Sérstakur bjargmaður var sóttur austur í Mýrdal á hverju vori. Gerði hann ekkert annað en stunda bjargið, safna eggjum framan af sumri, en síðan veiða fugl. Vann hann þar einn á daginn, en var á kvöldin sóttur niður á bjarg, eggjakassar og fuglakippur dregnar upp á vaði og reiddar heim. — Á hverjum stað er síga varð í bjargið, hringaði sigmaðurinn enda vaðsins á bjargbrúnina og kastaði nokkrum steinvölum yfir, rakti síðan vaðinn fram af brúninni og las sig niður. Þessar steinahrúgur liggja þarna enn og eru þær ótrúlega léttar. —
Sigið í Krýsuvíkurbjarg 1983.
Eggjatekjan fór allt upp í tíu þúsund á vori. Voru þau þvegin og aðgætt og reidd á klökkum til Hafnarfjarðar og seld á 10 aura stykkið. Eri leiðin frá Krýsuvík, eftir Ketilsstíg sunnan við hverina, yfir Sveifluháls til Hafnarfjarðar, var þá um það bil 8 tíma lestargangur.
Mikill straumur erlendra ferðamanna lagði á þessum árum leið sína til Krýsuvíkur og niður á bjarg, og ekki dró það úr, að Krýsuvíkurheimilið var annálað fyrir gestrisni og höfðingsskap.” – Sv. Þ.
Í Morgunblaðinu 1982 er lýsing Tómasar Einarssonar “Á ferð um Krýsuvíkurbjarg“:
Krýsuvíkursel í Litla-Hrauni ofan Krýsuvíkurbjargs.
“Mörgum þykir gaman að ganga með sjó til að fylgjast með hreyfingum úthafsöldunnar. Heyra öldugjálfrið við fjörusteininn eða hlusta á brimniðinn og sjá öldufaldana þeytast hátt í loft upp eftir fangabrögðin við hina brimsorfnu kletta. Við slíkar sýnir er unnt að dvelja löngum stundum. Þeim fylgir einhver seiðandi kraftur sem iætur fáa ósnortna, sem hafinu kynnast á annað borð.
Í nágrenni höfuðborgarinnar er víða unnt að kynnast hafinu á þennan hátt en samt er óhætt að fullyrða að sá staður er vandfundinn þar sem leikur þess er stórkostlegri en undir Krýsuvíkurbjargi. Í þessum pistli leggjum við leið okkar á þær slóðir.
Jónsbúð á krýsuvíkurheiði. Geitahlíð fjær.
Fyrir sunnan byggðina í Krýsuvík er landið flatt og greiðfært yfirferðar. Það nefnist Krýsuvíkurheiði og liggur hún milli Ögmundarhrauns að vestan og Krýsuvíkurhrauns að austan. Syðsti hluti heiðarinnar nær fram að sjó. Þar endar hún í þverhníptu bjargi sem víða er allt að 40 m hátt.
Athvarf í Krýsuvíkurheiði.
Við yfirgefum bílinn hjá gamalli fjárrétt, sem er neðan við veginn gegnt Geitahlíð og tökum stefnuna niður á bjarg. Réttarsvæðið er athyglisvert, því frá Stóru-Eldborg, sem er þar fyrir ofan, liggur eldtröð niður fyrir veg. Í enda traðarinnar hefur þessi rétt verið gerð og mynda traðarbarmarnir réttarveggina að nokkru leyti. Við höfum Krýsuvíkurhraunið á vinstri hönd. Þí.ð hefur komið frá eldvörpunum sunnan undir Geitahlíð, bæði Stóru- og Litlu-Eldborg og mun vera nokkur þúsund ára gamalt. Það hefur runnið í sjó fram við Keflavík og þar fyrir austan og myndað landauka í seinni tíð.
Krýsuvíkurbjarg – loftmynd.
Þegar komið er fram á bjargbrún tökum við stefnuna til hægri og höldum vestur eftir. Brún bjargsins er grasi gróin og mjög greiðfær yfirferðar. Ætti gangan því að sækjast greitt, en hætt er við að hún verði nokkuð tafsöm, því það er svo ótal margt sem vekur forvitni og krefst nánari skoðunar. Fyrri hluta sumars er bjargið kvikt af fugli og bera syllurnar þess glögg merki. Þar er svartfuglinn mest áberandi og svo ritan. Þá er þröng á þingi og þegar garg þessara bjargbúa blandast við sjávarniðinn hljómar svo sannarlega stef úr „Íslandslagi”. En lögun og gerð bjargsins er ekki síður athyglisverð því þar liggur hvert grágrýtislagið ofan á öðru og gefa þau glöggt til kynna gerð þess og myndun. En það hefur gerst fyrir mörg þúsund árum.
Eystri-lækur.
Margir halda að vatn sé ekki að finna á bjarginu, en það er rangt, því brátt verður Eystri-lækur á leið okkar. Hann á upptök sín í Bleiksmýri austan undir Arnarfelli og fellur fram af bjargbrúninni beint ofan í sjó í fallegum, lóðréttum fossi. Er sá foss sannarlega augnayndi.
Við vitann á Krýsuvíkurbjargi.
Nokkru vestan við lækinn komum við að litlum vita er stendur frammi við bjargbrún. Þar er tilvalið að setjast niður um stund og fá sér bita af nestinu, því drjúgur spölur er enn eftir af göngunni.
En svo breytir bjargið um svip. Hin lagskiptu berglög hverfa um stund en slétt berg með rauðum gjalllögum á milli tekur við. Þetta er suðurhluti Skriðunnar, en svo nefnist smáhæð sem gengur fram að sjó nokkru fyrir vestan vitann.
Skriðan er forn eldstöð, sem hafaldan hefur sorfið og fægt þeim megin er að sjónum snýr. Og þar á einum stað er unnt að ganga alla leið niður í fjöru. Er þá farið skáhallt eftir syllum utan í bjarginu. Nefnist þessi gata Ræningjastígur. Segir þjóðsagan að forðum daga hafi Tyrkir komið þar að landi og gengið upp á brún eftir þessum stíg. Síðan sóttu þeir heim að Krýsuvíkurbæ og hugðust vinna þar á fólki og ræna. En svo vel vildi til, að galdraklerkurinn kunni, séra Eiríkur í Vogsósum var þar staddur. Er hann sá þennan voða nálgast beitti hann kunnáttu sinni með þeim afleiðingum, að Tyrkirnir réðust hver á annan og drápust þeir þar allir. Nú liggur kaðall niður stíginn þeim til styrktar er hyggja á fjöruferð.
Krýsuvíkurbjarg – horft frá Skriðunni til vesturs.
Vestan við Skriðuna er Hælsvík og þar fyrir ofan er Selalda og Strákar. Selalda er eldstöð eins og Skriðan, en Strákar eru veðraðir bergdrangar sérkennilegir að gerð. Á sléttum bala vestan undir Strákum eru rústir af eyðibýlinu Fitjum. Standa veggir þess furðu vel og er fróðlegt að virða þar fyrir sér húsaskipan á kotbýli fyrri tíma.
Krýsuvíkurvegurinn 1961.
Við Fitjar lýkur þessari leiðarlýsingu. Að vísu er bjargið vestan Hælsvíkur skoðunarvert og ekki myndi það spilla að skreppa að Húshólmanum í Ögmundarhrauni og virða fyrir sér rústirnar af býlinu sem þar var einu sinni en mun hafa eyðst þegar Ögmunarhraun brann. En fyrir ókunnuga er það nokkrum erfiðleikum háð að finna rústirnar og svo lengir krókurinn þangað gönguna allmikið. Því er best að snúa við hjá Fitjum og ganga frá Strákum beinustu leið yfir Krýsuvíkurheiðina að bílnum er bíður hjá gömlu réttinni neðan undir Stóru-Eldborg.
Þangað verður svo komið aftur eftir 5—6 klst. rólega gönguferð.” – Tómas Einarsson.
Krýsuvíkurberg (Hælsvík/Heiðnaberg).
Reyndar vantar talsvert upp á að Krýsuvíkurbjargi (-bergi) sé gerð tæmandi skil í framangreindum lýsingum. Mögulega stafar það af ókunnugleik hlutaðeigandi eða takmörkuðu ritplássi. Vestan við Eystri-Bergsenda, austasta hluta Krýsuvíkurbjargs, er t.d. Litla-Hraun. Í því er að finna minjar sels frá Krýsuvík, réttar, fjárhúss og athvarfs þar sem stundaðar hafa verið bæði refa- og fuglaveiðar. Ofar í heiðinni er Jónsbúð, fjárhús frá bænum.
Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri – Uppdráttur ÓSÁ.
Ofan Skriðu eru minjar Eyris, bæjar frá 17. öld, og hið gamla Krýsuvíkursel er segir frá í þjóðsögum af Tyrkjum er komu upp frá Heiðnabergi (Hælsvík) – svo fátt eitt annað sé nefnt.
Heimildir:
-Morgunblaðið, 80. tbl. 11.04.1951, Ingibjörg Sigurðardóttir – minningarorð, Kjartan Sveinsson, bls. 2 og 7.
-Vísir, 18. tbl. 21.01.1962, Undir Krýsuvíkurbergi, Sv. Þ., bls. 9 og 10.
-Morgunblaðið, 182. tbl. 21.08.1982, Á ferð um Krýsuvíkurbjarg, Tómas Einarsson, bls. 31.
Krýsuvíkurbjarg – horft frá Bergsenda vestari til austurs. Reynir Sveinsson skreytir forgrunninn.