Arnarfell

Kvikmyndataka “Flags of our fathers” hófst við Arnarfell föstudaginn 25. ágúst (2005). Þá var búið að svíða gróður í norðausturlíð fellsins með samþykki Hafnarfjarðarbæjar og Landgræðslu ríkisins.

Stóra-Eldborg

FERLIRsfélgar – Stóra-Eldborg að baki.

Ætlunin var m.a. að ganga um svæðið, en auk þess að skoða vörðurnar við Ræningjastíginn, Arnarfellsréttina, Trygghólana, Bleiksmýrartjörnina, Vegghamra, Stórahver, Lambafellin og vestanvert Kleifarvatn að Syðristapa.
Þegar leggja átti af stað við Vestari-Læk sunnan við Ræningjahól kom að maður á bíl, sem kvaðst vera að vakta svæðið vegna kvikmyndatökunnar. Engum væri heimilt að fara um svæðið meðan á tökum stæði. Maðurinn virtist meina það sem hann sagði.
FERLIR kynnti sig til sögunnar. Vörðurinn varð skrítinn í framan og sagði: “Þið megið alls ekki ganga um svæðið”.
“En við munum ganga um svæðið. Hvað ætlar þú að gera í því?”, var svarið.
“Ha, ekkert, held ég,” svaraði vörðurinn. Honum leyst greinilega ekkert á að hindra göngu hópsins.” Hann tók upp síma og hringdi. Félagi hans birtist von bráðar. Saman stóðu þeir og horfðu á eftir hópnum liðast suður heiðina.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Staðnæmst var við vörðu suðaustan við Bæjarfell. Önnur varða var skammt sunnar. Enn önnur varða var allnokkru sunnar. Milli þeirra er Arnarfellsréttin, heilleg að mestu. Réttin var aðalskilaréttin á svæðinu fyrir 1950. Fram að þeim tíma réttuðu t.d. Grindvíkingar þar, en eftirleiðis í Þórkötlustaðarétt. Síðan færðist skilaréttin yfir í Eldborgarrétt skammt austar.
Gengið var niður að Trygghólum og þar vent til austurs og síðan til norðurs. Upp í gegnum heiðina ganga a.m.k. tveir grónir dalir, að hluta. Annar er þó betur gróinn. Hann kemur að sunnanverðri Bleiksmýrartjörn (Arnarfellsvatni). Þarna var fyrrum áningarstaður skreiðarlestarmanna á leið að og úr verum. Enn markar fyrir götum í námunda við vatnið. Þá markar fyrir tóftum vestan við vatnið.

Arnarfell

Varða við þjóðleið skammt frá Arnarfelli.

Þá var gengið til norðurs um austurenda Arnarfells. Þar var greinilega mikið í gangi. Dátar með alvæpni stóðu í litlum hópum, tökulið, aðstoðarlið, þjónustulið og liðamótalið gekk fram og til baka um svæðið. Smíðuð höfðu verið byrgi í fjallið og kaðall stengdur á brúnum. Suðausturhlíð fjallsins hafði verið klaufalega sviðin með gaslampa. Fyrir göngufólkinu virtist fólkið þarna vera sem lítil börn í tilbúnum ímyndunarleik. En mikið virtist til haft og mörgu til tjaldað. Skammt norðar, við þjóðvegsbrúnina, voru ótal hjólhýsi, tjöld og annar búnaður; þ.e. mikið umleikis fyrir lítið og margt af því ómerkilegt í annars merkilegu umhverfinu.
Enginn virtist gefa göngufólkinu gaum, þrátt fyrir yfirlýsta gæslu. Bæði innendir og erlendir urðu á vegi hópsins. (Myndir bíða birtingar). Nýjum bugðóttum vegslóða var fylgt til norðurs, haldið yfir þjóðveginn og áfram áleiðis upp í Vegghamra.
Fallegur rauðamölsgúlpur er ofan vegarins. Rauðamölshólar eru vstan við Vegghamrana. Þegar komið var yfir þá blasti við leikmynd. Þarna var tekin ein af fyrstu íslensku leiknu kvikmyndunum er gerðist á Tunglinu. Umhverfið er einstakt og vonandi verður það aldrei selt til eyðileggingar líkt og hluti Arnarfellsins.

Gullbringa

Gullbringa.

Ofar taka við sanddalir. Vestan þeirra eru Austurengar og Austurnegjahver, stundum nefndur Stórihver. Hann er einn stærsti vatnshver landsins. Stíg var fylgt frá honum áleiðis að Hverahlíð austan Lambafellanna. Frá Hverahlíð, þar sem fyrir er skáli Hraunbúa, var gengið vestur með sunnanverðu Kleifarvatni og síðan norður með því vestanverðu, yfir svonefnt Nýjaland. Áðru hefur verið sagt frá skrímsli við vatnið nálægt Lambatanga. Vestan hans má sjá tóftir Kaldrana, eins elsta bæjar í Krýsuvík. Þar eru nú friðlýstar tóftir.
Strönd vatnsins var fylgt yfir á Syðristapa, þar sem göngunni lauk.
Aðrennsli í vatnið á yfirborði er nokkrir smá lækir að sunnanverðu. Auk þess rennur úr hlíðunum í kring í rigningu og er snjó leysir á vorin. Kleifarvatn er afrennslislaust á yfirborði og gert hefur verið ráð fyrir að vatnsborðið falli saman við grunnvatnsflötinn í umhverfinu og sé háð sömu sveiflum og hann. Kleifarvatn hefur verið notað sem úrkomumælir á Suðvesturlandi.
Kleifarvatn er þekkt fyrir að vaxa og minnka til skiptis og er munur hæsta flóðfars og lægstu vatnshæðar um 4 metrar. Vatnsborðið sveiflast með úrkomu- og þurrkatímabilum en þó hafa orðið sneggri breytingar samhliða jarðskjálftum t.d. 1663 og 2000.

Gullbringa

Gullbringa.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja í sprungustefnu landsins NA-SV Við vatnsborðshæð 140 m y.s. er meðaldýpi þess 29,1 m, flatarmál Kleifarvatns 10 km2 og rúmmál þess er 290 Gl. Nú er vatnsborðshæðin 136,3 m y.s., flatarmálið er um 8 km2 og rúmmál þess hefur minnkað niður í um 255 Gl.
Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi,um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins 97m. Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn ágætlega í því.
Vatnsbotn Kleifarvatns hefur þéttst í áranna rás með leir og öðru seti. Lekt vatnsbotnsins var því minni en jarðlaganna í kring og því stóð vatnsborðið hærra en grunnvatnið. Þegar sprungur opnast í botni Kleifarvatns þá breytist lekt þ.e. viðnám jarðlaganna og vatnið hripar niður um sprungurnar. Smám saman nær Kleifarvatn á ný jafnvægi við grunnvatnið í kring. Hversu lengi og hversu mikið mun það halda áfram að lækka áður en jafnvægi næst á ný?
Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga. Það hefur ekkert frárennsli. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, sem fyrr sagði.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

Gullbringusýsla er fyrst nefnd í skjali frá árinu 1535 og náði hún yfir hluta hins forna Kjalarnesþings. Gullbringa er sýnd á herforingjaráðskortum sem hæðarbunga við suðaustanvert Kleifarvatn (308 m). Stefán Stefánsson sem kallaður var “gæd” (af “guide”) taldi það þó hæpið, þar sem kunnugir menn á þessum slóðum hefðu jafnan kallað lyngbrekku þá sem er vestan í Vatnshlíðinni Gullbringu og nær hún niður undir austurströnd vatnsins.
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi sagði að grasbrekkur frá Hlíðarhorni vestra og austur að Hvannahrauni væru nefndar Gullbringur (Örnefnaskrá í Örnefnastofnun).
Jón Ólafsson úr Grunnavík taldi að nafnið Gullbringa nærri Geitahlíð væri frá Dönum komið sem hafi talið það fallegt og viðeigandi þar sem staðurinn lá nærri sýslumörkum við Árnessýslu. (Kristian Kålund: Íslenzkir sögustaðir I:51).

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Álitið er að staðurinn hafi fyrrum verið blómlegri en síðar hefur orðið vegna uppblásturs.
Ekki virðast beinar heimildir um þinghald í eða við Gullbringu og er því margt á huldu um þessa nafngift. Gullbringur eru í Mosfellsheiði, en sýslunafnið getur ekki átt við þær þar sem þær eru ekki í sýslunni. Örnefnið Gullbringa eða -bringur er til víðar á landinu og virðist merkingin vera ‘gróðursælt land’.
Ævintýranleg ferð. Veður var frábært, lygna og sól. (4:04)

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.os.is/vatnam/kleifarvatn/kleifjfi/frame.htm

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.