Krýsuvík

Gengið var upp á Bæjarfell og skoðaðar einstakar jarðmyndanir, en í viðræðum við Jón Jónsson, jarðfræðing, á heimili hans fyrir skömmu sýndi hann hvar þær var að finna. Norðan undir Bæjarfelli, skammt vestan varnargarðs, má sjá tótt af húsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjárskjól í Bæjarfelli.

Komið var við í fjárhellinum sunnan í fellinu og gengið eftir garðinum að Arnarfelli. Skoðaður var Arnarfellsbærinn og haldið umhverfis fellið. Norðan þess var gengið fram á stekk, sem ekki var vitað um.
Þá var haldið til Grindavíkur og leitað að Dýrfinnuhelli. Hann fannst vestan Skipsstígs norðvestan Lágafells. Um er að ræða fallegan, stóran, rúmgóðan skúta, en lágan.

Skipsstígur

Skúti vegagerðarmanna við Skipsstíg.

Skammt frá er hellisskúti þar sem hlaðið hefur verið fyrir vestara opið. Greinilegt er að vegagerðarmenn hafa notað skútann eftir að Dýrfinna hafði flúið í hraunið undan Tyrkjunum á sínum tíma. Skipsstígurinn hefur einhverra hluta vegna verið uppgerður sem vagnfær á u.þ.b. 300 metra kafla, einmitt á þessum stað. Hann hefur verið breikkaður og hlaðinn upp eins og honum hafi þá verið eitthvert ákveðið framtíðarhlutverk í samgöngusögunni. Grindjánar geta aðspurðir ekki útskýrt þessar framkvæmdir. Líklegt má telja að vegaframkvæmdin hafi verið í tengslum við atvinnubótavinnuna skömmu eftir aldamótin 1900.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.

Þá hafi Grindvíkingar viljað sníða samgöngukerfið að hestvagninum eða jafnvel tilkomu sjálfrennireiðarinnar, en verið horfið frá því einhverra hluta vegna. Kannski vegna fjárframlags ríksins, sem kom til nýja (Gamla) vegarins árið 1913 og síðan var lagður frá Stapanum til Grindavíkur á árunum 1914 til 1918.

Haldið var inn í hraunið og svo merkilega vildi til að  þá fannst eftirfarandi, sem ekki var vitað að væri til á svæðinu; hátt upphlaðið skjól eða aðhald.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól gegnt Svartsengi.

Á öðrum stað hlaðið hús undir kletti og á fjórða staðnum hlaðnir skjólgarðar. Líklega tengist þetta hlöðnu húsunum, sem fundust fyrir skömmu, en þau eru á milli annarra mannvirkja, sem fundist hafa að undanförnu. Frá því fyrsta til þess síðasta, eru um 5-6 km. Ákveðið hefur verið að fara skoða svæðið kerfisbundið á næstunni þegar frost er í jörðu, en þá er auðveldast að ganga um mosahraunin. Leita þarf nánari fróðleiks um hugsanleg mannvirki á þessu svæði. (Um var að ræða upphafið að leitinni að vegavinnubyrgjunum við Gamla Grindavíkurveginn, sem lagður var á árunum 1914-1918).
Frábært útivistarveður, logn, sól og hlýindi.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.