Færslur

Hagavíkursel

Hagavík var jörð í Grafningi, hjáleiga frá Ölfusvatni 1706 en þó talið “Gamalt býli”, Skálhotlsjörð. getið í Harðarsögu: “Högni hét maðr [augugr] ok bjó í Hagavík, skammt frá Ölfusvatni”. Jarðarinnar er getið í máldaga Ölfuskirkju sem átti 12 hdr í Ölfusvatni og Hagavík um 1180.

Hagavík

Hagavík – örnefni.

Sunnan Hagavíkur er Bæjarfell. Vestan þess er Leirdalshnúkur. Gata lá upp frá bænum á milli fjallanna um svonefnt Leirdalsskarð. Suðvestan þess er Leirdalur. Dalurinn er gróinn og hefur verið girtur af á einhverjum tíma. Undir girðinguna umleikis hefur verið hrófað upp garði úr mold og gróðri.
Gatan liggur áfram niður að Lómatjörn. Norðaustan hennar eru góðar grasflatir og vestan þeirra, undir hraunbrún Hagavíkurhrauns, er stekkur. Ekki mótar fyrir öðrum mannvirkjum. Þarna hefur að öllum líkindum verið heimasel frá Hagavík um tíma, enda selsstígurinn einungis u.þ.b. 1 1/2 km.

Hagavík

Hagavíkursel – stekkur.

Aðstaðan í þessum ónefnda dal vestan Leirdals og austan Lómatjarnarhálsar er ákjósanleg selstaða; skjól fyrir austanáttinni, nægt beitarland og vatn. Þessarar aðstöðu er reyndar getið í örnefnaskrá, en ekki í fornleifaskráningum af svæðinu.

Guðmann Ólafsson, Skálabrekku í Þingvallasveit, skráði í nóvember 1983 örnefni í og við Hagavík. Hann er fæddur 13. nóvember 1909 og ólst upp í Hagavík frá unga aldri, en 1941 fluttist hann að Skálabrekku.

Hagavík

Hagavíkursel – stekkur.

Þar segir m.a.: “Vestan við bæinn er Bæjarhálsinn. Hann liggur frá norðaustri til suðvesturs, vestan Leirdalsskarðs. Utast á hálsinum er Leirdalshnjúkur. Suðvestur af bænum eru gamlar götur, sem liggja á ská upp hálsinn, kallaðar Snið. Um Sniðið var oft farið áður fyrr. Sunnan Lághrauns eru svonefnd Klungur og ná suður að Hagavíkurvöll síðar) og vestan frá Rauðhólsgjá og austur á móts við (sjá Lómatjarnarháls). Þessi hraun, sem ég hef nefnt hér, eru hluti af Hagavíkurhrauni. Það er mikið stærra og nær frá landamörkum Nesjavallalands austur að Þingvallavatni og Bæjarhálsi, og Hrauntöglin liggja til suðurs milli Bæjarháls og Lómatjarnarháls.

Hagavík

Leirdalur (túnið) sunnan Leirhnúksskarðs.

Vestan í Bæjarhálsinum eru tveir hvammar, Heimrihvammur og Syðrihvammur. Syðrihvammur er vestan undir Leirdalshnjúk. Um Heimrihvamm lágu gamlar ferða-mannagötur upp svonefnda Klyfberabrekku, eftir að hafa farið yfir Hrauntöglin ofarlega. Þessar götur lágu síðan yfir Bæjarháls til suðausturs niður á Hagavíkurflatir við svonefndan Kúadal, sem er lítill hvammur eða kriki vestan við Ferðamannagilið undir Skógarbrekkum. Þessi leið hefur sennilega lagzt niður á fyrstu árum tuttugustu aldar.

Hagavík

Bæjarfell norðan Leirdals.

Sunnan Leirdalsskarðs og Leirdalshnjúks er Leirdalur. Norðaustur af Leirdal gengur Leirdalskriki hátt upp í Sandfell og afmarkar Bæjarfellið frá Sandfelli að nokkru leyti ásamt Sandfellskrika, sem er suðaustan í fellinu, Ölfusvatnsmegin.
Vestan Leirdals eru Stekkjarflatir, sem liggja að Hrauntöglum; þar er gamall stekkur. Á móts við þær, vestan Hrauntagla, er kriki í Lómatjarnarhálsi, sem nefnist Leynir, og eiginlega nær Leynirinn langt norður með hálsinum; þarna leyndust oft kindur í smalamennskum.

Lómatjörn

Lómatjörn í ónefndum dal.

Suður af Hrauntöglum er Lómatjörn. Vestur af Leirdal gengur fram hrygg að Lómatjörn, sem er eins og bak á smádýri. Heitir hann Músarhryggur. Sunnan Músarhryggs og Lómatjarnar eru Krikar. Í Krikum er allstórt undirlendi og brattar skógi vaxnar brekkur í kring. Í Krikum eru fjögur gil. Syðst og vestast er Vestra-Krikagil, austar er Mælifellsgil, sem á upptök sín í Mælifelli; þar er Mælifellsflöt, undir fellsöxlinni. Lítið eitt austar er Löngugrófargil, sem kemur ofan úr Löngugróf. Hún er á milli Sandfells og Mælifells og nær alla leið suður í
Ölfusvatns-gljúfur. Eystra-Krikagilið er austan í Krikum; það á upptök Það ber oft með sér aur og grjót niður á undirlendið, í leysingum. Öll þessi gil eru þurr á sumrin.

Hagavík

Selstígurinn sunnan Leirhnúkaskarðs.

Suður af Krikum eru Hvíthlíðarbekkir. Lómatjarnarháls nær frá Hvíthlíðarbekkjum vestan Krika og alla leið norður að Klungrum. Vestan Lómatjarnarháls er víðáttumikið flatlendi, sem heitir Hagavíkurvellir.

Til er skrá um Örnefni í Ölfusvatns- Hagavíkur- og Krókslöndum, rituð eftir Sæmundi Gíslasyni, fyrrum bónda að Ölfusvatni, af Sveini Benediktssyni 23. júlí 1967. Þeir þá staddir að
Ölfusvatni. Sæmundur Gíslason er fæddur að Ölfusvatni 28. marz 1891 og ólst þar upp. Dvaldist hann þar til fardaga 1944, að hann réðst til Þorgeirs Magnússonar að Villi[n]gavatni
og var þar í tvö ár. Þá fluttist Sæmundur til Hafnarfjarðar. Í þessari lýsingu er hvorki getið um Leirdalinn, túnræktunina, stekkinn undir Hraunkrika í Hagavíkurhrauni, né Lómatjörn.

-Heimildir:
-Örnefnaskrá fyrir Hagavík – Guðmundur Ólafsson.
-Fornleifar í Grafningi – Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir.
– Örnefnaskrá Ölfusvatns, Hagavíkur og Króks. Sveinn Benediktsson skráði eftir Sæmundi Gíslasyni 1967.

Hagavík

Leirdalshnúkur. Leirdalshnúkaskarð t.h.

Reykjanesskagi

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.
En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri.

Clam

Clam á strandsstað.

Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.
Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.

Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.
Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Krýsuvík

Gengið var upp á Bæjarfell og skoðaðar einstakar jarðmyndanir, en í viðræðum við Jón Jónsson, jarðfræðing, á heimili hans fyrir skömmu sýndi hann hvar þær var að finna. Norðan undir Bæjarfelli, skammt vestan varnargarðs, má sjá tótt af húsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjárskjól í Bæjarfelli.

Komið var við í fjárhellinum sunnan í fellinu og gengið eftir garðinum að Arnarfelli. Skoðaður var Arnarfellsbærinn og haldið umhverfis fellið. Norðan þess var gengið fram á stekk, sem ekki var vitað um.
Þá var haldið til Grindavíkur og leitað að Dýrfinnuhelli. Hann fannst vestan Skipsstígs norðvestan Lágafells. Um er að ræða fallegan, stóran, rúmgóðan skúta, en lágan.

Skipsstígur

Skúti vegagerðarmanna við Skipsstíg.

Skammt frá er hellisskúti þar sem hlaðið hefur verið fyrir vestara opið. Greinilegt er að vegagerðarmenn hafa notað skútann eftir að Dýrfinna hafði flúið í hraunið undan Tyrkjunum á sínum tíma. Skipsstígurinn hefur einhverra hluta vegna verið uppgerður sem vagnfær á u.þ.b. 300 metra kafla, einmitt á þessum stað. Hann hefur verið breikkaður og hlaðinn upp eins og honum hafi þá verið eitthvert ákveðið framtíðarhlutverk í samgöngusögunni. Grindjánar geta aðspurðir ekki útskýrt þessar framkvæmdir. Líklegt má telja að vegaframkvæmdin hafi verið í tengslum við atvinnubótavinnuna skömmu eftir aldamótin 1900.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.

Þá hafi Grindvíkingar viljað sníða samgöngukerfið að hestvagninum eða jafnvel tilkomu sjálfrennireiðarinnar, en verið horfið frá því einhverra hluta vegna. Kannski vegna fjárframlags ríksins, sem kom til nýja (Gamla) vegarins árið 1913 og síðan var lagður frá Stapanum til Grindavíkur á árunum 1914 til 1918.

Haldið var inn í hraunið og svo merkilega vildi til að  þá fannst eftirfarandi, sem ekki var vitað að væri til á svæðinu; hátt upphlaðið skjól eða aðhald.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól gegnt Svartsengi.

Á öðrum stað hlaðið hús undir kletti og á fjórða staðnum hlaðnir skjólgarðar. Líklega tengist þetta hlöðnu húsunum, sem fundust fyrir skömmu, en þau eru á milli annarra mannvirkja, sem fundist hafa að undanförnu. Frá því fyrsta til þess síðasta, eru um 5-6 km. Ákveðið hefur verið að fara skoða svæðið kerfisbundið á næstunni þegar frost er í jörðu, en þá er auðveldast að ganga um mosahraunin. Leita þarf nánari fróðleiks um hugsanleg mannvirki á þessu svæði. (Um var að ræða upphafið að leitinni að vegavinnubyrgjunum við Gamla Grindavíkurveginn, sem lagður var á árunum 1914-1918).
Frábært útivistarveður, logn, sól og hlýindi.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Reykjanesviti

Gengið var frá vitanum á Vatnsfelli á Reykjanesi, með ströndinni og yfir að Litlavita á Skarfasetri, austar á bjarginu, nokkru austan Valahnúks. Vitinn á Vatnsfelli, sem margir telja að heiti Bæjarfell, var tekinn í notkun árið 1908. Nafnið á fellinu er tilkomið vegna lítilla tjarna norðan við hæðina. Vitavarðahúsið stóð hins vegar upp af Bæjarfelli, utan í Vatnsfellinu, þar sem það stendur enn.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – gata að gamla Reykjanesvita á Valahnúk.

Genginn var gamall flóraður stígur, sem er nokkuð greinilegur og liggur frá Bæjarfelli að Valahnúk. Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans. Gamli vitinn á Valahnúk var fyrsti ljósvitinn á Íslandi og reistur árið 1878. Hann var ekki mjög lengi í notkun því árið 1887 urðu miklir jarðskjálftar á þessu svæði og hrundi þá mikið úr fjallinu og óttaðist fólk að vitinn hyrfi í hafið. Því var hætt að nota hann og vitinn á Vatnsfelli byggður.

Uppi á Valahnúk má enn sjá hleðslu úr grunninum af gamla vitanum (undir fjallinu liggja brotin úr gamla vitanum og bíða þess að verða raðað upp á ný). Fara þarf varlega þegar upp er komið, því brúnirnar eru mjög sprungnar og lausar undir fæti. Þaðan er víðsýnt til allra átta.
Í fjarska trjónir Eldey, 77 metra hár þverhníptur klettastapi. Þar er ein stærsta súlubyggð sem þekkist í heiminum (talning 1949) og þar er talið að geirfuglar hafi verpt fyrrum. Eldey var friðlýst árið 1974. Nú er hún sennilega önnur eða þriðja stærsta súlubyggð í heimi.
Karlinn, virðulegur klettadrangur, stendur rétt utan við ströndina, hann er hluti af gömlum gígbarmi, líkt og Eldey, en Kerlingin, sem var þarna skammt vestar, er nú komin undir sjó. Bæði Karlinn og Kerlingin eru leifar gíga úr sitt hvorri Stampagosgígaröðinni, en þær eru fjórar talsins frá mismunandi tímum. Raðirnar eru dæmigerðar fyrir gígaraðirnar á Reykjaneshryggnum (blunda í 1000 ár en eru jafnan virkar í Önnur 300).
Þegar gengið er niður af Valahnúk er gengið með ströndinni til suðurs meðfram Valahnúkamöl sem er mjög sérstakur sjávarkambur með stóru sæbörðu grjóti. Árið 1950 strandaði breska olíuskipið Clam við Reykjanes og rak upp í Valahnúkamöl, þá drukknuðu 27 menn en 23 var bjargað með fluglínu.

Draugshellir

Draugshellir í Valahnúk.

Uppi á austanverðum Valahnúk er Draugsskúti, en tvennar frásagnir eru til af draugagangi þar er menn ætluðu að gista í honum. Kvað svo rammt af draugagangnum að lá við sturlun þeim er hlut áttu að máli. Um þetta eru skráðar sagnir í Rauðskinnu.
Nafnið má ætla að sé dregið af valabjörgum, en það var áður haft um Valahnúka. Valahnúkamöl lokar dalnum að vestan en Valabjargargjá að austan. Stórgrýttur sjávarkamburinn hindrar að úthafsaldan nái inn í dalinn, en sjór egngur þó langt á land eftri sprungum í hraununum. Þar kemur hann inn á jarðhitasvæði og hitnar. Það gerði möguleika laugarinnar, sem síðar verður minnst á, að veruleika.
Frá Valahnúkamöl er gengið með ströndinni til suðurs, á þeirri leið er gaman að virða fyrir sér þær hraunmyndanir sem ber fyrir augu og gera sér í hugarlund hvers konar ógnaröfl hafa verið þar að verki. Gengið er fram hjá fjölbreyttum básum þar sem brimið ólgar og svellur, sérstaklega er það tilkomumikið í þröngum bás, Blásíðubás, rétt áður en komið er að vitanum. Inn í hann eru nokkur dæmi um að sjófarendur hafi ratað lífsróður í sjávarháska.
Stefnan er tekin á litla vitann á Skarfasetri, hann var byggður sem aukaviti árið 1909 og endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Ástæðan fyrir byggingu hans var að nýji vitinn á Bæjarfelli hvarf á bak við Skálafell þegar siglt var frá suðaustri. Hann kom því ekki að notum fyrir skip sem komu að austan. Einnig liggur oft þoka yfir Bæjarfelli þannig að Reykjanesviti sést ekki. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

ReykjanesvitiUndir berginu skammt austan við vitann er fallegur gatklettur.
Þegar gengið er til baka er gott að ganga upp með Skálafelli og líta ofan í Skálabarnshelli eða bara ganga sömu leið til baka.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaug.

Þegar komið er að Valahnúkamöl er gott að taka stefnuna yfir túnið að Bæjarfelli. Á þeirri leið má finna litla tjörn/gjá, sem er að mestu náttúrusmíð, og er örlítið hlýrri en sjórinn. Sést móta fyrir hleðslum bæði við gjána og einnig ofan í henni líkt og hlaðnir hafi verið veggir og tröppur niður í hana. Í þessari tjörn fengu börn úr Grindavík tilsögn í sundi um og eftir 1930. Þaðan er stutt upp á veg og þar með hringnum lokað.
Undir Bæjarfelli eru tóftir útihúsa frá bæ gamla vitavarðarins sem og hlaðinn brunnur, er gerður var á sama tíma og vitinn á Valahnúk 1878. Umhverfis eru hlaðnir garðar frá búskap vitavarða, en vestan við Valahnúk má enn sjá hlaðinn veg upp úr fjörunni, en eftir honum var grjóti í elsta vitann og íbúðarhúsið ekið úr hraunhellunni, sem þar er.
Meira um nágrenni Reykjanesvita HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.

Reykjanes

Reykjanesviti – hliðarstólpar.

 

Móbergskúla

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallar um “Sérkennilegar móbergskúlur” í Náttúrufræðingnum árið 1987:

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

“Meðan ég var að vinna að jarðfræðikorti yfir Reykjanesskaga, það mun hafa verið 1963, veitti ég athygli sérkennilegum kúlum í móbergi í Bæjarfelli í Krýsuvík, og er þeim lýst í ritinu Jarðfræðikorti af Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978) svo sem hér segir: „Við lítið ból norðan í háfellinu koma fyrir harla sérkennilegir kúlur í móberginu. Þær eru úr móbergsglerkornum og hvað það snertir eins og túffið í kringum þær, en hafa veðrast út sem reglulegir boltar oft um 15—25 sm í þvermál. Sumar eru nú holar innan og virðist það vera vegna veðrunar. Það er því skelin um þessar kúlur, sem stenst veðrunina betur en bæði túffið í kring og eins inni í kúlunni sjálfri. Myndun sem þessa hef ég séð á einum stað öðrum, en það er í Syðri-Stapa við Kleifarvatn.”
Frá því að þetta var skrifað hef ég fundið samskonar myndanir á tveim öðrum stöðum og eru báðir í Mýrdal. Besta dæmið, sem ég nú þekki um svona myndanir er að finna í hömrunum austan við Skiphelli í Mýrdal örskammt frá þjóðvegi 1. Þar gefur að líta þverskurð af fornri eldstöð. í greinakorni um jarðfræðiathuganir í Mýrdalsfjöllum er þessa getið með þessum orðum: (Jón Jónsson 1985):

Móbergskúla

Móbergskúla.

„Mjög sérkennilegar móbergskúlur koma á kafla fyrir í þessari gosmyndum. Þær eru eingöngu úr móbergsglerkornum og í ýmsum stærðum, frá því að vera 2—3 sm í þvermál og allt upp í 40-50 sm. Kúlurnar eru ýmist á strjálingi inni í svartri ösku og vikri eða í svo þéttum hópum að þær ná því að vera 60-80% af berginu.
Flestar eru þær á stærð við tennisbolta en aðrar á stærð við fótbolta eða enn stærri. Einkum koma þær fyrir í þykku lagi úr svörtum vikri og gjalli og þá ásamt venjulegum hraunkúlum (bombum) sumum stórum.”
Nokkrar svona kúlur hef ég fundið í þeirri sérstæðu myndun, sem nefnist Lambaskörð og er í Kerlingardalsheiði. Gamli akvegurinn liggur um þetta svæði niður að brúnni, sem eitt sinn var á Múlakvísl í sundinu milli Selfjalls og Léreftshöfuðs.
Ekki skal hér um þá myndun fjallað, en þess aðeins getið að þar koma svona móbergkúlur líka fyrir. Í dagbók minni frá þeim athugunum er eftirfarandi að lesa: „Ofan til í þessu túffi eru móbergskúlur eins og þær, sem ég hef áður séð í Bæjarfelli og Syðri Höfða í Krýsuvík, en einnig við Skiphelli. Þær eru hér mjög mismunandi stórar, þær stærstu um 30-40 sm í þvermál aðrar á stærð við fótbolta og minni. Ekki mynda þær reglulegt lag en koma fyrir á víð og dreif í berginu.”
Ekki er auðráðið í hvað var þess valdandi að þessar kúlur urðu til. Þær eru einfaldlega öskuboltar, sem orðið hafa til við það að blautt eða hæfilega rakt öskulag rúllaðist upp. Svo laust er það allt í sér að það hlýtur að hafa farið rólega fram, en hvað kom því af stað?

Móbergskúlur

Móbergskúlur.

Nýlega gerðar smásjárathuganir á þessum kúlum hafa ekki gefið mikið nýtt. Þær sýna ofur venjulegt móberg. Inni í glerkornunum eru feldspat- og pýroxen kristallar ásamt einstaka ólívíni. Eini sýnilegi munurinn á þessu efni er sá að í einstaka tilfellum er megin hluti kúlunnar úr tiltölulega grófum glerkornum, en yst er lag úr mjög fínu efni, sem einnig samanstendur af smáum glerögnum og einstaka kristöllum. í þessu fína efni er myndbreyting (palagonitisering) verulega meira áberandi en í því grófa. Kornin liggja í ákveðna stefnu og mynda þannig húð utan um grófara efnið. Þannig líkist þetta því fyrirbæri sem sjá má í svo nefndum öskubaunum (písólítum) (Sbr. Tómas Tryggvason 1955). Sérstaklega upplýsandi hvað þetta varðar er ljósmyndin á bls. 105. Það skal tekið fram að aðeins í einu tilviki hef ég, svo óyggjandi sé, fundið svona tilhögun glerkornanna í þessum kúlum.”

Móbergskúlur

Móbergskúla á Sveifluhálsi.

Haraldur Sigurðsson fjallar um móbergskúlurnar á bloggsíðu sinni; vulkan.blog.is:

“Ef móbergskúlur myndast eftir gos, en ekki í gosinu, eins og Jón Jónsson taldi, þá verðum við að leita annara skýringa varðandi uppruna þeirra. Kúlur eru algengt fyrirbæri í setlögum um allan heim, og eru oftast nefndar concretions eða setkúlur, en þær eru algjörlega óþekktar í setlögum af gjóskubergi, eins og móberginu á Íslandi — þar til nú. Slíkar kúlur myndast í setlögum vegna þess að límefni byrjar að myndast á milli sandkorna á einhverjum púnkti í setinu og límefnið berst út í allar áttir, til að mynda setkúlu. Þetta virðist vera tilfellið í íslensku móbergskúlunum, en ennþá vitum við ekki hvað límefnið er.

Móbergskúlur

Móbergskúlur í Innri-Stapa í Krýsuvík.

Lang sennilegast er að það sé palagónít, sem er leirsteind eða míneral sem myndast þegar basalt gler byrjar að myndbreytast yfir í móberg, en sú myndbreyting veldur því að gjóska rennur saman í hart berg. Surtsey kenndi okkur að sú hörðnun getur gerst furðu hratt, eða á einum áratug eða svo.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.07.1987, Sérkennilegar móbergskúlur – Jón Jónsson, bls. 34-35.
-Haraldur Sigurðsson – https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/951989/

Móbergskúlur

Móbergskúlur (HS).