Færslur

Eldvörp

Skoðaður var svonefndur “Útilegumannahellir” vestan við borholuna í Eldvörpum ofan Grindavíkur. Í honum eru hleðslur. Ein kenningin er sú að í honum hafi Húsatóttarfólkið bakað brauðið sitt, en Brauðstígurinn, sem liggur upp í gegnum Sundvörðuhraun frá “Tyrkjabyrgjunum” kemur niður skammt frá opinu. Í þessum helli var talsverður jarðhiti áður en borholan kom til.

Eldvörp

Eldvörp – heðslur í helli.

Í stað þess að fara Brauðstíginn niður að “Tyrkjabyrgjunum”, var gengið suður fyrir byrgin, um tiltölulega slétt hraun, og komið að þeim úr suðvestri. Byrgin og hlaðin refagildra, sem er við byrgin, voru skoðuð. Þaðan var haldið niður eftir Brauðstígnum að girðingu, henni fylgt til vesturs út að hraunkantinum og strikið síðan tekið niður að Húsatóttum (-tóftum). Farið var yfir nokkrar gjár, s.s. Miðkrókagjá og Skothólsgjá, á leiðinni og komið að nyrsta og jafnframt heillegasta fiskbyrginu ofan Túngjár (Hjálmagjár) á Byrgjahólum.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Þaðan má sjá móta fyrir a.m.k. fjórum fiskbyrgjum öðrum sunnar á gjárbarminum. Enn sunnar eru nokkur byrgi til viðbótar, auk hlaðinna þurrkgarða. Þeir nefnast Háavíti og Lágavíti. Hjálmagjá nefndist svo því fólk taldi sig oft sjá gjáveggina upplýsta með fögrum ljósahjálmum, sem báru af lýsisstýrunum í mannheimum. Efsti hluti gjárinnar heitir Tóftagjá.
Á túninu neðan við Húsatóttir, sunnan við Stakabrunn, er hóll, sem nefndur er Pústi. Þar hitti Helgi Gamalíason hópinn og leiddi hann áfram vestur með ströndinni. Pústa sagði hann hafa fengið nafn af því að Húsatóttamenn hvíldu sig þar á leið sinni með byrðar frá vörinni. Helgi nefndi rústir gömlu bæjanna með kantinum landmeginn; Hamra, Sólvelli og Vindheima. Niður á skerjunum eru Þvottaklappir þar sem vatn streymir undan hrauninu á fjöru. Neðan Vindheima er Kóngsklöppin þar sem gamla konungsverslunin var í Grindavík. Enn má sjá tóttir hennar uppi á sjávarkambinum, en mikill hluti þeirra hefur þó sjórinn hirt.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, auk þess sem landið hefur sigið. Innan við Kóngsklöppina var Tóttarvörin og sést móta fyrir hleðslum þar sem hún var. Utan við klöppina er Ballestasker, en við það má sjá steina, sem notaðir voru í ballest hinna erlendu skipa.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði.

Gengið var að gömlu bryggjunni, sem var í Húsatóttalandi. Vestan við hana er varða, landamerki Húsatótta og Staðar. Vestan við bryggjuna eru minjar fiskverkunarhúsa og ofar tóttir og garðar frá Hvirfli. Vestan við Hvirfil eru Þvottaklappir Staðarbænda. Þar kemur og tært vatn undan klöppunum. Þar fyrir neðan er Staðabótin, en ofan hennar er Hvirflabrunnur, hlaðinn. Vestar er flóruð Staðarvörin og Skakkavör skammt vestar. Undan henni er Festarsker, en á því er annar kengurinn af tveimur, sem konungsskipin voru fest við. Skerið kemur einungis upp í stórstraumsfjöru.

Staðarvör

Staðarvör.

Staðarvörin er fallegt mannvirki, sem huga þarf vel að. Vestar á kambinum eru heillegar tóttir Stóra-Gerðis, brunnur og falleg heimreið. Skammt vestan við Stóra-Gerði er Litla-Gerði. Sjórinn er nú byrjaður að brjóta tóttir þess bæjar niður. Þá var strikið tekið yfir vörslugarð Staðar, eða það sem eftir er af honum, og gengið að Kvíadal, heillegum tóttum þess bæjar.
Frá Kvíadal var gengið yfir Hundadal og á hól í Staðatúni, en þar undir er talið að bærinn Krukka hafi verið, en sandurinn lagði hann í eyði á skömmu tíma fyrir alllöngu síðan og þakti hann síðan alveg. Þarna undir gætu verið mjög heillegar minjar.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Skammt norðar er Staðarbrunnurinn, nær ósnertur og fallegur brunnur frá árinu 1914.
Komið var við á hinu gamla bæjarstæði Staðar og litið inn í kirkjugarðinn. Þar í klukknaportinu er t.d. skipsklukkan úr Alnaby, sem strandaði þarna fyrir utan, á Kolasandi, árið 1902. Á klukkunni er ártalið 1898 og áletrunin ALNABY. Áður en kaffi var þegið í golfskálanum í boði bæjarstjóra, var litið á Húsatóttarbrunninn. Hann er beint fyrir neðan golfskálann.
Loks var gengið upp Árnastíg með viðkomu í gömlu tóttunum á Húsatóttum, litið á Sundvörðuna austast í hrauninu og stígurinn skoðaður þar sem hann er hvað mest markaður í klöppina norðan við Sundvörðuhraunið.
GígurÞegar komið var inn í Eldvörpin á ný voru skoðaðar hleðslur, sem Erling Einarsson benti hópnum á, í gróinni lægð skammt norðan við heitasta gíginn í Eldvörpum. Þær gætu verið merki þess að Hamarsbóndahellir sé þarna einhvers staðar skammt frá, en Helgi hafði bent á svæðið þarna á sínum tíma sem líklega staðsetningu. Verður skoðað betur síðar.
Gangan tók með hléum um fimm klukkustundir og fimm mínútur. Boðið var í byrjun upp á glænýtt súrefni, svalan grindvískan andvara og síðan áður óþekkt sólskin seinni hluta leiðarinnar. Hitinn var í kringum 10 C°.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Straumur

FERLIR kynnti fyrir nokkru og birti mynd af kirkjulíki með bogadyrum og tveimur turnum, sem byggt hafði verið upp úr gömlum fiskbyrgjum og síðar skjóli sunnan við Straum.

Kirkjan

Kirkjan.

Spurningin var hvort heimild hefði fengist til að nota efnið úr hinum gömlu byrgjum og þá hver hafi gefið þá heimild.
Kannski það væri nú orðin stefna einhvers staðar að nota þann gamla efnivið, sem enn er til í gömlum mannvirkjum og gera úr honum eitthvað alveg nýtt – enda hitt mannvirkið ónýtt. Bent var á að hlaðin mannvirki umhverfis Straum má svo til öll telja til fornminja. Og um þær gilda sérstök lög og sérstakar reglur.
Nú er búið að endurhlaða annað byrgið úr grjóti kirkjunnar og færa það sem eftir var skammt norðar þar sem nú er verið að endurbyggja hana úr “nýju” grjóti. Einhver virðist vera farin að taka hlutverk sitt alvarlegar en áður.
Straumsbærinn gamli stóð á lágum hraunhrygg nokkurn veginn þar sem Straumshúsið stendur nú. Umhverfis hann var einhlaðinn túngarður. Fiskbyrgi voru á hólnum austan vesturgarðs. Þau voru síðar notuð sem skotbyrgi þegar fjárhúsin voru í fjárhússkarðinu þarna neðan við. Skammt austar er Straumsréttin, hlaðin niður við Urtartjörnina/Brunntjörnina. Ef skortur er á grjóti á svæðinu gæti grjótið í henni verið kjörinn efniviður fyrir framtaksama við gerð stærri mannvirkja. Einnig hlaðin rétt/nátthagi í svonefndum Kúadal nokkru sunnar. Þá eru hinir löngu garðar, sem reyndar eru nú orðnir að mestu jarðlægir, kjörinn efniviður til enn stærri verka. En svo er líka hægt að hlaða bara ný mannvirki annars staðar en ofan á þeim gömlu – úr áður ónotuðu grjóti.

Byrgi

Byrgi við Straum.

Í einum staðarmiðlinum (localmedia) var nýlega sagt frá röskun fornminja suður af Straumsvík: “Undanfarið hefur borið á því að skemmdir hafa verið unnar á fornleifum í landi Hafnarfjarðar. Um er að ræða hlaðna garða, gamlar girðingar og ýmis merki um búsetu í bæjarrústum.
Á svæðinu sunnan við álver Alcan í Straumsvík hefur borið á því að skemmdir hafa verið unnar á fornminjum sem þessum. Hlaðnir garðar hafa verið rofnir til að greiða fyrir umferð ökutækja á svæði þar sem fyrirtæki rekur litboltagarð (Paintball). Einnig hefur fornminjum verið raskað við Listasmiðjuna Straum þar sem röskun varð við sköpun listaverks. Bjarki Jóhannesson er sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar og segir hann að óheimilt með öllu að raska gömlum hlöðnum görðum, vörðum og öðrum fornleifum í landi nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins, samkvæmt 9. og 10. grein þjóðminjalaga. Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, leiki vafi um aldur þeirra skal hafa samband við skipulags- og byggingarsvið Hafnarfjarðar eða Byggðasafn Hafnarfjarðar”. Fréttinni fylgir svo mynd af órsökuðum garði sunnan Óttarsstaða þar sem fyrrum lá leiðin heim að austari bænum skammt vestan Eyðikots.
Satt best að segja, og það með mildilegu orðalagi, er lítið sem ekkert markvisst opinbert eftirlit með fornminjum í umdæmi Hafnarfjarðar. Hið sama gildir um önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Þau fáu skipti, sem einhver æmtir eða bendir á eyðileggingu þeirra, þá er um að ræða rödd áhugafólks um minjar á svæðinu. Opinber stjórnsýsla, hvort sem um er að ræða á ríkis- eða sveitarstjórnarstigi, hefur hingað til haft dregið fyrir þann glugga aðstöðu sinnar er lýtur í átt að fornminjum.

Byrgi

Byrgi við Straum.

Það þarf ekki annað en mann, sæmilega búinn til fótanna, til að berja nýlegar skemmdir augum. Ekki er langt síðan FERLIR benti á (reyndar með aðstoð MBL) gröfu við mokstur nálægt hinum forna garði í neðstu Tóunni í Afstapahrauni. Skýringin, sem gröfustjórinn gaf, var sú að hann hefði ekki vitað af garðinum. Samt var hann kominn u.þ.b. 200 m út fyrir leyft röskunarsvæði. Annað dæmi er núverandi röskun á síðustu leifum Alfaraleiðarinnar um Hellnahraun vestan golfvallarins.
Flestir geta verið sammála um að handritin okkar séu verðmætir forngripir, jafnvel þótt fæstir geti lesið það sem í þeim stendur. Í rauninni má líkja þessu við það að einhver tæki sig til og krotaði í eitt handritanna. Eflaust yrði allt vitlaust. Minjarnar, jafnvel þær sem hlaðnar eru úr grjóti, eru einnig “handrit – hin áþreifanlegu tengsl okkar við fortíðina – og því verðmæti, engu síður en textarnir á skinnsíðum handritanna. Þeim þarf að forða frá tilviljanakenndri og handahófslegri eyðileggingu.
Á heimasíðu Fornleifastofnunar Íslands á Netinu er m.a. fjallað um fornleifar. Þar segir að “fornleifar séu efnislegar minjar genginna kynslóða. Sjálfar kynslóðirnar hverfa ein af annarri og hugsanir þeirra að mestu leyti með þeim. Fornleifarnar voru hluti af veruleika forfeðranna sem mikilvæg mannvirki, kennileiti eða staðir og þær skiptu þá miklu máli. Gátu þær meira að segja verið þeim lífsnauðsynlegar. Án þessara fornleifa væri sagan harla óáþreifanleg og jafnvel álitamál hvort við værum sjálfstæð þjóð yfirleitt. Er hægt að byggja land og halda uppi menningu án beinna tengsla við söguna?
Íslendingar eru stoltir af sögu sinni. Áþreifanlegar leifar þessarar sögu eru fornleifarnar. Þess vegna eigum við að gera þeim hátt undir höfði, varðveita þær og vernda.

Kirkjan

Unnið að kirkjubyggingunni.

Landslagið er mikilvægur hluti af veruleika manneskjunnar og einn þeirra þátta sem skapa hana. Skilgreiningin á því að vera Vestfirðingur er t. d. að hluta til fólgin í því landslagi sem einkennir Vestfirðina og Vestfirðingar kalla heimaslóðir. Í þessu landslagi eru fornleifarnar mikilvægur þáttur með sínum formum og sögnum og þær eru gjarnan úr sömu efnum og landið sjálft. Það er því mikilvægt að standa vörð um fornleifar landsins, vegna þess að þær útskýra að sumu leyti skilgreiningar okkar á sjálfum okkur.
Þéttbýlissvæði eru mörg hver að vaxa út um landið og sú þróun mun vonandi halda áfram í náinni framtíð. Margar fornleifar verða á veginum, sumar jafnvel alveg óþekktar í dag. Þó að svæði kunni að vera skráð einu sinni og jafnvel tvisvar, er það aldrei trygging fyrir því að ekkert meira kunni að leynast undir yfirborðinu. Því er mikilvægt að fara nákvæmlega yfir þau svæði sem raska á til að minnka hættuna á óvæntum uppákomum fornleifa eins og framast er unnt. Slíkar uppákomur eru yfirleitt dýrar og tímafrekar. Það getur verið þarft að minnast þess að oft finnast skemmtilegustu fornleifarnar við óvæntustu aðstæðurnar.
Saga okkar er að hluta til skráð í umhverfi okkar, umhverfi sem við höfum skapað smátt og smátt í aldanna rás. Sjálf skilgreinum við okkur sem einstaklinga í gegnum umhverfið og þjóðin sem slík skilgreinir sig út frá þessu umhverfi og það sem þar kann að leynast. Við berum öll ábyrgð á sögu okkar og menningu og þar eru fornleifarnar engin undantekning.

Straumur

Kirkjan við Straum á Jónsmessu.

Tyrkjabyrgi

Gengið var upp eftir Prestastíg frá Hjálmagjá ofan við Húsatóptir og upp að Rauðhól ofan við Eldvörp. Tilgangurinn var að reyna að staðsetja svonefndan “Hamrabóndahelli”, sem enn er ófundinn.

Prestastígur

Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.

Nefndur hellir er sagður verða sauðahellir, sem Þorsteinn, bóndi frá hjáleigunni Hamri, hlóð einhvers staðar uppi í hrauninu eftir að honum sinnaðist við hreppsstjórann á Húsatóptum. Þeim hafði samist um að Þorsteinn gætti fjár hreppsstjóra, en héldi sínu fé einnig til haga. Þegar hreppsstjóri sá að Þorsteinn beitti sínu fé í fjöruna gerði hann athugasemd við það. Þorsteinn, sem var stór upp á sig, rauk þá með sauði sína upp í efri hluta Húsatóptarlands, hlóð þar fyrir skúta og hélt sauði sína þar um veturinn. Sauðagangur Þorsteins hefur verið bæði reglulegur og takmarkaður. Nefndur Þorsteinn er sá hinn sami og hafði járnsmiðju í hellinum undir Hellunni í Sveifluhálsi, við Kleifarvatn.
Helgi Gamalílesson, fæddur á Stað, hafði farið um fermingu með föður sínum og bræðrum upp í Þórðarfell til að sækja þangað eftirsótta málma þess daga. Á leiðinni var stoppað, drengirnir hlupu til og leituðu skothylkja eftir Kanann, og sáu þá allt í einu í fallega hlaðið op fjárskjólsins. Síðan eru liðin mörg ár.

Prestastígur

Prestastígur – varða.

Helgi hefur fylgt FERLIR á hugsanlegt svæði, en minningin er orðin þokukennd. Helgi taldi að opið væri í litlu jarðfalli í sléttu hrauni er vísaði mót suðri. Það hafi verið nálægt hraunkanti.
Í örnefnaskrá fyrir Húsatóptir og hjáleigur þess segir m.a. að “vestur af Grýtugjá, upp undir jarðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá.
Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.” Það segir að “gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum í Hafnir. Frá túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar.”

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Nú var Prestastígnum fylgt frá Hjálmagjá upp að Rauðhól ofan við Eldvörp. Á leiðinni vakti þrennt sérstaka athygli; nef út úr tveimur vörðunum bentu til norðurs, frá stígnum, litlar vörður voru á nokkrum stöðum á hraunkanti Sundvörðuhrauns, en Prestastígur liggur til norðvesturs sunnan hans, og loks mátti sjá litlar vörður liggja frá Hamri upp hraunranann vestan Húsatópta, upp heiðina og áleiðis upp í norðnorðvestanvert Sundvörðuhraun.

Prestastígurinn sjálfur liggur um móa ofan við Húsatóptir og er vel varðaður svo til alla leiðina. Víða hafa vörður verið endurreistar, en einnig má sjá fallnar vörður milli þeirra.
Gatan er sumsstaðar grópuð í klöppina eftir hófa, klaufir og fætur liðinna alda. Þegar komið er upp fyrir Skothól og hlaðna brú á Hrafnagjá tekur Sauðabælið við. Norðan þess er gróin sprunga í hraunkantinum; tilvalið sauðabæli. Hins vegar var ekki að sjá neinar hleðslur þar við. Lægð liggur inn í hraunið í gróna kvos, en síðan tekur ekkert við.

Prestastígur

Prestastígur.

Ofar er einnig slétt mosahraun með mörgum smáskútum. Þegar komið var upp fyrir Eldvörp tók einnig við nokkuð slétt mosahraun með mörgum smáskútum. Víða voru smávörður á hraunhólum, en að því er virtist án tilgangs.
Þegar leiðin var fetuð til baka var reynt að rýna í hraunkantinn. Hann gaf ekki tilefni til lausnar spurningunni um “Hamrabóndahelli”.
Fjórar gjár eru milli Hjálmagjár og Hrafnagjár. Grýtugjá er næst þeirri síðarnefndu. Í einni gjánni munu vera mannvistarleifar.
Þegar komið var niður að tóftum Hamars mátti sjá litlar vörður liggja þar upp heiðina vestan við Nónvörður. Við þar mátti sjá vörðurnar liggja áfram upp heiðina, með stefnu á norðnorðvestanvert Sundvörðuhraunið. Víða í heiðinni mátti einnig sjá hinar formfegurstu fuglaþúfur.
Það mun verða næsta verkefni FERLIRs að fylgja litlu vörðunum frá Hamri upp heiðina og jafnvel áleiðis í gegnum hraunið. Til þess mun þurfa flokk manna og kvenna.
Þess má geta að í Sundvörðuhrauni eru hin svonefndu Tyrkjabyrgi (útilegumannabyrgi), sem eru í raun gömul fiskibyrgi: sjá m.a. HÉR og HÉR.

Í Eldvörpum

Eldvörp.