Færslur

Kaldársel

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir.

Kaldarsel-22

Kaldársel – fjárborg.

Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr, eða fyrir u.þ.b. 4700 árum, norðaustur af Kaldárseli.

Gjár

Gjárnar.

Gjárnar norðan Kaldársels eru mótaðar af því mikla hraunrennsli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru þar sem flaggstöngin er nú (árið 2011). Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða og Álftnesinga voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár; 11 (12) talsins.

Selgjá

Tóft í Selgjá.

Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni.
Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel.
Kaldarsel-uppdrattur-VHann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár. Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður [nú fremst ofan árinnar], sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót.
Hún Thorsteinshellirvar einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði.
Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellar.

Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.

Ingvar Gunnarsson

Minningarsteinn um Ingvar Gunnarsson.

Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.

 

Gvendarsel.

Gvendarsel.

Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.
Kaldarsel-24Þegar FERLIR var nýlega á gangi um svæðið var ákveðið að staldra við og gaumgæfa það betur en fyrr. Komu þá í ljós tvírýma mannvirki og tvö stök hús skammt frá; sennilega eldhús og geymsla. Afstaða minjanna minnti á dæmigerða tímabundna selstöðu. Svo virðist sem svæði það er geymir fjárskjólshellana hafi verið notað sem slíkt. Gæti það hafa hugsanlega hafa verið í tíð Þorsteins, Krýsuvíkur-Gvendar eða Kristmundar frá Stakkavík. Hin ókláruðu hús austan undir Fremstahöfða gætu hafa tengst tímabundinni dvöl fjárbónda á nefndum stað.
Hvað sem öllum vangaveltum líður er þarna um að ræða sérstaklega ahugaverðan stað með hliðsjón af fyrri búskaparháttum á svæðinu.

-ÓSÁ tók saman.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið.

Eyri

Eyri – tóftir.

Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring…

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892. Snorrakot t.h.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestarilæk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti. Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu.

Selalda

Fjárskjól undir Strák í Selöldu.

Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera. Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.

Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var stíflaður á nokkrum stöðum upp að námunum og brennisteinninn skolaður í hólfunum.

Húshólmi

Húshólmi – skálar.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Hafliðastakkur norðan Bæjarfells. Uppdráttur: ÓSÁ.

Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar. Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði. Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni. Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum. Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.
Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt.

Vigdísarvellir

Fjárskjól í Ögmundarhrauni.

Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.

Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

-ÓSÁ tók saman.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Óttarsstaðir

Lagt var upp frá Straumi, en hann tilheyrir bæjunum í Hraunum. Þeir eru nú í landi Hafnarfjarðar, en höfðu tilheyrt Garðahreppi allt til ársins 1964 er bæjarfélögin höfðu makaskipti á löndum.

Straumur

Straumur 2024.

Bjarni Bjarnason, skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar, byggði Straumshúsið 1926. Ætlaði hann að reka þar stórbú. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær Straumsbúið og leigði það til ýmisskonar starfsemi. Á níunda áratug 20. aldar voru Straumshúsin gerð upp og hýsa nú listamiðstöð á vegum Hafnarfjarðarbæjar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarstaðir eystri og Óttarstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot að norðanverðu, en Gerði og Péturskot að sunnanvörðu.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Péturskot var þar sem Reykjanesbrautin liggur nú við norðurkantinn á Fagravelli skammt austan við gatnamótin að Straumi. Norðan Straums eru nokkrir stígar s.s. Sjávargata og Jónsbúðarstígur, en sunnan hans er t.d. Straumsselsstígur er liggur upp með vesturgarði Þorbjarnastaða, yfir Alfaraleið út á Útnes og áfram upp í Straumssel. Umhverfis bæina eru heillegir grjótgarðar, auk fjárrétta, kvía, byrgja og nátthaga. Aðallega var gert út á fjárbúskap, en einnig voru þar einstakar kýr og nokkrir hestar. Hraunamenn gerðu mikið út á sjósókn og má sjá þar varir, þurrabúðir, vörslugarða og fiskreiti enn þann dag í dag. Búskapur lagðist af í Hraunum um 1930, en lengst var búið á Óttarstöðum vestri (1965). Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn gerðu út á landann.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Gengið var að Norðurgarði. Garðurinn liggur niður að Straumsvör. Ofan hennar eru allnokkrar garðhleðslur, auk bátaskjóls. Þaðan var haldið að Þýskubúð og skoðað í kringum hana. Gamall hlaðinn brunnur er vestan við búðina. Garður liggur umhverfis búðina.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Haldið var yfir í Tjörvagerði, sem var nátthagi. Þaðan er stutt yfir í Jónsbúð. Hlaðinn garður umlykur einnig þá búð. Jónsbúðartjörnin er norðan hennar. Jónsbúð er ágætt dæmi um búð er varð að bæ. Eftir að bóndinn hafði komið upp fyrsta “káinu”, þ.e. kotinu, fylgdu önnur á eftir í réttri röð; köttur, kindur, kú, kona og krakkar. Norðan við Jónsbúðartjörn er Markhóll, þríklofinn klettur. Í fjörunni mátti sjá mink við veiðar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var með ströndinni yfir að Óttarstöðum eystri. Þar við eru allmargar tóttir, garðar og gerði. Suðaustan við húsið er brunnur og annar eldri vestan við það. Vestar er Óttarstaðir vestri. Þar eru einnig miklir garðar. Á milli og austan við bæina er gróinn hóll.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir-vestari.

Þar er talið að forn kapella eða kirkja hafi staðið.Gengið var yfir í Klofið, en þar er Óttarstaðaréttin, fallega hlaðin. Utan við hana eru nokkrar tóttir fjárhúsa. Ofan við Klofið er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða. Frá henni var haldið eftir stíg suður inn í hraunið uns komið var að Kotaklifsvörðu, hárri og áberandi vörðu vestan í Sigurðarhæð. Frá henni var haldið suðaustur að Kúaréttinni, sem er djúp gróin laut í hrauninu. Við enda hennar eru hlaðnir garðar. Háir veggir lautarinnar er svo til þverhníptir á kafla. Ofar eru miklar sprungur. Undir bakka efst á einum veggnum stóð einmana rjúpa og fylgdist með.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Nokkuð austan Kúaréttar, sunnan Sigurðarhæðar, eru tvo hlaðinn byrgi, annað mjög heillegt. Upphaflega gætu þetta hafa verið þurrkbyrgi, en síðar byrgi refaskyttu, sem þaðan hefur ágætt útsýni til vesturs yfir lægðirnar í hrauninu norðan Brunntjarnar. Austan tjarnarinnar er hlaðin Straumsréttin.
Veður var frábært, lygnt, hlýtt og sólbjart. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.
Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hafnarfjörður

Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, skrifaði í Alþýðublað Hafnarfjarðar (jólablað) árið 1965 um Hafnarfjörð fyrri tíma undir yfirskriftinni “Skyggnst um nágrennið“:

Flatahraun.
Árni MagnússonÚr Engidal liggur steypt bílabraut austur Flatahraun áleiðis til Keflavíkur. Hér hófst síðasta skeið íslenskrar vegagerðar, þegar byrjað var að steypa Keflavíkurveginn 1962.
Fram undan rís Setbergsholt, Mosahlíð og Ásfjall. Á hrauninu liggur vegurinn ýmist í Hafnarfirði eða Garðahreppi, því að mörkin milli þessara lögsagnarumdæma eru óregluleg hér um slóðir.
Kaplakriki nefnist fyrsta byggðin við veginn. Um einn km þaðan inni í hrauninu liggur algjörlega sjálfstæður vegur, tengir ekkert við ekkert. Hann er 7 m breiður, um 2 km á lengd, en hæð er ómæld. Vegur þessi átti að verða upphaf að hinni miklu ókomnu braut, sem tengja skal Reykjavík og Hafnarfjörð um aldir. Hann var lagður í atvinnubótavinnu árið 1918 og ætlaður jafnt járnbrautum sem bifreiðum. Menn voru stórhuga í þann tíð. Hér lágu fornar lestamannagötur til Hafnarfjarðar um Hörðuvelli neðan við Sólvang, en úr Kaplakrika um Vífilsstaði og á áningarstað á Kjóavöllum vestan Elliðavatns. Þetta var höfuðleið til Fjarðarins önnur en Gömlufjarðargötur.
Setbergshamar heita vestasti hluti Setbergsholts. Undir þeim er talsverð nýbyggð, og enda nöfn allra húsanna á -berg: Þórsberg,  Ásberg o.s.frv.

Setberg – Upphaf rafvæðingar á Íslandi.

Jóhannes reykdal

Jóhannes Reykdal.

Bærinn Setberg stendur nokkru innar á holtinu í miklum túnum.
Það er forn jörð. Kirkju- og konungsvald náði aldrei tangarhaldi á Setbergi, og er það merkilegt um fasteignir hér í sveit. Þar gerðu þeir Gísli Þorkelsson og Jóhannes Reykdal garðinn einkum frægan, en auk þeirra hafa sýslumenn og galdraprestur setið þar með sóma auk allra annarra. Þorsteinn prestur Björnsson sat á eignarjörð sinni Setbergi síðustu æviár sín (1661—’75). Hann var lærður vel á sinni tíð. Eftir hann liggur m. a. mikill kvæðabálkur á latínu: Noctes Setbergenses eða Setbergskar nætur — um undur náttúrunnar. Sonarsonur hans var Gísli Þorkelsson, sem ritaði Setbergsannál. — Jóhannes Jóhannesson Reykdal bjó á Setbergi 1909—31 og síðar til æviloka á Þórsbergi (d. 1946).

Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvikjunin,

Árið 1903 reisti hann trésmíðaverksmiðjuna Dverg í Hafnarfirði, en það var fyrsta verksmiðjan, sem gekk fyrir vatnsafli hér á landi.
Árið 1904 virkjaði hann Hamarskotslæk, setti upp litla rafmagnsstöð til ljósa og aðra stærri 1907.
Það voru fyrstu rafmagnsstöðvarnar hér á landi. Þaðan fengu Hafnfirðingar „köldu ljósin” — fyrstir Íslendinga. Sólvangur, elli- og hjúkrunarheimili Hafnfirðinga, stendur nokkru fyrir neðan veginn undan Setbergi. Sjávarhraun nefnist hraunið þar suður af milli Hörðuvalla, íþróttasvæðis Hafnfirðinga, og Setbergstjarna. Hér þrýtur steypta veginn á kafla, af því að hér eiga að koma tvílyftar krossgötur.
Trésmíðaverksmiðja og timburverslun Reykdals stendur neðan vegar við Hamarskotslækinn, sem kemur úr dalnum milli Setbergsholts og Mosahlíðar. Hann nefnist Þverlækur niður að vegi, en breytir þar um nafn.

Lækurinn

Lækurinn.

Dregur hann þar eftir heiti af Hamarskoti, sem stóð á Hamrinum, þar sem nú er Flensborgarskólinn. Hin forna virkjunarstífla Reykdals sést fyrir neðan verksmiðjuna.
Lækurinn er eitt merkasta vatnsfall í atvinnusögu Íslendinga, Atkeldur.

Úfið gróðursælt hraun, Stekkjarhraun, liggur suður dalinn, en undir því standa hús í skjólsælum hvömmum. Vestast í því  skammt frá vegi eru tveir litlir mýrarslakkar, Atkeldur. Þar var tekið at í gamla daga til litunar, en það er eðja, sem gefur svartan lit. Af þeim starfa er dregið orðtakið að vera ataður, óhreinn.

Kirkjugarður á Hvíldarbörðum, nunnur á Kvíholti og Ófriðarstaðir.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Frá brúnni á Hamarskotslæk liggur vegurinn upp brekku á svokallaðar Öldur. Þar er kirkjugarður Hafnfirðinga undir Mosahlíðinni, og hét þar áður Hvíldarbörð.
Hér verða krossgötur. Öldugata liggur ofan í Hafnarfjörð, en suður með kirkjugarðinum liggur Elliðavatnsvegur og af honum braut í sumarbústaðaland Hafnfirðinga, í Sléttuhlíð, og suður í Kaldárbotna og að Helgafelli.

Karmelklaustur

Klaustrið 1973.

Skammt fyrir sunnan kirkjugarðinn beygir Elliðavatnsvegur austur yfir Setbergsdalinn. Í Mosahlíðinni eru mikil alifugla- og svínabú.
Á Öldunum er aftur komið á steinsteyptan veg. Norðan hans er Kvíholt. Þar hafa hollenskar nunnur af Karmelitareglu verið kvíaðar inni, og er það eina klaustrið hér á landi, eins og kunnugt er.
Fyrsta evangelíska kirkjan á Íslandi var reist í Hafnarfirði 1536, og fyrsta kaþólska klaustrið eftir siðaskipti var reist hér og tekið formlega í notkun 1946.
Grænagróf og Grænugrófarlækur eru fyrir vestan Kvíholt. Lækurinn kemur úr Ásfjalli og fellur niður hjá Ásbúð syðst í fjörðinn og nefnist þá Ásbúðarlækur.
Hafnarfjörður 1770Jófríðarstaðir eru býli á Jófríðarstaðahæð næst fyrir utan Kvíholt. Jörðin hét að fornu Ófriðarstaðir (nafninu breytt 1875), og mun það nafn eiga rætur að rekja til einhvers ófriðar, sem hér geisaði fyrr á öldum, en hér var róstusamt á 15. og 16. öld.

Hvaleyri

Hvaleyri – gamli bærinn á mynd frá 2020.

Þá liggur bílabrautin sunnan undir Hvaleyrarholti, en þangað hefur kaupstaðurinn teygt byggð sína á síðustu árum. Sunnan vegar er Ásfjall með mælingavörðu á kolli. Undir því stendur bærinn Ás ofan við Ástjörn. Brautin liggur um tún Þorgeirsstaða sunnan við Hvaleyrarholt.

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

Bærinn hét áður Þorláksstaðir, og fylgir því nafni sú sögn, að þar á holtinu hafi að fornu staðið kapella helguð heilögum Þorláki.

Þá liggur brautin yfir syðsta tagl Hvaleyrarholts, en þaðan blasir Reykjanesskaginn við.
„Flókastein” nefnir Jónas Hallgrímsson bjarg nokkurt á túninu norður af Hvaleyrarbænum. Það er alsett áletrunum misjafnlega gömlum og þar á meðal rúnaletri, bandrúnum. Um rúnirnar segir Jónas, að hann viti ekki betur en þær séu nöfn á þeirri skipshöfn, sem víkingurinn Flóki hafði með sér, þegar hann heimsótti Ísland. Verið getur, að Herjólfur hafi ríslað sér við að rista þessar rúnir á steininn, meðan hann beið eftir skipinu,, sem hann sleit frá á skipsbátnum.

Engidalur — Hafnarfjörður.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Hafnarfjörður var fjölsóttasta verslunarhöfn hér á landi frá því um 1400 og fram á 18. öld. Lögsagnarumdæmi kaupstaðarins hefst á hraunbrúninni við Engidal. Þar sem borgin stendur voru áður bæirnir Akurgerði, Hamarskot, Ófriðarstaðir (Jófríðarstaðir) og Hvaleyri.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta ÓSÁ.

Enn er grasnyt á Jófríðarstöðum og dálítill búskapur rekinn á Hvaleyrartorfunni, en borgin sækir fast inn á lönd hinna fornu jarða.
Þótt Hafnarfjörður væri fjölsóttur verslunarstaður og kaupmenn af ýmsum þjóðlöndum þreyttu þangað kappsiglingu á útmánuðum fyrr á öldum, þá lágu engir vegir til staðarins, aðeins koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin, og þar reis ekki þorp fyrr en á 19. öld.

Árnasafn

Endurheimtar bækur Árna Magnússonar frá Danmörku.

Gömlufjarðargötur lágu frá Hraunsholti að Sjónarhóli, Reykjavíkurvegi 22. Það var fjölfarnasta lestamannaleiðin til fjarðarins.

Árnasafn flutt til skips.

Vorið 1720 silast lest suður hraunið til Hafnarfjarðar, 30 klyfjahestar með þung koffort þræddu Gömlufjarðargötuna frá Hraunsholti, álútir, varkárir, og fótvissir.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

Þröngir troðningar voru markaðir í hraunklöppina af óteljandi lestum, sem höfðu lötrað þennan stíg um aldir og flutt alls kyns varning. Að þessu sinni var flutningurinn mesta dýrmæti, sem lyft hafði verið til klakks á Norðurlöndum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1834.

Lestin kom frá Skálholti, höfuðmenntasetri hins forna Íslands, og í koffortunum voru bækur, gulnað og velkt bókfell, elju- og snilldarverk íslenskra þúsunda. Þær eru safn Árna Magnússonar, og það á að flytjast til Kaupmannahafnar.
Í 8 aldir hafði verið unnið að þessum bókum um dreifðar byggðir Íslands, og nú áttu þær að auka og treysta frægð hins danska konungsveldis í höfuðborg ríkisins.
Þessi koffort eru eins og táknmynd um niðurlægingu Íslands þar sem hún silast áfram með bækur þess úr hinum forna menningarhöfuðstað til hins danska skips í Hafnarfirði“, segir Jón Helgason í Handritaspjalli.

Hafnarháskóli

Hafnarháskóli.

Lestin hefur þrætt stíginn ofan við Háaklif, sem nú nefnist Reykjavíkurvegur, þokast suður Malirnar og út á grandann hjá Óseyri. Þar skilaði hún auðæfunum á skipsfjöl.
Bækurnar voru afreksverk íslenskrar hámenningar, sem átti sér fótfima fararskjóta að forsendu.
Hesturinn hafði sigrast á öllum torfærum og firnindum Íslands og gert það að einni samfélags- og menningarheild. Hann hafði borið forna stjórnskipan um landið, á fótum hans hvíldi þinghaldið á Þingvelli við Öxará og forn sagnritun.

Hekla

Franski landfræðingurinn Alain Manesson Mallet skrifaði heimslýsingu sem kom út 1683, sama ár og Árni Magnússon fór til náms við háskólann í Kaupmannahöfn. Íslandi bregður fyrir á 14 kortum í bókinni. Hér er mynd úr heimslýsingunni, á henni sést Hekla gjósa.

Nú hafði hann flutt bækur Íslands yfir öll torleiði til strandar. Þær höfðu verið tíndar saman í rústum hins forna íslenska samfélags, og voru fluttar á nýjan áfangastað, en þar beið þeirra það hlutskipti að hefja sokkna þjóð úr niðurlægingu.
Árnasafn var og er sérstæð stofnun við Hafnarháskóla. Safnið var í raun og veru fyrsti háskóli Íslendinga. Þeir voru ómissandi fylgjunautar bóka sinna, og þær opnuðu þeim leið til nokkurra mannvirðinga og áhrifa hjá einvaldsstjórninni í hinum nýju heimkynnum og jafnvel aðgang að bakdyrum konungshallarinnar. Kringum hinar fornu bækur varð til nýlenda íslenskra menntamanna, og þaðan komu Íslendingum, sem heima sátu, talsmenn og leiðtogar.
Árnasafn varð höfuðstöð íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu, þegar stundir liðu. Margir af helstu forystumönnum Íslands á 18. og 19. öld voru starfsmenn safnsins lengur eða skemur: Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson, Hannes Finnsson, Finnur Magnússon, Konráð Gíslason og Jón Sigurðsson. Jón var styrkþegi og starfsmaður Árnasafns frá 1835 til dauðadags 1879. Hvort sem hin framsækna sveit Íslendinga var kennd við Fjölni eða Félagsrit, þá var kjarni hennar tengdur stofnun Arna Magnússonar.
Þjóðfélagsbarátta okkar við Dani er til lykta leidd. Árnasafn hefur skilað miklu hlutverki bæði sem vísindastofnun og virki þjóðfrelsismanna. Leitun mun vera á stofnun, sem hefur verið jafnsamgróin þjóð sinni og þetta safn velktra skinnbóka og snjáðra pappírsblaða.

Árnasafn

Úr Árnasafni í Kaupmannahöfn.

Engin þjóð mun eiga neinni stofnun jafnmikið að þakka og við Íslendingar safninu hans Árna Magnússonar.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar.  Jólablað 1965 (24.12.1965), bls. 16-18.

Handrit

Endurheimt handritin útlistuð..

Ásfjall

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rotaryklúbbsins. Þegar hún var komin á sinn stað og vígsluathöfn hafði farið fram 26. júní 1987 voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en þetta ár að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Ásfjall

Frá vígslunni.

Frá vígslu á útsýnisskífunni á Ásfjalli. Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson og Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Gunnar heitinn Ágústsson hafði einnig liðsinnt í þessum efnum. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Útlagður kostnaður við verkið varð þó um 100 þúsund krónur og kom í hlut klúbbsins að greiða hann. Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987.

Steingrímur Atlason

Steingrímur Atlason.

Forseti og Jón Bergsson röktu sögu framkvæmda og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn! – um stund.

Útsýnisskífan er efst á Ásfjalli, skammt austan við endurhlaðna vörðuna.

Heimild:
-http://gamli.rotary.is/rotaryklubbar/island/hafnarfjordur/verkefni/utsynisskifa/
-Ljósmyndir; Gísli Jónsson.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánsdalir

Kofatóft úr torfi og grjóti undir Bollum, utan í Kristjánsdölum, við hraunkantinn milli Kerlingaskarðsvegar og Grindaskarðsvegar, hefur löngum vakið forvitni göngufólks, en fátt er vitað um tilurð hans og tilgang. Þorvaldur Thoroddsen getur kofans í skrifum sínum í Andvara árið 1884 í lýsingu sinni um “Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883“:

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala.

“Frá Kaldárseli fórum við fyrst Grindaskarðsveg upp að fjöllunum og síðan austur á við milli hrauns og hlíða um svo kallaða Kristjánsdali; þar er mjög grasgefið land, en ekkert vatn neinstaðar; þar höfðu lestamenn hesta sína, þeir er sóttu brennistein í Brennisteinsfjöll, og er þar dálítill kofi síðan. Dólerít er hjer ofan til í fjöllum, en móberg undir. Mjög illt var að klöngrast yfir hraunfossana, sem fallið hafa niður hjá Kóngsfelli, því bæði eru þeir breiðir og hraunið mjög umsnúið og erfitt yfirferðar.”

Kristjánsdalir

Tóft við vatnsstæði í Kristjánsdölum.

Þrátt fyrir framangreind orð Þorvaldar er ágætt vatnsstæði í Kristjánsdölum, skammt norðan Grindaskarðsvegar. Við það er nánast jarðlæg tóft, sem væntanlega hefur verið afdrep Selvogsmanna á leið þeirra millum Vogs og Fjarðar fyrrum. Þar höfðu rjúpnaskyttur úr Hafnarfirði afdrep undir það síðasta. Enn önnur tóftin, grunnur undir timburhús, tengd brennisteinsnáminu í Fjöllunum, er ofar og austar, upp undir Kerlingarskarði.

Heimild:
-Andvari – 1. tölublað 01.01.1884, “Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883”; Þorvaldur Thoroddsen, bls. 30.

Kerlingarskarð

Búð námumanna undir Kerlingaskarði.

Krýsuvík

Þessi grein um Krýsuvík birtist í Skinnfaxa árið 1951 og er byggð á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra í Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen rafveitustjóra í Hafnarfirði. varðandi boranir, en hann veitir borunum og raforkuframkvæmdum í Krýsuvík forstöðu:
“Myndirnar 3 af húsum í Krýsuvík eru teknar núna í marz, en óvenju mikill snjór hefur verið þar í vetur.

Krýsuvík

Á síðari árum hefur margt og mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Hafnarfjarðar-kaupstaðar í Krýsuvík. Verður hér stuttlega skýrt frá því, sem þegar hefur verið gert þar og helztu fyrirætlunum. Krýsuvík liggur um miðbik Reykjaness að sunnanverðu, milli Grindavíkur og Herdísarvíkur, en suðvestan við Kleifarvatn. Fyrr á tímum var þar höfuðból með sex hjáleigum, og um síðustu aldamót lifðu þar um 40 manns. Var sauðf járræktin undirstaða búskaparins þar og sömuleiðis sjósókn. — Síðan tók fólki stöðugt að fækka og byggðin að eyðast. Olli því að sjálfsögðu breyttir búskaparhættir og þjóðarhættir, og auk þess samgönguleysi. Kom þar að lokum, að aðeins einn maður dvaldi í Krýsuvík, og hafðist hann við í leifum af kirkjunni. Leið þó ekki nema einn vetur, að mannlaust væri í Krýsuvík, áður en starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar settist þar að.

Krýsuvík

Krýsuvík 1906 – herforingjaráðskort.

Hafnarfjarðarbær fékk eignarrétt á ræktunarlandi og hitasvæði í Krýsuvík árið 1937. Undirstaða framkvæmda þar hlaut að teljast vegarlagning þangað, en lög um Krýsuvíkurveg höfðu verið samþykkt á Alþingi árið 1936. Síðan sá vegur tengdist Suðurlandsundirlendinu, hefur hann komið í góðar þarfir á vetrum, — ekki hvað sízt á síðastliðnum vetri. — Milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur eru 25 km.
Framkvæmdir í Krýsuvík eru þríþættar, og hafa þessir þrír þættir frá upphafi verið aðskildir, þótt á síðasta ári hafi tveir þættirnir verið sameinaðir undir eina stjórn. Þessir þrír þættir eru: Ræktun í gróðurhúsum, grasrækt og kúabúsframkvæmdir og boranir eftir jarðhita.

A. Gróðurhús.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í gróðurhúsi í Krýsuvík (HH).

Vegna jarðhitans eru skilyrði til ræktunar í gróðurhúsum ótakmörkuð í Krýsuvík. Nú eru gróðurhúsin orðin fjögur, og eru ca. 1600 ferm. undir gleri. Tvö þessara gróðurhúsa (600 ferm.) voru tekin í notkun vorið 1949, en hin tvö er verið að ljúka við. 1 gróðurhúsunum eru einkum ræktaðir tómatar, agúrkur, gulrætur og blóm. Í sambandi við gróðurhúsin er auk þess hálfur hektari útiræktar, þar sem gert er ráð fyrir að rækta alls konar grænmeti. Jarðhitinn, sem gróðurhúsin eru hituð með, er gufa, og er hún leidd í þró, þar sem katli hefir verið komið fyrir, og hitar gufan þannig vatnið í hitakerfi gróðurhúsanna, en það er venjulegt miðstöðvarkerfi.
Í sambandi við gróðurhúsin hafa verið reist tvö íbúðarhús, ca. 360 ferm. að grunnflatarmáli, fyrir bústjóra og starfsfólk. Eru í húsunum öll þægindi, vatnsleiðsla, skólpræsi og rafmagn frá dieselrafstöð.

B. Búskapur.
Í Krýsuvík eru ca. 300 ha. ræktanlegt graslendi, en auk þess melar, sem e.t.v. mætti rækta með sérstakri aðferð. Kom fljótt til tals að setja þarna á fót stórt kúabú, er jafnan gæti séð Hafnfirðingum fyrir ferskri og góðri barnamjólk. Á þessum grundvelli hafa verið hafnar allmiklar búskaparframkvæmdir, þótt enn megi þær teljast á byrjunarstigi. Þegar hafa verið brotnir um 30 ha. lands, en vinnslu er misjafnlega langt á veg komið. Meginhlutann mætti þó fullvinna undir grasfræssáningu á þessu vori. Grafnir hafa verið 8 km langir, opnir skurðir til landþurrkunar, en ca. 45 km löng lokræsi (kílræsi). Tveir súrheysturnar hafa verið reistir. Eru þeir 5 m í þvermál og 14 m háir. Fjós fyrir 154 kýr og tilheyrandi ungviði er komið undir þak.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2021.

Hér er komið að framkvæmdum í búskaparmálum í Krýsuvík, en um framhaldið verður ekki sagt á þessu stigi málsins. Það er rétt að geta þess, að í Krýsuvík er mjög votviðrasamt, og verður því naumast gerlegt að vera háður náttúrunni með verkun á heyi. Gera má ráð fyrir, að þarna mætti hafa um 300 kýr. Öll mannvirki, sem hingað til hafa verið reist í Krýsuvík, bæði vegna ræktunar í gróðurhúsum og fyrirhugaðs búskapar, eru hin vönduðustu og af fullkomnustu gerð.

C. Boranir eftir jarðhita.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Í Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. — Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa jafnan miklar vonir til hans staðið og standa enn.
Fyrstu jarðboranir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknarráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom. Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver og í Seltúni. Jarðhorar voru grannir. Nokkurt gufumagn kom þó, en þar sem holurnar voru þröngar, stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.
Haustið 1946 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, ein með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1946—47 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveitu Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þessa höfðu verið notaðir snúningsborar. Fallborar geta borað víðari holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Ennfremur er minni festuhætta fyrir þá gerð, en áður hafði það tafið mikið, hve horar vildu festast.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðurstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst. Var þá borinn fluttur i svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð, var aftur fenginn bor frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum. Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau, eins og þau voru þá. — Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Hveradalina til þess að bora upp þessar stíflur. Ennfremur hafa víðari holur verið boraðar með fallbomum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst. Gufumagn, sem fyrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þref alt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa boranir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krísuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir. Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæta svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun hefur gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að 13 m á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum.
Það var 12. sept. síðastl., að verulegur árangur varð af borunum i Seltúni. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora, og orðin var 229 m djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 tommu víðum járnpípum 100 m niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram, síðan það byrjaði, og kemur úr holunni allvatnsblönduð gufa. Hefur magnið verið mælt við mismunandi mótþrýsting, þ.e. þrengt hefur verið mismunandi mikið að gosinu. Gufa sú, sem úr holunni kemur, mun geta framleitt um 5000 kílóvött rafmagns. En auk þess koma úr holunni um 30 1 af 100° heitu vatni á sekúndu, sem nota mætti í hitaveitu eða til annars. — Til samanburðar má geta þess, að Hafnarfjarðarbær notar nú 3000 kílóvött rafmagns. Gos kemur úr 5 holum alls, þótt gosið úr fyrrnefndri holu sé langmest, en heildargufan úr öllum holunum er 60 tonn á klst. Í ráði er að virkja þarna í Seltúni, og hefur ýmsum fyrirtækjum i Evrópu og Bandaríkjunum verið send greinargerð um þelta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Komið hefur í ljós, að ítölsk og svissnesk fyrirtæki ein telja sig geta sinnt svo sérstæðu verkefni, sem hér um ræðir. Stendur Rafveita Hafnarfjarðar nú í sambandi við ítölsk fyrirtæki varðandi þessi mál. Bráðabirgðaáætlun sýnir, að slík gufuvirkjun yrði nokkru ódýrari en samsvarandi vatnsvirkjanir. Stendur rafveitan i sambandi við ítölsk orkuver, sem reynslu hafa af gufuvirkjunum. Hafa Ítalir gufuorkuver, sem framleiða 300 þús. kílóvött rafmagns.  Til samanburðar má geta þess, að nýja Sogsvirkjunin, eins og hún er nú áætluð, mun framleiða 31 þús. kílóvött.
Borunum er að sjálfsögðu haldið áfram í Krýsuvík.” – S.J.

Heimild:
-Skinfaxi – 1. tölublað (01.04.1951), Landið og framtíðin: Krýsuvík, S.J., bls. 17-23.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Þann 23. júní 2003 var aldarafmæli Gísla Sigurðssonar, fyrrverandi lögregluvarðstjóra, skáta, íþróttamanns, útivistarmanns, örnefna- og minjasafnara, hljómlistarmanns og fyrrum forstöðumanns Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Gisli Sigurdsson-IIGísli Sigurðsson fæddist að Sólheimum í Hrunamannahreppi 23. júní 1903. Faðir hans, Sigurður Gíslason og móðir, Jóhanna Gestsdóttir, voru þar í vinnumennsku og fóru á milli bæja. Hjónin komu til Hafnarfjarðar árið 1910 og settust þar að. Sigurður stundaði verkamannavinnu og sjómennsku, var í veri, bæði með Ströndinni og í Grindavík. Foreldrar hans voru dugnaðarfólk þótt fátækir væru.
Tólf ára gamall hitti Gísli Stíg Sæland, lögregluþjón og stefnuvott. Tókst með þeim góður vinskapur. M.a. fóru þeir saman alla leið austur að Skálum á Langanesi á vertíð, en þá var Gísli 12 eða 13 ára gamall. Hann hafði sérstaklega orð á því að á leiðinni heim hafi þeir komið við á Seyðisfirði og skoðað þar rafmagnsverksmiðju. Þar sá hann fyrsta rafmagnsljósið og þótti mikið til koma.
Gísli SigurðssonAndrés Björnsson las í Útvarpið hugvekju eftir Gísla á jólunum 1961. Helgi Hjörvar hringdi í Gísla að henni lokinni og hældi honum fyrir efnið. Gísla þótti sérstaklega vænt um það. Hugvekjan bar heitið “Fyrsta endurminning mín um jólin”.
Árið 1931 kvæntist Gísli Vigdísi Klöru Stefánsdóttur frá Fitjum í Skorradal, og eignuðust þau tvö börn, Eyjalínu Þóru og Gunnlaug Stefán, og auk þess ólst upp hjá þeim, dóttursonur þeirra, Gísli Grettisson.
Um vorið 1985 vildu íþróttafélögin í bænum bjóða Gísla til samsætis honum til handa, en hann treysti sér ekki vegna lasleika. Gunnlaugur, sonur hans, fór í hans stað. Í samsætinu voru rifjuð upp ýmis merkilegheit varðandi íþróttaferil hans og afrek.

Lögreglumaður – safnvörður (Saga Hafnarfjarðar).
Gísli SigurðssonÞorleifur Jónsson lét af starfi lögregluþjóns 1. júlí 1930. Gísli Sigurðsson var ráðinn lögregluþjónn í hans stað. Um haustið tók Jón Guðmundsson til starfa við liðið. Þá voru fyrir þeir Stígur Sveinsson Sæland, Þorleifur Jónsson og Kjartan Ólafsson. Vegna mikilla fjárhagsvandræða, sem bærinn átti við að glíma af völdum kreppunnar, gerði bæjarstjórn nokkrar sparnaðarráðstafanir haustið 1932. M.a. var þremur lögregluþjónum sagt upp störfum og auglýstar til umsóknar tvær lögregluþjónsstöður. Um þessar tvær stöður sóttu lögregluþjónarnir þrír og voru þær veittar Stíg Sæland og Jóni Guðmundssyni. Reynslan af þessari ráðstöfun varð sú, að veturinn 1932 – 33 varð bærinn oft og einatt að ráða mann til aðstoðar lögreglunni, og varð það síst ódýrara en þó að lögregluþjónarnir hefðu verið þrír á föstum launum. Því ákvað bæjarstjórn að bæta við einum fastlaunuðum manni í lögreglulið bæjarins frá 1. júlí 1933, og var Gísli Sigurðsson á ný ráðinn til starfans.
Gísli var skipaður varðstjóri árið 1948 ásamt Kristni Hákonarsyni. Gísli fékk síðan leyfi frá störfum árið 1957, um hálfs árs skeið. Hinn 1. mars 1968 var Gísli skipaður yfirvarðstjóri. Hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1. júní 1973.

Íþróttir
Gísli SigurðssonGísli var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Framsókn, 9. júní 1919. Varð hann gjaldkeri hins nýja félags. Í fyrstu var æft á Víðistöðum, en láðst hafði að fá leyfi til þess hjá landeigendum, sem brugðust illa við. Ruddu félagsmenn þá knattspyrnuvöll uppi á Öldum suðvestur af Hamrinum og æfðu þar um skeið, eða þangað til félagið tók á leigu svæðið við vesturenda hraunsins í Víðistöðum. Gísli lék um sinn bakvörð hjá liðinu. Árið 1920 færði félagið sig upp á nýjan knattspyrnuvöll á Hvaleyrarholti.

Íþróttabandalag hafnarfjarðar

Merki Íþróttabandalags Hafnarfjarðar.

Þá fóru félagsmenn einnig að æfa aðrar íþróttir, s.s. hlaup og aðrar frjálsíþróttir. Árið 1919 var Knattspyrnufélagið stofnað. Þessi félög, auk nokkurra félaga úr Glímufélaginu Sköflungi, voru síðan sameinuð árið 1922 undir nafninu Íþróttafélag Hafnarfjarðar. Gísli varð þá féhirðir þess félags. Á íþróttamóti í bænum árið eftir sigraði Gísli í 1500 metra hlaupi. Vorið 1924 hófust á vegum Íþróttafélagsins æfingar í frjálsum íþróttum. Spjótkast og kringukast var æft á Hörðuvöllum, en kúluvarp var æft inni í bæ á götunum. Félagið sendi Gísla, einan keppanda á allsherjarmót ÍSÍ. Hann keppti í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti og náði góðum árangri.
Gísli Sigurðsson
Gísli var um þetta leyti fremstur í flokki hafnfirskra frjálsíþróttamanna. Árið 1925 vann hann afreksmerki ÍSÍ. Er hann fyrsti og eini Hafnfirðingurinn sem unnið hefur það afrek (skrifað 1983). Vorið 1926 kenndi Jón Kaldal hlaup hjá Íþróttafélagi Hafnarfjarðar. Gerði hann það endurgjaldslaust. Þá um sumarið kepptu Gísli og Jón V. Hinriksson í kastgreinum á allsherjarmóti ÍSÍ fyrir hönd félagsins og árið 1927 keppti Gísli í spretthlaupi á sama móti.

Gísli Sigurðsson

Fimleikahópur pilta. Mannanöfn skv. Lista sem er límdur við myndina. “Fremri röð frá vinstri: Gísli Sigurðsson, Guðjón Sigurjónsson, Gunnar Gíslason ,Sveinn Magnússon, Geir Jóelsson, Jón Þorbjörnsson. Aftari röð frá vinstri: Hallsteinn Hinriksson, Sigurður Sigurjónsson, Ragnar Emilsson, Gunnar Magnússon, Haraldur Sigurjónsson, Oliver Steinn Jóhannesson, Kjartan Markússon, Steingrímur Atlason, Magnús Guðmundsson, Jóhannes Einarsson, Valgeir Óli Gíslason, Sveinbjörn Pálmason, Sigurður Gíslason”.

Árið 1928 var Gísli kosinn formaður á aðalfundi félagsins þótt hann væri fjarverandi. Fimm sóttu fundinn. Um sumarið tók hann þátt í allsherjarmóti ÍSÍ. Ekki tókst að hefja starf félagsins um haustið í og með vegna þess að formaður þess var í Hvítárbakkaskóla um veturinn og var Íþróttafélag Hafnarfjarðar þar með úr sögunni. FH var stofnað haustið 1929 og síðan Haukar 1931. Þessi félög hafa starfað óslitið síðan.
Árið 1934 urðu þáttaskil í starfsemi FH, en þá sendi félagið í fyrsta sinn keppendur á frjálsíþróttamót, Meistaramót Íslands, þá Hallstein Hinriksson, Sigurð Gíslason og Gísla Sigurðsson. Þetta varð upphafið að blómlegu frjálsíþróttastarfi á vegum félagsins þó að ekkert æfingasvæði væri í bænum fyrir frjálsíþróttamenn. Gísli var í frjálsíþróttasveit FH árið 1942. Á 15 ára afmæli FH 1944 var gert íþróttasvæði á Hörðuvöllum undir umsjón Gísla og naut félagið fjárstuðnings frá Hafnarfjarðabæ við þessar framkvæmdir. Mikil bót var að þessu frjálsíþróttasvæði, þó að það væri ekki fullkominn íþróttavöllur. Við þessa vallargerð hljóp aukið fjör í iðkun frjálsra íþrótta í bænum og voru þær með mestum blóma á árunum 1943-1950. Á þessu tímabili háðu Hafnfirðingar sex sinnum bæjakeppni við Vestmanneyinga og sigruðu tvisvar.
Gísli Sigurðsson
Á 30 ára afmæli FH var Víðavangshlaup Hafnarfjarðar endurvakið, sumardaginn fyrsta 1959. Sama ár þreyttu Hafnarfjörður og Keflavík bæjarkeppni í frjálsum íþróttum, og bar þar helst til tíðinda, að Gísli Sigurðsson keppti í kringlukasti og átti þar með 40 ára keppnisafmæli. Hann var formaður félagsins á árunum 1940-1943.
Árið 1935 kom Íþróttaráð Hafnarfjarðar saman til fyrsta fundar síns. Fimm menn voru í ráðinu, skipaðir af ÍSÍ. Árið eftir tók Gísli sæti í ráðinu. Stofnárið stóð það fyrir íþróttanámskeiði um sumarið og varð Gísli kennari ásamt Hallsteini Hinrikssyni. Námskeiðið var haldið á skólamölinni framan við barnaskólann við Lækinn. Um haustið efni ráðið til íþróttamóts, auk þess sem það beitti sér fyrir að lagfæra knattspyrnuvöllinn á Hvaleyrarholti í samvinnu við Hauka.
Gísli SigurðssonÁ fundi ÍH árið 1936 vakti Gísli máls á því, að nauðsyn bæri til að safna saman verðlaunagripum, fundargerðarbókum og öðrum þeim gögnum, sem enn kynnu að vera til um starfsemi þeirra íþróttafélaga, sem hætt væru störfum, og bjarga frá glötun. Íþróttaráð fól Gísla að reyna að hafa upp á öllu, sem til væri af þessu tagi. Honum var vel ágengt, og tókst að hafa upp á fundargerðarbókum flestra gömlu íþróttafélaganna, en að auki skráði Gísli frásagnir nokkurra manna, sem voru félagar í elstu íþróttafélögunum í bænum. Þessi gögn eru nú í vörslu byggðasafnsnefndar Hafnarfjarðar. Árið 1943 fór bæjarráð Hafnarfjarðar þess á leit við íþróttaráð, að það hlutaðist til um, að íþróttafélögin í bænum tilnefndu menn til að gera tillögur um gerð íþróttasvæðis og tilhögun þess. Voru þeir sammála um að besti staðurinn væru Víðisstaðir.

Gísli Sigurðsson

Eldri FHingar. Gísli Sigurðsson lögreglumaður í efri röð til vinstri.

Skoruðu íþróttaráð og stjórnir íþróttafélaganna á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að kaupa Víðistaði og láta gera þar sem fyrst íþróttasvæði. Gísli lagði fram á fundinum teikningu af íþróttasvæði á Víðistöðum, sem hann hafði fengið Valgarð Thoroddsen til að gera. En þar eð Víðistaðir voru í einkaeign, reyndist ekki unnt að velja hinu fyrirhugaða íþróttasvæði stað þar, og var það gert á Hörðuvöllum árið 1944. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH) var stofnað 28. apríl 1945 og var það arftaki íþróttaráðs Hafnarfjarðar. Stofnendur ÍBH voru FH, Haukar og Skíða- og skautafélag Hafnarfjarðar. Gísli var formaður þess á árunum 1948-1949. Árin 1947-1950 gaf Íþróttabandalag Hafnarfjarðar út blaðið Íþróttablað Hafnarfjarðar. Gísli var ritstjóri og ábyrgðarmaður þess.
Gísli SigurðssonHinn 22. febrúar 1925 var Skátafélag Hafnarfjarðar stofnað. Það fór mjög myndarlega af stað, og brátt störfuðu fjórir flokkar á vegum þess. Fyrsti sveitarforingi var Gísli, síðar lögregluþjónn. Árið 1945 var nafni félagsins breytt í Skátafélagið Hraunbúar. Lionsklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 1956. Fyrsti gestur á fundi félagsins var Gísli, sem hélt þá erindi um sögu Hafnarfjarðar. Á fyrstu árum klúbbsins unnu félagsmenn t.d. við að raða gömlum myndum í byggðasafni Hafnarfjarðar og merkja þær. Var það verk unnið undir stjórn Gísla, sem það var orðinn minjavörður.

Gísli á Hörðuvöllum

Gísli á Hörðuvöllum.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar hóf starfsemi sína haustið 1923. Gísli kom fljótlega inn í sveitina og lék þar á horn um tíma.
Hinn 29. nóvember 1931 var Íþróttafélag verkamanna stofnað í bæjarþingsalnum í gamla barnaskólanum við Suðurgötu. Forgöngu um stofnun félagsins höfðu Félag ungra jafnaðarmanna (FUJ) og Félag ungra kommúnista (FUK). Gísli var kennari hjá félaginu fyrstu árin, sem það starfaði, og kenndi bæði karlaflokki og kvennaflokki til haustsins 1936. Haustið 1935 var nafni félagsins breytt í Íþróttafélag verkamanna og –kvenna og einnig var þá samþykkt breyting á lögum félagsins þess efnis, að það væri algerlega óháð öllum stjórnmálum. Enn var nafninu breytt haustið 1937 í Íþróttafélag Hafnarfjarðar. Virðist það hafa hætt starfsemi sinni í árslok 1940. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar var stofnað 28. apríl 1945. Á stofnfundinum var því hreyft að stofna bæri sundfélag í bænum. Sundfélag Hafnarfjarðar var síðan stofnað 19. júní sama ár. Gísli var þá kosinn formaður og gegndi hann því starfi fyrsta árið.

Byggðasafn Hafnarfjarðar
Byggðasafnið

Í apríl 1953 kaus bæjarstjórn Hafnarfjarðar byggðasafnsnefnd og átti Gísli sæti í henni ásamt Óskari Jónssyni og Kristni J. Magnússyni. Hlutverk nefndarinnar var að koma upp byggðasafni í bænum. Sumarið 1955 féllst bæjarstjórn á að nefndin fengi neðri hæð Vesturgötu 6, hús Bjarna riddara, til umráða. Nauðsynlegt þótti þá að koma húsvilltu fólki fyrir á efri hæð þess vegna húsnæðisekklu í bænum.
Gísli Sigurðsson
Þegar byggðasafnsnefnd fékk húsið í hendur, voru fluttir þangað munir þeir, sem henni höfðu þegar áskotnast. Það var einkum Gísli, sem vann að söfnun muna á vegum byggðasafnsnefndarinnar. Setti nefndin sér í öndverðu það markmið að afla hluta, er varða iðnað, sjómennsku, húshald, rafmagn og búskap, og einnig ljósmynda frá Hafnarfirði og af Hafnfirðingum. Þegar hafist var við að endurbyggja Hús Bjarna riddara árið 1973 voru munir fluttir í geymslu í eigu Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og í Bryde-pakkhúsið við hliðina á Húsi Bjarna riddara, s.s. fiskibátur, gamli líkvagninn og ýmsar útgerðarvörur. Þegar Slökkvilið Hafnarfjarðar fluttist úr Slökkvistöðinni við hliðina á Bryde-pakkhúsi í maí 1974 fékk Byggðasafnið hana til umráða. Sama ár var Gísli ráðinn safnvörður við Byggðasafnið. Skrásetti hann mikinn fróðleik um byggðina í Hafnarfirði fyrr á tímum.
Hinn 1. júlí 1980 lét Gísli af störfum minjavarðar. Óhætt er að fullyrða, að enginn einn maður á jafnmikinn þátt í, að Byggðasafnið hefur eignast jafnmarga muni og raun ber vitni.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Þegar Gísli lét af störfum við Byggðasafnið, var Magnús Jónsson kennari, ráðinn minjavörður. Á fundi 16. desember 1980 staðfesti bæjarstjórn samning milli ríksins og bæjarins þess efnis, að sjóminjasafnsnefnd tæki Brydepakkhús og gömlu slökkvistöðina á leigu fyrir sjóminjasafn og yrði það til húsa þar, þangað til Sjóminjasafn Íslands hefði verið reist á Skerseyri.
Þegar minnst var 75 ára afmælis Hafnarfjarðarkaupstaðar 1983, var m.a. haldin sögu- og sjóminjasýning í Brydepakkhúsi. Þegar hún var opnuð afhenti Gunnlaugur Stefán, listmálari, Byggðasafninu að gjöf málverk af föður sínum.

Samstarfsmenn.

Gísli Sigurðsson hóf störf í lögreglunni í Hafnarfirði árið 1930. Afstaða og stjórnmálaskoðanir skiptu máli þá eins og nú. Má segja að það hafi haft sitt að segja um að hann var ekki ráðinn á ný þegar staða hans var auglýst árið 1932.

Steingrímur Atlason

Steingrímur Atlason.

Gísli talaði þó aldrei illa um nokkurn mann, ekki einu sinni um hörðustu andstæðinga sína.
Gísli vann lengi með Stíg Sæland. Síðan komu til starfa menn eins og Jón Guðmundsson, Þorleifur Jónsson og Kjartan Ólafsson. Steingrímur Atlason byrjaði í nóv. 1941. Þá voru fyrir Gísli, Stígur, Kristinn Hákonarson, Kristján Andrésson og Haukur Magnússon. Þá var lögreglan í einu herbergi að Suðurgötu 8.  Fangahúsið var þá í vesturenda Edinborgarhússins, tveir klefar, innréttaðir með mótatimbri. Um 1945 var flutt í viðbygginguna við Suðurgötu 8. Sýslumaðurinn hafði áður nýtt fjós þar sem viðbyggingin síðar reis, en í millitíðinni var það bílskúr (byggður 1942 eða 1943).
Gísli SigurðssonSteingrímur hætti í lögreglunni árið 1946, en kom aftur til starfa árið 1953. Hann minnist þess að þá hafi Gísli verið kominn á fullt að ræða við eldra fólk í bænum um byggðina, fólkið, örnefnin, húsheiti og annað tilheyrandi. Að hans mati hefur Gísli án efa bjargað miklum verðmætum upplýsingum því margt af þessu fólki dó næsu ár á eftir. Hann teiknaði auk þess upp gömul hús og húsaskipan eftir frásögn fólksins, sem mundi hvernig þau höfðu litið út á meðan þau voru enn brúkleg. Gísli byrjaði í fyrstu að ræða við elsta fólkið í bænum, en fór lítið út fyrir hann til að byrja með. Hann skrifaði upp og fór oft þrisvar til fjórum sinnum yfir textann áður en hann skilaði honum frá sér í formi upplýsinga eða erinda. Þegar hann fékk nýjar upplýsingar bætti hann þeim umsvifalaust inn í textann, sem fyrir var. Hann skrifaði í rit og blöð, ekki síst bæjarblöðin, um afmarkað efni. Þá sendi hann m.a. hugvekju í útvarpið skömmu eftir stríð, sem þulur las í kringum jól. Það var hjartnæm lýsing á því hvernig móðir hans meðhöndlaði krakkana sína fyrir jólin og heimfærði jólaboðskapinn yfir á uppeldið.

Gísli Sigurðsson

Gísli ásamt Edda félaga sínum við störf á Hörðuvöllum.

Gísli var byrjaður að tala við fólk um örnefni, staði, sögur og fólk og skrifa niður hjá sér fyrir 1958. Eftir 1960 var Gísli flestar næturvaktir við skriftir á meðan aðrir tefldu eða tóku í spil á milli útkalla og eftirlitsferða.
Gísli gekk mikið í kringum Hafnarfjörð, Hvaleyri og Garðahverfi. Stundum fór hann í lengri gönguferðir, jafnvel í framhaldi af næturvakt. Hann kom þá með kaffibrúsann undir hendinni niður á stöð og bað lögreglumennina á vakt um að skutla sér út fyrir bæinn, s.s. upp í Kaldársel eða út á Vatnsleysuströnd. Þar kvaddi hann og gekk einn síns liðs upp í hraunin og hvarf. Oft var hann svo “heppinn” að hitta á lögreglumennina á bílnum undir kvöld, t.d. ofarlega á Krýsuvíkurveginum eða annars staðar, og óku þeir honum í bæinn aftur svo hann næði næturvaktinni.
Gísli SigurðssonVitað er til þess að Gísli heimsótti hvern einasta mann í Selvogi og á Vatnsleysuströndinni og tók viðtöl við fólkið. Frásagnirnar las hann síðan upp fyrir lögreglumennina á næturvöktum.
Gísli byrjaði í framhaldi af því að skoða selin og aðrar minjar fyrir ofan Hafnarfjörð. Ein ástæðan var sú að flest selin þar eru þannig staðsett að tiltölulega auðvelt er að nálgast þar vatn, en það var göngumanni nauðsynlegt á löngum leiðum. Hann fór yfirleitt einn í þessar göngur til að byrja með. Honum var þá ekið langleiðina út á Reykjanesbraut og þaðan var gengið upp í hraunið. Ef tími var til á vaktinni var reynt að aka á móti honum að kvöldi.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Kristján Eldjárn og Gísli voru ágætir mátar. Auk þess sem nokkrir menn lögðu síðar til að Gísli fengi Fálkaorðuna fyrir söfnun upplýsinga, lýsinga og örnefna, skemmdi það ekki fyrir möguleikum hans að Kristján var þá orðinn forseti. Gísli lét síðan mynda sig með orðuna og var stoltur af. Hann og Kristján fóru margar ferðir saman á hina og þessa staði, bæði til að skoða og skrá.

Sögur:
Eitt sinn á næturvakt var Gísli að skrifa eitthvað eftir Kristrúnu og Sigurði á Hvassahrauni þegar hann reis allt í einu upp og sagði: “Æ, nú er ég búinn að gleyma því nafninu. Jæja, ég nota þá bara þetta”, sagði hann og stakk upp á öðru sennilegu, settist niður og hélt áfram að skrifa. En hafa ber í huga að sami staður gat heitið fleiri en einu nafni, allt eftir því hver sagði frá, við hvaða tíma var miðað og í hvaða tilgangi örnefnið var notað.
Gísli SigurðssonÞannig voru ekki allir alltaf sammála um nöfnin og vildu jafnvel stundum halda því fram að annað en þeirra eigin vissa væri ranghermi. Það þurfti þó ekki að vera, eins og dæmin sanna.
Eitt sinn í aðdraganda 17. júní var Gísla uppálagt að muna eftir að lyfta hendi í heiðurskveðju þegar þjóðsöngurinn væri leikinn. Gísli átti að vera á vakt á Hörðuvöllum. Þegar lúðrasveitin byrjaði á “Ísland ögrum skorið” lyfti Gísli og aðrir lögregluþjónar hendi að enni sér, en virtust fljótt átta sig á hvers kyns var. Hann lét höndina síga hægt og rólega og snérist á hæl svo lítið bar á. Hinir fylgdu á eftir. Þjóðsöngurinn var leikinn síðar.
Lögreglustöðin við Suðurgötu, nýbyggingin, var vígð árið 1947. Þar voru hurðir fyrir fangaklefum járnslegnar að innanverðu og einungis hægt að opna þær utan frá. Gísli þurfti eitt sinn að handtaka Magnús Gíslason frá Vesturhamri og færa í tukthúsið. Það þurfti oft að slást við Magnús. Þegar færa átti hann inn í klefann upphófust slagsmál sem endranær og náði Magnús einhvern veginn að krækja í hurðina með þeim afleiðingum að þeir lokuðust báðir inni í klefanum. Gísla tókst þó að tálga með vasahníf upp úr dyrastafnum eftir langa mæðu og losa sig úr prísundinni.
EGísli Sigurðssonitt sinn skilaði Gísli skýrslu um rúðubrot í verslun Valdimars Long við Strandgötu og handtöku gerningsmannsins. Hún var eitthvað á þessa leið: “Ég elti hann, en hann dreifði sér vestur Strandgötuna. Móts við Skafta (hús þar sem verslun Ól. Steins, var reist síðar) náði ég að umkringja hann”.
Gísli var kallaður á árekstursvettvang. Hann gerði uppdrátt eins og venja var. Á uppdrættinum var merktur rauður punktur og við hann stóð: “Hér stóð ég”. Gísli gat verið gamansamur, eins og sögur herma. Hann var líka traustur og gott var að vera með honum í átökum. Eftir að hann náði taki á einhverjum sleppti hann því ekki svo auðveldlega.
Gísli hafði mikinn áhuga á að aka lögreglubílnum. Kom til útkalls rauk hann jafnan fyrstur til , greip bíllyklana og þusti. Hann var hins vegar ekki alveg að sama skapi laginn ökumaður. Vantaði stundum svolítið á samhæfingu á milli tengils og eldsneytisgjafar, en allt bjargaðist þetta þó að lokum. Eitt sinn var útkall á Nýju bryggjuna vegna ölvaðra manna, sem þar voru að slást. Eftir að þeir höfðu verið afgreiddir og komið í bílinn kom í ljós að bílinn var fastur í bakkgírnum. Það vafðist þó ekki fyrir Gísla frekar en margt annað. Hann setti bara í gang og ók bílnum aftur á bak sem leið lá um bryggjuna, Strandgötu og staðnæmdist ekki fyrr en komið var framan við lögreglustöðina. Þegar taka átti mennina út úr bílnum var runnið af þeim öllum.
Gísli SigurðssonGísli var oft heppinn í sínum aðgerðum og afgreiddi mál oftar af skynsemi en nákvæmlega eftir laganna bókstaf. Þá átti hann það jafnvel stundum til að framkvæma án þess að hugsa, en allt fór þó yfirleitt vel að lokum. Hann kom m.a. einu sinni í veg fyrir stórkostleg slagsmál. Þannig var að lýður hafði safnast að lögreglustöðinni við Suðurgötu á þrettándanum með hrópum og köllum. Fór svo að hópurinn reyndi að loka lögreglumennina inni á stöðinni með því að bera hlera fyrir hurðina. Gísli tók sig þá til, náði að ryðjast út og byrjaði á því að rota þann fyrsta sem hann náði til. Við það lagði lýðurinn á flótta.
Gísli gat verið forn í orðavali og tali og hafði góðan orðaforða. Hann notaði t.d. orðið þormur fyrir stuðara á bíl, sem þá þótti sérstakt. Þá hafði hann sinn sérstaka hátt á að lýsa atvikum, sem stundum gat valdið kátínu.

Gísli með Egon Hitzler

Gísli með Egon Hitzler.

Lítillátur:
Eitt sinn hitti félagi Gísla hann í sjoppu í Keflavík. Félaginn spurði á hvaða leið hann væri. “Ég er svo sem ekki að fara neitt. Ég er bara á ferð með félaga mínum. Við ætlum hér norðureftir að líta á Skagagarðinn mikla”. Að því búnu gekk hann út og steig þar upp í bíl, sem beið fyrir utan. Undir stýri sat Kristján Eldjárn, fyrrv. þjóðminjavörður, sem þá var orðinn forseti Íslands.

Gísli með Egon Hitzler

Gísli með Egon Hitzler.

Garpur.
Gísli var fæddur og uppalinn í Árnessýslu. Hann fór á Íþróttaskóla á Hvítárbökkum í Borgarfirði, og var þar tvo vetur. Síðar keppti hann í sleggjukasti og í kúluvarpi. Steingrímur kynntist Gísla fyrst á árunum 1938 og 1939, þegar Steingrímur bar út póst. Gísli kom þá oft á pósthúsið fyrir sýslumann og ræddi við póstberana.
Eitt sinn hvatti hann Steingrím til að koma með sér upp á íþróttavöll á Holtinu til að reyna sig í hlaupum. Þar tók Gísli tímann og sagðist að því búnu myndi skrá hann á mót í Reykjavík daginn eftir. Varð úr að Steingrímur keppti þar í 1500 m og 3000 m hlaupum, varð fjórði í því fyrrnefnda, en annar í því síðarnefnda, af 10-15 keppendum. Síðar skráði Gísli hann í 10 km kappgöngu frá Árbæ, vestur Suðurlandsbraut, niður Laugaveg, inn Aðalstræti, um Suðurgötu og inn á Melavöll. Þetta var á sunnudagsmorgni í september. Gísli hafði þá á orði að Steingrímur hefði bara staðið sig vel. Hann hefði orðið annar í göngunni. Ekki fylgdi sögunni að keppendur höfðu einungis verið tveir að þessu sinni.
Gísli SigurðssonGísli var mikill íþróttamaður. Hann keppti m.a. í sleggjukasti, kúluvarpi og kappgöngu. Hann keppti alltaf í sleggjukasti í bæjarkeppnum milli Hafnarfjarðar og Vestmannaeyja. Sagan segir að eitt sinn hafi Gísli misst sleggjuna aftur fyrir sig í einni slíkri keppni á Hörðuvöllum og stefni hún beint á dómarana, sem stóðu til hliðar. Þeir sáu þó sem betur fer hvað verða vildi og náðu að skýla sér á bak við jarðfastan staur áður en sleggjan lenti á staurnum er bjargaði dómurunum.
Gísli keppti t.d. í kappgöngu á einu Íslandsmóti. Gísli varð nr. 1 og félagi hans nr. 2. Þegar lögreglumenn spurðu hvað hefðu verið margir í göngunni sagði Gísli: “Þeir voru a.m.k. tveir, svo mikið get ég sagt ykkur”.
Gísli var mikill skáti í sér og stundaði m.a. skátamótin í Krýsuvík samhliða því sem hann og félagar hans voru þar á vakt um tíma. Ástæðan var aðallega sú að bandarískir skátar voru þá á mótunum og nokkrir hernaðarandstæðingar áttu erfitt með að þola að sjá bandaríska fána þar við hún. Á nóttunni svaf Gísli í svefnpoka í fjárhellinum syðst í Bæjarfelli.

Lokaorð.
Gísli SigurðssonGísli Sigurðsson ólst upp í fátækt, varð snemma að aðstoða foreldra sína og vinna fyrir sér. Hann kynntist því snemma hvernig er að heyja erfiða lífsbaráttu við þröngan kost og erfiðar aðstæður. Mótaði það mjög hug hans og afstöðu til lífsins síðar meir. Gísli var eljusamur, ósérhlífinn og hjálpsamur. Hann lagði snemma stund á íþróttir og varði ásamt öðrum miklum tíma til að byggja upp og viðhalda íþróttastarfi í Hafnarfirði. Hann var í stjórnum margra ólíkra íþróttafélaga og varð sjálfur mikill afreksmaður.

Gísli Sigurðsson

Gísli, fremst lengt t.h. ásamt félögum ganga á undan skrúðgöngu um Hellisgötu.

Um og eftir þrítugt starfaði Gísli sem lögreglumaður og gegndi hann því starfi uns hann hætti fyrir aldurs sakir, þá sjötugur. Um og eftir miðjan aldur hóf hann að ræða við og skrá sögur og sagnir, upplýsingar og fróðleik ýmis konar eftir eldri Hafnfirðingum og síðar öðru fólki, bæði á Reykanesi og víðar. Safnaði hann m.a. upplýsingum um sögu Hafnarfjarðar, örnefni, gamlar leiðir og minjar og skrifaði margar greinar og erindi um efnið. Enn í dag leitar áhugafólk um útivist og göngur í yfirgripsmikið efni það er Gísli skyldi eftir sig og varðveitt hefur verið á Bókasafni Hafnarfjarðar og í Byggðasafninu. Þá hafa fjölmargir fræðimenn notið góðs af fjömörgum örnefnalýsingunum og öðrum skrifum er skoða þarf og meta hin ýmsu svæði byggðalagsins.
Gísli SigurðssonEf ekki hefði verið fyrir þetta starf Gísla væri margt af þessu með öllu glatað í dag. Margir núlifandi mættu taka hann sér til fyrirmyndar, safna fróðleik og efni frá eldra fólki, sem enn býr yfir mikilli vitneskju um liðna tíma og minjar, sem líklegt er að kunni að glatast ella.
Gísli lét ávallt gott af sér leiða. Störf hans og áhugi hafði ekki einungis jákvæð áhrif á meðan hann lifði. Hvorutveggja hefur jákvæð áhrif enn þann dag í dag. Eftirlifandi kynslóðir hafa notið og munu njóta góðs af því. Gísli var alþýðuhetja, sem verðskuldar að hans verði minnst, ekki bara af þeim sem hann þekktu heldur og þeim er bera hag uppvaxandi æsku og umhverfis fyrir brjósti. Hafnarfjörður, eftirlifandi samferðamenn Gísla og komandi kynslóðir eiga honum mikið að þakka.
Gísli Sigurðsson lést á Hrafnistu þann 30. okt. 1985, 82 ára að aldri.

Ómar Smári Ármannsson tók saman á aldarafmæli Gísla 23. júní 2003.

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Byggðasafn Hafnarfjarðar.

Krýsuvíkurkirkja

Eyjólfur Sæmundsson skrifaði þrjár greinar í Fjarðarpóstinn árið 1998 undir fyrirsögninni “Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður“:

Eyjólfur

Eyjólfur Sæmundsson

“Að undanförnu hefur orðið vart aukins áhuga Hafnfirðinga á Krýsuvík. Þessi víðáttumesta jörð í landnámi Ingólfs er að hluta í eigu Hafnfirðinga, en að hluta er eignarhaldið umdeilt og standa málaferli fyrír dyrum til að skera úr umþað. Sumir bæjarbúar þekkja Krýsuvík og eiga jafnvel uppruna sinn að rekja þangað. Aðrir hafa gengið þar um fornar þjóðbrautir eða hrjóstruga og víða hrikalega náttúruna sem er svo fjölbreytileg að undrum sætir. Þangað hafa menn sótt kraft og innblástur til sköpunar, svo sem Sveinn Björnsson listmálari sem þar hafði vinnustofu. Enn aðrir sjá fyrir sér nýtingu jarðvarmans og telja hann geta orðið auðsuppsprettu Hafnfirðinga.
En þeir eru líka fjölmargir sem lítið vita um Krýsuvík og þekkja ekki þá náttúruperlu, nema e.t.v. hina gjósandi borholu í Seltúni. Upplýsingar eru heldur ekki á lausu og full þörf á að bæta þar úr. Eyjólfur Sæmundsson hefur verið tengiliður bæjarins við Hitaveitu Reykjavíkur, m.a. varðandi hitaréttindin í Krýsuvík, en er auk þess áhugamaður um allt er varðar staðinn. Hann mun skrifa greinaflokk hér í blaðið til þess að upplýsa bæjarbúa um þessa náttúruparadís og kraumandi orkulind.

Inngangur

Grindarskörð

Kvöldsýn frá Grindaskörðum, ystu mörkum Krýsuvíkur í norðri.

Í þessum greinarflokki mun ég leitast við að gera lesendum nokkra grein fyrir málefnum Krýsuvíkur, landamerkjum jarðarinnar, tildrögum þessi að hún komst í eigu Hafnfirðinga, jarðhita sem þar er að finna og álitamálum sem uppi eru um eignarhald á landinu. Sögu og náttúrufari verða gerð nokkur skil, en það væri efni í langan greinaflokk eitt og sér ef vel ætti að vera.

Krýsuvíkurtorfan

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort; ÓSÁ

Þegar rætt er um Krýsuvík eða Krýsuvíkurland í dag er í raun átt við land jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og er það stundum nefnt Krýsuvíkurtorfan. Auk þessara jarða sem töldust eiga landið voru þarna allmörg kot, Norðurkot, Suðurkot, Snorrakot, Litli-Nýibær, Lækur, Fitjar, Arnarfell o.fl. voru á svæðinu umhverfis Bæjarfell og Arnarfell. Vigdísarvellir eru aftur á móti á milli Sveifluháls og Vesturháls og þar held ég að tvö kot hafi verið um skeið. Útræði var fram á síðustu öld frá Selatöngum sem eru austasti hluti Ögmundarhrauns þar sem það fellur í sjó fram. Þar eru miklar og merkar minjar sem friðlýstar hafa verið, en vert væri að gefa meiri gaum.

Víðátta og fjölbreytni

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Landsvæðið er gríðarstórt eða rúmlega 200 ferkílómetrar sem jafngildir 20.000 hekturum. Það nær frá Brennisteinsfjöllum í austri að Höskuldarvöllum í vestri og frá sjó í suðri að Vatnsskarði í norðri. Landslagið er ótrúlega fjölbreytilegt, eldfjöll, stöðuvötn, Krýsuvíkurbjarg sem er mesta fuglabjarg utan Vestfjarðakjálkans, framræstar mýrar, sprengigýgar, rennislétt helluhraun, úfin og illfær apalhraun, móbergshryggir, ófærar gjár, hellar, formfagrir eldgígar, litfögur hverasvæði og svo mætti lengi telja. Fáar jarðir á Íslandi, ef nokkrar, eru jafn fjölbreytilegar hvað varðar jarðræði og landmótun. Það er helst gróðurleysið og hin hrjóstruga ásýnd sem kann að virka fráhrindandi á suma. Vitað er að gróður var mun meiri á svæðinu fyrr á tímum og landið er illa farið af ágangi búfjár og manna. Enn beita Grindvíkingar fé sínu á svæðið þó vonandi hilli nú undir endalok þess.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

Jarðvegurinn er öskublandinn og mjög viðkvæmur. Nýlokið er könnun á ástandi gróðurfars og ljóst að mikið verk þarf að vinna við endurheimt landgæða.
Hraunstraumur fyllir víkina Byggðin sem lýst var að framan er ekki hin upprunalega Krýsuvík. Reyndar er ekki sjáanleg nein vík á ströndinni í dag sem landsvæðið gæti dregið nafn af. Líklegt er að hin upphaflega Krýsuvík hafi fyllst af hrauni þegar Ögmundarhraun rann árið 1151 (síðari ártöl hafa verið nefnd en þau koma ekki heim og saman við geislakolsmælingu á aldri hraunsins). Kapelluhraun rann í sjó fram í Straumsvík, hinum megin á nesinu um sama leyti, sennilega í sama gosi eða goshrinu.
Á hólma sem stendur upp úr Ögmundarhrauni má greina bæjarrústir sem að hluta fóru undir hraunið og nefnist hann Húshólmi. Líklegast er að þarna hafi hin gamla Krýsuvík staðið en hún lagst af í gosinu og íbúarnir fært sig ofar í landið. Þjóðsagan skýrir nafn Krýsuvíkur með frásögninni af tröllskessunum Krýsu og Herdísi sem heima áttu í víkunum og elduðu grátt silfur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Landnám og þróun byggðar
Byggð hefur verið í Krýsuvík frá landnámsöld, en hún var innan landnáms Ingólfs Arnarsonar. Í Landnámu segir frá því að Þórir haustmyrkur nam land í Herdísarvík og Krýsuvík og að Heggur sonur hans bjó að Vogi (Selvogi). Því er freistandi að álykta að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Lítið er vitað um sögu byggðarinnar gegn um aldirnar. Skipst hafa á skin og skúrir í mannlífinu þar sem annars staðar og mannfjöldi sveiflast upp og niður. Við manntalið 1801 voru 39 í Krýsuvíkursókn og er þá aðeins búið á jörðunum tveim og þremur kotum. Ekki er þá byggð á Vigdísarvöllum.

Stóri-Nýibær

Í fróðlegu viðtali í Lesbók Morgunblaðsins, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú? „Ég hefi reynt að halda í horfinu“, segir Guðmundur, „og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.“

17 systkini í Stór-Nýjabæ

Krýsuvík

Stóri-Nýibær 1944.

Eftir því sem leið á síðustu öld virðist íbúum hafa eitthvað fjölgað og hef ég heyrt að þeir hafi komist upp undir hundraðið þegar flest var í byrjun þessarar aldar, en það er óstaðfest. Allmargir Hafnfirðingar eiga rætur að rekja til Krýsuvíkur. Hjónin Magnús Ólafsson frá Lónakoti og Þóra Þorvarðardóttir frá Jófríðarstöðum bjuggu í Krýsuvík. Þau eignuðust 5 börn og komust fjögur upp.  Magnús dvaldist síðast á sumrin í Krýsuvík en flutti alfarið til Hafnarfjarðar 1945.
Hjónin Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Ölfusi og Kristín Bjarnadóttir úr Herdísarvík voru gefin saman í Krýsuvíkurkirju 8. september 1895 og bjuggu í Stóra-Nýjabæ þaðan í frá til 1933. Þau eignuðust 18 börn og komust 17 á legg. Frá þeim er mikill ættbogi kominn.
Guðrún Runólfsdóttir, langamma þessi sem þetta ritar, fæddist í Krýsuvík 1865. Þá sat þar Sigurður Sverresen sýslumaður og sóknarprestur var Þórður Árnason, bróðir Jóns Árnasonar þjóðsagnaritara.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvík

Útlit Krýsurvíkurkirkja árið 1810 fyrir endurbyggingu árið 1857.

Kirkja hefur sennilega verið í Krýsuvík frá ómuna tíð en sú sem nú stendur var reist árið 1857 af Beinteini Stefánssyni sem þá bjó á Arnarfelli en flutti síðar á Hvaleyri. Kirkjan fór í niðurníðslu og var endurvígð 1931 og svo aftur í maí 1964 eftir endurbyggingu sem Björn Jóhannesson bæjarfulltrúi stóð fyrir og kostaði af eigin fé. Yfirsmiður við það verk var kunnur Hafnfirðingur, Sigurbent Gíslason, barnabarn Beinteins sem upphaflega byggði kirkjuna. Hún er nú friðlýst og í umsjón Þjóðminjasafnsins [skrifað fyrir 2010 þegar kirkjan brann].

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara. Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.

Krýsuvíkurkirkja er fábrotin að allri gerð. Ef hún er borin saman við aðrar kirkjur frá svipuðum tíma, t.d. Skútustaðakirkju í Mývatnssveit, og gengið er út frá því að kirkjubyggingar endurspegli efnahag sóknarbarna, þá virðist ljóst að fremur hafi fólk verið fátækt í Krýsuvík um miðja síðustu öld. En Guðs ríki kemur til fátækra og margir skynja þann djúpa frið sem ríkir í þessu litla guðshúsi mitt í tröllaukinni náttúrunni.
Í þessari framhaldsgrein um málefni Krýsuvíkur er fjallað um landamerki hinna jarðanna þar, eignarnám þeirra og afsal til Hafnarfjarðar.

Árni Gíslason

Húshólmi

Húshólmi.

Vorið 1880 urðu nokkur straumhvörf í Krýsuvík. Þá flutti þangað Árni Gíslason sem verið hafði sýslumaður Skaftfellinga og búið að Kirkjubæjarklaustri, en haft annað bú í Holti. Árni þótti búhöldur mikill. Reisulegt tvíflyft timburhús sem hann bjó í hefur verið endurreist á byggðasafninu í Skógum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar.

Árni var sonur séra Gísla Gíslasonar í Vesturhópshólum. Bróðir Árni var Gísli Gíslasonar, síðari maður Skáld- Rósu, en þau bjuggu nokkur ár hér í Hafnarfirði í Flensborgarverslun og Óseyrarkoti. Árni lét af sýslumannsembættinu þegar hann flutti til Krýsuvíkur, en var þó gjarnan kallaður Arni sýslumaður í almannatali. Hann var einn mesti fjárbóndi landsins og hafði með sér hundruð fjár. Stór hluti þess strauk fljótlega og stefndi á heimaslóðir, en drukknaði flestallt í stórám á leiðinni. Sagt er að ein kind hafi komist alla leið heim í Holt.
Hvers vegna Árni fór frá embætti og eignum fyrir austan er ekki vitað. Það hlýtur að hafa farið gott orð af landkostum í Krýsuvík. Árni lést um síðustu aldamót og hvílir í kirkjugarðinum í Krýsuvík.

Gróðurkort

Gróðurkort af landi Hafnarfjarðar í Krýsuvík.

Landamerkjabréfið
Nokkru fyrir 1890 tóku gildi ný jarðalög sem kváðu á um að fyrir allar jarðir þyrfti að vera til þinglýst landamerkjabréf. Eigandi jarðar þurfti að standa fyrir gerð bréfsins og eigendur allra aðliggjandi jarða að skrifa upp á. Ef ekki voru uppi deilur um landamerki var greiður vegur að ganga frá málum.
Árni Gíslason gerði landamerkjabréf fyrir land Maríukirkju í Krýsuvík sem hann hafði keypt. Bréfið er dagsett 14. maí 1890 og því þinglýst 20. júní sama ár. Þar er Iandamerkjum lýst þannig:
1. að vestan; sjónhending úr Dagon (Raufarkletti), sem er klettur við sjávarmál á Selatöngum, í Trölladyngju fjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall, norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan; úr Markhelluhól, sjónhending norðan við Fjallið Eina í Melrakkagil (Markrakkagil (ofanlínu)) í Undirhlíðum og þaðan sjónhending að vesturmörkum Herdísarvfkur, eða sýslumörkum Gullbringu og Árnessýslu.
3. Að austan; samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, sjónhending úr Kóngsfelli, sem er lág, mosavaxin eldborg, umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn frá Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. Að sunnan nær landið allt að sjó.

Krýsuvíkurbúið

Krýsuvíkurbúið.

Allir nábúar skrifuðu upp á bréfið án umtalsverðra athugasemda, þar á meðal bændur á Vatnsleysuströnd sem skiptir miklu máli nú þegar landeigendur þar ásælast hluta landsins vegna jarðhitans. Athugasemd ábúenda Hvassahrauns um að “Markhellu” skyldi breytt í “Markhelluhól” var tekin til greina. Mótmæli séra Odds Sigurðssonar á Stað í Grindavík vegna vesturlandamerkja voru ekki tekin til greina enda var harm ekki aðili að málinu. Ýmislegt áhugavert kemur fram í bréfinu. Staðfest var t.d. að Krýsuvík ætti Sogasel en Kálfatjörn hefði þar sem ítak mánaðarselsetu á sumri hverju. Sogasel er í eldgíg sem er á jarðhitasvæðinu við Trölladyngju.

Landamerkjum breytt

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Áhöld voru um það hvar Melrakkagil væri en með umdeildum dómi 1971 var það ákveðið.
Árið 1980 var gerð “dómsátt” sem breytti landamerkjunum að austanverðu þannig að þau væru ekki beint úr Stóra-Kóngsfelli í Seljarbótarnef heldur úr fellinu í svonefndan Sýslustein og þaðan í nefið. Þetta færði sneið úr Krýsuvíkurlandi yfir til Herdísarvíkur sem er í eigu Háskóla Íslands. “Sáttin” var gerð án aðildar Hafnarfjarðar sem þó á mestu verðmætín á svæðinu, þ.e. jarðhitann í Brennisteinsfjöllum. Bæjaryfirvöld þurfa að krefjast ógildingar á þessum gjörningi. Eignarnámið á fjórða áratugnum fara Hafnfirðingar að sýna áhuga á því að eignast Krýsuvíkurland og beitti Emil Jónsson sér í því máli.
Með lögum nr. 11/1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Heimildin nær m.a. til jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar sem þá voru í eigu dánarbús Einars Benediktssonar skálds. Gerðu þau ráð fyrir að lönd þessi skyldu seld eða leigð bænum. Þessi lög þóttu óljós og taldi ríkisvaldið ekki unnt að afsala landinu eftir eignarnám á grundvelli þeirra. Því var þeim breytt með lögum nr. 101/1940. Í þeim segir: “Jarðir þær sem um getur í 4. tölulið 1. gr. skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað og Gullbringusýslu, þannig að sýslan fái í sinn hlut lítt ræktanlegt land jarðanna til sumarbeitar fyrir sauðfé, samkvæmt skiptagerð sem framkvæmd var af hinni þar til kjörnu matsnefnd, sbr. niðurlag þessarar greinar, 1. maí 1939. En Hafnarfjarðarkaupstaður fái jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem jörðunum fylgja og fylgja ber, að undanteknum námuréttindum.”

Afsalið til Hafnarfjarðar

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Afsal var gefið út 20. febrúar 1941, en einungis hluti landsins var lýstur full eign Hafnarfjarðar, þ.e. um 43 ferkílómetrar sem töldust ræktanlegt land og varð það síðar fært undir lögsögu Hafnarfjarðar. Hitaréttindum á öllu landi jarðanna fylgja í afsalinu, þ.e. einnig þau réttindi sem eru utan hins afsalaða landsvæðis. Bærinn hefur rétt til að athafna sig á öllu landinu vegna nýtingar hans. Greiddar voru kr. 44.000 fyrir hin afsöluðu réttindi samkvæmt matsgerð sem fyrir lá auk kostnaðar kr. 6.813,10. Ekki var greitt fyrir námuréttindi sem metin voru á kr.2.000 né lítt ræktanlegt land til sumarbeitar á kr. 5.000, þar sem þessi réttindi voru undanskilin. Greiðsla Hafnarfjarðar var fyrir jarðhita kr. 30.000, ræktanlegt land kr. 10.000, Krýsuvíkurbjarg kr. 4.000 og Kleifarvatn kr. O.
Ekki er kunnugt um að Gullbringusýsla hafi greitt fyrir beitarréttindin og ekki hefur verið gefið út afsal vegna þeirra.

Kúabú í Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvíkurfjósið.

Tilgangur bæjaryfirvalda með því að eignast Krýsuvíkurland var tvíþættur, að komast yfir jarðhitaréttindin til húshitunar í bænum og að koma upp kúabúi á vegum bæjarins. Meirihluti Alþýðuflokksins í bæjarstjórn stóð fyrir kúabúshugmyndinni gegn króftugri andstöðu Sjálfstæðismanna. Byggð voru heilmikil mannvirki, en hugmyndin komst þó aldrei í framkvæmd.

Umdeilt beitarland og námuréttindi

Seltún

Seltún – námuréttindin í Krýsuvík 1950.

Hér verður ekki farið út í lögskýringu á fyrrgreindum lögum og afsali, slíkt er fremur á færi annarra. Eðlilegt er að Hafnarfjörður krefjist eignarhalds á landinu öllu og láti á það reyna fyrir dómstólum. Það hefur verið undirbúið og er stefna í vændum. Til andsvars eru helst Grindvfkingar, en sá hluti landsins sem ekki var afsalað til Hafnarfjarðar er nú í lögsögu þeirra þó þeir eigi það ekki.
Í eignarnámslögunum kemur fram að ekki skuli afhenda Hafnarfirði námuréttindi, en í greinargerðum kemur fram að átt er við brennisteinsnámur vegna þess að eignarhald á þeim var óljóst eftir að erlendir aðilar höfðu eignast þau.
Í skjóli þessa hefur Landbúnaðarráðuneytið leyft stórfellda vinnslu jarðrefna við Vatnsskarð. Þetta verður að telja fullkomlega óeðlilegt. Engin hefð var fyrir slfkri efnistöku á svæðinu og vafasamt að hún teljist námaréttindi í skilningi eignarnámslaganna.

Hafnfirðingar standi á rétti sínum

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Ég leyfi mér að fullyrða að Landbúnaðarráðuneytið hefur verið Hafnfirðingum óvilhallt í gegnum tíðina og reynt að draga úr ítökum okkar eins og það hefur getað. Hér að framan var fjallað um breytinguna á landamerkjum 1980 sem gerð var að tilhlutan ráðuneytisins án samráðs við bæjaryfirvöld og vafasama efnistöku. Jafnframt stendur ráðuneytið í vegi þess að landinu sé öllu afsalað til Hafnarfjarðar, hefur margsynjað erindum þess efnis.
Þessu til viðbótar hefur ráðuneytið verið að kanna frekari skerðingu á landinu með breytingu á landamerkjum og fulltrúar þess farið í könnunarleiðangra með öðrum landeigendum í þessu skyni án minnsta samráðs við Hafnfirðinga. Þessari atlögu hefur tekist að hrinda, í bili a.m.k.
Hafnfirðingar þurfa að vera á varðbergi gegn ásælni annarra landeigenda á svæðinu og hlutdrægni ríkisvaldsins og krefjast síns réttar í Krýsuvík skilyrðislaust. Það er alveg ljóst af eignarnámslögunum að ríkinu var ekki ætlað að halda eftir neinum ítökum í Krýsuvfk öðrum en brennisteinsnámum.

Í nœstu grein verður fjallað um jarðhitann í Krýsuvík, mögulega nýtingu hans og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarfirði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.

Í þessari þriðju og síðustu grein um Krýsuvík er fjallað um jarðhitann þar, mögulega nýtingu lians og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarflrði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.

Eðli jarðhitans

Seltún

Í Seltúni.

Jarðhitasvæðum er skipt í tvo flokka. Svokallaður lághiti er á svæðum þar sem ekki er eldvirkni (t.d. Mosfellsbæ). Þar er vatnið oftast innan við 100’C og yfirleitt má nota það beint á dreifikerfi hitaveitna. Háhiti er á eldvirkum svæðum og fær vatnið þá hitann frá bráðinni eða nýstorknaðri bergkviku sem þrengt hefur sér inn í jarðlögin eða orðið eftir við eldgos. Hitastig vatnsins er mun hærra en á lághitasvæðum, allt að 300’C og jafnvel hærra.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Mikill þrýstingur er á vatninu og ryðst það út sem gufa ef borað er ofan í það og holan höfð opin. Þetta vatn er mettað af uppleystum efnum úr berginu og ekki hægt að nota það beint á dreifikerfi. Viðnám í jarðlögum er vísbending um jarðhita Þegar heitt vatn kraumar í jörðu leysir það upp ýmis efni úr berginu sem verður til þess að vatnið og jarðlögin sem það mettar leiða rafmagn mun betur en ella. Þvf hærri sem hitinn er þeim mun betur leíðir bergið rafmagn. Við rannsóknir á jarðhitasvæðum mæla menn viðnámið gegn rafleiðni. Því lægra sem það er, þeim mun betur leiða jarðlögin rafmagn og þeim mun sterkari vísbending er um jarðhita. Með þar til gerðum tækjum má mæla viðnámið djúpt í jörðu. Með því að kortleggja það á stórum svæðum þar sem jarðhita gætir má fara nokkuð nærri um útbreiðslu jarðhitans og uppstreymi.

Tvö háhitasvæði

Seltún - Trölladyngja

Seltún – Trölladyngja.

Á Reykjanesskaganum eru fimm háhitasvæði sem tengjast jafnmörgum megineldstöðvum. Þetta eru Hengill (Nesjavellir eru innan þess), Brennisteinsfjöll, Sveifluháls-Trölladyngja, Svartsengi og Reykjanes. Af þeim eru tvö í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar, Sveifluháls-Trölladyngja og Brennisteinsfjöll, og eru þau sýnd á kortinu sem fylgir greininni.
Svæðin teygja sig bæði út úr Krýsuvíkurlandi og eru hitaréttindin því sameign Hafnarfjarðar og annarra eigenda. Eins og fram kom í síðustu grein eignuðust Hafnfirðingar öll hitaréttindin í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar með afsali sem gefið var út 20. febrúar 1941 og greiddi fyrir þau kr. 30.000. Þetta gildir bæði um þann jarðhita sem er á þeim hluta landsins sem bærinn eignaðist og þeim hluta sem átti að vera beitarland Gullbringusýslu.

Sveifluháls-Trölladyngja

Seltún

Seltún árið 1950.

Þetta svæði hefur nokkuð verið rannsakað og tilraunir verið gerðar til nýtingar þess. Svæðið er nokkuð dreift, þ.e. viðnám í jörðu mælist lágt á mjög mörgum stöðum. Við Sveifluhálsinn og víðar er jarðhitinn áberandi á yfirborði, en annars staðar er hveravirkni vart sjáanleg.
Sveifluhálsinn er allur í landi Krýsuvíkur sem og fleiri „augu” á þessu kerfi þar í grennd. Borholan kunna við Seltún er ein nokkurra hola sem þarna hafa verið boraðar, flestar upp úr 1970. Því miður gáfu þær ekki nógu góða raun. Hiti er mikill ofarlega í jarðlögunum (efstu 500 m) en lækkar síðan eftir því sem neðar dregur í stað þess að hækka. Þetta bendir til þess að holurnar séu of fjarri meginuppstreymi hitans sem í raun og veru er ekki þekkt ennþá.
Við Trölladyngju eru tvö mjög álitleg hitasvæði sem kenna má við Sog og Eldborg. Landamæri Krýsuvíkur liggja í gegnum þessi svæði. Ein hola var boruð á Eldborgarblettinum upp úr 1970 og mældist þar hæsta hitastig í borholu á svæðinu öllu eða um 260’C. Hann lækkaði hins vegar þegar neðar kom eins og í öðrum holum sem boraðar voru og olli það vonbrigðum. Heitt svæði við Sandafell er hluti háhitasvæðisins, en það er utan landamæra Krýsuvíkur. Þar hefur ekki verið borað.
Nokkuð er um liðið síðan þetta svæði var rannsakað og holurnar sem boraðar voru þættu ekki merkilegar í dag. Nauðsynlegt er að rannsaka svæðið allt á ný með nýjustu tækni og ef menn hyggja á nýtingu þarf að bora 2 – 4 holur. Efnasamsetning vatns- og gasinnihald bendir til að þarna streymi upp mun heitara vatn en fannst í gömlu holunum eða allt að 290’C. Það væri mjög álitlegt til virkjunar.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum er minna rannsakað, þar hafa t.d engar holur verið boraðar. Orkustofnun hefur gert þarna viðnámsmælingar og birti um þær skýrslu haustið 1995. Niðurstöður gáfu skýra mynd af jarðhitasvæði sem þarna er og er það töluvert frábrugðið Sveifluháls-Trölladyngjusvæðinu, myndar meira eina heild eins og sést á kortinu. Hitastig á 700 – 800 m. dýpi er líklega um 240 °C en það gæti verið töluvert hærra á meira dýpi. Þetta svæði virðist efnilegt til nýtingar í framtíðinni. Hér erum við hins vegar komin í stórbrotna og lítt snortna náttúru og fara verður að öllu með gát.

Virkjun jarðhitans

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun.

Hagkvæmasta leiðin til að virkja háhitasvæði er að framleiða bæði raforku og heitt vatn. Heita vatnið er þá tekið út borholunum sem gufa við háan þrýsting og látið knýja hverfla og framleiða rafmagn. Afgangur orkunnar er síðan notaður til að hita upp ferskt vatn til húshitunar.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Ef einungis er framleitt rafmagn nýtast aðeins 10 – 15 % orkunnar, afganginum er kastað á glæ og það telst varla verjanleg nýting auðlindar sem annars myndi varðveitast að mestu í jörðu og nýtast komandi kynslóðum. Til umræðu hefur verið að nýta jarðhitann að hluta til iðnaðar á Straumsvíkursvæðinu og virðist það geta orðið vænlegur kostur. Þá gæti komið til greina raforkuvinnsla, iðnaðaraotkun og framleiðsla heits vatns, allt í senn. Kröfur Kyoto bókunarinnar gera okkur erfitt um vik að byggja frekari iðnvæðingu á brennslu eldsneytis og virkjanir á hálendinu eru umdeildar. Nýting jarðhitans getur skapað tækifæri sem eru laus við þessi vandamál bæði.
Nýtingu jarðhita á svæðum sem þessum má líkja við námavinnslu. Hitinn endurnýjast ekki og klárast því á endanum, nema eldgos eða kvikuinnstreymi eigi sér stað. Jarðhitinn er því ekki endurnýjanleg auðlind á sama hátt og vatnsaflið. Orkuinnihald einstakra svæða getur hins vegar verið geysimikið og kann að endast áratugum eða jafnvel öldum saman ef rétt er að nýtingu staðið.

Aðrir ásælast landið

Sog

Sog í Trölladyngju.

Eins og fram kom í síðustu grein eru rætur Trölladyngju að vestanverðu landamerki Krýsuvíkurlands. Þarna liggja landamærin í gegn um tvo heita reiti við Sog og Eldborg. Jarðirnar Stóra- og Minni Vatnsleysa eiga í þessum reitum einnig og er hlutur þeirra ámóta stór og Hafnfirðinga. Þessir landeigendur hafa talið sig eiga jarðhitann allan og viljað fá landamerkin færð upp í Grænavatnseggjar í fjalllendinu þarna fyrir ofan og notið stuðnings sveitarstjórnar Vatnsleysustrandarhrepps. Leitað var til Landbúnaðaráðuneytisins á árinu 1996 og beðið um atbeina þess í málinu. Eftir að ráðuneytið hafði legið yfir þessu í heilt ár var erindi landeigendanna loks synjað.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Hafnarfjarðarbær gerði samning við Reykjavfkurborg um hitaveitu í Hafnarfirði. 11. gr. hans hljóðar þannig: „Hitaveitan skal hafa rétt til jarðhitaleitar og virkjunar til húshitunar í eignarlandi Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Ef Hitaveitan rœðst til virkjunar í Krýsuvík ber henni að greiða bœjarsjóði Hafnarfjarðar hlutfallslega sama verð og hitaréttindin hafa kostað Hafnarfjarðarkaupstað samkvœmt mati á hitaréttindunum þegar kaupstaðurinn fékk þau, og hlutfallslegan kostnað hans af rannsóknum, sem fram hafa farið á jarðhitasvœðinu, samkvæmt nánara samkomulagi aðila. Þessi réttur Hitaveitunnar nær eingöngu til húshitunar og annarrar venjubundinnar notkunar Hitaveitu Reykjavíkur. Verðmæti þessi skal meta til verðs á sama hátt og Hitaveita Reykjavíkur notar til endurmats eigna sinna á sama tíma, sbr. 8. gr. Aðilar eru sammála um, að önnur notkun jarðhitans í Krýsuvík verði ákveðin þannig að möguleikinn til virkjunar til húshitunar verði tryggður.” Ekki verður betur séð en að með þessu ákvæði sé Hitaveita Reykjavíkur orðinn eigandi jarðhitaréttindanna í Krýsuvík að miklu leyti. Þó er hugsanleg sú túlkun að jarðhitaréttur bæjarins á því svæði sem hann fékk ekki afsal fyrir (beitarland fyrir Gullbringusýslu) falli ekki undir þetta ákvæði og sjálfsagt að láta á það reyna.

Víti

Víti í Krýsuvík.

Lokaorð
Um þessar mundir er mjög til umræðu hvernig Hafnarfjörður skuli standa að orkumálum í framtíðinni og horft til samstafs við Suðurnesjamenn. Sjálfsagt er eiga samstarf við þá, en það á alls ekki að útiloka samstarf við nýtt orkufyrirtæki Reykvíkinga í þessum málum. En við þurfum að gæta okkar því báðir þessir aðilar ásælast jarðhitann í Krýsuvík. Við þurfum að gæta vel að stöðu okkar og hagsmunum. En við þurfum einnig að huga að því að Krýsuvíkurland er náttúruperla og eitt víðáttumesta útivistarsvæði á Suðvesturlandi. Við verðum að finna leiðir sem gera okkur kleift að nýta auðlindirnar á ábyrgan hátt án þess að spilla landinu varanlega.”

Heimild:
– Fjarðarpósturinn – 40. tölublað (26.11.1998) – I – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 41. tölublað (03.12.1998) – II – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 42. tölublað (10.12.1998) – III – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.

Víti

Víti í Kálfadölum.

Hettustígur

Gengið var um forna stíga, götur og vegi á Sveifluhálsi. Allmörg örnefni eru tengd þessum leiðum yfir og eftir hálsinum.

Badstofa-26

Til nýjunga verður hins vegar að teljast nýlega merktur og stikaður Hettuvegur frá Ketilsstíg inn á Smérbrekkustíg og Krýsuvíkurleið um Rauðuskriðu. Ekki er vitað til þess að þessi leið hafi verið farin áður en hún  var merkt sérstaklega með nafninu “Hettuvegur” því sá vegur er sunnan og vestan undir Hettu en ekki norðan hennar, eins hann hefur nú verið merktur. Ferðamenn á leið til eða frá Krýsuvík hefðu heldur aldrei farið að klifra upp hæðir og klungrast niður í dali til að komast þennan kafla þegar þeir gátu farið afliggjandi götu sömu leið. Þá virðast leiðsögumenn á svæðinu ekki vera með fjallsheitin á hreinu og bulla bara einhverja vitleysu.
Að þessu sinni var gengið um Drumbdalaleið, Steinabrekkustíg, Hettuveg, Smjörbrekkustíg og Hattur 26Ketilsstíg. Á göngunni uppgötvaðist a.m.k. ein áður óþekkt leið, sem hefur greinilega verið farin talsvert fyrrum.
Í örnefnalýsingum er þessara leiða getið. Gísli Sigurðsson skrifar m.a. um svæðið: “Spölkorn vestar er allhár melhóll Bleikhóll nefnist hann af lit sínum. Yrpuhóll er nokkru vestar og ber einnig nafn af lit sínum. Bleikhóll er gulbleikur, Yrphóll brúnn eða jarpleitur. Þá kemur hryggur lítill fram úr hálsinum og bak við eða vestan við hann er Seltún. Þar eru Seltúnshverir. Þar rennur Seltúnslækur en upptök sín á hann í Seltúnsgili. Seltúnshvammur er austan lækjarins og Seltúnsbrekka og upp liggur í hlykkjum og bugðum Ketilsstígurinn. Að líkindum hefur Seltúnssel verið hér í hvamminum. Á vesturbakka lækjarins stóð Brennisteinsnámahúsið. Það var gott og vandað hús í upphafi.

Hetta-26

En um 1920 var það nær eingöngu notað sem fjárhús. Seltúnsfjárrétt var við það. Í brekkunni vestan við gilið voru Brennisteinsnámurnar voru þær virkjaðar um aldabil, en með löngum hvíldum á milli. Hér uppi í brekkunni voru hverir og hétu ýmsum nöfnum, svo sem Hattshverir. Pínir eða Pínisströkkur. Hann kom upp eftir jarðskjálfta og lét mikið í honum, eins og í eimpípu gufuskips. Hann hvarf líka við jarðskjálfta og kom þá upp Fúlipollur. Dalhitur og Hechelshver getur Jónas Hallgrímsson um og svo er var Beygingahver. En um alla brekkuna voru hveraaugu. Niður undan Pínir var Pínisbrekka. Niður undan brekkunni voru Seltúnsbörðin.

Hettuvegur-26Á einu barðinu var brennisteinshrúga, sem ekki hafði verið flutt burt er síðasta ferðin í Námur þessar var farin. Hér litlu vestar var Engjafell og þar var Engjafellshver. Neðan undir Engjafelli eru Vaðlarnir. Þá er komið að Vaðlalæknum. Upp með honum er farið og er þá komið í Hveradali. Þar var námagröftur í Hveradalanámum. Má enn sjá dálitla hrúgu brennisteins í Hveradalabrekkunni, sem ekki hefur verið hirt þegar námavinnslan hætti. Upp Námahvamminn lá Námastígurinn frá fyrrnefndri hrúgu upp þangað sem brennisteinninn var tekinn. Hér voru líka Smjörbrekkur. Smjörbrekkustígur upp í Smjörbrekkuskarð. Upp frá Hveradölum til suðurs var brött brekka, Baðstofubrekka, en þar uppi voru klettar með sérkennilegri lögun. Eru þeir nefndir Baðstofa af lögun sinni, en þeir eru eins og burstir tvær og gnæfa við himinn. Á flötum fremst í dölunum hafa nú risið Krýsuvíkurhúsin. Þar eru vermigróðurhús og íbúðarhús.

Krýsuvík

Krýsuvík. Grænavatn t.v. og Gestsstaðavatn t.h.

Þar fram undan er Gestsstaðavatn. Kringum það eru svo Gestsstaðamelar. Þess er vert að geta, að Gestsstaðavatn, Grænavatn, Augun og Stampar eru allt sprengigígar, eftir því sem jarðfræðingar telja. Hveradalalækurinn eystri rennur sem fyrr er frá sagt niður í Vaðlana og nefnist þar eftir þeim. Annar Hveradalalækur vestri kemur úr Hveradölum og rennur fram milli melanna. Lækur þessi er aðaluppistaðan í Krýsulæk vestri.
Fram undan melnum vestan lækjarins munu hinir fornu Gestsstaðir hafa staðið, sér þar móta fyrir rústum tveggja bygginga. Vestan þessa mela er lítill lækur og mætti nefna hann Gestsstaðalæk.
Smerbrekkustigur-26Gestsstaðamói liggur fram undan rústunum, fram á mýrina. Vestur héðan frá læknum litla liggur stígur um Steinabrekkur og nefnist Steinabrekkustígur. Alllangt hér vestur með hálsinum er svo komið að móbergskletti, sem nefnist Skuggi mun vera gamalt fjárskjól. Uppi á Hálsinum er fjárbirgi, sem einhverntíma hefur verið reft yfir. Fagraskjól nefnist það. Nokkru vestar er komið að öðrum klettum nefnast Svörtuklettar. Niður undan þeim er komið á Alfaraleiðina frá Krýsuvík til Grindavíkur. En þarna eru líka Vegamót, því héðan liggur upp á hálsinn Drumbsdalastígur, sem var kirkjustígur Vigdísarvallamanna. Einbúi er klettur enn vestar, en hjá honum sveigir vegurinn fyrir vesturenda Sveifluháls og sér hér inn í Drumbsdali. Framundan eru móbergsklettar, nefnast Borgarhólar og eru á vinstri hlið við leiðina. Hér sér enn til gamla troðningsins og hér eru vörðubrot að sjálfsögðu mikið gömul. Fram undan Borgarhólum er Borgin, Fjárborgin eða Borgarhólafjárréttin, því bæði var þetta fjárskjól og einnig var rekið að þarna fé úr Vesturheiðinni.”

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Ennfremur: “Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar á Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin. Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatni. Í vestur eru tveir hnúkar. Annar að sunnan heitir Hattur kúflaga en framan í honum eru Krýsuvíkurnámurnar og Seltún. Beint framundan er Hetta. Hattsmýri liggur milli hnúka þessara, en klofnar um Hattsmýrargil. Vestan undir Hettu er Hettuskarð og Hettuskarðsvegur eða Hettuskarðsstígur. Nokkrir nafnlausir tindar eru hér fyrir vestan og vestan þeirra er komið á Drumbsdalastíg.

Fagraskjól

Fagraskjól.

Á sunnanverðum hálsinum er Stóri-Drumbur, en norðar er Litli-Drumbur og milli þeirra Drumbsdalir. Hér fram undan eru Borgarhólar og Borgin. Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.”

Krýsuvík

Krýsuvík – kort

Einnig: “Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum. Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur. Þar er Bleikingsdalsvað þar sem Drumbsdalastígur liggur yfir lækinn. Síðan fellur lækurinn norður af og um móbergshjalla, þar sem hann hefur grafið sig niður í móbergið og myndað polla hylji, súlur og boga í margs konar myndum. Lækurinn fellur svo fram og rennur út á hraunið og eftir því og er að fylla gjótur þess og bolla. Þegar hingað er komið blasir við í vesturátt Mælifell Krýsuvíkur-Mælifell eða Innra-Mælifell. Austur úr Mælifelli gengur lágur Mælifellsháls. Austanundir Mælifelli eru Klettavellir. En frá hálsinum milli Mælifells og Borgarhóla liggur Mælifellsdalur. Sunnan í Mælifelli er Mælifellstorfa mið af sjó. Vestur úr Mælifelli gengur Mælifellsás, en framan í því að suðvestan liggur Alfaraleiðin, krækir fyrir hornið og liggur þar framhjá Ögmundardys.”

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af svæðinu segir m.a.: “Austur af Latsfjalli, norðan vegarins um hraunið, er fell það, sem heitir Krýsuvíkur-Mælifell, og suður af því, við suðurenda Sveifluháls, eru Borgarhólar. Norðaustur frá Borgarhólum fer svo hálsinn að myndast. Nokkuð þar austur með hálsrótunum er smáhnúkur einstakur, sem heitir Einbúi. Þar norður af er annar klettur, sem heitir Skuggi. Þar upp af er hár hnúkur á hálsinum, sem heitir Drumbur. Þar niður undan eru svo Drumbsdalir. Hér liggur yfir hálsinn vegurinn frá Vigdísarvöllum, er síðar getur, til Krýsuvíkur. Þessi vegur heitir Drumbsdalavegur. Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur, sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur.”

Krýsuvík

Krýsuvík – Hveradalur.

Ennfremur: “Í Hverafjalli eru margir smádalir með hverum, bæði vatnshverum og brennisteinshverum, og heitir það svæði Hveradalir. Nokkuð suður og vestur frá Hatti er hæsti hnúkurinn þarna, og heitir hann Hetta. Er líkast, að hér sé komin allstórvaxin risafjölskylda. Framan undir Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsum, og er það nafn nú glatað. Austan undir Hatti er hvammur sá, sem heitir Seltúnshvammur. Er komið niður í hann, þegar Ketilstígur er farinn, er síðar getur. Í hvamminum er Seltúnið. Þar eru nokkrir leirhverir, sumir dauðir, en í öðrum kraumar. Úr gili milli Hatts og Seltúns kemur Seltúnslækur, sem rennur um alldjúpt gil á jafnsléttu, Selgil. Þarna eru Seltúnshverir.

Kringlumýri

Kringlumýri – sennilega ein elsta selstaða landsins.

Framan við Seltúnið eru Brennisteinshúsarústir. Eru þær á Seltúnsbarði, sem er sunnan gilsins. Þar höfðu enskir menn brennisteinstöku á 19. öld. Voru þeir líka í Brennisteinsfjöllum. Þegar kemur niður úr Seltúninu niður á láglendið, er leiðin til Krýsuvíkur um Vaðla. Hér hefur gleymzt, að neðan undir Hettu Vigdísarvallamegin er Hettumýri).

Arnarvatn

Arnarvatn.

Norður af Hatti er á hálsinum vatn það, sem heitir Arnarvatn, og norðan þess er hár hnúkur, Arnarnípa. Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er kringlóttur, djúpur dalur eða skál niður í fjallið. Graslendi er í botni hans. Þetta er móbergsfjall, og liggur stígurinn í fullan hálfhring upp Ketilinn, hærra og hærra. Snarbrattar og sléttar skriður eru niður í botn, þegar upp kemur, sést, að hér er hálsinn klofinn norður að svonefndum Miðdegishnúk, sem er upp af Kaldrana, sem fyrr er getið. Þessi klofningur er sanddalir, sem heita Folaldadalir.”
Frábært veður. Gangan tók 4. klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík, Ari Gíslason skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík. Gísli Sigurðsson skráði.

Seltun-26

Í Seltúni.