Krýsuvík

 Eftirfarandi kafli er úr bók Bjarna Sæmundssonar “Um láð og lög”, sem kom út árið 1942. Bjarni fæddist á Járngerðarstöðum í Grindavík 15. apríl 1867 og var skírður af sér Þorvaldi Böðvarssyni á Stað. Hann mundi eftir fólki frá uppvaxtarárum sínum í Grindavík, en síður eftir örnefnum og merkilegum minjum. Í þessum kafla lýsir hann ferð með föður sínum til Krýsuvíkur þegar hann var u.þ.b. 6 ára til að “sækja í sel”, en svo virðist sem Járngerðarstaðabændur hafi átt innangegnt í Krýsuvíkurland til slíkra nytja á sjöunda áratug 19. aldar, eða um það leyti er selstöður voru að leggjast af á þessu landssvæði:

Gamla gatan - nú eyðilögð með leyfi Fornleifaverndar ríkisins

“Til Grindavíkurhrepps heyrði í uppvexti mínum Krýsuvíkursókn, höfuðbólið Krýsuvík og nokkrar hjáleigur, sem nú eru allar, ásamt sjálfri heimajörðinni, í eyði. [Skv. sóknarlýsingu Jóns Vestmanns (1840) voru eftirfarandi bæir byggðir á þessum tíma; heimajörðin Kýsuvík, Suðurkot, Norðurkot, Lækur, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær og Vigdísarvellir]. Krýsvíkingar lifðu sem sveitamenn á landbúnaði (sauðfjárrækt) og með fram á fiskveiðum og fuglatekju í Krýsuvíkurbergi (“Berginu”). Stundum tóku þeir kýr og kálfa af Grindvíkingum til hagabeitar á sumrin og hirtu smjörið og mjólkina (súrmjólk og sýrublöndu), sem Grindvíkingar svo sóttu til þeirra og spöruðu þeim þannig alla selmennsku, sem þá var að leggjast niður, en hafði áður verið tíð víða um Suðurkjálkann, eins og hin mörgu örnefni kennd við sel bera vitni um.
Eitt sumarið, er við áttum kýr í Krýsuvík, fór pabbi sem oftar “að sækja í sel” (hann gerði það víst á hálfsmánaðar fresti), og fékk ég að fara með (likl. 6 ára). Þða var nú heldur en ekki tilhlakk. Við riðum hvor sínum hesti og höfðum einn undir áburði, heilankerum undir sýru eða súrmjólk. Vegurinn var alllangur (21 km) og ekki góður; milli lágra fella, yfir hálsa, hraun og leirgötur og hestarnir latir áburðarhestar, sem vanastir voru klyfjaganginum og þurftu 5 klst. til Krýsuvíkur, sem með léttri reið tekur frá Járngerðarstöðum 3 1/2 – 4 klst. 

Vestari lækur í Krýsuvík

Vegurinn liggur um fjalllendi, er nefnist í daglegutali Hálsar, eftir móbergshryggjum tveimur lágum. Austurhálsi /Sveifluhálsi) og Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi), sem áður voru sameiginlega nefndir Móhálsar.
Mér leiddist ekki ferðin, þótt seint gengi. Ég var kominn þarna inn á milli fellanna, sem ég þekkti orðið sæmilega, heiman að séð, og hafði gert ráð fyrir, að hefðu aðeins tvær hliðar og litu því eins út báðum megin frá. Var ég því illa svikinn, er ég sáð, að þau voru gjör-ólík og óþekkjanleg, séð frá hinni hliðinni, og ein af mínum barnahugmyndum um lögun fjalla beið herfilegt skipsbrot. Varð ég nú að heita á pabba til að hjálpa mér, ekki eingöngu, þegar um smá örnefni, svo sem hálsa, kletta, gjáarsprungur o.fl. var að ræða, heldur og um fjöllin og fellin, sem ég í fyrsta sinni sá frá “hinni hliðinni”. Hafði hann lítinn frið fyrir spurningum mínum, en það vildi svo vel til, að hann var sérlega örnefnafróður maður, sem á yngri árum hafði fengizt mikið við smalamennsku á þessum slóðum.
Mógröf í KrýsuvíkNú var orðið lítið um smalamennsku þarna suður, smalar fáir og örnefnin týnast því miður, þau sem ekki eru þegar fest á kort.
Við gistum í Krýsuvíkurhverfinu (Suðurkoti), og sá ég þar í fyrsta sinni á ævinni læk (vestasta “vatnsfallið” á suðurströnd landsins) og smakkaði þar fyrst ósalt uppsprettuvatn. Einnig sá ég þar skrítna “steina”, dökk-mórauða á litinn, en mjög létta í sér, hlaðna upp í hrauk þar á hlaðinu. Það voru mókögglar! Mór þekkist tæplega út um Suðurkjálkann.”
Heimild:
-Bjarni Sæmundsson, Um láð og lög, Rvík 1942, bls.10-11Krýsuvíkurtorfan - uppdráttur.