Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 10. des. 1949 er fjallað um framkvæmdir í Krýsuvík, s.s. vegagerð, garðyrkjubú, kúabú og raforkuvinnslu. Þar segir m.a.:

krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn.

“Þegar menn tóku að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Kýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík hefur verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar hafa erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.sl. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tímum, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.
Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktarland milli Sveifluháls og Geitahlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurn tíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnaruymdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi.
Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka framkvæmdir í stórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og húsbyggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðustu áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marsmánuði síðsatliðnum. Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta við 1000 fermetrum. Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búreksturinn í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verið að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávallt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirra, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdir hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurrka landið. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar svo tugum hektara skiptir. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra. Keyptar hafa verið vélar til jarðrækar, flutninga o.fl. Það sem vantar fyrst og fremst er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og kaupa gripi.
Bústjórinn var ráðinn fyrir þrem árum, Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Er ekki vafi á að þegar búið tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni snertir.
Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, byggingakostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þenna kostnað.”

Vinnuskólin

Vinnuskólapiltar á leið í sundlaugagerð við Bleikhól. (HH)

Eins og kunnugt er varð aldrei af búrekstrinum í Krýsuvík. Bæði var það vegna þess að andstæð stjórnmálaöfl voru á móti honum og auk þess voru sett lög er skilyrti gerilseyðingu mjólkur til handa tilteknum leyfishöfum. Þar með varð framtíð kúabúsins í Krýsuvík dæmt til að mistakast. Fjósið hefur verið notað undir fé, svín og sem leiksvæði Vinnuskólabarnanna í Krýsuvík á sjöunda áratug 20. aldar.
Fjósbyggingin og súrheysturninn standa nú eftir sem minnismerki um háleita drauma og stjórnmálaleg umskipti.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 10. des. 1949.

Krýsuvík

Krýsuvík.