Rauðhólar

Rauðhólar eru þyrping gervigíga við Elliðavatn í útjaðri Reykjavíkur og tilheyra Heiðmerkursvæðinu. Upphaflega voru gígarnir um 80 talsins en hefur fækkað síðustu áratugi sökum efnistöku. Mestur hluti efnisins var nýttur í Reykjavíkurflugvöll á tímum heimstyrjaldarinnar síðari.

RauðhólarFyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Rauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp

Gervigígar eru fyrirbæri sem sagt er að ekki hafi fundist annars staðar en á Íslandi og reikistjörnunni Mars. Önnur dæmi hér á landi eru Álftavershólar og Landbrotshólar í Skaftafellssýslu (hvoru tveggja taldir vera í Eldgjárhrauni frá 934) og gígarnir við Mývatn, til dæmis Skútustaðagígar.

Rauðhólar

Gervigígar myndast þegar hraun rennur út í grunnt vatn eða yfir votlendi. Um gervigíga er hægt að lesa meira í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvernig myndast gervigígar? Rauði liturinn stafar af örsmáum ögnum af hematíti sem myndaðist í gosinu við oxun járns í bráðinni af völdum gufu.

Gervigígar myndast þegar helluhraun rennur í göngum út í vatn með vatnsósa seti. Kvikutotur þrýstast niður í setið, hvellsuða verður og gjall brýst gegnum þak hraungangsins upp til yfirborðsins. Kvika heldur áfram að streyma að og toturnar seylast æ dýpra niður í setið uns þær ná (í þessu tilviki) niður í jökulbergið undir.

Rauðhólar

Tjaldbúðir Komorowicz í Rauðhólum.

Rauðhólarnir urðu til fyrir 4700 árum þegar Leitahraun (Elliðavogshraun) rann frá gígnum Leiti hjá Bláfjöllum og allt til sjávar í Elliðavogi. Þar sem nú eru Rauðhólar var grunnt stöðuvatn sem hraunið varð að fylla áður en það héldi áfram þeirri ferð. Þýskur jarðfræðingur, Komorowitz, lýsti Rauðhólum árið 1912 og birti af þeim kort, hið eina sem til er af þeim óspilltum. Stærstu hólarnir voru 212 m að grunnþvermáli og risu 22 m yfir hraunið undir. Frá um 1940 og fram til 1960 voru þeir notaðir sem gjallnáma, einkum til að byggja Reykjavíkurvöll á stríðsárunum, en síðar í húsgrunna og vegi.

Rauðhólar

Rauðhólar eru þyrping af gervigígum. Sagt er að gervigígar hafi aðeins fundist á Íslandi og á reikistjörnunni Mars.

Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, áttaði sig fyrstur á því (1793) að gígar af þessu tagi eru myndaðir við gufusprengingar, en almennt var það ekki viðurkennt fyrr en Sigurður Þórarinsson lýsti gervigígunum við Mývatn um 1950. Áður töldu ýmsir þýskir eldfjallafræðingar þá vera sérstaka gerð af eldstöðvum, „svæðisgos“ (Aerialeruption), ólíka sprungugosum og gosum frá einstökum gíg.

Rauðhólar

Hús Vorboðans í Rauðhólum.

Á austur hluta hólasvæðisins var stór gígur sem hét Kastali. Vestur af honum var gígur sem nefndist Stóri-Rauðhóll og er hann að mestu leyti horfinn. Þaðan suðaustan af var Miðaftanshóll sem er einnig mikið raskaður.
Innan Rauðhólasvæðisins má í dag finna minjar um húsagrunna frá stríðsárunum. Með auknum athöfnum og ágangi á náttúruna sem fylgdi útþenslu borgarsamfélagsins jókst jafnframt meðvitund manna á því að vernda rétt náttúrunnar. Sumarið 1958 kvað Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur upp úrskurð sinn um friðlýsingu á Rauðhólasvæðinu. Sama ár samþykkti bæjarráð bann við því að skertir yrðu fleiri hólar. Árið 1961 var sá hluti sem ekki var stórskemmdur friðlýstur sem náttúruvætti. Á fyrsta náttúruverndarþingi árið 1972 var hvatt til þess að gerð yrði náttúruminjaskrá undir forystu Náttúruverndarráðs og var lagt til að Náttúruverndarráð í samvinnu við Náttúruverndarnefnd og áhugamenn myndi kynna sér þær náttúruminjar sem ástæða þótti til að lýsa sem friðlönd, þjóðgarða eða fólkvanga. Það var svo árið 1973 á fundi Náttúruverndarnefndar sem samþykkt var að óska eftir fólkvangsfriðun Rauðhólasvæðisins. Að tillögu Náttúruvernarráðs og samþykki frá borgarstjórn Reykjavíkur ákvað Umhverfisstofnun að friðlýsa svæðið sem fólkvang skv. 24. gr. laga nr. 47/1972 (Borgarskjalasafn Reykjavíkur). Svæðið var svo friðlýst sem fólkvangur 12. mars árið 1974 með auglýsingu í Stjórnartíðindum B nr. 185/1974, án athugasemda (Umhverfisstofnun, á.á.c). Með friðlýsingu svæðisins sem fólkvangur var það komið í umsjá sveitarfélagsins.

Vorboðinn

Vorboðinn

Vorboðinn – barnaheimili í Rauðhólum.

Í Alþýðublaðinu 1953 fjallar Svava Jónsdóttir um barnaheimilið Vorboðann í Rauðhólum:
“Árið 1933 var Fulltrúaráði verkalýðsfélagannna í Reykjavík leigð spilda á vesturhluta Rauðhólasvæðisins. Á þeirra vegum og vegum Alþýðuflokksins var á sumrin um nokkurra ára skeið haldnar útisamkomur á svæðinu. Síðar afhenti Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna, barnaheimilinu Vorboðanum leigulandið ásamt skála og var þar rekið um tíma sumardvalarheimili fyrir börn. Árið 1986 var á svæðinu starfrækt útileikhús þar sem sett var á svið brot úr Njálssögu (Páll Líndal, 1985).
Hér langar mig til að segja frá merkri starfsemi, sem fram fer í bókstaflegum skilningi við bæjardyr okkar Reykvíkinga, en fjöldinn hefur litla hugmynd um.
Ég á við sumardvalarheimilið í Rauðhólum, sem “Vorboðinn” hefur rekið með miklum myndarskap og þeirri atorku og alúð, sém jafnan mun segja til sín í störfum kvenna, þegar þær vilja beita sér fyrir góðu málefni.
En „Vorboðinn” er samtök alþýðukvenna, og standa að honum Verkakvennafélagið Framsókn, Þvottakvennafélagið Freyja og Mæðrafélagið. Þessi samtök hafa um langt skeið rekið sumarheimili fyrir börn, og nú allmörg síðustu árin í Rauðhólum, þar sem alþýðusamtökin á sínuni tíma helguðu sér land, girtu það og reistu skála sinn, sem enn er aðalhúsið, þó að Vorboðinn hafi tvisvar byggt við hann.
Rauðhólar eru frá náttúrunnar hendi eitt hið heppilegasta land, sem hægt er að hugsa sér til slíkrar starfsemi, grónir hraunhólar, með dældum, bollum og slökkum, sem gefa skjól við veðrum allra átta, breytileiki og fjölbreytni í landslagi ótrúlega mikil, byggingarefni er þar nærtækt fyrir smáar hendur, vegagerð hægt að stunda þar sumarlangt. Ekki má svo gleyma blessuðu lynginu, sem býður berin sín strax og kemur fram í ágúst, enda eru þau þegin eins og við eigum að: þiggja allir góðar gjafir — með fögnuði hjartans, sem einskis spyr.”

Rauðhólar

Bátur við barnaheimili Vorboðans í Rauðhólum.

Í Morgunblaðinu 1950 er fjallað um barnaheimilið undir fyrirsögninni “Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn”.
“Barnaheimilsnefnd Vorboðans hafði boð inni í gær og sýndi gestum barnaheimilið að Rauðhólum og skýrði frá starfsemi þess. Forstöðukona heimilisins er Þuríður Hringsdóttir. — Heimilið starfar tvo mánuði á sumri hverju og eru þar nú 81 barn á aldrinum þriggja til sjö ára.
Barnaheimilið Vorboðinn tók fyrst til starfa árið 1937. Gengust nokkrar konur úr Alþjóðasambandi Verkalýðsins fyrir stofnun þess, og leituðu til tveggja fjelaga, Þvottakvennafjelagsins „Freyju” og Verkakvennafjelagsins „Framsókn” um styrk í því sambandi. Var því vel tekið og seinna bættist Mæðrafjelagið í hópinn. Eru nú fimm konur úr hverju fjelagi í Barnaheimilisnefndinni.
Í byrjun var barnaheimilið rekið að Brautarholti í Skeiðum, síðan að Flúðum og svo eitt sumar að Þingborg í Flóanum. — Var þetta mjög erfitt fyrirkomulag, þar eð þurfti að fá lánaða heimavistarskóla, flytja þangað allt, sem með þurfti til heimilisins og síðan burtu aftur að haustinu.
Meðan á stríðinu stóð, annaðist Rauði Kross Íslands öll barnaheimili, en er því lauk, byrjaði Vorboðinn að nýju í smáum stíl í skóla að Ásum í Hreppum með 30—40 börn.
Fulltrúaráð Verkalýðsfjelaganna átti um þessar mundir skála í Rauðhólum, er notaður var fyrir skemmtistað, og var ákveðið að hann skyldi gefinn til reksturs Vorboðans það landrými er honum fylgdi, og hóf barnaheimilið starfsemi sína þar árið 1947. Var heimilinu veittur styrkur frá ríki og bæ, og í fyrra og hittiðfyrra var skálinn stækkaður og breytt svo sem með þurfti, og tekinn í algera notkun í fyrra.

Rauðhóla

Framnesvegur 66.

Rúmar hann nú 80 börn. Eru í honum tveir svefnskálar fyrir stúlkur og einn fyrir drengi, ásamt borðstofu, eldhúsi, herbergi fyrir forstöðukonu og starfsstúlkur, baðherbergi, þvottahúsi og ýmislegt annað. Er allt heimilið með miklum myndarbrag. Landrými er einnig mikið og gott.
Á barnaheimilinu vinna 13 stúlkur, að forstöðukonu meðtalinni. Meðlag með börnunum er mjög lágt og er markmið Vorboðans að taka einungis börn til sumardvalar frá þeim heimilum, sem örðugast eiga, og er von nefndarinnar að geta gert enn meira þeim til hjálpar í framtíðinni.
Árið 1933 var spilda í vesturhluta hólanna leigð fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík til útisamkomuhalds. Síðar var spildan ásamt skála, sem hafði verið reistur þar afhentur borginni á ný. Þar var rekið um tíma barnaheimilið Vorboðinn sem sumardvalarheimili fyrir börn.”

Í “Húsaskrá 2004” má lesa eftirfarandi um framangreint hús Vorboðans í Rauðhólum:
“Húsið er einlyft timburhús með risi. Það var flutt á lóðina við Framnesveg 66 árið 1982, en stóð upphaflega við Rauðhóla, austan við Reykjavík. Þar reisti fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík og Alþýðuflokkurinn skála fyrir sumarsamkomur, á spildu sem fulltrúaráðið tók á leigu árið 1933. Síðar var leigulandið ásamt skálanum afhent undir starfsemi sumardvalarheimilis Vorboðans fyrir börn frá fátækum heimilum, sem stofnað var 1935 og rekið af kvenfélögum í Reykjavík með styrk frá bænum. Snemma á 9. áratugnum var ákveðið að rífa barnaheimili Vorboðans og fékkst þá leyfi til að flytja hluta þess, einlyftan skála með leikfimisal, á nýja lóð við Framnesveg og endurbyggja þar sem íbúðarhús. Við endurbygginguna var skálinn styttur um nokkra metra, gerðir á hann gluggar og byggt ris með kvistum ofan á hann, en gólf og veggir héldu sér. Við þetta var notað efni úr þeim hluta barnaheimilisins sem var rifinn. Í nóvember 1982 var húsið fullklárað í núverandi mynd og var flutt inn í það sama mánuð.
Engar minjar er að sjá á staðnum, nema timburbát sem hefur trúlega verið notaður sem leiktæki.”

Skáli/skóli

Rauðhólar

Meintur skáli í Rauðhólum.

Skammt norðan húsgrunns Vorboðans er aflöng tóft, u.þ.b. 12 metra löng; þrískipt. Tóftin er skálalöguð og veggir grónir en vel greinilegir í grasivöxnu umhverfinu. Á Herforingjaráðskorti frá árinu 1908 er þarna getið um “Skóla” eða “Skála”. Kortið var gert löngu áður en Vorboðinn fékk úthlutaða lóð á nálægum slóðum (skammt vestar) og enn fyrr en hernaðarmannvirkin voru byggð í Rauðhólum.  Um athyglisverðar minjar er að ræða, en þeirra virðist hingað til ekki hafa verið getið í fornleifaskránigum af svæðinu.

Sumarskemmtun í Rauðhólum
Rauðhólar
Í Þjóðviljanum 1945 mátti lesa eftirfarndi um “Sumarskemmtun í Rauðhólum”.
“Sumarskemmtun í Rauðhólum í dag yerður fyrsta útihátíð Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum, og er það atburður, sem ástæða er til að reykvískir sósíalistar og allt reykvískt alþýðufólk, veiti athygli. Það var í mikið ráðizt þegar Æskulýðsfylkingin ákvað að taka Rauðhólaskálann á leigu og gera úr honum skemmtistað, eftir að hann hafði legið ónotaður um margra ára skeið og húsið drabbazt niður. Fylkingin hafði um langt skeið verið að svipazt um. eftir hentugum stað til sumarskemmtana í nágrenni bæjarins, og þegar Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna gaf æskulýðsfélögum sósíalista og Alþýðuflokksmanna kost á að fá Rauðhólaskálann leigðan, tók Æskulýðsfylkingin boðinu tveim höndum.
„Þú spurðir hvort yið hefðum ekki álitið þetta fyrirtæki ofviða félagsskap okkar”, segir Lárus Bjarnfreðsson, einn ötulasti forgöngumaður Rauðhólamálsins, í viðtali við Þjóðviljann í fyrrahaust, og heldur áfram: „En nú skal ég segja þér nokkuð. Við hófum þetta verk með það fyrir augum, að skapa samastað fyrir alþýðuæskuna í bænum, þar sem hún gæti komið saman til útiskemmtana og hollra leikja, en á slíkum stað hefur verið tilfinnanleg vöntun hér. í öruggri vissu um skilning félaga á þessu mikla nauðsynjamáli, leituðum við til þeirra um að leggja fram vinnu sína til þeirra endurbóta, sem þurfti að gera á staðnum. Félagarnir brugðust ekki trausti okkar, og sýnir það bezt félagsþroska þeirra, er að kvöldi þess sama dags og samningarnir um leiguna gengu í gildi, mættu á skrifstofu Æskulýðsfylkingarinnar yfir 30 manns, piltar og stúlkur, tilbúin að hefja starf”.

Rauðhólar

Grunnur Rauðhólaskálans.

Og unga fólkið kom oftar en þetta kvöld. Kvöld eftir kvöld, sunnudag eftir sunnudag, fór hópur reykvískra æskumanna upp í Rauðhóla, og vann þar í sjálfboðavinnu mikið verk og gott. Laugardags- og sunnudagskvöld, að loknu dagsverki, undu kátir félagar við söng, upplestur og sögur. Þetta var Reykjavíkuræska að eyða tómstundum sínum, við erfitt starf, unnið af þegnskap, landnámsstarf, óeigingjarnt og seinunnið, eins og slík störf eru oftast. Það kom í ljós að til þess að Rauðhólar gætu talizt boðlegur skemmtistaður, þurfti svo mikla vinnu, að ekki tókst að ljúka henni nógu snemma til þess að sumarskemmtanir gætu hafizt þar í fyrrasumar. En öllum þeim, sem voru á vígsluhátíð Rauðhólaskálans í fyrrahaust, varð ljóst, að þar hafði gott verk verið unnið, sú skemmtun varð minnisstæð, og að góðu einu. Nú er komið til kasta reykvískrar alþýðu að sýna að hún kann að meta það starf, sem þarna hefur verið unnið, og er ekki að efa að margmennt verður í Rauðhólum í dag.”

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum í maí 1946 er sagt frá “Glæsilegri útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum”.
“Á morgun býður Æskulýðsfylkingin Reykvikingum upp á einhverja fjölbreyttustu cg beztu skemmtun ársins.
Skemmtunin verður haldin uppi í Rauðhólum. Þessi atriði verða á. skemmtiskránni:
1. Ræða: Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur.
2. Upplestur: Elías Mar les kafla úr „Eldur í Kaupinhafn”, eftir Halldór Kiljan Laxness.
3. Söngur: Kátir sveinar, kvartett.
4. Glímusýning: Glímuflokkur frá KB sýnir.
5. Galdrasýningari Baldur Georgs.
Lúðrasveitin Svanur leikur milli skemmtiatriða.
6. Dans: Hljómsveit Björns R. Einarssonar leikur. Haukur Mortens og Alfreð Clausen syngja með hljómsveitinni. Þeir félagar eru vel þekktir fyrir söng sinn í útvarpinu nú fyrir skemmstu í tímanum „Lög og létt hjal”.
Auk þessara atriða mun Einar Arnórsson teikna skopmyndir af teim, sem þess óska, meðan á skemmtuninni stendur. Ennfremur fá mótsgestir að þreyta skotfimi sína og ýmsar aðrar listir í sérstöku tjaldi.
Æskulýðsfylkingin á þakkir skilið fyrir forgöngu sína í því að sjá Reykvíkingum fyrir góðum útiskemmtunum í nágrenni Reykjavíkur, enda mun æskulýður Reykjavíkur vafalaust kunna að meta þau fjölbreyttu skemmtiatriði, sem eru í boði í Rauðhólum á morgun.
Ferðir verða frá Bifreiðastöðinni Heklu eftir kl. 13 á morgun, en skemmtunin byrjar kl. 15.”

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum daginn eftir, 22. maí, er fjallað um skemmtanahaldið.
“Eins og sjá má af þessu, var hér um óvenju fjölbreytta og glæsilega skemmtun að ræða, enda hefur verið unnið af kappi að endurbótum á staðnum í vor, og er þeim framkvæmdum langt frá því að vera lokið. Tilhögun skemmtananna hefur verið breytt frá því sem var síðast liðið sumar. Öll skemmtiatriði nema íþróttir fara nú fram í stórum gíg norðan við skálann, og er þar skjól fyrir flestum áttum. Nýr danspallur hefur verið settur upp í laut suður af skálanum, og er hann alveg í skjóli.
Þrátt fyrir tvísýnt veður, einkum framan af degi, sóttu skemmtunina hátt á annað þúsund manns. Ölvunar varð lítið vart, en að því leyti eru Rauðhólaskemmtanir Æ.P.R. undantekning frá flestum öðrum útisamkomum.
Hollar útiskemmtanir eru sá þáttur skemmtanalífsins, sem Reykvíkingar hafa átt mjög lítinn kost á að kynnast.
Nafn Æskulýðsfylkingarinnar í Reykjavík er trygging fyrir góðum og vönduðum skemmtunum. Vonandi kunna bæjarbúar að meta þessa starfsemi félagsins, en það geta þeir bezt sýnt með því að sækja skemmtanirnar.
Hittumst heil á næstu Rauðhólaskemmtun!

Auk framangreinds var gerð tilraun til að reka leiksvið í Rauðhólum.

Njála í rauðum hlíðum

Rauðhólar

Frásögn af Rauðhóla-leiksviðinu í DV.

Í DV í júlí 1986 mátti lesa eftirfarandi um “Söguleikana” í Rauðhólum.
“Aðstandendur sýningarinnar á Njáls sögu lentu, sem kunnugt er, á nokkrum hrakhólum með stað fyrir leikritið eftir að endanlega hafði verið neitað um leyfi til að sýna það í Hvannagjá á Þingvöllum, þar sem óneitanlega hefði verið stórbrotið að sjá einmitt þetta verk leikið. En uppi í Rauðhólum fannst um síðir tilvalinn staður fyrir sýninguna, hraunhólamir mynda þarna litríka og sterka umgjörð um örlagasögu persónanna úr Njálu.
Þau Helga Bachmann og Helgi Skúlason hafa við gerð handritsins lagt leikrit Jóhanns Sigurjónssonar, Mörð Valgarðsson, til grundvallar, en hafa bæði skorið burt og annars staðar bætt inn í atriðum og tilsvörum beint úr Njálu sjálfri. Leiksýningin endar, eins og leikrit Jóhanns, á brennunni á Bergþórshvoli, en áður segir frá launráðum Marðar Valgarðssonar, sem með rógi og undirferlum kemur af stað þeirri óeiningu og hatri, sem leiðir til vígs Höskulds, og hefndarinnar, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma fyrir það. Miðdepillinn er þannig Mörður, afbrýðisemi hans og öfund, en í kringum hann öðlast allar hinar þekktu persónur Njálu líf, Njáll og Berþóra, kona hans, synir þeirra, Skarphéðinn og Grímur, koma hér við sögðu, Kári, Höskuldur Hvítanesgoði og Hildigunnur, kona hans, Flosi föðurbróðir hennar og Þórkatla, eiginkona Marðar.
Leikritið gengur upp sem sjálfstæð heild, og hinn óvenjulegi sýningarstaður skapar mikla stemmningu.

Rauðhólar

Leiksviðið í Rauðhólum.

Upphafsatriði sýningarinnar er mjög eftirminnilegt, tónlist Leifs Þórarinssonar hljómar að hólabaki og fornkappar og konur þeirra birtast uppi á háum hólum og ber við loft. Þarna er umhverfið nýtt til hins ýtrasta á áhrifamikinn hátt. Annars fer mestöll atburðarásin fram á balanum fyrir framan áhorfendapallana, en þar hefur lítillega verið bætt um betur frá því að lið þeirra Helgu og Helga kom á vettvang. Balinn er ágætis leiksvið en atriðið með Valgarði gráa í forleiknum sýndi að stundum hefði mátt nýta sér kosti umhverfisins betur og færa fleiri atriði upp í brekkurnar.
Leikendur eru flestir af yngstu kynslóð leikara, en til liðs við þá koma nokkrar þaulreyndar kempur. Þau Erlingur Gíslason og Ásdís Skúladóttir eru ungleg og stillileg sem Njáll og Bergþóra. Friðarræða Njáls og lokaatriðið er þau Bergþóra leggjast til hinstu hvíldar eru sterk atriði og vel flutt. Öllu meiri tilþrif fær Valdimar Flygenring tækifæri til að sýna í hlutverki hetjunnar uppstökku, Skarphéðins. Bróðir hans, Grímur, er leikinn af Þresti Leó Gunnarssyni og mágur þeirra bræðra, Kári, er leikinn af Skúla Gautasyni. Þeir standa þétt saman, bundnir af hetjuhugsjón og hefndarskyldu síns tíma.
Jakob Þór Einarsson er í hlutverki Höskulds Hvítanesgoða, og konu hans, Hildigunni, leikur Bryndís Petra Bragadóttir, og komast bæði nokkuð vel frá sínu. Rúrik Haraldsson er höfðinglegur Flosi og hann leikur líka heiðingjann gamla, Valgarð, sem illu heilli egnir son sinn, Mörð, gegn Njálssonum.
Aðalsteinn Bergdal, sem leikur Mörð, lykilpersónuna í leiknum, skapa eftirminnilega persónu. Mörður verður í túlkun hans trúverðugur jafnt í öfugsnúinni aðdáun sinni á Skarphéðni, sem í afbrýðisemi sinni og öfund. Kona hans Þórkatla, björt yfirlitum og algjör andstæða Marðar, er leikin af Guðrúnu Þórðardóttur. Búningar eru ágætlega hannaðir, utan skófatnaðurinn, sem var eitthvað vandræðalegur.
Aðstandendum sýningarinnar má þakka fyrir góða og nýstárlega sýningu og tel ég að enginn sé svikinn af því að leggja leið sína upp í Rauðhóla á næstunni.” – AE

Stríðsminjar

Rauðhólar

Rauðhólar – minjar bragga.

Í Rauðhólum voru herbúðirnar Thinker frá árinu 1943, það var miðstöð ratsjárkerfis, höfuðstöðvar stórfylkis, strandvarna og eða loftvarnastórskotaliðs. Fjölmargar minjar, einkum braggagrunna og vegi, má enn sjá í hólunum, einkum vestanverðum.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Rau%C3%B0h%C3%B3lar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=11583
-https://www.isor.is/25-raudholar-gervigigar
-Rauðhólafólkvangur, saga, verndun og nýting, Lena Rut Kristjánsdóttir, BS-ritgerð, Landbúaðarháskóli Íslands, 2009.
-Alþýðublaðið, Konan og heimilið, Svava Jónsdóttir, laugardagur 8. ágúst 1953, bls. 5.
-Morgunblaðið fimmtudaginn 6. júlí 1950, Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn, bls. 8.
-https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=567205
-Þjóðviljinn, sunnudaginn 8. júlí 1945, Sumarskemmtun í Rauðhólum, bls. 3.
-Þjóðviljinn, laugardaginn 18. maí 1946, Glæsileg útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum á morgun, bls. 1.
-Þjóðviljinn 22. maí 1946, bls. 3.
-DV, lagardaginn 5. júlí 1986, Leiklist; Njála í rauðum hlíðum – Auður Eydal, bls. 15.

Rauðhólar

Herminjar í Rauðhólum.