Færslur

Hnúkar

Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.

Hnúkar

Hnúkar – sel.

Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.

Hnúkar

Hnúkar.

Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.

Hnúkar

Hnúkar – vatnsstæði.

Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

Hnúkar

Lóa í Hnúkum.

Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Hraun

Margir, sem leið eiga framhjá Seltjörn veita eldri grágrýtissteinum athygli þar sem þeir liggja ofan á yngri hraunum. Í fljóti bragði virðist tilurð þeirra stinga í stúf við öll eðlileg lögmál. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði eftirfarandi í Náttúrufræðinginn um grettistök í nútímahraunum og þ.á.m. Seltjorn-1björgin við Seltjörn: “Allir kannast við hin svo nefndu grettistök, stórbjörg, sem oft er tildrað ofan á minni steina eins og þau hefðu verið færð þangað af mannahöndum, eða sem liggja á fáguðum klöppum ein síns liðs, stundum á brúnum hárra fjalla. Þjóðtrúin hefur sett þau í samband við Gretti hinn sterka og má vera, að í því felist ævaforn dýrkun orkunnar, og er það naumast framandi fyrir okkar tíma. Hvert mannsbarn veit að um er að ræða björg, sem jöklar hafa borið með sér og orðið hafa eftir, er jökullinn bráðnaði. Það vekur því enga athygli að finna þau á landi, sem jökull hefur gengið yfir, en talsvert er öðru máli að gegna, er þau verða á vegi manns ofan á hraunum, sem runnið hafa löngu eftir að ísöld lauk.

Seltjörn sú, sem hér er um að ræða, er sunnan við Vogastapa og skammt vestan við Grindavíkurveg. Hún er milli grágrýtisklappa í sigdal, sem stefnir norðaustur-suðvestur og fyllir þann hluta hans, sem lægstur er. Eftir lægðinni milli grágrýtisásanna vestur af Seltjörn hefur runnið hraun eftir að ísöld lauk og eftir að sjór hvarf af þessu svæði, en síðla á síðustu ísöld gekk sjór yfir það, eins og sjá má af lábörðu grjóti víðs vegar um Vogastapa. Hraun þetta er komið frá Sandfellshæð, sem er stór dyngja um 5 km vestur af Stapafelli. 

Seltjorn-2

Hrauntungan, sem runnið hefur austur eftir áðurnefndum sigdal nær austur í Seltjörn. Skammt vestur af tjörninni liggur dreif af grágrýtisbjörgum ofan á þessu hrauni. Steinar þessir eru í ýmsum stærðum, allt frá sæmilegum „hálfsterk” upp í björg, sem vart eru minna en 8—10 tonn. Þau liggja ofan á hrauninu og hvergi hef ég séð þess merki að þau hafi sokkið ofan í það, en víða má sjá hraungára (hraunreipi) liggja inn undir steinana og án þess að hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, þótt um stórbjörg sé að ræða. Sum björgin liggja þvert yfir sprungur í hrauninu. Engin merki sjást þess, að grágrýtisbjörgin hafi orðið fyrir hitaáhrifum frá hrauninu. Björg sem þessi eru dreifð í jökulurðinni um allan Vogastapa, en hvernig hafa þau komist ofan á hraunið? Það kostaði mig talsverðar vangaveltur að komast að því sanna hvað þetta varðar, en ég tel það nú liggja fullkomlega ljóst fyrir.
Hraun-221Grágrýtisbjörgin eru ættuð af svæðinu sunnan Vogastapa og skriðjökull hefur skilið þau eftir á jökulhefluðum klöppum, væntanlega ekki langt frá þeim stað, þar sem þau eru nú. Meðan stóð á gosum í Sandfellshæð hefur hraunið náð að renna austur dalinn milli grágrýtisásanna allt austur í Seltjörn. Hraun þetta er dæmigert dyngjuhraun. Það hefur verið þunnfljótandi, heitt og hefur runnið nánast eins og þunn leðja og því mun hraunið þarna ekki þykkt. Hraunið hefur runnið umhverfis grágrýtisbjörgin og undir þau, lyft þeim upp og síðan hafa þau borist með hraun straumnum eins og jakar á vatni. Hraunkvika, sem misst hefur verulegan hluta af því gasi, sem upprunalega var í henni, hlýtur að hafa nokkru hærri eðlisþyngd en storknað hraun enda þótt munur á efnasamsetningu þeirra sé nánast enginn. Hliðstæður eru vatn og ís og sú staðreynd, að storknaðir hraunflekar fljóta á rennandi hrauni. Nánast enginn munur er á samsetningu hraunanna frá Sandfellshæð og grágrýtisins (Jónsson 1972) og hlutfallið milli eðlisþyngdar hins rennandi hraun og grágrýtisbjarganna því væntanlega ekki ósvipað og milli íss og vatns.
Grágrýtið á Suðurnesjum og eins kringum Reykjavík er yfirleitt frauðkennt og eðlisþyngd þess virðist að mestu leyti vera á bilinu 2,66—2,78 og ólivíninnihald um 8—14% (Jónsson 1972).
Hvað grettistökin ofan á nútímahrauni varðar, hef ég fundið þau víðar en við Seltjörn. Eitt slíkt heljarbjarg liggur ofan á hrauni suðaustan við Vogastapa og dálitla dreif af slíkum framandsteinum er að finna norðan í Brúnum, þ. e. utan í dyngjunni miklu, sem er norðan undir Fagradalsfjalli, en frá henni eru Strandar- (Vatnsleysustrandar) hraunin komin. Af ofannefndu má ljóst vera, að þar sem svona björg finnast getur aðeins verið um eitt hraun ofan á jökulurðinni að ræða.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 45.árg. 1975-1976, bls. 205-209 – [
HEIMILDARIT; Jónsson, 1972: Grágrýtið, Náttúrufr., 42: 21-30].

Seltjörn

Við Seltjörn.

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Sandfelli um Hrútagjádyngju og á hellasvæðið norðan hennar.
Við Sandfell er Hrútfell, sem dyngjan dregur nafn sitt af. Á Dyngjatoppi þess stendur hrúturinn. Hrúthólmi er vestan dyngjunnar og Hrútafell sunnar. Dyngjan sjálf er mikil um sig. Gígurinn er hringlaga og sléttur í henni vestanverðri. Út frá honum liggja myndarlegar hrauntraðir er mynduðust er hraunið rann fyrir u.þ.b. 4500 árum síðan.
Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.

Húshellir

Við Húshelli.

Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir úr helluhraunslögum. Gígbarmarnir rísa venjulega ekki yfir umhverfið en fyrir kemur að hraundrýli rísi meðfram gígbörmunum eins og sjá má á Selvogsheiði (Hnúkum). Í hraundrýlunum og í nágrenni þeirra má oft sjá pípulaga bergmola sem myndast þegar gas brýtur sér leið í gegnum hálfstorknaða kvikuna. Algengt er einnig að hrauntjarnirnar tæmist og myndast þá oft djúpur ketill með bröttum veggjum.
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar, sem er á mörkum eldborgar og dyngju.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Utan Íslands eru dyngjur sjaldgæfar nema á Hawaii-eyjum þar sem þrjár dyngjur eru enn virkar. Úr dyngjunum renna oft mikil hraun, sbr. Sandfellshæðina, Þráinsskjöld, Heiðina há og Hrútargjárdyngju.
Hrútargjárdyngja er einstaklega fallegt jarðfræðifyrirbæri. Barmar meginhraunsins hafa lyfst á gostímanum og myndað veggi og gjár með köntunum. Hrauntraðirnar eru miklar vegna hins mikla hraunmassa og hafa myndað gerðarlega og greiðfæra ganga um hraunið.
Hellunum neðan Hrútargjárdyngju er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, sjá meira HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Árni Hjartarson – JÍ 2003.

Húshellir

Í Húshelli.

Grindavík

Grindavík og umhverfi bæjarins er hraun, mismunandi gömul. Flest hraunin mynduðust umleikis hraun frá ísaldarskeiðum fyrir 14000 – 8000 árum. Önnur eru yngri, þau yngstu frá því á 13. öld.

Grindavík

Grindavík – Þorbjörn. Illahraun fremst og Þórkötlustaðanes fjærst.

Þorbjörn, bæjarfjallið, er úr móberg frá eldri jökulskeiðum Bruhnes. Þvert í gegnum það liggur misgengi.

Hagafell austan Þorbjarnar er einnig úr móberg frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs.

Húsafell og Fiskidalsfjall ofan Hrauns eru úr móberg frá seinni hluta síðasta jökulskeiðs. Grágrýishetta þekur efsta lag móbergsins.

Siglubergsháls, á milli Fiskidalsfjalls og Festarfjalls er úr grágrýti á stöpum og móbergshryggjum. Grágrýtishetta á móbergi.

Grindavík

Grindavík – Festarfjall.

Festarfjall er úr móbergi frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs. Á því er grágrýti á stöpum og móbergshryggjum. Sjávarmegin, neðst, má sjá ummyndað móberg frá fyrra jökulskeiði.

Fagradalsfjall norðan Festarfjalls er úr móberg frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs. Á því er stapagrágrýti.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

Slaga ofan Ísólfsskála er úr móbergi frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs, þakið grágrýti á stöpum og móbergshryggjum. Ísólfsskáli stendur á Borgarhrauni neðanverðu.

Höfði austan Fagradalsfjalls er úr móbergi frá eldri jökulskeiðum Bruhnes. Grágrýti er ofan þess.

Vatnsheiði er dyngja ofan Húsafells. Aldur: <14.500 >12.500. Bærinn Hraun stendur m.a. á Vatnsheiðahrauninu. Hraunið er Pikrít.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst.

Gerðavellir vestan Járngeðarstaða er hraun frá Sandfellshæð. Aldur: ~13.600 ára. Hæðin er dyngja.

Staðarhverfi er einnig úr hrauni frá Sandfellshæð. Berghraunið/Klofningahraunið er bæði vestan og austan við Stað, Eldvarpahraunið rann síðan yfir það að hluta.

Strýthólahraun

Strýthólahraun.

Hópsness- og Hópsheiðarhraun kemur úr heiðinni ofan Hóps. Hraunið myndaði m.a. Hópsnes- og Þórkötlustaðanes, auk núverandi bæjarstæði Grindavíkur. Á Þórkötlustaðanesu austanverðu er Strýthólahraun. Aldur: <11.500 >8000.

Eldra Beinavörðuhraun milli Sundhnúka og Fagradalsfjalls kom úr gígun undir Sundhnúkahrauni. Aldur: <11.500 >8000.

Yngra Beinavörðuhraun liggur aað hluta til ofan á Eldra Beinavörðuhrauni. Aldur: <11.500 > 8000 ára.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall. Merardalir.

Hraun austan við Einihlíðar milli Fagradalsfjalls og Höfða. Aldur: <11.500 >8000.

Klifhólar/Selháls/Svartsengisfell (Sílingarfell) sunnan og austan Þorbjarnar er hraun og kleprar. Aldur: ~4500 cal yrs B.P.

Þorbjörn

Þorbjörn – Klifhólahraun.

Hraun á Lágafelli og í Lágafellsheiði er dyngjuhraun. Aldur: <11.500 >8000.

Borgarhraun sunnan Fagradalsfjalls og Borgarfells. Aldur: <11.500 > 8000 ára.

Dalahraun austan Sundhnúka. Aldur: <8000 >>3000.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes fremst.

Skollahraun og yngra Afstapahraun (Katlahraun) austan Ísólfsskála. Aldur: ~2000.

Sundhnúkshraun/Háahraun/Blettahraun austan og vestan við Sílingarfell.  Sundhnúkahraun myndaði auk þess Slokahraunið til suðausturs. Aldur: <3000 >2000.

Eldvörp

Eldvarpahraun.

Berghraun/Klofningahraun austan Þorbjarnar. Aldur: ~2100 ára.

Arnarseturshraun/Illahraun/Eldvarpahraun norðan Sílingarfells og norðan og vestan Þorbjörns. Aldur: 1210-1240 AD.

Heimild:
-Ísor.is – jarðfræðikort.

Jarðfræðikort

Grindavík – jarðfræðikort; ÍSOR.

Arnarsetur

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um Arnarseturshraun á Gíghæð ofan Grindavíkur og reynir að áætla aldur þess. Arnarseturshraun, sem rann úr gígum efst í Arnarsetri, nefnast ýmsum nöfnum, en hafa þó það sameiginlegt að hafa runnið úr sömu goshrinum (-hrinum):

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – kort.

Hraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt því 0,44 km\ en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Út frá þeim skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár. Sú var og niðurstaða mín (Jón Jónsson 1978, bls. 258-9). Hins vegar hafa nú rannsóknir leitt í ljós að svo getur ekki verið, og er hraunið talsvert eldra, en eigi að síður frá sögulegum tíma.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – óbrennishólmi, norðan Litla-Skógfells.

Óbrennishólmi einn lítill er skammt fyrir neðan Litla-Skógfell og eftir árangurslausa leit á nokkrum stöðum fórum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og grófum þar við hraunröndina. Fundum við þar bæði landnámslagið og Kötlulagið, hið fyrra undir, hið síðara ofan á hrauninu. Af jarðvegssniðinu má ráða að talsvert lengri tími hafi liðið frá því að landnámslagið féll til þess að hraunið rann, en frá því til þess að Kötlulagið féll. Sýnist því að þetta gos gæti vel hafa orðið eitthvað nálægt 1300, samanber töflu I.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 134-135.
Afstapahraun

Ferlir

Í Morgunblaðinu 2006 fjallar Örlygur Steinn Sigurjónsson um “Hellana í Brennisteinsfjöllum“:

“Í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi er áhugavert útivistarsvæði sem státar af fjölmörgum hraunhellum, skrifar Örlygur Steinn Sigurjónsson að lokinni gönguferð um svæðið í fylgd kunnugra.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Það er alltaf sérstök og dulúðug stemmning að fara í hellaferð og hvernig gat mann grunað að hin margumræddu Brennisteinsfjöll lumuðu á talsverðum fjölda hella sem vert er að skoða? Fróðir ferðafélagar á borð við Ómar Smára Ármannsson frá gönguhópnum FERLIR og Einar Júlíusson frá Hellarannsóknafélagi Íslands eru nauðsynlegir á ferðum sem þessum en einnig má þess geta að bæði umrædd félög halda úti heimasíðu, www.ferlir.is og www.speleo.is. Ekki er úr vegi að geta þess einnig að Hellarannsóknafélagið hefur á heimasíðu sinni lýst yfir stuðningi við framtíðarsýn Landverndar undir yfirskriftinni „Reykjanesskagi – eldfjallagarður og fólkvangur“. Segir ennfremur að
framtíðarsýnin grundvallist á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri nýtingu á auðlindum Rekjanesskagans.
Hellarannsóknafélag Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við þetta verkefni og telur það sérstaklega ánægjulegt að vernda eigi stór hraun, hraunmyndanir og gíga sem eru einstakir á heimsvísu. Segir Hellarannsóknafélagið að Brennsteinsfjöllin og næsta nágrenni við þau sé stærsta ósnortna landsvæðið á Reykjanesskaganum og hafi að geyma ótal marga hella sem hafa verið lítt rannsakaðir. Gígarnir og hraunin séu ótalmörg og hvert og eitt einstakt út af fyrir sig og mikil þörf á að vernda þetta svæði í heild sinni.
Undir þetta getur hver sá sem skoðar sig um á svæðinu tekið heilshugar og víst er að af nógu er að taka. Bara í þeirri ferð sem farin var að þessu sinni var í senn farið í þekkta hella og leitað nýrra.

Rannsóknarlögreglan neðanjarðar

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

Um gönguhópinn FERLIR er það að segja að hann stóð upphaflega fyrir Ferðahóp rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík og hefur vaxið fiskur um hrygg frá stofnun árið 1999. Segja má að félagsskapurinn sé nú orðinn ein helsta uppspretta þekkingar á hellum, seljum, letursteinum, skútum, fjárborgum og fleiru á Reykjanesskaganum. Lögð er nokkur áhersla á að fá staðkunnuga á hverjum stað til að fræða þátttakendur í hverri ferð og eru

Lýðveldishellir

Við op Lýðveldishellis.

Ferlisferðirnar nú orðnar vel yfir eitt þúsund talsins. Því fylgir nokkuð sérstök tilfinning að ferðast með rannsóknarlögreglumönnum í leit að hellum og guð hjálpi þeim heimska bófa sem dytti í hug að ramba inn á Reykjanesið með ránsfeng eða fíkniefni og telja góssið öruggt í fyrsta hellisskúta sem hann fyndi. Með þeirri aðferðafræði myndi skrattinn aldeilis hitta ömmu sína en það er önnur saga. Ferlisfélagar eru heldur ekki eingöngu rannsóknarlögreglumenn heldur fólk úr lögreglunni almennt og allir þeirra vinir eða vandamenn. Sérstök derhúfa er veitt sem viðurkenning fyrir fimm Ferlisferðir. En gönguhópurinn hefur nú nýtt undanfarin misseri til að ganga um hin einstöku svæði á Reykjanesi og var upphaflegt markmið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta. En þrátt fyrir ferðirnar þúsund eru enn stór svæði ókönnuð. Hafa Ferlismenn nú skoðað á fjórða hundrað hella og nafngreinda skúta svo fátt sé talið.

Kistuhellar

Í Kistuhellum.

Finna má urmul leiðarlýsinga á heimasíðu Ferlis og má samsinna fullyrðingum um að svæðið á Brennisteinsfjöllum, þ.e. Kistufell, Kista og Eldborg, sé ótrúlegur undraheimur með ósnertum litskrúðugum hellum og einstökum náttúrufyrirbærum er nauðsynlegt er að standa vörð um þessa einstöku veröld, segir þar.
Á liðnum árum hafa uppgötvast þarna langir hellar og enn er svæðið langt í frá fullkannað. Gangan yfir að hellasvæðinu í Brennisteinsfjöllum tekur 2–3 klukkustundir og er haldið frá bílunum við Breiðdal við Kleifarvatn. Upp úr Hvammadal er fylgt gömlum stíg sem áður var genginn milli Kaldársels og Krýsuvíkur. Þegar upp á brúnina er komið er beygt til vinstri til að fylgja stíg austur með brúninni yfir á slétta hraunhellu Kistuhrauns, sem liggur þar milli Kistufellshraunsins í austri og Eldborgarhraunsins í vestri. Undir hinu síðarnefnda og vestar sjást fleiri Eldborgarhraun. Gangan getur talist löng og sjálfsagt er að reikna með heilum degi í hana fram og tilbaka að meðtöldum hellaferðunum.

Duttu niður í Lýðveldishellinn

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Í vesturhlíðum Kistu er svokallaður Lýðveldishellir sem dregur nafn sitt af því að þann 17. júní árið 1994 fundu Guðmundur Löve og Þröstur Jónsson hellinn. Samkvæmt frásögn Ferlis voru þeir þarna á ferð í mikilli þoku og rigningu þegar þeir svo til „duttu“ niður um opið á hellinum. Er hann um 200 metra langur. Ferlismenn leituðu þessa hellis á sínum tíma en við þá leit uppgötvaðist annar hellir, sem fékk heitið Þjóðhátíðarhellir Norðmanna því hellisfundinn bar einmitt upp á 17. maí. Hellisopin eru ekki langt hvort frá öðru, en reyndar sinn í hvoru hrauninu, segir á Ferlisvef.
FerlirAð þessu sinni var farið ofan í annan helli sem Ferlismenn fundu líka og heitir sá FERLIR og er þarna í nágrenninu. Er þetta með litskrúðugri hellum landsins og ógleymanlegur þeim sem niður í hann fara. Lítil hraunbreiða sem þar er að finna er svo óveðruð að halda mætti að hraunið væri nýrunnið og -storknað. Þótt aldur þess sé talin í mörgun öldum virðist það samt svo glænýtt og það er töfrum líkast og horfa á þetta fyrirbæri sem gæti jafnast á við að hitta fyrir ungbarn úr grárri forneskju.
Í raun jafnast fátt á við góða hellaferð. Ljóst er að margfalt fleiri hellar en eingöngu Raufarhólshellir standa fólki til boða. Sjálfsagt er að taka með góð ljós og hlýjan fatnað sem má skemmast við mögulegan núning í hellunum. Nesti og ferðatilhögun þarf að ganga frá og sýna góða umgengni hvar sem farið er.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 350 tbl. 24.12.2006. Hellarnir í Brennisteinsfjöllum, bls. 52.

Ferlir

Skrautlegar jarðmyndanir í hellinum FERLIR.

Björn Hróarsson

Í Lesbók Morgunblaðsins 1990 fjallar Björn Hróarsson um “Hellanöfn síðustu ára – tilurð nafngifta”:

Björn Hróarsson

Björn Hróarsson.

Á síðustu árum hefur hellafræði skotið rótum á Íslandi. Íslendingar hafa eignast sína fyrstu hellafræðinga og til er Hellarannsóknafélag Íslands. Þessi áhugi hefur leitt til þess að fundist hafa fjölmargir nýir hellar og mörg ný hellanöfn litið dagsins ljós.
Hellanöfn síðustu ára eru 57 talsins og hér skipt niður í átta flokka eftir nafngift.
Fyrst eru hér tekin dæmi um nokkur hellanöfn úr hverjum flokki og greint frá tilurð þeirra.

Skálarbarmshellir (Skálafell)
Það var snemma árs 1990 sem félagar úr Hellarannsóknafélagi Íslands voru við hellaskoðun á Reykjanesi. Í hvirfli Skálafellsdyngju er gígur eða skál og umhverfis að sjálfsögðu gígbarmar. Utantil í barmi gígsins að austan fannst hola og hellir undir. Á heimleiðinni, að hellaskoðun lokinni, hófust eins og svo oft áður rökræður um nafn á hinn nýfundna helli. Niðurstaðan varð Skálarbarmshellir enda gengur hellirinn niður í skálarbarm. Hér réð fundarstaður nafni.

Gullbringuhellir (Hvammahraum)

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Gullbringuhellir, eða hið minnsta niðurfallið í hann, hefur verið þekktur um nokkurn tíma en nafnið er nýlegt. Nafnið tekur mið af fjallskolli skammt frá sem nefnist Gullbringa (308 m.y.s.). Hér fékk hellirinn nafn af nálægu örnefni.

Híðið (Hrútagjárdyngja)
Híðið
Þann 18. júní 1989 voru tveir Birnir (Finnsson og Hróarsson) að leita hella í Hrútagjárdyngju. Fannst þá hellir sem nefndur var Híðið eftir veru Bjarnanna þar inni. Þess má geta að annar Bjarnanna hefur lagst til hvílu í Híðinu ásamt tveimur félögum sínum í Hellarannsóknafélagi Íslands. Lágu þeir þar í dvala næturlangt og líkaði vel. Hér var nafn dregið af finnendum.
Húshellir (Hrútagjárdyngja) Húshellir fannst sumarið 1988 og fékk nafn af mikilli hleðslu, húsi, sem í hellinum er. Hér réð utanaðkomandi fyrirbæri í hellinum nafni.

Hafri (Selvogsheiði)
Hafri er ekki stór en gólfið í honum er mjög upphleyptá köflum. Ekki er það ósvipað því sem sjóði í afar stórum grautarpotti og af þeirri ímynduðu grautársuðu tók hellirinn nafn. Hér réðu innviðir hellisins nafni.

Hvassi (Hallmundarhraun)
Hvassi er mjög óþægilegur yfirferðar. Skríða þarf um mestallan hellinn sem ekki er auðvelt sökum þess hve gólfið er oddhvasst. Hér réðu innviðir nafni.
Spunahellir (Gullborgarhraun) Við hellaskoðun í íslenskum hraunhellum er sjaldgæft að rekast á lífverur. Lifvera fannst ekki í Spunahelli en þar er hins vegar köngulóarvefur. Hér réð utanaðkomandi fyrirbæri í hellinum nafni.

Langiþröngur (Purkhólahraun)

Langiþröngur

Langiþröngur.

Langiþröngur (320 m) er 18. lengsti hraunhellir landsins en lengsti hellir í Purkhólahrauni. Hellirinn er þröngur og áberandi langur miðað við aðra hella í nágrenninu. Hér réð lega hellisins nafni.

Selhellar (Purkhólahraun)
Fyrir enda þessa mikla hellakerfis er holur hóll. í honum eru mannvistarleifar, sem gætu bent til að um gamalt sel væri að ræða. Svo taldi hið minnsta hellamaðurinn sem fyrstur kannaði hellana og gaf þeim samheitið. Selhellar. Hér réð utanaðkomandi fyrirbæri í hellinum nafni.
K-l, K-2, K-3, K-4 og K-5 (Kerlingarhólahraun) Fimm hellar hafa fundist í Kerlingarhólahrauni og lengi gengu þeir aðeins undir samheitinu Kerlingarhólahellar. Nýlega yoru þeir hins vegar – nefndir K-l til K-5. Hér réð nýstárleg aðferð, raðtöluaðferðin, nafngiftunum. Ástæður hennar eru e.t.v. andagiftarleysi við nafngiftir eða sú ástæða að vilja ekki hrúga niður mörgum nýjum örnefnum á lítið svæði.

Togarahellir (Þeistareykjahraun)

Togarahellir

Togarahellir.

Töluverð saga er kringum nafn Togarahellis. Um 1960 var flokkur manna við mælingar á Þeistareykjum en ekki yar veður til starfa. Skiptist hópurinn þannig að tveir gengu út en hinir lögðust til hvílu. Þeir tveir sem út gengu fundu Togarahelli. Í honum er vatn og má þar sigla á gúmmíbát nokkra tugi metra. Finnendunum var hins vegar í mun að sýna fram á ágæti gönguferðarinnar í stað skálaverunnar svo þeir lýstu hellinum fjálglega þegar í skála kom og sögðust hafa fundið helli þar sem sigla mætti síðutogara kílómetrum saman. Sagan þróaðist eftir því sem árin liðu og að lokum fékk hellirinn nafnið Togarahellir. Hér réðu utanaðkomandi atvik nafni hellisins.

Jörundur (Lambahraun)

Jörundur

Jörundur.

Jörundur fannst á hundadögum og því
var ákveðið að nefna hann í höfuðið á Jörundi hundadagakonungi. Hér réðst nafngiftin af utanaðkomandi atriðum.
Vörðuhellir (Syðra-Eldborgarhraun) Þegar Vörðuhellir fannst 4. júlí 1947 var innst í honum varða, hlaðin 15.7. 1922. Ákveðið var að nefna hellinn eftir vörðunni. Hér réð utanaðkomandi fyrirbæri í hellinum nafni.
Tvíbotni (Syðra-Eldborgarhraun) Tvíbotni er víða á tveimur hæðum þar sem storkuborð ná saman og þar eru tveir botnar í hellinum. Þá opnast niðurfallið ekki við enda hellisins þannig að út frá því má ganga í botn hans í báðar áttir. Hellirinn hefur því tvo botna hvernig sem á hann er litið — er Tvíbotni. Hér réðu innviðir hellisins nafni.
Vegkantshellir (Syðra-Eldborgarhraun) Hellismunni Vegkantshellis er rétt við vegkant.- Hér réð því staðsetning nafni.
Fallhellir (Syðra-Eldborgarhraun) Fallhellir gengur milli tveggja niðurfalla en hefur ekki önnur op til yfirborðs. Vegna niðurfallanna fékk hellirinn nafnið Fallhellir. Hér réði því lega hellisins nafni.

Samantekt
Þá hefur í stuttu máli, verið gerð grein fyrir ástæðum er liggja að baki nokkrum hellanöfnum úr hverjum flokki.
Rétt er að líta á öriitla samantekt þeirra ástæðna sem réðu nafngiftum á þeim 57 hellanöfnum sem til hafa orðið á síðustu árum.

Dátahellir

Dátahellir.

1. Raðtöluaðferðin réð nafni (16 hellar, 28%): K-l, K-2, K-3, K-4, K-5, T-2, S-l, S-2, S-3, S-4, S-5, S-6, S-7 og S-10.
2. Innviðir hellis réðu nafni (9 hellar, 16%): Gljái, Hruni, Hafri, Fosshellir, Hvassi, Stúthellir, Dímon, Tvíbotni og Súluhellir.
3. Utanaðkomandi fyrirbæri í helli eða við hann réðu nafni (9 hellar, 16%): Húshellir, Rótahellir, Áni, Rjúpnahellir, Sandi, Spunahellir, Selhellar, Vörðuhellir og Lambhellir.
4. Lögun og/eða lega hellis réð nafni (7 hellar, 12%): Aðalhola, Aukahola, Flóki, Strompahellir, Bratti, Langiþröngur og Fallhellir.
5. Nafn dregið af finnanda eða finnendum (6 hellar, 11%): Dátaskúti, Híðið, Hjartartröð, Árnahellir, Halur og Litli-Björn. Þess skal getið að aðeins í einu þessara tilfella gaf finnandi hellinum nafn sitt.
6. Nálægt örnefni stjórnar nafni (4 hellar, 7%): Gullbringuhellir, Kistufellshellar, Hellirinn eini og Klofahellir.
7. Utanaðkomandi atvik eða atburður réð nafni (3 hellar, 5%): Togarahellir, Jörundur og Stullahola.
8. Fundarstaður ræður nafni hellis (3 hellar, 5%): Skálarbarmshellir, Lofthellir og Vegkantshellir.
Athygli vekur að 20 nöfn eða aðeins 35% af þessum 57 nöfnum enda á -hellir. Þegar öll íslensk hraunhellanöfn eru aftur á móti skoðuð kemur í ljós að um 70% þeirra enda á -hellir. Því virðist sem nafngefendur hella á síðustu árum hafi mun frekar en áður sleppt endingunni -hellir.

Kistuhellar

Í Kistuhellum.

Raðtölunafngiftin hefur verið notuð á flesta hella, þrátt fyrir að henni hafi aðeins verið beitt á þremur stöðum. Aðferðinni fylgja bæði augljósir kostir og gallar en e.t.v. skekkir hún nokkuð mynd þá er sýnir orsakir nafngifta á hellum.
Með því að sleppa raðtölunafngiftinni og einfalda myndina enn frekar fæst eftirfarandi tafla sem verður hér látin standa sem lokaniðurstaða þessarar samantektar á tilurð nýlegra nafngiftá á íslenskum hraunhellum: Fyrirbæri í helli ráða nafni: 18 hellar eða 44%. Lögun og/eða lega ræður nafni: 7 hellar eða 17%. Nafn dregið af finnendum: 6 hellar eða 15%. Nálæg örnefni stjórna nafni: 4 hellar eða 10%. Utanaðkomandi atriði ræður nafni: 3 hellar eða 7% Fundarstaður ræður nafni: 3 hellar eða 7%.”
– Höfundur er jarðfræðingur og formaður Hellarannsóknafélags Íslands.

Hafa bera í huga að í dag, 2021, eru fleiri en 1200 hraunhellar þekktir á Íslandi. Margt hefur breyst á skömmum tíma, ekki síst á Reykjanesskaganum, síðan framangreind virðingarverðu skrif voru sett á prent.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 41. tbl. 15.11.1990, Hellanöfn síðustu ára – tilurð nafngifta, Björn Hróarsson, bls. 2.

Ferlir

Í hellinum Ferlir í Brennisteinsfjöllum.

Tobba

Á Vísindavef HÍ er fjallað um myndun kviku og mótun hrauns:
“Bergkvika (kvika, bergbráð, bráð – e. magma) er blanda af bráðnu bergi og gufum, sem ættuð er úr iðrum jarðar. Við storknun kvikunnar skiljast gosgufurnar úr henni, en við storknun bráðarinnar verður til storkuberg. (Þorleifur Einarsson: Jarðfræði).

Kvika

Kvika.

Í einfölduðu máli þá notum við orðið kvika (eða samheiti þess) um efnið niðri í jörðinni. Þegar efnið (mínus gosgufur) fer að renna á yfirborði, og eins þegar það er storkið, þá köllum við það hraun.
Bergkvika myndast við bráðnun bergs í möttli (basalt) og skorpu (ríólít) jarðar. Efnasamsetning hennar er mjög mismunandi eftir myndunarstað, en algengustu tegundir bráða innihalda 45-75% SiO2 og myndast við 1200-700°C á 100-3ja km dýpi í jörðinni.
Hraun (e. lava flow) merkir einkum breiðu eða lag af storknu bergi, en einnig ó- eða hálfstorknuð hraunbráð. Orðið höfðu landnámsmenn með sér frá Noregi þar sem það mun merkja grjóturð eða berghlaup, samanber Hraun í Öxnadal. Í Noregi eru engar eldstöðvar og Íslendingar yfirfærðu orðið til nýrrar merkingar eins og sést af frægum orðum Snorra goða frá Helgafelli á Þingvöllum árið 1000: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Setningin sýnir að Íslendingar skildu snemma tilurð hrauna í eldgosum.”

Á Wikipedia er fjallað um tegundir hrauna, storkun og myndanir:

Eldvarpahraun

Eldvarpahraun – Blettahraun.

“Hraun er bráðið berg eða möttulefni sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 – 1200 °C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum. Hraunið sem rennur þá inniheldur minna af uppleystum efnum (gösum) en kvikan.

Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.

Eldvarpahraun

Eldvarpahraun – Blettahraun.

Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.

Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru “Aa-lava” (apalhraun) og “Pahoehoe” (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii-eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.”

Heimildir:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63785
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hraun

Katlahraun

Katlahraun.

Hrútafellshraun

Nýlega barst FERLIR eftirfarandi póstur:
“Sæl og blessuð. Datt í hug að senda þessar myndir sem ég tók í síðustu viku þegar ég fór að finna ratleiksmerki 27 við Búðavatnsstæðið.
Á göngu eftir Hrauntungustíg sá ég hvar slétt Hrútagjárdyngjuhraunið var eins og upprétt eða uppsprengt á talsvert löngum kafla. Getur þú útskýrt fyrir mér hvaða fyrirbæri er þetta sem var þarna í gagni á sínum tíma?
Það er alveg meirihátta að sjá hraunið svona. Hef prufað að ganga yfir það og langar ekki að reyna það aftur.
Með bestu kveðju, Guðmundur Gunnarsson.”

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Svar FERLIRs var: Sæll Guðmundur, þetta er bæði sérstakt og merkilegt hraunhaft í Hrútargjárdyngjuhrauninu, sem rann fyrir ca. 7000 árum. Þegar hraun rann síðar til norðurs frá gígum norðan við Hrútafell náði það að lyfta upp hraunhellunni í jöðrum þess þannig að hraunflekar risu upp og mynduðu þessar stórbrotnu hraunmyndanir.
Eldsumbrotaskeiðið, sem stóð í um 450 ár, hófst um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraunið fyrrnefna. Síðastnefnda hraunið rann niður með Hrútagjárdyngjunni, sem fyrr sagði. Um 1151 rann svo Ögmundarhraun (sem heitir ýmsum nöfnum) á þessum kafla, frá Lat í suðri að Helgafelli í norðri. Það hraun setti einnig svip sitt á landslagið, en þó einkum austan Dyngjunar.”

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Guðmundur svaraði: Sæl, Takk kærlega fyrir greinagóða lýsingu á fyrirbærinu. Það hefur myndast gríðarlegur þrýstingur á hraunið þarna svo það brotnaði „mélinu smærra“ ef svo má að orði komast.
Mér finnst allt umhverfi Hrútagjárdyngunnar alveg einstakt og gaman að horfa á gjárnar miklu sem hafa líklega myndast við jarðsig þegar toppur dyngjunnar brotnar niður. Það er einnig gaman að ganga með henni að „utanverðu“ alveg til móts við Fjallið eina og raunar allan norðurkantinn líka.
Þakka fyrir frábæran vef, Ferlir. Hann er gríðarlega mikil þekkingarbanki um eiginlega allan Reykjanesskagann og þar hef ég leitað að upplýsingum um hitt og þetta um langt skeið. Ég byrjaði óvart í ratleiknum árið 2006 þegar ég rakst á merki við Undirhíðarnar og datt þá inn á þinn frábæra vef og hef margoft notað hann síðan mér til fróðleiks og skemmtunar.”

Á Haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010 var m.a. fjallað um Hrútafellshraun, sem hingað til hefur flestum verið hulið:

Landnámslagið

Landnámslagið (Settlement) í sniði.

“Kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hefur leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja. Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.
Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr. (Karl Grönvold o.fl. 1995), finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess (Magnús Á. Sigurgeirsson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 2000).

Kristnitökuhraun

Jarðfræðikort.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind (Jón Jónsson 1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu síðustu tvö sumur kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld. Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár.

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).

Sogin

Hraun norðan Soga.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.
Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi.

Hvammahraun

Hvammahraun.

Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn. Bergfræðirannsókn hefur ekki farið fram á hraununum, en samkvæmt athugunum Jóns Jónssonar (1978) er Hvammahraun fremur ólivínríkt.
Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum.”

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennsteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Rannsóknir benda til að þar hafi gosið samtímis eða því sem næst. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun. Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun.

Vörðufellsborgir

Vörðufellsborgir.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin. „Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér: “Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3.000-3.500 árum, 1.900-2.400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir Magnús á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hólósen ([nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfunum á 900-1.100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.
Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 kílómetra langar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.
Síðasta eldsumbrotaskeið stóð í um 450 ár. Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun.
Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/Hellnahraun.
Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í óbrennishólmum.

Stampar

Stampar.

Eftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs. Allgóð vitneskja er fyrir hendi um framgang Reykjaneselda 1210-1240. Eldarnir hófust með gosi í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi (skammt norður af Valahnúk). Eftir þetta færist gosvirknin á land og rann þá Yngra-Stampahraun frá 4 kílómetra langri gígaröð, líklega árið 1211. Samkvæmt rituðum heimildum gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó í Reykjaneseldum. Gjóskulög má merkja frá Reykjaneseldum í Þingvallasveit og í Borgarfirði frá um 1226 og á Álftanesi frá um 1231. Um tuttugu árum eftir Yngra-Stampagosið hófst sprungugos í Svartsengiskerfinu og á tímabilinu 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Eftir það lýkur eldunum og hefur ekki orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan – eða í u.þ.b. 800 ár.”
Sjá þó MYNDIR af gosinu í Geldingadölum árið 2021…”.

Heimildir:
-Tölvupóstar.
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010
-Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson Íslenskar Orkurannsóknir, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.

Brennisteinsfjöll

Eldborg í Brennisteinsfjöllum.

Eldborg

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um Eldborg undir Trölladyngju, efst í Afstapahrauni, og reynir að áætla aldur hraunsins, sem úr henni rann:

Eldborg

Eldborg – kort.

“Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.”

Eldborginni hefur nú verið spillt vegna efnistöku.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.