Austurengjar

Á undanförnum árum hefur verið nokkur umræða um háhitasvæði landsins og athygli manna beinst að möguleikum á frekari nýtingu þeirra, einkum til orkuframleiðslu (Iðnaðarráðuneytið 1994, Morgunblaðið 6. febrúar 2005).
Austruengjar-892Hins vegar hefur minna borið á umræðu um sérkenni og verndargildi þeirra. Á háhitasvæðum landsins nær jarðhiti víða til stórra samfelldra svæða ef miðað er við hita djúpt í jörðu en ummerki jarðhitans á yfirborði er yfirleitt að finna á tiltölulega litlum og afmörkuðum svæðum. Vegna hitans skapast sérstakar aðstæður á yfirborði og einkennist jarðvegur og vatn yfirleitt af lágu sýrustigi auk þess sem styrkur ýmissa efna er ólíkur því sem finnst í öðrum vistkerfum (Stefán Arnórsson o.fl. 1980, Burns 1997). Hár hiti og efnafræðilegar aðstæður skapa því mjög óvenjuleg lífsskilyrði á þessum svæðum. Háhitasvæði eru ekki algeng fyrirbæri á jörðinni og því er mikilvægt að sérstaða og einkenni þeirra séu vel þekkt og að tekið sé ríkt tillit til náttúruverndarsjónarmiða þegar kemur að nýtingu þeirra. Einkenni háhitasvæða eru sérstök, t.d. hverir, jarðhitamyndanir og vistkerfi. Mörg þeirra hafa hátt útivistar– og fræðslugildi og eru þýðingarmikil í vísindalegu tilliti og hafa því vafalaust hátt náttúruverndargildi. Á Nýja-Sjálandi hefur verið gerð umfangsmikil
úttekt á náttúrufari, rasknæmi og verndargildi jarðhitasvæða (Ronald F. Keam o.fl. 2005). Þar hefur verið mótuð aðferðafræði sem taka mætti mið af hér á landi. Háhitasvæðið á Reykjanesi er eitt af minnstu háhitasvæðum landsins (2 km2) og er í um 20 m hæð yfir sjó.

austurengjar-894

Svæðið er á suðvesturhorni Reykjanesskaga og er basalthraun ríkjandi á svæðinu en upp úr því standa móbergs– og bólstrabergshryggir (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Reykjanesið í heild sinni er á náttúruminjaskrá m.a. vegna hverasvæðis og stórbrotinnar jarðfræði (Náttúruverndarráð 1996).
Krýsuvíkursvæðið er á vestanverðum Reykjanesskaga og nær það yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Svæðið er um 65 km2 að flatarmáli og liggur í 120–410 m h.y.s. Móbergshryggir einkenna svæðið (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Krýsuvík er hluti af Reykjanesfólkvangi (Náttúruverndarráð 1996).
Hengilsvæðið er suðvestur af Þingvallavatni og er eitt af stærstu háhitasvæðum landsins eða um 100 km2 að stærð og liggur í 30–800 m h.y.s. Svæðið einkennist af móbergshryggjum en einnig koma fyrir grágrýti og hraun runnin á nútíma, vestast á Hengilssvæðinu finnst súrt gosberg (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Hengill og næsta nágrenni er á náttúruminjaskrá, einkum vegna stórbrotins landslags, fjölbreyttrar jarðfræði og jarðhita (Náttúruverndarráð 1996).

Heimild:
-Þrjú háhitasvæði á Suðvesturlandi Undirbúningur að mati á náttúrufari og verndargildi háhitasvæða – Ásrún Elmarsdóttir, Borgþór Magnússon, Lovísa Ásbjörnsdóttir og Sigurður H. Magnússon. Unnið fyrir Orkustofnun, Reykjavík, mars 2005.

Seltún

Seltún.