“Hversu gamall er grunnurinn sem byggjum á í þéttbýlinu við Faxaflóa og hvaðan er það berg komið? Hversu oft hefur á síðustu árþúsundum dregið til stórtíðinda í eldstöðvum hér fyrir ofan, og hversu langt er síðan síðast?
Við búum í óskalandi jarðfræðinnar þar sem hægt er að lesa náttúruna eins og opna bók og greina sögu jarðmyndana; síendurtekinna gosa með hraunrennsli sem smám saman hefur hlaðið landið upp, en ísaldarjöklar hafa átt sinn þátt í að móta það landslag sem nú blasir við. Allt er þetta harla ungt á jarðsögulegan mælikvarða; aðeins um 14-15 milljónir ára síðan elzta berg á Austfjörðum, Vestfjörðum og við mynni Eyjafjarðar varð til. Þetta er svo nýlegur atburður á jarðsögulegan mælikvarða, að það er eins og gerst hafi í gær.
Þegar landið okkar „fæddist” voru til dæmis liðnar um 45 milljónir ára frá því stórslysi í náttúrunni sem orsakaði að risaeðlurnar dóu út. Þá voru þessi blessuð dýr búin að vappa um jörðina í milljónir ára og miðað við það var skaparinn ekki lengi að hlaða upp Ísland.
Hér er ekki ætlunin að rekja myndunarsögu landsins, heldur verður beint sjónum að tiltölulega litlum skika, sem skiptir þó verulegu máli þar sem meirihluti þjóðarinnar býr þar. Það er Reykjavíkursvæðið suður fyrir Hafnarfjörð, en mér til halds og trausts hef ég Þorleif Einarsson jarðfræðing og prófessor við Háskóla íslands. Hann er höfundur bókar um Myndun og mótun lands, sem hefur verið gefin margsinnis út og er mikil náma um jarðfræði Íslands.
Til þess að fá gleggri mynd af því sem gerst hefur og myndað það umhverfi sem við höfum daglega fyrir augunum, ókum við Þorleifur Suðurlandsveginn upp á Svínahraun, en þar dró „nýlega” til tíðinda með eldgosi og hraunrennsli sem náði til Reykjavíkur. Við komum nánar að því síðar. Þessi samgönguæð, Suðurlandsvegurinn, væri úr sögunni ef það endurtæki sig, að ekki sé nú talað um þann usla sem hraunrennsli niður í Elliðavog mundi valda.
Við Þorleifur námum staðar á hárri bungu í Svínahrauni, þar sem sést suðvestur eftir hækkandi hraunum með Bláfjöll á hægri hönd. Þar er sú eldstöð sem nefnd er Leitin, en ekki er hægt að segja að hún sjáist frá veginum. Þorleifur segir að gígurinn sé á stærð við fótboltavöli, en hann er fullur af framburði ofan úr fjallinu. „Hraunið rann fyrst í norður” segir Þorleifur, „og dreifðist yfir stórt svæði, enda þunnfljótandi, og rann síðan til vesturs hjá Litlu kaffistofunni, niður á Sandskeið og þaðan í afar mjóum farvegi alla leið niður í Elliðavog. Það er hinsvegar ekki þetta hraun sem við sjáum hér af veginum í Svínahrauni. Löngu seinna, nálægt árinu 1000, varð gos í Eldborgum skammt frá Leitum. Þaðan rann það hraun sem við stöndum á hér við Suðurlandsveginn; Svínahraunsbruni hefur það verið nefnt. Það var apalhraun sem rann yfir eldra hraunið, en ekki langt, hraunjaðarinn er skammt austan við Litlu kaffistofuna.”
Hér erum við aðeins að huga að nýlegum hraunlögin undir sjálfu Reykjavíkursvæðinu? Og hvað af því sem við höfum daglega fyrir augunum er gamalt og hvað er nýlegt; Esjan til dæmis, Mosfellsheiði, Hengillinn, Vífilfell og Bláfjöllin?
Hversu gömul er sú undirstaða sem borgin er byggð á?
Þorleifur segir að hún sé tiltölulega ung. Stærstur hluti borgarinnar sé byggður á því sem nefnt er Reykjavíkurgrágrýti og það er líklega um 200 þúsund ára gamalt. Breiðholtið stendur þó á yngra grágrýti, en við komum að því síðar.
Elzt af fjöllum í næsta nágrenni Reykjavíkur er Esjan. Þorleifur segir að vesturhluti hennar sé um 3 milljón ára gamall og þá var þarna stór eldstöð sem Ingvar Birgir Friðleifsson skrifaði raunar um í Lesbók fyrir nokkrum árum. Austurhluti Esjunnar er hinsvegar mun yngri, eða um 2 milljón ára og orðinn til við gos úr eldstöð sem kennd er við Stardal.
Móskarðshnjúkarnir úr gulbrúnu líparíti, gætu verið með því yngsta sem kom úr þeirri eldstöð. Á sama tíma, eða fyrir rúmum 2 milljónum ára, er talið að hafi verið eldstöð miklu nær Reykjavík því austurhluti Viðeyjar er öskjufylling, svo og við Köllunarklett hjá Viðeyjarsundi. Það er með öðrum orðum ekki undarlegt þó eitthvað eimi eftir af hita undir Reykjavík, enda taldi Ingvar Birgir í fyrrnefndri grein, að vel mætti hugsa sér verulegan hita undir Öskjuhlíðinni, en útmörk þessa hita væru við Hvaleyri, suðvestan Hafnarfjarðar.
En hvaðan er þá bergið komið sem Reykjavík og næstu bæir eru byggðir á?
„Til þess að finna uppsprettu þess, verðum við að fara hæst á Mosfellsheiði, þar sem heita Borgarhólar”, segir Þorleifur. Mosfellsheiði er dyngja. Þar hefur orðið heljarmikið gos fyrir um 200 þúsund árum, segir hann. Það var á næst síðasta hlýskeiði ísaldar; allt jökullaust þarna og skilyrði til þess að hraunið rynni langar leiðir og dyngja myndaðist. Stundum rennur hraun í allar áttir í dyngjugosum, en stundum langlengst í eina átt, í þessu tilfelli til vesturs.
„Fyrir þetta gos sem hlóð upp Mosfellsheiði hefur verið tiltölulega flatt land hérna í nágrenninu og sjórinn var í svipaðri stöðu og nú”, segir Þorleifur. Hraunin runnu alla leið til sjávar og eitthvað út í Faxaflóa, en við vitum ekki hve langt. í öllum eyjum og nesjum frá Brimnesi á Kjalarnesi og suður. Í Hvaleyrarholt upp af Hvaleyri við Hafnarfjörð er þessi undirstaða, Reykjavíkurgrágrýtið sem svo er nefnt. Við Brimnes og Álfsnes er bólstraberg undir, sem gerist við snögga kólnun þegar hraun rennur út í vatn. Þetta hraun er sömuleiðis undir Seltjarnarnesi, Álftanesi, Þerney og Lundey. Smærri fellin upp af Reykjavíkursvæðinu, Úlfarsfell, Hafrafell og Helgafell ofan Hafnarfjarðar eru á svipuðum aldri, eða aðeins yngra en bergið við Stardal. Þau eru um 2 milljón ára gömul, en eitt fell er yngra; orðið til við gos undir jökli eitthvað áður en Reykjavíkurgrágrýtið rann. Það er Mosfell, sem Mosfellssveit og Mosfellsdalur eru kennd við. Það er líklega 250-300 þúsund ára, segir Þorleifur. Þarna varð eldgos sem náði aldrei uppúr jökli, en nokkrum tugum árþúsunda síðar var sá jökulskjöldur á bak og burt þegar gosið varð í Mosfellsheiði og lagði okkur til grágrýtið undir Reykjavík. Á myndunartíma þessa umhverfís hafa ísaldarjöklar margsinnis lagst yfir og orsakað gífurlegt rof. Í stórum dráttum var landslagið orðið til, en jöklarnir mótuðu það. „Þeir náðu stundum langt út á landgrunn, eða jafnvel út af því” segir Þorleifur. „Landið seig undan ofurþunga þeirra, en reis síðan að nýju.”
Síðari tíma landmyndanir
Þegar hér er komið sögu er undirstaða höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurgrágrýtið, komin á sinn stað. Ekki er hægt að segja um það með neinni nákvæmni, hversu langan tíma Mosfellsheiðareldar brunnu, en jarðfræðingar segja það einkenni og eðli dyngjugosa, að þau séu samfelld og geti tekið langan tíma, ár eða áratugi.
Eftir gosið í Mosfellsheiði liðu um 80 þúsund ár án þess að drægi til tíðinda ofan Reykjavíkur, en fyrir um 120 þúsund árum segir Þorleifur að hafi orðið gos á Reykjanesskaga með hraunrennsli til norðurs. „Þetta, hraun rann inn yfir eldra hraunið og myndaði hæðirnar þar sem Breiðholt er nú og Hnoðraholt í landi Garðabæjar; þar er endi þeirra. Lengst náði það út að farvegi Elliðaánna og niður undir Mjódd. Ef við ökum úr Mjóddinni suður eftir Reykjanesbrautinni, er hæðin á vinstri hönd brún þessa hrauns, sem nefnt hefur verið Heiðmerkurgrágrýti”.
Eins og staðkunnugir þekkja er land austan við Rjúpnahæð talsvert lægra og þar hefur Elliðavatn myndast í lægðinni. En hversvegna fylltist hún ekki af hrauni þegar Heiðmerkurgrágrýtið rann? „Á stóru svæði austan við Rjúpnahæð – svæðinu þar sem Elliðavatn og Rauðavatn eru – hafa orðið sprungur og misgengi. Þar hefur land sigið og auk þess er þar jökulrof”, segir Þorleifur.
Vífilsfelli er varla yngra en 20 þúsund ára. En Vífilsfell sem rís bratt og tignarlegt upp af Sandskeiðinu; hvenær steig það fullskapað fram á þettta svið, spurði ég Þorleif þegar við settumst með kaffibolla framan við Litlu kaffistofuna á sólríkum haustdegi og virtum fjallið fyrir okkur? Hvassar brúnir þess, minnisstæðar meðal annars úr fjölmörgum málverkum Jóhannesar Kjarvals, bera þess vitni að ísaldarjöklar hafi ekki náð að skafa ofan af þeim og gera fjallið kollhúfulegt. Vífilsfellið er frá siðasta jökulskeiði”, segir Þorleifur, „varla yngra en 20 þúsund ára og ekki eldra en 100 þúsund ára. Það þó fremur til þess að myndun þess hafi orðið seint á þessu jökulskeiði. Fjallið er stapi og gosið hefur náð uppúr jóklinum. Vatn hefur þó komizt í kvikuna undir lok gossins ofan á hraunlaginu, því efst í fjallinu er móberg.”
Það var enginn smáræðis jökulskjöldur hér á suðvesturhorninu þegar ljóst er að hann var hátt í eins þykkur og hæð Vífilsfells. Engin furða að jarðskorpan léti eitthvað undan þeim þunga. ísaldarjökiar eiga það til að hopa hratt, en jarðskorpan er svifaseinni og lyftir sér á löngum tíma. Þessvegna fylgdi sjórinn jökulbrúninni og kaffærði láglendið sem komið var undan jöklinum: „Þá leit Reykjavíkursvæðið talsvert öðruvísi út en nú”, segir Þorleifur. „Keldnaholtið var líklega eyja, Laugarásinn var sker; sömuleiðis Öskjuhlíð og Háaleiti, en Skólavörðuholtið var boði. Hæstu fjörumörk í Öskjuhlíð í eru í 43 m hæð og á Hvaleyrarholti í 32 m hæð því þar seig land minna. Sjórinn náði þá lengst upp að Reykjum í Mosfellssveit. Hann náði inn eftir Elliðaárdalnum, líklega að Höfðabakkabrúnni. Sunnar hefur hann náð yfir Vetrarmýri við Vífílsstaði þar sem golfvölur Garðabæjar og Kópavogs er nú, og enn sunnar hefur fjöruborðið verið í hlíðunum ofan við Urriðavatn. Á þessum slóðum var ströndin fyrir 10-11 þúsund árum en var komin þangað sem hún er nú fyrir um 9 þúsund árum og reyndar aðeins neðar eins og fjörumórinn í Seltjörn sýnir. Þar nær hann 4,5 m niður fyrir fjöruborð.
En hversu lengi var megnið af Reykjavíkursvæðinu undir sjó? „Þegar ísinn var horfinn var landið að lyftast í 1-2 þúsund ár”, segir Þorleifur. Það er merkilegt, að síðan fór landið að síga aftur af ástæðum sem menn vita ekki um og er enn að síga. Verzlunarhús í Reykjavík voru í Hólminum framyfir 1650; þá varð að flytja þau í Örfirisey og enn síðar inn í Reykjavík. Í báðum tilvikum varð að flýja undan hækkaðri sjávarstöðu.
Álftanesjökull
Eftir að meginskeið síðustu ísaldar var liðið hjá, urðu minni kuldaköst, einskonar vorhret, sem voru þó það grimm að stór og þykkur jökull myndaðist á sunnanverðu hálendinu og ” ýtti upp jökulgörðum sem kenndir eru við fossinn Búða í Þjórsá og Alftanes. Fyrir 12.000 árum, eða jafnvel fyrir tæpum 11.000 árum, náði jökull í sjó út á Álftanes og í Hvalfjarðarmynni þar sem jarðgöngin eru.
Tímabil síðustu 10 þúsund ára er skilgreint sem nútími. Hvernig ætli hafi verið umhorfs á Reykjavíkursvæðinu við upphaf þess? „Þá hafði jökullinn hopað tiltölulega hratt”, segir Þorleifur, „hann var kominn langt inn á öræfi, með framhlaupi að jökulgörðunum við Búða. Það sést af því að Þjórsárhraun gat runnið hindrunarlaust innan frá Veiðivötnum og fram í sjó fyrir um 8 þúsund árum. Hér vestan heiðar hefur allt verið nakið og gróðurvana í fyrstu, en gróðurinn hefur verið fljótur að koma eftir að jökullinn hopaði, til dæmis var birki komið til sögunnar fyrir 9.000 árum. AUt var með kyrrum kjörum í um 3000 ár. Þá fór aftur að hitna í kolunum ofan við Reykjavíkursvæðið”.
Enn dregur til tíðinda
Við höfum rakið þá sögu, að í upphafi nútíma fyrir um 10 þúsund árum voru fjöllin umhverfis Reykjavík, hæðir sund og eyjar, svipuð útlits og nú; Mosfellsheiðin einnig, Vífilfell og Bláfjöllin. Reykjavíkurgrágrýtið hefur þá trúlega verið gróðri vafið.
En fyrir um 7.000 árum varð eldgos í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð. Hraunflóð rann þá fram með Vífilsstaðahlíð og sést vel af hinni vinsælu gönguleið inn með hlíðinni og eins af golfvelli Oddfellowfélaga í Urriðavatnslandi sem nýtur góðs af hárri og fallegri hraunbrún. Við sjáum hvar hraunstraumurinn hefur steypst fram af brekkunni við vesturbrún Vífilsstaðahlíðar og dreifst um flatlendi suður af Flatahverfi í Garðabæ og allt suður til Hafnarfjarðar, en kvísl úr þessum straumi hefur runnið suðaustur með brekkunum og út í Urriðavatn. Þetta hraun er allstaðar mjög fallegt; kjarri vaxið vestur af Vífilsstaðahlíð, en vestar og sunnar með myndrænum hraunhólum og gróðumiklum hraunbollum. Það er sem betur fer ósnert og óskemmt á allstórri spildu frá Reykjanesbraut og framan við Flatahverfi í Garðabæ. Við Engidal liggur Hafnarfjarðarvegurinn upp á hraunbrúnina, en allur “Norðurbærinn í Hafnarfirði og megnið af elzta bæjarhlutanum er byggður á þessu hrauni. Vestarlega, suður af Hrafnistu, er þó enn ósnortið afar fallegt hraun sem vonandi verður varðveitt. Sama hraun rann í áttina út á Álftanes, en sveigði síðan til norðurs og út í sjó; þar heitir Gálgahraun. Mjó kvísl úr Búrfellsgíg rann frá eldstöðinni fram með Setbergshlíð og niður í Hafnarfjörð þar sem hún hefur sameinast hrauninu norðanfrá. Brúfellshraun hefur runnið lengra til suðurs ofan Hafnarfjarðar, en þar er það hulið enn yngri hraunum.
Hraunstraumur niður í Elliðavog Þá er aðeins eftir að líta á það sem nýlega hefur gerst. Á tímum Forn-Egypta, svona fyrir 4.600 árum, varð eldur uppi á vatnaskilum austan í Bláfjöllum. Við minntumst á þetta gos í upphafi og vorum að reyna að sjá eldstöðina, sem nefnd er Leitin, af veginum í Svínahrauni. Þaðan rann Leitahraun, bæði í austurátt og út í sjó hjá Þorlákshöfn, svo og allar götur í Elliðavog. Sá hraunstraumur féll fyrst norður og er undir Svínahraunsbruna, en síðan sveigði þetta þunnfljótandi hraun til vesturs og rann út yfir Reykjavíkurgrágrýtið hjá Nýju kaffistofunni. Þaðan sveigði hraunstraumurinn eins og beljandi fljót í mjóum farvegi undan hallanum til vesturs, en dreifði nokkuð úr sér á Sandskeiði, þar sem leysingavatn hefur hulið hraunið með framburði.”
Við Þorleifur reyndum að sjá þetta fyrir okkur þar sem við sátum og sötruðum kaffið á veröndinni við Litlu Kaffistofuna. „Það er merkilegt” sagði Þorleifur, „að þetta hraun hefur siðan runnið í örmjóum farvegi niður brekkuna hjá Lækjarbotnum, nákvæmlega á sama stað og vegurinn liggur. Brekkan sú hafði orðið til fyrir um 100 þúsund árum, þegar gos hefur orðið í Lyklafelli, smáfelli norðvestan við Sandskeið. Þar eru merki um eldstöð, en hraunið hefur runnið skammt og myndað háa hraunbrún hjá Lækjarbotnum og þaðan í norður.”
Neðan við Lækjarbotna hefur hraunið dreifst yfír grunnan slakka; yfirborð þess tiltölulega slétt undir túninu á Gunnarshólma og niður með Hólmsánni. Sunnan við veginn rísa þó nokkrir sérkennilegir hraunhólar upp úr flatneskjunni og þegar betur er að gáð, sést að þeir eru eins og kramarhús, að hluta holir að innan og jarðfræðingar nefna þá hraundrýli. Þetta eru ekki smágígar þótt svo gæti virzt. Þorleifur segir að gas sen; myndazt hafl undir hraunrennslinu, hafi leitað þarna upp og þá urðu þessar strýtur til. Þegar gasið komst í snertingu við súrefni loftsins hefur orðið til blár gaslogi og má sjá að hitinn hefur verið slíkur að hraunið á börmum strýtanna hefur bráðnað og lekið niður.
„Lítið eitt neðar hefur hið forna Elliðavatn verið” segir Þorleifur, og þegar hraunið rann út í það varð gjallmyndun og við það urðu Rauðhólarnir til.”
Hraunstraumur eftir farvegi Elliðaánna
Suðurlandsvegurinn liggur á þessu hrauni ofan frá Litlu kaffistofu og þar til kemur yfir brúna á Hólmsá og síðan aftur á kafla lítið eitt norðaustan við Rauðhóla. Þetta þraun rann ekki yfir Heiðmerkurhraunin; þau eru yngri. En það er auðvelt að sjá það fyrir sér, að Suðurlandsvegurinn yrði heldur ógreiðfær ef sagan endurtæki sig. Eftir að hraunið hafði fyllt það sem Þorleifur kallar hið forna Elliðavatn, var það nægilega þunnfljótandi til þess að geta enn runnið langa leið. Það náði í slakkann þar sem farvegur Elliðaánna er og hraunstraumurinn hefur á köflum ekki verið mikið breiðari en áin er nú. Af Höfðabakkabrúnni sést vel að hraunið er þar í þröngum farvegi árinnar og með hraunreipum á langri klöpp í miðjunni. Það er síðan kunnara en frá þurfi að segja, að hraunstraumurinn hélt áfram niður farveg Elliðaánna og lengst náði hann út í Elliðavog.
Hraunrennsli eftir landnám
Síðustu 4.600 árin hefur ekki runnið hraun til Reykjavíkur, eða inn á það svæði sem nú er byggt. Aftur á móti eru enn yngri hraun í næsta nágrenni. Hólmshraun heitir það sem síðast rann yfir Heiðmörk; það yngsta frá því um landnám. Segja má að það sé rétt utan við túngarðinn. Þorleifur telur að það Elliðavatn sem við þekkjum núna, hafi fyrst orðið til við hraunstíflu sem myndaðist í þessu allra síðasta gosi ofan við Reykjavík, svo og af stíflu Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1921, þegar Elliðaárnar voru virkjaðar.
Ef við teygjum Reykjavíkursvæðið suður að Straumsvík, hefur það tvívegis gerst eftir landnám, að eldur varð uppi undir Undirhlíðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunrennslið náði inn á svæði þar sem nú er byggt, eða verið að undirbúa byggingar. Það eldra, sem menn telja að sé frá um 950, er Hellnahraun sem rann yfir Hvaleyrarhraun á mjórri spildu meðfram Hvaleyrarholti, en náði ekki alveg til sjávar. Þessi hraunrimi er eins og hraun geta orðið fegurst og myndrænust og sorgleg skammsýni er það að Hafnfirðingar eru nú að mylja þennan náttúrufjársjóð undir byggingar.
Yngsta jarðmyndunin á höfuðborgarsvæðinu segir Þorleifur Einarsson að lokum að sé líklega frá árinu 1151, þegar Kapelluhraun rann út í Straumsvík á svo mjórri spildu, að samsvarar nokkurnveginn lengd álversins. Þetta er síðasta hraunið í nánd við Reykjavík sem runnið hefur út í sjó eftir að land byggðist og hefur þá heldur betur girt fyrir samgönguleiðina á landi suður með sjó. “
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 22. nóv. 1997, Þorleifur Einasson, bls. 10-13.