Austurengjahver

Reykjanes
“Við fyrstu sýn er Reykjanes lágreistur, eldbrunninn og hrjóstrugur útkjálki við ysta haf. Basalthraun frá nútíma þekja mestan hluta svæðisins en lágar móbergshæðir eru við jaðra þess. Jarðhitasvæðið er á miðju Reykjanesi, milli lágra fella, og það er eitt minnsta háhitasvæði landsins. Hveravirkni á yfirborði einkennist af leirhverum, gufuhverum og heitri jörð. Á síðustu öld urðu oftar en einu sinni verulegar breytingar á hveravirkni í kjölfar jarðskjálfta. Vegna nálægðar við strönd og gropins berggrunns á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Vatnshverir á svæðinu hafa því verið mjög saltir. Myndarlegir goshverir voru virkir á svæðinu á síðustu öld.
rekjanesta-221Um Reykjanes liggur sprungukerfi með opnum gjám og misgengjum með norðaustlæga stefnu. Hér rís Mið-Atlants-hafshryggurinn upp fyrir sjávarmál og eru sprungurnar hluti af eldstöðvakerfi sem er að hálfu í sjó og að hálfu á landi. Það er kennt við Reykjanes og teygir sig til norðausturs í átt að Vatnsleysuströnd. Sprungur eru lítt sýnilegar á sjálfu jarðhitasvæðinu en sjást glögglega skammt suðvestan og vestan við það, m.a. í Valbjargagjá. Vestan til á Reykjanesi liggur gossprunga frá 13. öld og önnur um 2000 ára gömul. Skammt austan við hitasvæðið er kerfi af sprungum sem hafa töluvert norðlægari stefnu en ofangreindar sprungur. Þær eru taldar tilheyra framhaldi jarðskjálftabeltisins á Suðurlandi sem teygir sig vestur allan Reykjanesskaga en jarðskjálftabeltið einkennist af skástígum sprungum með heildarstefnu nálægt N-S.
Reykjanes hefur lengi verið á náttúruminjaskrá, m.a. vegna stórbrotinnar jarðfræði og allmikils hverasvæðis. Í náttúruverndaráætlun 2004–2008, sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2004, var lagt til að svæðið yrði verndað sem náttúruvætti vegna jarðfræðilegs mikilvægis (Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2004–2008) en af því hefur ekki enn orðið. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
Gunnhver-221Reykjanesvirkjun hóf starfsemi á svæðinu árið 2006 auk þess sem önnur og eldri verksmiðjustarfssemi er í grenndinni. Aðgengi var til skamms tíma auðvelt að hverasvæðinu en það er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Í kjölfar starfsemi Reykjanesvirkjunar hefur hveravirkni aukist mikið á svæðinu og hverir hafa breyst.

Svartsengi-Eldvörp
Austan við eldstöðvakerfi Reykjaness tekur við sprungu- og eldstöðvakerfi sem kennt hefur verið við háhitasvæðin í Eldvörpum og Svartsengi eða jafnvel eingöngu við Svartsengi. Mörk milli eldstöðvakerfanna eru ekki skýr og stundum eru þau talin eitt og hið sama.
Allmikil eldgos urðu í kerfinu á 13. öld líkt og á Reykjanesi. Allmikið sprungukerfi teygir sig frá sjó við Mölvík til norðausturs í átt að Vatnsleysuvík og Straumsvík. Norðan og vestan við Þorbjarnarfell við Grindavík taka við miklar og lítt grónar hraunbreiður í um 20 m hæð. Í apalhrauninu norðan við fellið stigu áður fyrr upp heitar gufur sem nú eru líklega að mestu horfnar. Í móberginu í Svartsengisfelli og Þorbjarnarfelli er nokkur ummyndun sem og í Selhálsi sem tengir fellin. Áður fyrr hefur útbreiðsla jarðhitans því verið önnur og hugsanlega meiri en síðar varð. Vegna gropins berggrunns og nálægðar við sjó á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið.
svartsengi-221Flatlendið er að stórum hluta þakið hraunum frá 13. öld en sprungur og misgengi eru áberandi í eldri hraunum og móbergi. Austasti hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá undir merkjum Sundhnúksraðarinnar og Fagradals. Stór hluti svæðisins nýtur auk þess sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
Boranir hófust á svæðinu 1976 og varmaorkuver tók til starfa 1976. Þar er nú varma- og raforkuver með tilheyrandi búnaði. Kaldavatnsleiðsla liggur að orkuverinu úr norðri og heitavatnsleiðslur liggja frá verinu til norðurs og suðurs. Þá liggur háspennulína frá orkuverinu að spennistöð við Rauðamel. Affallsvatn frá orkuverinu myndar Bláa lónið í hrauninu. Svæðið er mikið raskað eftir mannvirkjagerð.
Eldvorp-999Í hraunflákanum vestur af Þorbjarnarfelli liggur gígaröðin Eldvörp frá 13. öld. Hún samanstendur af fjölmörgum lágum gjallgígum sem umluktir eru hrauni frá gosinu. Í og við tvo af gígunum er lítið jarðhitasvæði í um 60 m hæð. Gufur stíga upp úr hrauni og gjalli á svæði sem er um 100 m í þvermál. Hraunið og gígaröðin eru að mestu ósnortin sem er fátítt á Reykjanesskaga.
Eldvörp eru innan þess svæðis sem afmarkað er í náttúruminjaskrá undir merkjum Reykjaness. Svæðið í heild nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Krýsuvík
Milli Fagradalsfjalls og Kleifarvatns liggur allmikið sprungu- og eldstöðvakerfi. Sprungurnar teygja sig norðaustur frá sjó við Ísólfsskála um Núpshlíðarháls og Móhálsadal, Undirhlíðar og Heiðmörk til Hólmsheiðar og jafnvel Mosfellssveitar í norðaustri. Þetta kerfi hefur oftast verið kennt við Krýsuvík en einnig við Trölladyngju. Háhitasvæði eru á nokkrum stöðum við jaðra gosreinarinnar. Ögmundarhraun og Kapelluhraun brunnu í Krýsuvíkureldum á 12. öld. Svæðið er að mestu leyti innan Reykjanesfólkvangs. Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er undanskilin hagnýting jarðhita og mannvirkjagerð í því sambandi.
seltun-999Seltún Jarðhitasvæðið sem venjulega er kennt við Krýsuvík liggur að mestu suðaustan til í lágum móbergshálsi, Sveifluhálsi. Hitasvæðið teygir sig frá flatlendinu austan við hálsinn og nær upp yfir hann miðjan. Sprungu- og gosreinin sem kennd er við Krýsuvík liggur skammt vestan við jarðhitasvæðið. Minniháttar eldvirkni hefur þó náð inn á jarðhitasvæðið og hraun hefur komið úr a.m.k. einum sprengigíg á nútíma. Við suðurenda Kleifarvatns eru þekktar skástígar sprungur með stefnu nærri N-S og virðast þær tengdar brotabelti Suðurlands.
Jarðskjálftar eru tíðir og breytist badstofa-999hveravirkni iðulega í kjölfar þeirra. Jarðhitinn er mestur í Seltúni og Baðstofu (Hveragili) í austurhlíðum Sveifluháls. Þar er mikil ummyndun, brennisteinsþúfur og leirugir vatnshverir. Í Baðstofu er talsvert af gifsi. Vestan í hálsinum er heit jörð með gufuaugum og rauðum leir. Margir sprengigígar eru á svæðinu, sumir mjög stórir. Smáir lækir renna á yfirborði. Arnarvatn er lítið gígvatn á norðurhluta svæðisins. Þá eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun sambærileg gígvötn syðst á svæðinu.

Jarðhitasvæðið er innan Reykjanesfólkvangs. Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a, b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Austurengjar

austurengjar-999

Austurengjar eru í ávölum grágrýtis- og móbergshæðum og -ásum um 1,5 km austur af jarðhitasvæðinu við Seltún í Krýsuvík. Meginhverirnir raðast syðst á línu með N-S stefnu. Línan virðist teygja sig skástígt norður í suðurenda Kleifarvatns. Austurengjahver í núverandi mynd varð til við jarðskjálfta árið 1924 en þá virðist hafa rifnað sprunga með N-S stefnu á Austurengjum. Þar sem hverinn er nú var áður heitur vatnshver en hann breyttist við skjálftann í gjósandi leirhver. Ætla má að sprungurnar tengist skjálftabelti Suðurlands. Opnar sprungur með N-S stefnu eru í Lambatanga við suðvesturhorn vatnsins. Jarðhitasvæðið í Austurengjum er algerlega utan við eldstöðvakerfi Krýsuvíkur og litlu fjær eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla.
Leirugir vatnshverir ásamt gufuhituðum laugum einkenna svæðið. Loftbólur og iðustreymi sjást í Kleifarvatni þegar vatnið er spegilslétt. Ummyndun er nokkur við hverina. Hveraörverur eru áberandi í afrennsli. Sprengigígar eru skammt suður af Kleifarvatni og í Austurengjum, sá stærsti er um 100 m í þvermál, líklega gamall.
Jarðhitasvæðið er innan Reykjanesfólkvangs. Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum.
Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Trölladyngja
sog-999Norðausturendi Núpshlíðarháls er þríklofinn og heitir vestasti hlutinn Trölladyngja. Núpshlíðarháls er nær eingöngu úr móbergi en heita má að allt flatlendi á svæðinu sé þakið ungum hraunum. Lítill þverdalur, Sog, skilur nyrsta hluta Núpshlíðarháls frá meginhálsinum, þ.á.m. Trölladyngju. Móbergið í Sogum er mikið ummyndað og framburður úr Sogum til vesturs hefur fyllt hraunin á flatlendinu á allstóru svæði og myndað Höskuldarvelli, framburðarsléttu á hraununum vestan við Trölladyngju.
Trölladyngja er í jaðri gos- og sprungureinar Krýsuvíkur. Allmiklar gossprungur eru á svæðinu og töluvert sést af sprungum og misgengjum í móbergi. Yngstu hraun á svæðinu eru hugsanlega runnin eftir landnám.
Jarðhiti er á allstóru svæði við Trölladyngju en nokkuð dreifður. Til norðausturs frá dyngjunni stíga gufur upp úr hraunum og móbergi á um 1 km löngum kafla. Sunnan við Trölladyngju eru minniháttar leirugir vatnshverir og gufuaugu í Sogum. Í hrauni framan og vestan við Sogin er ungur sprengigígur og í nágrenni hans heit jörð með gufuaugum. Hverinn eini, sem er að mestu kulnaður, er um 2 km suðvestur með hálsinum, skammt norður af Selsvöllum. Þar er allmikið hverahrúður.
sandfell-999Jarðhitasvæðið er í jaðri Reykjanesfólkvangs og að hluta á svæði sem er á náttúruminjaskrá (Keilir og Höskuldarvellir). Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum. Hlutar svæðisins njóta sérstakrar verndar samkvæmt liðum a, b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Svæðið er að mestu þurrt á yfirborði. Lækir falla frá ummynduðum svæðum í Núpshlíðarhálsi um Höskuldarvelli og Selsvelli. Spákonuvatn er í lægð í móberginu skammt sunnan við Sog.

Sandfell
Sandfell er stakt fell, austast í klasa móbergsfella austan við Fagradalsfjall og um 1 km vestur af Núpshlíðarhálsi. Norðan og austan við fellið er tiltölulega flatur hellu- og apalhraunafláki. Gufur stíga úr hrauninu á litlu svæði skammt norðaustan við fellið. Jarðhitasvæðið er á vesturjaðri gos- og sprungureinar Krísuvíkurkerfisins og eru gossprungur í næsta nágrenni. Skammt norðan við jarðhitasvæðið eru sprungur með N-S stefnu og tengjast þær líklega skjálftabelti Suðurlands.
Svæðið er utan Reykjanesfólkvangs en nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Brennisteinsfjöll
brennisteinsfjoll-999Eitt af sprungu- og eldstöðvakerfum Reykjanesskagans er að jafnaði kennt við Brennisteinsfjöll. Það nær frá sjó við Krýsuvíkurberg og liggur þaðan til norðausturs um Brennisteinsfjöll og Bláfjöll allt austur á Mosfellsheiði. Í Brennisteinsfjöllum er lítið jarðhitasvæði í austurjaðri gos- og sprungureinarinnar. Jarðhitinn, sem er að mestu gufur í hraununum, er í apalhrauni í brekku sem hallar móti suðaustri. Nær allt svæðið umhverfis jarðhitann er þakið hraunum. Vestan og norðvestan við hitasvæðið eru lágir móbergshryggir og gígar sem sent hafa hraunspýjur yfir jarðhitasvæðið en í austri tekur við úfin hraunbreiða.
Svæðið er innan Reykjanesfólkvangs (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) og nærri austurmörkum hans. Austan markanna tekur við Herdísarvíkurfriðland (Stj.tíð. B, nr. 121/1988). Nær allt svæðið nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Talið er að síðast hafi orðið eldsumbrot á svæðinu á 10. öld og ekki er vitað til að sprunguhreyfingar á yfirborðið hafi orðið á svæðinu eftir það. Svæðið er nánast ósnortið.”

Heimild:
-http://utgafa.ni.is/skyrslur/2009/NI-09012.pdf

Gunnuhver

Gunnuhver.