Færslur

Eldgos

Augu allra beinast nú sem oftar að Reykjanesskaga og margt og mikið hefur verið ritað um gosið í Geldingadölum og Meradölum. Nú beinum við sjónum okkar vestar á skagann að eldstöðvakerfunum tveimur, Reykjanesi og Svartsengi, en þar lauk síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga 1240.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Hér verður sérstaklega fjallað um síðustu eldana sem urðu innan Reykjanes- og Svartsengis-kerfanna sem ýmist eru talin eitt kerfi eða tvö. Þess má þó geta að þau sameinast til norðurs þar sem erfitt er að greina sprungureinar kerfanna í sundur.

Eldarnir, sem nefnast gjarnan Reykjaneseldar, stóðu yfir frá árinu 1210–1240. Með eldum er átt við hrinur af eldsumbrotum sem standa yfir í lengri eða skemmri tíma á sama svæðinu. Í Reykjaneseldum urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Einnig runnu fjögur hraun úr sprungugosum á landi en þau eru Yngra Stampahraun, Eldborgarhraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Í Heimildinni má lesa eftirfarandi um “„Sandsumar“ í kjölfar eldgosa úti fyrir Reykjanesi“:
“Í kvikugangi þeim sem myndast hefur og liggur frá Sundhnúkagígum í norðri, undir Grindavík og jafnvel á haf út, er umtalsvert meira af kviku en sést hefur í stærstu innskotum sem urðu í tengslum við eldgosin þrjú við Fagradalsfjall. Enn er óvíst hvort að kvika nái til yfirborðs svo úr verði eldgos en ef það gýs á hafsbotni, sem ekki er útilokað, yrði svokallað þeytigos, sprengigos sem verða þegar heit kvika kemst í snertingu við vatn. Við slíkar aðstæður myndast mikil aska og öskufallið getur náð langar leiðir og haft ýmsar afleiðingar.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Öskugos urðu við upphaf Reykjaneseldanna á fyrstu áratugum þrettándu aldar. Eldar þeir stóðu yfir á árunum 1210–1240 en áður höfðu önnur gostímabil einnig orðið og á einu slíku mynduðust Sundhnúkagígar, líklega fyrir um 2.400 árum. Það er á þeim slóðum, undir þeim og suður undir Grindavík, sem kvikugangur hefur nú myndast að mati Veðurstofu Íslands.

Í Reykjaneseldum á 13. öld urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Eldarnir hófust að því er talið er á „surtseyísku eldgosi“ í fjöruborðinu undan Reykjanestá. Að því er segir á vef Náttúruminjasafns Íslands er talið að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hafist að nýju en þá utar. Tveir gígar hlóðust upp í hafinu, m.a. Karlinn svokallaði sem er hluti gígbarms þessa síðara goss á hafsbotni.

Miðaldarlagið mikla

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Finna má fjögur gjóskulög á Íslandi sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldarlag, sem er svart, sendið gjóskulag sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig „sandvetrinum mikla“ í kjölfarið.

Miðaldarlagið hefur verið rannsakað töluvert á síðustu áratugum og það þannig staðsett í öskulagatímatali jarðfræðinnar, en „faðir“ þess er Sigurður Þórarinsson náttúrufræðingur.

Reykjanesskagi

Kortið sýnir þau hraun sem runnu á Reykjanesskaga í síðustu eldgosahrinu frá 9. öld og fram á 13. öld.

Ritaðar heimildir hafa einnig verið notaðar til að varpa ljósi á áhrif sprengigosanna sem mynduðu miðaldarlagið. Annálar, Biskupasögur og Sturlungasaga Sturlu Þórðarsonar eru nokkuð samhljóða um þessa atburði.

Rauð sól og myrkur um miðjan dag

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort ISOR.

„Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppi í sjónum fyrir Reykjanesi, ok var grasleysa mikil,“ segir til dæmis í Sturlungasögu. Um „sandvetur“ eftir þetta sumar er svo fjallað í ýmsum annálum s.s. Oddverjaannál. „Þessi vetr var kallaðr sandvetr ok var fellivetr mikill, ok dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði,” segir í Íslendinga Sögu. „Sandvetr hinn mikle ok fjárfellir,” segir í Guðmundar sögu Arasonar. „Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks; einnig myrkvi á hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes,“ stendur svo í Annálabrotum Gísla Oddssonar. „Sol raud sem blod: Elldur wpi fyrir Reykianesi,“ segir í Oddverjaannál.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – kort jarðfræðinga lagt yfir loftmynd.

Í langtímahættumati Reykjanesskaga, skýrslu sem unnin var hjá Veðurstofu Íslands, er fjallað um mögulegt gjóskufall vegna eldgosa í hafi. Þar er t.d. bent á að Keflavíkurflugvöllur gæti orðið fyrir gjóskufalli sem gæti valdið röskun á starfsemi. Hversu mikil sú röskun yrði færi eftir stærð gosa og hversu lengi það myndi vara. „Dekksta sviðsmynd gjóskufalls á Keflavíkurflugvöll sýnir 45 mm þykkt lag,“ segir í skýrslunni. Töluverðar líkur séu á að skyggni spillist í gjóskufalli og jafnvel eftir að því lýkur af völdum gjóskufoks. Aðrir fjölfarnir ferðamannastaðir eru álíka líklegir til að verða fyrir gjóskufalli en gjóskufall hefur ekki almenn áhrif á þá að öðru leyti en að aðgengi að þeim verður erfiðara og skyggni spillist.“

Grindavík - jarðfræði

Grindavík – eldgos 2021-2024.

Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sagði í viðtali við Stöð 2 vorið 2022 að eldgos í sjó út af Reykjanesi gæti sent ösku yfir höfuðborgarsvæðið. Það hafi orðið raunin í gosinu sem myndaði miðaldarlagið. „Ef slíkur atburður myndi endurtaka sig, þá væri það eitthvað sem höfuðborgarbúar myndu klárlega taka eftir.“”

Reykjaneseldar

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

“Reykjaneseldar hófust á surtseyísku eldgosi í fjöruborðinu undan Reykjanestá er þar byggðist upp gígur sem nefndur er Vatnsfellsgígur. Talið er að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hófust þau að nýju utar, þar sem Karlinn stendur nú, en hann mun vera hluti gígbarms síðara gossins. Um 500 m voru á milli gíganna en nú þegar brimið hefur unnið á þeim um aldir sjást einungis ummerki eftir þá. Karlsgígur hefur verið mun stærri en Vatnsfellsgígur en hægt er að sjá ummerki um að gosefni úr honum hafi lagst yfir Vatnsfellsgíginn.

Ummerki eru um gígaröð sem liggur um 4 km inn eftir skaganum í stefnu SV-NA og nefnist hraunið úr henni Yngra Stampahraun. Stærstu gígarnir eru tveir og nefnast Stampar og er gígaröðin öll kennd við þá. Gígarnir eru að mestu klepragígar sem byggst hafa upp af hraunslettum frá kvikustrókum. Hraunið frá gígaröðinni rann upp að Karlsgíg og Vatnsfellsgíg sem staðfestir að hraunið rann eftir að þeir mynduðust.

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Finna má fjögur gjóskulög sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldalag, sem er svart, sendið gjóskulag (R-9) sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig sandvetrinum mikla veturinn á eftir.

Ofan á Yngra Stampahrauni má finna miðaldalagið og er því talið að Stampagígaröðin hafi verið virk á fyrri hluta eldanna. Gossprungurnar, sem mynduðu Eldvarpahraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun, hafa verið virkar eftir að miðaldalagið myndaðist þar sem öll hraunin liggja ofan á því gjóskulagi.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Eldvarpahraun yngra rann úr samnefndri gígaröð sem er um 8–10 km löng og nær næstum því til sjávar þó engin gos séu þekkt í sjó frá sama tíma á þessu svæði. Gossprungan sjálf er mjög löng en gígaröðin er fremur slitrótt. Hraun úr syðsta enda sprungunnar rann í sjó fram. Marga formfagra gíga er að finna í Eldvörpum og um hluta þeirra liggur skemmtileg gönguleið. Ekki er síðra að horfa á gígana úr lofti.

Illahraun myndaðist úr stuttri samsíða sprungu austan við Eldvörp. Á norðurjaðri hraunsins er nú Bláa lónið. Illahraun er frekar torfært uppbrotið helluhraun. Gígaröðin er einungis um 200 m að lengd og á henni má finna nokkra gíga, einn gígurinn er stærri en hinir og er sá gígur tvöfaldur.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Úr 500 m langri gossprungu við Gígahæð rann Arnaseturshraun. Stuttu austar má finna 700 m langa sprungu sem virðist einungis hafa verið virk í stuttan tíma.

Við Bláa lónið er Illahraun áberandi úfið og grófgert.”

Ítarefni;

Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379–401 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson & Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2020. Geology and structure of the Reykjanes volcanic system, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 391. 1–13.

Magnús Á. Sigurgeirsson. 1995. Yngra-Stampagosið á Reykjanesi. Náttúrufræðingurinn 64(3). 211–230.

Magnús Á. Sigurgeirsson & Sigmundur Einarsson. 2019. Reykjanes og Svartsengi. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 2. mars 2021 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=REY#

Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journal of Petrology 19(4). 669–705.

Heimildir:
-Sunnudagur 4. febrúar 2024, Heimildin, Sunna Ósk Logadóttir, „Sandsumar“ í kjölfar eldgosa úti fyrir Reykjanesi.
-https://nmsi.is/molar/eldfjall/reykjaneseldar/

Arnarseturshraun

Illahraun og nágrenni – (Jarðfr.glósur GK).

Húshólmi

Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um “Krýsuvíkurelda – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins” í Jökul árið 1988:

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.
Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks og Sigmunds á þeim síðla hausts 1987. Í grein þeirra í Jökli er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.
“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni fyrrum.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – refakyttubyrgi. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svenefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónnson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.

Landnámslagið

Landnámslagið í gjóskulagi.

Þekktaskta gjóskulagið á þessum slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).
Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Talið er að miðaldaöskulagið geti verið frá 1226/27.

Jarðfræði

Hraun á sögulegum tíma.

Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.
Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.”
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Flekaskil

Í ritgerð Ingibjargar Andreu Bergþórsdóttur í Jarðvísindadeild HÍ er m.a. fjallað um Yngra-Stampagosið og fleira um jarðfræði Reykjanesskagans, s.s. rekaskilin o.fl. Ægir Sigurðsson bætir um betur og spyr í grein sínni í Faxa árið 2006: “Er eitthvað áhugavert að sjá á Reykjanesskaganum?

Jarðfræði Íslands

Jarðfræði Íslands

Jarðfræðikort af Íslandi – ÍSOR. Sjá HÉR.

“Jarðfræði Íslands endurspeglast í staðsetningu þess í Norður Atlantsshafi milli Grænlands og Noregs á Mið-Atlantshafshrygg og á Grænlands-Færeyja þverhryggnum (Thordarson og Larsen, 2007, Thordarson og Höskuldsson, 2008). Landið er jarðfræðilega mjög ungt og talið hafa byrjað að myndast fyrir um 24 milljónum ára en elsta aldursgreinda berg á landinu er 14-16 milljón ára gamalt. Á Íslandi rís Mið-Atlantshafshryggurinn úr sæ vegna þess að Ísland er heitur reitur. Heitur reitur er svæði þar sem eldvirkni er meiri þar en á aðliggjandi svæðum. Ástæðan fyrir heita reitnum á Íslandi er sú að Mið-Atlandshafshryggurinn liggur yfir möttulstrók, sem er eðlisléttari en möttulinn umhverfis og rís því í átt að yfirborði. Talið er að möttulstrókurinn undir Íslandi hafi verið virkur að minnsta kosti síðustu 65 milljón árin. Möttulstrókar eru almennt taldir vera tiltölulega kyrrstæð fyrirbæri og flekaskilin á Íslandi leitast við að vera fyrir ofan hann. Rekbeltastökk hefur orðið í jarðsögunni en það er þegar flekaskilin hliðrast til að fylgja möttulstróknum (Ingi Þ. Bjarnason, 2008).
Eldvirkni á Íslandi tengist gliðnun á flekaskilum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Eldvirkni á suðurhluta landsins er aðallega takmörkuð við tvö gosbelti, Eystragosbeltið og Vestra gosbeltið en á norðurhluta landsins er eldvirkni á Norðurgosbeltinu sem nær frá Vatnajökli til Öxarfjarðar en þar hliðrast það til vesturs á Tjörnesbrotabeltið (Jakobsson et. al., 1978). Það eru tvö innanfleka gosbelti á Íslandi en það eru Öræfajökuls og Snæfellsnesgosbeltið. Snæfellsnesgosbeltið er leifar gömlu flekaskilanna og talið er að Öræfagosbeltið kunni að vera byrjun á nýjum skilum (Sæmundsson, 1979, Thordarson og Höskuldsson, 2002). Eldvirkni á Íslandi spannar svið frá neðansjávargosum til eldgosa undir jökli og eldgosum á þurru landi. Samsetning er frá basalti upp í rýólít (Jakobsson et. al., 1978).

Jarðfræði Reykjaness

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – ÍSOR. Sjá HÉR.

Reykjanesskagi er eldvirkt áframhald Reykjaneshryggjar á landi sem myndar hluta Atlantshafshryggs. Þar liggja mót Evrasíu og N-Ameríkuflekannn og öll eldvirkni þar er tengd gliðnunarhrinum en gliðnun flekaskilanna er talin vera um 2 cm á ári. Reykjanes er vestasti hluti Reykjanesskaga og er um 5 km langur og dregur nafn sitt af háhitasvæði sem er þar. Reykjanesskagi liggur innan Reykjanes-gosbeltisins sem liggur vestur af Vesturgosbeltinu og skaginn er þakinn hraunum sem runnið hafa á núverandi hlýskeiði, sem upp úr standa en móbergshryggir og stapar sem hafa myndast á meðan jökull lá yfir landinu eða sjávarborð hefur verið hærra.
Innan Reykjanesskaga eru þrjú til fjögur eldstöðvarkerfi, Reykjanes-Svartsengi (stundum talin sem sitt hvort kerfið), Krýsuvík og Brennisteinsfjöll. Þessi eldstöðvarkerfi eða sprungusveimar hafa stefnuna suðvestur til norðaustur (Jakobsson et. al., 1978, Thordarson og Höskuldsson, 2008, Páll Einarsson, 2008).
Eldstöðvakerfin sitja öll vestur af hvert öðru á skaganum (Mynd 3). Gosefnin úr þessum kerfum eru aðallega basísk og samanstanda af pikríti, ólivín-þóleiíti og þóleiíti. Þóleiít eru einkennandi fyrir sprungugos en pikrítin og ólivín-þóleiítin koma yfirleitt frá dyngjum (Peate et. al., 2008). Það eldstöðvarkerfi sem liggur vestast á Reykjanesskaga er Reykjaneseldstöðvarkerfið sem liggur frá suðvestri til norðausturs á Reykjanesi.
Reykjaneseldstöðvarkerfið er um 25 km langt og 10 km breitt og syðstu 9 km eru neðansjávar (Jakobsson et. al., 1978). Gígaraðir á Reykjanesi liggja á tveimur aðskildum gosreinum og hafa orðið sprungugos á þeim að minnsta kosti þrisvar sinnum á nútíma.
Reykjanes er eldbrunnið og að mestu gróðurlaust og þakið úfnum hraunum. Eldvirkni hefur verið mikil á Reykjanesskaga á sögulegum tíma. Þar má nefna að á fyrri hluta 13. aldar voru eldgos tíð og er tímabilið frá 1211-1240 e. Kr. nefnt Reykjaneseldar. Bæði urðu eldgos á landi og í sjó og finna má fjögur gjóskulög á Reykjanesskaga sem tengjast Reykjaneseldum, þ.e. gjóskulögin R-7 – R-10. Eldgos á gossprungum kerfisins hafa náð í sjó fram með tilheyrandi sprengivirkni við ströndina en að auki hefur runnið hraun á landi (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Athuganir hafa sýnt að það hafa verið að minnsta kosti 10 eldgos í sjó undan Reykjanesi síðan ísaldarjökullinn hörfaði (Sigurður Þórarinsson, 1965). Hraun sem runnið hafa á Reykjanesi eru úr basalti. Þóleiít hefur runnið frá gossprungum en ólivínþóleiít eða pikrít úr dyngjum (Jakobsson et. al., 1978).

Fyrri rannsóknir á Reykjanesi

Stampahraunið

Yngra-Stampahraunið.

Magnús Á. Sigurgeirsson (1995) lýsir vel áætluðum framgangi gossins sem myndaði gígrimana tvo í ströndinni við Kerlingarbás og skal hér gera stutta grein fyrir því.
Yngsta hraun Reykjaness, Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldum og er talið hafa markað upphaf þeirra. Ekki er hægt að staðfesta nákvæmt gosár en út frá rituðum heimildum og gjóskulagatímatali má leiða líkur að því að það hafi verið árið 1211. Gossprungan er talin hafa náð í sjó fram og myndað þar tvo gjóskugíga en hraun runnið á landi. Þetta gos er kallað Yngra-Stampagosið. Þar sem gossprungan lá á landi mynduðust margir gígar en tveir þeirra, sem kallast Stampar, eru stærstir og er gígaröðin kennd við þá.
Stampar liggja nyrst á gígaröðinni en hún liggur svo í suðvestur í átt að sjó og er 4 km löng. Þau eldvörp sem finna má á gígaröðinni eru byggð úr hraunslettum eða kleprum. Má því áætla að hawaiísk gosvirkni hafi verið ráðandi með tilskyldri kvikustrókavirkni og hraunframleiðslu. Hraunið þekur um 4 km2 lands og flokkast sem klumpa- og helluhraun.
Við endamörk gígaraðarinnar við ströndina er grunn vík sem kallast Kerlingarbás.

Karlinn

Karlinn – utar.

Út af Kerlingarbás í sjónum er drangurinn Karl, sem er 51 m hár og úr móbergi. Hluta þeirra gjóskugíga sem mynduðust í Yngra-Stampagosinu má sjá í ströndinni við Kerlingarbás. Sjórinn hefur rofið talsverðan hluta þeirra en að sama skapi útbúið góðar jarðlagaopnur þar sem skoða má innviði gíganna (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Undir Yngra-Stampahrauninu má finna dökkmóbrúnt gjóskulag sem er nefnt R-7.
Vatnsfell, sem er við ströndina við Kerlingarbás, er að verulegum hluta úr þessari gjósku en þar er þykktin orðin allt að 20 m. Því má áætla að upptök þessa gjóskulags (R-7) séu við ströndina og í Vatnsfelli sé varðveittur gígriminn. Athuganir benda til þess að Yngra-Stampahraunið og gjóskulagið R-7 hafi myndast á svipuðum tíma á gossprungu sem náði frá landi og út í sjó. Kannanir á gígleifunum benda til þess að þar séu tveir aðskildir gjóskugígar og sá yngri hefur kaffært þann eldri. Gígarnir eru ólíkir að byggingu og því auðvelt að greina þá í sundur. Sá eldri er nefndur Vatnsfellsgígur og er talinn hafa átt upptök í fjöruborðinu við Vatnsfell og verið 650 m í þvermál. Sá yngri er nefndur Karlsgígur eftir dranginum Karli og er talið að hann hafi átt upptök um 500 m frá landi og verið stærri að þvermáli eða um 1600 m. Drangurinn Karl er talinn vera hluti yngri gígsins og markar gígskálina. Talið er að Yngra-Stampahraunið hafi svo runnið að jaðri Karlsgígsins á meðan hann var heill og markar nú útlínur hans. Bæði Vatnsfellsgígur og Karlsgígur teljast til hverfjalla (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Walker og Croasdale (1972) notuðu sýni úr Vatnsfells- og Karlsgígnum til þess að skilgreina surtseyska gjósku. Gosið er talið hafa byrjað með sprengigosi út fyrir ströndinni og þar hleðst upp Vatnsfellsgígurinn (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Vatnsfellsgígurinn er að hluta til þakinn leifum Karlsgígsins og hefur öðruvísi uppbyggingu. Gígbarminum má skipta í neðri og efri gjóskulagasyrpu. Neðri syrpan er fín aska, mjög þunnlagskipt með gárum. Efri syrpan er úr vikri og bergbrotum sem verður grófari eftir því sem ofar dregur. Efsti hlutinn er nánast eingöngu úr vikri. Eftir upphleðslu Vatnsfellsgígsins gerir síðan stutt goshlé, ekki lengra en nokkrir mánuðir og þá tekur aftur að gjósa undan ströndu en lengra frá landi. Þar hleðst upp Karlsgígurinn og gjóskan frá honum (R-7) berst svo um Reykjanesið en mest út á sjó. Karlsgígurinn er hverfjall sem er uppbyggður úr gusthlaupa- og gjóskufallslögum sem skiptast á. Algengt er að finna öskubaunir og þétt blöðrótt lög í gígbarminum, sem gefur til kynna að gjóskan hefur verið mettuð gufu þegar hún settist til. Bygging gígsins einkennist í fyrsta lagi af þunnum til þykkum (3-30 cm) lögum af einsleitum gjóskulögum og í öðru lagi af mjög þunnum til þunnum (1-3 cm) lagþynnóttum til lagskiptum lögum. (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Í framhaldi af þessum gjóskugosum við ströndina hefst svo hraungosið á landi. (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).”

Í Faxa 2006 spyr Ægir Sigurðsson; “Er eitthvað að sjá á Reykjanesskaganum“?

Eldvörp

Í Illahrauni við Bláa lónið.

“Þessi landslags og mannlífslýsing meistara Þórbergs á einu af innnesjunum á einnig við útnesin í hugum þorra landsmanna og mörgum sem á skaganum búa finnst lítt til um náttúru hans. Hér rísa vissulega ekki há fjöll þverbrött úr Ægisfaðmi, hér finnast ekki djúpir dalir og ekki liðast hér ár, bakkafullar af laxfiski, um grænar grundir. En skaginn okkar býr yfir öðrum töfrum sem allt of margir hafa látið fram hjá sér fara en eru þó að verða fleirum og fleirum ljósari.
Í þessum greinarstúfi ætla ég að benda á örfáar perlur sem hægt er að nálgast án mikillar fyrirhafnar í þeirri von að einhverjir Suðurnesjamenn geri sér grein fyrir að innan seilingar eigi þeir náttúru sem er einstök í sinni röð. Um seinni línuna í tilvitnuninni ræði ég ekki að sinni.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

En hvað er það sem gerir Reykjanesið svona sérstætt? Hví hafa jafnt erlendir sem innlendir náttúrufræðingar skrifað aragrúa lærðra greina um náttúru þessa útskaga? Jú hér hagar svo til að rannsaka má úthafshrygg á þurru landi sem óneitanlega er miklu þægilegra en á nokkur hundruð eða þúsund faðma dýpi. Þar hlaðast upp há fjöll svo sem Himalajafjöllin, þar verða jarðskjálftar mun harðari og mannskæðari og gos eldfjallanna ofsafengnari. En þar sem við erum á plötuskilum læt ég þetta duga um mótin. Eftir úthöfunum endilöngum liggja 2000-4000 m háir fjallgarðar sem alls eru um 70.000 km að lengd. Víða hafa hryggirnir hliðrast þvert á lengdarás sinn um tugi eða hundruð kílómetra um svo nefnd brotabelti.
Tvenn brotabelti eru á eða við landið. Annað tengir saman gosbeltin á Reykjanesi og á Suðurlandi og þar eiga m.a. hinir illræmdu Suðurlandsskjálftar upptök sín. Hitt er fyrir Norðurlandi og tengir saman eystra gosbeltið í Axarfirði og Kolbeinseyjarhrygginn. Á því urðu fyrir skömmu allsnarpar hræringar.
Hryggirnir, svo og hafsbotninn eru úr eðlisþyngri efnum en meginlöndin og standa því lægra en þau og eru því undir sjó. Undir hryggjunum kemur heitt möttulefnið upp og þeir standa því mun hærra en botninn umhverfis sem er úr kaldara efni. Yfir möttulstrókunum miðjum þar sem landris er mest bæði vegna hitaáhrifanna svo og mikillar efnisframleiðslu getur hafsbotninn risið úr sæ. Ísland er dæmi um slíkt.

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur.

Reykjaneshryggur er hluti af Atlantshafshryggnum sem liðast eftir hafinu endilöngu og skilur m.a. að Norður Ameríku- og Evrasíuflekana. Reykjanesskaginn tekur síðan við af hryggjunum og markar þannig upphaf gosbeltisins sem nær þvert yfir landið. Reykjanesskaginn er því að klofna. Vestari hluti hans færist til norðvesturs að meðaltali um 1 cm/ári en eystri hluti hans til suðausturs með sama hraða. Jarðeldurinn fyllir síðan jafnóðum í rifuna á milli. Þessar hreyfingar verða í rykkjum og fylgja þeim eldgos líkt og í Kröflueldum þar sem land gliðnaði um 78 m á nokkrum árum.
Eldvirknin innan gosbeltanna er ekki samfelld heldur raða eldvörpin sér á afmörkuð svæði, gosreinar. Í miðju hverrar reinar er eldvirknin mest og þar myndast megineldstöðvar sem oft rísa nokkur hundruð metra yfir umhverfi sitt. Þar er að fi nna mun meiri breytileika í bergtegundum og gosmyndunum en utan þeirra og háhitasvæði tengist þeim fl estum. Á Reykjanesskaganum hafa megineldstöðvar ekki náð að myndast enn nema í Hengilsreininni sem er elst. Reinarnar eru mismunandi að lengd, 20-50 km, og breiddin frá 5 og upp í 7 km og stefna þær NA SV. Misgengin í hverri rein mynda grunna sigdali og gígarnir fylgja flestir miðju hverrar reinar. Einstaka hrauntaumar hafa þó runnið langt út fyrir sína heima rein.

Snókalönd

Skjól í Snókalöndum.

Fjölbreytileiki eldstöðva er mikill og á fáum stöðum er hægt að skoða allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva á jafn litlu og aðgengilegu svæði. Dyngjur litlar sem stórar, gígaraðir stuttar og langar úr kleprum og gjalli í ýmsum hlutföllum, gígahópar (svæðisgos), stampar og eldborgir, sprengigígar og jafnvel myndanir sem líkjast sigkötlum. Í útjaðri svæðisins eru megineldstöðvar órofnar eins og Hengilssvæðið eða rofnar til róta líkt og Reykjavíkur, Kjalarnes og Stardalsstöðvarnar. Á utanverðum skaganum er aðeins að finna basalt en þar eru þó allar þrjár megin gerðirnar. Fjölbreytileiki hraunanna og hraunmyndanna er óþrjótandi. Hraunhólar með djúpum sprungum sem veita ýmsum jurtum skjól svo sem blágresi og stóraburkna, hraunbólur, óbrinnishóla inn í miðju hraunhafinu, hrauntraðir með ýmsum myndunum, kargahraun þakið þykkri mosakápu, niðurföll, rásir, skúta og hella af mismunandi lengd og gerð.

Hellar

Ferlir

Í hellinum Ferli.

Fjölmargir hellar eru á skaganum og aðeins hluti þeirra fundinn svo að fyrir þá sem vilja skríða um móður jörð og skoða innviði hennar er þetta kjörsvæði. Hellaauðug hraun eru oft aðeins steinsnar frá þjóðleiðum t.d. í Arnaseturshrauni við Grindavíkurveg og hinir rómuðu Bláfjallahellar í Strompahrauni þar sem þúsundir manna fara um á góðviðrisdögum. Konunginn sjálfan hinn 1360m langa Raufarhólshelli í Leitahrauni þekkja víst flestir. Ekki eru allir hellarnir svo til láréttir heldur er einnig þó nokkuð um lóðrétta hella sem flestir eru afgösunar pípur og þá oft tengdir gígunum. Dýpstur er hellirinn í Þríhnjúkum en þar þarf að síga um 110 m beint niður áður en fætur kenna gólfs og eftir það má enn fara neðar. Fer þá eflaust að styttast til þess höfðingja sem hinir ófrómu munu gista að lokinni jarðvistinni. Um þær myndanir sem hellarnir búa yfir, mætti hafa mörg orð, en þeirra á aðeins að njóta á staðnum, í því sérkennilega andrúmslofti sem þar ríkir og í hinni dularfullu birtu ljóskeranna. Sjálft hraunið og myndanir þess og litbrigði eru svo heimur út af fyrir sig.

Móberg

Móbergsmyndanir.

Djúpar gjár stundum með köldu tæru vatni og misgengisstallar af mismunandi stærðum og gerðum eru einnig skoðunarverðir staðir. Móbergið sem er mun linara en basaltið er tilvalið efni fyrir vatn og vind til að skera út ýmsar kynjamyndir. Og ekki má láta hjá líða að minnast á háhitasvæðin með öllum þeim furðum sem þar er að sjá og heyra að ógleymdri þeirri ilman sem fylgi skoðandanum langt út fyrir svæðið.

Jarðlagagerð

Ef við lítum aðeins á jarðlagagerðina má skipta henni eftir myndunartíma í þrjá aðal flokka. Grágrýtishraunin frá síðustu hlýskeiðum, móbergs og bólstraberg frá síðustu jökulskeiðum og hraun runnin eftir ísöld.

Grágrýti

Grágrýti

Grágrýti.

Grágrýtishraunin runnu á hlýskeiðum ísaldar og jöklarnir hreinsuðu og skófu síðan allt gjall, hraunreipi og aðrar yfirborðsmyndanir af. Ysti hluti skagans, Rosmhvalanes, sem er SV við miðju landrekssprungunnar, er hulið grágrýti og samkvæmt flekakenningunni ætti grágrýti af svipuðum aldri að finnast SA við hana. Ef þið skoðið mynd 3 sjáið þið að svo er t.d. í Krýsuvík. Við skulum líta aðeins nánar á grágrýtið á “Rostunganesinu” en á því eru helstu stórborgir Suðurnesja. Hraunin bera þess greinileg merki að þau eru runnin frá dyngjum. Þar sem sjór og/eða jöklar hafa rofið stalla í það má sjá að þau eru beltótt og smá eða grófkristölluð. Ef rýnt er í bergið má kenna að ljósu kornin í því eru plagíóklas (feldspat) og á einstaka stað má í ljósum og gropnum blettum sjá dökka, nokkuð stóra, ágít kristalla. Þar sem bergið er mishart, veðrast við vissar aðstæður mjög sérkennilegt „bollamunstur” í það og prýða slíkir steinar margan verðlaunagarðinn í Keflavík. Skipta má grágrýtinu upp í þrjár syrpur: Háaleitis, Njarðvíkur og Vogastapagrágrýtið.

Vogastapagrágrýtið

Háaleiti

Háaleiti – Áki Granz.

Talið er að Háleitis og Vogastapagrágrýtið hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði fyrir um 200.000 árum en Njarðvíkurgrágrýtið á síðasta hlýskeiði og er þá um 100.000 ára. Talið er næsta víst að Háaleitið sé dyngjuhvirfill samnefnds hrauns en óvíst er um uppkomustað hinna og gætu þeir jafnvel verið horfnir í sæ. Þykkt hraunanna er allt að 90m. Vogagrágrýti hefur snarast til SA, inn að virka svæðinu, og má merkja það á misgengjum svo sem í Háabjalla og stöllunum sitt hvoru megin Seltjarnar.

Móbergs- og bólstramyndanir

Bólstrar

Bólstri í Lambatanga.

Móbergs- og bólstramyndanir eru flestar frá síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir 70.000 árum. Dæmi er um myndanir frá eldri jökulskeiðum. Reynt verður að skýra lauslega frá því hvað á sér stað þegar jarðeldur kemur upp undir jökli eða vatni. Flestir hafa séð hvernig hraun renna frá eldvörpum t.d. Heklu og Kröflugosum. Ef bergkvika kemur upp undir jökli bræðir hún geil í jökulinn sem hálffyllist af vatni sem snöggkælir hana svo hún nær ekki að kristallast en splundrast í smá gleragnir sem nefnist aska. Margir hafa orðið fyrir því að snöggkæla heita glerhluti og þekkja þetta því af eigin skinni. Ef vatnsþrýstingurinn er nægur nær efnið ekki að splundrast en vegna mikillar kælingar myndar það hnykla eða kodda sem oft eru innan við metri á hvern kant. Nefnist bergið þá bólstraberg. Ef gos stendur það lengi að bólstrabergið og gosaskan ná að hlaða upp gíg sem vatn kemst ekki í rennur hraun sem myndar hettu ofan á eldvarpinu. Nefnist það þá stapi. Með tíð og tíma ummyndast og harðnar hin dökka aska og verður að brúnu mógleri sem límist saman og myndar móbergið. Vikur, gjall og hraunmolar smáir og stórir sem blandast öskunni gefur svo móberginu mismunandi ásýnd.
Þegar jökullinn hvarf af landinu stóðu eftir hlíðarbrött fjöll, mismunandi að hæð og gerð. Útlit og gerð þeirra fer eftir því hvenær gosinu lauk og hvort gosið hefur aðallega á einum stað eða á gossprungu. Sem dæmi um móbergshryggi má nefna Sveiflu og Núpshlíðarhálsa svo og fellin frá Valahnúk að Sýrfelli. Vegna athafna manna er unnt að skoða bólstrabergið í Stapafelli í mjög laglegu sniði, meira að segja, án þess að þurfa að yfirgefa hægindi mótorfáksins. Í Súlunum, sem samfastar eru Stapafelli, má einnig greina gangana sem á sínum tíma veittu eldleðjunni upp í gíginn. Keilir er dæmi um stakstætt móbergsfjall og Fagradalsfjall er myndarlegasti stapinn á utanverðum skaganum.

Hraun

Katlahraun

Katlahraun.

Nútímahraun nefnast þau hraun sem upp hafa komið eftir að jökla leysti hér á skaganum líklega fyrir 12-13 þúsund árum. Venja er að skipta hraununum í tvo flokka eftir uppruna og útliti: Dyngjuhraun sem eru dæmigerð helluhraun úr þunnum hraunlögum, slétt, reipótt og með ávölum hraunhólum sem oft eru með alldjúpum sprungum í kollinum. Bergið er gráleitt og með brúnleita veðrunarkápu, oft grófkornótt og áberandi ólivín og/eða plagíóklas dílar eru algengir. Bergtegundin nefnist ólivínþóleiít og er einkennisberg hafsbotnsins. Hraunin dreifast gjarnan yfir stór svæði því kvikan er heit og þunnfljótandi þegar hún kemur upp. Á skaganum utanverðum eru þrjár stórar dyngjur. Sú ysta nefnist Sandfellshæð og þrátt fyrir að hraun hennar þeki uppundir 150 km2 og eru tæpir 6 km3 er gígur hennar aðeins 90 metrar yfir sjávarmáli.
Þráinsskjöldur byggir síðan upp Vogaheiðina og er gígur hans rétt austan við FagradalsfjallVatnsfell. Að stærð og aldri eru þessar dyngjur álíka og virðast hafa verið virkar við lægri sjávarstöðu líklega skömmu eftir að ísa leysti af svæðinu. Ef þið hafið ekki tekið eftir þessu mikla eldfjalli, Þráinsskyldi, rennið þá augunum, frá Ströndinni og upp í vikið á milli Keilis og Vatnsfells næst þegar þið eigið leið um Stapann í átt til höfuðstaðarins. Þá blasir við eldstöð þar sem upp kom um 20 sinnum meira efni en í Heimaeyjargosinu. Þriðju dyngjuna er að finna uppundir Sveifluhálsi og er hún kennd við Hrútagjá en hraun hennar runnu til sjávar á milli Afstapahrauns og Straums. Dyngja þessi er mun minni en hinar tvær og einnig snöggtum yngri. Austar á skaganum eru fleiri dyngjur svo sem Selvogsheiði, Heiðin há og Leitin, en hraunin frá þeim runnu til sjávar bæði í Reykjavík og Þorlákshöfn.
Nokkrar minni dyngjur úr svo nefndu pikríti, er einnig að finna á Reykjanesi og má þar til nefna Háleyjarbungu út á Reykjanestá en hana prýðir formfagur gígketill. Pikrítið er bergtegund sem er talin vera komin svo til beint frá möttli. Það er grófkornótt og allt löðrandi í ólivíndílum sem stundum eru svolítið brúnleitir vegna ummyndunar í stað þess að vera ólivíngrænir. Pikrít hraunin eru talin vera elstu nútímahraunin á skaganum og hafa því runnið strax eftir ísaldarlok.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Sprunguhraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum eru úr mun seigari kviku en dyngjuhraunin og mynda því þykk hraun með mikinn gjallkarga. Þau eru því úfin og ill yfirferðar og hraunjaðar þeirra hár og brattur. Nefnast slík hraun apalhraun. Frá einstaka eldvarpi geta þó báðar hraungerðirnar runnið í einu og sama gosinu. Apalhraunin renna gjarnan frá gosrásinni eftir hraunám sem nefnast hrauntraðir að gosi loknu en helluhraunin eftir rásum undir storknuðu yfirborðinu. Þau síðarnefndu eru því mun auðugri af hellum. Sprunguhraunin eru flest yngri en dyngjuhraunin og nokkur þeirra hafa runnið eftir að land var numið. Bergtegundin er þóleiít, algengasta bergtegund landsins, nema hér á nesinu þar sem um 18 % af yfirborðsberginu telst til þess en 78% er ólivínþóleiít og 4% pikrít. Þóleiítið er mun dekkra en dyngjubasaltið og dul- eða fínkornótt og mun minna af dílum er í því en hinum tveim. Eldvörpin eru mjög fjölbreytt að gerð og lögun, en mun meira af lausum gosefnum koma upp í þeim en dyngjunum og heildar magn gosefna einstakra gosa er oftast langt innan við 1 km3 Erfitt er að gera sér grein fyrir fjölda þeirra eldvarpa sem gosið hafa á nútíma en Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kortlagt hraun frá meira en 150 uppkomustöðum en þeir hljóta að vera fleiri því einhverjir hafa lent undir yngri hraunum. Gosin verða í hrinum innan hverrar gosreinar. Glöggt dæmi um það er gos sem hófst út á Reykjanestá, líklega 1226, sem síðan breiddist norðaustur eftir skaganum allt til Arnarseturs sem er rétt austan Grindavíkurvegar. Sömu sögu má segja þegar Ögmundarhraun rann líklega 1151. Á kortinu má einnig sjá þau 14 hraun sem upp hafa komið á sögulegum tíma. Athygli skal vakin á austasta hrauninu númer 14, en það telur Jón Jónsson vera Kristnitökuhraun sem rann þegar við kristni var tekið af lýð árið 999.

Hvenær gýs næst?

eldgos

Má vænta þessa í nánustu framtíð á Reykjanesskaga?

Þó langt sé liðið, á tímakvarða manna, síðan síðast gaus á Reykjanesskaganum er hann langt frá því að vera dauður úr öllum eldæðum. Mun skemmra er síðan stór gos hafa orðið út á Reykjaneshrygg. 1783 hlóðst þar upp eyja sem fékk það frumlega nafn Nýey en hafið vann fljótt og vel á henni. Líkur hafa verið að því leiddar að gosið hafi út á hryggnum á síðustu öld og það oftar en einu sinni.
Þó eldgos séu mikil sjónarspil og valdi ekki alltaf miklu tjóni og geti jafnvel verið til bóta fyrir svæðið sem þau koma upp á t.d. með því að leggja til byggingarefni, veita skjól eða draga til sín ferðamenn æskir þeirra enginn.
Mannskepnan er ósköp smá og lítils megnug þegar eldgyðjan blæs í glæður sínar en eitt er víst að jarðeldur á eftir að koma upp hér á skaganum. Eina óvissan er hvar og hvenær.” – Ægir Sigurðsson.

Heimildir:
-Yngra-Stampagosið á Reykjanesi, Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, Jarðvísindadeild HÍ 2016 – ritgerð í HÍ.
-Faxi, 2. tbl. 66. árg. 2006, Er eitthvað að sjá á Reykjanesskaganum, Ægir Sigurðsson, bls. 44-47.

Eldgos

Vel er fylgst með jarðhræringum á Reykjanesskaga.

Húshólmi

Í tímaritið Jökul 1988 skrifa Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson um “Krýsuvíkurelda“. Greinin nefnist “Krýsuvíkureldar I  – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins”.

Ágrip
JökullÍ grein þessari er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins er kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á.
Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag og eru leidd sterk rök að aldri þess og uppruna. Einnig eru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum. Ofangreindar athuganir eru bornar saman við ritheimildir og teljum við okkur geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin er getið um aldursákvörðun forns torfgarðs í Húshólma sem reynist vera eitt af elstu mannvirkjum sem fundist hafa á Íslandi.

Inngangur

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982, 1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakolsaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæði en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulag sem nefnt hefur verið miðaldalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu.
Í þessari grein verður skýrt frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru síðla hausts 1987.

Ögmundarhraun
Krýsuvíkureldar
Ögmundarhraun (mynd 1) er komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gos virknin að mestu en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Eldgos í kerfinu verða að líkindum með svipuðum hætti og gerðist í Kröflueldum, þ.e. í umbrotahrinum sem einkennast af gliðnun lands og kvikuhlaupum, oft jafnhliða eldgosum, en síðan verða hlé á milli.
Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Útbreiðsla hrauna sem þá runnu er sýnd á mynd 1. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur og er ætlun okkar að fjalla nánar um þau í annarri grein um Krýsuvíkurelda sem nú er í smíðum. Jón Jónsson (1982) hefur áður haldið því fram að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Rústir í Ögmundarhrauni
Krýsuvíkureldar
Í Ögmundarhrauni em nokkrir óbrennishólmar, en svo nefnast landskikar umluktir sögulegu hrauni. Stærstur er Húshólmi sem er austast og neðst í hrauninu en nokkru vestar og ofar er Óbrennishólmi.
Rústir em í báðum þessum hólmum (mynd 2). Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum sem em smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið mnnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. maí 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Olafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið (mynd 2). Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum. Í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferð þeirra til Krýsuvíkur er þess getið að þáverandi bóndi þar hafi lagt veg út í hólmann með miklu erfiði (sbr. Sveinbjörn Rafnsson, 1982). Þá gæti gatan hafa komist í núverandi horf. Engin gata er milli Húshólma og Óbrennishólma. Gata liggur úr neðri Kirkjulág og vestur að Selatöngum en í Óbrennishólma liggur gata frá Latfjalli og úr hólmanum niður að sjó. Af loftmyndum að dæma hefur gatan að hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík austan að legið nokkru neðar en sú gata sem nú liggur í Húshólma (mynd 2).

Gjóskulagasnið
Krýsuvíkureldar
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði við jaðra hraunsins og utan þess (myndir 3 og 5). Á þessu svæði eru nokkur lík gjóskulög af þekktum aldri.

Landnámslagið
Krýsuvíkureldar
Þekktasta gjóskulagið á þessu slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og efri hlutinn dökkur, en á Reykjanesskaga er það oftast hvítgult og slitrótt en þó auðþekkjanlegt. Ekki hefur tekist að finna dökka hlutann á sunnanverðum skaganum eða vestar en í Reykjavík. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Landnámslaginu fylgja yfirleitt litaskipti í jarðvegssniðunum og er jarðvegurinn dökkur undir því, en ljósari ofan þess og fokkenndari. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafi brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).

Aldur landnámslagsins
Krýsuvíkureldar
Um aldur landnámslagsins hefur allmikið verið ritað og hefur Margrét Hallsdóttir (1987) tekið saman yfirlit um það.
Reynt hefur verið að aldurssetja landnámslagið með þremur ólíkum aðferðum. Í fyrsta lagi með geislakolsgreiningum. Í öðru lagi með könnun á afstöðu þess til annarra þekktra gjóskulaga og aldur þess síðan reiknaður út frá jarðvegsþykknun. Í þriðja lagi með tengingu við frávík í sýrustigi í ískjörnum í Grænlandsjökli en frávikin eru rakin til eldgosa. Geislakolsgreiningar eru þeim annmarka háðar að mæliskekkja er sjaldnast minni en 50 ár til eða frá.
Þær aldursgreiningar sem til eru af landnámslaginu benda til síðari hluta níundu aldar (Sigurður Þórarinsson, 1977; Hreinn Haraldsson, 1981; Margrét Hallsdóttir, 1987).
Guðrún Larsen (1982, 1984) hefur sett fram þá tilgátu að sýrustigsfrávik í Grænlandskjörnunum 897-898 gæti orsakast af eldgosi því sem myndaði landnámslagið. Skekkjan er 1-2 ár. Bryndís G. Róbertsdóttir og Haukur Jóhannesson (1986) reiknuðu aldur lagsins út frá afstöðu þess til annarra þekktra öskulaga og fengu ártalið 901-902. Í þessari grein er reiknað með að landnámslagið sé fallið um 900.

Miðaldalagið
Krýsuvíkureldar
Annað nokkuð vel þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Gunnar Ólafsson (1983) hefur kannað útbreiðslu þess og reynt að heimfæra það upp á eldgos sem getið er í rituðum heimildum. Lagið er þykkast yst á Reykjanesskaga þar sem það er um 20 cm og auðvelt er að rekja það inn allan skagann. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðvestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Yngra Stampahraunið er því runnið á sögulegum tíma. Miðaldalagið er dökkt og nokkuð jafngróft og auðgreint frá Kötlulaginu 1485 sem er kolsvart og fínkornótt en það finnst greinilega á norðanverðum skaganum.
Gunnar Ólafsson var í vafa um hvernig heimfæra skyldi gos þetta upp á ritaðar heimildir um eldgos á svæðinu. Hann komst að þeirri niðurstöðu að heimildir bendi til áranna 1226/27 eða 1231 en útreikningar á jarðvegsþykknun milli þekktra gjóskulaga (landnámslags og gjóskulags frá Kötlu sem ýmist er talið fallið um 1485 eða 1500 (Sigurður Þórarinsson, 1967; Guðrún Larsen, 1978), bendi til ársins 1340. Hann endar greinargerð sína á eftirfarandi orðum: “Hér verður ekki gert upp á milli þessara þriggja gosára.”

Aldur miðaldalagsins

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Til að gera sér betur grein fyrir því, hvaða ár miðaldalagið féll, er vert að rýna í heimildimar að nýju. Augljóst er, að goshrina hefur verið í sjó undan Reykjanesi frá 1210 eða 1211 til 1240, og virðist hún hafa náð hámarki á þriðja áratug aldarinnar. Annálar, Biskupasögur og Íslendinga Saga eru nokkuð samhljóða um þessa atburði. Hér á eftir verða heimildirnar prentaðar hráar. Það sem Setbergsannáll segir umfram aðra annála er talinn skáldskapur höfundarins. Stafsetning á Oddaverjaannál er ekki samræmd því Storm (1888) hefir fellt út hluta af textanum ef hann er samhljóða öðrum annálum, einkum Konungsannál og Lögmannsannál.
Tilvitnun úr annálabrotum Gísla Oddssonar er tekin eftir þýðingu Jónasar Rafnar (Gísli Oddsson, 1942) en frumritið er ekki til lengur, heldur aðeins latnesk þýðing (sjá Gísli Oddsson, 1917). Tilvitnanir í Íslendinga Sögu era teknar úr Sturlunga Sögu (1946).
Tilvitnanir í einsakar biskupasögur era teknar úr Biskupa Sögum (1858-1878). Tilvitnanir í aðra annála en annál Flateyjarbókar, annálabrot Gísla Oddssonar og Setbergsannál eru teknar úr Storm (1888). Annáll Flateyjarbókar er í Flateyjarbók (1945).

Eldey

Eldey.

1210:
“Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyiar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufðu stadit” (Oddaverjaannáll bls. 478). Sigurður Þórarinsson (1952, 1965) setur þessa heimild ranglega við 1211.
Um 1210?:
“Á vorum dögum hefur það gerst að hafið hefur á þriggja mílna svæði ólgað og soðið eins og í potti, en jörðin opnast og kastað upp úr djúpunum eldlegum gufum og myndað stórt fjall upp úr sjónum” (Noregskróníka á latínu (Munch, 1850), þýðing Sigurðar Þórarinssonar (1965)). Sigurður Þórarinsson (1965) telur að hér sé átt við eldgos undan Reykjanesi 1211 og verður ekki annað séð en hér sé á ferð lýsing á myndun Eldeyjar.
1211:

Eldey

Eldey.

“Elldr kom vpp ór séa. Sörli Kols sonr fann Elldéyiar” (Konungsannáll bls. 123).
“Elldr kom vpp or sia fyrir Reykia nesi. Sörli Kols son fann Elld eyiar” (Skálholtsann áll bls. 182).
“Eldr kom upp ór sjó. Sörli fann Eldeyjar” (Annáll Flateyjarbókarbls. 311).
“En viku fyrir andlát Páls biskups sýndist túngl svá sem roðra væri, ok gaf eigi ljós af sér um miðnætti í heiðviðri, ok bauð þat þá þegar mikla ógn mörgum manni” (Páls biskups saga bls. 145; Páll biskup lést þriðjud. 29. nóv. 1211. Roðra=blóð – innskot höf.).
“..en hér má sjá, hversu margr kviðbjóðr hefir farit fyrir fráfalli þessa hins dýrliga höfðíngja Páls biskups: jörðin skalf öll og pipraði af ótta (harður jarðskjálfti varð þetta ár samkvæmt mörgum annálum og fórust 13-14 menn – innskot höf.); himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómr stóð yfir sýndist náliga allar höfuðskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans fráfalli” (Páls biskups saga bls. 145).
“Þat fylgir þessum fádæmum, at í sjálfu hafinu, viku sjávar suðr undan landinu, hefur upp komit af eldsganginum stórt fjall, en annat sökk niðr í staðinn, þat er upp kom í fyrstu með sömu grein” (Guðmundar saga Arasonar Hólabiskups bls. 5; Vika sjávar er forn mælieining sem virðist hafa verið breytileg frá um fimm km upp í liðlega átta – innskot höf.).
Sigurður Þórarinsson (1965) rekur einnig nokkrar erlendar heimildir sem eiga við um neðansjávargos á öndverðri 13. öld og telur að minnsta kosti eina þeirra eiga við eldgosið 1211 (Munch, 1850).
1223:
“Elldz vppkuama fyrir Reykianese” (Oddaverjaannáll bls. 479).
“Enn fremur eldgos við Reykjanes” (Annálabrot Gísla Oddssonar, bls. 10). Sigurður Þórarinsson (1965) nefnir ekki þetta eldgos.

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

1225:
“Sandwetur ai Jslandi” (Oddaverjaannáll bls. 479).
“Sandvetur hinn mikli víðast um Island, svo peningur almúgans hafði litla björg afjörðu og varð oftast hey að gefa” (Setbergsannáll bls. 25).
1226:
“Ellz vpqvama fyr Revkia nesi” (Resensannáll bls. 24).
“Elldz upqvama fyrir Reykjanesi” (Höyersannáll bls. 64).

Stampar

Stampagígaröðin myndaðist um 1230.

“Elldr i séa firir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag” (Konungsannáll bls. 127).
“Elldr fyrir Reykia nesi” (Skálholtann áll bls. 186).
“Elldr fyrir Reykia nesi” (Gottskálksannáll bls. 326). “Sandfalls wetur ai Jslandi. Elldr i séa fyrir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag” (Oddaverjaannáll bls. 479).
“Elldz vppkuama fyrir Reykianese” (Lögmannsannáll bls. 255).
“Það varð til um sumarið, að mikið myrkur varð um miðdegi” (Setbergsannáll bls. 25).
“Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks; einnig myrkvi á hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
“Eldr í sjó fyrir Reykjanesi. Myrkr um miðjan dag” (Annáll Flateyjarbókar bls. 315).
“Sumar þetta var illt ok vátviðrasamt. Kom upp eldr ór sjónum fyrir Reykjanesi” (Íslendinga Saga bls. 311).
“Sumar þetta var illt ok vandréðasamt. Kom upp eldr or sjónum fire Reykjanese” (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 546).
1226/27:
“Þessi vetr var kallaðr sandvetr ok var fellivetr mikill, ok dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði” (Íslendinga Saga bls. 314-15).
“Sandvetr hinn mikle ok fjárfellir” (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 548).

Gjóskusnið

Unnið við að greina gjóskulög í jarðvegssniði.

1227:
“Sandvetr” (Resensannáll bls. 24).
“Sanduetr a Islande” (Lögmannsannáll bls. 256).
“Sand vetr” (Skálholtsannáll bls. 186).
“Sanndvetr” (Konungsannáll bls. 117).
“Sanduetr” (Gottskálksannáll bls. 326).
“Sanndvetr” (Oddaverjaannáll bls. 480).

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

“Sandvetur eins og sá næsti á undan” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
“Sandvetr” (Annáll Flateyjarbókar bls. 315). Beinast liggur við að þessi sandvetur eigi við síðari hluta vetrar 1226/27 og annálagreinar um hann því samstofna frásögn Sturlungu og Guðmundar sögu biskups sem getið er hér næst að framan.
1231:
“Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppi í sjónum fyrir Reykjanesi, ok var grasleysa mikil” (Íslendinga Saga bls. 346).
“Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppe fire Reykjanese ok var grasleysa mikil” (Guðmundar saga Arasonár hin elsta bls. 553-554).
1238:
“Ellz vppqvama i Revkia nesi” (Resensannáll bls. 25).
“Elldz upkuama fyrir Reykianesi” (Höyersannáll bls. 65).
“Elldr firir Réykianesi” (Konungsannáll bls. 130).
“Elldz vppqvama fyrir Reykia nesi. Varþ brestr mikill at Sauða felli ok margir fyrir burþir” (Skálholtsannáll bls. 188).
“Elldr fyrir Reykia nesi” (Gottskálksannáll bls. 327).

Karl

Karlinn við Reykjanes.

“Elldr firir Réykianesi” (Oddaverjaannáll bls. 481).
“Eldgos við Reykjanes-skaga” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
“Eldr uppi fyrir Reykjanesi” (Annáll Flateyjarbókar bls. 317).
1240:
“Sól rávð. Elldr firir Réykianesi” (Konungsannáll bls. 131).
“Sol varð rauð” (Skálholtsann áll bls. 188).
“Sol raud sem blod: Elldur wpi fyrir Reykianesi” (Oddaverjaannáll bls. 481).
“Sól rauð sem blóð. Eldgos aftur við Reykjanes” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls.10).
“Eldr fyrir Reykjanesi” (Annáll Flateyjarbókar bls. 318).

Önglabrjótsnef

Hraun og aska nýlegra hrauna við Önglabrjótsnef á Reykjanesi. Karlinn fjær.

1340:

“Einnig Reykjaneshöfði (Sigurður Þórarinsson (1965) þýðir hér Reykjanesskagi og er svo í Sjávarborgarannál bls. 236 – innskot höf.) eyddist í eldi meira en að hálfu; sjást merki hans ennþá í rúmsjó, gnæfandi drangar, sem af þessu nefnast Eldeyjar, – eða Driftarsteinn, eins og eldri menn vilja kalla þá. Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem allt til þessa sjást fjölmargir brunnir steinar” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 11). Síðast nefnda frásögnin er einnig í Sjávarborgarannál við árið 1389 (Þorlákur Markússon, 1940-48) og í Árbókum Espólíns við árið 1390 (Jón Espólín, 1821). Þessi frásögn er hluti af reyfarakenndum frásögnum af eldgosum víða um land og hefur á stundum verið talin uppspuni. Þarflegt væri að kanna sannleiksgildi þessara frásagna betur, en ekki eru tök á því hér.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Karlinn fjær.

Höfundur Sjávarborgarannáls (Þorlákur Markússon) hefur ekki þekkt annálabrot Gísla Oddssonar og því haft annálsgreinina annars staðar frá og hún þá líklega ekki verið ársett í frumheimild. Jón Jóhannesson (sjá Þorlákur Markússon, 1940-48) hefir rannsakað Sjávarborgarannál. Í hann var sett efni úr a.m.k. einum annál sem nú er glataður, og telja verður víst að hann hafi haft ofangreinda frásögn úr eldri heimild, sem nú er með öllu ókunn. Hugsanlega hefur það verið sama heimildin og Gísli Oddsson hafði undir höndum en þó er það ekki víst. Espólín hefur frásögnina vafalítið úr Sjávarborgarannál. Það er umhugsunarvert að þessi frásögn finnst ekki í gömlu annálunum þ. á m. annál Flateyjarbókar sem er mjög ýtarlegur um fjórtándu öldina (hefur þó gosið í Öræfajökli 1350 í stað 1362) og þar er getið um Heklugosin 1341 og 1389.
Flestar heimildirnar em úr annálum en þeir éta oft hver upp eftir öðrum. Talið hefur verið að þeim annálum sem við nú þekkjum hafi verið steypt saman úr eldri skrám um 1280 (Jakob Benediktsson, 1976). Íslendingasögu verður að telja samtímaheimild og auðsæ tengsl em milli hennar og sögu Guðmundar góða. Það sést best á klausunum um árin 1226 og 1231, sem em nær samhljóða í báðum heimildum. Saga Páls biskups í Skálholti mun rituð skömmu eftir dauða hans og má því telja hana samtímaheimild.
Við lestur biskupasagnanna verður hverjum manni ljóst að höfundar þeirra hafa haft fyrir sér ritaðar skrár m.a. um náttúmhamfarir auk heimilda um marga aðra atburði sem sést best af því að inn í sögurnar er mjög víða skotið efni í upptalningarstíl sem kemur efni þeirra lítið við. Einnig ber að hafa í huga, að sumar klausurnar um eldgos og jarðskjálfta eru nær samhljóða í annálum og biskupasögunum og liggur þá beinast við að álykta að höfundar biskupasagnanna hafi haft frumgerðir annálanna undir höndum og þeir því nær samtíma heimildir um þá atburði sem hér em til umræðu. Því hefir reyndar einnig verið haldið fram að við endurritun biskupasagnanna hafi efni verið skotið inn í þær úr annálum, en það getur vart átt við Guðmundar sögu og Páls sögu því þær eru að sumu leyti ýtarlegri um þessa atburði en annálarnir.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – rann um 1226.

Í stuttu máli virðist sem tíð gos hafi verið í sjó undan Reykjanesi á árunum 1210 eða 1211 til 1240 en telja verður óvíst um eldgos 1340. Eldgos hafa verið. 1210 og/eða 1211, 1223, 1226, 1231, 1238 og 1240. Einnig gæti hafa gosið 1225 því þá getur Oddaverjaannáll um sandvetur. Sandvetur er veturinn 1226/27 samkvæmt Íslendinga Sögu og Guðmundar sögu góða, en annálar hafa sandvetur 1227. Hér er líklega átt við sama atburðinn.

Nýey

Ný eyja rís úr sjó.

Gjóskufalls er og getið við gosið 1231 og að það hafi verið að sumri til (sandsumar). Líklegt er að gjóska sem fallið hefur 1231 falli saman við gjóskulagið frá 1226 og myndi því ekki sérstakt öskulag. Telja má víst, að gjóskufallið, sem varð 1226 hafi verið mikið því getið er um, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur kannaði fyrir höfunda hvort um sólmyrkva hafi verið að ræða en enginn almyrkvi á sólu varð 1226. Því kemur vart annað til greina en að myrkvinn hafi verið af völdum gjóskufalls. Allmikið gjóskufall þarf til að svo sterkt sé til orða tekið, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Ekkert annað gjóskulag er þekkt sem getur átt við þennan atburð. Við könnun á miðaldalaginu á Reykjanesi kemur í ljós, að það er víða fokið til og vantar sumstaðar alveg, sem bendir til að það eigi frekar við veturinn 1226/27 en sumrin 1226 eða 1231. Þá taka höfundar Biskupasagnanna og Íslendinga Sögu mun sterkar til orða um sandfallsveturinn og afleiðingar hans sem bendir einnig til meira öskufalls þá en 1231.

Óbrennishólmi

Óútskýrð tóft í Óbrennishólma.

Haukur Jóhannesson (1988) hefur mælt þrjú jarðvegssnið í Viðey. Eyjan er utan uppblásturssvæða og því má búast við nokkuð áreiðanlegum niðurstöðum úr útreikningum á aldri miðaldalagsins miðað við jarðvegsþykkt milli þekktra öskulaga. Jarðvegsþykknun er nokkuð jöfn síðustu 1000 árin eða á bilinu 0.04-0.06 cm á ári. í tveimur sniðanna eru þrjú þekkt öskulög, landnámslag, miðaldalag og Kötlulagið frá 1485. Miðað við að landnámslagið sé fallið um árið 900 fást eftirfarandi ártöl fyrir aldur miðaldalagsins: 1170 og 1228 (meðaltal 1199). Út frá þeirri niðurstöðu er nánast útilokað að lagið hafi fallið á fjórtándu öld.
Af ofangreindu má vera ljóst, að yfirgnæfandi líkindi eru til að miðaldalagið hafi fallið 1226, líklega um haustið eða fyrri hluta vetrar, en vitaskuld getur hafa bæst í það 1231. Ekkert annað öskulag hefur fundist á Reykjanesi sem tengst getur þessum eldsumbrotum og gerum við ráð fyrir að það sé að meginhluta fallið síðla árs 1226.

Aldur Ögmundarhrauns – geislakolsaldursgreiningar

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson (munnl. uppl.) tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Kirkjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Þorleifur telur að taka beri þessum aldursgreiningum með varúð þar sem þær geti verið af koluðum rekavið eða mó og því eldri en hraunið. Niðurstöður voru eftirfarandi.
U-2590 980 + 60
U-2591 960 ±170

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Séu aldursgreiningamar miðjaðar (970 ár) og leiðréttar samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Beckers (1986) fæst að sýnið sé frá því um 1027 e.Kr. (mynd 4). Sé leiðrétt samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Pearsons (1986) fæst 1030.
Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðurleifum undan hrauninu.
Tvö sýni, U-4355 og U-4356, vom undan Ögmundarhrauni efst í Óbrennishólma, og eitt sýni, U-4005, var tekið undan hrauninu austan í Núpshlíðarhálsi.
Jón telur þó ekki víst, að þar sé sama hraunið en aldurinn, sem fékkst, er mjög áþekkur hinum.
U-4355 905 ±60
U-4356 940 ±55
U-4005 925 ±70
Meðaltal: 923,3 ár. Miðgildi: 922,5 ár.
Þegar beitt er sömu leiðréttingaraðferð (Stuiver og Becker, 1986) og að ofan (miðgildi er 923 ár) þá koma fimm ártöl til greina: 1044, 1096, 1122, 1141 og 1156 (mynd 4). Sé aftur á móti leiðrétt samkvæmt Stuiver og Pearson (1986) fæst 1050, 1095, 1125, 1142 og 1148. Ástæðan fyrir því, að svo mörg gildi fást er óregla í 14C magni í andrúmsloftinu á þessum tíma, en leiðréttingarnar byggjast á geislakolsgreiningum á árhringjum í trjám. Aldursgreiningar Þorleifs gefa nokkuð hærri aldur en aldursgreiningar Jóns eins og búast mátti við af fyrirvara þeim sem Þorleifur hafði gert um aldursmun hraunsins og kolaleifanna í eldstæðinu. Aldursgreining Jóns Jónssonar (1982) af Gvendarselshrauni gefur svipaðar niðurstöður en aldursgreiningar af Kapelluhrauni gefa ekki ótvíræða niðurstöðu.

Gjóskulög undir og ofaná hrauninu

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Landnámslagið fannst víðast hvar undir Ögmundarhrauni (mynd 5) þar sem grafið var, en milli þess og hraunsins fannst aftur á móti ekkert gjóskulag. Milli landnámslagsins og hraunsins var víðast 2-4 cm þykkur jarðvegur. Í sniðum sem tekin vom utan hrauns en nærri gígunum (mynd 3) reyndist jarðvegsþykktin vera 3-7 cm milli gjóskulagsins og gjalldreifar frá gígunum. Ofan á sjálfu hrauninu fannst aðeins eitt gjóskulag, miðaldalagið og var jarðvegur 0-4 cm þykkur milli hrauns og gjóskulags. Í sniðum sem tekin voru utan hrauns en nærri gígunum reyndist þykktin vera um 2-4 cm frá miðaldalaginu niður að gjalldreif frá Krýsuvíkureldum.
Hlutfallið milli jarðvegsþykktar frá landnámslagi að hrauni/gjalldreif annars vegar og þykktar frá hrauni/gjalli að miðaldalagi hins vegar er afar mismunandi frá einum stað til annars og því ekki einhlítt að brúka það til aldursákvörðunar hraunsins. Hraunið eða gjalldreifin frá gosinu er þó í flestum tilvikum mun nær miðaldalaginu en landnámslaginu.

Sögulegar heimildir
Fátt er sögulegra heimilda um eldgos á Reykjaneskaga á þessum tíma og eru þær allar knappar.

1151:
“Elldr i Trölladyngivm. Hvsrið” (Konungsannáll bls. 115).
“Elldur wppi j Trolla dyngium” (Oddaverjaannáll bls. 474).
“Eldr í Trölladyngjum. Húshríð” (Annáll Flateyjarbókar bls. 301).
1188:
“Ellz vppqvama j Trolla dyngiu” (Skálholtsannáll bls. 180). (Úr Skálholtsannál hefur glatast þ.á.m. fyrir árið 1151 – innskot höf.).

Trölladyngja

Trölladyngja.

Trölladyngja eða Trölladyngjur heitir nyrsti hluti Núpshlíðarháls. í sumum eldri heimildum (Árni Magnússon, 1955) er notað nafnið Dyngjur (og mun þá átt við Grænudyngju og Trölladyngju) og eru þær m.a. eyktarmark frá Kálfatjörn (Pétur Jónsson, 1937-39). Hingað til hefur ekki verið hægt með vissu að heimfæra þessar heimildir upp á eldgos.
Einstöku menn hafa álitið að hér væri átt við Trölladyngju eða Dyngjufjöll í Ódáðahrauni (Ólafur Jónsson, 1945). Þar hefur þó ekki fundist hraun sem tengja má þessum heimildum. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur umrædd gos hafa verið í Trölladyngju á Reykjanesi og það gerði Jónas Hallgrímsson (1934-37) einnig. Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt em inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360 en telur þó síðastnefnda ártalið óvisst.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – gígur Drottningar efst.

Jón Jónsson (1983) getur sér þess til að Brennisteinsfjöll hafi áður fyrri verið nefnd Trölladyngjur en ekki hafa fundist nein gögn önnur en klausa í annálabrotum Gísla Oddssonar (1942) sem styðja þá tilgátu og í raun engin ástæða til þar sem Trölladyngja eða Trölladyngjur hafa ávallt verið þekktar þar sem þær nú eru enda við alfaraveg milli Innnesja annars vegar og Krýsuvíkur og Grindavíkur hins vegar (sbr. Ólafur Þorvaldsson, 1949).
Það er athyglivert, að húsrið (þ.e. landskjálfti svo harður að hús hristast) er nefnt í Konungsannál og annál Flateyjarbókar, í framhaldi af eldgosinu. Vafalítið er samband þar á milli sem þá sýnir að átt er við Trölladyngjur á Reykjanesi en ekki í Ódáðahrauni. Bæði er að jarðskjálftar geta verið nokkuð harðir á Reykjanesskaga og Trölladyngja og Dyngjufjöll í Ódáðahrauni eru fjarri byggð. Þess má einnig geta að eldvirkni í Dyngjufjöllum mun hafa verið hverfandi lítil á umræddu tímabili (Guðmundur E. Sigvaldason, o. fl. í undirbúningi).
Þegar litið er á ofangreindar niðurstöður hníga ýmis rök að því, að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Gígaröð Krýsuvíkurelda spannar liðlega 25 km og miðhluti hennar liggur skammt austan við Trölladyngju. Eldgosið sem varð 1188 gæti vel hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli gosanna þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna, sbr. reynsluna af Mývatnseldum 1724-1729 og 1749.

Herbert kapelán

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Auk áðurnefndra heimilda um Krýsuvíkurelda er rétt að geta lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Um rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður), sem skrifuð var 1178 – 80 hefur Sigurður Þórarinsson (1952, 1975) fjallað allítarlega. Herbert lýsir ýmsum furðum sem gerst hafa á Íslandi og þar segir m.a. (þýð. Jakobs Benediktssonar, birt í grein Sigurðar Þórarinssonar, 1952): “Á vorum tímum hefur það sézt einhverju sinni, að hann (þ.e. vítiseldur – innskot höf.) gaus upp svo ákaflega, að hann eyðilagði mestan hluta landsins allt í kring. Hann brenndi ekki aðeins borgir og allar byggingar, heldur einnig grös og tré að rótum og jafnvel sjálfa moldina með beinum sínum. Og þótt furðulegt sé frásagnar, bráðnuðu fjöll úr grjóti og jafnvel málmi algjörlega fyrir eldi þessum eins og vax, runnu yfir landið og þöktu það, svo að dalirnir umhverfis fylltust af leðjunni og fjalllendi jafnaðist við jörðu. En bráðnu klettarnir, sem runnu út yfir allan jarðveginn í allar áttir, dreifðust síðan, þegar eldinum slotaði, og þá varð yfirborð jarðar eins og úr marmara og eins og steinlagt stræti, og jörðin, sem áður var byggileg og frjósöm, varð að eyðimörk. Þegar þessi ofsagrimmi eldur hafði eytt land þetta og allt, sem á því var, með óseðjandi græðgi sinni, jók hann við því enn skelfilegra undri, að hann réðst einnig á hafið við ströndina, og þegar hann kom út á hafsdjúpið, tók hann að brenna og eyða vatninu með fáheyrðum ofsa, allt niður á hyldýpi. Auk þess bar eldurinn með sér í flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir, sem aðrir gráðugir eldslogar höfðu steypt um, svo að þar sem vatnið varð að láta undan síga, kom land í staðinn, og fjöllin bárust út í hafsauga. Og þegar þau höfðu fyllt sjóinn algjörlega á löngu og breiðu svæði og gert hafsdjúpið jafnt sjávarströndu, varð sjórinn að þurru landi, svo að þar sem áður var vatn, varð nú fast land um 12 mílur og er ef til vill enn. Enn fremur eyddist í þessum eldum fræg borg og mannmörg, en þar var ágæt höfn við fjörð, sem eyðilagðist þó, þegar sjórinn þurrkaðist upp.”

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Sigurður Þórarinsson (1975) telur að hér sé á ferðinni ýkt og ruglingsleg lýsing sem annað hvort eigi við hraunrennsli í sjó og þá líklega Ögmundarhraun, eða jökulhlaup og þá líklega Kötluhlaup, nema hvorttveggja sé. Um heimildarmenn Herberts kapelláns fjallar Sigurður einnig og þar kemur nokkuð merkilegt í ljós. Frásögnina hefur Herbert líklegast eftir Eskil erkibiskupi í Lundi, en hann dvaldi í Clairvaux meðan ritið var samið.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Eskil erkibiskup vígði Klæng Þorsteinsson til biskups í Skálholti árið 1152, þ.e. árið eftir að annálar nefna gos í Trölladyngjum sem við teljum meginhrinu Krýsuvíkurelda og næsta víst að eldsumbrotin hafa þá verið ofarlega á baugi í fréttum frá Íslandi. Ljóst er að í riti Herberts er farið nokkuð frjálslega með tölur og stærðir en að öðru leyti á lýsingin ágætlega við Krýsuvíkurelda. Í eldsumbrotunum rann hraun í sjó fram bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga. Að norðanverðu runnu Kapelluhraun og Hvaleyrarhraun sem fylltu víkina sem var á milli núverandi Straumsvíkur og Hvaleyrarholts en að sunnanverðu Ögmundarhraun.
Sigurður Þórarinsson (1975) taldi að sá hluti frásagnar Herberts sem segir að eldurinn beri með flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir sem berist út í hafsauga, eigi við jakaburð í Kötluhlaupi og má það vera rétt. Jafnlíklegt er að lýsingin eigi við um stórgerða hraunmúga sem ýttust fram með hrauninu. Þessi heimild tekur af allan vafa um að hraun hefur runnið í sjó á Íslandi á tólftu öld og þá fyrir 1180. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapillánsins frekari stoðum undir þá skoðun okkar að Ögmundarhraun hafi brunnið árið 1151. Ólíklegt er að átt sé við eldgosið 1188 því rit Herberts múnks er talið fært í letur 1178-80.

Aldur garðs í Húshólma

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma (mynd 6) og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Hliðar hans standa nokkuð vel og eru nær lóðréttar, um 40 cm háar (50-55 cm sé pælunni bætt við) en breidd garðsins er um 150 cm. Pælan, sem stungin hefur verið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún nú um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn. Þess skal getið til glöggvunar að sniðið var gaumgæfilega athugað og landnámsaskan var skoðuð í víðsjá (binocular smásjá) og borin saman við sýni af ösku úr öðrum sniðum. Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900 en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Fjárborgin í Húshólma.

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.
Eins og áður var bent á virðist sem kirkja hafi verið í notkun í Húshólma eftir að hraunið rann. Sveinbjörn Rafnsson (1982) getur þess að kirkjan í Krýsuvík hafi verið lögð af 1563.

Húshólmi

Kirkjutóftin við Húshólma.

Telja má nær fullvíst að hraunið hafi runnið 1151 og í því gosi hafa bæjarhúsin í hinni fornu Krýsuvík og garðarnir farið undir hraun. Kirkjan hefur því að líkindum verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að Ögmundarhraun rann. Nafnið Hólmastaður bendir til þess að þar hafi verið kirkja eftir að Húshólminn fékk nafn og þá síðar en hraunið rann.
Eftir að hin forna Krýsuvík fylltist af hrauni neyddust ábúendur í Krýsuvík til að gera út frá Selatöngum sem eru vestast í Ögmundarhrauni og eftir jarðeldinn eina mögulega lendingin í landi Krýsuvíkur. Kirkjan í Húshólma er mitt á milli Selatanga og hins yngri Krýsuvíkurbæjar. Það gæti verið ástæðan fyrir því að kirkjan var ekki færð um leið og bærinn. Hún hefur verið miðsvæðis. Búandkarlar þeir sem Eggert og Bjami höfðu tal af í maílok 1755 hafa hugsanlega ruglað saman eldgosinu 1151 og því að kirkjan í Krýsuvík var aflögð 1563.
Það þótti guðleg forsjón að Reykjahlíðarkirkju við Mývatn skyldi ekki taka af í Mývatnseldum. Hlýtur fommönnum ekki hafa þótt það jafnstórt undur að kirkjan ein skyldi standa eftir af húsum í Krýsuvík hinni fornu, er hraunið umlukti hólminn sem hún stóð á?

Sjá einnig um aldur Ögmundarhrauns HÉR.

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1988, Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, bls. 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.