Færslur

Hraun

Margir, sem leið eiga framhjá Seltjörn veita eldri grágrýtissteinum athygli þar sem þeir liggja ofan á yngri hraunum. Í fljóti bragði virðist tilurð þeirra stinga í stúf við öll eðlileg lögmál. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði eftirfarandi í Náttúrufræðinginn um grettistök í nútímahraunum og þ.á.m. Seltjorn-1björgin við Seltjörn: “Allir kannast við hin svo nefndu grettistök, stórbjörg, sem oft er tildrað ofan á minni steina eins og þau hefðu verið færð þangað af mannahöndum, eða sem liggja á fáguðum klöppum ein síns liðs, stundum á brúnum hárra fjalla. Þjóðtrúin hefur sett þau í samband við Gretti hinn sterka og má vera, að í því felist ævaforn dýrkun orkunnar, og er það naumast framandi fyrir okkar tíma. Hvert mannsbarn veit að um er að ræða björg, sem jöklar hafa borið með sér og orðið hafa eftir, er jökullinn bráðnaði. Það vekur því enga athygli að finna þau á landi, sem jökull hefur gengið yfir, en talsvert er öðru máli að gegna, er þau verða á vegi manns ofan á hraunum, sem runnið hafa löngu eftir að ísöld lauk.

Seltjörn sú, sem hér er um að ræða, er sunnan við Vogastapa og skammt vestan við Grindavíkurveg. Hún er milli grágrýtisklappa í sigdal, sem stefnir norðaustur-suðvestur og fyllir þann hluta hans, sem lægstur er. Eftir lægðinni milli grágrýtisásanna vestur af Seltjörn hefur runnið hraun Seltjorn-2eftir að ísöld lauk og eftir að sjór hvarf af þessu svæði, en síðla á síðustu ísöld gekk sjór yfir það, eins og sjá má af lábörðu grjóti víðs vegar um Vogastapa. Hraun þetta er komið frá Sandfellshæð, sem er stór dyngja um 5 km vestur af Stapafelii. Hrauntungan, sem runnið hefur austur eftir áðurnefndum sigdal nær austur í Seltjörn. Skammt vestur af tjörninni liggur dreif af grágrýtisbjörgum ofan á þessu hrauni. Steinar þessir eru í ýmsum stærðum, allt frá sæmilegum „hálfsterk” upp í björg, sem vart eru minna en 8—10 tonn. Þau liggja ofan á hrauninu og hvergi hef ég séð þess merki að þau hafi sokkið ofan í það, en víða má sjá hraungára (hraunreipi) liggja inn undir steinana og án þess að hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, þótt um stórbjörg sé að ræða. Sum björgin liggja þvert yfir sprungur í hrauninu. Engin merki sjást þess, að grágrýtisbjörgin hafi orðið fyrir hitaáhrifum frá hrauninu. Björg sem þessi eru dreifð í jökulurðinni um allan Vogastapa, en hvernig hafa þau komist ofan á hraunið? Það kostaði mig talsverðar vangaveltur að komast að því sanna hvað þetta varðar, en ég tel það nú liggja fullkomlega ljóst fyrir.
Hraun-221Grágrýtisbjörgin eru ættuð af svæðinu sunnan Vogastapa og skriðjökull hefur skilið þau eftir á jökulhefluðum klöppum, væntanlega ekki langt frá þeim stað, þar sem þau eru nú. Meðan stóð á gosum í Sandfellshæð hefur hraunið náð að renna austur dalinn milli grágrýtisásanna allt austur í Seltjörn. Hraun þetta er dæmigert dyngjuhraun. Það hefur verið þunnfljótandi, heitt og hefur runnið nánast eins og þunn leðja og því mun hraunið þarna ekki þykkt. Hraunið hefur runnið umhverfis grágrýtisbjörgin og undir þau, lyft þeim upp og síðan hafa þau borist með hraun straumnum eins og jakar á vatni. Hraunkvika, sem misst hefur verulegan hluta af því gasi, sem upprunalega var í henni, hlýtur að hafa nokkru hærri eðlisþyngd en storknað hraun enda þótt munur á efnasamsetningu þeirra sé nánast enginn. Hliðstæður eru vatn og ís og sú staðreynd, að storknaðir hraunflekar fljóta á rennandi hrauni. Nánast enginn munur er á samsetningu hraunanna frá Sandfellshæð og grágrýtisins (Jónsson 1972) og hlutfallið milli eðlisþyngdar hins rennandi hraun og grágrýtisbjarganna því væntanlega ekki ósvipað og milli íss og vatns.
Grágrýtið á Suðurnesjum og eins kringum Reykjavík er yfirleitt frauðkennt og eðlisþyngd þess virðist að mestu leyti vera á bilinu 2,66—2,78 og ólivíninnihald um 8—14% (Jónsson 1972).
Hvað grettistökin ofan á nútímahrauni varðar, hef ég fundið þau víðar en við Seltjörn. Eitt slíkt heljarbjarg liggur ofan á hrauni suðaustan við Vogastapa og dálitla dreif af slíkum framandsteinum er að finna norðan í Brúnum, þ. e. utan í dyngjunni miklu, sem er norðan undir Fagradalsfjalli, en frá henni eru Strandar- (Vatnsleysustrandar) hraunin komin. Af ofannefndu má ljóst vera, að þar sem svona björg finnast getur aðeins verið um eitt hraun ofan á jökulurðinni að ræða.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 45.árg. 1975-1976, bls. 205-209 – [
HEIMILDARIT; Jónsson, 1972: Grágrýtið, Náttúrufr., 42: 21-30].

Gíslhellir

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: “Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: “Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn”). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum”.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.

Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
GíslhellirGengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.
Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða “Tyrkjabyrgin” í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918. A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.Hraunkarl