Vogar - skilti

Við Stóru-Voga í Vogum, milli Sæmundarnefs og Eyrarkotsbakka, er upplýsingaskilti. Á skiltinu er eftirfarandi texti:

Fornt höfuðbýli
Vogar
Höfuðbýlið Stóru-Vogar mun hafa verið landnámsjörð Kvíguvogar. Þar var hálfkirkja, líklega fram til siðaskipta. Ekert sést til hennar í dag en mannabein sem fundust í bæjarhólnum að vestanverðu þykja benda til þess að þar hafi staðið kirkja og kirkjugarður.
Minna ber á grasigrónum bæjarhól Stóru-Voga nú en áður vegna ágangs sjávar og framkvæmda við Stóru-Vogaskóla. Að norðanverðu, fast við bæðinn má enn sjá leifar af veggjum fjóss og hlöðu sem hlaðið var úr grjóti.

Ættaróðalið
Vogar
Rústir Stóru-Voga bera vott um stórhug við byggingu íbúðarhússs. Þær eru útveggir steinhúss sem reist var árið 1871 og er talið hafa verið fyrsta steinhús sem íslenskur bóndi lét reisa. Veggir hússins voru úr höggnu grjóti, límdu saman með kalki. Loft, gólf og þaksúð var úr timbri og á þakinu voru hellur. Smiður var Sverrir Runólfsson steinhöggvari. Árið 1912 byggði Sigurjón J. Waage nýtt hús á grunni þess gamla og var gamla húsið að hluta kjallari nýja hússsins.
Ættin sem kennd er við Stóru-Voga er komin af Jóni Daníelssyni, “hinum ríka eða sterka” (1771-1855). Á steini við fánastangir framan við Stóru-Vogaskóla er hreysti Jóns minnst. Steinninn sem vegur 450 kg á Jón að hafa tekið úr Stóru-Vogavörinni þegar eitt skipa hans steytti á honum í lendingu.
Ættarnafnið Waage tók Magnús sonur Jóns upp er hann lagði stund á siglingafræði og skipasmíði erlendis snemma á 19. öld. Með ættarnafninu vildi hann kenna sig við Voga. Smíðaði hann um 100 báta og 2 þilskip.

Vogar

Stóru-Vogar – skilti.