Færslur

Njarðvík

Farið var um Ytri- og Innri-Njarðvík í fylgd Áka Guðna Grënz. Áki byrjaði að sýna uppdrætti og myndir, sem hann hefur unnið eftir heimildum af svæðinu. Uppdrættir þessir eru mjög vel gerðir og lýsa vel staðháttum og einstökum stöðum fyrr á árum.

Áki Grënz

Áki Grënz.

Áki leiddi hópinn um svæði ofan við þar sem staðið hafði fyrrum bær Hallgríms Péturssonar. Fyrst eftir að Hallgrímur fékk síðar brauð í Hvalsnesi þurfti hann að fara þaðan yfir heiðina eða út með Ósabotnum. Sennilega er þar komin skýringin á tilvist HP-steinsins utan við Þórshöfnina. Öllu þessu svæði hefur nú verið raskað af miklu tillitsleysi og engar minjar eru þar eftir, ekki einu sinni brunnstæðið á Bolafæti.Þá var haldið að Stekkjarhamri, en það er eini staðurinn þarna, sem friðaður hefur verið. Þó er búið að fylla að hluta upp í Stekkjarhamarslautina vestan við hamarinn. Hún var vinsæll áningastaður Keflvíkinga þegar farið var í ferðir með ströndinni á góðvirðisdögum. Sögur eru og um að einhver og jafnvel nafngreind börn hafi komið það undir.

Njarðvík

Njarðvík – brunnur.

Þá var haldið upp fyrir Hjallana að landamerkum Keflavíkur og Ytri-Njarðvíkur. Áki sagðist minnast þess að tóttir hafi verið við Hjallatún áður fyrr. Mest af túninu og jarðveginum hafi hins vegar verið flutt að húsum verndaranna uppi á Vallarsvæðinu. Áki benti á hinn raunverulega Grænás og sagðist hafa heyrt að þar ætti að vera álfakirkja.
Áki bauð þátttakendum í Stekkjarkot, en þar hefur hann lyklavöld. Við kotið, sem nú hefur verið gert upp, hefur verið byggt fjós. Innan þess leynist snyrtiaðstaða, en flórinn er hlaðinn sem fyrrum. Áki skýrði hugmyndir Reykjanesbæjarmanna um varnargarð yfir skerjagarðinn og hugmyndir að víkingaþorpi á ströndinni norðan Stekkjarkots.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Þá var haldið að Innri-Njarðvíkurkirkju. Á leiðinni benti Áki á hvar Litli-Krossgarður og þá um leið Narfakotsborg hefðu verið, þ.e. við austurhorn kappakstursbrautarinnar, sem nú er. Því svæði hefur svo til öllu verið raskað meira og minna.
Við kirkjuna benti Áki á Hólmfastskot og sagði söguna af Hólmfasti Guðmundssyni og hans fólki. Tóttin er nokkuð heilleg og stendur sunnan við og næst Tjörninni vestan kirkjunnar.

Tóttir tveggja annarra kota eru þar skammt ofar. Enn ofar er steinbærinn Garðakot, svo til alveg heill. Hólmfastur var eins og kunnugt er hýddur eftir að hafa brotið lög um einokunarverslun Dana að mati kaupmannsins í Hafnarfirði, Knúts Storms, með því að versla með úrkastið við kaupmanninn í Keflavík.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Hólmfastur bjó þá á hjáleigu frá Brunnastöðum (1699). Hann var dæmdur í háa sekt, en var ekki borgunamaður fyrir henni. Var Hólmfastur þá dæmdur til kaghýðingar, bundinn við staur og húðstrýktur rækilega. Þóttu þetta harkalegar aðfarir að sumra mati, m.a. Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, og varð úr að Hólmfastur fékk dæmdar miskabætur að upphæð 20 ríkisdalir. Umdæmisverslunin var afnumin 1732.
Haldið var út á Stapa, framhjá fjárborginni Grænuborg ofan við hesthúsin og vísaði Áki á fótinn af Kolbeinsvörðunni, eða “Kúfúdvörðu”, eins og hún mun einnig hafa verið nefnd. Varðan mun hafa verið landamerkjavarða Voga og Innri-Njarðvíkur. Sést móta fyrir vörðunni vestan við Innri-Skor. Áttu landamerkin að vera úr henni í miðja Skoruna og í Arnarklett suðvestan við Snorrastaðatjarnir. Ekki var að sjá neinn ártalsstein á eða við þessa vörðu, en skv. sögnum átti að hafa verið í henni steinn með ártalinu 1724.

Grindavíkurvegur

Varða sunnan við Stapa.

Í leiðinni var ekið suður gamla Grindavíkurveginn, en staðnæmst skömmu áður en komið var að Reykjanesbrautinni. Þar, u.þ.b. 100 metrum vestan við veginn er klapparhóll og á honum breiður vörðufótur. Áki sagðist ekki hafa heyrt minnst á þessa vörður áður. Varðan er ekki alveg í beina stefnu á milli Arnarkletts og vörðunnar vestan við Innri-Skoru, en gæti þó alveg verið landamerkjavarða.
Eftir ferðina var gengið frá Innri-Njarðvíkurkirkju með ströndinni að Stapakoti. Á leiðinni eru m.a. hlaðnar tóttir, þar af ein bæði mjög stór og mjög heilleg. Gengið var eftir gömlum garði austan við núverandi íbúðarhús og honum fylgt til vesturs. Innan hans eru m.a. tóttir af stóru fjárhúsi og fleiru.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Stapagata

Gömlu þjóðleiðinni milli Voga og Innri-Njarðvíkur var fylgt til vesturs. Þrátt fyrir skiptingu gömlu hreppanna við Innri-Skor á miðjum Stapanum, eða Kvíguvogastapa eins og hann var einnig nefndur, voru þeir einn og sami hreppurinn um skeið. Gangan hófst við íþróttahúsið í Vogum, hinu nýborna sveitarfélagi.

Jón Mar Guðmundsson og Margrét Ásgeirsdóttir, sem voru með í för, sýndu nýverðlaunaðan garð sinn við Aragerði 17. Garðurinn er látlaus og smekklega hannaður með snyrtilegum og vel hirtum gróðri. Í honum fari vel saman grasflatir, pallar og grjót með fallegri umgjörð trjáa. Húsinu og garðinum hafi verið haldið við af natni í fjölda ára og eignin ávalt verið til stakrar prýði.
Eftir að Vogunum sleppti var gengið upp á Stapann um Reiðskarð. Ofan þess liðast gamla gatan tvískipt uns hún sameinast á ný. Kvennagönguskarðsleiðin kemur inn á hana ofan brúnar. Gatan er augljós upp að Grímshól, þaðan verður hún vandséðari í móanum, en sést þó. Lúpína er sums staðar í götunni sem og annar lággróður. Ofan við Innri-Skor fer gatan undir gamla Keflavíkurveginn frá 1912. Skammt vestar sést gatan vel þar sem hún liggur svo til beint upp brekkuna vestan Innri-Skoru. Eftir það er tiltölulega auðvelt að fylgja henni. Á smá kafla rofnar hún vegna seinni tíma ræktunar og vegagerðar að fyrrum ruslahaugum er voru undir brún bjargsins frá stríðsárunum og fram á fyrri hluta sjöunda áratugar 20. aldar. Þá hafa verið sett niður trönusvæði þvert á götuna, en handan þess er gatan einstaklega falleg á kafla áleiðis niður að Stapakoti. Skammt austan túngarðanna skiptist gatan í þrennt, en nyrsti hluti hennar liggur niður að görðum Stapakots og með þeim til vesturs. Þegar síðasta spottanum er fylgt með garðinum má sjá hvar gatan hefur legið áfram – þar sem nú hefur verið byggt hús þvert á hana. Líklegt má telja að þar kunni að vera reimt, einkum að næturlagi.
Gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur er framhald gömlu þjóðleiðarinnar (Almenningsvegarins/Alfaraleiðarinnar) sem lá frá Hafnarfirði og suður úr. Þessi hluti leiðarinnar hefur í seinni tíð verið nefnd Stapagatan. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur.
Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennileg sveit. Hún er löng og mjó, um 15 km á lengd og 10 km á breidd. Þar er ekkert rennandi vatn, því hraunið gleypir allt rigningarvatn og leysingarvatn. Byggðin er á mjórri ræmu meðfram ströndinni en þó sundurslitin. Hver einasti bóndi hér áður fyrr var útvegsbóndi og áttu þeir mismargar fleytur. Margir bændur voru framfarasinnaðir og urður brautryðjendur á ýmsan hátt, sem sést best á því að það var bóndi í Vogum sem keypti hafskip, sendi það til Spánar með fisk og keypti útgerðarvörur í staðinn. Það var bóndi á Vatnsleysuströnd sem hreyfði því fyrstur manna að friða skyldi Faxaflóa fyrir erlendum veiðiskipum. Það var bóndasonur af Vatnsleysuströnd sem fyrstur kenndi mönnum að veiða síld og nota hana til beitu. Það var bóndasonur af Vatnsleysuströnd sem fór til Noregs, aflaði sér þekkingar sem varð til hagsbóta fyrir útgerð við Faxaflóa.
Vogar við Vatnsleysuströnd er kauptún og stendur við Vogavík, innan Vogastapa. Íbúar í Vogum og Vatnsleysuströnd eru um 1000. Staðurinn kemur við sögu þegar á landnámsöld. Fyrsti bærinn hét Kvíguvogar. Það nafn týndist en jörðin Stóru-Vogar var höfuðból um aldir og fylgdu því mörg smábýli. Á fyrri öldum var hálfkirkja í Vogum en höfuðkirkja sveitarinnar var á Kálfatjörn og er svo enn.
Gott þótti undir bú í Vogum og miklir hagar voru á Strandarheiði, ofan byggðarinnar, sem og víðar. Þá stunduðu Vogamenn mjög útræði og var stutt að sækja á fengsæl mið. Um miðja 19. öld hófu verslanir að senda skip á Vogavík til að taka fisk. Var þá reist fiskhús á hólma við sunnanverða víkina. Upp úr 1870 stofnuðu bændur á Vatnsleysuströnd verslunarfélag með bændum á Álftanesi og fjölgaði þá ferðum fisktökuskipa á Vogavík. Víkin var löggilt sem verslunarhöfn árið 1893, þótt hafnarskilyrði þættu þar löngum fremur erfið. Um aldur notuðust sjómenn við áraskip í Vogum og síðar trillur, en árið 1930 hófu heimamenn þar útgerð vélbáta. Var þá gerð þar stöplabryggja og reist fiskhús. Árið 1942 var byggt þar fyrsta frystihúsið og einnig miklar hafnarbætur upp úr því.
Gengið var milli Síkisins og Síkistjarnar, framhjá hesthúsum Vogabúa, framhjá “laxahrognaræktarhúsum” Stokkfisks og að Vogastapa innan Vogavíkur. Milli þeirra og sjávar er varnargarður, sem hlaðist hefur upp með aðstoð melgresissáningar. Þorvaldur Örn Árnason, sem einnig var með í för, sagði frá því ap það hafi verið kona í Vogunum, sem byrjaði á því ásamt börnum sínum að sá þarna fræjum með þeim árangri að upp hlóðust smám saman hinir ágætustu varnargarðar sem falla vel inn í umhverfið.
Hæsti hluti Stapans austan Reiðskarðs heitir Fálkaþúfa en suður af þúfunni eru Lyngbrekkur. Víða má sjá fallegar hundaþúfur (fuglaþúfur) á hraunhólum er setja svip sinn á landslagið neðan og innan við Stapann.
Gamla gatan liggur upp hlíðina um skarð sem heitir Reiðskarð en þar er hún hlaðin upp að hluta og er ytri vegkanturinn nokkuð hár og hleðslan þar bæði falleg og heilleg. Þessi efsti hluti vegarins var gerður árið 1904. Veittur var 45 kr. styrkur til úrbóta á götustæðinu og þá efsti hlykkurinn tekinn af. Peningarnir entust ekki lengur en raun bar vitni. Samsskonar úrbætur, þó á legri kafla, má sjá þar sem hallar niður að Innri-Njarðvík. Þar hefur einnig hlykkur verið tekinnn af götunni og hlaðinn upp bein braut í staðinn.
Í Árbók FÍ 1936 fjallar Bjarni Sæmundsson um “Suðurkjálkann”. Þars egir hann m.a. um Vogavík: “Á Vogavík er all-gott skipalægi og voru þangað töluverðar siglingar á fyrra hluta síðustu aldar, meðan fiskur gekk á vetrarvertíðinni “undir Stapann” og þorskanetabrúkunin var í algleymingi. Þá var “saltanlegg” og fisktaka “á Hólmanum”, smáhólma innst í víkinni, en nú er það allt horfið fyrir löngu og kyrrð yfir Vogunum”.
Reiðskarð er fyrsta skarðið af fjórum á austurhluta Stapans. Hin eru Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Urðarskarð í þessari röð til vesturs. Upp úr Reiðskarði er gatan djúp og sendin með miklum grjótruðningum til beggja handa. Í skarðinu vex töluvert af Gullkolli en það er sjaldgæf jurt á þessu svæði. Landið hækkar örlítið þegar komið er upp á Stapann. Eftir stutta göngu sjáum við miklar grjóthleðslur á milli götunnar og Gamla-Keflavíkurvegarins. Þar var svonefndur „hreppsgarður,“ einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19. aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Sáralítill jarðvegur er nú innan hleðslanna. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan í löngum hjalla sem kallaður er Kálgarðsbjalli.
Erlendur Magnússon frá Kálfatjörn lýsti þessum hluta leiðarinnar eftirfarandi: “Sunnan við Vogana liggur vegurinn um svonefnt Reiðskarð upp á Vogastapa, sem áður hét Kvíguvogabjarg. Vegurinn upp skarðið var brattur, en ekki langur. Reiðskarð mun heita svo af því að það var eina leiðin með hesta upp á Stapann. Gönguleiðir voru um Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Rauðastíg, sem þótti illfært en var þá stundum farinn um fjöru til að stytta sér leiðina um Vogasand, því að fjöruborð er þarna allmikið. Undir Stapanum stóðu bæirnir Brekka og Stapabúð. Á þeim – og syðstu bæjunum í Vogunum, Suðurkoti og Bræðraparti, var fyrrum talsverð gestnauð og mikil gestrisni.”
Gengið var upp Reiðskarð austast á Vogastapa með útsýni yfir Hólmabúð, Brekku, Stapabúð og Vogavík. Rifjuð var upp sagan af huldukonunni með kúna er hvarf sjónum vegfaranda efst í þokukenndu skarðinu. Stapagötunni var fylgt að Grímshól, en þar segir þjóðsagan að vermaður hafi gengið í hólinn og róið með hólsbónda, huldumanni. Gamla Grindavíkurveginum var fylgt til suðurs niður Selbrekkur að Selvatni (Seltjörn), kíkt á Njarðavíkursel og þaðan gengið til norðausturs með Háabjalla.
Ævagömul leið liggur um Reiðskarð yfir Vogastapa og Grímshól, Stapagatan. Neðan við skarðið er hlaðið undir nýjasta vegstæðið, en gamla leiðin, eða öllu heldur gömlu leiðirnar, lágu í hlykkjum efst í því. Í þeirri nýrri hafa myndast háir ruðningar beggja vegna.
Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Rétt í þessu verður Þorbjörgu litið upp eftir skarðinu. Sér hún þá, hvar þrjár verur er að þokast upp eftir, 50 til 60 metra fyrir framan hana. Fremst gengur kona, á eftir henni kýr, sem konan teymir, og á eftir kúnni labbar hundur. Koman er klædd eins og þá tíðkaðist um sveitakonur, hafi til dæmdis hyrnu á herðum. Kýrin var kjöldótt og hundurinn flekkóttur. Fannst Þorbjörgu ekkert óeðllegt við þetta. Hún kallar til konunnar: “Kona, eigum við ekki að verða samferða?” En konan lét sem hún heyrði ekki. Þorbjörg kallar aftur: “Kona, eigum við ekki að verða samferða yfir Stapann?”. En það fer sem fyrr, konan ansar ekki. Þegar hún er komin upp á skarðsbrúnina kallar Þorbjörg til hennar ennþá einu sinni. Þá lítur konan við og glottir til hennar. Í þeim svifum hverfur hún fyrir brúnina með kúna og hundinn.
Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir hún sér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum. Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá. Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Gengið var yfir að Brekkuskarði og litið yfir bæjarstæðið undir Stapanum sem og Hólmabúðir. Sjá má móta fyrir minjum í hólmanum. Austan við hann hvílir gamall innrásarprammi, sem notaður var við hafnargerð, en rak síðan þarna upp og hefur verið síðan. Lágsjávað var svo leirurnar í Vogavíkinni iðuðu af fugli.
Vogastapi (80m) hét fyrrum Kvíguvogabjarg og Kvíguvogastapi og er stundum kallaður Stapi. Hann er á milli Voga og Njarðvíkur og þverhníptur í sjó fram. Uppi á Grímshóli, hæsta stað Stapans, er útsýnisskífa og útsýni gott á góðum degi.
Reykjanesbraut liggur um undirhlíðar Stapans og enn þá verður næmt fólk, sem þar er á ferðinni, vart við eitthvað óhreint. Fyrrum fóru sumir ferðamenn sér að voða á leiðinni og gengu jafnvel fyrir björg. Eftir að bílvegurinn var lagður hafa sprottið upp alls konar draugasögur, s.s. að farþegi hafi skyndilega verið kominn í aftursætið eða gangandi vegfarandi hafi verið tekinn með á Stapanum og hann skyndilega horfið úr bílunum. Margir telja sig hafa séð þar mann á ferðinni með höfuðið undir hendinni. (Atburðir á Stapa eftir Jón Dan).
Fiskislóðin Gullskista er undir Stapanum. Nafn hennar varð til vegna mikillar og góðrar veiði á þessum miðum. Til er þjóðsaga, sem segir frá göngum undir Reykjanes frá Gullkistu til Grindavíkur, þar sem fiskur gekk greitt á milli.
Nokkrar verstöðvar voru undir stapanum á dögum árabátaútgerðarinnar en ummerki þeirra eru óðum að hverfa. Meðal þessara verstöðva var Hólmabúðin, sem kennd var við hólmann skammt undan landi. Haraldur Böðvarsson hafði aðstöðu í þessum hólma, þegar hann byrjaði úrgerð sína á Suðurnesjum. Síðar flutti hann starfsemina til Sandgerðis og endanlega til Akranes, þar sem fyrirtækið er enn í dag.
Fjallamið voru tekin af útsýnisskífunni. Á hólnum hefur einhvern tímann verið mannvirki og mótar enn fyrir því. Gerði hefur og verið við götuna sunnan í hólnum, en búið er að fjarlægja mesta af grjótinu. Sennilega hefur hluti þess verið notað utan um bragga, sem staðið hefur suðvestan við hólinn. Hleðslan sést enn.
Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og reri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðina.
Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn reri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann að hann reri einhvers staðar þar sem hann aflaði vel.
Af Grímshól má vel sjá gamla Keflavíkurveginn liðast upp Stapann sunnanverðan. Bandaríski herinn byggði fullkomið sjúkrahús í suðurhlíðum Stapans í síðari heimsstyrjöldinni en hann brann skömmu síðar. Steypustykki neðan Reiðskarðs er m.a. leifar af því, þ.e. frárennsli þess.
Bjarni Sæmundsson segir í lýsingu sinni m.a. um Stapann: “Gamli vegurinn á Stapanum var niðurgrafinn og grýttur, enda þótt ekki væri um hraun að ræða, einn versti vegurinn á Suðurkjálkanum í vætutíð og snjókomm (og er þá mikið sagt). Urðu menn all-oft þar úti í hríðarbyljum, villtust og hröpuðu fyrir björgin – í sjóinn, eða urðu til við veginn, eins og kom líka fyirr á öðrum vegum þar syðra og má vera að Keflavíkurbrennivínið hafi stundum átt sökina á þessu og eins á því, að ekki þótti ætlið “hreint” við þessa vegi, einkum í skammdeginu, og hefir ekki verið laust við, að borið hafi á reimleika á Stapanum í seinni tíð, jafnvel eftir að bílarnir fóru aðganga. Ýmsir menn, jafnvel hugprúðir bílstjórar, segjast hafa séð þenna 20. aldar Stapadraug, sem fólk hefir jafnvel getað nafngreint, en lítið hefir hann gert af sér, nema ef hann skyldi einhvern tíma hafa sprengt slöngu fyrir einhverjum bílstjóra, sem honum hefir verið í nöp við. Annars var hann sagður vel kurteis, tók jafnvel ofan (höfuðið náttúrulega) fyrir framhjá þjótandi bíl”.
Herinn byggði og rak líka mikilvæga fjarskiptastöð á Stapanum og tóttir þess húss standa enn þá. Sjá má þær í suðvestri. Uppi á efstu brúnum Stapans byggðu þeir vígi, þar sem þeir gátu fylgzt vel með umferð á Faxaflóa sunnanverðum.
Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól sem er hæsti hluti Stapans (74m). Á Grímshól er útsýnisskífa. Af Grímshól er gott útsýni yfir Faxaflóa og fjöllin í kring. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.
Í Lýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar 1840 eftir síra Pétur Jónsson að “nefndur Stapi mun fyrrum hafa fengið Gullkistuheiti af því mikla fiskiríi er tíðkað var á færi á hrauninu þar rétt undir upp undir í útilegum á nóttum”.
Í Lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu, verðlaunaritgerð eftir Skúla Magnússon landfógeta, segir af fiskveiðum. “En bezt eru þau undan Stapa, þar sem þorskurinn gýtur jafnvel á 3 faðma dýpi; tekur hann þar bezt beitu að næturlagi, er dimmt er, Þarna hafa fiskveiðarnar tekið miklum framförum síðan 1756, vegna þess að þorskanet hafa veruð tekin í notkun”.
Nú lækkar landið vestur af Grímshól og hér liggur gatan rétt sjávarmegin við Gamla-Keflavíkurveginn. Á móts við þar sem akvegurinn liggur yfir götuna eru landamörk Vatnsleysustrandahrepps og Reykjanesbæjar í viki sem gengur inn í Stapann og er ýmist nefnt Grynnri-Skor eða Innri-Skor. Þegar komið er nokkuð vestur fyrir Grynnri-Skor er landið aflíðandi til vesturs og freystandi að skreppa út af götunni og ganga með bjargbrúninni en fara þarf varlega. Gróðurinn er mjög fjölbreytilegur á þessu svæði.
Ofan Innri-Skor er Brúnavarðan. Önnur varða, Kolbeinsvarða er/var landamerkjavarða ofan við Kolbeinsskor. Hún er sögð hafa verið ofan Innri-Skor. Varðan er fallin og nú gróið yfir hana vestan Skorinnar. Önnur slík er innar á heiðinni. Ólafur (blindi) frá Knarrarnesi man eftir henni. Hún stóð þá bærði há og breið. Síðan tóku “bryggjuframkvæmdarmenn” hana að mestu og settu undir bryggjuna í Vogum. Þar með minnkuðu þeir efri mörk Vogalands allnokkuð. Að sönnu ættu bæði austustu “listaverk” Áka Grënz (steintröllin) og “Reykjanesshollywoodskiltið” að vera hvorutveggja innan landamerkja Vogabæjar.
Hér koma m.a. úrdrættir úr þemur þinglýstum landamerkjabréfum. Tvö eru nokkuð samhljóma, en það þriðja ekki. Fyrst Innra-Njarðvíkurhverfi og Vogar I-226-27 dags. 25/6 1889, þinglýst 16/6 1890 – …”Úr miðri innri Skoru á Stapa, beina línu í Arnarklett svokallaðan, sem stendur í hrauninu fyrir ofan Vatnsgjár,”… Þá Stóru- og Minni-Vogar I-219-20, dags.23/5 1890, þinglýst 16/6 1890 (sjá og H-56 og Imb.37-41). …”Vestan og sunnan frá herjanssæti (?Kerjansfæti sbr.H-56 eða Kerjanssæti??), eða úr uppgöngunum úr Kolbeinsskoru, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan í klett er stendur norðan vert við Litlaskógfell”…
Loks úrdráttur úr þinglýstri lýsingu Jóns Daníelssonar eiganda Stóru-Voga -Stóru- og Minni-vogar H-56, lýsing Jóns Daníelssonar eiganda Stóruvoga, dags.20/8 1840, þinglýst 14/6 1887. …”Vestan og sunnan: Frá Kerjansfæti, eður úr upp—Kolskoru, suður til Mörguvarða á gamla Stapavegi, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan—nyrðri—á Litla-Skógfelli.”…
Í landamerkjabréfunum er hvergi talað um Kolbeinsvörðu. Sú varða er engu að síður til. Brúnavarðan (sumir vilja meina að það sé Kolbeinsvarða) rétt ofan við gamla Keflavíkurveginn þar sem hann liggur við Innri-Skoru er mið af sjó. Þegar varðan ber í Stapafell er komið út fyrir brún, (hraunbrún) nánar tiltekið út í leirinn þar sem varla bregst ýsudráttur. Það hafa sjómenn margreint og gefist vel. Innriskora, Grynnri-Skor, Kolbeinsskora og Kolskora eru fjögur heiti á sama stað.
Næst verður fyrir Dýpri-Skor eða Ytri-Skor en þar fyrir ofan voru áður ruslahaugar Suðurnesja og sjást enn skýr merki um þá. Rétt vestan við Ytri-Skor standa leifar af fiskihjöllum og liggur gatan um það svæði. Gömul og grasi gróin fjárborg stendur nokkuð hátt, líkt og hóll, rétt við Gamla-Keflavíkurveginn og austan hesthúsahverfis Njarðvíkinga.
Norðan af henni hallar undan. Í hallanum er vel gróið. Þar má sjá móta fyrir þrískiptum grónum tóftum og líklega stekk. Tóftirnar benda til að þarna kynni að hafa verið selstaða. Afstaða þeirra bendir og til þess. Þó er ekki útilokað að um hafi verið að ræða mannvirki til nota í öðrum tilgangi.
Í Örnefnalýsingu er minnst á Narfakotsborg á þessum slóðum. Enginn hefur hins vegar, hingað til a.m.k., getað bent á þá borg. Grænuborgar er aftur á móti ekki getið í örnefnalýsingu, s.s. Guðmundar A. Finnbogasonar frá 1961. Ekki heldur í annarri örnefnalýsingu frá Njarðvíkum, Ingimars Einarssonar frá árinu 1970. Borgin er mjög áberandi kennileiti og augljóst mannvirki svo hennar hlýtur að hafa verið minnst í slíkum lýsingum.
Grunur er um að hér kunni að hafa orðið einhver nafnavíxl, þ.e. að Grænaborg sé fyrrgreind Narfakotsborg. Ef svo er þá hefur selstaðan hugsanlega getað verið frá Narfakoti því Njarðvíkurbærinn hafði selstöðu við Selvatn (Seltjörn). Sjást tóftir þess enn. Narfakot var byggt úr Njarðvíkurjörðinni, en varð sérstakt býli frá því um 1600.
Þarna er Stapagatan sérstaklega falleg þar sem hún liðast niður móana. Hefur hún verið endurbyggð á kafla svo hægt hafi verið að fara með vagn um hana.
Utan við Ytri-Skor er Svartiskúti undir bjarginu. Þegar Stapinn lækkar hvað mest er Sigurðarsteinn, klöpp frammi við sjó. Gömul saga segir að maður að nafni Sigurður hafi ekki fengið skipspláss og þá tekið á það ráð að renna færi fram af steininum. Aflaði hann engu minna en aðrir þá vertíðina.
Tvær vörður er þar vestur af, Álabrúnavörður. Þær voru mið á fiskislóð, Álbrún, ein af nokkrum utan við Stapann.
Samkvæmt örnefnalýsingu kallast Njarðvíkurbrún þar sem hraunið og leirinn mætast. Miðin þar eru: Brúnarhnúkur suðvestur af Keili kemur fram fyrir Grímshólshæð nærri hraunbrún fram úr miðri Njarðvíkinni að vestan og út af Kópu að austan. Klettsmið eða Klettsslóð fram í leirnum var kallað, er Súla bar í Gálgakletta. Njarðvíkurbrún var kölluð, þegar Súla bar í Njarðvík og Kirkjubrún er Súla bar í kirkjuna; Narfakotsbrún, er Súla bar í Narfakot. Skoruleir var kallaður undir Stapanum út frá og milli Ytri- og Innri-Skor. Voru þessi mið oft mjög fiskisæl, er netafiskur gekk hér á grunnið.
Þar skammt vestar er smáklettanes, fremst á því er stór klettur, sem nefndur er Grákjaftur. Þar fyrir suðaustan er vík, sem heitir Kópa. Við botn hennar að vestanverðu er Stapakotsvör og var stundaður sjór þaðan allt fram til 1930. Fyrir botni Kópu er hár malarkampur allt að Stapaenda, en hann myndar víkina að austanverðu.
Bærinn sem stendur næst Stapanum af húsunum í Innri-Njarðvík heitir Stapakot. Skammt utan við Stapakot er Innri-Njarðvíkurkirkja.
Gamla gatan liggur áfram til vesturs ofan túngarðs Stapakots uns hún hverfur undir eina af hinum nýju lóðum, sem þar eru. Það er í raun kauðslegt af hálfu skipulagsyfirvalda í núverandi Reykjanesbæ að leyfa byggingu íbúðar á hinni gömlu þjóðleið, sem er svo augsjánleg í landslaginu. Skynsamlegra hefði verið að gera þar ráð fyrir göngustíg millum húsa og sýna þannig hinni fornu leið milli byggðalaga tilhlýðilega virðingu.
Innri-Njarðvíkurkirkja var vígð 18. júlí 1886. Hún var reist að frumkvæði Ásbjörns Ólafssonar, bónda í Innri-Njarðvík. Kirkjan er gerð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í heiðina fyrir ofan byggðarlagið. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (1842-1887).
Viðarmiklar viðgerðir fóru fram á kirkjunni 1944, en þá hafði hún ekki verið notuð sem sóknarkirkja frá 1917, og síðan aftur 1980-1990. Arkitekt að seinni viðgerð var Hörður Ágústsson. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan (1986) er eftir Magnús Á. Árnason og sýnir krossfestinguna.
Forn kirkjuklukka (1725) er ein þriggja kirkjuklukkna í turninum.
Saga kirkju í Innri-Njarðvík er nokkuð slitrótt. Í heimildum frá 13. öld er kirkju getið. Hún virðist hafa verið lögð niður á 16. öld, en endurreist á síðasta hluta 17. aldar. Kirkjan var aflögð 1917, en endurgerð 1944 og hefur verið þjónað í kirkjunni síðan. Í kaþólsku var hún Maríkukirkja og Þorlákur helgi var einnig dýrlingur kirkjunnar.
Að lokum vísa eftir Guðmund A. Finnbogason:
Tímarnir breytast og mennirnir með,
margt hefur gengið úr skorðum.
En halda skal í það, er hefir þó skeð
og hugsuðu kynslóðir forðum.

Heimildir m.a.:
-www.vogar.is
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, 1995.
-Erlendur Magnússon – Kálfatjörn (1892-1975).
-Árni Óla, “Strönd og Vogar”, Bókaútgáfa Menningarsjóðs í Reykjavík 1961.
-Guðmundur M. Björgvinsson, “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi”, 1987.
-Árbók FÍ 1936 – Suðurkjálkinn eftir Bjarna Sæmundsson, bls. 30.
-Lýsing Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar 1840 eftir síra Pétur Jónsson.
-Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu – verðlaunaritgerð eftir Skúla Magnússon landfógeta – Landnám Ingólfs 1935-36.
-Örnefnaskrár fyrir Innri-Njarðvík 1961 og 1970.
-Örnefnalýsingar fyrir Vatnsleysustrandarhrepp.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning, Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Landamerkjabréf Innri-Njarðvíkur og Voga.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Hausastaðir

Grein þessi er erindi, lítið eitt breytt, sem höfundur flutti á kvöldvöku í Barnaskólanum í Garðahreppi 18. október síðastliðinn, þegar kennarar þar og nokkrir fleiri minntust 15 ára starfsemi skólans. Óskaði skólastjórinn, Vilbergur Júlíusson, eftir erindi um þetta efni, en höfundurinn liafði þá fyrir skömmu verið ráðimi til að taka saman sögu skólanna á svæðinu frá Krýsuvíkurbergi að Fífuhvammslæk. Hér er greinin lítillega stytt, en hana má lesa í heild í “Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar” árið 1973 – “Á Hausastöðum gerðist merkileg saga“:

Ólafur Þ. Kristjánsson“Yzt í Garðahverfi, á lágum ásenda í vestur frá hinu forna prestsetri Görðum, liggur býlið Hausastaðir. Samtýmis er Katrínarkot, byggt á öldinni sem leið úr landi Hausastaða.
Hausastaða mun fyrst vera getið í máldögum Garðakirkju frá ofanverðri 14. öld og eru þeir þá í eigu kirkjunnar. Enginn veit, hve býli þar er gamalt. Hitt má telja víst, að Hausastaðaland hafi frá öndverðu verið hluti af Garðalandi, en Garðar hafa ugglaust verið elzta — og um skeið eina — býlið í Garðahverfi öllu, enda benda margar líkur til, að í Görðum hafi verið aðsetur landnámsmannsins, Ásbjarnar Össurarsonar.
Í Jarðabók Arna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er frá því skýrt, að tvær fjölskyldur búi á Hausastöðum, samtals 8 menn. Hausastaðir voru eign Garðakirkju, eins og fyrr er sagt. Árið 1762 er enn tvíbýli á Hausastöðum.
Átjánda öldin er merkilegt tímabil í sögu Íslendinga fyrir margra hluta sakir. Aldrei var eymd og vesaldómur þjóðarinnar meiri, aldrei var jafn tvísýnt um, hvort hún myndi lífi halda. En sé miðað við allar aðstæður, hafa sennilega aldrei verið hér á landi menn, sem hafa hugsað jafn djarft og stórt um framtíð þjóðar sinnar. Nægir að nefna menn eins og Skúla Magnússon og Eggert Ólafsson, og Magnús Stephensen var farinn að láta til sín taka undir aldarlokin, þótt meira yrði síðar.

Ludvig Harboe

Ludvig Harboe.

En margir fleiri voru í þessum flokki, þótt ekki séu eins nafnkunnir Einn þessara manna var Jón Þorkelsson skólameistari, ágætlega lærður maður, flestum samvizkusamari í störfum, gæddur óþrotlegum áhuga á menningu íslenzku þjóðarinnar. Hann hefur ekki verið metinn að verðleikum. Kann þar að valda nokkru um, að hann stendur í skugga af öðrum manni, dönskum að vísu, en manni sem getið hefur sér að maklegleikum gott orð í íslenzkri sögu: Ludvig Harboe biskupi. Hann var sendur hingað til lands 1741 og dvaldist hér til 1745 til þess að kynna sér ástand í kirkju- og kristnimálum og gera tillögur til bóta. En aðstoðarmaður hans í þessari ferð var Jón Þorkelsson, sem verið hafði skólameistari í Skálholti 1729 til 1737. Átti hann mestan þátt í að ferð þessi var farin, en það ýtti og undir, að þá var heittrúarstefnan svonefnda (pietisminn) í sem mestum uppgangi í Danmörku. Bar Harboe fram ýmsar tillögur um kristnihald í anda þeirrar stefnu, og reyndust sumar þeirra að vísu heldur fánýtar í framkvæmd, en aðrar komu að drjúgu gagni, svo sem það, hve mikil úherzla var lögð á að börn lærðu að lesa, að vísu til þess að þau gætu lesið guðsorð sér til sáluhjálpar. Víst er, að þessar tillögur ýmsar voru frá Jóni Þorkelssyni runnar, því að hann hafði sýnt það áður, að hann var mikill áhugamaður um uppfræðslu barna og unglinga, og átti hann í því sammerkt við Harboe. Hitt er alkunnugt, að lestrarkunnátta þjóðarinnar tók miklum framförum á næstu áratugum.
Jón Þorkelsson
En Jón Þorkelsson lét ekki hér við lenda. Hann dvaldist í Danmörku eftir að rannsókn þeirra Harboes hér á landi lauk og andaðist þar 5. maí 1759, 62 ára gamall, ókvæntur og barnlaus og án nokkurra nákominna ættingja á lífi. Hann lét eftir sig töluverðar eignir, bæði hér á landi og í Danmörku. Hann gerði erfðaskrá og mælti svo fyrir, að í kirkju í Innri-Njarðvík, þar sem hann var fæddur og upp alinn, skyldu geymast guðfræðirit hans á íslenzku, bæði prentaðar bækur og handrit, en eigandi ritanna væri uppeldisstofnun, sem öðrum eigum hans skyldi varið til að koma á fót og starfrækja. Í þessari stofnun áttu hin allra aumustu og fátækustu börn í Kjalarnesþingi að fá kristilegt uppeldi og alla nauðsynlega umönnun, þar í talið húsnæði, fatnaður og fæði, unz þau gætu unnið fyrir sér hjá öðrum. Má hiklaust fullyrða, að aldrei hafi maður lagt fram jafnstóra gjöf til uppeldismála hér á landi, miðað við verðgildi á þeim tímum. Og gjöfin skyldi koma þeim til gagns, sem sízt gátu borið hönd yfir höfuð sér og áttu enga von á sæmilegu uppeldi nema þetta kæmi til. Er dánargjöf Jóns skólameistara einstök í sinni röð að flestu leyti og þá líka maðurinn, er erfðaskrána setti.

Ólafur Stephensen

Ólafur Stephensen.

Stiftamtmaðurinn yfir Íslandi og biskupinn yfir Sjálandi áttu að sjá um framkvæmd erfðaskrárinnar. Voru eignir Jóns í Danmörku seldar og myndaður af sjóður, en hans var heldur slælega gætt og varð hann fyrir stórtjóni af verðfalli peninga og fleiri sökum. Eigur Jóns á Íslandi voru í jörðum, sem skiluðu árlega landskuld og leigum í sjóðinn. Sjóðurinn var kenndur við gefandann og kallaður Thorkillii-sjóður, en þau rök liggja til nafnsins, að skólameistari færði oft heiti sitt í latneskan búning að hætti lærðra manna á þeim tímum og kallaði sig Johannes Thorkillius, en Thorkillii er eignarfall af Thorkillius.
Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi og Magnúsi Gíslasyni amtmanni var skjótlega falið að semja reglugerð fyrir væntanlega uppeldisstofnun. Gerðu þeir það 1761, og mun raunar biskupinn hafa átt þar að mestan hlut. Tóku æðri stjórnarvöld tillögum þeirra vel, og var rætt um að setja stofnunina á fót í Innri-Njarðvík, fæðingarstað gefandans, því að sú jörð var í eigu konungs og átti því að vera auðfengin. Ekkert varð úr framkvæmdum: viður til húsagerðar þótti dýr og fleira tafði. Liðu svo 30 ár.
Þá varð það árið 1790, að íslenzkur maður var skipaður í embætti stiftamtmanns, Ólafur Stefánsson, sem kunnastur er undir nafninu Stephensen. Hann tók erfðaskrá Jóns skólameistara Þorkelssonar skjótt til athugunar, skrifaði Balle Sjálandsbiskupi [Nicolai Edinger Balle] og kvað einsætt að stofna skóla samkvæmt erfðaskránni, enda væri sjóðurinn þess vel megnugur. Tók biskup þessu vel. Stiftamtmaður samdi þá ýtarlega reglugerð fyrir hina nýju stofnun, og fór þar í mörgu eftir reglugerð Finns biskups og Magnúsar amtmanns frá 1761, en breytti þó ýmsu.
Jarðnæði fyrir skólastofnunina var fengið á Hausastöðum í Garðahverfi. Prófasturinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu átti að hafa eftirlit með skólastarfseminni, og nú vildi svo til, að prófastur var séra Markús Magnússon í Görðum, einn af mest virtu prestum á landinu á þeim tímum. Munu hafa þótt hæg heimatökin að hafa skólann í nágrenni hans. Jörðin var eign Garðakirkju, eins og fyrr var sagt, og því auðgert að losa hann úr ábúð, en Thorkillii-sjóður galt kirkjunni jafnan leigu fyrir jörðina þau ár, sem skólinn stóð þar.

Nicolai Edinger Balle

Nicolai Edinger Balle.

Vanda þurfti til forstöðumanns við hina nýju uppeldisstofnun. Var til þess fenginn Þorvaldur Böðvarsson, búandi maður á Flókastöðum í Fljótshlíð. Hinn nýi skólahaldari — eins og hann var jafnan nefndur — var maður tæplega hálffertugur að aldri, vel að sér og prúðmenni mikið og ríkur að lífsreynslu. Hann hafði verið aðstoðarprestur hjá föðurbróður sínum á Breiðabólsstað og verið kvæntur dóttur hans. Þau voru saman í hjónabandi í 5 ár, en þá andaðist kona hans. Þau höfðu eignazt 3 börn, er öll dóu á 1. ári, en hið 4. fæddist andvana.
Þá réðst til prests bústýra, sem Margrét hét Arnoddsdóttir. Þau felldu hugi saman, en mjög var það að óvilja frænda séra Þorvalds, einkum þó móður hans, sem var skaprík kona og fullmetnaðar fyrir hönd sína og sinna, en Margrét þótti smárrar ættar. Kom svo, að beðið var honum til handa lögréttumannsdóttur utan úr Gnúpverjahrepp, Guðrúnar Einarsdóttur, mætrar konu. En kunningsskapur hélzt með presti og Margrétu, og fæddist þeim sonur haustið 1787. Var þá ekki að sökum að spyrja, og var prestur dæmdur frá kjóli og kalli, eins og lög stóðu til. Tók hann sér þetta nærri, ekki sízt vegna konu sinnar, sem hann mat mikils. Bar hann þó harm sinn í hljóði, því að hann var stillingarmaður. Bjó hann embættislaus á Flókastöðum, eins og áður er að vikið, þegar til hans var leitað um að taka að sér forstöðu hins nýja skóla. Segir hann í ævisögu sinni, sem prentuð er í 4. árgangi Fjölnis, að það hafi verið fyrir atbeina séra Páls Þorlákssonar á Þingvöllum, en sá séra Páll var bróðir séra Jóns Þorlákssonar skálds á Bægisá og var kvæntur systur fyrri konu Þorvalds, þekkti hann vel og vissi, hvílíkur hæfileikamaður hann var.

Finnur Magnússon

Finnur Magnússon.

Þorvaldur Böðvarsson fluttist að Hausastöðum vorið 1792 og veitti skólanum forstöðu til 1804 eða í 12 ár. Gerðist hann á þeim tíma þekktur lærdómsmaður og kenndi mörgum piltum undir skóla bæði fyrr og síðar. Jafnframt varð hann frægur fyrir sálma, sem hann orti, eins og sjá má á sálmabókinni, sem Magnús Stephensen sá um útgáfu á (1801). Var Þorvaldur bæði vinsæll maður og vel metinn.
Það var loks árið 1803 að Þorvaldur fékk uppreisn og réttindi til prestskapar á ný, sér til mikillar gleði og ekki síður maddömu Guðrúnu, en hún andaðist í ársbyrjun 1804. Fer séra Þorvaldur um það þessum orðum í ævisögunni: „Þannig var ég sviptur trúfastri og hollri aðstoð, sem ég hafði notið í 18 ár, og stóð nú uppi á Hausastöðum með 4 börn ásamt móður minni, sem þá var mjög hnigin að kröftum, og 16 skólabörnum, vafinn töluverðum kaupstaðarskuldum, og sá mér öldungis ófært að bjargast framvegis.” — Eitt af þessum 4 börnum hans var Böðvar, faðir séra Þórarins í Görðum, er stofnaði Flensborgarskóla.
Vorið 1804 lét séra Þorvaldur af stjórn Hausastaðaskóla og gerðist prestur á Reynivöllum í Kjós og kvongaðist í 3. sinn, en frá Reynivöllum fór hann prestur að Holti í Önundarfirði og var síðan um skeið á Melum í Borgarfjarðarsýslu, en síðast í Holti undir Eyjafjöllum. Þar dó hann 1836, hátt á áttræðisaldri, og þótti hafa verið hinn merkilegasti maður.
Þótt venja sé að tala um skólann á Hausastöðum og forstöðumaðurinn væri kallaður skólahaldari, var þó hér um meira að ræða en venjulegan skóla. Þetta var uppeldisstofnun, þar sem börnin voru allan ársins hring frávikalaust og höfðu allt uppeldi, komu í skólann 6 eða 7 ára gömul og voru þar í 10 eða 12 ár. Skólahaldarinn kostaði þau að öllu leyti, en fékk 16 ríkisdali til jafnaðar með hverju barni, en það meðlag var síðan hækkað í 20 dali. Einnig hafði hann 45 ríkisdali í árslaun, en kona hans 15 dali. Enn fremur fékk hann leigulausa ábúð á Hausastöðum og hafði Vífilsstaði hálfa til afnota.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Ekki auðgaðist Þorvaldur Böðvarsson á veru sinni á Hausastöðum, enda óx verðlag allrar vöru mjög á þeim árum vegna Norðurálfuófriðarins (Napóleonsstyrjaldanna). Eru áðurgreind ummæli séra Þorvaldar um hag sinn, er hann fór þaðan, en um komuna þangað segir hann þetta: „Þetta embætti var bæði örðugt og launalítið og þurfti mikið fólkshald, í tómu húsi að kalla mátti, því ekki urðu hafðar fleiri en 4 kýr.“ — Tómthús er sama og þurrabúð.
Nokkra uppbót fékk séra Þorvaldur síðar á laun sín sem forstöðumaður skólans. Þess var áður getið, að skólanum hefði verið sett reglugerð. Hún var í 23 greinum, sumum löngum, og öll á dönsku, en hér á eftir verða nokkur atriði úr henni endursögð, sum nákvæmlega, önnur lauslegar.
Tilgangur með skólanum er að gera alþýðubörn að kristnum, duglegum, siðsömum og nýtum mönnum. Þess vegna skal öll starfsemin miða að því að innræta börnunum hollan og heilbrigðan hugsunarhátt, einlægan guðsótta og ráðvendni, iðjusemi, aðgát, nægjusemi og þrifnað.  Skólahaldarinn átti að vera vammlaus og hæfur maður, kunnur að ráðvendni og siðprýði, lipur til kennslu, duglegur og með þekkingu á búskap. Honum til aðstoðar átti að vera kona, helzt eiginkona hans, væri hún nauðsynlegum kostum búin, en hún átti að vera þrifin, nægjusöm og myndarleg í framkomu og kunna skil á öllu, sem bóndakonu hæfði að kunna og vita, einkum þó að búa til óbrotinn, hreinlegan og bragðgóðan mat úr innlendum efnum. Kona þessi er kölluð skólamamma (Læremoder).

Skálholt

Skálholt.

Börnin átti að velja úr hópi öreiga, sennilega þeirra, sem voru á sveitarframfæri, en foreldrarnir þó helzt að vera sómasamlegt fólk og börnin sjálf vel lynt og viðráðanleg. Hverju barni átti að fylgja vottorð frá sóknarpresti þess um aldur þess og foreldra og enn fremur um gáfnafar þess og hneigðir. Skólahaldari sjái börnunum fyrir öllum nauðþurftum. Öll áttu börnin að borða við sama borð, nema veik væru, piltar þó við borð sér og stúlkur sér. Skólahaldari eða skólamamma áttu að vera viðstödd til eftirlits. Börnin skiptist á um að lesa hæn, er setzt er að borðum og er upp er staðið. Þau skulu vanin á að ganga vel og hæversklega að mat sínum. Tekið er fram, að þau séu vanin á kálmeti, enda á að rækta það svo, að dugi allt árið: grænkál, hvítkál, gulrófur og jarðepli. Maturinn á að vera sem mest úr innlendum efnum, hollur en íburðarlaus, svo að börnin fúlsuðu síður við mat hjá bændum, er þau réðust í vist. Fötin skyldu vera úr innlendu efni, búin til eftir því sem unnt væri í skólanum sjálfum, öll af sömu gerð. Fátækrasjóður hreppsins leggi til 4 ríkisdali til fata með hverju barni um leið og það kemur í skólann, en fær fötin, sem barnið kemur í, jafnskjótt til baka, því að barnið fer í skólafötin. Skólahaldari kostar að sjálfsögðu skólafatnaðinn, og sæmilega fötuð skyldu börnin vera, er þau færu úr skólanum að vist þar lokinni.
Hausastaðir
Skólamamma átti að sjá um að börnin væru snyrtilega til fara, aldrei rifin, bæði þau og fötinhrein. Telpurnar á að venja sem fyrst við að þvo og bæta föt og einnig að gera við skó, drengjanna líka. Stúlkurnar eiga að búa um rúmin, en ekki skulu þær draga klæði af drengjunum; það skulu þeir sjálfir vandir á að gera.
Dagurinn hófst með því að skólahaldari fór með bæn og sálmur var sunginn, lesið úr biblíunni og síðan farið með morgunbæn. Börnin lesa til skiptis, þau sem læs eru, en öll séu þau viðstödd. Á kvöldin var farið með bæn, lesinn kafli úr guðrækilegri bók, sem sóknarprestur hafði valið, sálmur sunginn og kvöldbæn lesin. Skólahaldari spyr úr efninu til þess að æfa eftirtekt og athygli nemendanna og jafnframt skýrir hann efnið. Á sumrin var morgunbænin ein látin nægja, en allt haft eins á kvöldin, þótt sumar væri.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Jafnskjótt og börnin eru orðin bóklæs, fara þau að læra barnalærdóminn, kverið. Skólahaldari skýri og útlisti hvern kafla áður en hann er lærður. Mikil áherzla er lögð á að börnin skilji trúarlærdóm og siðalærdóm, svo að þau geti haft kunnáttuna að leiðarvísi í daglegu lífi, hvert eftir því sem það hefur greind til. Þau eiga að ganga til spurninga til sóknarprestsins undir fermingu eins og önnur börn í sókninni.
Til bóknáms voru ætlaðir 2 klukkutímar fyrir hádegi og 4 eftir hádegi daglega yfir veturinn, sem talinn var frá 13. október til 11. maí. Yfir sumarið átti að halda því við, sem lært hafði verið. 10 ára gömul skyldu börnin hafa lokið við kverið. Eftir það áttu þau að rifja upp eftir þörfum og læra sálma, bænir og fleira gott. Hvern virkan dag frá nóvemberbyrjun fram til marzmánaðar átti að kenna hverjum pilti í tvo tíma á hverjum degi að skrifa og reikna 4 höfuðgreinir reiknings í heilum tölum og einnig þríliðu. Einnig átti að kenna þeim vefnað og smíðar á tré og járn eftir því sem hver bóndi þurfti að kunna. Stúlkur, sem langar til að læra að skrifa og reikna, fái kennslu í því einn tíma tvisvar á viku. Þær læri að sníða og sauma föt á sig og piltana og öll heimilisstörf hjá forstöðukonunni. Garðyrkju átti að kenna bæði piltum og stúlkum. Öll venjuleg verk á heimili úti og inni áttu þau að læra. Þau unnu öll í einni vinnustofu, svo að betra væri að fylgjast með störfum þeirra, en þó skyldi vera skilrúm milli pilta og stúlkna, grind. Skólahaldari fékk verðlaun fyrir hverja alin, sem ofin var, 2 skildinga. Það var einkum vaðmál og einskefta, sem ofin var. Aldrei skyldu börnin vera iðjulaus og aldrei rápa á aðra bæi nema með leyfi skólahaldara, og það leyfi skyldi hann ekki láta í té nema nauðsyn bæri til, og er þó ekki langt milli bæja í Garðahverfinu. Einn klukkutíma á dag máttu börnin leika sér að eigin vild, en þó skyldi skólahaldari eða skólamamma líta eftir að þau gerðu ekki neitt hættulegt eða ósiðlegt.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – Helgi S. Jónsson (1910-1982).

Eins og áður er að vikið var markmið skólans að venja börnin á guðsótta og góða siði, iðjusemi og nýtni, og átti skólahaldari að leiða þau með lempni á þá braut. Hann átti að skýra fyrir þeim svo að þau gætu skilið af hverju þau ættu að haga sér á þennan hátt eða hinn. Aldrei átti hann að líða þeim óátalið að aðhafast neitt, sem ekki átti að vera, en aðfinnslur átti að bera fram gremjulaust með ástúðlegri hógværð. Dugi ekki endurteknar áminningar, skal grípa til refsinga, þó einungis með venjulegum vendi, en áður skyldi barninu gert skiljanlegt, af hverju þetta hlaut þannig að vera. Skipist barnið ekki við þríendurtekna refsingu, skal sóknarpresti gert aðvart, og skal hann og skólahaldari þá reyna að finna ráð til bóta eftir sinni þekkingu á skapgerð barnsins. Komi allt fyrir ekki, má vísa barninu burtu eftir að málið hefur verið borið undir eftirlitsmenn skólans, og sé þá jafnskjótt annað barn frá sama hreppi tekið í staðinn. Gert er ráð fyrir, að börnin geti fermzt á 15. ári. Þau eiga að vera orðin nokkurn veginn kunnandi í öllu, sem læra skal, á 17. ári, og yfirgefa þau þá skólann að afstöðnu prófi. Skólahaldari fær 2 ríkisdali aukalega fyrir hvern pilt, sem nær prófi innan 17 ára aldurs, en skólamamma sömu upphæð fyrir hverja stúlku, og auk þess fær skólahaldari 2 dali fyrir hverja stúlku, sem lært hefur að vefa, en skylt var að kenna piltum vefnað.
Sérstakt hús var reist fyrir skólann árið 1793. Það var 15 álna langt og 8 álna breitt, og var allur gólfflöturinn þannig innan við 50 fermetra. Húsið var í 7 stafgólfum, allt þiljað og með fjalagólfi nema grjótlagt stykki fyrir framan reykháfinn. „Langseftir er húsið gegnumþiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 verelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi,“ segir í úttektarlýsingu. Átta gluggar voru á húsinu, hver með 6 rúðum. Loft var í húsinu með tveim herbergjum afþiljuðum í endunum, og voru 3 gluggar á loftinu með 4 rúðum hver.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – tóftir.

Þegar séra Þorvaldur Böðvarsson lét af störfum sem forstöðumaður Hausastaðaskóla vorið 1804, reyndist erfitt að fá mann til að taka við skólanum. Um síðir var ráðinn til þess prestlærður maður, 27 ára gamall, Guðni Guðmundsson að nafni, síðar prestur í Miðdal og á Ólafsvöllum. Hann var karlmenni til burða og kallaður Guðni sterki, en þótti ekki mikill gáfumaður. Stjórn hans á skólanum var léleg, og þótti séra Markúsi í Görðum hann ekki hæfur til þess starfs. Hann hafði hins vegar talið stjórn séra Þorvalds fullnægjandi í sumum efnum, og mun þá hafa átt við bóklegu kennsluna, en nokkurs vera á vant í öðru, enda segir prófastur einhvers staðar, að séra Þorvaldur sé ekki mikill fésýslumaður. Nemendur höfðu verið 12 fyrsta árið, jafnmargt af piltum og stúlkum, en eftir 3 ár voru þeir orðnir 16, og hélzt sú tala, meðan Þorvaldur var við skólann, en þegar Guðni sleppti skólastjórninni eftir 2 ár (1806) voru þeir aðeins 8, á aldrinum 8 til 16 ára.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – AMS-kort.

Til er „úttekt“ á skólabörnunum, þegar Guðni fór, en því miður finnst engin slík „úttekt“, þegar hann tók við, þótt hún hafi sennilega verið gerð þá líka.
Þegar Guðni sterki fór frá skólanum 1806, tók við annar prestlærður maður, einnig 27 ára gamall, Hjálmar Guðmundsson, síðar prestur á Kolfreyjustað og Hallormsstað. Hann var vel að sér og prýðilega gefinn, en þótti síðar nokkuð sérvitur. Hann stjórnaði skólanum í 6 ár við erfiðar aðstæður, því að dýrtíð óx enn ákaflega. Til er skrá, sem Hjálmar samdi, þar sem hann gerir samanburð á verðlagi á ýmsum vörum 1792 og 1810. Höfðu þær yfirleitt tvöfaldast eða þrefaldast í verði, en gluggarúður til að mynda fjórfaldast. Meðlag með hverju barni var þó hið sama og áður, 20 ríkisdalir, og skyldi skólahaldari kosta uppihald þeirra að öllu leyti. Kvartaði Hjálmar oft undan þessu, en fékk aldrei neina uppbót á kaup sitt. Taldi hann sig hafa tapað 992 ríkisdölum samanlagt. Nemendurnir voru oftast 8 í hans tíð, en 9 skilaði hann af sér, þegar hann hætti. Verður ekki annað séð en Hjálmar hafi leyst starf sitt við skólann vel af hendi, þegar alls er gætt.

Hausastaðir

Hausastaðir – loftmynd.

1812 afsagði Hjálmar með öllu að vera við skólann lengur. Erfitt reyndist að fá skólahaldara í hans stað, og brá þá stiftamtmaðurinn Castenskjöld á það ráð án þess að spyrja nokkurn að, að hann lagði skólann niður með öllu það ár. Hausastaðaskóli var úr sögunni eftir að hafa starfað í 20 ár. Einn veturinn hafði hann meira að segja verið eini opinberi skólinn í landinu. Það var veturinn 1804—1805.
Skólarnir höfðu þá fyrir nokkru verið fluttir frá biskupssetrunum í Skálholti og á Hólum til Reykjavíkur og settur einn skóli þar vestur á Hólavelli eða Hólavöllum. Nú var skólahúsið orðið svo lélegt, að heilsa nemenda og kennara þótti í voða, ef þar væri kennt, því að bæði lak húsið og vindar blésu lítt hindraðir þar í gegn, en ofn spjó reyk í allar áttir nema upp um reykháfinn. Næsta vetur hóf latínuskólinn starf á Bessastöðum.
Thorkillii-sjóður kemur nokkuð við sögu menntamála í landinu eftir þetta allt fram á þennan dag, þótt hér verði ekki rakið. En aldrei síðan Hausastaðaskóli var að störfum hefur tilraun verið gerð til að framkvæma fyrirmæli hins stórhuga stofnanda sjóðsins, Jóns skólameistara Þorkelssonar, með því að setja á fót uppeldisstofnun fyrir fátækustu börn í Kjalarnesþingi. Þessi tilraun var látin nægja.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Hafði tilraunin með Hausastaðaskóla þá misheppnazt og gagnið af henni orðið lítið eða ekkert? Þessu verður auðvitað ekki svarað til hlítar, ekki sízt þar sem enginn veit, hvernig rættist úr börnum þeim, er þar áttu dvöl, auk þess sem gagnsemi af skólavist verður aldrei mæld með kvarða eða vegin á vog, einkum þó þegar meira en öld er liðin síðan nemendurnir hurfu af sjónarsviðinu.
Sé nú á það litið, sem bezt verður vitað um uppeldi sveitarbarna á þessum tímum, þegar efnaleysi og erfiðleikar surfu hvað fastast að þjóðinni, ekki sízt í verstöðvunum við Faxaflóa, þá getur engum um það hugur blandast, að skólabörnin á Hausastöðum hafa haft gagn af verunni þar, sum mjög mikið. Þau hafa hlotið þar bóklega menningu og verklegan þrifnað, sem þau hefðu ella að öllum líkindum farið á mis við. Segja mætti mér, þótt ekki verði það sannað, að fleiri eða færri af börnunum hefðu tortímzt algerlega bæði andlega og líkamlega, ef þau hefðu ekki notið vistar í Hausastaðaskóla og aðhlynning hans að sál þeirra og líkama orðið til að gera þau að farsælum mönnum, sem fengu notið sín, sér og þjóðfélagi sínu til nytja.
Það var merk saga, sem gerðist á Hausastöðum áratugina tvo frá 1792 til 1812.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað 24.12.1973, Á Hausastöðum gerðist merkileg saga – Ólafur Þ. Kristjánsson, bls. 7-11.
https://timarit.is/page/4677480?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/al%C3%BE%C3%BD%C3%B0ubla%C3%B0%20hafnarfjar%C3%B0ar%20j%C3%B3labla%C3%B0

Hausastaðir

Hausastaðir og nágrenni – túnakort 1918.

Gíslhellir

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: “Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: “Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn”). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum”.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.

Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
GíslhellirGengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.
Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða “Tyrkjabyrgin” í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918. A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.

Hraunkarl

Kálfatjörn

Í Faxa árið 2000 er frásögn séra Péturs Jónssonar á “Lýsingum Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840“:

“Takmörk Njarðvíkursóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík, ofan að sjó; frá hans efri enda upp í heiðina að Gömlu-Þúfu á svokölluðu Háaleiti, af hverju sjá má umhverfis á þrjá vegu í sjó; frá Gömlu-Þúfu sjónhending í Kirkjuvogsklofninga, sem eru frá Háaleiti að sjá milli dagmála og hádegisstaðar. Sunnanverð takmörk hennar frá Kirkjuvogsklofningum ná upp í Stapafellsgjá, sem er í dagmálastað frá Klofningunum; að innan og austanverðu er Innri-Skora á Vogastapa hér um bil miðjum, er liggur ofan að sjó.

Njarðvíkur

Njarðvíkur um 1910.

Nefndur Stapi mun fyrrum hafa fengið Gullkistu heiti af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi á hrauninu þar rétt upp undir í útilegum á nóttum. Þessi mishái heiðarmúli (Stapinn) liggur milli Stapakots í Njarðvík innri og Voga (gömlu Kvíguvoga) með þverhníptum hömrum, sem taka nokkuð mislangt fram að sjó. Nes eru hér ekki utan Stutti-Tangi, sem kallast Vatnsnes, á hverjum samnefndur bær stendur, norðvestasti eður yzti bær í Njarðvíkursókn. Þar fyrir sunnan skerzt inn vík, hér um stutt íslenzk hálf vika, að svo kölluðu Klapparnefi í ytra Njarðvíkurhverfi og nærfellt að sömu lengd; sker hún sig aftur milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur inn í landið. Af gömlum eldgosum eru hraun hér sýnileg, sums staðar með hólum og lágum á milli, í hverjum er sums staðar nokkurt gras, lyng og mosi. Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.

Njarðvík

Njarðvík 1950. Vatnsnes fremst og Grindavíkurfjöllin fjærst.

Að norðanverðu við nefnda vík, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur myndast nes, er kallast Hákotstangar, er ná að lítilli vík, er kallast Kopa, sem er lending milli Stapakots og Stapans. Fiskiskútur ogjafnvel stærri skipgeta legið á Njarðvíkurvík; þó mun þar vart trygg höfn.
Lendingar og varir hefir náttúran og menn svo tilbúið, að víðasteru vel brúkanlegar. Grynningar og sker eru hér ekki til greina að taka utan Eyland, sem ekki sést utan með stórstraumsfjöru; norðar en á miðri vík, líka upp undir landi, Skarfasker utan Klapparnefið og Fitjar- og Steinbogasker sunnan, á hverju sauðkindur stundum flæða.
Hvassir vindar ganga hér oft af norðri, landsuðri og vestri. Snjóar og einkum stórrigningar eru tíðar af þessum áttum; skruggur á stundum, ekki síður á vetrum en sumrum, en sjaldnast skaðlegar.

Þurrabúð

Þurrabúð á fyrri hluta 19. aldar á Reykjanesskaganum.

Fiskiveiðar eru hér stundaðar oftast ár út og ár inn, en í marz og aprílmánuðum brúkast mest netaveiðar, því um þær mundir gengur sá fiskur inn með landi, sem nefnist netafiskur. Þjóðvegir liggja Iangsetis yfir sóknina og krossgötur hér og hvar, sem árlega eru ruddir og hreinsaðir. Fyrir nokkrum árum síðan er betri og beinni vegur lagður eftir Stapanum framarlega í stað þess fyrri, sem ofar lá eftir heiðinni, lengri, verri og villugjarnari, einkum á vetrum. Graslítill áfangastaður fyrir lestamenn er á millum Njarðvíkanna, á svo nefndum Njarðvíkurfitjum.
Annexkirkjan frá Kálfatjörn er á heimabænum í Innri-Njarðvík; þar er venjulegt að embætta 3ja hvern helgidag á sumrum, en 4ða hvern á vetrum. Þessi kirkja var árið 1811 lögð til Kálfatjarnar, þó framar presti þar til kostnaðar en ábata. Fiskitökuhús kauphöndlandi manna eru fyrir nærverandi tíð 3 í Ytri-Njarðvík og 2 í Innri.

Verbúð

Verbúð fyrrum.

Bjargræðisvegur er mest og bezt sjávarafli; hann er og framar öðru stundaður. Búfénaður er yfir höfuð lítt ræktaður, þar hey er ekki utan litlar töður til gjafar á vetrum, og því útigangsskepnur í fári, þá fjörur Ieggja af ísum og tekur fyrir jörð í heiðinni. Útfærsla túna, sléttun þeirra, steingarða byggingar kringum þau og timburhúsa uppkoma hefir smám saman aukizt; kályrkja er og svo ræktuð með allgóðri heppni víða hvar. Eldsneyti yfir höfuð er slæmt af sjávarþangi og öðrum óhroða. Sumarvinnan til lands er fiskverkun, túnrækt og húsbyggingar, sláttur byrjar vanalegast 14 vikur af sumri og endast oft í 18.-19. viku.
Margir menn eru hagir á járn og stunda nokkrir með fram skipa-, báta og annað smíði. Vetrarvinna er mest hampspuni til sjóarútvegs, fyrir utan annað ýmislegt, er fyrir fellur. Til skemmtunar á vetrarkvöldum er sums staðar iðkaður rímnakveðskapur, en þó meira fornsögulestur. Uppfræðing, áðferði og trúrækni fólks virðist fremur yfir höfuð á góðum vegi og heldur fara batnandi í sumu. Þénustusemi, greiðvikni og hjálp við aðra algeng.
Fólksfjöldi hefir undanfarin ár aukizt, mest fyrir tómthúsabyggingar.

Njarðvík

Innri Njarðvík fyrrum – Áki Grenz.

Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir, Innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
Kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún stendur, þar hún fékk ekki kirkjurétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn. Keflavíkurhöndlunarstaður átti fyrrum kirkjusókn að Njarðvík, stuttan og góðan veg, en nú að Útskálum, að sögn fyrir eftirleitni prests þar. Kauphöndlun Njarðvíkinga er mest í Keflavík.
Alls staðar liggja kýr inni á sumrum um nætur. Margir menn eru skrifandi og sums staðar kvenfólk; nokkrir finnast, sem bera skyn á einfaldar lækningar, margar lagnar nærkonur, þó ekki yfirheyrðar. Sjúkdómar eru helztir: Á börnum oft andarteppuhósti, fullorðnum iktsýki almenn, sumir eru brjóstveikir, fáeinir holdsveikir.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel við Seltjörn.

Frá Innri-Njarðvík var selstaðs við veginn, er liggur frá Vogum að Grindavík; þar er lítið vatn skammt frá, er heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.
Fyrir innan áður nefnda Innri-Skoru á Stapanum byrjar Stóru-Vogaland og takmörk Kálfatjarnarsóknar. Inn af Stapanum, eru 4ur skörð. Það syðsta heitir Reiðskarð, bratt upp; þar eftir er alfaravegur, sem stundum er ófær af fönn á vetrum; hin þrjú, hvert vestar af öðru að sjó, eru gengin. Á innri parti Stapans er hæsta hæð hans, sem kallast Grímshóll, og á henni stór varð. Þar er mjög víðsýnt í allar áttir. Strax við Stapann að innan er Vogavík, er vegna sandgrunns tengist hvað af öðrum upp með Stapanum. Við sjóinn rétt við Stapann, vestan víkina, em Hólmabúðir, sem sjómenn róa frá og höndlunarmenn hafa fiskitökuhús; framundan Vogunum á víkinni er bezta skipalega fyrir stór og smá skip og trygg höfn fyrir öllum vindum utan vestan-útnorðan. Þar norðanleguna er Þórusker, er fer í kaf með stórstraumsflóðum; norður frá því skammt em smásker. Norðan vfkina er bærinn Stóru-Vogar og Vogahverfi; norðar em Minni-Vogar. Gengur svo ströndin í þá átt að Brunnastöðum; á þeim vegi em 3 fiskitökuhús og 1 milli Stóm-Voga og Stapans, fyrir víkurbotninum, á litlu nesi, hvar og tjárréttarmynd er, að hverri sækja á haustum Strandar-, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppar.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Framundan Brunnastöðum og samnefndu hverfi eru tangar og grynningar nokkuð fram í sjó; þó er lending þar góð kunnugum. Eftir sömu stefnu mæta Hlöðunesstangar framundan Hlöðunessbæ, innar Atlagerðistangar framundan Ásláksstöðum. Innan þá er nokkuð stórt sker, sem kallast Svartasker; þar fyrir innan skerst inn vík ei mjög stór, kölluð Breiðagerðisvík. Svo er ströndin nær því jöfn og beygist heldur til landnorðurs, allt inn í svo kallað Keilisnes, sem er skammt innan Kálfatjörn. Á öllum þessum vegi grunnleið með ströndinni, frá Þóruskeri í Vogum inn að Keilisnesi, er mjög brimsamt, meðboðum, nöggum, hnýflum, flúðum og smáskerjum. Innan Keilisnesness gengur inn breið vík, kallast Vatnsleysuvík; hún er full vika sjóar á breidd inn að Hraunsnesi, sem er takmark milli Kálfatjarnar og Garðasóknar við sjó; víkin er nær því eins löng inn í landið og hún er breið til.

Kúagerði

Kúagerði.

Sunnan til við hana er Flekkuvík, Kálfatjarnarkirkjujörð, austar lítið er Minni- og Stóra-Vatnsleysa; fram undan þeirri minni eru grynningar, sem kallast Vatnsleysueyri. Hún er þangi vaxin, og yfir hana hylur með hverri flæði, nokkuð stór um sig og hættuleg ókunnugum; verður að miða inn hjá henni leiðina, eins og víðast er tilfellið í lendingar á Ströndinni. Fyrir botni víkurinnar er sagt verið hafi bær, er heitir Akurgerði; innar er Kúagerði. Þar í er tjörn í nokkuð djúpri dæld, sem minnkar með fjöru, en vex með flóði; þar hjá er alfaravegur gegnum brunahraun.
Innar eru gömul Sellátur, en löngu síðan af; þar skammt frá er Hvassahraun og samnefnt hverfis, innsti sóknarbær, lítið innar er áður nefnt Hraunsnes.
Þessi einajörð íbáðum sóknunum, sem útgjöra hreppinn, hefir allgóðan skóg, sem heldur er í rénun. Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhreppslögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru.

Fagridalur

Í Fagridal.

Fjallgarðurinn liggur frá austri til vesturs, allt frá Grafningsfjöllum að Fagradalsfjalli, sem eiginlega endar hann; upp undan Stóru-Vogum hér og hvar eru smáskörð í hann. Vestur frá Fagradalsfjalli eru í hrauninu tvö lág fell, Stóra- og Litla-Skógfell, vestar er Sýlingarfjall, svo Þorbjarnarfell, svo lengra vestur Þórðarfell og loksins Stapafell, áfast við Súlufjall, sem er það vestasta ofan Stapann, hér um bil í austur að sjá frá Kirkjuvogi í Höfnum.
Í Fagradalsfjalli er samnefndur dalur, fyrrum fagur, en nú að mestu stórgrýttur af skriðum og graslítill; innar er Hagafell með sæmilegum grasbrekkum. Nokkuð innar er hár fjalltindur, er kallast Keilir, sem sjófarendur kalla Sykurtopp. Fyrir innan hann er skarð í fjöllin, þar fyrir innan gamalt eldfjall, sem heitir Trölladyngjur, sem spúð hafa nýju hrauni ofan á það eldra á 13. eður 14. öld. Þetta nýrra hraun er tómur apall og bruni, víða með grasmosa, hvar ekki sést eitt grasstrá; einn armur þess hefir hlaupið fram í sjó sunnan Hvassahraun.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Milli Vatnsleysanna liggur gjá frá sjó, skáhallt eftir endilangri heiði, allt suður í sjó á Reykjanesi. Þar hún er mjóst, má stíga yfir hana, en er sums staðar óyfirfærileg; hún kallast Hrafnagjá. Ofar í heiðinni er Klifgjá, enn ofar Grindavíkurgjá og efst næst fjöllum tvær Kolhólagjár; er það menn vita, allar þessar byrja norður í heiði og enda í Skógfellshrauni. Margaraðrar fleiri gjár og holur eru um hraunin, sem ekki er nafn gefið. í svo kölluðu Vogaholti eru sæmilegir hagar og sums staðar í heiðinni. Margslags lyngtegundir gefast og hátt í henni víðir. Vegur liggur gegnum heiðina frá Stóru-Vogum beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarða inn fyrir Kálfatjörn, aftur þaðan frá gegnum heiðina inn hjá Vatnsleysu.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Norðan til við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætast ofan Stapann 3 tjamir, sem heita Snorrastaðatjamir, hvar bær eftir munnmælum skal hafa staðið í fornöld; þær eru eiginlega vatnsgjár, og þar skyldi fiskur hafa haft undirgang frá Grindavík gegnum út fyrir Stapa á hraunið, hvar nú ekki merkist á þessum tímum.
Fiskimið eru rétt ótal djúpt og grunnt með allri sjósíðunni, engin sérleg hákarlamið; þó em fáir lagvaðir brúkaðir.
Úr Kálfatjarnarsókn sækja innbúar verzlun framar til Hafnarfjarðar en Keflavíkur. Helztu bæir eru Stóru-Vogar, Brunnastaðir, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Auðnar, Þórustaðir, Kálfatjörn, Stóra-Vatnsleysa og Hvassahraun, og líka mætti telja Minni-Voga.

Trölladyngja

Trölladyngja. Hverasvæði ofan Oddafells.

Í fjöllunum er helzt að sögn hraungrýti og mógrýti, en sjóklappir víða af stuðlabergi. Frá Kálfatjörn eru Dyngjur að sjá, þá sól er kl. 9, Keilir kl. 10, Fagradalsfjalls innri endi kl. 12.
Sjórinn brýtur víða af túnum og landi og ber upp á sand og grjót, og grynningar aukast.

Kálfatjörn

Yfir höfuð er sama að segja um upplýsingu, siðferði, atvinnuveg og annað í þessari sókn sem hinni, utan að hér er minni þorskanetabrúkun, en meiri hrognkelsa og færafiskirí um vertíð. Til húsabygginga er brúkað nokkurt rekatimbur, en meira af útlenzku, þar óvíða er reki til hlítar. Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helzta, sem ég get frá skýrt. Svohljóðandi bréf, dagsett á Kálfatjörn 24. febrúar 1840, hefur síra Pétur sent Finni Magnússyni með sóknarlýsingu sinni: „Þar ég ekki fékk því við komið að senda með haustskipum þá hér með fylgjandi skýrslu, læt ég hana nú fara í von um, að hún komist með póstskipi. – Ég bið yður og, háttvirtu félagsbræður, að virða vel, þó hún sé ekki svo fullkomin sem skyldi, og taka viljann fyrir verkið”. – P. Johnson

Síra Pétur Jónsson er þjónaði Kálfatjarnarprestakalli 1826 -1851

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

Í íslenskum Æviskrám segir svo um höfund þessarar lýsingar, síra Pétur Jónsson.
„Hann var sonur síra Jóns Magnússonar á Vesturhópshólum og síðar á Borg, og ólst upp við mikla fátækt. Hann fór í skóla 17 ára að aldri og var þar 7 vetur svo, aðfaðir hans þurfti ekki að kosta hann, heldur kom hann heim hvert vor með nokkuð af ölmusu sinni óeyddri; svo hart lagði hann að sér að styrkja foreldra sína. Vorið 1802 átti hann að útskrifast, en eftir beiðni hans var honum veitt leyfi til þess að vera eitt ár enn í skóla. Um seinan komu honum þau tíðindi, að Hólaskóli væri lagður niður 1802, og að piltar yrðu nú að ljúka námi íReykjavíkurskóla. Hefði hann vitað það í tíma, mundi hann ekki hafa sótt um leyfið, enda sagði hann oft, að þess hefði hann mest iðrast. Hann úrskrifaðist úr Hólavallarskóla 1803 með þeim vitnisburði, að hann sé ágætum gáfum gæddur, en þó einkum þroskaðri greind og farsælu minni, og hafi á þessu eina ári tekið undramiklum framförum í lærdómi, þrátt fyrir nokkurn heilsubrest.

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju.

Hann vígðist aðstoðarprestur fóður síns 1808 og kvæntist áríð eftir Ingibjörgu Jónsdóttur í Hjörsey, Egilssonar. Hún veiktist hastarlega 1820 og var veik á sál og líkama upp frá því til dauðadags og nær alltaf rúmliggjandi.
Þegar síra Pétur kom til Kálfatjarnar, var hann svo blásnauður, að hann flutti allt sitt á 2 hestum. En fátæktinni þyngri var þó heilsuleysi konunnar. Varð hann á hverju kvöldi að kveða hana í værð eins og barn, og marga nótt varð hann að vaka yfir henni til morguns. En hann unni henni svo mjög, að fyrir hana vildi hann allt á sig leggja, vökur, hungur og nekt. Konan dó 1860 og höfðu þau þá verið í hjónabandi í rúm 50 ár, en ekki átt börn.
Síra Pétur afsalaði sér Kálfatjörn 1851, þá 73 ára gamall. Hann fluttist nú að Móakoti, fékk það eftirgjaldslaust og 1/3 fastra tekna brauðsins. Árni stiftprófastur Helgason mat síra Pétur jafnan mikils og útvegaði honum nú 50 rdl. árlegan styrk hjá stjórninni og auk þess nokkum styrk hjá Synodus. Þó veitti síra Pétur hörmulega í Móakoti, og sá þess varla stað þótt sóknarmenn gæfu honum oft stórgjafir, þegar hann átti bágast. Sumarið 1860 fór hann aftur að Kálfatjörn og naut þar húsaskjóls og aðhlynningar eftir það. Var hann þá þrotinn að kröftum og heilsu, maður á níræðis aldri, sem mestan hluta ævi sinnar hafði búið við eymd og skort. Hann fékk slag 8. desember 1864 og andaðist 8. janúar 1865. Við jarðarför hans vom rúmlega 200 manns, margir langt að komnir og má af því marka vinsældir hans. Einhver seinustu orð hans á banasænginni voru þau, að hann bað sóknarprestinn að muna sig um að láta sig hvíla sem næst „elskunni sinni” í gröfinni. Og í Kálfatjarnarkirkjugarði hvíla þau hlið við hlið.
Síra Pétur var hinn mesti reglumaður í embætti, kennimaður góður og lét sér mjög annt um barnafræðslu. Veðurbækur hélt hann í samfleytt 50 ár. „Hann var merkur maður og valinkunnur”.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.04.2000, Lýsingar Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840 – séra Pétur Jónsson, bls. 12-14.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd.

Stapagata

Stapagata er gömul gata er liggur ofan við Stapann milli Voga og Innri-Njarðvíkur. Gatan er vel greinileg og gaman að ganga hana. Á leiðinni er m.a. Grímshóll þar sem gerðist sagan af vermanninum og huldumanninum í hólnum.

Reiðskarð

Reiðskarð.

Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Rétt í þessu verður Þorbjörgu litið upp eftir skarðinu. Sér hún þá, hvar þrjár verur er að þokast upp eftir, 50 til 60 metra fyrir framan hana.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Fremst gengur kona, á eftir henni kýr, sem konan teymir, og á eftir kúnni labbar hundur. Konan er klædd eins og þá tíðkaðist um sveitakonur, hafi til dæmdis hyrnu á herðum. Kýrin var kjöldótt og hundurinn flekkóttur. Fannst Þorbjörgu ekkert óeðllegt við þetta. Hún kallar til konunnar: “Kona, eigum við ekki að verða samferða?” En konan lét sem hún heyrði ekki. Þorbjörg kallar aftur: “Kona, eigum við ekki að verða samferða yfir Stapann?”. En það fer sem fyrr, konan ansar ekki. Þegar hún er komin upp á skarðsbrúnina kallar Þorbjörg til hennar ennþá einu sinni. Þá lítur konan við og glottir til hennar. Í þeim svifum hverfur hún fyrir brúnina með kúna og hundinn.

Stapagata

Stapavegur.

Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir húnsér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum. Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá.

Stapagata

Gengið um Stapagötu.

Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Reykjanesið er sagnakennt umhverfi.

(Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961).

Stapagata

Gengið um Stapagötu.