Færslur

Stapagata

Stapagata er gömul gata er liggur ofan við Stapann milli Voga og Innri-Njarðvíkur. Gatan er vel greinileg og gaman að ganga hana. Á leiðinni er m.a. Grímshóll þar sem gerðist sagan af vermanninum og huldumanninum í hólnum.

Reiðskarð

Stapagatan um Reiðskarð.

Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Rétt í þessu verður Þorbjörgu litið upp eftir skarðinu. Sér hún þá, hvar þrjár verur er að þokast upp eftir, 50 til 60 metra fyrir framan hana. Fremst gengur kona, á eftir henni kýr, sem konan teymir, og á eftir kúnni labbar hundur. Konan er klædd eins og þá tíðkaðist um sveitakonur, hafi til dæmdis hyrnu á herðum. Kýrin var kjöldótt og hundurinn flekkóttur. Fannst Þorbjörgu ekkert óeðllegt við þetta. Hún kallar til konunnar: “Kona, eigum við ekki að verða samferða?” En konan lét sem hún heyrði ekki. Þorbjörg kallar aftur: “Kona, eigum við ekki að verða samferða yfir Stapann?”. En það fer sem fyrr, konan ansar ekki. Þegar hún er komin upp á skarðsbrúnina kallar Þorbjörg til hennar ennþá einu sinni. Þá lítur konan við og glottir til hennar. Í þeim svifum hverfur hún fyrir brúnina með kúna og hundinn.

Stapagata

Stapagatan.

Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir húnsér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum. Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá. Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Reykjanesið er sagnakennt umhverfi.

(Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961).

Stapagata

Gengið um Stapagötu.

Gíslhellir

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn“). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum“.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.

Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
GíslhellirGengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.
Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918. A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.Hraunkarl

Njarðvík
Farið var um Ytri- og Innri-Njarðvík í fylgd Áka Guðna Grënz. Áki byrjaði að sýna uppdrætti og myndir, sem hann hefur unnið eftir heimildum af svæðinu. Uppdrættir þessir eru mjög vel gerðir og lýsa vel staðháttum og einstökum stöðum fyrr á árum.
Áki leiddi hópinn um svæði ofan við þar sem staðið hafði fyrrum bær Hallgríms Péturssonar. Fyrst eftir að Hallgrímur fékk síðar brauð í Hvalsnesi þurfti hann að fara þaðan yfir heiðina eða út með Ósabotnum. Sennilega er þar komin skýringin á tilvist HP-steinsins utan við Þórshöfnina. Öllu þessu svæði hefur nú verið raskað af miklu tillitsleysi og engar minjar eru þar eftir, ekki einu sinni brunnstæðið á Bolafæti.

Brunnur

Brunnur.

Þá var haldið að Stekkjarhamri, en það er eini staðurinn þarna, sem friðaður hefur verið. Þó er búið að fylla að hluta upp í Stekkjarhamarslautina vestan við hamarinn. Hún var vinsæll áningastaður Keflvíkinga þegar farið var í ferðir með ströndinni á góðvirðisdögum. Sögur eru og um að einhver og jafnvel nafngreind börn hafi komið það undir.
Þá var haldið upp fyrir Hjallana að landamerkum Keflavíkur og Ytri-Njarðvíkur. Áki sagðist minnast þess að tóttir hafi verið við Hjallatún áður fyrr. Mest af túninu og jarðveginum hafi hins vegar verið flutt að húsum verndaranna uppi á Vallarsvæðinu. Áki benti á hinn raunverulega Grænás og sagðist hafa heyrt að þar ætti að vera álfakirkja.
Áki bauð þátttakendum í Stekkjarkot, en þar hefur hann lyklavöld. Við kotið, sem nú hefur verið gert upp, hefur verið byggt fjós. Innan þess leynist snyrtiaðstaða, en flórinn er hlaðinn sem fyrrum. Áki skýrði hugmyndir Reykjanesbæjarmanna um varnargarð yfir skerjagarðinn og hugmyndir að víkingaþorpi á ströndinni norðan Stekkjarkots.
Þá var haldið að Innri-Njarðvíkurkirkju. Á leiðinni benti Áki á hvar Litli-Krossgarður og þá um leið Narfakotsborg hefðu verið, þ.e. við austurhorn kappakstursbrautarinnar, sem nú er. Því svæði hefur svo til öllu verið raskað meira og minna.
Við kirkjuna benti Áki á Hólmfastskot og sagði söguna af Hólmfasti Guðmundssyni og hans fólki. Tóttin er nokkuð heilleg og stendur sunnan við og næst Tjörninni vestan kirkjunnar.

Grænaborg

Grænaborg.

Tóttir tveggja annarra kota eru þar skammt ofar. Enn ofar er steinbærinn Garðakot, svo til alveg heill. Hólmfastur var eins og kunnugt er hýddur eftir að hafa brotið lög um einokunarverslun Dana að mati kaupmannsins í Hafnarfirði, Knúts Storms, með því að versla með úrkastið við kaupmanninn í Keflavík. Hólmfastur bjó þá á hjáleigu frá Brunnastöðum (1699). Hann var dæmdur í háa sekt, en var ekki borgunamaður fyrir henni. Var Hólmfastur þá dæmdur til kaghýðingar, bundinn við staur og húðstrýktur rækilega. Þóttu þetta harkalegar aðfarir að sumra mati, m.a. Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, og varð úr að Hólmfastur fékk dæmdar miskabætur að upphæð 20 ríkisdalir. Umdæmisverslunin var afnumin 1732.
Haldið var út á Stapa, framhjá fjárborginni Grænuborg ofan við hesthúsin og vísaði Áki á fótinn af Kolbeinsvörðunni, eða “Kúfúdvörðu”, eins og hún mun einnig hafa verið nefnd. Varðan mun hafa verið landamerkjavarða Voga og Innri-Njarðvíkur. Sést móta fyrir vörðunni vestan við Innri-Skor. Áttu landamerkin að vera úr henni í miðja Skoruna og í Arnarklett suðvestan við Snorrastaðatjarnir. Ekki var að sjá neinn ártalsstein á eða við þessa vörðu, en skv. sögnum átti að hafa verið í henni steinn með ártalinu 1724.

Grindavíkurvegur

Varða sunnan við Stapa.

Í leiðinni var ekið suður gamla Grindavíkurveginn, en staðnæmst skömmu áður en komið var að Reykjanesbrautinni. Þar, u.þ.b. 100 metrum vestan við veginn er klapparhóll og á honum breiður vörðufótur. Áki sagðist ekki hafa heyrt minnst á þessa vörður áður. Varðan er ekki alveg í beina stefnu á milli Arnarkletts og vörðunnar vestan við Innri-Skoru, en gæti þó alveg verið landamerkjavarða.
Eftir ferðina var gengið frá Innri-Njarðvíkurkirkju með ströndinni að Stapakoti. Á leiðinni eru m.a. hlaðnar tóttir, þar af ein bæði mjög stór og mjög heilleg. Gengið var eftir gömlum garði austan við núverandi íbúðarhús og honum fylgt til vesturs. Innan hans eru m.a. tóttir af stóru fjárhúsi og fleiru.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.