Njarðvík

Farið var um Ytri- og Innri-Njarðvík í fylgd Áka Guðna Grënz. Áki byrjaði að sýna uppdrætti og myndir, sem hann hefur unnið eftir heimildum af svæðinu. Uppdrættir þessir eru mjög vel gerðir og lýsa vel staðháttum og einstökum stöðum fyrr á árum.

Áki Grënz

Áki Grënz.

Áki leiddi hópinn um svæði ofan við þar sem staðið hafði fyrrum bær Hallgríms Péturssonar. Fyrst eftir að Hallgrímur fékk síðar brauð í Hvalsnesi þurfti hann að fara þaðan yfir heiðina eða út með Ósabotnum. Sennilega er þar komin skýringin á tilvist HP-steinsins utan við Þórshöfnina. Öllu þessu svæði hefur nú verið raskað af miklu tillitsleysi og engar minjar eru þar eftir, ekki einu sinni brunnstæðið á Bolafæti.Þá var haldið að Stekkjarhamri, en það er eini staðurinn þarna, sem friðaður hefur verið. Þó er búið að fylla að hluta upp í Stekkjarhamarslautina vestan við hamarinn. Hún var vinsæll áningastaður Keflvíkinga þegar farið var í ferðir með ströndinni á góðvirðisdögum. Sögur eru og um að einhver og jafnvel nafngreind börn hafi komið það undir.

Njarðvík

Njarðvík – brunnur.

Þá var haldið upp fyrir Hjallana að landamerkum Keflavíkur og Ytri-Njarðvíkur. Áki sagðist minnast þess að tóttir hafi verið við Hjallatún áður fyrr. Mest af túninu og jarðveginum hafi hins vegar verið flutt að húsum verndaranna uppi á Vallarsvæðinu. Áki benti á hinn raunverulega Grænás og sagðist hafa heyrt að þar ætti að vera álfakirkja.
Áki bauð þátttakendum í Stekkjarkot, en þar hefur hann lyklavöld. Við kotið, sem nú hefur verið gert upp, hefur verið byggt fjós. Innan þess leynist snyrtiaðstaða, en flórinn er hlaðinn sem fyrrum. Áki skýrði hugmyndir Reykjanesbæjarmanna um varnargarð yfir skerjagarðinn og hugmyndir að víkingaþorpi á ströndinni norðan Stekkjarkots.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Þá var haldið að Innri-Njarðvíkurkirkju. Á leiðinni benti Áki á hvar Litli-Krossgarður og þá um leið Narfakotsborg hefðu verið, þ.e. við austurhorn kappakstursbrautarinnar, sem nú er. Því svæði hefur svo til öllu verið raskað meira og minna.
Við kirkjuna benti Áki á Hólmfastskot og sagði söguna af Hólmfasti Guðmundssyni og hans fólki. Tóttin er nokkuð heilleg og stendur sunnan við og næst Tjörninni vestan kirkjunnar.

Tóttir tveggja annarra kota eru þar skammt ofar. Enn ofar er steinbærinn Garðakot, svo til alveg heill. Hólmfastur var eins og kunnugt er hýddur eftir að hafa brotið lög um einokunarverslun Dana að mati kaupmannsins í Hafnarfirði, Knúts Storms, með því að versla með úrkastið við kaupmanninn í Keflavík.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Hólmfastur bjó þá á hjáleigu frá Brunnastöðum (1699). Hann var dæmdur í háa sekt, en var ekki borgunamaður fyrir henni. Var Hólmfastur þá dæmdur til kaghýðingar, bundinn við staur og húðstrýktur rækilega. Þóttu þetta harkalegar aðfarir að sumra mati, m.a. Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, og varð úr að Hólmfastur fékk dæmdar miskabætur að upphæð 20 ríkisdalir. Umdæmisverslunin var afnumin 1732.
Haldið var út á Stapa, framhjá fjárborginni Grænuborg ofan við hesthúsin og vísaði Áki á fótinn af Kolbeinsvörðunni, eða “Kúfúdvörðu”, eins og hún mun einnig hafa verið nefnd. Varðan mun hafa verið landamerkjavarða Voga og Innri-Njarðvíkur. Sést móta fyrir vörðunni vestan við Innri-Skor. Áttu landamerkin að vera úr henni í miðja Skoruna og í Arnarklett suðvestan við Snorrastaðatjarnir. Ekki var að sjá neinn ártalsstein á eða við þessa vörðu, en skv. sögnum átti að hafa verið í henni steinn með ártalinu 1724.

Grindavíkurvegur

Varða sunnan við Stapa.

Í leiðinni var ekið suður gamla Grindavíkurveginn, en staðnæmst skömmu áður en komið var að Reykjanesbrautinni. Þar, u.þ.b. 100 metrum vestan við veginn er klapparhóll og á honum breiður vörðufótur. Áki sagðist ekki hafa heyrt minnst á þessa vörður áður. Varðan er ekki alveg í beina stefnu á milli Arnarkletts og vörðunnar vestan við Innri-Skoru, en gæti þó alveg verið landamerkjavarða.
Eftir ferðina var gengið frá Innri-Njarðvíkurkirkju með ströndinni að Stapakoti. Á leiðinni eru m.a. hlaðnar tóttir, þar af ein bæði mjög stór og mjög heilleg. Gengið var eftir gömlum garði austan við núverandi íbúðarhús og honum fylgt til vesturs. Innan hans eru m.a. tóttir af stóru fjárhúsi og fleiru.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.