Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja var vígð 11. júní 1893. Forsmiður var Guðmundur Jakobsson, húsasmíðameistari (1860-1933), en um útskurð og tréverk sá Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Málun kirkjunnar þótti sérstök, en hana annaðist Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915). Sá málaði m.a. Iðnó, Dómkirkjuna og fleiri merkar byggingar að innan. Málaraverk Nikolaj er hins vegar víðast hvar horfið, en í Kálfatjarnarkirkju má enn sjá að hluta þessa framlags hans til byggingarinnar. Steinsmiður var Magnús Árnason.
Viðgerð á kirkjunni var lokið á hundrað ára afmæli hennar. Hún er reisuleg timburkirkja af tvíloftagerð. Hún er friðuð. Þegar kirkjan var reist á sínum tíma var hún stærsta sveitakirkja landsins og rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Þá stóð sjávarútvegur með miklum blóma á Vatnsleysuströndinni og margir vel efnum búnir útvegsbændur bjuggu þar.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla.

Altaristaflan er eftirgerð af töflu Dómkirkjunnar og málaði Sigurður Guðmundsson (1833-1874) hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna.
Kirkja hefur líklega verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Umhverfi kirkjunnar á sér merka sögu og á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld.

Kálfatjarnarkirkja er í Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1892-93 og vígð 11. júní 1893, sem fyrr segir, af biskupi, herra Hallgrími Sveinssyni.

Bygging kirkjunnar gekk afar hratt, hófst smíði hennar þegar eftir að gamla kirkjan hafði verið rifin, sú kirkja náði aðeins 29 ára aldri, byggð 1864.

Nýtt þjónustuhús við kirkjuna var vígt 15. apríl 2001.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.