Færslur

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja var vígð 11. júní 1893. Forsmiður var Guðmundur Jakobsson, húsasmíðameistari (1860-1933), en um útskurð og tréverk sá Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Málun kirkjunnar þótti sérstök, en hana annaðist Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915). Sá málaði m.a. Iðnó, Dómkirkjuna og fleiri merkar byggingar að innan. Málaraverk Nikolaj er hins vegar víðast hvar horfið, en í Kálfatjarnarkirkju má enn sjá að hluta þessa framlags hans til byggingarinnar. Steinsmiður var Magnús Árnason.
Viðgerð á kirkjunni var lokið á hundrað ára afmæli hennar. Hún er reisuleg timburkirkja af tvíloftagerð. Hún er friðuð. Þegar kirkjan var reist á sínum tíma var hún stærsta sveitakirkja landsins og rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Þá stóð sjávarútvegur með miklum blóma á Vatnsleysuströndinni og margir vel efnum búnir útvegsbændur bjuggu þar.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla.

Altaristaflan er eftirgerð af töflu Dómkirkjunnar og málaði Sigurður Guðmundsson (1833-1874) hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna.
Kirkja hefur líklega verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Umhverfi kirkjunnar á sér merka sögu og á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld.

Kálfatjarnarkirkja er í Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1892-93 og vígð 11. júní 1893, sem fyrr segir, af biskupi, herra Hallgrími Sveinssyni.

Bygging kirkjunnar gekk afar hratt, hófst smíði hennar þegar eftir að gamla kirkjan hafði verið rifin, sú kirkja náði aðeins 29 ára aldri, byggð 1864.

Nýtt þjónustuhús við kirkjuna var vígt 15. apríl 2001.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Kálfatjörn

Gengið var um Kálfatjörn frá kirkjunni, brunnurinn skoðaður sem og sjóbúð og tjörnin sjálf. Skoðaðar voru minjar með ströndinni til vesturs, komið við í tóftum Goðhóls og fiskbyrgjunum neðan við Þórustaði og síðan haldið út með einni fegurstu sandströnd á norðanverðum Reykjanesskaganum, neðan Þórustaða og Landakots. Þá var stefnan tekin á Norðurkot, en tilfærsla þess kl. 16.00 þetta síðdegi var einmitt tilefni göngunnar. FERLIR hafði lofað góðu gönguveðri og einnig að í ferðinni myndu þátttakendur sjá aldargömlu húsi lyft af grunni sínum og það fært um set. Auðvitað trúði enginn þeirri lýsingu sem fyrri daginn – og því varð staðreyndin áhrifaríkari en ella.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – gömlu húsin, um 1960, sett inn í mynd frá 2020.

Tilgangurinn með ferðinni var einnig að reyna að berja lóuna, vorboðann ljúfa, augum, en fréttir höfðu einmitt borist fyrr um daginn af ferðum hennar við Höfn í Hornafirði, tveimur dögum fyrr en venjulega. Það gefur von um gott vor.
Skoðaður var brunnurinn frá Kálfatjörn, en oft reynist erfitt að finna hann þegar líða tekur á sumarið vegna njóla og annars þróargróðurs. Ágætt kennileiti er þó eftir götu eða lögstum garði að honum út frá Víti til vesturs. Þar liggur gata vestan slóða niður að Kálfatjörninni sjálfri. Ef garðinum/götunni er fylgt að enda birtist brunnlokið. Tilraun var gerð til að finna brunninn síðsumars árið áður, en án árangurs. Þarna var hann hins vegar án þess að nokkuð skyggði á tilvist hans.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Gengið var með syðri hluta Rásarinnar að tóft sjóbúðar sunnan Kálfatjarnar, hún skoðuð, og síðan haldið niður að skiparéttinni ofan við sjávarmál. Þar eru og hleðslur gamallar sjóbúðar, sem ártalssteinn 17. aldar fannst hjá fáum misserum fyrr. Steinn sá er nú við safnaðarheimiðið norðan kirkjunnar. Kunnugir segja, en vilja ekki staðfesta skriflega, að þegar grunnur safnaðarheimilisins hafi verið gerður, hafi komið upp ýmsir steinar sem og reglulegar hleðslur, en þá hafi blinda augað komið sér vel hjá nærstöddum, enda kirkjugarðurinn og gamlar minjar eigi alllangt undan.
Rifjuð var upp sögnin af sækúnum í Kálfatjörn. Með tóftir hinnar gömlu hæðbúnu sjóbúðar að baki og kirkjuna í bakgrunni var ekki komist hjá upprifjun sjósókna fyrri alda sem og aðbúnaðar vermanna á þeim tímum. Rifjuðu var upp ferð um svæðið á liðnu ári með Ólafi Erlendssyni á Kálfatjörn, en þá lýsti hann vel og vandlega kotunum norðan og austan við kirkjuna.

KálfatjörnÁ Kálfatjörn var bær, kirkjustaður og prestsetur. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Sögu hennar og umhverfi hefur verið gerð góð skil í annarri FERLIRslýsingu.
Skoðaðar voru minjar Goðhólls, bæði gamla bæjarins og útihúsa auk garða, sem þar eru. Skammt norðvestar eru gamlar mógrafir frá Kálfatjörn. Hlið er sunnar og Tíðargerði vestan þess. Hvorutveggja eru gömul kot vestan við Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Ártalssteinninn á Kálfatjörn í gömlu sjóhúsi.

En gömul kot geta orðið að gersemi sem og svo margt annað. Ekki er langt um liðið síðan sjá mátti síðanefnda kotið auglýst til sölu ásamt Norðurkoti, sem er þarna skammt vestar, á 40 milljónir króna. Stórhuga menn hafa haft áhuga á landinu, m.a. með fyrirhugaða sumarhúsabyggð og þróun golfvallarins að augnamiði. Staðreyndin er sú, hvað sem líður landkostum, að óvíða er fagurrra útsýni en á þessari, að því er virðist, flatneskjulegu strönd. Útsýnið er síbreytilegt og bæði ströndin og heiðin skammt undan eru tiltæk til uppbyggjandi gönguferða.
Lóan lét sjá sig, en erfiðara reyndist að ná mynd af henni. Það heyrðist hins vegar ágætlega í henni. Smánafna hennar, sandlóan, var hins vegar róleg þar sem hún stóð í hópum á skerjum, og leyfði góðfúslegar myndatökur. Lómur syndi utar og úmaði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær. Norðurkot lengst t.v.

Nú er Norðurkotið stekkur. Norðurkotið á Vatnsleysuströnd var flutt um set, í sólskinsblíðu, stafalogni og 12° hita. Húsið, sem að sögn var byggt árið 1903 sem skólahús, var híft á dráttarvagn og síðan ekið yfir að Kálfatjörn þar sem því verður ætlaður staður til frambúðar á fyrirhuguðum safnareit. Keilir lék baksviðs meðan á flutningnum stóð, en sólin umvafði þetta gamla hús geislum sínum er það notaði tækifærið og snéri sér í hring hangandi í kranavírunum. Andar genginna kynslóða fylgdust með. Fjórir svanir flugu yfir í fagurri fylkingu, snéru við og komu til baka, líkt og til að leggja áherslu á samþykkið að handan. Rifjað var upp minnistætt flug svananna 12 framan við áhorfendur á krirstnitökuhátíðinni á Þingvöllum árið 2000. Þeir snéru einmitt við, líkt og þessir, og endurtóku flugið fyrir áhorfendur. Fæstir skyldu þó tilganginn, en aðrir, sem bæði vita og skilja, gerðu sér grein fyrir honum. Aldur Norðurkots er ekki fullviss af nákvæmni. Það gæti verið eitthvað eldra en frá 1903. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn segir t.d. að faðir hans, Erlendur Magnússon hafi gengið þar í skóla árið 1904 og að húsið gæti verið frá því rétt fyrir aldamótin 1900.

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Það var Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps, sem lét flytja húsið með dyggri aðstoð verktaka. Það hrikti í vírum hífikranans við lyftinguna, en húsið hvorki æmti né skræmti þótt aldrað væri. Stoðir þess eru greinilega enn styrkar – og höfðu verið styrktar enn um betur að innanverðu af vönum verkmönnum.
Norðurkot var notað sem skólahús fram til 1910 eða ’11. Kennarahjón bjuggu þá á loftinu, en skólastofan var á jarðhæð. Hlaðinn kjallari var undir húsinu. Síðast mun húsið hafa verið notað til reglulegar íbúðar árið 1935.
Í húsinu voru fyrir merkar heimildir um skólahaldið, s.s. kennslubækur, ritgerðir og einkunnir einstakra nemenda. Þá hafði verið safnað í það ýmsum munum úr sveitinni, s.s. reiðtygum, veiðarfærum, handverkfærum o.fl. Eflaust mun eitthvað af því nýtast fróðleiksfúsum í framtíðinni. Afkomendur Erlendar Magnússonar frá Kálfatjörn gáfu Minjafélaginu húsið.
Uppgert Norðurkotið mun án efa setja svip sinn á hinn nýja safnareit við Kálfatjarnarkirkju í framtíðinni.
Til baka var gengið eftir gömlu kirkjugötunni að Kálfatjörn. Gatan hefur verið jöfnuð þar sem fyrir er golfvöllurinn nýmóðis, en kylfingarnir kunnu sig. Þeir lutu í lotningu fyrir göngufólkinu, sem gekk líkt og kirkjugestir vestan af Ströndinni forðum, áleiðis að Kálfatjarnarkirkju.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Ofar, við gömlu götuna vestur á Strönd, mátti sjá klöpp huldukonunnar, sem getið er í þjóðsögu og á að hafa gerts þar árið 1892. Heimasætan, nýfermd, dreymdi að hún væri stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: “Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp”, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Stúlkan bauð huldukonunni að þiggja hring ömmu hennar, sem ég er með á hendinni. Huldukonan baðst undan svo góðri gjöf en bað um flauelspjötlur, sem stúlkan hafði. “Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær”, sagði huldukonan. “Ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja”, bætti hún við. Var svo draumurinn ekki lengri.
Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.
Þarna eru sögur til um hvern hól og sérhverja tóft.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11. mín.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Á Kálfatjörn, þar sem íbúðarhúsið stóð er tvískipt skilti. Á öðru þeirra er fjallað um túnakort og minjar og á hinu um Kálfatjörn. Á með má lesa eftirfarandi texta:

Kirkjur á Kálfatjörn

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Í máldaga (skrá um eignir kirkju) Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 er getið um kirkju á Bakka. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn þar sem til eru heimildir um kirkju frá 1450. Fram til 1824 var torfkirkja á Kálfatjörn. Var þá reist ný kirkja með tofveggjum, en timburþaki. Sú kirkja sdtóð í 20 ár. Aftur var byggð timburkirkja sem stóð önnur 20 ár. Árið 1864 var byggð kirkja sem stóð uns smíði núverandi kirkkju hófst á vormánuðum 1892. Kirkjan var vígð þann 11. júni 1893. Kálfatjörn var prestsetur allt til ásrins 1919.

Núverandi kirkja
Kálfatjarnarkirkja
Bygging núverandi kirkju gekk afar vel. Allt efni til kirkjunnar var flutt hingað á dekkskipi og skipað upp á árabátum. verkið tók um það 14 mánuði. Kirkjan er byggð úr timbri á hlöðnum grunni. Kirkjusmiður var Guðmundur Jakobsson, byggingameistari, sem nait aðstoðar Sigurjóns Jónssonar trésmiðs. Steinsmiðurinn frá Holti á Vatnsleysuströnd, Magnús Árnason, hlóð grunninn. Pílára á svalarbrúnum og í altarisgrindum ásamt ýmsum útskurði annaðist Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti á Vatnsleysuströnd. þegar allri trésmíði var lokið kom danski málarinn Nicolaj Sofus Bertelssen og málaði kirkjuna að innan og hefur því verki verið vel við haldið alla tíð. Hann málaði einni innviði Dímkirkunnar í Reykjavík.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Árið 1935 var kirkjuturninn endurbyggður vegna vatnsskemda. Nokkuð var deilt um breytinguna sem gerð var á turninum og breytti um leið öllu útliti kirkjunnar eins og sjá má á myndum. Meirihluti sóknarbarna vildi fá samskonar turn og var í upphafi, en fjármálasjónarmiðin réðu og fékk kirkjan þann turn sem hún nú ber. Söngloft er vestantil í kirkjunni og út með hliðunum eru svalir. Hin síðari ár hefur kirkjan talsvert verið endurbætt að innan og utan. Kirkjan rúmar um 15o manns.

Kirkjugarður

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja og kirkjugarðurinn. Bakki og Litlibær fjær.

Kirkjugarðurinn er hlaðinn úr grjóti og sniddu sem hefur þjónað því tíþætta hlutverki í gegnum tíðina að verja kirkjugarðinn ágangi búfjár, og sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera þurfti sökum þess hversu jarðvegurjnn er grunnur.

Kirkjumunir
Kálfatjarnarkirkja
Altaristöfluna gerði Sigurður Guðmundsson málari og er hún eftirmynd altaristöflunnar í Dómkirkjunni í Reykjavík. Rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem talinn er vera frá kaþólskri tíð. Þar hafa kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir gengu til kirkju. Pípuorgel var keypt í kirkjuna 1985. Skírnarfont, hökla, altarisklæði, sálmanúmeratöflur ásamt spjöldum, andvirði nýrra kirkjubekkja og ótal margt fleira hefur kirkjunni verið gefið í gegnum tíðina.

Prestar á Kálfatjörn
Nokkuð er vitað um þá presta sem sátu staðinn og þjóðnuðu frá 15. öld. Nafnkunnastur þeirra presta er þjónuðu á Kálfatjörn er séra Stefán Thorarnesen sálmaskáld og þýðandi. Aðrir prestar sem vitað er um eru:

Þorsteinn um 1450
Ásbjörn djákni Grímsson óvíst hvenær
Bjarni óvíst hvenær
ormur Egilsson 1580-1623
Ámundir Ormsson 1623-1670
Sigurður Eyjólfsson 1670-1689
Oddur Árnason 1689-1705
Jón Ólafsson 1705-1745
Sigurður Jónsson 1746-1786
Guðmundur Magnússon 1786-1808
Guðmudur Böðvarsson 1809-1826
Pétur Jónsson 1826-1851
Jakob Guðmundsson 1851-1857
Stefán Thorarensen 1857-1886
Árni Þorsteinsson 1886-1919
Árni Björnsson 1919-1930
Ólafur Stephensen 1931-1932
Garðar Þorsteinsson 1932-1966
Bragi Friðriksson 1966-1997
Gunnlaugur Garðarsson 1988-1991
Bjarni Þór Bjarnason 1991-1999
Hans markús Hafsteinsson 1997-2002
Friðrik J. Hjartar 1999-2002
Carlos Ari Ferrer 2002-2007
Bára Friðriksdóttir 2007-2012
Kjartan Jónsson 2012-

Mannvistarleifar
Kálfatjörn
Byggingar sem voru hversdagslegar fyrir hundrað árum eru nú orðnar minjar um horfna lífshætti. Skilningur hefur vaknað á nauðsyn þess aðs krá upplýsingar um slíkar minjar og vernda þær sem eftir eru fyrir komandi kynslóðir. Túnakortin frá 1919 eftir Vigfús Guðmundsson fræðimann sýna glögglega hvernig landnýtingu var háttað. Þar má sjá þyrpingu bæjarhúsa með kálgarða (kg) í kring. Einnig má sjá skiptingu túna og fjöruparta milli bæja, gönguslóða, brunna, lendingar í fjörum og fleira.

Hlið

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrúnni.

Hlið var tómthús frá Kálfatjörn, með kálgarð og lítinn túnblett. Þar lagðist búskapur niður 1923. Við Hlið lá Kirkjugatan svokallaða sem kirkjugestir fóru um á leið til messu. Þar var grjóti hrúgað þvert yfir Goðhólarásina sem kölluð var Kirkjubrú og átti að auðvelda kirkjugestum för yfir rásina sem gat orðið hinn mesti farartálmi í leysingum á vorin.

Goðhóll

Goðhóll
Goðhóll var tómthús frá Kálfatjörn, en hafði grasnyt. Goðhóll fór í eyði árið 1933. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Bæjarhúsin eru greinileg og vel uppistandandi.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið. Eftir að það var aflagt árið 1919 bjuggu Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir með börn sín. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við búskapnum af forledrum sínum og bjuggu þar alla sína búskapartíð. Kjálfatjarnarhúsið brann í nóvember 1998.

Skjaldbreið

Skjaldbreið við Kálfatjörn.

Skjaldbreið, hlaðan norðvestan við bæinn, mun hafa verið reist um 1850. Í áranna rás hefur útlit hlöðunnar breyst. Í vonskuveðri árið 2007 fauk þakið af henni. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Talið er að tréverkið, þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown, mannlausu skipi sem strandaði í Höfnum árið 1881, fullt af viði. Nú hefur Minjafélag Vatnsleysustrandar látið gera hlöðuna upp, lík og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hátún

Kálfatjörn

Hátún.

Hátún sem var grasbýli frá kirkjujörðinni fór í eyði 1920 en föst búseta var tekin upp aftur um 1960. Í millitíðinni var þar sumarbústaður. Öll bæjarhúsin hafa verið jöfnuð við jörðu fyrir utan hleðslur kálgarða sem sjást enn. Um tíma bjuggu ungverskir flóttamenn í Hátúni.

Fjósakot

Fjósakot
Fjósakot var grasbýli frá Kálfatjörn og fór í eyði 1920. Bærinn stóð á stórum hóli í miðju túni og var talinn með hæstu bæjarstæðum allra bæja í Vatnsleysustrandarhreppi. Þar sér nú aðeins í grjóthrúgur en moldin úr rústunum var tekin til uppfyllingar í kirkjugarðinn á Kálfatjörn.

Móakot
Móakot
Móakot var grasbýli frá Kálfatjörn sem fór í eyði um 1940. Árið 1920 voru husakynnin í Móakoti orðin léleg. Þegar séra Árni Þorsteinsson andaðist árið 1919 var hús það er hann bjó í á Kálfatjörn rifið og Móakot byggt upp úr því efni. Sunnan við bæjartóftirnar er langur hár hóll, er nefnist Klapparhóll, oft kallaður Álfhóll því trúa lá á að þar byggi huldufólk.

Bjarg

Bjarg

Bjarg.

Bjarg var tómtús frá kálfatjörm með kálgarð og dálítinn túnblett. Bærinn fór í eyði árið 1934. Árið 1910 fluttu að Bjargi ung hjón, Ingimundur Guðmundsson, frá næsta bæ, bakka og Abigael Halldórsdóttir frá Hóli við Öndunarfjörð. Ingimundur var mikill hagleiksmaður sem lýst er í ljóðlínum Jóns Helgasonar frá Litlabæ:

Ef ár þurfti’ að smíða’ eða oka í hrip,
upp-hressa bæ eða gera við skip
– þó væru’ei laun nema’ þakka —
járnklæða þak eða járnskóa hest,
þá jafnan var viðkvæðið: “Það er vist best
að biðja hann Munda á Bakka”.

Bakki
Bakki
Aldamótin 1990 var Bakki sagður tómthús frá kirkjujörðinni. Ekki leið þó á löngu þar til ábúandinn, Bjargmundur Guðmundsson, bróðir Ingimundar, var búinn að rækta svo umhverfis Bakka að úr varð góð grasjörð. Eftir það var Bakki skráður grasbýli. Þeir bræður á Bakka og Bjargi voru samhentir og gerðu vel að jörðum sínum, þó kirkjujarðir væru. Þrívegis svo vitað sé hefur Bakki verið fluttur vegna ágangs sjávar. Fysri Bakki er kominn útí sjó, annar Bakki er í dag rústir á sjávarkambinum og núverandi Bakki sem fluttur var árið 1904 stendur vel uppí túni.

Litlibær

Kálfatjörn

Vanræktur hestasteinn við Kálfatjörn.

Litlibær var tómthús í upphafi en síðar grasbýli frá Kálfatjörn þegar leyfi fékkst frá prestinum á Kálfatjörn til að rækta tún norður og austur af bænum. Litlibær var byggður úr tofbæ í timburhús árið 1906. Það timburhús var flutt og endurbyggt við Hverfisgötu í Hafnarfirði. Grunnur Litlabæjarhússins stóð í 13 ár eða þar til Ingimundur á Bjargi byggði þar nýtt íbúðarhús 1934 og fluttist þangað frá Bjargi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skilti.