Færslur

Sjálfkvíar

Gerð var leit að Sjálfkvíum á Kjalarnesi.
Í örnefnalýsingu fyrir Esjuberg segir frá því að; “einu sinni endur fyrir löngu stálu tveir strákar messuklæðum úr Móakirkju og skáru þau niður í skóna sína. Þeir voru síðan hengdir í Sjálfkvíum í Móanesi og dysjaðir þar allri alþýðu til viðvörunar. Sjálfkvíar eru klettar niður við sjó [skammt neðan við núverandi þjóðveg]. Dálítið bil er á milli þeirra, og fellur sjór þar inn um flóð.”
SjálfkvíarStröndin á þessu svæði er við skorin og því erfitt að staðsetja Sjálfkvíarnar utan við Leiðhamra. Þá kom bargvættur skyndilega til sögunnar, Sigurður Einarsson, ábúandi á svæðinu. Hann sagðist vel þekkja til staðarins. Hann væri skammt vinstra megin við yfirgefinn sumarbústað er verið væri að endurbyggja ofan við ströndina. Um væri að ræða klof eða klettaskorning, sem tré hefði verið látið yfir og staðurinn notaður sem aftökustaður – að því er heimildir herma.
Eftir þessa lýsingu var auðvelt að staðsetja Sjálfkvíar. Þær eru ómerktar líkt og önnur merkisörnefni á Kjalarnesi.
Heitið Sjálfkvíar er þekkt víðar á Suðvesturlandi, t.d. í Leirunni við Garð og Innri-Hólm við Akranes og þá ekki alltaf í sömu merkingu orðsins. “Svo virðist sem lífsviðurværi fólksins í Leirunni hafi að langmestu leyti verið sótt til sjávar, en fátt verið af skepnum. Sel frá bæjunum voru engin, enda kannski heiðarlandinu ekki fyrir að fara. Skepnuhaldið fór því nær eingöngu fram við bæina, fjöruna og næsta nágrenni.
Á Leirunni mátti hafa sauðfé með Innri-Hólmurnákvæmri aðgæslu fyrir sjó. Misstu bændur  oft fé sitt í sjóinn, því fyrir utan Hólm og innan Gufuskála er bás, sem Sjálfkvíar heita, er fé vildi oft flæða, en ómögulegt að bjarga, því þverhnýptir klettar eru fyrir ofan.” Hér eru Sjálfkvíar notaðar í merkingu “sjálfhelda”.
Innri-Hólmur var einnig nefndur Ásólfshólmur. Þar bjó fyrstur írskur maður, Þormóður Bersason. Hann byggði líklega kirkju á staðnum. Árið 1096, þegar tíundarlögin voru sett, var þar kirkja. Illugi rauði, sem bjó á Hofsstöðum í Hálsasveit, skipti á búi, fé og konu við bóndann að Innra-Hólmi. Þetta féll konu hans, Sigríði svo illa, að hún hengdi sig í hofinu. Konan, sem hann fékk í skiptum, entist ekki lengi og hann kvæntist Þurðíði, systur Harðar Grímkelssonar, sem varð góður vinur mágs síns framan af eða þar til Illuga fékk nóg af yfirgangi Harðar. Eitt sinn lenti Hörður við 23. mann í Sjálfkvíum í landi Illuga og smöluðu Akrafjallið. Illugi safnaði liði og barðist við Hólmverja á meðan þeir slátruðu fénu og fluttu á skip. Svo sagði a.m.k. í Harðar sögu og Hólmverja, 28. kafla.
Frábært veður. Gangan tók 10. mín.

Leiðhamrar

Kort af svæðinu frá 1903.

 

Esjuberg

Gengið var um land Esjubergs með það fyrir augum að skoða leifar hinnar fyrstu kirkju á Íslandi sem og að skoða tóftir korbýlanna Árvalla og grundar. Með í för verður m.a. Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur. Hann gróf í kirkjutóftina, er bent hafði verið á sem þá elstu hér á landi að talið var, árið 1981. Niðurstöðurnar reyndust áhugaverðar.
ÁrvellirÍ Jarðabókinni 1703 kemur fram að skriða hafi spillt jörðinni [Esjubergi] og auk þess að; “Skriður fordjarfa tún, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði… Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur góður. Afbýlismaður heima við bæinn þar sem kallast Litla Esjuberg.” Um Árvöllur segir m.a.: “Skriða fordjarfar so sem sagt er um heimajörðina”.
Bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir eru aldir upp að Esjubergi. Gísli sagðist aðspurður tóftir Árvallar vera ofan við Esjubergsbæinn, en leifar Grundar væru varla sýnilegar því bærinn hefði farið undir skriðu. Tóftin við Grundarána væri sennilega leifar réttar. Í þessari ferð átti sitthvað óvænt eftir að koma í ljós, ekki síst varðandi Grundarbæinn.
Árni sagði bæjartóftirnar ofan við Esjuberg standa í svonefndu Árvallartúni. Tóftirnar “beggja vegna Grundaáar” væru sennilega leifar Grundar. Áin hefði áður runnið til vesturst með fjallsrótunum, en í miklum skriðum um 1830 hefði hún breytt sér og Grund þá lagst í eyði.
Framangreind orð hans bentu til þess að finna mætti bæjarleifar norðan árinnar, en slíkar minjar höfðu ekki fundist í fyrri ferð um svæðið.

Kirkjutóftin

Fyrst að megintilgangi ferðarinnar; kirkjutóft við Esjuberg. Í opinberri “Skrá um friðlýstar fornleifar frá 1990” segir um kirkjuminjarnar að Esjubergi: “Esjuberg. I) Kirkjugrunnur forn, skamt austur frá bænum. Sbr. Árb. 1902: 33-35. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938. II).” Einnig er tiltekin í skránni  “Grjótdys, sem kölluð hefur verið Dyngja, við gamla reiðveginn, á mel 2 km austur frá bænum. Skjal undirritað af KE 28.07.1964. Þinglýst 04.08.1964.” [Þá dys segir SG hafa verið eyðilagða 1981, líkt og að framan greinir]. Gísli upplýsti í samtalinu að framangreind Dyngja hefði verið mokað í burtu á örskotsstund þegar byrjað var að nota malarnámusvæðið austan við Leiðhamra við norðanverðan Kollafjörð.
KirkjutóftinGuðmundur Ólafsson gróf í kirkjutóftina, eins og fram hefur komið. Þegar hann var spurður um niðurstöður rannsóknarinnar upplýsti hann eftirfarandi: “Ég byrjaði á smá rannsókn þarna árið 1981. Tilefnið var ósk um rannsókn frá kirkjunnar mönnum í tilefni af því að þá var kristniboðsár. Ég flaug líka yfir svæðið og tók myndir, bæði ljósmyndir og innfrarauðar myndir. Ekkert markvert kom fram á þeim. Rannsóknarsvæðið var í skriðum nokkru austan við bæinn, þar sem talið var að væru leifar kirkjunnar, sbr. lýsingu Brynjúlfs. Tekin voru snið þvert í gegnum garð, sem þarna er afmarkaður, sem og tóftina sjálfa.

Kirkjutóftin

Við rannsóknina kom í ljós að rústirnar voru mun yngri en frá landnámsöld, þannig að þetta gátu ekki verið leifar af Kirkju Örlygs. Steinhleðslurnar sem sagðar voru vera leifar kirkjunnar voru að öllum líkindum frá 16. eða 17. öld. Nokkru neðar voru mannvistarlög sem bentu til eldri byggðar, eða allt frá 11. – 12. öld, en það voru leifar sem bentu frekar til íveruhúsa en kirkju (móöskudreif og viðarkolaaska). Það var líka augljóst að skriður höfðu farið yfir allt þetta svæði og að það yrði afar erfitt að finna og grafa upp frekari minjar á þessu svæði. Þá var líka ljóst að rústin væri ekki leifar af  kirkju Örlygs og að hennar yrði að leita annars staðar. Rannsókn var því hætt.”
Guðmundur sagði að sennilegra væri að kirkjan hafi staðið nær bænum, sem væntanlega hafi verið á núverandi bæjarstæði. Þar hafi nú öllu verið raskað með byggingu nýrra íbúðar- og útihúsa. Líklegt má því telja að tilviljun ein muni ráða því hvort staðsetning kirkjunnar hinnar fyrstu muni einhvern tímann opinberast.
Af ummerkjum á vettvangi að dæma er ljóst að hver skriðan á eftir annarri hefur hlaupið yfir það úr Gljúfurdal. Eldri Tóftminjar eru og verða því grafnar undir þeim yngri. Líklegt er því að niðurstaða Guðmundar sé skynsamleg, auk þess sem hún er byggð á rannsóknum.
Hin fyrsta heimild um kirkjubygginguna er að finna í 
12. kafla Sturlubókar (afskrift Landnámu) segir m.a. um kirkju að Esjubergi á Kjalarnesi: Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga) Patreki byskupi í Suðureyjum. (Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.
ListaverkMeð Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.
Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi, hvar þeir fóru; þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti, áður þeir sáu land, og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar, sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur, en um vorið bjó Örlygur skip sitt; en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað.
Hann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður.
Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið nam Mannvirkihann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.”
Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902 er rakin frásögnin í 12. kafla Landnámu. Þá segir:
“Í túninu á Esjubergi, austur frá bænum er rúst, sem frá ómunatíð hefur verið kölluð kirkjutóft eða stundum bænhústóft. Og girðing sem, sem er áföst við hana, er kölluð kirkjugarður. Rústin snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm. löng og nær 3 fðm. breið. Hornin eru hér um bil rétt. Utantil er hleðsla, eigi mjög aflöguð; enda er hæðin aðeins tvö steinalög, eð sumstaðar þrjú, hvert ofan á öðru. Grjótið er hnöllungagrjót, en þó eigi mjög hnöttótt og sumt er með nokkrum köntum.  Að ofan er rústin ávöl af grjóti. Lítur út fyrir, að ofan á hana hafi verið kastað lausum steinum, annaðhvort sem fallið hafi úr henni sjálfri – hafi hún verið hærri, – eða sem skriðuhlaup hefði kastað þangað. Eigi haggaði eg við rústinni, er eg skoðaði hana í voru (1901). Var það bæði, að þá var annríkt hjá mönnum og verkamenn óhægt að fá, enda ilt að gjörða vegna rigninga. Þóttist eg sjá, að það mundi mikið verk, en ósýnt um árangur. Þó lét eg grafa með öllum vesturgaflinum, í þeirri von, að þar sæi merki dyra. En þeirra sást enginn vottur.

Grund

Undirstaðan sýndist óhögguð yfir um þvert og lá á skriðugrjóti – sem þar er alstaðar undir jarðvegi… eins og rústin kom mér fyrir sjónir, gat eg varla talið hana líklega til að vera hústóft. Hitt gæti verið, að hér hefði verið hærri bygging; hústóft, nfl. staðið ofan á því sem nú er eftir. Þó leizt mér svo á brúnir rústarinnar að þær mundu ójafnari en þær eru, ef ofan á þeim hefði verið hærri hleðsla, sem hefði fallið. Eg hefi síðan hugsað um þetta, og hefir nú komið í hug, að rústin muni vera upphækkun eða “grunnur” undan kirkjunni Örlygs, og hafi hún verið gjör af viði einum, – eins og t.a.m. skáli Gunnars á Hlíðarenda…
Girðingin, sem kölluð er kirkjugarður, er fyrir austan rústina; er austurgafl hennar áfastur suðvesturhorn girðingarinnar. Hún er 11 faðma breið frá austri til vesturs, og 12 fðm. löng frá norðri til suðurs. Sér glögt til hennar öllum megin; hefir þó skriða runnið fram á norðurvegg hennar. Framhald af honum gengur vestur á móts við kirkjutóftina og verður þar smá-girðing við norðurgafl tóftarinnar, 4 fðm. frá austri til vesturs og 6 fðm. frá norðri til suðurs, en gengur að sér vestantil…”.
Klettur Þegar gengið var um svæðið ofan og vestan Árvallar (bærinn hét Árvöllur) komu í ljós þau hinu ótrúlegustu skóflitbrigði er sérhver málameistari í líkingu við Kjarval gæti auðveldlega hænst að. Á einum stað, undir fjallsrótum Esju, mátti sjá stórt bjarg. Undir því var skúti. Við hann voru hleðslur. Gróið var umleikis. Hér var hið ágætasta skjól, t.d. fyrir Búa er segir af í Kjalnesingasögu (sjá HÉR). Staðsetning hellisins hefur ekki verið ákvarðaður af neinni nákvæmni.
Í lok ferðar var tal tekið af Erni Kærnested, staðarhaldara á Esjubergi. Framtíðarhugmyndin er að byggja þétta smáíbíðabyggð á svæðinu, þ.e. innan við 100 m2. Eins og stendur er óvissa um þá áætlan. Nóg af köldu vatni virðist vera á svæðinu, sbr. uppsprettuna góðu utan Árvalla og heimilir eru um heitt vatn í Grundardal skammt vestar. Ljóst er þó hér að Örn mun ekki flasa að neinu er stefnt getur minjum svæðisins í hættu.
Sjá meira um svæðið HÉR. 
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902.
-Landnáma – Sturlubók 12. kafli.

Grund

Ártún

Þegar ekið er um Vesturlandsveginn má sjá á Kjalarnesi tóftir bæjar austan við veginn stuttu áður en komið er að Hvalfjarðargöngunum. Þetta eru leifar bæjarins Ártúns.
Artun-22“Ártún á Kjalarnesi var talin lítil og kostarýr jörð. Hún var lengst af kirkjujörð frá Saurbæ, afbýli úr þeirri jörð og jafnframt ysti bær í Saurbæjarsókn. Jörðin fór í eyði á fardögum árið 1956 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt. Ártúns er getið í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar, en þá átti Saurbæjarkirkja þrjátíu hundruð í heimalandinu ásamt tveimur kotum „…enn thad eru ij kot. Artun og Hiardarnes. X. Aura Landskylld af huorre.“13 Árið 1695 er Ártún kirkjujörð í bændaeign með fjögur og hálft kúgildi, 90 álnir í landleigu og skattálagningu 15 hundruð. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1705 þá er Ártún kirkjujörð sem liggur til Saurbæjarkirkju, og þar til proprietarius, eða eiganda sem var hr. lögmaður Sigurður Björnsson og bjó í Saurbæ. Einn ábúandi, Þórarinn Hallsson, er þá í Ártúni og galt hann í landskuld níutíu álnir með landaurum í fríðu eða dauðu, fóðri eða öðru. Áður galst hún í fiski að hluta þegar fiskgengd var góð í Hvalfirði og galst heim til eiganda. Leigukúgildi jarðarinnar eru þrjú og hálft og átti kirkjan í Saurbæ þau, en kúgildin höfðu áður verið fimm. Kvikfénaður var fimm kýr, tvær kvígur veturgamlar, tveir kálfar, tólf ær með lömbum, ein geld, tíu sauðir veturgamlir og tveir hestar.

Artun-23

Jörðin hafði selstöðu og beit fría í Blikdal um sumar og vetur í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var talin bjargleg en reiðingsrista lítt nýtandi. Móskurð hafði jörðin eftir nauðsyn í Saurbæjarlandi. Hvorki var hvannatekja eða rótargröftur teljandi. Sölvafjöru og fjörugrös nýtti jörðin fyrir Saurbæjarlandi og þang til eldiviðar var talið nægilegt auk þess sem talin var nokkur rekavon fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending, vatnsból erfitt um vetur og búpeningi var flæðihætt. Í Jarðamati J. Johnsens frá 1847 var Ártún enn kirkjujörð og metin til fimmtán hundruða. Árið 1861 er Ártún metið á 15 forn hundruð og 8,7 ný hundruð. Í landamerkjabréfi frá 1890 fyrir Saurbæ, með Hjarðarneskoti og Ártúni, kemur fram að á Bleikdal eigi Ártún óskipta beit en slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk. Árið 1896 búa í Ártúni Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólafsdóttir og búa þar til ársins 1898, en eftir það og til ársins 1913 búa þar Þorkell Ásmundsson og Guðrún Jónsdóttir.

Artun 24

Frá 1914 til 1955 búa þar Gunnlaugur Sigurðsson og Guðrún Bjarnadóttir. Árið 1921 er heildarmat á Ártúni 31 hundrað. Árið 1932 er heildarverðmat 38 hundruð, bæjarhús úr torfi og grjóti og miðstöð sögð komin í bæinn. Túnið er 2,2 hektarar og girt í kring og bústofninn er þrjár kýr, fimmtíu kindur og þrjú hross. Árið 1942 er fasteignamat Ártúns 42 hundruð, bústofn er þrjár kýr, þrjátíu kindur og fjórir hestar, og jörðin í einkaeign en leigð til ábúðar.
Síðustu ábúendur í Ártúni voru þau Böðvar Eyjólfsson og Anna Margrét Sigurðardóttir sem bjuggu þar í eitt ár, frá 1955 til 1956, en fóstri Önnu, Ólafur Eyjólfsson í Saurbæ, var eigandi Ártúns. Vorið 1956 var Ártún selt Lárusi Lúðvíkssyni í Reykjavík sem fékkst við fiskeldi í ánni. Sjá má minjar um framkvæmdir hans á bökkum Ártúnsár, austur af Kringlumýri. Nú er mestur hluti jarðarinnar eign bændanna á Bakka. Í Fasteignabók frá 1956-70 er jörðin Ártún sögð auð en heildarmat er 15.500 krónur.

Artun-26

Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni eru vel greinanlegar á bæjarhólnum þar sem röð bæjarhúsa snýr fram á hlað í suðvestur með tveimur húsum að baki. Framan við bæinn sér enn í kálgarð með greinilegri garðhleðslu austanmegin. Heimatúnið er líka vel greinanlegt í muni á gróðurfari og hafa útlínur lítið breyst frá því sem sjá má á túnakorti frá 1916. Þó hefur Vesturlandsvegurinn verið lagður í gegnum túnið í tvígang og á spildu á milli gamla og nýja vegarins hefur nú verið plantað trjám. Töluvert er einnig af stríðsminjum á melunum fyrir norðan bæjarhólinn en á stríðsárunum var setuliðið með aðstöðu víðsvegar á Kjalarnesinu og var með aðstöðu öll stríðsárin í Dalsmynni sem er næsti bær við Ártún. Þar voru byggð braggahverfi sem og í landi Stekkjarkots og í Tíðarskarði.
Kristrún Ósk Kalmansdóttir er fædd 23. mars í Ártúni. Þar ólst hún upp hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur en móðir hennar var uppeldisdóttir þeirra hjóna. Gunnlaugur, Guðrún og Kristrún voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum á bæjarhólnum í Ártúni. Leitað var til Kristrúnar um upplýsingar varðandi Ártún og greindi hún frá ýmsu sem varðaði búskap í Ártúni í hennar tíð og til hvers húsakynni voru síðast notuð.
Artun-27Bærinn samanstóð af nokkrum samhliða húsum á bæjarhólnum. Að sögn Kristrúnar var skemma vestast í bæjarröðinni, þá baðstofa, bæjargöng og búr. Austast voru fjós og hænsnahús. Í bæinn var aldrei leitt vatn, rafmagn eða sími en sími var á næsta bæ, Dalsmynni, ef á þurfti að halda. Í skemmunni voru geymd matvæli og reiðtygi. Baðstofan var tveggja stafgólfa og voru tvö rúm hvorumegin, en þriðja stafgólfið í húsinu var inngangur og eldhús. Á þaki baðstofunnar var að sögn Kristrúnar bárujárn sem tyrft var yfir. Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hitaði húsið og eldað var á. Í Fasteignabók frá 1932 kemur fram að miðstöð sé komin í bæinn og er þá trúlega átt við kolaeldavélina. Kristrún sagði að áður en kolaeldavélin kom til hefði verið notað hlóðaeldhús sem var bakatil inn af bæjargöngum, eins og sjá má á túnakorti frá 1916, en lítil ummerki eru eftir hlóðaeldhúsið nema inngangurinn. Um 1940 var hlóðaeldhúsið fyllt upp og jafnað út til að bæta aðgengi heyvagna að hlöðunni.

Artun-30

Kristrún minnist þess ekki að eldaður hafi verið matur í hlóðaeldhúsinu en man að þar var stöku sinnum soðinn þvottur í stórum potti sem einnig var notaður til að þvo í ull niður við á. Næst komu bæjargöng en úr þeim var einnig gengið inní búrið sem var til vinstri handar. Þar var geymdur matur í trétunnum, korn og fleira. Þar var einnig geymdur vatnsforði en allt vatn þurfti að sækja niður í á. Næsta hús var sex bása fjós og austast var svo hænsnahús sem hafði áður verið notað sem lambhús. Á milli fjóssins og hænsnahússins var settur niður kamar í tíð Kristrúnar. Bakatil austan megin á bæjarhólnum var niðurgrafin hlaða og vestan megin að baki skemmunni var hesthús. Tóftir þessara húsa eru nú grasigrónar og vel greinanlegar. Efst og norðaustan í heimatúninu er fjárhústóft með hlöðnum grjótgarði eftir miðju og sagði Kristrún að húsið hefði tekið fimmtíu kindur. Á túnakort frá 1916 er teiknað hús við traðirnar nyrst í heimatúninu sem ekki sér til í dag og hefur tóft þess sennilega farið undir núverandi Vesturlandsveg.

Artun-29

Að sögn Kristrúnar var það lítið hesthús sem tók fjóra hesta og var það helst notað til að hýsa hesta ferðalanga. Traðirnar austur af bænum sem liggja niður að Ártúnsá sagði Kristrún að hefðu í hennar tíð eingöngu verið notaðar til að sækja vatn í ána. Aðkoma að bænum hefði verið norðvestan megin, hlaðvarpi við skemmuna og traðir sem lágu í norður framhjá litla hesthúsinu. Við traðirnar sagði hún að hefði verið lítill hóll sem kallaður var Traðarhóll og sumir notuðu til að komast á bak. Þessi slóði lagðist af þegar Vesturlandsvegurinn kom og myndaðist þá nýr slóði.
Í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar var Ártún mikið notað sem kvikmyndaver eða eins og segir í grein í Morgunblaðsins frá 1970: „Þetta var einskonar Hollywood Íslands um tíma og má muna fífil sinn fegri.“ Kvikmyndin Milli fjalls og fjöru er fyrsta íslenska kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd og jafnframt fyrsta íslenska talmyndin.

Artun-31

Loftur Guðmundsson gerði myndina árið 1949 og frumsýndi það sama ár. Myndin er trúlega elsta myndin sem er kvikmynduð í Ártúni en bærinn í myndinni er Ártún. Bærinn kom einnig við sögu í tökum á kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1950. Þá bjuggu Bakkabræður í Ártúni í kvikmyndinni Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra en það var gamanmynd eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1951. Ártún kom einnig lítillega við sögu í kvikmyndinni Sölku Völku sem Edda-film gerði og frumsýnd var árið 1954. Kvikmyndin Gilitrutt var frumsýnd árið 1957 en í myndinni eldar tröllskessan Gilitrutt matinn í Ártúni.
Skýringu á því hvers vegna Ártún kom svo mikið við sögu við upptöku á kvikmyndum um miðja síðustu öld má kannski finna í því að Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað í Ártúni árið 1945 eða 1946.

Artun-32

Loftur var fæddur í Hvammsvík í Kjós árið 1892 og þekkti vel til á Kjalarnesinu. Sumarbústaðinn reisti Loftur rétt fyrir ofan heimatúnið og klettinn Hæring þar sem bústaðurinn stóð til ársins 1955 en Loftur lést árið 1952. Þegar hjónin Anna Margrét Sigurðardóttir og Böðvar Eyjólfsson fengu jörðina til ábúðar árið 1955, fluttu þau bústaðinn niður fyrir bæinn og bjuggu þar í honum í eitt ár. Bústaðinn seldu þau seinna í Bergvík á Kjalarnesi.
Blikdalurinn er nú allur í eigu Reykjavíkurborgar en skiptist áður á milli kirkjujarðanna í Saurbæ og Brautarholts. Blikdalur skiptist eftir ánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en
Brautarholt að sunnanverðu. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um.”

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Reykjavík 2010 – Minjasafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún – túnakort frá 1916.

Blikdalur

Haldið var í Saurbæjarsel í Blikdal (Bleikdal) á Kjalarnesi.
Með í för var Þorvaldur Bragason og Matthias-2fjölskylda (eiginkona og sonur). Tilgangurinn var að skoða selið, sem svo eftirminnilega kom við sögu í aðdrætti forföður Þorvaldar, Matthíasar Jockumssonar, skálds, og Guðrúnar Runólfsdóttur, dóttir bóndans í Saurbæ, á síðari hluta 19. aldar. Í framhaldi af heimsókn Matthíasar upp í selstöðuna í miðjum fjallasalnum norðanverðum eignaðist Guðrún dóttur. Guðrún varð síðar eiginkona Matthíasar. Eða eins og Guðbergur Bergsson, skáld, gæti síðar hafa sagt: “Þegar aðdrættir eru góðir verða þeir hvergi betri en í Blikdal”.
Dagurinn var 18. nóvember 2011, en dánardagur Matthíasar var einmitt þann 18. nóvember árið 1920 (fyrir 91 ári). Hann fæddist 11. nóvember 1835 og var því 85 ára þegar hann lést (og viku betur).
Matthías orti m.a. ljóð (daladrósin) til selsmatsseljunnar í Blikdal:

“Hátt í dalnum,
sólarsalnum
situr stillt og þýð,
snotur, hýr og hnellin,
há og grönn og smellin
dala-drósin blíð.”

Þegar komið var upp í Blikdalinn þennan fagra lognumstillta nóvembersdag virtist í loftinu liggja hátíðlegt boð um minningu Matthíasar – slíkt var lognið og kyrrðin.
Matthías Jochumsson (11. nóvember 1835 – 18. nóvember 1920) fæddist á Skógum sem stóð um Gudrun Runolfsdottir100 metra frá sjó í austurhlíðum Þorskafjarðar undir Vaðalfjöllum. Átti hann heima á Skógum til 11 ára aldurs hjá foreldrum sínum. Matthías stundaði síðan ýmis störf, aðallega sjómennsku og sveitavinnu, en einnig verslunarstörf í Flatey. Matthías aðhylltist únítarisma.
Í Latínuskólann fór hann 24 ára gamall. Eftir Matthías liggja mörg ritverk og kvæði, t.d. leikritið “Skugga-Sveinn” og hann samdi ljóðið “Lofsöngur” sem síðar var notað sem þjóðsöngur Íslands. Hann var ritstjóri Þjóðólfs um tíma og síðari hluta ævi sinnar bjó hann í Sigurhæðum á Akureyri, en húsið reisti hann sjálfur. Áður var hann prestur í Odda á Rangárvöllum og um tíma bjó hann í Móum á Kjalarnesi þar sem Blikdalsævintýrið framangreinda gerðist eitt fagurt miðsumarssíðdegi þegar selfarir tíðkuðust enn (þær lögðust af um 1870 og þar með lauk þeim þúsund ára söguþætti þjóðarinnar).
Saga séra Matthíasar Jochumssonar byggir á sjálfsæfisögu hans og útgefnum bréfum.
Matthías Jochumsson var lykilpersóna í trúar- og menningarlífi Íslands á árunum 1874-1920, sem ritstjóri, mikilvirkur greinahöfundur, þjóðskáld, afkastamikill þýðandi heimsbókmennta, leikritahöfundur og síðast en ekki síst ,,huggari” þjóðar sem enn bjó við skelfileg kjör, á öld efahyggju í trúmálum sem leysti upp aldagamla heimsmynd. Hann orti marga bestu sálma þjóðarinnar og ógrynni minningarljóða og erfiljóða. Hann vann ötullega að því í sálmum sínum, fyrirlestrum, greinaskrifum og bak við tjöldin að koma á framfæri nýjum trúarhugmyndum sem samræmdust tíma biblíurannsókna. Matthías var úthrópaður fyrir guðlast en lifði það 85 ára gamall að verða sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í guðfræði við Háskóla Íslands, svo mikið höfðu tímarnir breyst frá því hann hóf baráttu sína fyrir siðbót kirkjunnar. Hann var frumkvöðull í því að ráðast gegn bókstafstrú og gömlum trúarkreddum og draga þannig úr spennunni milli vísinda og trúar. Hann vann mikilvægt verk í því að gera íslenska kristni víða og umburðarlynda og færa hana í nútímabúning, og átti mikinn þátt í því að miklu stærri hluti fólks telur sig nú trúaðan eða er sáttur við trúarhefðina hér á landi en í nágrannalöndunum.

Matthias og Gudrun

Saga hans mun hjálpa þjóðinni að endurmeta trúararf sinn og jafnvel örva ,,heilastöð trúarinnar” sem samkvæmt nýlegum fréttum hefur nú verið kortlögð á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum.
Þótt Matthías hefði lítið gert annað en að semja þjóðsöng Íslendinga og vinsælasta leikrit allra tíma hér á landi (Útilegumennina) nægði það eitt til þess að gefa ævisögu hans gildi, en eftir hann liggur gífurlegt magn texta, í þýðingum, kvæðum, blaðagreinum, sjálfsæfisögu, ferðasögu, bréfasöfnum, leikritum og sálmum. Á þjóðhátíðinni 1874 varð Matthías Jochumsson stjarna, var fenginn til að yrkja minni konungs og “Lofsöngur” hans sem varð, sem fyrr sagði, þjóðsöngur Íslendinga 1918 var þá frumfluttur við hátíðamessu í dómkirkjunni.
Matthíasi var fyrirgefið áhugaleysi á stjórnmálum þjóðfrelsis á ritstjórnarárunum 1874-1880, því að hann var svo mikilvægur liðsmaður í hinum ,,trúar” þáttum sjálfstæðisbaráttunnar: trúnni á tunguna, skáldskapinn, söguna og guð. Mæddur af lestri heimspekirita sem boðuðu algjöra efnishyggju orti hann eins og kraftaskáld í sig og aðra þá trú að guð væri þrátt fyrir allt einhvernveginn til. Það væri galdur í lífinu og trúarleg skynjun, hrein efnishyggja væri bæði dapurleg og óholl Saurbaejarsel-23og jafnvel óskynsamleg.
Séra Matthías var sonur hjónanna þar, Jochums bónda Magnússonar og Þóru Einarsdóttur, sem bæði voru komin af merkum breiðfirzkum ættum. Þau voru andlegt atgervisfólk hvort á sína vísu, en bjuggu lengstum við þröngan kost, þar sem ómegð var ærin og harðindi tíð, en margförult um Skóga og mikil gestrisni.
Matthías var hinn þriðji að aldri bræðranna þar á bænum og ólst upp með foreldrum sínum fyrsta áratug ævinnar, en fór þá í vistir, fyrst í nágrenninu, en síðan til séra Guðmundar móðurbróður síns, sem um þær mundir fluttist að Kvennabrekku í Dölum. Þar dvaldi hann fram yfir fermingu, en ekki prísaði hann sig með öllu sælan undir handarjaðri frænda síns, því enda þótt hann kynni vel að meta mannkosti hans, var klerkur kappsmaður um búsýslu, að hann hélt drengnum meir til vinnu en náms. Sextán ára gamall hvarf svo Matthías vestur í Flatey, þar sem hann hóf störf við verzlun föðurfrænda síns, Sigurðar Jónssonar, en hann var tengdasonur Brynjólfs Bogasonar, sem þá var einn ástsælasti höfðingi þar vestra. Skipti nú heldur en ekki um hagi, því hér var hann kominn sem í ný foreldrahús, auk þess sem hann naut góðvildar og fyrirgreiðslu þess ágæta menntafólks sem búsett var þar í eynni. Kom loks þar, að það styrkti hann til utanfarar, þegar hann var ári betur en tvítugur og dvaldi hann þá vetrarlangt í Kaupmannahöfn. Á þessum árum hafði honum vaxið svo andlegt ásmegin, að næsta haust bauðst Brynjólfur kaupmaður til að kosta hann í skóla – og það raunar ekki síst fyrir tilstilli Þuríðar Kúld, sem fljótt hafði séð hvað í pilti bjó og studdi hann til frama sem hún mátti.

Saurbaejarsel-24

Stundaði hann nú undirbúningsnám hjá séra Eiríki, manni Þuríðar, næstu tvo vetur, en verzlunarstörf eða sjómennsku á sumrin. Síðan settist hann í þriðja bekk latínuskólans haustið 1859 – þá orðinn 24 ára gamall.
Snemma hafði borið á skáldskaparhneigð hjá Matthíasi, en nú tvíefldist hún er í skólann var komið og gerðist hann þar brátt mestur hagsmiður bragar og kvað ótrauður fyrir minnum.
Sumarið 1861 ferðaðist hann með kvekurum vítt um byggðir og öræfi landsins og mun sú reynsla hafa orðið kveikjan að Útilegumönnunum, sjónleiknum um Skugga-Svein, sem sýndur var í skólanum veturinn eftir og varð honum síðar einna drýgstur til vinsælda og þjóðfrægðar um langa hríð.

Saurbaejarsel-245

Stúdentsprófi lauk Matthías á sínu þrítugasta aldursári, sat þar næst tvo vetur í prestaskólanum og vígðist síðan til Kjalarnessþinga á hvítasunnudag 1867. Settist hann að í Móum ásamt konu sinni, Elínu Sigríði Knudsen, sem hann hafði kvongast árið áður. Hún hafði aldrei orðið fullheil eftir höfuðmein, sem hún tók á unga aldri, enda lézt hún á jólum eftir aðeins tveggja ára sambúð þeirra hjóna.
Tveim árum síðar kvæntist séra Matthías að nýju og nú Ingveldi, dóttur Ólafs E. Johnsens prófasts á Stað á Reykjanesi, en hann var náfrændi Jóns forseta og náinn heimilisvinur þess Skógafólks. Það hjónaband entist enn skemur, því Saurbaejarsel-246þessa konu missti hann úr lungnabólgu eftir tæpt ár.
Eftir þessi miklu áföll undi hann eigi fyrir harms sakir þar heima í Móum, heldur byggði jörðina og fékk leyfi til að hverfa frá brauðinu um sinn. Hélt hann síðan utan, fyrst til Englands, en þar næst til Danmerkur og Noregs, og var nær árlangt í þeirri för.
Ekki hafði honum þó auðnazt það jafnvægi að hann mætti staðnæmast til lengdar á Kjalarnesi og sagði hann lausu brauðinu árið eftir og lét enn í haf til Englands. Dvaldi hann þar að mestu þann vetur. Eins og nærri má geta urðu þessar utanfarir slíkum manni sem séra Matthíasi í senn reynslubrunnur og harmabót. Hann eignaðist vini hvar sem hann fór og kynntist ýmsum helztu frumkvöðlun mennta og lista í gistilöndum sínum, sem og ýmsum stofnunum og stefnum samtíðarinnar úti í hinum stóra heimi.

Saurbaejarsel-247

Séra Matthías kom heim úr þessari þriðju utanför sinni þjóðhátíðarsumarið 1874 og varð þá eitt af fyrstu verkum hans að yrkja sjö minni í tilefni af hátíðinni – ,,og flest sama daginn” eins og hann segir sjálfur í minningum sínum.
Árið eftir kvæntist hann í þriðja sinn. Hét sú kona Guðrún Runólfsdóttir og var frá Saurbæ á Kjalarnesi, en bróðir hennar var giftur systur séra Matthíasar. Lifði Guðrún mann sinn og eignaðist með honum ellefu börn.
Það hafði orðið að ráði með tilstyrk vina séra Matthíasar erlendis að hann festi kaup á blaðinu Þjóðólfi og gerðist ritstjóri þess. Settist hann nú að í Reykjavík og varð blaðamennskan aðalstarf hans þar næstu sjö árin, en auk þess fékkst hann nokkuð við tímakennslu og sitthvað fleira, þar til hann seldi blaðið og gerðist prestur að Odda á Rangárvöllum. Bjó hann þar við allmikla rausn um sex ára skeið.
En er harðæri kreppti mjög að þar eystra, tók að hvarfla að honum að skipta um set og að ráði landshöfðingja sótti hann um Akureyrarbrauð og fékk það. Kostaði sá tilflutningur ærna örðugleika og einnig urðu fyrstu ár hans Saurbaejarsel-248þar nyrðra með ýmsum hætti heldur óyndisleg. En smám saman rættist úr um hag hans og frægðarorð og um aldamótin sagði hann lausu kallinu, en naut eftir það skáldalauna frá Alþingi.
Hann bjó þó áfram á Akureyri til æviloka og fór svo, að á efri árum sínum hlotnaðist honum óskoruð ástsæld bæjarbúa, sem og þjóðarinnar allrar, er nú taldi hann nær einróma höfuðskáld sitt og andlegan höfðingja. Kom þetta meðal annars ljóslega fram á 75 og 80 ára afmælum hans, er honum voru haldin samsæti og auðsýnd margvísleg önnur sæmd.
Auðvelt var þennan frábæra nóvemberdag árið 2011 að feta selstíginn frá Saurbæ að selstöðunni góðu í miðjum Blikdalnum. Þegar þangað var komið mátti glögglega sjá seltóftirnar er Guðrún hafði hafst við fyrrum. Aftan þeirra mátti “lesa” skálatóft (sjá uppdrátt) af enn eldri selstöðu. Tóftin stendur nokkuð hátt svo ætla má að undir henni kúri nokkrar eldri seljakynslóðir fornra minja, jafnvel allt frá landnámstíð. Tóft, sem gefur vísbendingu um kúafjós frá fyrstu tíð er ofan selstöðunnar. Hún er a.m.k. góður leiðarvísir þessa efnis. Ljóst virðist vera að fyrstu selin í þúsund ára sögu þeirra hafi verið kúasel með tilheyrandi beitargæðum og aðgengi að vatni. Með breyttum búskaparháttum; heimaræktun túna og slægjum, færðist kúabúskapurinn heim að bæjunum. Fjárselin tóku við hlutverki kúaseljanna. Sú þróun varði í u.þ.b. 800 ár – með tilheyrandi breytingum. Staðsetning seljanna frá einum tíma til annars er ekki síst áhugavert viðfangsefni… 

Heimildir m.a.:
-Þessi grein er eftir Jóhannes úr Kötlum og birtist sem formáli í kvæðakverinu “Gullregn” – úr ljóðum Matthíasar Jochumssonar.

Blikdalsselin

Selin í Blikdal (samþjöppuð í réttri röð) – uppdráttur ÓSÁ.

Saurbær

Höfuðbólin og kirkjujarðirnar Saurbær og Brautarholt deildu með sér Blikdalnum. Selsminjarnar þar bera þess glögg merki. Nú var ætlunin að ganga lönd bólanna, allt frá Saurbæ í norðri að Brautarholti í suðri. SaurbæjarkirkjaMillum mátti m.a. sjá tóftir Bjargs, Melavalla, Bakka Bakkaholts, Brekku, Mýrarholts og Bala. Andriðsey er þarna skammt undan landi.
Tilgangurinn með ferðinni var ekki síst að berja augum jarðmyndanir á utanverðu Kjalarnesinu, en þar eru óvíða gleggri en einmitt á fyrrgreindu svæði. Mannabein hafa komið undan sjógangi á gamla kirkjugarðinn að Saurbæ svo sjá mátti nokkur slík á leiðinni. 

Saurbæjarkirkja á Kjalarnesi, sem nú er nokkuð farin að láta á sjá, er í Reynivallaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Saurbær er ævaforn kirkjustaður og löngum höfðingjasetur. Saurbæjarkirkja er steinkirkja vígð á jóladag 1904. Rúmlega tveimur árum áður hafði timburkirkjan sem stóð á sama stað fokið í ofsaveðri.
Sú kirkja var byggð af Eyjólfi Þorvarðarsyni sem reisti fleiri Brautarholtskirkjakirkjur, m.a. í Brautarholti og á Þingvöllum.
Hún er lítil (8 x 6 m) en snotur; setloft er yfir framkirkju. Hún var bændakirkja til 1950 þegar söfnuðurinn tók við henni. Kirkjan á merka gripi, sem flestir komu til hennar í tíð Sigurðar sýslumanns Björnssonar, sem bjó í Saurbæ 1687-1723. Í katólskum sið var þar kirkja helguð Jóhannesi skírara.
Hin Kjalarneskirkjan,
Brautarholtskirkja, er einnig í Reynivallaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún má teljast afkomandi fyrstu kirkju á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu og víðar. Kirkjur hafa verið í Brautarholti frá fornu fari. Kirkjan, sem þar er nú, var reist árið af Eyjólfi Þorvarðarsyni frá Bakka á Kjalarnesi 1857 og er henni lýst í fyrstu prófastsvísitasíu árið eftir sem vönduðu og snotru húsi. 

Bein

Litlar breytingar hafa orðið á henni síðan. Áratug eftir vígslu kirkjunnar kom þjóðskáldið síra Matthías Jochumsson til þjónustu í kirkjunni (1867-73). Kirkjan er að innanmáli 18,15 m 5,65 m á breidd; á hvorri hlið er tveir jafnstórir gluggar, upphaflega með sex rúðum hvor en auk þes lítill tveggjarúðu gluggi yfir prédikunarstóli og var hann frá upphafi. Þessi kirkja var einnig upphaflega byggð með turni. Yfir kirkjudyrum er fjögurra rúðu gluggi. Á sönglofti voru upphaflega tveir langbekkir en langt er síðan loftinu var lokað og orgelið flutt niður. Prédikunarstóllinn er frá 17. öld. Rúðuþil var og er í kór. Kórgrindur milli sönghúss og framkirkju hafa hins vegar verið teknar niður fyrir löngu. Enn sem fyrr eru tvær klukkur í turni, hin stærri frá 1740. Skírnarsár er sérkennilegur, ítalskur að gerð, úr marmara, tvíhólfa.

Berggangur

Þegar kirkjan var byggð var hins vegar í henni skírnarfat úr tini og komið til ára sinna. Ekki er vitað, hver örlög þess urðu. Altaristaflan sýnir Jesúm á bæn í Getsemane, kom í kirkjuna árið 1868.Klukkur eru tvær í turni. Önnur frá 1740, hæð 23 cm en þvermál 34. Hin er án áletrunar og mun minni: hæð 17 cm en þvermál 22,5. Árið 1958 fór fram gagnger viðgerð á kirkjunni, en 1967 var gerð breyting á henni að innan með því að innstu bekkir báðum megin voru teknir brott og gangur milli bekkja breikkaður. Haustið 1987 hófust gagngerar viðgerðir á kirkjunni, var þá m.a. grafið undan henni og steyptar nýjar undirstöður svo og sökklar. Þá var kirkjan klædd að nýju yst sem innst. Gunnar Bjarnason húsasmíðameistari sá um smíðina en Hörður Ágústsson hafði umsjón með verkinu.

Fjaran

Brautarholti frá fornu fari. Kirkjan,sem þar er nú, var reist árið af Eyjólfi Þorvarðarsyni frá Bakka á Kjalarnesi 1857 og er henni lýst í fyrstu prófastsvísitasíu árið eftir sem vönduðu og snotru húsi. Litlar breytingar hafa orðið á henni síðan. Áratug eftir vígslu kirkjunnar kom þjóðskáldið síra Matthías dlmvsson til þjónustu í kirkjunni
Jarðfræði Kjalarness er áhugavert efni og ástæða til að kynna sér hana enn frekar. Jarðfræðin; landmótunin og veðrunin, kemur einkar glögglega í ljós þegar gengið er um fjöruna milli Saurbæjar og Brautarholts. Víða má sjá setlög, ýmsar bergtegundir, bergganga, innskot, kristalla, holufyllingar og hnyðlinga.
Kjalarnes er útkulnuð eldstöð. Esjan er aðallega úr eldri grágrýtis móbergi (síð tertíer) frá ísöld. Jarðgrunnurinn í Grundarhverfi og þar í kring er frá ísaldarlokum og yngri, og þar er vatnaset.

Tóft

Brimnes er úr grágrúti frá ísöld, yngra en 0,7 milljón ára. Á Kjalarnesi er líka basískt innskotsberg og má finna þetta berg á Músarnesi, Mógilsá og við Esjuberg. Við Esjuna í Kollafirðinum má líka finna berghlaup.
Esjan hefur myndast á einni milljón ára. Í henni eru 3 megineldstöðvar og í henni má greina 10 jökulskeið. Í fjallinu skiptast á hraun- og móbergslög og hafa efstu lögin samsvörun í yfirborðslögum á höfuðborgarsvæðinu. Ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði eru vel sýnileg í fjallinu og upp á Esju eru til margar skemmtilegar gönguleiðir. Gönguleiðir með ströndinni eru ekki síður áhugaverðar.
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaganum; Kjalarnes- og Stardalseldstöðina, hefur rekið út af gosbeltinu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Ströndin skammt frá Brautarholti

Hof

“Hof er landnámsjörð.
Í Landnámu segir að Helgi bjóla hafi farið til Íslands af Suðureyjum og var Hof-1hann með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam með ráði Ingólfs “…Kjalarnes allt millim Mógilsár og Mýdalsár [Miðdalsár]; hann bjó at Hofi.” (Í.F., [Landnámabók], I.bindi 1, s. 50 og 51).  Síðar gaf hann Örlygi frænda sínum Hrappssyni hluta úr landnámi sínu, eystri hlutann allt út að Ósvífslæk, og bjó hann að Esjubergi. (Í.F. I.bindi 1, s. 54 og 55). Kjalnesingasaga gerir landnám Helga mun stærra og segir hann hafa numið Kjalarnes “millum Leiruvágs ok Botnsár… .” (Í.F.[ Kjalnesingasaga], XIV.bindi, s. 3). Síðar tók Þorgrímur Helgason bjólu við föðurleifð sinni og lét samkvæmt sögunni reisa stórt Hof í túninu “…hundrað fóta langt, en sextugt á breidd…” (Í.F., XIV. Bindi, s. 6-8). Eftir lát Þorgríms tók Helgi bróðursonur hans við búi. Á dögum Árna biskups Þorlákssonar (biskup 1269-1298) bjó á Hofi Nikulás Pétursson. (Í.F., XIV. bindi, s. 40-41 og 43).
Kirkju er getið á Hofi í kirknaskrá Hof-2árið 1200. (D.I., XII.bindi, s. 9). Kirkjan á Hofi var helguð heilögum Andrési í ilchinsmáldaga 1397 og átti hún fjórar kýr auk góðra muna. (D.I., IV.bindi, s. 114). Guðrún Sæmundsdóttir, frændkona Vigfúsar hirðstjóra Ívarssonar erfði Hof í plágunni miklu, en Vigfús hélt jörðina leigulaust og er þessara mála getið í bréfi 1436. (D.I., IV.bindi, s. 561). Árið 1501 gerðu þeir Þorvarður lögmaður Erlendsson og Grímur Pálsson jarðaskiptasamning og lét Grímur meðal annars Hof fyrir sextíu hundruð. (D.I., VII.bindi, s. 583).  Þorvarður lögmaður taldi fram Hof til sextíu hundraða í kaupmálabréfi hans og Kristínar Gottskálksdóttur. (D.I., VIII.bindi, s. 230). 1523 fékk Erlendur Þorvarðsson Hof, Ögmundi biskupi til fullrar eignar í reikningsskap nokkurra kirkna. (D.I., IX.bindi, s. 158-159). 1526 fékk Ögmundur biskup Halldóri Magnússyni Hof til fullrar eignar gegn Barkarstöðum í Svartárdal, en í staðinn skyldi Halldór vera maður biskups og til styrktar kirkjunni. (D.I., IX.bindi, s. 391-392). Kirkju er getið á Hofi í Gíslamáldaga frá 1570 og síðar. (D.I., XV.bindi, s. 549).
Hof-5Í Jarðabók Árna og Páls er þess getið að menn segi að á Hofi hafi verið til forna hálfkirkja eða bænhús en ekki hafði verið framin þjónustugjörð þar í manna minnum. Minjar hafi þó verið þar á staðnum til skamms tíma sem skjóti stoðum undir þessa sögn hreppsbúa. Hof var metin á 60 hundruð. Heimajörðin var í eigu fjögurra einstaklinga alls 33 hundruð og reiknuðust þar í hjáleigurnar Grófartún og Prestshús. Þrjú afbýli voru að auki. Jörfi var metinn á 8 hundruð, annað var Krókur á tíu hundruð og hið þriðja var Lykkja en ekki er þess getið hver dýrleiki þess var. Þó má reikna það út að hann hafi verið níu hundruð. Sjá annars um þessi þrjú síðsut afbýli hér síðar.

Hof-21

Jarðatal Johnsens metur jörðina á 60 hundruð en getur þess neðanmáls að sýslumaður telji dýrleika Hofs 27 hundruð, Jörfa 7 hundruð, Krók 10 hundruð og Lykkju 10 hundruð. Einn ábúandi var á parti þeirra bræðra Magnúsar og Vigfúsar og var landskuld hans eitt hundrað og tíu álnir sem greiddust í fiski ef til var í kaupstað eða með peningum uppá fiskatal, eða hestum og skyldi greiðast á Alþingi eigendunum í hönd eða þeirra umboðsmönnum. Alls fylgdu þessum hluta fimm og hálft kúgildi, ábúandi bræðranna leigði þrjú en hin fylgdu hjáleigunum. Á þessum hluta jarðarinnar gátu fóðrast fjórar kýr, tíu lömb, og einn hestur. Annar ábúandi Sveinn Þórðarson var á átta hundraða hluta auk tveggja hundraða hluta þess eiganda sem minnst átti. Landskuld af átta hundruðunum voru fimmtíu álnir en af tveimur hundruðunum tuttugu álnir og greiddist í landaurum upp á landsvísu. Kúgildi með átta hundruðum Hallfríðar voru tvö og guldust leigur af þeim í smjöri eða fríðu heim til  eigandans. Á þessum parti bar jörðin að fóðra fjórar kýr og sex lömb.
Um alla jörðina Hof tiltekur Jarðabókin fjölmörg atriði. Héðan, sem svo víða annars staðar í hreppnum voru geldneyti og hestar reknir til beitar upp í Hvannavelli á Mosfellsheiði. Þó er tekið fram að vegna fátæktar eigi menn ekki slíkan búpening og því sé ekkert rekið þangað upp. Jörðin á torfristu og stungu til gagns en tekið fram að hún sé mjög örðug frá heimabænum. Mótak til eldiviðar átti jörðin bjarlegt en þó var tekjan nokkuð erfið yfir foröðum ef mórinn væri tekinn þar sem best hentaði jörðinni.

Hof-22

Jarðabókarritarar telja að selveiði mætti stunda frá jörðinni til nokkurs gagns en það var ekki verið gert. Rekavon var talin lítil á jörðinni, einnig sölvafjara og skelfisksfjara ekki nema til beitu. Litlu betri var hrognkelsafjara talin. Frá jörðinni var heimræði árið um kring og gengu skip ábúenda eftir hentugleikum. Á jörðinni hafði margt aðkomusjófólk verið um vertíð og fram á sumar þar fiskur gekk, en fiskveiðar virðist á þessum tíma vera hrundar. Nefnt er að aldri hafi verið verbúðir í landi jarðarinnar heldur hafi sjómenn þegar þeir voru haft herbergi, þjónustur og soðningu hjá bændum og hjáleigumönnum. Vertíð á jörðinni mun hafa hafist, sem á Suðurnesjum, um Kyndilmessu og endað vanalega á Hallvarðarmessu. Fengur skiptist jafn, skiphlutur var einn af tveggjamannafari árið um kring og engin skipaleiga. Af fjögurra manna fari voru tveir skiphlutir um vertíð og engin skipleiga, utan vertíðar einn skiphlutur og engin skipleiga. Langræði var mikið ef ekki gekk fiskur inn á firði. Hof átti hálfa Andríðsey til móts við Brautarholt. Þar átti jörðin slægjur og eggver sem var, þegar þetta var ritað, mjög gagnlítið en hafði áður verið betra.

Kross-32

Jarðabókin getur þess að ekki sé að telja dúntekju á eyjunni en í dag er þar stærsta æðarvarp á Suðurlandi. Sölvafjara var þó þar talin gagnvænleg og nokkur rekavon. Stórviðri spilltu túnum jarðarinnar að mati skrásetjara, engar engjar lágu til jarðarinnar nema í Andríðsey. Landþrengsli voru á þrjá vegu en á hinn fjórða lá meginland jarðarinnar og mætti miklum ágangi kvikfjár jarðanna í kring sem voru landþröngar. Sjór braut af túni hjáleigunnar Presthúsa og engja í eyjunni. Sauðfé var mjög flæðihætt bæði vor og vetur. Túnið að neðanverðu lá undir skemmdum af sandfoki, húsum og heyjum var hætt vegna stórviðra og hafði af því marg oft skaði orðið. Menn töldu að Hof hafi haft í seljum í Blikdal þar sem heita Hofssel gömlu en ekki vissu menn hvort þar hefði verið haft frítt eða nokkuð greitt til Brautarholts. Í landi Hofs var lending hin besta og brást aldrei. (Jarðabók, III.bindi, s. 357-360).”
Í örnefnalýsingu fyrir Hof segir m.a.: “Hofstangi skilur Jörfavík og Hofsvík. Hofið gæti verið komið undir sjó og hefði þá staðið neðan við húsið, sem nú er.” Brynjúlfur Jónsson skrifar: “Að Hofi á Kjalarnesi er sýnd hoftóft; skoðaði eg hana í vor (1890?). Hún er í túninu suðaustur frá bæjarhlaðinu hjá tröðinni. Mjög er hún niðursokkin; sér þó fyrir veggjum, nema vesturhliðarvegg neðri tóftarinnar. Þar gat verið þilveggur. Efri tóftin (goðastúka?) er 6X6 fðm. út fyrir veggi; virðast dyr á suðvesturhorni. Neðri tóftin er 6X8 fðm. Efasamt tel eg að þetta sé hin rétta hoftóft. Hún líkist öllu fremur tveim litlum sáðgörðum. Yfir ótrúlega vídd gátu menn samt reft með stoðrefti.”
“Hoftóftin” var friðlýst með skjali, undirrituðu af Matthíasi Þórðarsyni þann 25. október 1930 og var því þinglýst 17. nóvember 1938. Í spjaldskrá á fornleifadeild segir: “K:E. kom á staðinn 18.7.1965.  Allt er þar óbreytt og eins og það var, þegar Br. J. sá það. Ekki þesslegt að vera hús.  Friðlýsingarmerki ekki sett upp að sinni, þetta er rétt hjá bæ og eigendur vita málavexti. Hóllinn fyrir vestan heitir Goðhóll, blótklettur var jafnvel talinn vera neðan undir honum. Til var og blótsteinn, sem enn mun vera þarna.” 

Heimildaskrá:
-Fornleifaskráning fyrir Hof – Árbæjarsafn.
-Diplomatarium Islandicum [Íslenzkt fornbréfasafn. Hér eftir D.I.], sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn, I.-XV. bindi , Hið íslenzka bókmenntafélag, Kaupmannahöfn og Reykjavík, 1857-1950.
-Íslenzk Fornrit [hér eftir  Í.F.],  I.bindi 1 [Landnámabók] , Jakob Benediktsson gaf út, Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 1968.
-Íslenzk Fornrit, XIV.bindi [Kjalnesingasaga], Jóhannes Halldórsson gaf út, Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 1959.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, með brauðlýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða á landinu, J. Johnsen gaf út, Kaupmannahöfn, 1847.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns [hér eftir Jarðabók],  III.bindi Gullbringu- og Kjósarsýsla, 2.útg. [ljósprentun], Hið íslenzka fræðafélag, Kaupmannahöfn, 1982.
-Brynjúlfur Jónsson – Hoftóft að Hofi á Kjalarnesi, Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1902, bls. 35.
-Örnefnalýsing fyrir Hof.

Hof

Hof – túnakort 1916.

Hof

Goðhóll við Hof?

Esja

Esja (oftast með greini, Esjan) er fjall á Kjalarnesi, sem nú er innan borgarmarka Reykjavíkur, og er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins. Hæsti tindur Esjunnar er 914 metrar. Hæsti kambur á Esju miðri, séð úr Reykjavík, heitir Kerhólakambur.

esja-2

Í Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkur að nafnið sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé komið úr norrænu, en það er meðal annars þekkt í Noregi, og merkir „flögusteinn“.

“Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið sé að skýringu á nafninu. Þar bjó Örlygur Hrappsson sem kom til landsins frá Suðureyjum og settist að á Kjalarnesi.

Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.

esja-3

Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).

Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.

Talgusteinn

Líklegasta skýringin á örnefninu Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.”

Heimildir m.a.:
-Wikipedia.

-Vísindavefur HÍ.

Esja

Esja – örnefni.

Kleberg

Kléberg var örnefni á Kjalarnesi…
Í bókinni Kjalnesingar er m.a. vitnað í Kjalnesingasögu þar sem Kleberg-37segir að “Búi var þá kominn á hæð þá, er heitir Kléberg, er hann sá eftirförina…”. Þá segir: “Kléberg er nafn á tegund tálgusteins, sem ekki finnst hérlendis. Hún var til forna notuð í kljásteina og þaðan er nafnið. Steinn þessi er auðunninn og þolir vel eld. Menn hafa snemma komist upp á lag með að nota klébergið, smíðað úr því potta og pönnur og önnur ílát, einnig höggvið til úr því hleðslusteina. Þá notuðu kaupmenn hnullunga af steininum sem barlest í skip sín og seldu Íslendingum síðan, þegar hingað kom”. Ekki er vitað til að bær hafi fyrrum verið að Klébergi.
Klébergslækur rennur um tilkomumikið gil á Esjunni. Í því má m.a. finna tálgustein (sandstein), jaspis og fleiri bergtegundir. Hugsanlega eiga kljásteinar, sem fundist hafa við fornleifauppgröft hér á landi, uppruna sinn þar.
Þegar tálgusteinn úr Klébergslæknum var Kleberg-21unninn í kljástein með einföldum verkfærum virtist það tiltölulega auðvelt. Ekki er því ólíklegt að slíkir steinar hafi verið unnir úr sandsteininum og bæði notaðir sem verslunarvara og til gjafa. Þeir sem eignuðust gripina hafa að öllum líkindum skreytt þá og krotað á þá rúnir eftir tilefni eða geðþótta hverju sinni.
Sandsteinninn í Esju er af mismunandi græn- og gráleitu umbreyttu bergi, sennilega frá fyrra ísaldarskeiði. Um er að ræða umbreytt þróað móberg, sem með tímanum þéttist og linast uns það hefur náð klébergseiginleikum. Svo gamalt berg er hins vegar ekki til hér á landi svo vitað sé.
Líklega er um að ræða umbreytt rýólítsalla [rhyolite] og að klórít gefi því græna litinn [Guðbjartur Kristófersson].
“Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu.

Kleberg-23

Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.”

Kristján Eldjárn skrifaði um kléberg í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1949-1950. Þar segir m.a.: “Kléberg kalla ég í ritgerð þessari nytjastein þann, sem á dönsku er oftast kallaður vegsten, norsku klebersfen, ensku soapstone, þýzku Speckstein, en á öllum þessum málum eru þó fleiri nöfn á þessari steintegund [t.d. talk]. Amund Helland segir í ritgerð um norska nytjasteina á þessa leið (í þýðingu minni): “Kléberg er steintegund, sem er saman sett úr blöndu af talki og lórít. Talkið getur verið yfirgnæfandi, svo að steinninn verði réttnefndur talkskífer, en einnig getur klórít verið yfirgnæfandi.

Kleberg-1

Sennilegt er einnig, að önnur magnesíusíliköt komi til greina, og þar eð magnesít finnst í mörgum klébergstegundum, myndast afbrigði, sem vegna bergfræðilegrar samsetningar steinsins eru ýmist auðunnari eða torunnari en hið réttnefnda kléberg. Hreinar talkskífertegundir er auðveldara að saga en tré, en til eru einnig afbrigði, sem mjög erfitt er að saga með venjulegri sög, vegna þess að í þeim eru harðari steinefni. Í réttnefndu klébergi eru agnir af talki og klórít í óreglulegri blöndu.
Talkskífer er olíugrænt á litinn, en klébergið gTalksteinnrængrátt, dökkgrænt eða blátt. Það er fitukennt viðkomu, auðrispað með nögl og verður hæglega skorið með hníf, höggvið með öxi og sagað með sög. Ekki syngur í því, þótt slegið sé með hamri, en undan hamarshöggi merst það, svo að á sér. Stundum ólgar það undan sýrum, en nauðsynlegt er að reyna það með sterkum sýrum, af því að magnesít er í því. Það stenzt ekki sterkar sýrur og leysist stundum alveg upp, en þolir vel veikar lífrænar sýrur. Það er eldfast”(Amund Helland: Takskifere, heller og vekstene. Norges geologiske undersögelse no. 10, 1983, bls. 89—90). Klébergið, sem raunar er samheiti fyrir fjölmörg mismunandi bergtegundaafbrigði, finnst frá náttúrunnar hendi í lögum og blettum í krystölluðum skífertegundum. Það finnst víða um heim. Algengt er það í Grænlandi og Noregi, Alpafjöllum, Súdetafjöllum og víðar.

Á Íslandi er kléberg ekki til í náttúrunnnar ríki (fyrir þessu hef ég orð Tómasar Tryggvasonar jarðfræðings, og mun ekkert mark takandi á þeim ummælum Sigurðar Vigfússonar í Skýrslu um Forngripasafn II, bls. 5,” að kléberg ísteatit) fáist hér á landi hingað og þangað í fjöllum, þar sem magnesía er og hlýtur því að vera um innflutning að ræða, er við rekumst á klébergsgripi hér, en þeir eru nú orðnir allmargir, eins og nánar verður sýnt í þessari grein.

Sapusteinar

Kléberg er yfirleitt ærið mismunandi að gæðum og litur þess af ýmsum tilbrigðum, en drottnandi litur er grár. Íslenzku klébergsgripirnir eru margvíslegir bæði að lit, hörku og áferð, efnið er ljóst eða dökkt, stundum grænleitt eða blágrátt, slétt eða hrjúft, hart eða mjúkt eða mishart, þannig að í steinunum eru harðir, oftast gulir eitlar, sem stinga í stúf við hinn mjúka, gráa stein, sem þeir eru í.
Ekki hefur verið gerð steinfræðileg rannsókn á hinum íslenzku klébergsgripum, en öll rök hníga að því, að þeir séu úr norsku klébergi. Áður en lengra er farið, þykir rétt að skýra og afsaka nafnið kléberg. Þetta orð er ekki lifandi í íslenzku og kemur ekki heldur fyrir í fornritunum.

Sapusteinn-2

Ekkert sérstakt heiti hefur steintegund sú, sem um er að ræða, í tungunni annað en tálgusteinn, en það er jöfnum höndum notað um ýmsar tegundir innlendra, mjúkra steina (orðið „tálgugrjót” kemur fyrir í fornu máli (Fornmanna sögur V, bls. 215) og virðist þar munu merkja kléberg. í Grænlandslýsingu Ívars Bárðarsonar er grænlenzka klébergið nefnt thelliesteen og iellijge stien, sem líklega á rót sína að rekja til telgisteinn eða tálgusteinn í norræna frumtextanum. Det gamle Grönlands beskrivelse af Ívar Bárðarson, útg. Finnur Jónsson Kbh. 1930, bls. 54).) En norska orðið kleber eða feíebersten er eflaust afbökun úr kléberg, og hafa því Norðmenn kallað stein þennan svo áður fyrr. Í norrænu mállýzkunni á Hjaltlandi heitir hann kleberg eða kleber, og mun orðið því hafa verið lifandi í norsku á víkingaöld, er Hjaltland byggðist af Noregi.
Líklega hefur það einnig lifað á vörum landnámsmanna Íslands, enda til sem örnefni, Kléberg á Kjalarnesi og ef til vill víðar, þótt mér sé ekki kunnugt. Orðið hefur líklega dáið út í íslenzku, af því að bergtegundin var ekki til á Íslandi, en lifað í hjaltlenzku, af því að á Hjaltlandi finnst kléberg í náttúrunnar ríki. Þykir rétt að taka orðið aftur upp í íslenzku.

Sapusteinn-3

Fyrri hluti orðsins er kléi (ef. kljá, flt. kljár), kljásteinn, steinn til að hengja neðan í uppistöðu í vef og halda henni strengdri; hefur klébergið þótt hentugt í þessa steina og þess vegna dregið nafn af þeim.
Í skrá þeirri, sem hér fer á eftir, er upp talið allt það kléberg, sem til er hér á Þjóðminjasafninu. Hins vegar hefur ekki verið leitað eftir rituðum heimildum um klébergsfundi hér á landi, og kunna þær þó að vera til. (um klébergsnámið hefur skrifað S. Grieg: Norske klebeistensbrudd fra vikingetiden, Universitetets Oldsaksamlings Arbok 1930, bls. 88 o. áfr. Um klébergið sem verzlunarvöru á víkingaöld Jan Petersen: Vikingetidsstudier, Bergens Museums Arbok 1919—20, Hist. Antikv. Rekke nr. 2, bls. 11 o. áfr., sjá einnig Herbert Jankuhn: Haithabu, Neumimster 1938, bls. 128 og 166—67, og Poul Norlund: Trelleborg, Kobenhavn 1948, bls. 123. Um gerðir steinkatlanna og fjölda þeirra á víkingaöld og hnignun) En varla yrði svo vel leitað, að ekki kynni einhvers staðar að leynast frétt eða frásögn af slíkum fundi, og hefur því þótt rétt að binda sig eingöngu við safnið hér, enda þeir fundir svo margir, að hið almenna hlýtur að mega af því ráða. Í skránni er notað orðið grýta um potta úr klébergi, en eins hefði mátt nota orðið ketill eða steinketill. Öll þessi orð munu hafa verið notuð áður fyrr, en grýía hefur í íslenzku fengið að nokkru óvirðulega merkingu, af því að steinpottarnir hafa þótt verri og smærri en járnpottar, er þeir urðu algengir. Hins vegar lifir grýía enn í skandinavísku málunum og hefur orðið þar ríkjandi.

Specksteinn

Í skránni er byrjað austast í Rangárvallasýslu og haldið vestur og kringum land. Innan hvers hrepps er farin sem næst boðleið. Getið er fundarstaðar og gripunum lýst með fáum orðum. Stærð er greind í millimetrum, lengd og breidd og þykkt, ef um pottbrot er að ræða, (lengd — breidd X þykkt), en á snældusnúðunum þvermál X þykkt). Aftan við hvern grip er greind safntala hans eða Landnámsmenn Islands hafa haft út með sér fjöldann allan af klébergshlutum, einkum grýtum. Hins vegar hafa þeir ekki átt leirker að ráði, og mun þetta vera ástæðan til þess, að Íslendingar hafa aldrei, svo að vitað sé, lagt stund á leirkeragerð. Klébergsfundirnir hér á landi þykja mér hins vegar of margir til að hægt sé að telja þá alla beinlínis frá landnámsöld, og virðist mér einsætt, að kaupmenn hafi, meðan klébergsnámið var sem mest í Noregi, flutt kléberg hingað til lands, líklega þá mest hálfunnar eða fullunnar grýtur, engu síður en til bæjanna í Danmörku. Hér á landi hlýtur eftirspurn eftir þessari vöru að hafa verið sérlega mikil, þar sem þjóðin hvorki kunni að gera leirker né hafði nothæfan tálgustein í landinu. Og það er jafnvel mjög líklegt, að kaupmenn hafi einnig flutt út óunnið kléberg til smáhluta. Til þess bendir fundurinn frá Kotmúla, óunninn klébergssteinn, sem stykki hafa verið söguð úr, eftir því sem með þurfti. Á sama hátt hefur steinninn verið sagaður í klébergsnámunum norsku.
Það er þannig sennilegt, að eitt af því, sem kaupmenn höfðu á boðstólum hér á söguöld, hafi verið kléberg, unnið, hálfunnið eða óunnið, á sama hátt og þeir hafa bæði flutt út sniðin brýni og óunninn harðsteinn til brýna.”

Heimild:
-Kléberg á Íslandi – Kristján Eldjárn, Árbókin 1949-1950, bls. 41-62.
-Vísindavefur HÍ.

Kléberg

Kléberg í Glúfurgili í Esju.

Esjuberg

Í Úrskurði Óbyggðarnefndar, máli nr. 3-4/2004 um  Kjalarnes og Kjós frá 31. maí 2006 má lesa eftirfarandi fróðleik um “Landnám í Kjós“:

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

“Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli
ok Öxarár, ok öll nes út.
Eins og getið er um varðandi Kjalarnes var Mýdalsá (nú Miðdalsá og Kiðafellsá) takmark landnáms Helga bjólu. Norðan Mýdalsár var landnám Svartkels hins katneska: Svartkell hét maðr katneskr; hann nam land fyrir innan Mýdalsá milli <ok> Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri.

Kiðafell

Kiðafell.

Svartkell hét maðr; hann fór af Englandi til Íslands ok nam land fyrir innan Mýdalsá ok millum Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri. Eilífsdalá heitir nú Dælisá eða Bugða.
Gera má ráð fyrir að landnám Svartkels hafi náð upp í Esjuna, milli upptaka Mýdalsár og Eilífsdalsár. Valþjófr, son Örlygs hins gamla frá Esjubergi, nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli; frá honum eru Valþjóflingar komnir.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Valþjófr, er fyrr var getit, son Örlygs at Esjubergi, hann nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli. … Valbrandr hét annarr son Valþjófs, faðir Torfa, er fyrst bjó á Möðruvöllum. Þeir feðgar gerðu félag við Tungu-Odd; af því bjöggu þeir síðan á Breiðabólstað í Reykjardal hinum nörðra. Landnám Valþjófs hefur því náð yfir Kjós vestan Laxár og ofan Bugðu.
Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár ok Forsár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refr enn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Son Þórólfs smjörs var Sölmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðaströnd; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfúss Elliða-Grímsson.
Landnámugerðum ber ekki saman um mörk landnáms Þorsteins Sölmundarsonar, hvort þau miðast við Botnsá eða Bláskeggsá. Er hér komið út fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar sem náði til Brynjudalsár eins og segir í upphafi.

Brynjudalur

Brynjudalur. Tóftir Múla.

Bústaður Þorsteins Sölmundarsonar er ekki nefndur, en í Þórðarbók Landnámu segir að Refur sonur hans hafi búið í Múla. Sá bær þekkist ekki og hafa menn velt vöngum yfir líklegum stað án niðurstöðu.
Maðr hét Ávangr, írskr at kyni; hann byggði fyrst í Botni; þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip.  Ávangr hét maðr írskr, er bjó í Botni fyrstr manna, ok bjó þar allan aldr sinn; þá var þar svá stórr skógr, at hann gerði þar hafskip af ok hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamarr. Hér er átt við Stórabotn í Botnsdal, sem á land báðum megin Botnsár. Ekki kemur fram, hversu stórt land Ávangur hefur haft til umráða. Haraldur Matthíasson telur hann hafa numið allan Botnsdal.”

Heimild:
-Úrskurður Óbyggðarnefndar, mál nr. 3-4/2004 – Kjalarnes og Kjós; 31. maí 2006.

Brynjudalur

Í Brynjudal.

Hof

Á Kjalarnesi má finna ýmsa álagabletti, staði sem tengjast álfum, huldufólki, dvergum, vættum og draugum.
Kjalarnes-442Má t.d. nefna álagablett á Klébergi fyrir neðan Klébergsskóla, Helguhól utan við bæinn Gil (draugasaga), álagablett við Lykkju, huldufólk við Arnarholt og Borg sunnan Brautarholts, draugasaga í Strýthólum, dvergasögur tengdar Dvergasteini vestan við Bakka, Árnesi og Ártúnsgljúfri, álagablett (haugur Andriðar) í Andriðsey (Andrésey), dys í gilinu neðan við Saurbæ, vætti við Miðloku, huldufólk við Tíðarskarð, álagbletti við Óskiptu (land vestan Mela og Norðurkots) og loks draugasögu tengda við Tindstaði Innri.
Um Helguhólsdrauginn segir m.a.: “Helguhóll er grjóthóll upp með Bergvíkurlæk vestan við Vallárgrundir. Hann er eitt af landamerkjum milli jarðanna Hofs og Vallár, ásamt Hrafnaklettum, tveimur einstökum klettum upp í miðri Esjuhlíð og grjótvörðu á Klébergi sem ekki finnst lengur. Vestan við Helguhól er Aurinn. Þar var Aurbrú, gamall snidduhlaðinn vegur sem náði frá fjalli og niður á Grundarholt. Við Helguhól er sögn um lífseigan draug, Helguhólsdraug og var það trú manna að hann gæti tekið upp á því að villa um fyrir mönnum, er áttu leið um Aurbrú. (Kjalnesingar. Hof. 1998 Þorsteinn Jónsson, Byggðir og bú.)
Kjalarnes-441Í Krosshól[um] á að búa huldufólk. Í Kjalnesingasögu er getið um komu Auðar djúpuðgu er hún kom á leið sinni til og um landið við hjá bróður sínum, Helga bjólu, er bjó að Hofi. Helgi vildi bjóða henni og helmingi skipshafnarinnar húsaskjól og mat (hafa ber í huga að á sérhverju skipi voru a.m.k. 64 manna áhöfn), en Auði fannst bróður sinn helst til og nýskur á kostina svo hún ákvað að halda ferð sinni áfram uns Hvammsfirði norðvestra var náð. Þar er nú eitt örnefnið; Krosshólar, fyrir ofan tófta bæjar Auðar. Ekki er með öllu útilokað að það hafi tengst stuttri viðdvöl hennar í Hofi á Kjalarnesi. Í dag er Hof sunnan við Brautarholt, millum þess og Esjubergs. Þar eru fáar minjar er gefa tilefni til fyrrum fornaldarbæjar. Bæjarnöfn hafa jafnan haft tilhneigingu til að færast til með tíð og tíma.
Kjalarnes-443Austan við núverandi Brautarholtsbæinn (og kirkjuna) er allálitlegar tóftir; vel gróinn bæjarhóll. Í honum eru leifar tiltölulega ungs bæjar; m.a. baðstofu, eldhús, fjós og hlöðu. Skammt vestar má sjá leifar fjárhúsa. Líklegt er að þessi bær hafi farið í eyði öðru hvoru megin við árið 1900. Krosshól[a] má sjá skammt norðaustan við bæjarstæðið. Augljóst er að þarna hafi fyrrum staðið eldri bær eða bæir um langt skeið. Staðurinn er kjörinn til fornleifauppgraftar, og þá með þeim formerkjum að verða grafinn upp í heilu lagi. Ekki er grunlaust um að ýmislegt forvitnilegt kynni að koma þar upp úr sverðinum.
Haugur Andriðar, föður Búa (skv. Kjalnesingasögu) er í Andriðaey. Ætlunin er að skoða hann við fyrsta tækifæri. Við hauginn á að vera Kjalarnes-444stór steinn, uppréttur, sagður legsteinn landnámsmannsins í Brautarholti, þess er sonur Helga bjólu drap á gamalsaldri til að jafna sig á því að hafa ekki náð að drepa son hans, Búa. (Samkvæmt sögunni virðist þetta hafa verið bilað lið.)
Þegar komið var að Saurbæ var þar fyrir sérkennileg kerling á gamals aldri. Aðspurð um “Dysina” sagðist hún vita hvar hún væri, en það mætti alls ekki grafa í hana, a.m.k. ekki meðan hún væri á lífi. Nú væri dysin nánast orðin jarðlæg og ekki fyrir óreynda að staðsetja hana. Sagði hún fornmann vera þarna grafinn og sá átrúnaður væri á honum að á meðan hann fengi að vera óáreittur myndu “hey í Saurbæ ekki bresta”.
Af þeim sökum hefði verið séð til þess að gengið væri um dysina með Kjalarnes-446tilhlýðilegri virðingu. Þessa stundina stóð þannig á að sú gamla í Saurbæ var ekki ferðafær og baðst undan því að fara á staðinn að svo komnu máli. Skrásetjari fékk á tilfinninguna að sú at tharna vissi minna en hún vildi vera láta. Á korti um minjar og sögustaði á Kjalarnesi er dysin staðsett í gljúfrinu norðan og neðan við kirkjuna.
Í örnefnalýsingu Mela segir m.a.: “Rétt neðan við Melabæinn er kvos í gilinu. Þar er brekka, sem heitir Álagabrekka. Hana má ekki slá, því þá ferst bezti gripurinn í fjósinu.” Þegar hús var tekið á Guðna Ársæli Indriðasyni í Laufabrekku austan Mela var ólíku saman að jafna og í Saurbæ. Móttökurnar voru hinar vinsamlegustu. Hann sagði nefnda Álagabrekku vera ofan Álagahvamms í landi Mela. Norðurkot væri ofan og sunnan við hvamminn.

Kjalarnes-447

Faðir hans hefði jafnan haft á orði að Álagahvamm mætti ekki slá. Hann hefði ekki tekið mark á sögninni tvö sumur og ákveðið að slá hvamminn, enda væri hann sérstaklega grösugur. Nú væri búið að gróðursetja þar nokkur grenitré. Þá hefði borið svo við að tvær bestu mjókurkýrnar á bænum hefðu drepist – og tengdi hann það hvammssláttunni.
Guðni sagði þrjár grónar þúfur eiga að vera í Óskiptu (óskiptu landi Melabæjanna). Þær hafi ekki mátt slá með svipuðum formerkjum og í Álagahvammi. Faðir hans taldi sig vita hverjar þessar þúfur væru, en nú væri erfitt að staðsetja þær af nokkurri nákvæmni.

Efstu bæirnir á Kjalarnesi í austri eru Tindstaðir Ytri og Innri. Handan þeirra taka Kjósarbæirnir við; Kjalarnes-448Kiðafell, Morastaðir og Miðdalur.
Á Tindstöðum Innri var draugurinn “Tindastaðaflyksa”. Þetta var hundtík flegin aftur fyrir miðju, sem send var Halldóri bónda á Tindstöðum í Kjós seint á 18. öld. Um tíkina þá verður fjallað nánar um síðar.
Brautarholt er sagnastaður er fyrr greinir. Í örnefnalýsingu segir: “Sagt er, að í Krosshól hafi verið huldufólk. Eitt sinn þurfti að sækja yfirsetukonu til konu í Mýrarholti. Þegar hún kom, var búið að skilja á milli, en konan vissi ekki sjálf um, hvernig það gerðist. Þetta var um 1880.” Hamrarnir sunnan Borgar suðvestan Brautarholts geymir og sagnir um huldufólk, sem fyrr er lýst.
Við Bakka er Dvergasteinn. Húsfreyjan á Kjalarnes-445bænum, þrátt fyrir annir við mjaltir, gaf sér brosandi tíma til að útskýra tilurð örnefnisins. “Ég var hér í sveit fyrrum. Þá lá fyrir vitneskja um steininn. Hann var alltaf nefndur “Dvergasteinn”. Hann er þarna í túninu og hefur ávallt verið látinn í friði þrátt fyrir túnasléttur og aðrar framkvæmdir. Steinninn, sem nú virðist lítill, hefur áður verið mun hærri. Sagt er að sonur bóndans á Bakka hafi eitt sinn bjargað sér upp á steininn til að forðast mannýkt naut er sótti að honum. Ég veit ekki hvaðan sagan er komin eða hversu gömul hún er, en þarna er steinninn og þess hefur ávallt verið gætt að láta hann í friði”.

Heimildir m.a.:
-kjalarnes.is.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Guðni Ársæll Indriðason frá Laufbrekku á Kjalarnesi.
-Úrill kona í Saurbæ á Kjalarnesi.

Esja

Esja á Kjalarnesi.