Bláfjöll

Upplýsingar bárust um flugvélaflak austan Bláfjallahryggs, milli Leitis og Fjallsins eina. Staðsetningin var fremur óljós – gat verið annað hvort upp á sléttunni milli Bláfjallahryggjar og austurbrúnarinnar eða í rótum hennar. Því var ákveðið að skoða fyrst efra svæðið og síðan, ef það gæfi ekki árangur, leita það neðra og fara þá upp með Eldborgum í Kristnitökuhrauni.

Bláfjöll

Nú var gengið upp úr Draumadalagili í vestanverðum Bláfjöllum, úr u.þ.b. 200 metra hæð upp í uþ.b. 600 m hæð og þaðan niður á leitarsvæðið skammt austar. Allnokkuð brak átti að vera á vettvangi.
Bláfjöllin eru fjallaklasi sem rís hæst 685 m yfir sjávarmál. Lengi vel var talið að Hákollur væri hæstur í klasanum, en nú er ljóst að annar kollur skammt sunnar er svolítið hærri.Það er bratt upp vestanverðar hlíðar Bláfjalla beggja vegna Draumadalanna. Í raun ætti enginn að fara þar upp nema vita hvað hann er að gera. Mjög auðvelt er að komast í sjálfheldu í hlíðunum og því er nauðsynlegt að gaumgæfa vel áætlaða leið áður og á meðan á göngu stendur.
Þegar komið var upp í skarðið ofan gilsins blasti við útsýni til austurs og vesturs, svo langt sem augað eygði. Höfuðborgarsvæðið liggur þarna fyrir fótum svo og upplandið allt. Í austri er Geitafellið næst og stærst, auk þess sem vel sést þarna til Vestmannaeyja í góðu skyggni. Sólin gyllti snjókolla á efri brúnum, en niðurlandið var autt.

Bláfjöll

Þarna á brúninni er rautt gjall á kafla. Bendir það til þess að annað hvort hefur verið þarna eldri gígur fyrir, vatn hefur legið þarna yfir þegar gaus eða gosefni rifið með sér önnur efni á leiðinni upp á yfirborð. Þetta er einungis á litlum kafla.
Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald þeirra, að miklu leyti grafið í yngri hraun. Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og Leitin tilheyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til.
Bláfjöll Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla, s.s. Stórkonugjá, en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum. Ein dyngjan enn, Sporið, er suðvestan Þríhnúka. Hún virðist vera eldri en þær fyrrnefndu og átti þátt í uppbyggingu hásléttunnar ofan Lönguhlíðar. Sporið sjálft er nú að mestu þakið nýrri hraunum.
Á síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmyndunninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi í Grímsvötnum, Kötlu og Surtsey (þar sem sjórinn kom í stað bræðsluvatns). Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé móbergið. Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Hafnarfjörð, Hengill, hryggirnir á Reykjanesskaga svo og Bláfjöllin.
Bláfjöll Hraunbreiða austur frá Reykjavík sem ásamt ýmsum yngri hraunum (Hólmsárhraunum) gengur einnig undir nafninu Elliðaárhraun, einkum vestan til. Leitahraun er runnið úr eldstöðvum suðaustan undir Bláfjöllum, skammt fyrir sunnan Ólafsskarð. Heita þær Leiti og er hraunið við þær kennt. Það verður rakið óslitið frá Draugahlíðum niður í Elliðaárvog. Hefur það breiðst víða út, svo sem um Sandskeið og norðvestur yfir Fóelluvötn; heita þar Mosar. Einnig hefur hraunið runnið til austurs og niður á láglendi í Ölfusi, Hraunsheiði, og líklega í sjó í Þorlákshöfn. Í þessari álmu hraunsins er einn af stærstu hellum landsins, Raufarhólshellir. Annars staðar í hrauninu eru nokkrir smáhellar, svo sem hjá Vatnaöldum. Allvíða eru gervigígar í Leitahrauni, en merkastir eru Rauðhólarnir.
Suðurlandsvegur liggur á löngum kafla á Leitahrauni, frá Elliðaám að Draugahlíðum. Einnig liggur Þrengslavegur á hrauninu, frá Þrengslum og niður í Ölfus. Frá Draugahlíðum að Þrengslum liggur vegurinn á Svínahraunsbruna en það eru tvö apalhraun sem komið hafa upp á sögulegum tíma í Eldborgum vestan Lambafells og liggja ofan á Leitahrauni. Annað þessara hrauna hefur verið nefnt Kristnitökuhraun.
Bláfjöll Hraunið hefur runnið nálægt 2700 f. Kr. og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann.
Til aldurssamanburðar út frá nýlegum rannsóknum erlendra aðila hér á landi er Leitarhraun talið vera 5210±110cal (ca. 5200 ára), Búrfellshraunið 8060±120cal (ca. 8000 ára) og Þingvallahraun 10,330±80cal (ca. 10.300 ára).
Í Leitarhrauni eru Eldborgirnar tvær, Nyrðri-Eldborg og Syðri-Eldborg. Frá þeim er Svínahraunsbruninn runninn árið 1000 og það er því hið eiginlega Kristnitökuhraun. Þetta eru gjall- og klepragígar, reyndar með þeim fallegri. Leitargígurinn er hins vegar utan í austurhlíðum Bláfjalla, dyngjugígur sem fyrr segir.
Það var á sjötta áratug 20. aldar að framkvæmdarmanni datt í hug að ryðja slóða upp að Nyrðri-Eldborg með það fyrir augum að kanna þar efnisnámur. Ruddi hann gjallinu úr norðurhlíð gígsins með jarðýtunni, svona til að sannfærast um meðfærileika þess.
Ef ekki hefði orðið blaðamál í beinu framhaldi af þessum aðförum (Mbl) og fyrirhuguð efnistaka stöðvuð, væri gígurinn að öllum líkindum horfinn núna, eins og svo margir aðrir bræður hans á Reykjanesskaganum.
Bláfjöll Eldborgirnar sjást vel þegar komið er niður á neðri brúnir austurhlíða Bláfjalla, Lambafellið og Blákollur. Hlíðin er þarna allhá og ekki fýsileg niðurgöngu, nema í giljum ofan við Fjallið eina og skammt sunnan og innan við Leitið.
Þrátt fyrir leit sást hvorki tangur né tetur af flugvélaflaki á þessu svæði. Það er því ekki um annað að ræða en að fastsetja síðari ferðina, sem áætluð var – til vara.
Allt ofanvert Bláfjallasvæðið að norðaustanverðu var skoðað nokkuð vandlega. Flugvélaflakið átti hins vegar, að sögn viðmælanda, að vera vel greinilegt. Það er því ekki um annað að ræða en að leita undirlendið að austanverðu, sem fyrr sagði.
Ef einhver telur sig geta gefið upplýsingar um fyrrnefnt flugvélaflak er sá/sú hin/n sami/sama vinsamlegast beðin/n að hafa samband við ferlir@ferlir.is.
Frábært veður. Gangan og leitin tóku 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/ferdavefur/
-http://www.isor.is/
-Hraun og móbergsmyndanir á svæðinu frá Brennisteinsfjöllum að Hengli – Niðurstöður – Magnús Tumi Guðmundsson og Þórdís Högnadóttir – 2004.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1410
-http://www.unh.edu/esci/licciardi_et_al_2006.pdf
-http://www.warbirdalley.com/p38.htm

Eldborg