Oddagerðisnes

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (Kbh. 1923—24, III, 296) segir svo “um Oddageirsnes”, þegar lokið er lýsingu Grafarkots í Mosfellssveit, er síðar var lagt undir Gröf, núverandi Grafarholt: „Oddageirsnes, forn eyðijörð og hefur í auðn verið fram yfir allra þeirra manna minni, sem nú eru á lífi. Dýrleikann veit og enginn maður. Eigandinn er kóngl. Majestat. Landskuld engin og hefur aldrei verið í manna minni, en grasnautn til beitar og slægna brúka nú bæði Grafar ábúendur og Árbæjar; meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrir því, að tún öll, sem að fornu verið hafa, eru uppblásin og komin í mosa, en engi mjög lítið og landþröng mikil.”

Oddgeirsnes

Oddgeirsnes ofan Elliðavatnsengja.

Engar aðrar heimildir eru til um eyðibýli þetta, svo að mér sé kunnugt. Líklega hefur bærinn staðið upp í holtinu vestan Borgarmýrar, þar eru nú leifar gamalla fjárborga.
Samkvæmt frjórannsóknunum hefur Oddageirsnes byggzt á 10. öld. Fyrstu ábúendur virðast hafa verið búhöldar góðir, og auk túnræktar hafa þeir ræktað malurt og mjaðarlyng. Eins og víðar hefur illgresi innreið sína með byggðinni. Kornyrkja hefur ekki verið stunduð að neinu ráði í Oddageirsnesi.
Í þéttbýlinu á Innnesjum hefur snemma farið að gæta uppblásturs. Fyrir lok 15. aldar er Oddageirsnes farið í eyði. (Í öllum heimildum fyrir 1550 er bærinn óþekktur, hvort sem hann væri með nafnforminu Oddgeirsnes, Oddageirsnes eða Geirsnes. Oddgeirsnafn var fátítt, svo að sennilegasti frumbyggi jarðarinnar mundi vera sá tengdasonur Ketils í Gufunesi, sem lengst bjó síðan í Oddgeirshólum í Hraungerðishreppi. B. S.).”
Fyrirspurn um fyrrum staðsetningu Oddageirsness var send á Árbæjarsafn, en svar hefur enn ekki borist – nú sex árum síðar.

Oddgeirsnes

Oddgeirsnes.

Í jarðabókinni segir: ,,Oddageirsnes, forn eyðijörð og hefur í auðn verið það fram yfir allra þeirra manna minni, sem nú eru á lífi. Dýrleikann veit engin maður. Eigandinn er kóngl. Majestat. Landskuld er engin og hefur aldrei verið í manna minni, en grasnautn til beitar og slægna brúkar nú bæði Grafar ábúendur og Árbæjar; meina menn ómögulega aftur að byggja fyrir því að tún öll sem að fornu verið hafa, eru uppblásin og komin í mosa, en engi mjög lítið og landþröng mikil.” Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, III: bls. 296.
Í örnefnaskrá Björns Bjarnarsona segir: ,,Þar [á Norðlingaholti] voru margir götutroðningar. Þá er Oddgerðisnes. Þar var byggð, og eru rústirnar suðvestan undir Skyggningum, sem fyrr er getið.” Örnefnaskrá Ara Gíslasonar yfir Grafarholt (Ö. Graf.1), 14. ,,Nú er hluti þess svæðis, sem ýmist hét Oddgerðisnes, Oddageirsnes, Oddi eða Bugðunes, undir vatni.” Örnefnaskrá Björns Bjarnarsonar yfir Grafarholt (Ö. Graf 2), 22. ,,Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur Lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur meðfram honum og myndar þannig langt og eigi breitt nes eða odda. Syðst í oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefur bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes. [Á því byggði Benedikt heitinn Sveinsson í fyrstu flóðastíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk og braut um leið af nesinu; var svo byggt ofar.] Þvert yfir nesið er afar forn girðing, frá Bugðu austan við Skyggnir inn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suðvestan undir Skyggningum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegast að býlið hafi heitið Oddagerði [af garðinum yfir Oddann?], og hefi ég hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafnfornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.” Örnefnaskrá Björns Bjarnarsonar yfir Grafarholt (Ö. Graf 2), 31.

Oddagerðisnes

Oddagerðisnes – loftmynd.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1914 skrifar Björn Bjarnsaon um örnefni í Gröf og nágrenni. Þar nefndir hann m.a. Oddagerði (Oddgeirsnes):
“Oddagerði (Oddgeirsnes?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á.M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á lífi … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnesi).
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skyggnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skyggninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.”

Vitað er að hluti af þessu svæði er nú undir vatni en árið 1924-1928 var gerð jarðvegsstífla með flóðgáttum í Dimmu og Bugðu. Árið 1977-1978 var síðan gerð ný stífla vestar. Með þessari framkvæmd hurfu Elliðavatnsengjar og Vatnsendaengjar (og þar með tóftir Oddgeirsness) undir vatn og Elliðavatn stækkaði um helming að flatarmáli. Helgi M. Sigurðsson, Elliðaárdalur, land og saga, 100.

Heimildir m.a.:
-Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 7. árg. 1886, bls. 234.
-Saga, 3. árg. 196-1963, bls. 465-466.
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – Megintexti (01.01.1914) – Um örnefni – eftir Björn Bjarnarson, bls. 15.

Elliðavatn

Elliðavatn.