Færslur

Oddagerðisnes

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (Kbh. 1923—24, III, 296) segir svo “um Oddageirsnes”, þegar lokið er lýsingu Grafarkots í Mosfellssveit, er síðar var lagt undir Gröf, núverandi Grafarholt: „Oddageirsnes, forn eyðijörð og hefur í auðn verið fram yfir allra þeirra manna minni, sem nú eru á lífi. Dýrleikann veit og enginn maður. Eigandinn er kóngl. Majestat. Landskuld engin og hefur aldrei verið í manna minni, en grasnautn til beitar og slægna brúka nú bæði Grafar ábúendur og Árbæjar; meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrir því, að tún öll, sem að fornu verið hafa, eru uppblásin og komin í mosa, en engi mjög lítið og landþröng mikil.”

Oddgeirsnes

Oddgeirsnes ofan Elliðavatnsengja.

Engar aðrar heimildir eru til um eyðibýli þetta, svo að mér sé kunnugt. Líklega hefur bærinn staðið upp í holtinu vestan Borgarmýrar, þar eru nú leifar gamalla fjárborga.
Samkvæmt frjórannsóknunum hefur Oddageirsnes byggzt á 10. öld. Fyrstu ábúendur virðast hafa verið búhöldar góðir, og auk túnræktar hafa þeir ræktað malurt og mjaðarlyng. Eins og víðar hefur illgresi innreið sína með byggðinni. Kornyrkja hefur ekki verið stunduð að neinu ráði í Oddageirsnesi.
Í þéttbýlinu á Innnesjum hefur snemma farið að gæta uppblásturs. Fyrir lok 15. aldar er Oddageirsnes farið í eyði. (Í öllum heimildum fyrir 1550 er bærinn óþekktur, hvort sem hann væri með nafnforminu Oddgeirsnes, Oddageirsnes eða Geirsnes. Oddgeirsnafn var fátítt, svo að sennilegasti frumbyggi jarðarinnar mundi vera sá tengdasonur Ketils í Gufunesi, sem lengst bjó síðan í Oddgeirshólum í Hraungerðishreppi. B. S.).”
Fyrirspurn um fyrrum staðsetningu Oddageirsness var send á Árbæjarsafn, en svar hefur enn ekki borist – nú sex árum síðar.

Oddgeirsnes

Oddgeirsnes.

Í jarðabókinni segir: ,,Oddageirsnes, forn eyðijörð og hefur í auðn verið það fram yfir allra þeirra manna minni, sem nú eru á lífi. Dýrleikann veit engin maður. Eigandinn er kóngl. Majestat. Landskuld er engin og hefur aldrei verið í manna minni, en grasnautn til beitar og slægna brúkar nú bæði Grafar ábúendur og Árbæjar; meina menn ómögulega aftur að byggja fyrir því að tún öll sem að fornu verið hafa, eru uppblásin og komin í mosa, en engi mjög lítið og landþröng mikil.” Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, III: bls. 296.
Í örnefnaskrá Björns Bjarnarsona segir: ,,Þar [á Norðlingaholti] voru margir götutroðningar. Þá er Oddgerðisnes. Þar var byggð, og eru rústirnar suðvestan undir Skyggningum, sem fyrr er getið.” Örnefnaskrá Ara Gíslasonar yfir Grafarholt (Ö. Graf.1), 14. ,,Nú er hluti þess svæðis, sem ýmist hét Oddgerðisnes, Oddageirsnes, Oddi eða Bugðunes, undir vatni.” Örnefnaskrá Björns Bjarnarsonar yfir Grafarholt (Ö. Graf 2), 22. ,,Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur Lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur meðfram honum og myndar þannig langt og eigi breitt nes eða odda. Syðst í oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefur bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes. [Á því byggði Benedikt heitinn Sveinsson í fyrstu flóðastíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk og braut um leið af nesinu; var svo byggt ofar.] Þvert yfir nesið er afar forn girðing, frá Bugðu austan við Skyggnir inn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suðvestan undir Skyggningum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegast að býlið hafi heitið Oddagerði [af garðinum yfir Oddann?], og hefi ég hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafnfornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.” Örnefnaskrá Björns Bjarnarsonar yfir Grafarholt (Ö. Graf 2), 31.

Oddagerðisnes

Oddagerðisnes – loftmynd.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1914 skrifar Björn Bjarnsaon um örnefni í Gröf og nágrenni. Þar nefndir hann m.a. Oddagerði (Oddgeirsnes):
“Oddagerði (Oddgeirsnes?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á.M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á lífi … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnesi).
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skyggnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skyggninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.”

Vitað er að hluti af þessu svæði er nú undir vatni en árið 1924-1928 var gerð jarðvegsstífla með flóðgáttum í Dimmu og Bugðu. Árið 1977-1978 var síðan gerð ný stífla vestar. Með þessari framkvæmd hurfu Elliðavatnsengjar og Vatnsendaengjar (og þar með tóftir Oddgeirsness) undir vatn og Elliðavatn stækkaði um helming að flatarmáli. Helgi M. Sigurðsson, Elliðaárdalur, land og saga, 100.

Heimildir m.a.:
-Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 7. árg. 1886, bls. 234.
-Saga, 3. árg. 196-1963, bls. 465-466.
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – Megintexti (01.01.1914) – Um örnefni – eftir Björn Bjarnarson, bls. 15.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Björn Bjarnason

Í skýrslu Árbæjarsafns um “Grafarvog – minjar og sögu” frá árinu 1998 er fjallað um Gröf (Grafarholt), Grafarkot (Holtsstaði), Oddgeirsnes, Keldur og Keldnakot (Lausingjastaði):

Gröf – Grafarholt
“Jörðin Gröf fékk nafnið Grafarholt þegar bærinn var fluttur á núverandi stað 1907.

Grafarholt

Grafarholt – byggt 1907.

Ekki er Grafar getið í Landnámu en byggð hefur trúlega hafist þar fljótt. Fyrst er hennar getið í máldaga Maríukirkju á Bessastöðum 1352 og seinna sem eign Viðeyjarklausturs 1395. Árið 1503 er gefið út skiptibréf þeirra Áma ábóta í Viðey og Halldórs Brynjólfssonar ájörðunum Strönd í Hvolhreppi og Gröf í Mosfellssveit. Við siðaskipti um 1550 sló konungurinn eign sinni á allar klausturjarðir á Íslandi og varð Gröf í Mosfellssveit því konungsjörð.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason 90 ára. Hér þakkar hann fyrir góðar kveðjur honum til handa.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 er konungur talinn eigandi, en ábúandi er Einar Þórðarson. Leiga var greidd konungi í smjöri til Bessastaða. Kvaðir um mannslán, hestlán til Þingvalla og annarra staða, jafnvel stundum norður í land og í ýmsar áttir. Skila átti tveimur dagsláttum, tveimur hríshestum og einum eða tveimur móhestum. Skera átti torf, flytja lax úr Elliðaánum, sjá um skipaferðir, sækja timbur til Þingvalla, hússtörf á Bessastöðum og fleira. Engjar jarðarinnar voru mjög litlar.
Kvikfénaður er skráður 6 kýr, 1 kvíga tvævetur, 8 ær með lömbum og 4 hestar. Heimilismenn eru skráðir 10. Kostir jarðarinnar eru taldir litlir. Hjáleigur eru taldar tvær, það eru Grafarkot sem byggðist upp þá fyrir 50 árum og hét hugsanlega Holtsstaðir áður og hjáleigan Oddgeirsnes sem er búin að vera eyðijörð í allra manna minni.
Litlum sögum fer af jörðinni en skömmu fyrir 1840 er hún seld eins og flestar konungsjarðir á þessum slóðum. Gröf var mjög landstór jörð.

Grafarholt

Fjölskyldan í Grafarholti. Efri röð frá vinstri: Kristrún Steindórsdóttir (1915-1998), Björn Steindórsson (1921-1974), Einar Þórir Steindórsson (1916-1991), Steindór Björnsson (1885-1972), Gunnar Steindórsson (1918-1966) og Guðni Örvar Steindórsson (1913-1981). Neðri röð frá vinstri: Steinunn María Steindórsdóttir (1922-2005), Vignir Guðbjörn Steindórsson (1919-1945), Rúnar Geir Steindórsson (1925-2012) og Guðrún Eybjörg Steindórsdóttir (1921-1948).

Framan af öldinni bjó í Grafarholti bændahöfðinginn Björn Bjarnason hreppstjóri og um skeið alþingismaður, fróðleiksmaður mikill, en sérkennilegur í mörgu.
Árið 1943 var jörðin Grafarholt lögð undir Reykjavík samkvæmt lögum og meginhluti hennar síðan tekin eignarnámi 1944.

Keldur

Keldur

Keldur.

Jörðin Keldur er norðaustan við Grafarvog. Bærinn sjálfur hefur alla tíð verið á svipuðum stað eða þar sem tilraunastöðin í meinafræðum er núna. Ekki er vitað hvenær byggð hófst á Keldum, en jörðin var talin meðal eigna Viðeyjarklausturs árið 1395, verður síðan konungseign við siðaskiptin eins og aðrar klausturjarðir. Litlar sögur fara af ábúendum í gegnum aldirnar. Samkvæmt Jarðabók árið 1704 voru ábúendur á Keldum, Sveinn Jónsson og ekkjan Vigdís Ketilsdóttir sem bjuggu á sitthvorum helmingi jarðarinnar.

Keldnasel

Keldnasel.

Leigajarðarinnar átti að borgast með smjöri til Bessastaða eða Viðeyjar. Kvaðir um mannslán voru eitt frá báðum, hestlán til alþingis meðan hestar voru til, hafa reipi, reiðinga og klyfbera til fyrir alþingisreiðina, dagslættir í Viðey tveir, hríshestar tveir og móhestar einn frá báðum, fóðra misjafnt eitt sinn hest og eitt sinn naut og ekki minna en tvö lömb, auk fleiri hvaða. Landþraung var mikil. Sveinn átti tvær kýr, tvær ær með lömbum, tvo veturgamla sauði, einn kálf og eitt hross. Vigdís átti fjórar kýr, einn kálf, þrjár ær með lömbum og ein gelda, einn sauð tvævetur og tvo veturgamla. Heimilismenn hjá Sveini voru fjórir en fimm hjá Vigdísi. Torfskurður til húsagerðar var nógur, en til eldiviðar var mótekja lök. Um vetur leggur bæ allan í fönn.

Keldnakot

Keldnakot.

Hjáleiga Keldna var Keldnakot. Það hafði árið 1704 verið í eyði í 20 ár en byggð þar fyrir um 20 ár. Sagt er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að þar hafi forn jörð verið og heitið Lausingjastaðir að sögn gamalla manna.

Jörðin var seld skömmu fyrir 1840 og var í einkaeign rúmlega eina öld þar til ríkissjóður kaupir hana árið 1941. Ýmsar byggingar hafa risið þar síðan á vegum háskólans, t.d. tilraunastöðin í meinafræðum sem reist var á árunum 1945-1948.”

Sjá meira um svæðið HÉR.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason (14.08.1856-
15.03.1951).

Í Morgunblaðinu 21. mars 1951 segir: “Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsunginn í dag“:

“Hinn landskunni bændaöldungur, Björn Bjarnarson í Grafarholti verður jarðsunginn í dag að Lágáfelli í Mosfellssveit. Hann var á 95. aldursári, fæddur 1856 í Skógarkoti í Þingvallasveit.
Hann var einn þeirra Íslendinga, sem seint á öldinni, sem leið stunduðu bufræðinám við búnaðarskólann að Stend í Noregi og hóf síðan búskap hjer heima samkvæmt þeirri hagnýtu þekkingu, er hann aflaði sjer við þessa ágætu menntastofnun norskra bændaefna.
Nokkru eftir að hann kom heim, gerðist hann forgöngumaður að stofnun Hvanneyrarskólans. Á hann hlóðust fjölmörg trúnaðarstörf, sem of langt yrði upp að telja. Hreppstjóri Mosfellshrepps var hann í áratugi og þátttakandi í flestum meiri háttar fjelagssamtökum sunnlenskra bænda, er stofnað var til um og upp úr síðustu aldarmótum.

Grafarholt

Guðrún Björnsdóttir (1889-1935) árið 1911 – húsfreyja.

Björn heitinn var fæddur gætinn umbótamaður er unni þjóð sinni, velgengni hennar og bar hagsmuni sveitarfjelags síns mjög fyrir brjósti. Um tíma var hann þingmaður Borgarfjarðarsýslu.
Er hann hafði látið af búskaparstörfum og flestum trúnaðarstörf fyrir fyrir aldurssakir lagði hann stund á ýms íslensk fræði, málvöndun og hagnýtan fróðleik er hann hugði að komið gæti bændum og búaliði að gagni.
Hann átti lengi sæti á Búnaðarþingi og var árið 1932 kjörinn heiðursfjelagi Búnaðafjelags Íslands eftir 50 ára fjelagsstarf.
Á langri æfi átti hann í fórum sínum meira af lifandi fróðleik úr sögu íslenskrar bændastjettar en aðrir samtíðamenn hans.”

Heimild:
-Grafarvogur, Borgarhluti 8 – Minjar og saga, Reykjavík 1998 (Skýrslur Árbæjarsafns).
-Morgunblaðið 21. mars 1951, Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsungin í dag, bls. 2.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.