Færslur

Breiðagerðisslakki

Gengið var upp í Eldborgir og reynt að finna Eldborgahelli, skúta, sem grenjaskyttur gistu í þegar þeir lágu á grenjum undir Eldborgum ofan við Knarrarnessel. Um er að ræða athyglisverðan, en oft gleymdan, kafla í mannlífssögunni.

Eldborgir

Eldborgir.

Upplýsingarnar voru komnar frá Lárusi Kristmundssyni frá Brunnastöðum (Stakkavík) að tilstuðlan Birgis Þórarinssonar frá Minna-Knarrarnesi. Jafnframt var afráðið að ganga til baka til norðurs ofan Knarrrarnessels að Breiðagerðisslakka þar sem eru fyrir leifar af þýskri vél, sem brotlenti þar árið 1943.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Gengið var frá línuveginum ofan Hrafnagjár áleiðis upp að Eldborgum. Eldborgir eru nokkrir gjallgígar er mynda tæplega kílómetralengan svo til beinan hrygg. Lítið hraun hefur komið úr gígunum, en þeir eru á brotabeltinu frá SA til NV og liggja samhliða sprungunum á Strandarheiði. Borgirnar eru einkar athyglisverðar og skera sig úr öðru landslagi utan í norðvestanverðum Þráinsskyldi. Ofan og neðan við þær eru grágrýtismyndanir. Áberandi klettar eru ofan við Borgirnar og góð mið í landslaginu á göngu um þennan hluta heiðarinnar.

Elborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgagrenjum.

Á leiðinni upp eftir var varðaðri leið fylgt langleiðina. Litlar vörður eru við hana svo til alla leiðina. Neðan við Eldborgir beygir gatan til austurs, áleiðis að Keili.
Samkvæmt lýsingu Lárusar Kristmundssonar átti hellirinn að vera vestan við syðsta Eldborgargíginn. Suðvestan við gíginn er hlaðið skjól fyrir refaskyttur og tvö önnur norðan við hann. Enn eitt byrgið er skammt norðvestar. Eldborgargrenin eru þarna við, en vel má sjá á byrgjunum hvar þau liggja. Við op þeirra eru tveir til þrír steinar. Greni þessi hétu ýmsum nöfnum, s.s. Brúnagrenið, Sléttugrenin, Skútagrenið og Hellisgrenið. Að sögn Lárusar hafði verið greni í umræddum helli. Um opið er hlaðin skeifulaga hleðsla. Sjálfur hellirinn er fremur lágur, ca. 60 cm, og um 60 m langur. Hann er víða breiður, en þrengist. Lárus sagði að ratljóst hefði verið um hellinn því víða hafi verið göt á þakinu. Við eftirgrennslan reyndist það rétt vera. Fyllt hafði verið upp í opin, en endaopin látin óáreitt. Skotbyrgin taka m.a. mið af því.

Eldborgargren

Skútinn í Eldborgargrenjum.

Lárus sagðist hafa gist þarna við grenjayfirleguna. Þá hefði hann gist þarna með Gísla Sigurðssyni og Árni Óla er sá fyrrnefndi var við örnefnasöfnun í heiðinni.

Ekki er að sjá mannvistarleifar í hellinum, en hins vegar er hann ágætt skjól á annars skjóllausri heiðinni.

Lárus sagði tvær refagildrur hafa verið þarna, líklega frá 1600 eða 1700, en þær væru nú orðnar ónýtar. Ein þeirra sést þó enn nokkuð norðan við hellinn. Hún var skoðuð í ferðinni.
Hellisopið er gróið í botninn, en innar er mold og  sandur.

Anton við yfirheyrslu

Í Breiðagerðisslakkanum var gengið svo til beint á brakið úr hinni þýsku flugvél. Um er að ræða Junkers 88 könnunarherflugvél. Þýska flugvélin sást nálgast Keflavík um 13:52 þann 24.04.1943. Tvær bandarískar vélar voru sendar á móti henni, en flugmaðurinn reyndi að dyljast í skýjum. Það kom þó ekki í veg fyrir að vélin væri skotin niður. þrír áhafnameðlimir létust, en einn komst lífs af, fjarskiptamaðurinn, Sgt. Anton Mynarek. Hann komst úr vélinni í fallhlíf áður en hún brotlenti í Gjáhrauni, en var tekinn til fanga af landgönguliðum.
Bræðurnir Hafsteinn og Þórir Davíðssynir frá Ásláksstöðum höfðu gengið fram á þýska flugmanninn við Arnarbæli og fylgdu honum niður á gamla Keflavíkurveginn þar sem landgönguliðarnir tóku hann til fanga.

Breiðagerðisslakki

Brak úr flugvélinni.

Sveinn Þór Sigurjónsson frá Traðarkoti í Brunnastaðahverfi var 9 ára þegar hann sá skýhnoðrana á lofti eftir loftvarnarskothríð Ameríkana við flugvöllinn á Miðnesheiði. Síðan hafi hann séð hvar tvær amerískar flugvélar flugu á eftir þeirri þýsku til austurs í svipaðri línu og Reykjanesbrautin er nú og skutu á eftir henni. Þýsku vélinni var þá flogið til suðurs þar sem hún lenti í heiðinni. Sveinn er 73 ára þegar þetta er skrifað, búsettur í Grindavík.

Báðir hinir bandarísku flugmenn voru sæmdir Silfurstjörnunni þann 30. apríl 1943 fyrir vikið. Þessi Þjóðverji var fyrsti flugliðinn sem Bandarríkjamenn handtóku í Seinni heimstyrjöldinni.

Breiðagerðisslakki

Brak í Breiðagerðisslakka.

Lík þeirra sem fórust voru grafin að Brautarholti á Kjalarnesi, en eftir stríð voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Sá, sem bjargaðist, kom hingað til lands mörgum árum seinna. Lýsti hann fangavistinni í bragga við Elliðaár, en þar átti hann slæma vist fyrstu dagana í kulda og einangrun.
Talsvert er af braki úr vélinni við hraunhól í slakkanum, m.a. hluti af hjólastellinu, annað dekkið, vélarhluta, slöngur og tannhjól. Álhlutar eru úr vélinni í slakkanum skammt norðvestar. Við skoðun á brotunum mátti vel finna fyrir hlutaðeigandi, sem enn virðast vera þarna á sveimi og fylgjast grannt með.
Gengið var til norðvesturs yfir gjár og sprungur. Við brýr á þeim eru jafnan vörður svo tiltölulega auðvelt er að rata rétta leið. Sumar gjárnar eru hyldjúpar og enn snjór í botni sumra þeirra, þrátt fyrir einstaklega hlýtt sumar. Á brú yfir Klifgjá, þar sen Knarrarnesselsstígur liggur yfir gjána, er merkt greni. Varða er bæði við það sem og brúna yfir gjána.
Veður var frábært – stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Eldborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgargrenjum – fyrrum landamerkjavarða.

 

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp Kerlingarskarð frá sæluhúsinu við Bláfjallaveg, gengið suður með vestanverðum Draugahlíðum, inn í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum, og þær skoðaðar sem og tóftir búðanna. Litið var eftir hellisopum, sem spurnir hafa borist af, í suðaustanverðu Kistufelli og kíkt á flugvélaflak sunnan í fellinu. Þá var gengið upp í Kistufellsgíg og til norðurs austan Hvirfils. Ljósmyndari frá tímaritinu Útiveru var með í för til að festa landslag, minjar og fleira á filmu til birtingar með grein, sem mun birtast fljótlega í tímaritinu.

Kerlingarskarð

Búð námumanna undir Kerlingaskarði.

Þegar gengið er áleiðis upp í skarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Á uppleiðinni eru nokkrir stuttir hellar og stór hrauntröð úr Miðbolla. Fallegar hraunmyndanir eru í sumum hellanna. Efst í Kerlingarskarði er drykkjarsteinn. Hann var hálffullur af vatni. Sumar sagnir segja að drykkjarsteinarnir hafi átt að vera tveir þarna. Þegar betur var að gáð sást hvar önnur skál í móbergsklöpp var þar örfáum metrum ofar. Eftir að hafa hreinsað mold og möl upp úr skálinni kom í ljós hinn myndarlegasti drykkjarsteinn, greinilega mikið notaður í gegnum aldir. Sennilega hefur hann fyllst þegar ferðir lögðust að mestu af um götuna og enginn orðið til að halda honum við (hreinsa upp úr honum eins og drykkjarsteina er þörf). Nú er þessi stærri skál orðin tilbúin að nýju og vonandi fyllst hún fljótlega af vatni, vegfarendum til svölunar.

Kerlingarskarð

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Ofan við skarðið var staðnæmst og dást að útsýninu. Ofan þess blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna. Kannski þess vegna hefur línan einhvern tímann verið dregin í Stóra-Kóngsfell, svona til að hafa það með í hópnum.

Miðbolli er einn fallegasti eldgígur landsins. Neðar mátti sjá Litla Kóngsfell og sunnar Draugahlíðar. Í suðri voru nokkrir eldgígar.

Brennisteinsfjöll

Miðbolli (t.h.) og Kóngsfell.

Gengið var meðfram þeim og síðan til suðurs vestan Draugahlíða, framhjá útdauðu hverasvæði og síðan suður með miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónaði stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Gengið var á ská niður gróna hlíð, niður að tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni. Reyndar var hann vatnslítill þetta sinnið. Tveir hálfleygir rjúpuungar leituðu að öruggara skjóli. Móðirin fylgdist lífsreynd með.

Brennisteinsfjöll

Tóft námumanna í Námuhvammi.

Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hafði hrunið yfir ofninn, en með því að skafa lausan jarðveg ofan af kom efsti hluti hans í ljós.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld.

Brennisteinsfjöll

Bræðsluofn í brennisteinsnámunum.

Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279. Mest er af brennisteini á norðausturhluta og suðvesturhluta landsins og er þar að finna stærstu námurnar, t.d. í Reykjahlíð í Mývatnssveit á Norðausturlandi en í Brennisteinsfjöllum og í Krísuvík á Suðvesturlandi.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:

Brennisteinsfjöll

Ofninn.

“Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.”

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Brennisteinsfjöll

Gata í námunum.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini.

Brennisteinsfjöll

Í brennisteinsnámunum.

Námusvæðið var rissað upp til varðveislu í Reykjanesskinnu til síðari tíma nota.
Þá var gengið til suðurs með Brennisteinsfjöllum og áleiðis upp í suðausturhlíðar Kistufells. Þar var að sjá mikið brak úr flugvél, sem brotlenti í hlíðinni. Mótorinn var neðar, en talsvert af hlutum á víð og dreif hingað og þangað. Um var að ræða Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum. Slysið varð í 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Af einhverri ástæðu varð ein FERLIRshúfan eftir þegar svæðið var yfirgefið. Hún kom hins vegar í leitirnar síðar þegar annar leiðangur heimsótti svæðið.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Gengið var upp með sunnanverðu Kistufelli og að Kistufellsgíg (Kistugíg). Hann er einn stórkostlegasti gígur landsins. Háir hamraveggir eru umhverfis gíginn og nýrri hraun hefur runnið ofan í hann á tveimur stöðum. Lóuhreiður var á gjárbarminum og var fyrsti unginn að reyna að brjóta sér leið út. Móðirin hafði greinilega verpt öðru sinni þetta sumarið. Hálffleigur lóungi reyndi að flögra í felur, en stefndi fram af gígbarminum. Aðstaðan hlaut að hafa komið honum á óvart. Kistufellið er 602 m.y.s.

Kistufell

Kistufellstaumur.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir(dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigíga. Flest þessara einkenna má finna í Brennisteinsfjöllum.
Gengið var niður í gíginn og hann skoðaður neðanfrá. Þá sást vel hversu stórfengleg náttúrusmíð hann er. Gígurinn er sigdæld líkt og misgengisdalurinn austan Hvirfils. Norðan gígsins er stór og mikið hrauntröð er liggur til norðurs og beygir síðan til vesturs.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Skoðað var í hellaop suðaustan í Kistufelli og síðan haldið til norðurs milli Hvirfils og Draugahlíða. Þar á ás, ofan við brennisteinsmámasvæðið, er varða. Frá henni sést í aðra vörðu ofar á ásnum. Við hana er stórt vatnsstæði í gíg. Talsverð landeyðing er þarna efst, en þegar götu frá vörðunni er fylgt til norðurs má sjá hana greinilega liggja niður ásinn og áfram með vestanverðum hraunkantinum, milli hans og hlíðarinnar. Varða er við rætur ássins þeim megin og síðan tvær fallnar vörður við stíginn þar sem hann liggur áleiðis að sunnanverðum syðsta Syðstabolla.

Brennisteinsfjöll

Leið vestan Kerlingarhnúka að Kerlingarskarði.

Þar liggur gatan greinilega niður dalverpi með háum hamravegg á vinstri hönd og Bollann á þá hægri. Þetta er mjög falleg leið og auðfarin. Þegar halla fer niður á við beygir gatan til vinstri og síðan áleiðis niður mosahlíðina vestan undir Bollunum. Hér gæti hafa verið um aðra leið brennisteinsnámumanna að ræða, en hún er stysta og einnig sú greiðfærasta þangað, auk þess bæði áreiðanlegt og gott vatnsstæði er á leiðinni.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Um brennistein:
http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Borgarhraunsrétt

Ætlunin var að ganga um Borgarhraun og upp á Kastið og skoða þar brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar þann 3. maí árið 1943.

Hraun

Kapellutóft austan við Hraun.

Á leiðinni þangað var komið við í kapellunni á Hraunssandi ofan við Hrólfsvík. Brak og drasl er yfir tóftunum, en við þær stendur einmana staur með merki Þjóðminjasafnisins, sem segir að þarna séu friðlýstar fornminjar einhvers staðar undir. Sá, sem myndi reyna að fá því framgegnt að minjar þessar yrðu gerðar sýnilegar vegfarendum um eina fallegustu þjóðleið landsins, fengi gott klapp á bakið frá FERLIR og eflaust mörgum fleirum. Undir sandhrúgunni eru minjar kapellu frá kaþólskum sið. Dr. Kristján Eldjárn og fleiri grófu í tóftina á sínum tíma, fundu þar margt hluta, en mokuðu síðan yfir hana aftur. Kristján skrifaði merka ritgerð um uppgröftinn og síðan aðra ári seinna þar sem hann var orðinn nokkuð sannfærður um að þarna hefði verið um forna kapellu að ræða. Árið 1602 fórst Skálholtssúðin í Hrólfsvíkinni og margt ungra manna frá Skálholti með henni. Talið er að þeir séu grafnir í Kapelluláginni neðan við kapelluna. Þessum stað þarf að sýna meiri sóma, en verið hefur hingað til. Járnarusl er þarna um allt og lítil virðing sýnd því sem sandurinn hefur að geyma. Sagt er að sá sé vitur sem gerir sér grein fyrir hversu lítið hann veit í raun og veru. En sá, sem gerir sér grein fyrir með vissu hvað hið ósýnilega hylur, er ríkur. Grindvíkingar geta því, skv. þeim mælikvarða, talist mun ríkari en þeir gera sér grein fyrir.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Í Hrólfsvíkinni er hægt að finna fallegt djúpberg á kafla og skammt austar er stórbrotið útsýni yfir Ægissand og Festisfjall.
Komið var við í Móklettum og skoðað ártal þar á landamerkjum Hrauns og Ísólfsskála. Frá merki þessu er sagt frá í örnefnaskrám, en fáir munu vita hvar það er í klettunum. Við Mókletta gerðust atburðir, sem Dagbjartur Einarsson kann einn að segja frá.
Haldið var framhjá Hatti (sem sumir kalla Grettistak) og að Drykkjarsteini. Allar skálar hans voru tómar að þessu sinni, sem verður að teljast til tíðinda því menn stóluðu jafnan á vatn á þessum stað á löngum ferðum sínum milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Vatnsskorturinn er talinn merki um mikið hlýindasumar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Gengið var að Borgarhraunsrétt með viðkomu í Viðeyjarborg, forni fjárborg. Gamla gatan að Siglubergshálsi liggur vestan við Drykkjarsteinsdal. Borgin er allstór og gróið er í henni og í kringum hana. Hún er utan í hól og hallar til suðausturs. Í henni hefur verið hlaðin kví eða kró. Í borginni austanverðri má sjá hversu þykkir veggir hennar hafa verið, eða faðmur. Þarna hefur verið mikið mannvirki á meðan var. Talið er að borg þessi hafi verið frá Viðeyjarklaustri, sem hafði fé á þessum slóðum líkt og t.d. í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd og víðar.

Viðeyjarborg

Viðeyjarborg (Borgin).

Þegar gengið var áleiðis norður upp á hæðina norðan borgarinnar gerðist kjói allnærgöngull. Gengið var yfir að Borgarhraunsrétt, en hún er fallega hlaðin undir háum apalhraunbakka. Norðan hennar er hlaðið lítið skjól. Í rauninni hefur réttin oft verið nefnd Ísólfsskálarétt, en staðkunnugir hafa viljað halda sig við fyrrnefnda nafnið.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Gengið var áfram til norðurs, áleiðis að Einbúa. Sunnan hans er áberandi gata, greinilega mjög forn. Kastað hefur verið úr götunni á kafla. Sunnan hennar hefur verið hlaðið gerði og má enn sjá merki þess. Norðan gerðisins er hlaðið skjól, einnig greinilega mjög gamalt. Þarna gæti verið um að ræða hluta götu er kom upp frá Mosadal, um Fagradal og áfram áleiðis að Ísólfsskála, svonefndan Sandakraveg, sem lengi hefur verið merktur inn á landabréf sem slíkur. Ummerki eftir götuna má m.a. sjá í hrauninu sunnan við Kastið. Þar liðast hún um mosahraunið á kafla. Greinilegt var að þessi leið hefur ekki verið farin lengi. Selskál er undir hlíðum Fagradalsfjalls, en í henni er ekki að sjá nein ummerki eftir selstöðu. Í Skálinni má vel sjá hversu landrofið hefur orðið mikið frá því að svæðið var svo til allt gróið svo til upp á fjallskraga – einstaka rofabarð á stangli.

Kastið

Brak í Kastinu.

Gengið var vestur fyrir Kastið og síðan haldið á fjallið. Innst á því, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar nefndrar flugvélar á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Einhver athöfn virðist hafa farið fram við hjólastellið því skrælnaðar rósir trjónuðu upp úr því. Traðk var í kring. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews, sem Andrewsbíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið. Um var að ræða B-24 sprengjuvél.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Gengið var niður Kastið að sunnanverðu og að skotbyrgi refaskyttu suðvestan við Einbúa. Þaðan mun skyttan hafa haft gott útsýni með hraunkantinum og hraunbreiðunni vestan þess. Skammt sunnar er forn stekkur. Þrátt fyrir leit fundust ekki að þessu sinni nein önnur ummerki eftir selsstöðu á þessum stað, en hraunbakkinn er þarna mjög hár og vel gróinn. Ef um mjög gamla selstöðu hefur verið að ræða gæti reynst erfitt að finna önnur ummerki, en þó er það ekki útilokað. FERLIR hefur leitað þarna þrisvar sinnum áður, en ekki fundið.

Óvenju mikið var um brönugras í grasbollunum ásamt öðrum blómagróðri. Svo virðist sem hann sé að koma upp í auknum mæli á þessu svæði eftir að ágangur búfjár varð ekki eins mikil og áður var (með fullri virðingu fyrir sauðkindinni). Brönugras er stundum nefnt Hjónagras, elskugras, Friggjargas, graðrót og vinargras. Í Hálfdánarsögu Brönufóstra er sagt frá því að tröllkonan Brana gaf fóstra sínum grösin til að vekja ástir konungsdóttur og er nafnið brönugras dregið af því.

Kjói

Kjói.

Þegar komið var aftur að kjóanum lét hann öllum illum látum. Mátti varla á milli sjá hvor hefði betur, jói eða kjói. Veittist hann að göngufólki, settist og reyndi að vekja athygli þess með ýmsu móti, en allt kom fyrir ekki. Árvökul og þjálfuð augu FERLIRsfélaga komu fljótlega auga á kjóaegg þarna á grasi vöxnum mosabakka. Fljótlega komu fleiri kjóar þar að. Sást vel munurinn á kven- og karlfuglinum (kvenfuglinn ljósari á bringuna).
Gengið var yfir tiltölulega slétt hraunið að upphafsstað.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 12 mín.

Kastið

Á slysavettvangi í Kastinu.

Húsatóptir

Haldið var í hraunið skammt vestan við Húsatóttir, en þar hafði FERLIR nýlega skoðað flak flugvélar, sem sagt var að hefði verið þýskt, sbr. sögu HG um handtöku og skjólsgjöf Staðarmanna til handa þýskum flugmanni.

Húsatóftir

Húsatóftir – kort.

Grafið var í haug, sem þarna er, auk þess sem skoðað var í sprunguna ofan við hauginn, uppi á hraunbrúninni. Þar voru bæði kúlur og skothylki. Við athugun á staðnum kom í ljós að skrúfur og rær voru með tommumáli. Þar með gat vélin ekki hafa verið þýsk.
Við nánari eftirgrennslan er þarna að öllum líkindum um flak amerískrar P-47 flugvélar er hrapaði til jarðar, skv. dagbók hersins, um eina mílu vestur af Grindavík þann 13. júní 1944 kl. 08:55. Flugmaðurinn, annar liðþjálfi Thomas J. Latham, komst út í fallhlíf og komst lifandi frá óhappinu. Hluti af flakinu hefur verið hulið með jarðvegi, en annað er vel sýnilegt.

Húsatóftir

Brak úr vélinni – slidesmynd Viðar Valdimarsson.

Sigurður Viðarson frá Grindavík (býr nú í Hafnarfirði) hafði samband vegna flugvélarinnar.
“Ég hef kíkt stöku sinnum á síðuna www.ferlir.is og haft mjög gaman af. Ég rak augun í lýsingu á FERLIR-493 þar sem þið funduð flugvélaflakið af þýsku vélinni. Faðir minn Viðar Valdimarsson rafvirki í Grindavík fór fyrir um 35 árum síðan með Helga Hjartarsyni fyrrum rafveitustjóra að þessu flaki og tók mynd af byssunum sem stungist höfðu í bergið þegar hún fórst.

Húsatóftir

Húsatóftir – brak.

Ég mundi alltaf svo vel eftir þessari mynd hjá pabba og fann hana í slidesmyndasafninu hans fyrir 3 árum síðan og ákvað í framhaldi af því að reyna að finna flakið, en pabbi mundi nú ekki nákvæmlega hvar þetta var enda langt um liðið og hann var þá tiltölulega nýkominn til Grindavíkur þegar þetta var og áttaði sig ekki almennilega á hvar þetta var. Ég ræddi við Didda rafvirkja og vissi hann hvar það var og benti mér á, fann ég flakið en engar byssur sá ég. Ég ræddi betur við Didda og hann sagði mér að þær væru alveg við flakið þannig að ég fór aftur og fínkembdi svæðið en fann þær því miður ekki.

Húsatóftir

Slysstaðurinn.

Annað hvort hafa þær verið fjarlægðar af einhverjum eða lent undir grjótruðningi, en hruflað hefur töluvert við svæðinu rétt við flakið vegna fiskeldisins. Diddi man vel eftir þeim og sagði að þær hefðu verið svo kyrfilega fastar í berginu að þær yrðu ekki fjarlægðar nema með heilmikilli aðgerð. En faðir minn á allavegna mynd af byssunum og ábyggilega hægt að skanna hana fyrir þig ef þú hefur áhuga.”
Í framhaldi af framangreindu sendi Sigurður meðfylgjandi mynd af byssunum. Þær hafa verið fjarlægðar af einhverjum, en eftir er talsvert smálegt úr vélinni.
Frábært veður.

Húsatóptir

Bark úr vélinni.

Huldur

FERLIR hafði nokkrum sinnum leitað að nákvæmri staðsetningu flugslyss er hafði orðið í austanverðum Stapatindum í Sveifluhálsi þann 19. desember 1944. Brak úr vélinni mátti bæði sjá í Huldum sunnan við Hulstur svo og vestan í hálsinum norðan við syðsta Stapatindinn.
Nú var stefnan tek

Canso

Áhöfnin.

in enn og aftur á austurhlíð Sveifluhálsins með stefnuna í skarð sunnan við Huldur. Neðan við skarðið eru skriður, en gróningar á millum. Sunnan þeirra er gróin hlíð, en skarðið sjálft, sem virtist aðgengilegt var gróðurlaust að mestu. Þegar komið var upp í efri hluta skriðu mátti sjá smálegt brak á dreif. Þegar ofar dró stækkuðu hlutirnir. Ofan við móbergsbrún, undir hábrúninni, voru leifar af leiðslum og smámálmhlutum. Efst voru nokkrir steinar á kletti og á millum þeirra ryðgaður “járnkross”, greinilega hlutur úr flugvélinni.
Kanadískur flugbátur, svonefndur “Canso” (systur Catalinaflugbátsins), fórst í Stapatindum á Sveifluhálsi þennan 19. desemberdag árið 1944 á leið til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. Átta manna áhöfn flugvélarinnar beið bana þarna á hálsinum þennan örlagaríka dag.
Brak ofarlega í hlíðinniFlugvélin var úr 162. flugsveit Hins konungslega kanadíska flughers, RCAF. Einkennisnúmer hennar var 11061 “L” Vélin var að koma úr eftirlitsflugi og áhöfnin var að búa sig undir lendingu á Reykjavíkurflugvelli þegar slysið varð. Talið var að flugvélin hafi lent í niðurstreymi við Fjallgarðinn. Flakið fannst dreift yfir snarbratta fjallshlíðina. Hafði vélin rekist utan í fjallið um það bil 80 metra frá fjallsbrúninni. Höggið var svo mikið að djúpsprengjurnar og eldsneytið hafði sprungið og brunnið og áhöfnin látist samstundis. Leitarflokkur fann lík áhafnarinnar, sem voru jarðsett með hernaðarlegri viðhöfn í Fossvogskirkjugarði.

Canso

Canso.

FERLIR hafði áður, sem fyrr sagði, gert leit að leifum vélarinnar í tindunum ofan við svonefnt Hulstur skammt sunnan við Huldur. Upp úr því liggur bjúglaga dalur (vinstra megin) svo til upp á toppa. Ofarlega (nær efst í gróðurþekjunni) í dalnum fundust þá leifar af vélinni. Annað, það litla, sem þar var, er komið undir mosa. Vitað var að varla væri mikið eftir af flugvélinni því í það var sótt mikið af hlutum eftir slysið, sem síðan voru notaðir í varahlut. Þá hefur fólk verið að taka með sér brot og þá getur veðrið verið slíkt á þessu svæði að þar þolir ekkert lauslegt við. Vélin gat því verið horfin öllum öðrum en þeim sem eru að leita sérstaklega að henni.

Slysstaðurinn efst í Sveifluhálsi

Auk þess var vitað að búkurinn var dreginn yfir hálsinn til Hafnarfjarðar og álið notað til að stansa úr hluti. Á leiðinni féll m.a. neyðarútgönguhurð af búknum. Hún fannst síðar við op hellis, sem nefndur var Neyðarútgönguhurðarhellir og er vestan við Hrútagjárdyngjuna.
Nú var stefnan tekið á hliðina sunnan við fyrrgreinda svæðið. Þá kom í ljós brak þess eðlis að nánast var hægt að ganga að slysstaðnum undir hamraveggjunum.
Góð ganga upp á við, en síðan niður aftur. Greiðfærast er að ganga upp Huldur og síðan til suðurs efst undir hamrabrúnunum. Þar er gróður og auðvelt að fylgja bergveggnum upp með gilinu að slysstað. (Sjá meira um Stapatinda hér).
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Sævar Þ. Jóhannesson

Huldur

Brak úr flugvélinni.

Kastið

Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvélinni “Hot Stuff” er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943, kl. 16:20.
Flugvélin Slysavettvangurvar að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Gengið var vestur fyrir Kastið og síðan haldið á fjallið. Innst á því, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar flugvélarinnar á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Einhver athöfn virðist hafa farið fram við hjólastellið því skrælnaðar rósir trjónuðu upp úr því. Traðk var í kring. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.
Eftirminnilegar Á slysavettvangiljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Hot Stuff

Áhöfnin á Hot Stuff er fórst í Kastinu hinn örlagaríka dag, auk þriggja annarra.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Fllugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs. Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í febrúar þetta ár hafði 
Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.

Áhöfn og farþegar
Capt. Robert H. Shannon – Pilot †
Lt. Gen. Frank Maxwell Andrews – Copilot †
Capt. James E. Gott – Navigator †
T/Sgt. Kenneth A. Jeffers – Radio Operator †
S/Sgt. Lloyd C. Weir – Crew Chief †
S/Sgt. Paul H. McQueen – Gunner †
Civilian Adna W. Leonard – Methodist Bishop and Chairman of the Corps of Chaplains †
Brig. Gen. Charles A. Barth Gen. Andrews Chief of Staff †Hot Stuff Crew in front of aircraft
Col. Marlow Krum – Member of Gen. Andrews Staff †
Col. Frank L. Miller – US Army, Chief of Chaplains †
Maj. Theodore C. Totman – Gen. Andrews Secretary †
Lt. Col. Fred A. Chapman – US Army†
Maj. Robert H. Humphrey – US Army Chaplain †
Capt. Joseph T. Johnson – Gen. Andrews Aide †
S/Sgt. George A. Eisel – Tailgunner – lifði slysið af

Andrews
Flugvélin

Consolidated B-24D-1-CO Liberator
Serial no: 42-23728
USAF 8th. Airforce 93rd. Bombardment Group.

FERLIR hefur það jafnan fyrir sið að láta allt óhreyft á vettvangi. Dæmi eru um að fólk, sem tekið hefur með sér hluti úr óhappaflugvélum, til minningar um atburðinn eða einungis komur þess á Kastid-7slysavettvang, hafi sjálft orðið fyrir óhappi skömmu síðar.

Þannig má nefna dæmi um komu FERLIRs í Kastið utan í Fagradalsfjalli þar sem skoðuð var nefnd flugvél. Einn félaganna vildi ólmur taka með sér bráðinn álbút til minningar um þennan sögufræga atburð. Hann var talinn frá því. Skömmu síðar gerði hann sér ferð á vettvang með það fyrir augum að ná sér í hlut úr flugvélinni. Á leiðinni til baka týndi hann gleraugunum sínum, farsímanum og krítarkortinu, hlutum sem hvað mikilvægastir eru nútímamanninum. Hann fór þá til baka og skilaði hlutnum, en gripirnir eru enn ófundnir. Ef hann ætlar að endurheimta þá þarf hann líklegast að fara á Vörðufell í Selvogi og hlaða þar vörðu. Skv. þjóðsögunni á hann þá að endurheimta gripina.
Sjá meira HÉR.


Svartagil

Þann 31. júlí 1943 var flugslys norðan Þingvallavatns. Þetta gerðist kl. 15:34. Flugvélin var af gerðinni Grumman J2F Duck, 3ja manna flotvél, tvíþekja, svonefnd J2F. Flugmaðurinn, William Bentrod, lést, en félagar hans, George og Sullivan komust lífs af.
GrummanFlugvélar þessar voru m.a. notaðar hér á landi til að sækja og bjarga hermönnum úr sjó og vötnum.
Ragnar Jónsson, bóndi á Brúsastöðum, sagðist hafa heyrt af atvikinu. Flugvélin hefði farið í Gagnheiðina, slakkann ofan Svartagils, milli Ármannsfells og Súlna. Hann hefði oft gengið þar um en aldrei séð neitt brak úr vélinni og vissi því ekki nákvæmlega hvar slysstaðurinn gæti hafa verið.
Eggert Norðdahl taldi að flugvélin hafi komið niður þar sem síðar hafi verið gerð tún og því væru engin ummerki eftir slysið.
Svarta-21Ómar Gaukur Jónsson, ættaður úr Þingvallasveit sagði: “Vélin fórst í hlíðinni við Svartagil. Flugmaðurinn lést. Allt var flutt í burtu, vél sem annað eftir því sem mér er sagt. Ýmsar sögusagnir fylgdu þessu slysi t.d. að herminnirnir hafi ætlað að láta konu/konur í Svartagili vita af sér sem og að gedduseiði hafi verið um borð í vélinni og að þeim hafi verið varpað í Þingvallavatn þegar flugvélin missti flughæð/afl. Þetta með gedduseiðin er nú vart rétt og varla með konurnar, því sagt var að vélin hefði lent á símalínu í því samhengi, en þá var bara engin slík á svæðinu.
Urriðinn í Þingvallavatni var kominn til sögunnar fyrir þennan tíma þ.e. hans upphaf er frá ísöld.
Aftur á móti er sögusagnir að erlendir veiðimenn hafi fengið ofurgeddur á færi í vatninu, en þær ekki náðst, slitið allt og tætt og horfið síðan á vit djúpsins á ný.”

Í US Navy Airkraft Loss list segir um þessa vél:

Grumman Duck, Þingvallasveit. July 31, 1943
Grumman J2F-4 DuckGrumman Duck J2F

The Incident:

Grumman

Grumman J2F-4.

The plane crashed near the Lake Thingvellir, Iceland. The purpose of the flight is not known.
The reason for the crash is not known. An exact location of the crash site is not known.
According to information from people in the area, the plane crashed north of the deserted farm Svartagil (Black Canyon)

The Crew:
Pilot William Bentrod of VP84 Squadron was killed
Passengers Sullivan and George survived

The Aircraft:
Type: Grumman Duck J2F-4
BUNO: 1646
Operator: VP84 Squadron, NAS Keflavík
US Navy Squadron VP84 operated PBY-5A Catalina in Iceland from 2 October 1942 to 1 September 1943.

Svartagil

Svartagil og nágrenni – loftmynd.

 

Akrafjall

Á forsíðu Morgunblaðsins 23. nóvember árið 1955 segir frá því að “Flugvélin rakst á Akrafjali og sprakk”. Ennfremur segir:
Mynd“Brakið 50 fet fyrir neðan fjallsbrúnina – SKÖMMU áður en rökkva tók í gær, tókst að finna bandarísku Dakotaflugvélina, sem hvarf í fyrradag á flugi yfir Reykjanesi. Flugvélin hefur rekizt á Akrafjall og þeir fjórir menn, sem í henni voru, hafa allir farizt samstundis.
Strax með birtu í gærmorgun var hafin leit á ný. Tóku þátt í henni 15 flugvélar íslenzkar og vélar frá varnarhðinu, svo og flokkar úr Flugbjörgunarsveit. Fóru flugvélarnar víða yfir, og var leitinni beint langt inn í óbyggðir, því það var síðast vitað um ferðir flugvélarinnar, er flugstjóri hennar tilkynnti að flugvélin væri yfir Hvalsnesi og myndi fljúga til Grindavíkur. Myndi hann Slysstaðurinnhafa samband við flugumferðarstjórnina er vélin væri yfir Grindavik — En það skeyti kom aldrei frá henni.
Eftir hádegi í gær, er leitin hafði enn engan árangur borið, var jafnvel óttazt að hún hefði fallið í sjóinn, en þar yfir voru flugvélar einnig á sveimi. Það var svo klukkan liðlega þrjú að skeyti kom frá stórri Skymasterflugvél frá varnarliðinu, sem þátt tók í leitinni, og var á flugi meðfram norðvesturhlíðum Akrafjalls, að flugmennirnir hefðu komið anga á flugvélarbrak í fjallshlíðinni, fyrir ofan bæinn Ós.
Ein hinna minni flugvéla sem var að leita, flugvél sem Karl Eiríksson flugmaður stjórnaði, var send á vettvang og staðfesti hann að hér væri um að ræða brak úr hinni týndu flugvél. Hefir hún flogið beint á bratta fjallshlíðina, um 50 fetum fyrir neðan fjallsbrúnina. Við áreksturinn hafi sprenging orðið og kviknað í flugvélinni, því flugvélin var nær öll brunnin til ösku. Mennirnir hafa farizt samstundis við áreksturinn.
í gærkvöldi lagði leiðangur af stað héðan úr bænum til að fara að slysstaðnum. Ekki er hægt að ganga á Akrafjall beint upp af bænum Ósi. —.
Þar býr Þorsteinn Stefánsson bóndi. Þar hafði enginn orðið var við neina sprengingu, enda var veður þar allhvasst í gær og mjög dimmt í lofti.
Ekkert verður að sjálfsögðu fullyrt um ástæðuna til þessa hörmulega slyss, en sennilegt er að flugmennirnir hafi verið snarvilltir er þeir sögðust vera yfir Hvalsnesi, í rúmlega 700 feta hæð.
Leitarflokkurinn, sem er 28 manna hópur, gisti í nótt á Akranesi, þar eð leitarskilyrði voru mjög slæm, rigning og náttmyrkur, en leggja af stað það snemma að þeir verði komnir í birtingu á slysstaðinn. Er búizt við, að hægt verði að komast að flakinu án þess að síga, en hamrabelti eru á þessum stað í fjallinu.”

Heimild:
Morgunblaðið 23. nóvember 1955.

Akrafjall

Akrafjall.

Doglas rb66

Enn og aftur var gerð leit að braki flugvélar sem vera átti í Lakadal, milli Lakahnúka og Stóra-Sandfells (sjá meira HÉR). Að þessu sinni var haldið á vettvang með málmleitartæki því stórir sandflákar eru þarna neðan við mikil gil í Sandfellinu. Talið var líklegt að vatn og vindar hefðu fært brakið í kaf á umliðnum árum, en heimildin var frá árinu 2005. Veður var eins og best var á kosið, 19°C hiti.
BrakiðGengið var yfir Lakahnúka. Frá þeim var ágætt útsýni yfir svæðið. Þegar komið var niður var stefnan tekin í innsta gilið. Gamlar gosdósir létu í sér heyra.
Eftir að hafa endurmetið aðstæður og lína aðlöguð af fyrri ferð upplýsingaraðila um svæðið var stefnan tekin til norðvesturs. Þar fannst brakið títtnefna; heilleg hurð af flugvél. Hurðin virtist hafa komið niður úr loftinu ein og sér, a.m.k. var ekkert annað brak að sjá í nágrenninu. Gengið var upp nærliggjandi gil og umhverfi þess, en málmleitartækið var þögult sem gröfin.
ÁletrunÁ hurðinni voru tveir gluggar, sá efri brotinn, líkt og að hann hefði lent í kúlnaregni – eða á grjóti þegar niður var komið. Á henni voru m.a. eftirfarandi áletrun ofan á (Cut here for EMERGENCY RESCUE) annarri amerískri; PLT 54-545A. Þegar hurðinni, sem virtist vera ca. 60-100 kg, var snúið við komu í ljós ýmsar áletranir, s.s. “SERKIT” með stimpli og ýmsum merkingum. Sjá mátti númerið 3024 og á öðrum stað númeraröðina 5470191 3 A 7075.
Að myndatöku lokinni var haldið til baka, enda biðu næg verkefni annars staðar. Að þeim loknum voru upplýsingarar og myndir sendar til Eggerts Norðdahls og hann beðinn um að reyna að sannreyna hvaða flugvél hurðin gæti hafa verið af. Ekki stóð á svari: “Amerísk “Douglas RB-66B-DL Destroyer” frá USAF (bandaríska flughernum), númerið á flugvélinni er málað á hlerann (hurðina)! “54-545A” – Borguð af fjárhagsárinu 1954 og líklega smíðuð 1954/1955 – Ekki hefur hún farist, bara misst af sér hlerann!
Slíkt kom fyrir, tvö, þrjú skipti eru kunn af öðrum vélum hér á Íslandi. Þar sem hún er mjög líklega kominn á haugana ca. 1973 (ef ekki skotin niður í VíetNam eða farist einhverstaðar áður) þá þarf líklegast ekki að skila hleranum! Mér þykir ólíklegt að áhafnarmeðlimur hafi skotið sér út eða hún farist þarna (og engin heimild um slíkt). Líklega er þetta hlerinn við stjórnklefann (sbr. myndir). Það er gler á honum, tegundinn “RB-Douglas RB-6666″ var könnunarvél, ekki sprengjuvél þó B- standi fyrir “Bomber”.”
Af þessum upplýsingum fengnum var a.m.k. hægt að útiloka að þýska flugvélin, sem flökkusögur hafa gengið um, hefði komið niður þarna (sjá nánar HÉR).
Hafa ber í huga að framangreindar upplýsingar koma ekki af engu. Þeim þarf að safna saman, flokka og greina. Síðan þarf að fara á vettvang og sannreyna, skrá í hnitakerfi, ljósmynda og leita frekari staðfestinga. Allt tekur þetta tíma og er vinna. T.d. voru gerðar þrjár tilraunir til að komast inn í Lakadal eftir að þeim fyrri slepptum, en þá varð frá að hverfa vegna veðurs í öll skiptin. Þær ferðir eru ekki skráðr. Sú ferð, er hér um ræðir, er skráð í FERLIRSsöguna (sjá HÉR) sem sú 1388.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Lakadalur

Doglas RB 668 DL Destroyer.

 

Lönguhlíðar

Samkvæmt upplýsingum Eggerts Nordahls eru flugvélapartarnir neðan við Kerlingargil af Douglas Dakota, ekki Hudson.
KarlinnÍ fyrri umfjöllunni (sjá HÉR) um framangreint flugslys og staðsetningu á flakinu kom m.a. fram eftirfarandi: “Eftir að hafa gengið brúnir Lönguhlíðar sunnan við Kerlingargil kom í ljós að flugvélinni hafði verið flogið í hlíðina eins og fram kemur í framangreindri lýsingu. Undir hlíðinni er brak úr vélinni, s.s. pústgrein frá mótor og ýmislegt annað. Ofan þess eru smásteinóttar skriður, sem hafa verið að hylja brakið smám saman síðustu 65 árin (skrifað 2009). Ekki er útilokað að hluti braksins kunni að vera ofar á brúninni.”
Í skýrslu ameríska hersins frá 11. júní 1944 segir: “An Icelandic sheepherder reported a crashed in a lava bed about 8 miles southeast of Hafnarfj0rdur. The plane was idendified as the RAF C-47, missing since 7 March, 1944.”
KerlingargilTil að kanna með þann möguleika að hluti af brakinu kynni að vera ofan brúnar Lönguhlíðar var ákveðið að kanna það. Gengið var upp Kerlingargilið. Snjór var enn í botni þess á köflum. Karlinn, stakur móbergsstandur, glotti utan í sunnanverðu Lönguhlíðarhorninu. Þegar upp var komið var vent til hægri og stefnan tekin með ofanverðri brúninni. Fljótlega kom í ljós varða á stórum steini, að því er virtist án tilgangs (síðar kom í ljós hvers vegna hún var hlaðin nákvæmlega á þessum stað).
Gangan var hin fróðlegasta – a.m.k. í jarðfræðilegu tilliti. Ofan brúnarinnar stallast landið alllangt upp á við. Sunnar er gildrag, sem skáfletur hluta hlíðarinnar frá bergstallinum er myndar Lönguhlíðar. Þessi fremsti hluti hlíðarinnar á þessum kafla mun að öllum líkindum einhvern tíma í framtíðinni skríða fram úr henni, falla niður og móta landslagið neðanvert. Það mun væntanlega gerast þegar gríðarstór hvylft ofan hennar, Mígandagróf, mun fyllast af vatni eftir snjóþungan vetur og skríða fram á hliðarbrúnina. 

Mígandagróf

Vatnið mun fara fram af henni beggja vegna skorningsins og smám saman ýta honum fram og niður á við því allt leitar jú jafnvægis í náttúrunni þegar fram líða stundir. En þetta kemur flugvélaflakinu reyndar við.
Samt sem áður er nauðsynlegt að staldra örlítið við bergstand norðnorðvestan við Mígandagrófina ofanverða. Í henni eru hin myndarlegustu tröllaskegg er um getur á Reykjanesskaganum, er undan skilin eru þau er finna má í framanverðum Klofningum.
DagbókÍ stuttu máli má segja að leitin ofan Lönguhlíðabrúna skilaði engum öðrum árangri en þeim að fullyrða mátti að þar væri ekkert brak úr framangreindri Dakotaflugvél að finna.
Á leiðinni niður Kerlingargil rákust þátttakendur á sérkennilega steinmyndun norðan í gilinu. Í fyrstu mátti ætla að Ægir hefði leikið sér að því að móta fyrirbærið, en þegar hríðarbylur skall skyndilega á úr heiðskírum himninum var augljóst að þarna hafði Veðurguðinn verið að verki með vatn og vind að vopni.
Þegar niður var komið og hvorki hafði sést tangur né tetur af flugvélinni fyrrnefndu var ákveðið að hringja í vin, eins og sagt er í nýmóðis fjölmiðlaspurningarleikjum.
Ólafur Kr. Guðmundsson (f. 29.03.1930) sagðist aðspurður hafa komið á slysavettvang nokkrum Brakvikum eftir að tilkynnt hafði verið um fundinn. Hann hefði þá líklega verið 13 ára að aldri. Vettvangurinn væri honum þó enn í fersku minni – svona eins og hægt væri hjá 79 ára gömlum manni.
Ólafur sagði að tilkynningin um fund braksins hefði þótt stórmerkileg á þeim tíma. Frímann Þórðarson og Finnbogi Ingólfsson hefðu komið að því þar sem þeir voru í refaleit undir Lönguhlíð. Þetta hefði líklega verið einhvern tíma um vorið. Guðni Oddsson í Hafnarfirði og fleiri hefðu þá þegar farið á bifhjólum á vettvang. Grunur hafði síðar verið um (þótt ekki megi segja frá því) að þeir hafi hirt ýmislegt á vettvangi, sem þar hefði átt að liggja kyrrt, eins og síðar kemur fram.
SlysstaðurinnFljótlega hefðu Ameríkanar haldið á vettvang með leiðsögn Íslendinga.
Ólafur sagði að hann og félagar hans hefðu farið fótgangandi frá Hafnarfirði. Þeir hefðu gengið um Kaldársel og upp með Gvendarselshæð. Frá henni hefðu þeir gengið svo til beint með stefnu á Kerlingargil sunnan Gullkistugjár.
Þegar hann hafi komið á vettvang hefðu bifreiðavarahlutir, kerti og platínur, legið um allt, alveg yfir í Kerlingargilið. Annar hreyfillinn hefði verið uppi í skriðu undir brúninni á Lönguhlíð sunnan við Kerlingargilið. Flugvélaskrokkurinn hafði runnið hálfa leið niður skriðuna og var þar niðri í þremur pörtum; stélhlutinn efst, þá miðhlutinn og stjórnklefinn neðst. Ekki virtist hafa kvinkað í vélinni. Lengi á eftir hefði fólk verið að fara á staðinn til að hirða ýmislegt, sem þar var. Stærstu hlutarnir hefðu síðar verið dregnir niður til Hafnarfjarðar af járnsmiðum úr bænum og flestallt, sem var að finna í gilinu og ofan við það hefði horfið smám saman.
VarðaÍ spjalli við Ólaf bar ýmislegt fleira á góma, sem nýtt verður síðar á vefsíðunni.
Ólafur gat þess m.a. að eftir morðið á Gunnari leigubílsstjóra Tryggvasyni 18. janúar 1968 hefði komið í leitirnar skammbyssa sunnan með sjó er tengst hafði framangreindu flugslysi. Byssa þessi hefði lengi vel verið í vörslu lögreglunnar í Hafnarfirði og væri sennilega enn.
Eftir viðtalið við Ólaf virtist ljóst að Dakota flugvélin frá 7. mars 1944 hefði lent undir Lönguhlíðarbrúninni rétt sunnan við Kerlingargilið – enda er brakið úr vélinni að langmestu leiti þar neðan við, 65 árum síðar. (Sjá meira um aðdragandann HÉR.)
BrakVarðan framangreinda ofan Lönguhlíðarbrúnar, skammt sunnan við Kerlingargilið, virðist hafa haft þann tilgang að benda á slysstaðinn umrædda.
Þegar FERLIR fór aftur á vettvang virtist augljóst hvar flugvélin hafði lent á hlíðinni. Þar voru ýmsir smáhlutir, s.s. glerbrot, rör, taubútar, smábrak, spýtur og tengi, auk þéttilista og gúmmíkanta; allt hlutir, sem ekki gátu hafa fokið þangað allir á sama blettinn. Ofan við staðinn í hlíðinni var ekkert brak að finna, en talsvert af braki var neðan við hann. Þar virðist því ljóst að flugvélin hafði rekist í hlíðina, eða verið flogið á hana, á þessum stað, staðnæmst og síðan runnið undan hallanum nokkurn spöl. Ummerki á stórum steini litlu neðar sýndi að hluti af flugvélinni hafði m.a. lent á honum.
BrakHnit voru tekin á vettvangi sem og ljósmyndir. Augljóst var að eldur hafði kviknað eftir slysið, en í mjög takmörkuðum hluta vélarinnar.
Brakið er í jaðrinum á skriðu sunnan við Kerlingargilið. Leit hafði verið gerð allt upp undir efstu brúnir sunnan gilsins, en þar var ekkert að finna. Leifar af nefndum hreyfli fundust ekki. Telja má mjög líklegt að mikið af brakinu, sem eftir varð hafi smám saman grafist í skriðuna því hún hefur greinilega ekkert gefið eftir við að mylja niður brúnirnar þrátt fyrir þetta óhapp.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Ólafur Kr. Guðmundsson, f. 29.03.1930.
-Slysaskýrslur ameríska hersins 1941-1945.

Douglas Dakota