Breiðagerðisslakki

Gengið var upp í Eldborgir og reynt að finna Eldborgahelli, skúta, sem grenjaskyttur gistu í þegar þeir lágu á grenjum undir Eldborgum ofan við Knarrarnessel. Um er að ræða athyglisverðan, en oft gleymdan, kafla í mannlífssögunni.

Eldborgir

Eldborgir.

Upplýsingarnar voru komnar frá Lárusi Kristmundssyni frá Brunnastöðum (Stakkavík) að tilstuðlan Birgis Þórarinssonar frá Minna-Knarrarnesi. Jafnframt var afráðið að ganga til baka til norðurs ofan Knarrrarnessels að Breiðagerðisslakka þar sem eru fyrir leifar af þýskri vél, sem brotlenti þar árið 1943.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Gengið var frá línuveginum ofan Hrafnagjár áleiðis upp að Eldborgum. Eldborgir eru nokkrir gjallgígar er mynda tæplega kílómetralengan svo til beinan hrygg. Lítið hraun hefur komið úr gígunum, en þeir eru á brotabeltinu frá SA til NV og liggja samhliða sprungunum á Strandarheiði. Borgirnar eru einkar athyglisverðar og skera sig úr öðru landslagi utan í norðvestanverðum Þráinsskyldi. Ofan og neðan við þær eru grágrýtismyndanir. Áberandi klettar eru ofan við Borgirnar og góð mið í landslaginu á göngu um þennan hluta heiðarinnar.

Elborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgagrenjum.

Á leiðinni upp eftir var varðaðri leið fylgt langleiðina. Litlar vörður eru við hana svo til alla leiðina. Neðan við Eldborgir beygir gatan til austurs, áleiðis að Keili.
Samkvæmt lýsingu Lárusar Kristmundssonar átti hellirinn að vera vestan við syðsta Eldborgargíginn. Suðvestan við gíginn er hlaðið skjól fyrir refaskyttur og tvö önnur norðan við hann. Enn eitt byrgið er skammt norðvestar. Eldborgargrenin eru þarna við, en vel má sjá á byrgjunum hvar þau liggja. Við op þeirra eru tveir til þrír steinar. Greni þessi hétu ýmsum nöfnum, s.s. Brúnagrenið, Sléttugrenin, Skútagrenið og Hellisgrenið. Að sögn Lárusar hafði verið greni í umræddum helli. Um opið er hlaðin skeifulaga hleðsla. Sjálfur hellirinn er fremur lágur, ca. 60 cm, og um 60 m langur. Hann er víða breiður, en þrengist. Lárus sagði að ratljóst hefði verið um hellinn því víða hafi verið göt á þakinu. Við eftirgrennslan reyndist það rétt vera. Fyllt hafði verið upp í opin, en endaopin látin óáreitt. Skotbyrgin taka m.a. mið af því.

Eldborgargren

Skútinn í Eldborgargrenjum.

Lárus sagðist hafa gist þarna við grenjayfirleguna. Þá hefði hann gist þarna með Gísla Sigurðssyni og Árni Óla er sá fyrrnefndi var við örnefnasöfnun í heiðinni.

Ekki er að sjá mannvistarleifar í hellinum, en hins vegar er hann ágætt skjól á annars skjóllausri heiðinni.

Lárus sagði tvær refagildrur hafa verið þarna, líklega frá 1600 eða 1700, en þær væru nú orðnar ónýtar. Ein þeirra sést þó enn nokkuð norðan við hellinn. Hún var skoðuð í ferðinni.
Hellisopið er gróið í botninn, en innar er mold og  sandur.

Anton við yfirheyrslu

Í Breiðagerðisslakkanum var gengið svo til beint á brakið úr hinni þýsku flugvél. Um er að ræða Junkers 88 könnunarherflugvél. Þýska flugvélin sást nálgast Keflavík um 13:52 þann 24.04.1943. Tvær bandarískar vélar voru sendar á móti henni, en flugmaðurinn reyndi að dyljast í skýjum. Það kom þó ekki í veg fyrir að vélin væri skotin niður. þrír áhafnameðlimir létust, en einn komst lífs af, fjarskiptamaðurinn, Sgt. Anton Mynarek. Hann komst úr vélinni í fallhlíf áður en hún brotlenti í Gjáhrauni, en var tekinn til fanga af landgönguliðum.
Bræðurnir Hafsteinn og Þórir Davíðssynir frá Ásláksstöðum höfðu gengið fram á þýska flugmanninn við Arnarbæli og fylgdu honum niður á gamla Keflavíkurveginn þar sem landgönguliðarnir tóku hann til fanga.

Breiðagerðisslakki

Brak úr flugvélinni.

Sveinn Þór Sigurjónsson frá Traðarkoti í Brunnastaðahverfi var 9 ára þegar hann sá skýhnoðrana á lofti eftir loftvarnarskothríð Ameríkana við flugvöllinn á Miðnesheiði. Síðan hafi hann séð hvar tvær amerískar flugvélar flugu á eftir þeirri þýsku til austurs í svipaðri línu og Reykjanesbrautin er nú og skutu á eftir henni. Þýsku vélinni var þá flogið til suðurs þar sem hún lenti í heiðinni. Sveinn er 73 ára þegar þetta er skrifað, búsettur í Grindavík.

Báðir hinir bandarísku flugmenn voru sæmdir Silfurstjörnunni þann 30. apríl 1943 fyrir vikið. Þessi Þjóðverji var fyrsti flugliðinn sem Bandarríkjamenn handtóku í Seinni heimstyrjöldinni.

Breiðagerðisslakki

Brak í Breiðagerðisslakka.

Lík þeirra sem fórust voru grafin að Brautarholti á Kjalarnesi, en eftir stríð voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Sá, sem bjargaðist, kom hingað til lands mörgum árum seinna. Lýsti hann fangavistinni í bragga við Elliðaár, en þar átti hann slæma vist fyrstu dagana í kulda og einangrun.
Talsvert er af braki úr vélinni við hraunhól í slakkanum, m.a. hluti af hjólastellinu, annað dekkið, vélarhluta, slöngur og tannhjól. Álhlutar eru úr vélinni í slakkanum skammt norðvestar. Við skoðun á brotunum mátti vel finna fyrir hlutaðeigandi, sem enn virðast vera þarna á sveimi og fylgjast grannt með.
Gengið var til norðvesturs yfir gjár og sprungur. Við brýr á þeim eru jafnan vörður svo tiltölulega auðvelt er að rata rétta leið. Sumar gjárnar eru hyldjúpar og enn snjór í botni sumra þeirra, þrátt fyrir einstaklega hlýtt sumar. Á brú yfir Klifgjá, þar sen Knarrarnesselsstígur liggur yfir gjána, er merkt greni. Varða er bæði við það sem og brúna yfir gjána.
Veður var frábært – stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Eldborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgargrenjum – fyrrum landamerkjavarða.