Færslur

Camp Tinker

Í nágrenni við Hólm og Geitháls ofan Reykjavíkur voru nokkur braggahverfi á stríðsárunum, s.s. Camp Swansea, Camp Phinney, Geitháls Dump, Camp Aberdeen, Camp Buller, Camp Columbus Dump, Camp White Heather, Camp Arnold, Camp Clapham og Camp Omskeyri, auk Camp Tinker í Rauðhólum. Enn í dag má sjá ummerki eftir veru hermanna á þessum slóðum þótt mannskepnan, tíminn og lúpínan hjálpist að við að afmá ummerkin og þar með söguna.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Í Camp Omskeyri voru höfuðstöðvar stórskotaliðs 5. hersveitarinnar á tímum hersetunnar. Þær voru á svæði þar sem nú er beitarhólf suðaustan við Geitháls, fast norðaustan við gamla Suðurlandsveginn. Á svæðinu eru leifar og ummerki eftir veru setuliðsins, s.s. vegir, byssustæði, skotgrafir og braggabotnar. Út frá gamla Suðurlandsveginum liggur vegur í boga og vegir út frá honum. Við þá eru leifar af bröggum.

Steinullarverksmiðja

Steinullarverksmiðjan á leifum Camp Phinney.

Herskálahverfin Swansea og Phinney voru norður af Hólmi, milli Hafravatnsvegar og vegarins upp í Mjóadal og var Camp Phinney austar. Ekki er ljóst hvar skilin á milli þessara herbúða voru nákvæmlega. Steinullarverksmiðja var síðar byggð upp úr Camp Phinney.

Camp Columbus Dump var birgðastöð hersins á mel sunnan við Suðurlandsveg og austan við Hólmavað, þar sem nú er opið svæði. Um 25-30 braggar hafa tilheyrt þessum herbúðum. Vegur lá um svæði frá Suðurlandsvegi að Steinastöðum, sem var sumarhús við Bugðu.

Camp Buller

Camp Buller 2021.

Nokkur ummerki eru eftir braggahverfið, en efst við Suðurlandsveginn er ekki hægt að greina nein ummerki þar sem allt er komið á kaf í gróður, aðallega lúpínu. Árið 2006 var þetta svæði fyllt upp og sléttað að norðan, en sunnar, neðan við hljóðmön við Hólmavað, eru steypuleifar, sennilega hluti af braggabotnum sem fóru undir mönina. Þar fyrir neðan er greinilegur vegur, lúpínuvaxinn, sem liggur í boga frá malbikuðum gangstíg og kemur aftur að honum 115 m neðar. Suðaustan við hann eru ummerki eftir bragga og fyrir neðan veginn nær ánni má greina ummerki eftir tvo bragga og annan fyrir ofan.

Camp Swansea

Camp Swansea – loftmynd 1954.

Camp Buller var 20 m vestan og ofan við Suðurlandsveg, norðvestur af Sandvík og 115 m austur af Rauðási, eru leifar af braggabotni. Á tímum hersetunnar voru þarna höfuðstöðvar strandvarna og/eða loftvarnarstórskotaliðs á svæðinu. Þegar loftmynd var tekin 1954 stóðu þarna tveir braggar en voru horfnir þegar mynd var tekin 1965. Árið 1971 var aðeins grunnur vestara hússins greinilegur en sá eystri hefur horfið við framkvæmdir við Suðurlandsveg 1970.

Camp Aberdeen

Camp Aberdeen.

Camp Arnold var austan við sprengigeymslurnar við Mjóadalsveg í Almannadal, norðvestan við Fjárborg. Á tímum hersetunnar voru hér höfuðstöðvar flug- og ratsjárliðs frá Bandaríkjunum. Á svæðinu voru tveir braggar sinn hvorum megin við veginn. Braggabotnarnir sjást á loftmyndum en eru ekki lengur greinilegir á yfirborði og svæðið komið á kaf í gróður.

Camp Phinney

Camp Phinney 2021.

Camp Phinney var í holtinu fyrir norðan Suðurlandsveg, um 500 m fyrir vestan Geitháls.
Á svæðinu var mikið af braggagrunnum auk þess sem þarna voru tvö steinsteypt hús frá hernum sem síðar hlutu nöfnin Heiðarsel og Heiðarhvammur, rifin um 1985.
Á svæðinu var hýst stórskotalið og voru herbúðirnar höfuðstöðvar herfylkis.

Camp Aberdeen var stærsta braggahverfið, um 600 m norðaustan Geitháls. Grunnar flestra bragganna sjást enn vel.

Hólmur

Hólmur og nágrenni – loftmynd.

Camp White Heather herbúðirnar voru norðan við brúna yfir Hólmsá og uppi í Kotásnum, þar sem nú er íbúabyggð. Þar hafðist við lítil undirfylking skriðdrekaliðs.
Nokkur ummerki eru eftir veru hersins á svæðinu.

Camp Clapham

Camp Clapham 2022.

Camp Clapham herbúðirnar voru austan við gamla Þingavallaveginn ( Hafravatnsveginn), um 350m fyrir austan Geitháls.
Á svæðinu sem hverfið náði yfir eru nokkrir steyptir braggagrunnar og vegir. Margir braggabotnar voru rifnir upp og notaðir í Steinullarverksmiðjuna.

Geitháls
Býlið Geitháls var byggt við gatnamót Þingvallavegar og Suðurlandsvegar (Austurvegar).

Geitháls

Geitháls.

Eldra íbúðarhúsið á Geithálsi var tvílyft, bárujárnsklætt timburhús á steinhlöðnum grunni. Húsið var um 8×8,2 m og lá norðvestur-suðaustur, með bíslag á norðvesturgafli. Austan við það var skemma (11×8,2 m. Árið 1940 var gamla bæjarhúsið og skemman á Geithálsi rifið, en það hafði þá verið í niðurníðslu í nokkurn tíma. Nýtt hús var byggt á sama stað, ein hæð með lágu risi. Það var rifið skömmu eftir að Olíuverslun Íslands reisti þar veitingaskála 1963. Staðurinn var áfram vinsæll áningarstaður en var lagður niður sem slíkur árið 1972 þegar Suðurlandsvegurinn var færður sunnar og Geitháls fór úr alfaraleið. Hólmsá, sem rann rétt sunnan við bæjarstæðið, var færð sunnar þegar nýi Suðurlandsvegurinn var gerður.

Geitháls

Geitháls – túnakort 1916.

Á Geithálsi var bæði búskapur og greiðasala. Þar var símstöð frá 1909. Geitháls varð vinsæll áningarstaður og voru þar oft mikil læti eins og fram kemur í blaðagrein frá 1927: ,,Mér er kunnugt um það, að sá veitingamaður, sem nú rekur veitingar á Geithálsi, kysi ekkert fremur en að honum væri veitt aðstoð til að bægja ölvuðum óþjóðalýð burt frá staðnum, svo að honum gæti veist næði til að reka þar veitingar fyrir friðsama gesti. Geitháls er sérlega vel fallinn til sunnudagaheimsókna Reykvíkinga, bæði sökum góðs húsrúms og einnig vegna fegurðar þar í kring, og þá ekki síst fyrir ríðandi fólk, því að þar er gnægð góðrar hagbeitar og vatns fyrir hesta.“

Geitháls

Geitháls 1920-1935.

Árið 1940 var gamla bæjarhúsið á Geithálsi rifið, en það hafði þá verið í niðurníðslu í nokkurn tíma. Nýtt hús var byggt á sama stað, ein hæð með lágu risi, en það var rifið skömmu eftir að Olíuverslun Íslands reisti þar veitingaskála 1963. Staðurinn var áfram vinsæll áningarstaður en var lagður niður sem slíkur árið 1972 þegar Suðurlandsvegurinn var færður sunnar og Geitháls fór úr alfaraleið. Engin hús eru í dag á Geithálsi, en leifar eru þar af steinhlöðnum vegg sem hefur verið í porti norðan við gamla húsið. Hólmsá sem rann rétt sunnan við bæjarstæðið var færð sunnar þegar nýi vegurinn var gerður. Túnakort er til af bæjarstæðinu frá 1916. Á stríðárunum voru braggahverfin Camp Aberdeen og birgðageymslan Geitháls Dump við Geitháls.

Geitháls

Geitháls – geitakofi.

Bæjarstæðið hefur verið byggt utan í hjalla sem hefur verið stallaður upp frá gamla Suðurlandsveginum. Við veginn voru kálgarðar og norðan við þá hefur verið gerður sléttur stallur þar sem íbúðarhúsið og útihúsin stóðu áður. Norðan við húsin var steinhlaðinn veggur sem stendur enn. Ef rýnt er í þessa hleðslu má sjá að hún er samsett, þ.e.a.s. þetta eru leifar af veggjum úr húsum og jarðvegsvegg, um 25 m á lengd, sem gæti líka verið að hluta endurhlaðinn. Vestast á bæjarstæðinu, stallinum, eru leifar tveggja útihúsa úr torfi og grjóti og er austasta vegghleðslan, veggjarkampur, hluti af þeim.

Geitháls

Geitháls 2010.

Suðaustan við veggjakampinn eru sex steinþrep í steinhleðslunni upp á hjallann og frá þeim liggur hleðslan áfram til suðausturs að hlöðnum gafli, en hluti hleðslunnar hefur verið hliðarveggur í útihúsi og gaflinn hefur tilheyrt því. Hornrétt á hann er hleðsla sem gæti hafa verið annar gafl sem gæti hafa tilheyrt skemmu. Þrepin hafa verið gerð síðar því þau sjást ekki á elstu ljósmyndunum. Þegar túnakort var gert 1916 voru tveir kálgarðar fyrir framan bæjarstæðið, meðfram veginum, sem voru afmarkaðir með steinhlöðnum görðum, en sunnan við veginn voru tún bæjarins. Þar sem íbúðarhúsin stóðu og á hlaðinu þar fyrir aftan er mosavaxinn malarjarðvegur.

Geitháls

Geitháls – minjar.

Lítil ummerki eru eftir húsin. Tveir litlir steyptir fletir, sem á eru fest tvö járnrör, eru uppi á stallinum þar sem var inngangur á suðvesturhlið íbúðarhúsanna, og rafmagnskapall stendur upp úr jörðinni þar sem inntakið gæti hafa verið. Bæjarstæðið er mosa- og grasigróið en trjágróður og lúpína sækja stíft að bæjarstæðinu.

Heimildir:
-Þór Whitehead, 2002. Ísland í hershöndum, bls. 124-125.
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar frá gatnamótum við Vesturlandsveg austur að Hólmsá, Reykjavík 2010.
-Bjarki Bjarnarson og Magnús Guðmundsson 2005. Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, bls. 196 og 295.
-Túnakort 1916, Geitháls, Þjóðskjalasafn.
-Vísir 25.08.1927, bls. 4.
-Þjóðviljinn 14.05.1963.
-Alþýðublaðið 28.06.1963.
-Vísir, 15.08.1940.

Herkampar

Herbúðir í landi Geitháls og Hólms, horft í vestur með Hólmsá og Suðurlandsvegi. Neðst til hægri er Camp White Heather við beinan veg, Camp Omskeyri við bogadregin veg aðeins vestar, Camp Geitháls Dump við Geitháls. Vestan við Geitháls ofarlega á myndinni er hvítur braggi sem var kvikmyndahús og síðar steinullarverksmiðja (213-66), þar voru Camp Phinney og Camp Swansea. Myndin er líklega tekin 1943-1945.

Hólmur

Vegna mikillar aldursbreiddar í hópnum var ákveðið að nota vel hið frábæra veður og fara skemmtilegan hring og skoða það sem fyrir augu bæri.

Hólmur

Hólmur – eldhús.

Í stað þess að fylgja FERLIR-323 upp á Þráinsskjöld var ákveðið að halda að Hólmi við Suðurlandsveg og líta á Hólmshelli í bæjartúninu. Norðan hans er forn stekkur og austan opsins er gömlu bæjartóttirnar á Hólmi hinum forna. Sjást þær vel sem og hlaðnir garðar beggja vegna hans. Þá sést gamli túngarðurinn sunnan túnsins enn mjög vel. Vestan við hellisopið er fallega hlaðið hús, sem enn stendur svo til heilt. Þetta er fyrrum eldhúsið á Hólmi, síðar notað sem reykkofi (Valur).
Kíkt var ofan í Raufarhólshelli í Þrengslunum og síðan haldið að Herdísarvík. Byrjað var á því að leita að norðurenda Breiðabásshellis. Op fannst upp í Mosaskarði. Um er að ræða djúpa og að öllum líkindum mjög greiðfæra hraunrás. Ætlunin er að fara þangað fljótlega með góð ljós og kanna hellinn.

Hólmur

Hólmur – kirkjugarður.

Þá var leitað að fjárborgunum tveimur, sem sagt er frá í gömlum heimildum, niður við Herdísarvík. Þær fundust báðar svo og gamla réttin. Skoðaðir voru garðarnir, Austurgarður, Miðgarður og Vesturgarður áður en haldið var að Krýsuvíkurhrauni. Þar var skoðað hlaðið byrgi og aðhald skammt fyrir innan það. Þegar komið var á móts við Lambafell var rally í gangi á veginum svo ákveðið var að ganga upp á Sveifluháls og skoða merkilega gatakletta, sem þar eru á tilteknum stað. Litbrigðin í fjöllunum og klettunum á þessu svæði eru ólýsanleg við bestu birtuskilyrði.
Frábært veður.

Sveifluháls

Örnefni á Sveifluhálsi – ÓSÁ.

Hólmur

Gengið var um Löngubakka austan Hólms ofan Reykjavíkur, um Rauðhóla og Gvendarbrunnasvæðið í Heiðmörk heimsótt undir leiðsögn.
Við fyrstu sýn virðist hér ekki verið um mikil tengsl að ræða, en við nánari skoðun mun svo Loftmynd af Hólmi - kirkjugarðurinn er hægra megin við bæinnvera því allt svæðið er innnan jarðarinnar. Hólmur var forn kirkjustaður, enda ber óraskaður kirkjugarðurinn austan núverandi bæjar þess glögg merki. Garðurinn er á lágum hól skammt austan girðingar umhverfis heimahúsin á Hólmi. Hann er hringlaga og tóftir bæði austan hans og vestan. Sú að austan er minni, enda sú vestari allstór. Á Löngubökkum eru margir hellar og í Rauðhólum voru um 80 gervigígar áður en austurhluta þeirra var raskað með hernámsmannvirkjum og efnistöku. Hrauntún er sögð hjáleiga frá Hólmi og sjást leifar hennar enn vatnsverndargirðingarinnar við Gvendarbrunna. Skammt þar frá er Kirkjuhólmi [Kirkjuhólmar], forn örnefni. Í Jarðabókinni 1703 kemur fram að Hrauntún hafi verið fyrrum bæjarstæði Hólms og að öllum líkindum fornbýli.
Auk þessa var ætlunin að skoða Útihús við HólmHundinn, eða Skessuhundinn, eins og hann hefur einnig verið nefndur.
FERLIR hafði boðað komu sína á afgirt svæði Gvendar-brunna með hæfilegum fyrirvara.

Í örnefnalýsingu fyrir Hólm, sem Ari Gíslason skráði, segir m.a.: “Jörð, nú komin í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Upplýsingar um örnefni gaf Eggert Norðdahl, faðir bóndans þar [Eggert Guðmundsson Norðdahl frá Hólmi, Rvk. f.1866 – d.1963].
Merkin móti Elliðavatni eru (?): Rétt austur af Baldurshaga eru merki (svo) Gvendarbrunnur, rétt suður af honumhraunklif, er heitir Réttarklif, úr Bugðu niður frá, er Hólmsá (4) móti bæ. Úr Réttarklifi í Stóra-markhól. Fyrir ofan Elliðavatnsheiði svo aftur norðvestur af Hólmi. Úr Almannadal eins og hann liggur norður í Mýrarskyggnir (svo), þar er grashóll, úr honum til austurs í Stóraskyggnir (svo), þaðan í Sólheimatjörn (sem) er flag, er þornar á sumrin, úr henni beina leið í Hólmsá hjá Geithálsi, svo eins og Hólmsá ræður austur fyrir Heiðartagl, sem er rétt suðaustur af Geithálsi.
Áin fer Stekkur við Hólmkringum taglið suður af Hólmsbrú. Þaðan eftir lækjarfarvegi, nú orðið þurrum, upp að Hraunsnefi, svo eins og hraunhryggurinn ræður suðvestur fyrir Selfjall; frá þeim stað að Stóra-Markhól (svo) eru engin nöfn, það er yfir brunahraun að fara, sem nefnt er Bruni og er gróðurlaust land.
Norðaustur af Gvendarbrunni, inn í Heiðmörk, er steintröll, sem líkist liggjandi hundi og horfir heim að bæ í Hólmi. Þetta tröll heitir Hundurinn [Skessuhundur]; um hann er gömul þjóðsaga til. Hann er 4-5 álnir á koll. Hundur þessi var sending frá manni í Grindavík til bóndans í Hólmi út af skiptum milli þeirra. Bóndinn í Hólmi var enginn veifiskati og kunni eitthvað líka, svo einn morgunn, þegar hann kom út, sá hann til hundsins og skildi strax, hvað var að gerast. Gat hann svo með kunnáttu sinni stöðvað hundinn, þar sem hann þá var, og breytt honum í stein, sem stendur þar og mun standa um ókomin ár.

Stríðsminjar í vestanverðum Rauðhólum

Þá er Hólmsheiði. Sunnan í Hestabrekkuhæð, sem er 129 m há, eru Hestabrekkur. Þá er samhliða Almannadeild, aðskilið af stórri hæð, Mjóidalur. Hann liggur suður að Hólmsá. Að norðaustan við Hestabrekkuhæð er Skyggnisdalur. Þar suður af er[u] Hofmannaflatir. Lítið [er] eftir af þeim, nú blásið upp að mestu. Svo er hraunið, byrjum þar í miðju hrauni. Þar er óbrunnið svæði, Hólmshlíð. Austur af henni er Gráhryggur, sem liggur þvert sunnan úr hábrunanum norður að Silungapolli. Vestur af Hólmshlíð er gríðarmikil hella reist upp á rönd og heitir Grettistak [Háhella]. Hún er á hæð 3-4 mannhæðir, um meter á þykkt og 8-9 metrar á breidd.
Austur af Gráhrygg er Hellishlíð. Þar suður af er önnur lægri, er heitir Litlahlíð, og norðaustur af henni eru Hrossabeinahæðir. Þær eru kjarri vaxnar, og austan þeirra er Þorsteinshellir, er gamalt fjárból, notaður til skamms tíma. Hraunið þaðan til norðurs, norður að Hraunsnefi og suðvestur að Silungapolli, kallast Austurhraun. Við Silungapoll er barnahæli. Svo aftur frá Hólmshlíð til suðurs: Suður af henni er krappt og úfið, kjarri vaxið hraunbelti, sem nefnt er Kargi. Þar suður af er nefnt Teygingar eða Skógarteygingar.
Fyrir norðan Hólmshlíð, norður að Ármótum, [heitir] Helluhraun. Þar er mikið af hraunhellum. Vestast í því er hóll, sem heitir Trani. Vestur af honum [eru] hraunslakkar [hraunkrókar], sem nefndir eru Hraundalir, og þar vestur af er Gvendarbrunnur. Árbakkarnir frá Hrauntúnshólma, sem er norðvestur af Hrauntúnstjörn, heita upp að Ármótum Löngubakkar. Þar eru Snjófossar í Suðurá, hávaðar.”
Meintar minjar HrauntúnsÍ Jarðabókinni 1703 er Hrauntún síðasti bærinn tilnefndur í Gullbringusýslu (bls. 283-284). Þar segir m.a.: “Hrauntún segja menn að heitið hafi jörð til forna og legið millum Hólms og Elliðavatns. Þar sjást enn nú girðingarleifar eftir og ef grant er athugað nokkur húsatófta líkindi. Túnið er eyðilagt og komið í stórgrýti og hraun. Þar segjast menn heyrt hafa að kirkjustaður hafi til forna verið, og til líkinda þeirri sögn heita enn nú í vatninu þar rjett framundan Kirkjuhólmar. Eru munnmæli, að þegar þetta Hrauntún lagðist í eyði, hafi bærinn þaðan frá þángað færður verið, sem nú er jörðin Hólmur, og ætla menn að Hólmur hafi fyr bygður verið, so nú megi þessa jörð Hólm kalla Hrauntúns stað uppbygða verið hafa. Segja so allir á þessum samfundi þeir eð til leggja, að ómögulegt sje þetta hið forna Hrauntún aftur að byggja.” Ekkja Karls Norðdahls á Hólmi sagðist tekja að Hrauntún hafi verið í krika suðvestur frá bænum, en að tóftirnar væru nú komnar undir trjágróður. Benti hún á hlíð eina norðaustan undir Sauðási ofan Elliðavatns, utan vatnsverndargirðingarinnar. Ætlunin er að skoða það svæði við tækifæri.
Garður við Hrauntúnstjörn“Þá er það næst Hólmurinn milli Hólmsár og Suðurár. Talið frá túni: Austur af túni er Vörðuhóll, þar norður af er Geithálstangi fram að Hólmsá móti Geithálsi. Suður af Hólmstúni er Bæjarhraun, vestur af túni að Rauðhólum heitir Hellur, gróið á stöku stað. Í Rauðhólum voru hin fornu örnefni, en það hefur nú öllu verið breytt að landslagi (svo) við rauðamalartekju. Norðaustast í þeim var stór og merkilegur gígur, sem heitir Kastali, er skemmdur. Þar vestur af var Stóri-Rauðhóll af honum sést ekki urmull; þar suðaustur af Miðaftanshóll, nú óþekkjanlegur. Norðanvert við Rauðhóla, milli þeirra og Hólm[s]ár, eru svonefndar Dælur, slægjublettir í hrauni. Þar norðast við veg er Tangatangi.
Túnið: Bæjarhóll, þar sem bærinn stendur, þar austur af er Gamligarður, forn kirkjugarður, óhreyfður. Hér var kirkjustaður á 14. öld.”

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar – Hrauntún. Á loftmyndinni má sjá Hrauntúnsgarðana.

Garðurinn er á lágum hól skammt austan girðingar umhverfis heimahúsin á Hólmi. Hann er hringlaga og tóftir bæði austan hans og vestan. Sú að austan er minni, enda sú vestari allstór. Ekkjan á Hólmi sagðist telja að kirkjan sjálf, sem reyndar hefði verið bænhús, hafi verið innan garðs. Tóftirnar væru annars vegar útihús (það vestara) og hins vegar skemma, sem hvorutveggja hefði verið nýtt í tíð Eggerts.

Rauðhólar - friðlýsingarsvæðið 1974

Nýræktin austur af bæ heitir Austurland. Fyrir sunnan Gamlagarðinn er Mannabeinahryggur. Þar er langur hellir. Þar fundust bein. Þar suður af er Kvíastæði; næst Túnhól að suðvestan er Nýjaflöt. Þar lengst til suðvesturs er Suðurland, og Grænhóll er jafnaður við jörð. Þar var tóftarbrot. Hóllinn norðan við ána beint á móti bæ [heitir] Beitarhúsahóll. Suðvestur af Hólmshlíð er mikil fjárborg, hlaðin úr torfi og grjóti af Karli Norðdahl, er nefnd Sauðaborg.” Hér er sennilega, m.v. staðsetninguna við Hólmshlíð, átt við Hólmsborgina, sem var endurhlaðin árið 1918. Hún er þó einungis hlaðin úr grjóti.
Guðlaugur R. Guðmundsson ræddi við Karl Norðdahl 18. júlí [ártal vantar]. Þar vildi Karl leiðrétta nafnabrengl á Helluvatni og Hrauntúnstjörn. Á herforingjaráðskortunum [1908] urðu nafnavíxl á þeim. “Helluvatn heitir svo vegna þess að á því var vað á sléttri hraunklöpp. Þegar stíflan í Elliðavatni var gerð hækkaði í vatninu og klöppin fór í kaf. Áður en stíflan var gerð hét vatnið tveimur nöfnum; Vatnsendavatn og Elliðavatn.”
Rauðhólar eru leifar gervigígaþyrpingar (u.þ.b. 4600 ára) í Elliðaárhrauni norðaustan Elliðavatns. Þeir eru í löndum Hólms og Elliðavatns. Þeir voru rúmlega 80 áður en farið var að spilla þeim með efnistöku. Það mun hafa verið Ólafur Thors, sem fyrstu leyfði mönnum að taka efni úr Rauðhólum. Mest var ásóknin í þá á seinni stríðsárunum, þegar mikið var byggt, s.s. Reykjavíkurflugvöllur, en þar mun að finna mestan hluta þess efnis, sem tekið var í Rauðhólum. Í hólunum suðvestanverðum var ein af birgðastöðvum hernámsliðsins og sjást leifar hennar enn.
Stríðsminjar í Rauðhólum - loftmyndNæstu ár og áratugi var efni úr hólunum notað í ofaníburð í götur í borginni og húsgrunna. Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1961 og árið 1974 var Rauðhólasvæðið gert að fólkvangi. Árið 1933 var spilda í vesturhluta hólanna leigð fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík til útisamkomuhalds. Síðar var spildan ásamt skála, sem hafði verið reistur þar afhentur borginni á ný.
Þar var rekið um tíma barnaheimilið Vorboðinn sem sumardvalarheimili fyrir börn. Sumarið 1986 var starfrækt útileikhús í Rauðhólum, þar sem brot úr Njálssögu voru sett á svið.
Síðan ísöld lauk hefur hraun einu sinni runnið inn fyrir byggðarmörkin og var það fyrir 4700 árum þegar Elliðavogshraun rann niður farveg Elliðaár. Elliðavogshraun rann úr stórum dyngjugíg sem heitir Leiti og er austan við Bláfjöll. Það var þunnfljótandi hraun sem rann um Sandskeið, niður í Lækjarbotna og þaðan rann hraunið ofan í Elliðaárvatn. Þegar hraunið komst í snertingu við vatnið urðu miklar sprengingar og gufugos. Þessi gufugos og sprengingar mynduðu gervigíganna Rauðhóla.
Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir votlendi svo sem mýrar, sanda, aura eða grunn stöðuvötn. Vatnið hvellsýður þannig að kvikan tætist í sundur og gjallhaugar hrúgast upp. Gervigígar líkjast oft gjallgígum en þar sem þeir mynda óreglulegar þyrpingar er auðvelt að greina þá frá.

Vatnsinntakið gamla í Hrauntúnstjörn

Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti 1961 og síðan sem fólkvangur 1974. Stærð þeirra eru um 45 ha. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki “hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili”. Fólkvangurinn í Rauðhólum var friðlýstur, sem fyrr sagði, með augl. í Stjórnartíðindum B. nr. 185/1974.
Áhugi var að skoða afgrit svæðið innan vatnsverndar
Gvendarbrunna. Haft var samband við fulltrúa Orkuveitur Reykjavíkur, sem brást bæði fljótt og vel við og sendi umsjónarmann svæðisins, Hafstein Björgvinsson, þegar á vettvang. Hafsteinn tók vel á móti þátttakendum, leiddi þá um helstu minjar og reifaði sögu brunnanna: “Gvendarbrunnar  eru kenndir við Guðmund Arason biskup hinn góða (1203-1237). Vatnið sem Guðmundur góði vígði var talið heilnæmt með afbrigðum og búa yfir margvíslegum yfirnáttúrlegum eiginleikum. Hinsvegar hafa engar heimildir fundist um sérstök tengsl Guðmundar góða við Gvendarbrunnasvæðið. Árið 1906 átti Jón Þorláksson, þáverandi landsverkfræðingur, frumkvæðið að því að gera Gvendarbrunna að vatnstökusvæði Reykvíkinga. Á árunum 1904-1905 hafði bæjarstjórn fjármagnað boranir í Stöðvarhúsið í GvendarbrunnumVatnsmýrinni sem reyndust árangurslausar. Vatnið sem upp kom reyndist heitt og óhæft til drykkjar. Við boranir fannst einnig gull og samkvæmt efnarannsóknum var þar að finna ágætis gullnámu.
Guðllæðið í Reykjavík var skammlíft en áfram hélt undirbúningsvinna að vatnsveitu sem markaði tímamót með kaupum bæjarstjórnar á Elliðaánum. Árið 1908 hófust framkvæmdir á vatnsleiðslu frá Elliðaánum og Gvendarbrunnum. Ári síðar voru leiðslurnar tengdar og vatnsveita í Reykjavík orðin að veruleika.”
Í “Hrauntúnstjörn” var vatnið fyrst sótt 1908. Í henni sést enn inntaksopið. Norðan tjarnarinnar er ílöng tóft tvískipt. Gróið er í kring. Við fyrstu sýn virðist þarna hafa verið fjárhús og heykuml við endann, en hún gæti einnig hafa verið leifar skála og þá væntanlega verið með elstu byggingum. Austan hennar, í hrauninu, eru leifar af hlöðnum garði. Minjar þessar eru á borgarminjaskrá. Svæðið sunnan tjarnarinnar var einnig skoðað, en þar hefur verið skipt um jarðveg eftir framkvæmdirnar við núverandi stöðvarhús Orkuveitunnar. Vestan þess er gömul hlaðin rétt, ofan við svonefnt Réttarklif.

Þorsteinshellir - sauðaskjól frá Hólmi

Á hól suðvestan hennar er myndarleg varða. Aðspurður um Kirkjuhólma taldi Hafsteinn þeim hafi verulega verið raskað í seinni tíð.
Hafsteinn fylgdi þátttakendum um stöðvarhúsið, lýsti byggingu þess og nýtingu. Greinilegt er að bæði hefur verið reynt að láta mannvirki falla sem best inn í umhverfið og þess gætt að raska ekki öðru en nausynlegt var vegna vatnsframkvæmdanna. Hafsteini var sérstaklega þakkað fyrir góð viðbrögð og frábæra leiðsögn.
Eggert Guðmundsson Norðdahl kvað eitt sinn:

Þannig líður ár og öld
eins í gleði og sorgum.
Allir dagar hafa kvöld
og allar nætur morgun.

Hólmur er og var merkilegur. Líklegt má telja að mikið af menjum hafi horfið í Elliðavatnið þegar vatnsborð þess hækkaði mikið við stíflugerðina 1930. Til er glögg lýsing af svæðinu fyrir stíflugerðina. 

Frábært veður. Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hólm – ÖÍ.
-nat.is
-Efnistaka og frágangur – skýrsla Vegagerðarinnar frá 2006.
-Stjórnartíðindum B. nr. 185/1974.
-Freyr Pálsson – Jarðfræði Reykjavíkursvæðisins.
-Jarðabókin 1703.

Rétt við Réttarklif

Brekka

“Við höldum nú vestur að Stapa. Á þeirri leið eru réttir þeirra Vogamann, hlaðnar úr grjóti undir klapparholti nokkru. Þetta eru gömlu réttirnar á Suðurnesjum, og þangað kom fé úr öllum nálægum hreppum og margt fólk, meðan réttadagurinn var einn af hátíðardögum ársins. [Hún var staðsett  vestan undir klapparhól þar sem nú er fiskeldisstöðin. Grjótið úr henni var flutt í einhverjar fyllingar í Vogunum, líklega höfnina 1955-60. (SGG)].

Brekka

Skammt fyrir ofan er Suðurnesjavegurinn og liggur upp á Stapann sunnanverðan. [‘’Suðurnesjavegurinn’’ er  elsti Keflavíkurvegurinn (bíl-) sem lá þarna neðan við núverandi veginn suður á Stapa og sést en að hluta, byggður  1911-12.  Sá  lá svo upp Essið eins og alltaf var sagt. T.d. : ‘’Bíllinn er að koma niður Essið’’ (SGG)]. Við höldum gamla veginn, lá út með Stapanum, og verður þá brátt fyrir okkur dæld eða skarð í Stapann. Þetta er hið alkunna Reiðskarð, þar sem alfaravegurinn lá öldum saman, brattur nokkuð og stundum ófær á vetrum vegna fannkyngi í skarðinu. [Reiðskarð er fyrsta skarðið af fjórum á austurhluta Stapans. Hin eru Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Urðarskarð í þessari röð til vesturs.] Utan við skarðið hækkar Stapinn mjög, og með flóði fellur sjór þar upp að honum, svo ekki verður komizt nema klöngrast hátt í skriðum. Nú er fjara og leiðin greið.
Utan við þessa forvaða er svo komið að Hólmabúðum, sem eru Stapinngegnt Vogabæjunum. Þar eru háar og grýttar skriður á aðra hönd, með nokkrum grasgeirum á milli, en klettabelti efst í brúnum. Á hina höndina skagar nes út í víkina. Þetta er Hólminn, og hér hefir eflasut verið veiðistöð um margar aldir. Saga þeirrar er nú glötuð, nema hvað nokkuð er vitað um sögu Hólmans síðan um 1830-40, að hin svonefnda “anlegg” rís þar upp. En svo nefndu menn í daglegu tali hús þau, er Knudtzon lét reisa þarna, salthús og fisktökuhús. Knudtzon var aldrei kallaður annað en “grósserinn”.
Mjór tangi tengir Hólminn við land. Þar standa skrokkar af tveimur gömlum vélbátum og hallast hvor upp að öðrum í sameiginlegu umkomuleysi. Þetta voru einu sinni glæsilegar fleytur, sem drógu björg í þjóðarbú, en eru nú ekki annað en tvö útslitin hró, sem lokið hafa ætlunarverki sínu. Og á skeri þar rétt fyrir innan er ferlíki nokkurt, hálft í sjó og hálft uppi á skerinu [Langaskeri]. Þetta er einn af innrásarprjámum þeim, er bandamenn smíðuðu til að flytja á herlið sitt til Frakklands 1944.
En Hólmurhvernig stendur á því, að slíkt fartæki er komið hér inn á Vogavík? Sú er saga til þess, að Óskar heitinn Halldórsson keypti nokkra af þessum stóru prjámum eftir stríðið og lét draga þá hingað. Síðan hafa þeir allir, nema þessi eini, verið notaðir til hafnargerðar á þann hátt, að þeir hafa verið fylltir með steinsteypu og síðan sökkt sem steinkerjum, þar sem hafnargarðar hafa verið gerðir.

Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er það grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefir verið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefir verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verði eigi séð, hve mörg þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína þegar mjög hvasst var, svo að þá tæki ekki upp. Þessi rétt eða skýli hefir verið við lendinguna innan á Hólmi, en svo var önnur lending uan á honum. Seinustu útgerðarmenn þarna, meðan “anleggið” var, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík. Er talið, að þeir hafi haft þar 18 bata.

 

Prjámi

Seinasti “útlendingurinn”, sem gerði þarna út, var Haraldur Böðvarsson kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn, “Höfrung”, árið 1908 og gerði hann út frá Vestmannaeyjum á vertíð 1909. Þetta var ekki nema 8 tonna bátur, og Haraldi leizt ekki á að hafa hann þar. Og eftir að hafa athugað alla staði hé rnærlendis, taldi hann Hólmabúðir á Vogavík heppilegasta útgerðarstaðinn fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn, og þar mátti draga þá á land, ef þurfa þótti. Aðvísu var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en hann reisti þarna dálítið hús í félagi við annan útgerðarmann, og gerði síðan út þar í þrjú ár, eða þar til hann fluttist til Sandgerðis með útveg sinn. Tveir af kunnustu útvegsmönnum við Faxaflóa, Geir Zoëga og Haraldur Böðvarsson, byrjuðu því báðir útgerð sína í Vogunum.
Þurrabúð rís í Hólmi 1830. Bjarni Hannesson hét sá, er þar bjó fyrstur. Hann mun hafa dáið um 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, gftist síðan Guðmundi Eysteinssyni, er verið hafði vinnumaður hjá þeim, og voru þau í Hólmabúðum fram til 1848.
það er á þessu tímabili, að Knudyzon byrjar “anleggið” þarna. Mun hann hafa haft þar sérstaka afgreiðslumenn, en ekki hafa dvalizt þar nema tíma og tíma. Hólmabúðir munu þá hafa verið orðnar grasbýli. Leggur Knudtzon það undir sig, þegar Guðmundur fór þaðan, og fylgir það síðan stöðinni.
StapabúðÁrið 1850 kemur í Hólmabúðir Jón Snorrason dbrm. á Sölvahól í Reykjavík, og er hann fyrst nefndur verzlunarþjónn, en síðar verzlunarstjóri. Fær Jón þann vitnisburð, að hann sé “prýðilega að sér og gáfaður dánumaður”. Hann var þarna í sex ár. Næstur honum er Kristján Jónsson, og er hann þar í þrjú ár. Síðan er Guðmundur Magnússon þarna í eitt ár.
Árið 1860 koma þau þangað Jón Jonsson prentari, sem kenndur var við Stafn í Reykjavík, og kona hans Sólveig Ottadóttir, Guðmundssonar sýslumanns. Þau eru þar í þrjú ár. Þá tekur við Egill Ásmundsson, en næsta vetur hrapaði hann í Vogastapa og beið bana.
Árið 1864 koma svo Jón Breiðfjörð og Arndís Sigurðardóttir að Hólmabúðum, og var Jón forstjóri stöðvarinnar um 12 ára skeið. Á sama tíma rak hann einnig útgerð fyrir sjálfan sig, og var þarna oft 14 manns í heimili hjá þeim. Vorið 1876 fluttust þau svo að Brunnastöðum.
Næsti forstjóri Hólambúða var Stefán Valdimarsson Ottesen, og gendi hnn því starfi fram til 1882. Þá er mjög farið að draga úr útgerð þarna. Eftir það kom þangað Björn nokkur Guðnason og var þar til ársins 1898. Hann hefir sennilega verið seinasti störðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður, sem þar bjó, hét Elís Pétursson, og var hann þar aðeins árið. Síðan fara engar sögur af stöðinni, og munu húsin hafa verið rifin um aldamót [1900].
StapabúðÁ undirlendinu meðfram Stapanum eru rústir af tveimur býlum, sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka. Þetta býli reisti Guðmundur Eysteinsson, er hann fór frá Hólmabúðum 1848, og bjó hann þar fram til 1861. Síðan eru þar nokkrir ábúendur skamma hríð, en 1869 flyzt þangað Guðmundur Jónsson og bjó þar í full 30 ár  og hafði húsmennskufólk á vegum sínum. Árið 1899 koma þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex uppkomnum börnum sínum. Pétur bjó þana til dauðadags 1916, og var þar þá oft mannmargt. Síðan bjó ekkja hans þar eitt ár, en þá tók við búinu tengdasonur hennar, Magnús Eyjólfsson, og bjó þar fram um 1930, en hafði þó býlið undir miklu lengur. Á Brekku stendur enn stofuveggurinn, hlaðinn forkunnarvel úr grjóti.
ÁrtalssteinnKippkorn utar eru rústir hins býlisins, en það hét Stapabúð. Þar reisti fyrst Jóhannes nokkur Guðmundsson 1872 og bjó þar tvö ár. Næsti ábúandi, Pétur Andrésson, bjó þar þrjú ár. Þá fluttist þangað ekkja, Herdís Hannesdóttir, ásamt 4 börnum sínum og bjó þar til 1885. Seinustu árin bjó þar á móti henni tengdasonur hennar, Eiríkur Eiríksson, sem var kvæntur Guðlaugu Helgadóttur. Eftir það koma þangað hjón, er bjuggu það aðeins árið. En síaðn flytjast þangað Jón Jónsson og Kristín Illugadóttir og búa þar til ársins 1896. Þegar þau fluttust þaðan, lagðist Stapabúð í eyði, en bóndinn á Brekku mun hafa nytjað tún það, sem þar hafði verið ræktað og mun hafa verið um kýrfóðursvöllur. Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera, að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því útræði var hér og á Brekku áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farð var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1820-1840.

 

Kerlingabúð

Enn utar með Stapanum eru hinar svonefndu Kerlingabúðir. Þar hefir aldrei verið neitt býli, heldur aðeins sjóbúð og sést nú lítið af þeim, því að sjór hefir brotið þær að mestu leyti.
[Um Kerlingabúðir segir sagan: “Kerlingabúðir heita gamlar verbúðatóftir undir Vogastapa, við endann á Rauðastíg. Þar voru einhvern tíma einhverjir aðkomusjómenn. Sagt er, að drengur hafi komið til þeirra og beiðzt gistingar, og var hún föl. En til drengsins spurðist aldrei síðan. Var það almannrómur, að sjómennirnir hafi drepið hann og haft líkamann til beitu.
Ekki er kunnugt, hvers vegna þarna kallast Kerlingabúðir, en sagan segir, að sjómenn þessir hafi einu sinni haft hlutakonu eða fanggæzlu, og farið með hana eins og drenginn – (B.H.).
StapabúðÖnnur saga segir: “Kerlingarbúðir heita svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri. Þannig hefndi kerling þessa verknaðar (heimild: örnefnaskrá).]
Hérna undir Vogastapa, þar sem nú eru aðeins gamlar rústir, hefir sjálfsagt verið mikil verstöð fyrrum, jafnvel frá Hrolleifs dögum, því að hér hefir hagað enn betur til um sjósókn heldur en á Gufuskálum, þar sem Steinunn gamla ákvað að vera skyldi vermannastöð frá Hólmi í Leiru. Vermenn hafa átt hér búðir öldum saman, þó að þeirra sjáist nú engar minjar. Sumar hefir sjórinn tekið, en aðrar hafa breytzt með tímanum og grjótið úr þeim notað í nýjar byggingar. Hér hafa verið góðri lendingarstaðir, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, og sjaldan brást afli undir Stapanum. Eftir að fyrstu, litlu vélbátarnir komu, var gott vetrarlægi fyrir þá innan við Hólminn. En þegar stóru vélbátarnir komu, þár var þar ekki lengur griðastaður og þá varð að gera höfn og hafnagerð.

Heimild:
-Árni Óla, Strönd og Vogar, 1961.

Hólmabúð

Hólmur

Sunnan Suðurár, í lágu grasigrónu dalverpi, er tóft; lítið hús með heillegum hlöðnum veggjum. Dyr snúa á móti suðsuðvestri. Við hlið hússins eru og grónar hleðslur. Ekkert þak er á húsinu og ekkert timburverk að sjá við steinhleðslurnar. Framan við húsið er lítið skilti frá Minjavernd Reykjavíkur; friðlýstar minjar.
Holmur - athvarfAð sjá virðist húsið alls ekki vera svo gamalt og því svolítil ráðgáta, sem vert væri að leysa. Dyrnar eru við annan langvegginn er bent gæti til að þarna hafi verið um einhvers konar athvarf eða sæluhús að ræða.
Handan árinnar, á Hólminum norðan Suðurár, standa nú nokkrir hrörlegir sumarbústaðir, byggðir á stríðsárunum af fólki, sem vildi geta flúið hugsanlegar loftárásir á Reykjavík og nágrannabyggðir.
Í Hólmi bjuggu Valgerður Guðmundsdóttir og Eggert Norðdahl bóndi. Þeirra börn voru: Karl Norðdahl bóndi á Hólmi. Hann átti Salbjörgu Norðdahl og nokkur börn.
Þegar Valur Þór Norðdahl, sem uppalinn er á Hólmi og þekkir þar vel til, var spurður um framangreindar tóftir svaraði hann: “Þeir komu einhverju sinni frá Minjaverndinni og merktu þær sem fornleifar og það er svo sem allt í lagi. En kofa þennan hlóð Birna Nordahl í Bakkakoti árið 1980. Hún var hálfsystir pabba.
BirnaBirna tjaldaði yfir veggina og ætlaði að hafa þarna athvarf þegar hún var að mála. En starfsmenn Vatnsverndarinnar töldu að hún væri hættulega nærri Gvendarbrunnunum og flæmdu hana þaðan í burtu. Eftir standa veggirnir.”
Í Bakkakoti, sem er norðaustan Hólms, norðan Hólmsár, bjó þá Birna Norðdahl, húsfreyja, ekkja eftir Ólaf Þórarinsson bakarameistara. Birna Eggertsdóttir Norðdahl fæddist í Hólmi í Reykjavíkursókn í Kjósarsýslu 30. mars 1919. Hún lést á Akranesi 8. febrúar 2004. Birna var skákfrumkvöðull kvenna hér á landi. Hún tefldi  m.a. á Ólympíumótunum í Argentínu 1978 og Möltu 1980. Birna bjó lengst af í Bakkakoti. Hún var mjög handlagin og smíðaði mikið, skar út, málaði myndir, teiknaði og keypti sér t.d. rennibekk og renndi marga fallega muni.

Heimild m.a.:
-Valur Þór Norðdahl.

Helluvatn

Örnefni eru ekki bara örnefni. Þau geta einnig verið rangnefni í minni annarra er telja sig veita betur. Örnefni eiga það nefnilega til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Fólk flytur á brott og nýtt flytur að. Örnefni skráð á einum tíma af tilteknum aðila haft eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu frá upphafi né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála.

Í Morgunblaðinu í maí 1957 er grein; “Svipast um eftir sumrinu”, á bls. 5.:

“Sumrinu hefur dvalizt á leið sinni til Reykjavíkur. Tré standa nakin í görðum og knattspyrnuvellir nýorðnir færir.

Svipast um eftir sumrinu

Mynd með meðfylgjandi grein í Mbl.

Fréttamenn Morgunblaðsins ákváðu þess vegna að leggja land undir fót og svipast um eftir fyrsta þætti sumarsins. Ekki höfðu þeir lengi farið er vestanblærinn og fuglar sungu. Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru ung svanahjón á sundi og fögnuðu blíðunni. Þau voru feimin við gestkomuna, litust á, hófu sig af pollinum og flugu hratt til heiða.
Hretleifar í Hengli blikuðu í sólskini og bliknuðu. Skýjaslitur hurfu hvert af öðru austur fyrir fjall. Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá. Fiskurinn var latur í birtunni og sinnti ekki táli. Það lagast með kvöldinu.
Árið er stór sólarhringur. Á morgni þess vaknar landið, skríður undan hvítum næturfeldi og klæðist gróðri, fuglum og ferðamönnum.
Fólkið í landinu hristir af sér skammdegisdrungann og fyllist verkmóði og lífsgleði á ný. Borgarbúar fara um helgar að dytta að sumarhreiðrinu síðan í fyrra eins og maríuerlan. Fátt bragðast þeim ljúfar en bröndur, sem þeir hafa veitt sjálfir, soðnar á primus uppi í hrauni og étnar með jurtum úr eigin garði. Lömbin fylgja sumrinu. Þau brölta klaufalega umhverfis mæður sínar, þegar nálin birtist í túnum, dafna með henni, verða stríðin og státa og hlaupa spretti í hóp um á lygnum síðkvöldum.
Þegar sumri lýkur eru þau ekki lengur lömb, þau eru vísast vaxin mæðrum sínum yfir höfuð. Þá fáum við dilka kjöt og sultu.
Engir fagna sumrinu jafnmjög og nautgipir. Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur vetrarins taka á rás eftir gljúpum túnum og vita halar upp. Kálfar, sem aldrei hafa séð víðari veröld en fjósið, staðnæmast ráðvana og litast um áður en þeir hlaupa í fyrsta sinn. Eftir nokkra stund róast hópurinn og fer að bíta sinuvafinn nýgræðing.
Skuggar teygjast í austur þegar fréttamenn komu þreyttir úr sumarleit sinni. Þeir höfðu erindi sem erfiði.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Í Morgunblaðinu í júní 1967 skrifaði Rg eftirfarandi í velvakanda, í framhaldi af framangreindri grein, undir fyrirsögninni “Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum”: “Í Morgunblaðinu í dag (11. maí) er á 5. síðu efst mynd af á og tveim lömbum hennar, sem horfa upp yfir skilrúm í kró. Undir er svo smágrein: „Svipast um eftir sumrinu”. Þar standa eftirfarandi setningarhlutar, sem ég gjarna ætla að gjöra við smá athugasemdir höfundi til athugunar, en þó aðallega honum og öðrum, sem lesa kunna þessi orð mín, til umhugsunar eftirleiðis og fróðleiks.
Því bæti ég við einu málfræðilegu hugtaksatriði, sem ég hjó eftir í upphafi greinar í fylgiriti, er lá innan í Morgunblaðinu. Þetta eru athugunarklausur mínar. Eru þær merktar bókstöfum a) til c). — Þær gefa aðallega tilefni til að skjalfesta til athugunar nokkur örnefni og notkun fárra orða og hugtaka.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

a) „Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru…svanahjón”. Eftir þessum orðum að dæma (og framhaldi þeirra) virðist greinarhöfundur hafa skroppið suður yfir Bugðu á brúninni, sem setuliðið — hér á árunum eftir 1940 — lagði yfir ána af Tryppanefsoddanum, og þá um leið veginn beggja vegna að brúnnni, og fluttu síðan eftir vegi og brú Rauðhólana burtu. (Því að nú er aðeins lítill hluti eftir af Rauðhólunum eins og þeir voru frá náttúruinnar hendi). Brú þessi er handriðalaus hleri, en slíkar trébrýr yfir smáár, læki og vegaræsi voru á áratugunum í kringum síðustu aldamót, nefndar: „hlemmur”. (Þaðan er nafnið: Hlemmtorg neðan við Laugarveginn, þar sem Rauðaráin féll niður áður en hún var leidd í rör neðanjarðar, því á henni var „hlemmur” þar sem Laugavegurinn lá yfir ána (lækinn réttara).
Verið getur að „litla tjörnin”, sem höf. nefnir þarna, sé Hrauntúnsvatn, nema um smátjörn, nánast vorleysingapoll sé að ræða, en af þeim er venjulega töluvert þarna í Hólmsengjunum um þetta leyti árs og lengi fram – eftir, því alfestaðar er hraun undir.

Hrauntún

Hrauntúnsvatn – minjar eru við vatnið miðsvæðis.

Hrauntúnsvatn (Hrauntún mun hafa verið þarna — um eitthvert skeið — smáhjáleiga frá Hólmi) er stærst af vötnunum þarna og liggur rétt suður af austurenda Rauðhólanna. Í vatnið, og áður gegnum Helluvatn, rennur Suðurá (nafngift frá Hólmi). Hún kemur austan og ofan fyrir Silungapoll, og með afrennsli úr honum. Það kom einnig með vatnsmagnið úr Gvendarbrunnum áður en það var gert að neyzluvatni. Reykvík (ekki „vis”) inga, (sbr.: Reykvískur). Aðeins sunnan við Hrauntúnsvatn er Kirkjuhólmatjörn hjá Jaðri í Heiðmörk. Vatnsmagn það, er rann úr þessum vötnum, myndaði nokkuð vatnsmikla á, er hét „Dimma” og fellur hún í Elliðavatn. Brúin á veginum að bænum Elliðavatni, að Jaðri og þeim megin í Heiðmörk, er yfir Dimmu. En nú er venjulega haft svo hátt í Elliðavatni (Rafmagnsupphitaða stífla), að árinnar gætir ekki.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

b) „Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá”. Hvorki af þessum orðum höf. né þeim, er á undan standa eða á eftir koma er hægt að sjá hvar þetta var. Þarna nálægt Rauðhólunum er engin á, sem heitir Hólmsá — réttu nafni. En norðan við hólana og fast norðan við túnið á bænum Hólmi rennur áin Bugða, sem ég hef nefnt hér á undan, og sem með einni af þeim óteljandi bugðum myndar Tryppanefið áður nefnda. — Áin er ekki löng. Hún var aðeins um 10 km. áður en Rafmagnsuppistöðustíflan var gerð fyrir neðan Elliðavatn, en við það var Bugða leidd inn í lónið, nú Elliðavatn, um tveim km. ofar.
Bugða myndast af tveimur vatnsföllum: Fossvallaá, sem kemur alla leið austan undan Hengilfjöllunum, af Bolavöllum og víðar og fellur vestur og niður milli bæjanna Lækjarbotna í Seltjarnarnesshreppi, og Elliðakots í Mosfellssveit, síðast um skeið í tveimur kvíslum og rennur sú nyrðri í gegn um Nátthagavatn, lítið vatn skammt sunnan við túnið að Elliðakoti. Í einum farvegi mætir hún þó Selvatnslæk (öðru nafni: Selvatns-ÓS) beint norður af Neðrahraunsnefinu fyrir neðan Lækjarbotna, — en vestan í og á Neðra-Hrautjarnnefinu er nýbýlið (frá um 1925) Gunnarshólmi. — Um 2 km. neðar var vað á Bugðu, þar lá Suðurlands(Austurlands-) vegurinn yfir ána. Þeir ferðamenn, sem komu austan yfir „Heiði” og ætluðu til Reykjavíkur, Bessastaða, Hafnarfjarðar og Suðurnesja, sáu aðeins einn bæ nokkurn spöl neðar með ánni:
Hólm. Vaðið var því nefnt: Hólmsvað á Bugðu. En flestir létu sér nægja að segja aðeins: Hólmsá. Þannig er þetta ranga nafn komið inn í málið, og hefur því líka verið klínt inn á kortin. Brúin, sem vegurinn liggur nú um, var gerð á ána fast ofan við vaðið og sér enn fyrir vaðinu á árbökkunum beggja vegna. Neðri endi (ós) Bugðu mætti Dimmu þar neðan við er hún féll aftur úr Elliðavatni, rétt suður af suðurenda slakkans, sem liggur suður frá skörpu beygjunni á Rauðavatni, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshlykkinn. Þar, sem árnar komu saman, stendur enn dálítil hraunstrýta; heitir hún Hólmaskyggnir. Er þar nú sumarbústaður og hafa verið gerðir stallar neðst um skyggninn og plantað í stallana. Það er vatnsmagin Dimmu og Bugðu, sem þarna myndar Elliðaárnar. Þarna féllu þær strax fram í tveimur kvíslum þegar ekki var sáralítið vatn í ánum, en þó aðalkvíslin að suðvestan. Sléttlendið, — upp gróið hraun, — á milli kvíslanna, heitir: Vatnsendahólmar; þaðan er nafnið á Hólmaskyggni. Rangnefnið á Bugðu mun líklega reynast nokkuð lífseigt eins og títt er um margar málvitleysur og drauga. En fáir munu veita því athygli að áin sýnir og skrifar sjálf með rennsli sínu að hún heitir Bugða.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

c) „Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur (auðkennt hér) vetrarins”. Segið mér! Hefur nokkur séð kýr sitja? Ég man ekki til þess að ég hafi nokkru sinni séð kýr eða aðrar nautkindur sitja á rassinum — ótilneyddar. Man ekki betur en að þær leggist niður með því að krjúpa á kné framfóta og láti síðan afturhlutan hníga á eftir níður á aðrahvora hliðina. Og upp minnir mig að þær rísi aftur með afturhlutan á undan. Minnir að hitt sé undantekning og þá af einhverjum sérstökum ástæðum. Nei, Ég held að „kyrrsetakreppa” (Stgr. Th.) mannfólksins eigi ekki við um húsdýrin — eða dýr yfirleitt — heldur kyrrstöðu stirðnun (sem kallað var: innistaða) vetrarins, og sé kyrrstaðan sízt betri, er til lengdar lætur. Munu ýmsir menn, bæði karlar og konur, geta um það borið, þeir er mikið verða að vinna standandi, — t.d. prentararnir, handsetjararnir við leturkassanna.
Þá vil ég loks benda á eitt orðatiltæki, sem ég aldrei get fellt mig við, en sem mikið kveður að bæði í ræðu og riti, og líklega hjá þorra manna, því að það mun vera orðið gamalt í málinu okkar. Eitt af því marga, sem við höfum látið okkur sæma að apa hugsunarlaust, og að óþörfu, eftir Dönum. Sannast hér sem jafnan að „auðlærð er ill danska”, og það bókstaflega.
Ég tek þetta hér með af því að ég hnaut um þetta orðatiltæki strax í annarri línu og efst á síðu í fjórblöðungi, er lá innan í Morgunbl. í dag (11/5) — (í réttri íslenzkri merkingu, en ekki í ensku merkingunni: today, sem flestir virðast nú hafa gleypt til notkunar bæði í ræðu og riti, íslenzku máli til stórskemmda af því að íslenzkan: „í dag” þýðir alveg bundinn tíma, en ekki lítt takmarkaðan tíma, bæði fram og aftur, eins og enskan: „today” gerir).
Orðatiltækið er: „menn og konur. ” Seg mér (og öðrum) hver þú, sem geitur: Hvaða dýrategund eru konurnar fyrst að taka þarf fram svona skýrt að þær séu ekki menn?
Ég þarf ekki að skrifa meira um þetta. Hver einasti heilvita og hugsandi maður, hvort sem er karl eða kona (orðin: karl þýðir ekki gamal karlmaður og kona þýðir ekki aðeins gift kona, slíkt eru síðari tíma rangtúlkanir orðanna) getur svarað spurningunni sjálfur rétt, ef hann aðeins vill hugsa út fyrir áunnin vanatakmörk, sem eru í raun og veru heimska.”
Vinsamlegast,
Rg”.

Í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar skrifar Karl E. Norðdahl, bóndi á Hólmi athugasemdir við áður fram komnar athugsasemdir undir fyrirsögninni “Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm”:
„Velvakandi!

Hólmur

Hólmur – Karl E. Norðdahl lengst til hægri.

Í dálkum þínum fimmtudaginn 15. júní sl. er birt langt bréf frá bréfritara, sem nefnir sig Rg., og ber það yfirskriftina „Litazt um eftir réttu máli (íslenzku) og réttum örnefnum.” Tilefni ritsmíðar Rg. er smágrein, sem birtist í Mbl. 11. maí sl. Rg. hefur fundið sig knúinn til að „fræða” höfund þeirrar greinar sem og aðra lesendur Mbl. um ýmis örnefni umhverfis Hólm og gengur honum vafalaust gott eitt til. Því miður hefur Rg. þó ekki ekkert betur til en svo, að óhjákvæmilegt er að leiðrétta fjölmörg atriði í grein hans.
Nafnið Hólmsá er mjög gamalt. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá, þar sem núverandi Hólmsárbrú er (og þjóðvegur austur fyrir fjall). Þá brú, sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888, sbr. Árferði Íslands í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur. Fossvallaá, sem Rg. talar um er nú ekki nema nafnið eitt.
Fyrir 1920 rann hún meiri hluta ársins en undanfarna áratugi hefur hún verið þurr nærri allt árið, rennur aðeins í stórleysingum.” Upptök Fossvallaárinnar (hún hét reyndar Lyklafellsá austan Fóelluvatna) voru í Engidal og Marardal í Hengli (ekki á Bolavöllum) og heitir hún þar Mará. Sú á hverfur í jörð á Norðurvöllum.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Rg. talar um Selvatnslæk (öðru nafni Selvatnsós). Þau örnefni eru ekki til og hafa aldrei verið það. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur. Þaðan rennur Hólmsá norðan við bæinn Gunnarshólma (hann var byggður 1928) undir Hólmsárbrú suður um Heiðartagl. Þar féll Ármótakvísl (stífluð 1961) úr Hólmsá í Suðurá. Hólmsá fellur síðan sem leið liggur vestur með þjóðveginum norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá, ekki Bugða, allt vestur á móts við Baldurshaga. Síðan heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða þar til hún fellur í Rafveitulónið. Nafnið Bugða á þessum hluta árinnar var notað af ábúendum Elliðavatns og Grafar (Grafarholts). Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá og lagði veg af Suðurlandsvegi í Rauðhóla árið 1926, ekki „setuliðið hér á árunum eftir 1940″, eins og greinarhöfundur Rg. kemst að orði.
Rg. talar um vað á Hólmsá (eða Bugðu, eins og komizt er að orði) fast neðan við núverandi Hólmsárbrú, og að þar hafi þjóðleiðin áður legið. Þetta er rangt. Þarna befur aldrei verið vað. Þjóðleiðin lá hér áður fyrr yfir Ármótakvísl, sunnan við bæinn Hólm og yfir Hólmsá um 1/2 km neðan við Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Hraunsnef er aðeins eitt, ekki tvö eins og greinarhöfundur telur. Í Silungapoll fellur Hraunlækur að norðan og kem ur upp í Hraunsnefi. Úr Silungapolli fellur Silungapollsá sunnan við Höfuðleðurhól, jökulnúna grágrýtisklettaborg. Silungapollsá sameinast Ármótakvísl við Ármót og heitir eftir það Suðurá. Stóra tjörnin vestur af Gvendarbrunnum heitir Hrauntúnsvatn og því síður Helluvatn eins og Rg. talar um. Helluvatn er vatnið sunnan Rauðhóla. Segja má að Rg. sé nokkur vorkunn að rugla saman örnefnunum Hrauntúnstjörn og Helluvatni, þar sem nafnavíxl hafa orðið á þessum vötnum á herforingjaráðskortinu frá 1908 af þessu svæði. Og enn gengur þessi sama vitleysa aftur á endurskoðuðu korti Landmœlinga Íslands frá útgefnu korti 1966 (blað 27, mælikvarði 1:100000). Má því segja, að erfiðlega ætli að ganga að kveða þennan draug niður. Suðurá féll áður í Hrauntúnstjörn í tveimur kvíslum um Hrauntúnshólma. Sunnan Hrauntúnstjarnar má enn sjá tóftarbrot af eyðibýlinu Hrauntúni. Úr Hrauntúnstjörn féll Krikjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmaá til suðvesturs í Kirkjuhólmatjörn og þaðan í norðvestur í Helluvatn. Á milli þessara kvísla er Kirkjuhólmi.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Helluvatn (suður af Rauðhólum) dregur nafn af Hellunni, sléttri hraunklöpp í Helluvaði, sem er neðst í Kirkjuhólmaá. Þar sem sú á fellur í Helluvatn, er mjög djúpur
hylur (um 4:—5 faðmar á dýpt) og heitir Helluvatnsker eða Kerið, kunnur veiðistaður. Vatnsveita Reykjavíkur hefur nú „lokað” Hrauntúnstjörn og hefur hún hvorki að- né frárennsli. Hefur Suðurá nú venð veitt beint í Helluvatn, Áin, sem fellur úr Helluvatni í Elliðavatn heitir alls ekki Dimma eins og Rg. heldur fram og hefur aldrei heitið, heldur Elliðavatnsáll oftast nær kölluð aðeins Állinn. Yfir hann liggur brú af Sundholti og þaðan vegur í Heiðmörk. Áður fyrr voru vötnin tvö, Elliðavatn og Vatnsendavatn. Tanginn Þingnes (nú eyja) skipti þeim að sunnan. Úr Vatnsendavatni féll Dimma og dró nafn af djúpum og dökkum hyljum. Nú er þetta breytt. Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur gert stíflu þvert yfir Elliðavatnsengjar og báðar árnar (Dimmu og Bugðu) og myndað eitt stórt stöðuvatn núverandi Elliðavatn.
Greinarhöfundur Rg. virðist ekki vita, að slakkinn frá Rauðavatni til suðurs, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshornið, heitir Margróf (það ðrnefni vantar rcyndar einnig á kort af Reykjavík og nágrenni, sem út kom í fyrra) og hann talar um dálitla hraunstrýtu með nafninu Hólmaskyggnir þar, sem árnar komu saman. Ekki er þetta hraunstrýta, heldur melhóll, og nafnið mun vera Vatnsendaskyggnir, en ekki Hólmaskyggnir.
Mun nú látið staðar numið að sinni, en margt er enn ósagt um örnefni á þessum slóðum.”
Með þökk fyrir birtinguna.” – Karl E. Norðdahl – Hólmi.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 133. tbl. 15.06.1967, Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum, Rg, bls. 4.
-Morgunblaðið, 143. tbl. 29.06.1967, Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm – Karl E. Norðdahl, bls. 4.
-Morgunblaðið, 104. tbl. 11. 05. 1957, Svipast um eftir sumrinu, bls. 5.

Hrauntúnstjörn

Hrauntúnstjörn – minjar.

Leira

Njáll Benediktsson skrifar um “Fyrsta íbúann á Suðurnesjum” í Faxa árið 1989:

Steinunn gamla

Skáli.

“Það er haft fyrir satt, að Steinunn gamla frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns hafi verið fyrsti íbúi á Suðurnesjum. Ingólfur nam land í Reykjavík árið 874. Ingólfur helgaði sér allt land norðan vatna. Ingólfur vildi gefa Steinunni gömlu frændkonu sinni allt land frá Hvassahrauni og suður, norðan megin við Faxaflóa, en Steinunn vildi heldur gera við Ingólf kaup. Taldi slíkt haldbetra er fram liði og borgaði skagann með hlut, sem „flekka” var nefnd. Enginn veit með vissu hvað þessi hlutur var. Kannski var þetta vaðmálsflík eða prjónaflík? Það má geta þess að formenn notuð höfuðfat, sem náði yfir allt höfuðið og niður á herðar. Það voru aðeins göt fyrir augu, nef og munn. Þetta var kallað „flekka”. Svo breyttust þessar höfuöflíkur og allt andlitið kom fram, þá var farið að kalla þessar höfuðflíkur hettur og síðar lambhúshettur. Steinunn gamla mun hafa byggt sér skála á Steinum í Leiru, sem síðar hét Hólmur og enn síðar Stóri-Hólmur.

Steinunn gamla

Steinunn gamla.

Steinunn gamla var dugmikil kona. Hún hafði fyrstu verstöð við Faxaflóa. Að vísu var hún búin að leyfa Katli gufu Örlaugssyni að byggja skála að Gufuskálum í Leiru og hafði hann þaðan útræði í tvo vetur.
Steinunn gamla vildi koma Katli gufu í burtu og fékk Ingólf frænda sinn í lið með sér. Fór þá Ketill inn í Gufunes við Reykjavík og síðar upp í Gufudal. Sennilega hafði Ketill gufa Örlygsson útræði á Gufuskálum á Snæfellsnesi. En Steinunn gamla hélt sinni verstöð við Faxaflóa.
Steinunn gamla var gift kona, þegar hún kom til íslands. Maður hennar hét Herlaugur Kveldúlfsson. Hann var bróðir Skallagríms Kveldúlfssonar. Herlaugur kom aldrei til íslands. Hann fórst í víking við England, eins og það var kallað.
Steinar í Leiru
Herlaugur og Steinunn gamla áttu tvo syni, sem vitað er um, annar hét Arnór og hinn hét Njáll. Sennilega hafa þessir bræður komið til Íslands þó ekki sé hægt að finna hvar þeir bjuggu. Það er eins og það vanti heila öld á spjöld sögunnar, frá 930-1030. Það er eins og eldgos hafi geisað á þessari öld á Suðurnesjum, sem valdið hafi mengun og mannflótta þaðan. Ég hefi verið að velta því fyrir mér hvort það gæti staðist, að Njáll Herlaugsson hafi getað átt son á Íslandi, sem skírður var Þorgeir og þessi Þorgeir hafi svo átt son, sem skírður var Njáll og þar sé kominn Njáll Þorgeirsson fyrrum bóndi að Bergþórshvoli í Landeyjum. Með vissu vitum við það, að Njáll bóndi á Bergþórshvoli var fæddur árið 935. Hann kafnaði inni í brunanum á Bergþórshvoli árið 1010, þá 75 ára gamall. Njáll var oft ráðagóður. Hann ætlaði að bjarga sér og Bergþóru konu sinni og breiddi yfir þau skinnhúðir. Ætlaði að verja þau fyrir hita á meðan bærinn brann. En þar feilaði Njáli. Það vantaði loft undir húðirnar, þess vegna fór sem fór.

Leiran

Kannski er nú allt þetta draumarugl, sem ekki hefur við nein rök að styðjast.
Eitt er víst, Suðurnesjamenn góðir, að það er kominn tími til þess, að reisa Steinunni gömlu minnisvarða og staðsetja hann á klöppunum fyrir ofan Steina í Leiru. Gerðahreppur á býlið Steina. Það ætti að vera auðvelt aö fá lóð undir styttuna. Nú á þessu ári 1989 ættu Njarðvíkurbær, Keflavíkurbær og Gerðahreppur að sameinast um að reisa Steinunni gömlu minnisvarða.” – Garði 20. apríl 1989; Njáll Benediktsson.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.04.1989, Fyrsti íbúi á Suðurnesjum, Náll Benediktsson, bls. 120-121.

Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Suðurlandsvegur

Hólmsá er í og ofan við Reykjavík. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur og áin rennur í Elliðavatn og heitir þá Bugða. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá á þjóðveginum austur fyrir fjall. Sú brú sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin er mörkuð í hraunhelluna.

Hólmsá rennur fyrir norðan við bæinnn Gunnarshólma undir Hólmsábrú suður um Heiðartagl. Þar fellur kvíslin Ármótakvísl úr Hólmsá í Suðurá en Hólmsá norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá þangað til hún er til móts við Baldurshaga en þá heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða. Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá árið 1926 og lagði veg frá Suðurlandsvegi í Rauðhóla. Fyrrum lá leiðin upp frá Árbæ, með Selási og sunnan Hólms þar sem hún greindist í tvennt skammt austar; annars vegar í Austurleiðir upp frá Elliðakoti að Lyklafelli norðan og sunnan þess og áfram um Hellisskarð og hins vegar um Lækjarbotna upp í Öldur þar sem sú leið greindist annars vegar inn með Svínahraunsbruna að Hellisskarði þar sem hún sameinaðist Austurleiðunum og hins vegar inn á Ólafsskarðsveg. Þessar götur sjást enn greinilega, einkum sporið á hellunni suðaustan Hólms.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin.

Vagnvegur var lagður frá Öldum um Klifheiði og suður fyrir Rauðavatn árið 1887. Þá var brú sett á vað yfir Hólmsá, en hún entist stutt. Vestan og ofan við vaðið er klappað í klöpp ártal (18?7) og nafn (Ágúst), líklega frá þeim tíma er vagnvegurinn var lagður þar árið 1887.

Brúin yfir Hólmsá var byggð samhliða veglagningu 1887. Hún var strax nefnd Rauða brúin vegna litarins. Árið 1888 tók brúna af í miklum vetrarflóðum. Hún var síðan endurnýjuð 1926. Gamla brúin var 18 álnir á lengd og voru 4 álnir upp í hana venjulega. Stöplarnir voru steinhlaðnir og skemmdust þegar brúna tók af í flóðunum. Brúin var brotin niður en hluta af stöplum hennar er að finna um 45 m vestan ár.
Suðurlandsvegur var lagður að grunni til (vagnvegurinn) árið 1886, í landi Geitháls. Grunnur gamla vegarins er enn sjáanlegur, þ.e.a.s. frá bæjarstæði Geitháls að Hólmsá. Vegurinn var upphaflega lagður 10 fet á breidd (3,13 m). Snemma á 20. öld var vegurinn breikkaður og aðlagaður að bílaumferð.

Suðurlandsvegur

Vaðið á Hólmsá. Letrið neðst.

Í Ísafold 1888 er fjallað um “Veginn nýja”, sem Norðmennirnir hafa verið við 2 sumur undanfarin, frá Fóelluvötnum niður í Reykjavík, og kominð var í haust nærri niður undir Hólm, með 18 álna brú yfir Hólmsá, hefir skemmzt stórkostlega í leysingunum vikuna sem leið, og brúna tekið af ánni aðfaranótt hins ll. Skemmdirnar eru mestar á hólmunum upp frá brúarstæðinu, og sömuleiðis mjög miklar upp á Sandskeiði : stórt haf brotið í brúna yfir það og klofinn frá annar jaðarinn vegarins þar á löngu bili. Nánari skýrsla um þetta ljóta áfall, sem líklega nemur 7—8000 kr. skaða, verður að bíða næsta blaðs.

Suðurlandsvegur

Áletrið við Hólmsá; 18?7 – Ágúst.

Þá segir undir fyrirsögninni “Skemmdir af vatnavöxtum”: Skemmdirnar á norska veginum*, milli Svínahrauns og Hólmsár, hafa þó ekki orðið eins miklar og fyrst var látið, þótt ærnar sjeu. Fyrst eru nokkrar skemmdir á Öldunum fyrir ofan Sandskeiðið. Svo er á Sandskeiðinu grafið skarð í veginn við efstu brúna og austurkampurinn undir henni fallinn, en brúin á því miðju öll á burt og vegurinn þar horfinn á 18 föðmum; enn fremur grafið djúpt ker ofan í gegnum hann neðst á skeiðinu, og loks jetin skörð inn í hann hingað og þangað að ofanverðu, til þriðjunga eða helminga inn í hann. Þá eru litlar skemmdir þaðan ofan að Lækjarbotnum. Hjá Lækjarbotnum hefir áin meðal annars numið burta vegiun á 20 faðma bili og brotið vesturkampinn undir brúnni þar.

Suðurlandsvegur

Letrið.

Fyrir neðan brúna er vegurinn gjörsamlega sópaður burtu ofan í klappir á löngu færi; við Hraunsnefið efra 3 faðma skarð í veginn; brotinn annar kampurinn af brúnni þar, en hinn hangir; og að öðru leyti talsverðar skemmdir á veginn um allt niður að aðalbrúarstæðinu á Hólmsá, en brúin yfir hana, 18 álna löng og 4 álna hátt yfir vatnið venjulega, öll á burtu, og kamparnir (rammgjörvir) skemmdir til muna: efsta lagið raskað á vesturstöplinum og hornsteinar í öðru, en 2 steinalögin efstu í þeim eystri mjög skemmd, og nokkuð neðar. Brúin sjálf í tvennu lagi: þriðjungur af henni rjett fyrir neðan brúarstæðið, en hitt langar leiðir niðar betur. Guðm. bóndi Magnússon í Elliðakoti, er þetta er haft mest eptir, samkvæmt skýrslu hans til amtmanns, með hliðsjón á skýrslu annara skoðunarmanna, fullyrðir, að 1871 hafi komið fullt eins mikið flóð í á þessa, og 1885 annað nokkuð minna.
— Í Ölvesá kom líka feiknaflóð í sömu leysingunni; hún flóði yfir mikið af Kaldaðarneshverfi í Flóa, bæði fjenaðarbús og bæi; allt fjeð á einum bænum, Lambastöðum, drukknaði í fjárhúsinu (30 kindur).

Auðvelt er að fylgja framangreindum leiðum milli byggðalaga vestra og eystra, utan elstu leiðarinnar sem hverfur í gróður og umhverfisspjöll vestan við Hólm.

Heimildir:
Morgunblaðið, 143. tölublað (29.06.1967), bls. 4.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson. “Elliðavatnsheiði og Hólmar“, 208.
-Ísafold 18. og 23. janúar 1888, 11, 15 og 16.
-Ísafold 24. ágúst 1926.
-Magnús Grímsson. „Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi“, 93.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin upp frá Reykjavík til austurs (blá brotalína).

Hólmur