Hólmur

Sunnan Suðurár, í lágu grasigrónu dalverpi, er tóft; lítið hús með heillegum hlöðnum veggjum. Dyr snúa á móti suðsuðvestri. Við hlið hússins eru og grónar hleðslur. Ekkert þak er á húsinu og ekkert timburverk að sjá við steinhleðslurnar. Framan við húsið er lítið skilti frá Minjavernd Reykjavíkur; friðlýstar minjar.
Holmur - athvarfAð sjá virðist húsið alls ekki vera svo gamalt og því svolítil ráðgáta, sem vert væri að leysa. Dyrnar eru við annan langvegginn er bent gæti til að þarna hafi verið um einhvers konar athvarf eða sæluhús að ræða.
Handan árinnar, á Hólminum norðan Suðurár, standa nú nokkrir hrörlegir sumarbústaðir, byggðir á stríðsárunum af fólki, sem vildi geta flúið hugsanlegar loftárásir á Reykjavík og nágrannabyggðir.
Í Hólmi bjuggu Valgerður Guðmundsdóttir og Eggert Norðdahl bóndi. Þeirra börn voru: Karl Norðdahl bóndi á Hólmi. Hann átti Salbjörgu Norðdahl og nokkur börn.
Þegar Valur Þór Norðdahl, sem uppalinn er á Hólmi og þekkir þar vel til, var spurður um framangreindar tóftir svaraði hann: “Þeir komu einhverju sinni frá Minjaverndinni og merktu þær sem fornleifar og það er svo sem allt í lagi. En kofa þennan hlóð Birna Nordahl í Bakkakoti árið 1980. Hún var hálfsystir pabba.
BirnaBirna tjaldaði yfir veggina og ætlaði að hafa þarna athvarf þegar hún var að mála. En starfsmenn Vatnsverndarinnar töldu að hún væri hættulega nærri Gvendarbrunnunum og flæmdu hana þaðan í burtu. Eftir standa veggirnir.”
Í Bakkakoti, sem er norðaustan Hólms, norðan Hólmsár, bjó þá Birna Norðdahl, húsfreyja, ekkja eftir Ólaf Þórarinsson bakarameistara. Birna Eggertsdóttir Norðdahl fæddist í Hólmi í Reykjavíkursókn í Kjósarsýslu 30. mars 1919. Hún lést á Akranesi 8. febrúar 2004. Birna var skákfrumkvöðull kvenna hér á landi. Hún tefldi  m.a. á Ólympíumótunum í Argentínu 1978 og Möltu 1980. Birna bjó lengst af í Bakkakoti. Hún var mjög handlagin og smíðaði mikið, skar út, málaði myndir, teiknaði og keypti sér t.d. rennibekk og renndi marga fallega muni.

Heimild m.a.:
-Valur Þór Norðdahl.