Kögunarhóll

Gengið var frá Kögunarhól og austur með sunnanverðu Ingólfsfjalli að Fellstúni við suðausturhorn þess. Sú örnefnaskýring hefur snemma komist á kreik að nafnið Kögunarhóll sé afbökun úr Knörrhóll og að í honum sé skip Ingólfs heygt.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Í Landnámu segir frá því að þriðja vetur sinn á Íslandi hafði Ingólfur Arnarson vetursetu undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá. Næsta vor fundu þrælar hans, þeir Vífill og Karli, öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði og settist Ingólfur þar að og nefndi bæ sinn Reykjavík. Þrællinn Karli mælti þá: “Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.” Strauk hann síðan frá Ingófi og sneri tilbaka í Ölfusið ásamt ambátt. Ingólfur fann þræl sinn aftur en ekki fylgir sögunni hvort hann fékk að vera í friði eða var neyddur til að flytja á “útnesið”. Ölfusið hefur æ síðan heillað “afkomendur” þrælsins.

Kögunarhóll

Kögunarhóll 1897 – Collingwood.

Í Laxdælu segir að Auður djúpúðga hafi brotið skip sitt við Ölfusárósa en annars fer engum öðrum sögum af héraðinu á landnámsöld. Líklegt er þó að það hafi byggst snemma vegna landkosta þess. Land til beitar hefur verið gott við Ölfusárósa og á fjalli, selveiði í ósnum og fiskur í sjó og vötnum. Auk þess voru ágætar lendingar í ósnum, Þorlákshöfn og Selvogi sem hefur ekki haft lítið gildi á hafnlausri suðurströndinni.
Á göngunni frá Kögunarhól, skipshaug Ingólfs, með Ingólfsfjalli, gafst góður tími til að rifja upp söguna sem og áætlunum tengdum járnbrautarlagningu frá Reykjavík austur í Árnessýslu eða til Hafnar við Eyrarbakka. Járnbrautin átti að koma niður austan við Fellstúnið á leið sinni niður að Eyrabakka.

Kögunarhóll

Kögunarhóll.

Hr. Þorvaldur Krabbe mannvirkjafræðingur skoðaði leiðina austur í Árnessýslu með járnbrautarlagningu í huga. Vandlega rannsókn og mælingar gerði hann ekki á svo skömmum tíma, “heldur aðeins kynnti sér lauslega og til bráðabirgða, hvernig til hagar um fjallleiðina austur og byggðina næstu.”
Fundið var að báðum þessum leiðum, “hve mikið af þeim er um óbyggðir, um fjöll og firnindi.” Talið var að jafnan “eigi að hyllast til að láta járnbrautir liggja, um byggð, ef auðið er, eða þá byggilegt land, þótt óbyggt sé.”

Í Þjóðólfi, 41. tbl. árið 1906 er fjallað um járnbrautarlagningu austur í Árnessýslu og um stöðu þeirra mála. Þar segir að Þorvaldi Krabbe hafi litist best á leiðina upp Mosfellsdal nálægt Gullbringum og þaðan austur yfir þvera Mosfellsheiði fyrir norðan Borgarhóla og um Jórukleif ofan í Grafning nálægt Jórutindi, til Hagavíkur, þaðan nálægt bænum Króki og suður dalverpið þar bak við Bíldsfell, milli þess og Hlíðar, og svo þaðan nálægt Torfastöðum, suður að Ingólfsfjalli og meðfram því um Alviðru hjá Sogsbrúnni og niður að Ölfusá, annaðhvort móts við Laugardælur eða Selfoss.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Sérstaka járnbrautarbrú kvað hann eflaust mundi þurfa að byggja yfir Ölfusá, en það væri aukaatriði, sem ekki snerti lagning brautarinnar í sjálfu sér.

Í Ísafold, 66. tbl. árið 1906, er fjallað um Suðurlandsveg í tilefni af umræðu um járnbrautarlagningu frá Reykjavík til Árnessýslu. Þar segir að “nú, þegar hugmyndin um járnbraut hér á landi hefir hlotið þann þroska, að landsstjórnin er búin að láta verkfræðing skoða járnbrautarstæði frá Reykjavík til Árnessýslu, þá virðist ástæða til að fara að ræða málið frá ýmsum hliðum.
Flutningsþörfin hefir aukist mjög mikið á síðustu árum hér sunnanlands, svo þörfin hefir nú loks knúð bændur nokkuð almennt til að nota vagna (kerrur) á flutningabrautunum, og auk þess æðivíða yfir vegleysur, færar og ófærar.

Blákollur

Blákollur undir Ingólfsfjalli.

Vagnarnir létta mikið flutninginn og auka vörumagnið sem flutt verður, en þeir fullnægja ekki þörfinni nema fá ár, þótt allir noti þá og ýmsir eigi 2, 3 eða 4 vagna. Smávagnarnir eru of mannfrekir í fólksfæðinni, og ferhjólaðir vagnar verða ekki notaðir á vegleysunum, eru líka of dýrir fyrir bændur almennt. Mörg heimili þurfa nú að flytja frá verslunarstöðunum því nær eins mörg vagnhlöss og marga þurfti hestburði fyrir 20 árum, og flutningsþörfin mun enn aukast, að líkindum örara en áður.

Hellisheiði

Hellisheiði – seinni tíma fararmáti.

Varla er von á góðri afkomu meðan dugandi karlmenn og einyrkjar verða að vera í ferðalögum mestallt vorið, auk haustferða, vetrarferða og ferðanna, sem bændur neyðast til að fara á miðjum slætti, dögum saman.
Efnaðir menn í Reykjavík og þeir, sem lifa eins og auðmenn, gera æ stærri kröfur til fæðisins, vilja hafa nýtt og gott kindakjöt árið um kring, nýja mjólk, nýtt smjör, nýtt skyr o. s. frv.

Hellisheiði

Almannagjá 1913.

Bændur hefðu mestan hag af því, ef þeir gætu ávalt fullnægt þörf kaupendanna á óskum þeirra. Nú er þetta ókleift, því næstu sveitir hafa hálfu minna af slíku en þörfin krefur. Og þó dregið sé strik yfir alla erfiðleikana og kostnaðinn við flutningana úr fjarlægum sveitum, þá er bændum ekki unnt að taka sláttinn til ferðalaga meir en nú er gert, og oft verða fjallvegir ófærir á vetrum.
Hvað mundi nú járnbraut greiða fyrir bændum hér austan fjalls og íbúum Reykjavíkur? Bætt gæti hún úr samgönguleysinu um sláttinn og mikið létt undir flutninga vor og haust; en hætt er við að hún kæmi að litlum notum, eða jafnvel alls engum á vetrum – þegar ófært er með kerrurnar.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.olfus.is/template1.asp?mode=sub&id=555
-http://www.vegag.is/vefur2.nsf/pages/ve_saga_bladaefni_1906allt3.html
-Ísafold, 13. september 1906, 33.árg., 39. tbl.

Kögunarhóll

Við Kögunarhól.