Hafnarfjarðarvegur

Í Vísi 1915 er fjallað um Hafnarfjarðarveginn. Skömmu síðar sama ár skrifar B.B. um veginn. Skrifin eru áhugaverð, einkum í ljósi þess að umræða var þegar orðin um fyrirhugaða sporbraut (járnbraut) milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Byrjað var á járnbrautarsporalagningunni 1918, en frá henni var horfið skömmu síðar, eins og lýst er glögglega annars staðar á vefsíðunni. Hafnarfjarðarvegurinn, einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins, hefur sjaldnast fengið að njóta sín af verðleikum. Það er bæði gömul saga og ný…

Hafnarfjarðarvegur

Vegurinn er merktur inn á kort af Reykjavík frá 1876 ( Benedikt Gröndal). En merktur sem “Gamli vegur” á korti frá 1887 (Sveinn Sveinsson) en sem Gamli Hafnarfjarðarvegur á korti Benedikts Gröndals frá sama tíma.Vegurinn lá frá Arnarhóli um traðirnar að Traðarkoti og norðan í Skólavörðuholti og í átt að Öskjuhlíð. Vegurinn hefur verið aflagður að mestu árið 1887.Um 1887 er vegurinn merktu inn á kortið frá vegamótum Klapparstígs og Laugavegar, hann er þá aflagður og merktur sem Gamli vegur, hann hefur legið yfir Frakkastíg á milli Laugavegar og Grettisgötu, hefur síðan sveigt yfir Grettisgötu á móts við númer 32, legið síðan í átt að gatnamótum Njálsgötu og Vitastígs, yfir Bergþórugötu við húsnúmer 31 og yfir lóð Austurbæjarskóla og yfir Barónsstíg á móts við Heilsuverndarstöðina. Hann lá svo upp á Öskjuhlíðarveg vestan við Eskihlíð. Greinilegt er að Skólavörðustígur og Öskjuhlíðarvegur hafa leyst þennan veg af hólmi um 1870 en þá var hafist handa við að gera Öskjuhlíðarveg.

“Án efa er þessi vegur einn hinn allra fjölfarnasti vegarspotti á þessu landi. þótt hann sé ef til vill talinn lögum samkvæmt sýsluvegur, þá er hann í reyndinni sannkallaður þjóðvegur og því er það æði einkennilegt, að með fullum sanni má segja, að vegarkafli þessi — milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar — mun vera einn hinn ógreiðfærasti og óhentugasti til umferðar, allra lagðra vega landsins. Í fyrsta lagi, er hann frá upphafi hálfu mjórri en hann ætti og þyrfti að vera, og er það höfuðgalli. Svo mjór er hann víða, að alveg er ógjörningur að koma bifreið fram hjá öðrum vagni, sem hún mætir á veginum og vita allir hér um slóðir hvílík vagnaumferð er á þessari leið og sama máli gegnir um lestir, sem fara mjög um veginn bæði vor og haust.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforingjakorti 1919.

Af því, hve vegurinn er mjór, hafa fyr og síðar hlotist ýms slys og áföll og jafnvel hefir það orðið mönnum að bana. Í öðru lagi er það alveg óskiljanlegt hversu viðhaldið á þessum vegi er bágborið. Um hann allan eru djúpar gjótur og sumstaðar stærðar hnullungssteinar upp úr honum, svo það líkist meira óruddum „fjallabaksvegi”. Ennfremur eru brýrnar, sem bygðar hafa verið yfir lækina á leið þessari, þær ómyndir, að tæpíega er farandi yfir þær með bifreið eða flutningavagn. það eru handónýta fjalir, sem búast má við að hrynji, niður þá og þegar. Þar að auki eru þessar brúarmyndir alt of mjóar og ekki bætir það úr skák, að gleymst hefir að setja handrið fram með þeim eða við endana, svo í nokkru lagi sé.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Fossvogur.

Af þessum ástæðum, sem þegar eru nefndar, þykir það því nær ógerningur að halda uppi bifreiðaferðum um þennan veg. Bæði er það, að þeir, sem málinu eru kunnugir af reynslunni, telja það jafnvel lífshættu að aka bifreiðum um veginn suður í Hafnarfjörð og svo er hitt, að á meðan honum er svo illa haldið við, þá slitna hjólin og vagnarnir svo óbærilega mikið, að úthaldskostnaðurinn fer fram úr öllu hófi. En trúað gætum vér, að mörgum mundi bregða við, ef bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hættu með öllu, því það hefir reynslan sýnt, að þörfin á slíkum flutningatækjum er geysimikil á þessari leið.
Vonandi sjá þeir, sem ráðin hafa og völdin í þessu máli, nauðsynina á því, að bæta úr þessum miklu brestum og ætti næsta sumar ekki að líða svo, að veginum verði ekki gjörbreytt og bættur sem þörf krefur. þessa mundi margur óska, því það eru ekki tugir, heldur hundruð, sem um veginn fara marga daga.
Vonandi hætta menn að kýta og metast um það, hverjir eigi að framkvæma verkið, en hefjast heldur handa sem allra fyrst að hægt er og svo að um muni.
Það er ábyrgðarhluti, að bíða eftir slysunum og hálf leiðinlegt að vera orsök í því, að menn þurfi um alla eilífð að ferðast um svo fjölfarinn veg eins og skrælingjar, og enginn búhnykkur er það fyrir þjóðfélagið, að tefja eða hefta för manna að óþörfu.”

Í Vísi í sama mánuði skrifar B.B. um “Veginn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar”:

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

“Um hann var grein í »Vísi« 9. þ. m. Á þeirri tíð, er Gullbringu- og Kjósarsýsla var eitt sýslufélag, mun hafa verið ákveðinn sýsluvegur frá Rvík suður með sjó, og er kaflinn milli landa Ríkur og Hafnarfj. hluti af þeim vegi. Sýslan gerði á sínum tíma vegarspotta þennan akfæran, en bæði var þá afvanefnum að gera og miðað að eins við þörf tímans, sem þá var, og því er vegurinn að gerðinni eins og fyrnefnd grein lýsir honum.
Þegar sýslunni var skift, hlaut hver sýslan þann kafla til viðhalds, sem í henni lá. Kársnes, milli Fossvogs og Kópavogs, er syðsta horn Kjósarsýslu. Yfir það liggur vegur þessi, og hlaut Kjósarsýsla þann klafa. Honum hefir verið sæmilega við haldið, enda gleypti hann mesLalt vegafé sýslunnar árlega, (oftast 300—700 kr.) svo aðra vegi sýslunnar hefir orðið að vanrækja.
Er þessi vegur þó svona út úr sýslunni, og henni ekki fremur að notum, en hann lægi í öðru héraði.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

En er umferð Heilsuhælisins og bílanna bættist á þenna mjóa og veikgerða veg, sá sýslunefnd Kjósarsýslu fram á, að henni var ókleift að halda honum í standi, og í eðli sínu óskylt, svo lítið sem sýslurnar nota hann. Var þessi kafli því numinn úr tölu sýsluvega Kjósarsýslu frá nýári 1915. En við hann var svo vel gert síðastl. sumar, að nú er kafli þessi skárstur af Hafnarfjarðarveginum.
Eitt af listaverkum aukaþingsins í fyrra var breyting á vegalögunum frá 1907, er ákveður að vera skuli flutningabraut frá Rvík til Hafnarfjarðar milli lögsagnarumdæmanna, en þess viðhaldi hennar sé ráðstafað á annan hátt, en lögin 1907 ákveða. Verri grikk var varla unt að gera hinni litlu Kjósarsýslu; því nú eru helst horfur á, að henni verði skipað að halda vegarkafla þessum við sem flutningabraut. En undir það getur hún ekki gengist, Á nýafstöðnum sýslufundi þar var ákveðið, að leita 1000 kr. láns fyrir sýslusjóð, til að bæta bráðustu viðgerðarþörf á sýsluvegum þar, sem legið hafa þar óbættir, af því alt féð lenti í viðhaldi hins óþarfa vegarkafla. Það horfir því til vandræða, ef þvinga ætti sýsluna til að taka á sig í viðbót þenna Kársnesskafla Hafnarfjarðarbrautarinnar, og er vonandi að til þeirra óyndisúrræða verði ekki að taka.
Vanhugsað væri að lappa upp á þenna veg til lengdar, eins og hann er. Eigi að fullnægja samgangnaþörfinni þarna, verður að byggja nýjan veg á öðrum stað, og yrði óvíða eða lítil not að þeim vegi, sem nú er, við þá vegargerð. Líklega væri skynsamlegast að leggja þarna sporbraut (járnbraut), og skal eg leyfa mér að láta í ljósi hugmynd mína um legu vegarins (eða sporbrautar), er fullnægja mundi framtíðarþörfinni.

Hafnarfjarðarvegurinn

Hafnarfjarðarvegurinn 1947 – malbikið orðið holótt.

Vegurinn, sem nú er, liggur yfir 6 hæðir (með lægðum á milli) og er víða of brattur. Ætti að leggja framtíðarveg um sama svæði, yrði að sneyða hæðirnar meira og jafnframt beygja inn í dalverpin, og hlyti það að lengja veginn mikið, til að fá hann sæmilega hallalítinn og hægan. Eg hygg því að vegurinn yrði ekki mikið lengri, þó valin væri önnur leið, er nú skal lýst.
Sé um sporbraut að ræða, skal nota hið mælda járnbrautarstæði upp að Blesugróf, ella austur veginn austur á móts við Bústaði, þá járnbrautarleiðina upp fyrir Blesugróf, þá austan við Digranessháls, um Fífuhvamm, Nónskarð, austan Hofstaðaholtið, vestan við Vífilstaði, um Hagakot, og síðan yfir hraunið til Hafnarfjarðar.
Á þessari leið er ein aðal-bugða, en færri lægða- og hæðabeygjur, en ef fara ætti gömlu hálsaleiðina; og heilsuhælið, sem svo mikið notar veginn, fær hann nær sér.
Þetta er a. m. k. þess vert að athuga það.” – B.B.

Heimildir:
-Vísir, 119. tbl. 09.04.1915, Hafnarfjarðarvegurinn, bls. 1.
-Vísir, 126. tbl. 16.04.1915, Vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar, bls. 2.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.