Nes er austasta býli í Selvogi. Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.
Landnámsmaður í Selvogi var Þórir Haustmyrkur, sem hafði bú í Hlíð. Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.
Í Selvogi virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli var mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Á 11. öld er vitað um kirkju á Nesi. Kirkjurnar, sem vitað er um, eru á öllum dýrustu jörðunum. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum. Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 og að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða.
Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum, en margar jarðir þar komust í eigu Erlendunga; Þorvarðar Erlendssonar lögmanns (d. 1513) og afkomenda hans, sem margir bjuggu á þessum slóðum. Synir Þorvarðar, Vigfús og Erlendur áttu fjölda jarða á þessu svæði og bjó Erlendur (d. 1576) á Strönd og Guðbjörg dóttir hans (d. 1596) eftir hann. Sextánda öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750.
Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707, en önnur héldust í byggð. Ekki er ástæða að í Selvogi hafi orðið verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Selvogi fyrr en á þessari öld.
Bærinn í Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes. Fyrrum mun kirkjan í Nesi hafa staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu. Kirkjan var lögð niður 1706.
Síðustu sjóbúðir í Nesi voru niðri á kampinum, og sér fyrir þeim enn. Nesbrunnur eða Austurnesbrunnur er í Suðurtúni, beint suður af tröðunum. Hann er alltaf fullur af vatni. Þaðan lágu götur til bæjanna og allra hjáleiganna.
Vestar á kampinum ofan við vörina voru Nesborgir, þrjár fjárborgir. Vestasta borgin fór í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Enn sést hluti af hinum tveimur.
Í austri blasir Selvogsviti við, en hann var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn (1919) var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur. Hann var byggður 1931 og er 18 m hár.
Gísli Sigurðsson tók saman örnefnaskrá um Nes. Þar kemur m.a. fram að af bæjarstæðinu í Nesi hafi verið eitthvert fegursta útsýni í Selvogi. Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út. Austast í Hátúni var Stóra-Leður. Þar sjást enn tóftir, upp við túngarðinn. Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum. Það er nokkurn veginn uppistandandi enn. Beitarland frá Nesi, eins og öðrum bæjum í Selvogi, er í Selvogsheiði. Hún liggur neðan frá túngörðum allt vestur að Hlíðarfjalli, neðan Svörtubjarga, um Hnúkana og austur að hreppamörkum.
Ofan byggðarinnar er heiðinni skipt í Austurheiði, sem er Nesland, Miðheiði, sem er upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, og Vesturheiði eða Útheiði, sem er land Eimu og Vogsósa.
Frá túngarði í Nesi liggur sjávarkampur austur að vita. Hlaðinn garður er á honum, en hann nær ekki alla leið. Austast á kampinum var bær, sem hét Snjóhús
Gengið var að brunninum, niður að sjóbúðunum og síðan út með ströndinni að fjárborgunum, sem enn standa að hluta. Gengið var framhjá Guðnabæ, kíkt í brunninn í túninu og síðan haldið áfram yfir að Bjarnastöðum.
Þorkelsgerði
Á túngarði austan Bjarnastaða var hlið, og lá þar um kirkjugatan frá Nesi og vestur um hjá Bjarnastöðum. “Kirkjugatan lá neðan við Harðhaus og ofan við Mosaflöt og Víðavöll”, eins og segir í örnefnaskrá.
Í fornleifakönnun um Bjarnastaði koma m.a. fram upplýsingar um Fornagarð í gegnum Selvog, ofan bæjarins. Árið 1821 segir að “máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu.”
Einnig segir í sömu lýsingu að “eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem hér var lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum nausynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”
Árið 1840 segir að “engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina.
Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.” Samkvæmt þessu voru læst hlið á vörslugarðinum að hverjum bæ.
Bjarnastaðavörin er neðan bæjarins. Þar er merki á klöpp, sem og “bindisteinar” við lendingu.
Fáir staðir við ströndina eru skemmtilegri til göngu en Selvogur. Þarna er sagan svo að segja við hvert fótmál. Í dag er Selvogur lifandi minjasafn – óspillt af mannanna hendi.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.