Í Vikunni 1987 er fjallað um “Nesstofu – eitt elsta steinhús landsins“:
“Til forna náði hreppurinn yfir allt hið svokallaða Seltjarnarnes, milli Kópavogs og Elliðaárvogs, frá Gróttu upp að Hólmi.
Nesstofa.
Fyrstu aldirnar eftir landnám voru einungis jarðirnar Reykjavík, Nes og Laugarnes í byggð og var landbúnaður helsta atvinnugreinin. Íslendingar fóru að stunda fiskveiðar í auknum mæli á 14. og 15. öld og kom þá skreiðarútflutningur einnig til sögunnar. Byggð fór því að þéttast ört við sjávarsíðuna.
Við siðaskiptin náðu Skálholtsbiskupar eignarhaldi á flestum jörðum hreppsins og lögðust þær undir konung um miðja 16. öld. Íbúum fór fjölgandi á nesinu næstu aldirnar og á fyrri hluta 18. aldar var þar einna þéttbýlast á öllu landinu.
Tveir atburðir áttu sér stað á 18. öld sem mörkuðu spor í sögu Seltirninga. Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi og landlæknisembætti var stofnað á íslandi. Bjarni Pálsson var skipaður fyrsti landlæknirinn og aðsetur hans var í Nesi við Seltjörn. Í kjölfar aðskilnaðar Seltjarnarness og Reykjavíkur missti hreppurinn smátt og smátt mestan hluta af landi því sem tilheyrði honum. Nú er svo komið að innan marka gamla Seltjarnarneshrepps eru þrír kaupstaðir og hátt í helmingur þjóðarinnar hefur þar búsetu.
Um aldamótin 1900 hljóp mikil gróska í útgerð á nesinu og taldist hreppurinn til stærstu útgerðarstaða á landinu. Hafnaraðstaðan var þar heldur bágborin og leiddi það til þess að Seltirningar urðu að selja fiskiskipaflota sinn til Reykjavíkur. Seltirningar tóku upp landbúnað að nýju eftir útgerðarævintýrið en hann leið undir lok í heimsstyrjöldinni síðari. Byggð var þá tekin verulega að þéttast og Seltjarnarnes hlaut kaupstaðarréttindi 1974.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson á tindi Heklu.
Nesstofa stendur við Bakkatjörn á vestanverðu nesinu og þaðan er aðeins örstuttur spölur út í Gróttu. Útsýnið þennan bjarta vordag var stórbrotið. Akrafjallið bar við heiðskíran himin og Esjan skartaði sínu fegursta. Í fjarska blasti Snæfellsjökull við i öllu sínu veldi. Byggðin hefur í tímanna rás færst nær Nesstofu og nú er svo komið að glæsileiki þessa einfalda húss nýtur sín ekki sem skyldi.
Nesstofa er eitt af elstu steinhúsum landsins, var reist á árunum 1761 til 1765. Hún hefur nú verið færð í sitt upprunalega horf og senn verður opnað þar læknisfræðilegt sögusafn, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Sögulegt gildi Nesstofu verður ekki dregið í efa. Þar bjó á árunum 1763 til 1779 fyrsti landlæknir okkar Íslendinga, Bjarni Pálsson, og var hann fyrsti Íslendingurinn sem lauk embættisprófi í læknisfræði. Hann var skipaður landlæknir 1760 og beið hans þá mikið og erfitt starf. Ásamt því að hafa umsjón með heilbrigðismálum landsins, veita sjúkum læknishjálp og hafa með höndum lyfjasölu var honum falið að annast læknakennslu, kenna ljósmæðrum og að auki að hafa eftirlit með tukthúslimum. Þrátt fyrir drepsóttir, hungur og gífurlegan barnadauða hófst Bjarni ótrauður handa. Læknaskóla starfrækti hann allan sinn starfstíma í Nesi og lyfjabúð til ársins 1772.
“Reykjavík og Kópavogur hjáleigur Seltjarnarness!”
Seltjarnarnes – loftmynd.
Við sem búum á þéttbýlissvæðunum suðvestanlands höfum ekki undan að fylgjast með örri þróun byggðarinnar. Í önn dagsins hverfur tíminn og þegar litið er upp úr annríkinu blasa við nýir byggðakjarnar þar sem áður voru mýrar, grýtt holt og berangur.
Sagt er að æðri máttur hafi leitt Ingólf Arnarson til Reykjavíkur. Víst er að Reykjavíkursvæðið hefur um margt einstæð náttúruskilyrði til þéttbýli sem skapast hefur á síðustu áratugum vegna gjörbreyttra atvinnuhátta þjóðarinnar.
Land það sem Reykjavíkurborg á í dag er hluti af Seltjarnarneshreppi hinum forna sem náði frá Gróttu upp að Hólmi og milli Elliðaárvogs og Kópavogs. Með stofnun kaupstaðar í Reykjavík fyrir 200 árum hófst sú þróun að taka land Seltjarnarneshrepps til þarfa þéttbýlismanna. Nú eru þrír kaupstaðir innan gömlu hreppamarkanna og býr þar nær helmingur þjóðarinnar.
Enginn hreppur á Íslandi hefur orðið fyrir slíku landaafsali sem Seltjarnarneshreppur. Seltirningar geta því með sanni sagt að Reykjavík og Kópavogur séu hjáleigur frá Seltjarnarnesbæ.”
Í “Fornleifaskráningu á Seltjarnarnesi árið 2006” er byggðasaga Nessins rakin:
“Til að geta sett niðurstöður fornleifaskráningar í fræðilegt samhengi er nauðsynlegt að hafa hugmynd um sögu byggðar á svæðinu sem er til rannsóknar. Byggðasaga er einn sá grunnur sem áætlanir um frekari rannsóknir, t.d. uppgrefti, ættu að byggja á. Vitneskja um sögu byggðar eykur líkur á að rannsóknarefni fornleifafræðinga séu mótuð og þar af leiðandi fáist markvissari niðurstöður. Heimildir sem nýtast við ritun byggðasögu eru t.d. fornrit, þ.e. Landnáma, Sturlunga og Íslendingasögur, fornbréfasafn, tölur um dýrleika jarða og upplýsingar um staðsetningu kirkna og bænhúsa. Almennt er álitið að bæir, þar sem kirkjur eða bænhús stóðu, hafi byggst snemma, enda hafi þau almennt verið stofnsett fljótlega eftir árið 1000. Þá eru kuml óræk sönnun um forna byggð. Einnig koma bæjanöfn að góðu gagni þegar á að reyna að ákvarða í hvaða röð jarðir hafi byggst, sem og landamerki.
Ólíkt stórum hluta landsins hefur þegar verið ritað talsvert um byggðasögu Seltjarnarness.
Árið 1936 birtist greinin „Hversu Seltjarnarnes byggðist” eftir Ólaf Lárusson í Landnámi Ingólfs og átta árum síðar í ritgerðasafni hans Byggð og sögu. Björn Teitsson gerði einnig ítarlega grein fyrir sama efni í grein sinni „Byggð í Seltjarnarneshreppi hinum forna” sem birtist í Safni til sögu Reykjavíkur sem gefin var út 1974. Fyrir áhugasama um sögu og þróun byggðar á Seltjarnarnesi má einnig benda á Seltirningabók sem út kom 1991 en þar er að finna ítarlegar upplýsingar um upphaf byggðar á nesinu og þróun hennar allt fram á síðustu ár og grein Orra Vésteinssonar í ráðstefnuriti íslenska Söguþingsins frá 1997 þar sem hann fjallar m.a. um Nes í grein sinni Íslenska sóknarskipulagið og samband heimila á miðöldum.
Sökum þess að töluvert hefur verið fjallað um byggðarsögu Seltjarnarness er hér markmiðið að draga saman helstu staðreyndir um landnám og byggðarþróun á nesinu sem þegar hafa verið settar fram en jafnframt nota fornleifaskráningu og þær fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið á nesinu allt fram á síðustu ár til að bæta við myndina og dýpka skilning á byggðarþróuninni. Hér er mest stuðst við grein Ólafs Lárussonar enda hefur flest sem um landnám og byggðarsögu á Seltjarnarnesi fram að þessu byggt á úttekt hans.
Sú umfjöllun sem hér fylgir um byggðasögu Seltjarnarness, eins og reyndar skýrslan í heild, afmarkast við mörk Seltjarnarness eins og þau eru í dag. Heitið Seltjarnarnes er því notað yfir kaupstaðarlandið eins og það er nú en ekki hinn forna Seltjarnarneshrepp sem náði yfir allt nesið sem liggur á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og til fjalla. Enginn vafi leikur á því að jörðin Nes er landnámsbýli þess svæðis sem nú er kallað Seltjarnarnes.
Landamerkjasteinn á Valhúsahæð – áletrun. Þvergarður fjær.
Ólafur Lárusson rökstuddi í úttekt sinni á landnámi og byggðarþróun á Seltjarnarnesi að Nes hafi byggst upp fljótlega eftir landnámi í Reykjavík. Á undanförnum áratugum hafa fornleifarannsóknir verið gerðar í Nesi og styðja þær hugmyndir um að Nes hafi byggst mjög snemma, fljótlega eftir að landnámsgjóskan féll. Rannsóknir á Þvergarði og á garði við Bygggarðsvör sýna að þessir garðar voru byggðir snemma eða á 10.-11. öld. Aldur Þvergarðs bendir til að þegar á 11. öld hafi verið komið a.m.k. eitt býli á Innnesi. Ekkert er vitað um hlutverk garðsins í Bygggarði þó að tilgáta hafi verið sett fram um að hann hafi tengst byggræktun. Ekki er þó óhugsandi að sá garður gæti verið landamerki, eða byggður til að girða af heimatún Bygggarðs enda má ætla að Bygggarður hafi verið eitt af fyrstu býlunum sem byggðust úr landi Ness.
Samkvæmt kenningum Ólafs Lárussonar var Nes í upphafi lakari jörð en Reykjavík. Ness er fyrst getið í heimildum um 1200 en þá er kirkja á jörðinni. Fyrsti nafngreindi ábúandinn í Nesi var Hafurbjörn Styrkársson sem skv. heimildum átti ættir að rekja til Ingólfs Arnarssonar og bjó í Nesi um 1280. Af heimildum má sjá að sonur Hafurbjarnar og sonarsonur hafa búið í Nesi eftir hans dag og voru þeir allir í heldri manna tölu. Af heimildum má því ætla að í Nesi hafi verið ríkmannlega búið á 13. öld. Lítið er hins vegar vitað um eigendur Ness frá 14. öld og fram að siðaskiptum þegar jörðin var orðin eign Skálholtsstóls.
Mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur árið 1700. Eiði og Mýrarhús Seltjarnarnesmegin.
Ólafur segir að það megi sjá af heimildum að Nes hefur verið höfuðból alls hins gamla Seltjarnarness, a.m.k á 13.-14. öld og er lítil ástæða til að draga þá túlkun í efa. Frá fornleifafræðilegu sjónarmiði er ekki augljóst af hverju Nes ætti endilega að hafa byggst á eftir Reykjavík. Örnefnið ‘Nes’ gæti vel verið frumlegra og myndi hafa hæft vel fyrsta býlinu á nesinu sem báðar jarðirnar eru á. Nes var dýrari jörð en Reykjavík á seinni öldum (120 hundruð á móti 100 hundruðum) og kirkjan í Nesi var miklu betur eignum búin en sú í Reykjavík. Hvernig sem því hefur verið varið er ekki ástæða til að ætla að langt hafi liðið milli þess sem jarðirnar tvær byggðust, og verður e.t.v. aldrei hægt að skera úr um það.
Nesstofa – kirkjugarður.
Kirkjumáldagi frá 14. öld sýnir að þá var Neskirkja mjög vel stærð og voru eignir hennar dæmigerðar fyrir kirkjur á stórbýlisjörðum. Frá þeim tíma geta heimildir þriggja jarða sem byggst hafa út frá Nesi. Það eru Eiði, Bakki og Bygggarður. Í máldaga kirkjunnar kemur fram að hún á: „…þriðjunginn í heimalandi [Ness] með rekum, skógum og afréttum, Eiðslandi, Bakka og Bygggarði“ Þetta orðalag má túlka á tvenna vegu. Annars vegar sem svo að kirkjan eigi jarðirnar þrjár í heild en hins vegar hún eigi þriðjung af þeim öllum. Ólafur kýs að túlka það sem svo að Neskirkja eigi þriðjung úr jörðunum þremur. Þetta segir hann benda til þess að þessar jarðir hafi byggst út úr Neslandi eftir að kirkjunni var gefinn þriðjungur jarðarinnar og því sé hlutfallsleg eign kirkjunnar í býlunum sú sama og í heimajörðinni. Hins vegar má spyrja hvort ekki sé allt eins líklegt að hjáleigurnar þrjár gætu einmitt hafa verið komnar í byggð þegar kirkjunni var gefið landið og hún fengið hluta af hjáleigunum eins og af heimajörðinni.
Þessar vangaveltur er vart hægt að leiða til lykta að svo stöddu en ef við fylgjum kenningu Ólafs má gera ráð fyrir að jarðirnar þrjár hafi verið byggðar eftir miðja 11. öld (1056 í fyrsta lagi í biskups tíð Ísleifs Gissurarsonar) en fyrir miðja 14. öld. Ólafur gerir ekki tilraun til tímasetja upphaf býlanna frekar. Eins og áður segir benda rannsóknir á Þvergarði til að garðurinn hafi a.m.k. verið byggður á 11. öld og samkvæmt því mætti ætla að á þeim tíma hafi býli á Innnesinu, Eiði og/eða Lambastaðir, þegar verið í byggð. Garðlag frá 10. öld við Bygggarðsvör þarf ekki endilega að tengjast byggð þar en ekki er ólíklegt að hann tengist fyrstu búsetu á jörðinni. Hafi stórbýlið Nes verið einrátt á nesinu fram á seinni hluta 11. aldar eða jafnvel allt fram til miðrar 14. aldar sé það harla óvenjulegt. Eðlilegra er að áætla að úr landi landnámsjarðarinnar Ness hafi á strax á 10. öld byggst annað býli á Innnesinu (Eiði eða Lambastaðir) og jafnvel Bygggarður eða Bakki. Hugsanlegt er að á fyrstu öldum hafi þessar jarðir legið undir Nes – verið hjáleigur þaðan. Eftir að kirkja var byggð í Nesi hefur Nesbóndinn gefið henni þriðjung úr landi sínu með rekum og afrétt og úr öllum afbýlunum þremur sem þá voru í byggð, eða býlin í heild sinni.
Ólafur Lárusson heldur því fram að áður en umræddar jarðir byggjast frá Nesi hafi ein jörð þegar verið byggð úr Neslandi. Þetta er jörðin Lambastaðir, nálægt merkjum við Reykjavík. Á Lambastaði er fyrst minnst í rituðum heimildum um 1500 en Ólafur telur þó að bærinn sé mjög gamall. Ástæðan er sú að Neskirkja átti engan hlut í jörðinni. Ólafur telur nafnið einnig benda til hás aldurs því að mannsnafnið Lambi sé ekki þekkt eftir lok sögualdar. Með þessum rökum heldur hann því fram að Lambastaðir séu næstelsta býlið í Nessókn og hafi byggst á 10. eða snemma á 11. öld. Við þessa röksemdafærslu Ólafs er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi má segja að hafi Lambastaðir verið fyrsta jörðin sem byggðist úr landi Ness megi ætla að Þvergarður hafi verið byggður til að marka landamerki þessara tveggja jarða mjög snemma. Samkvæmt því hlyti Eiði að vera byggt úr landi Lambastaða en þá er erfitt að skýra hvers vegna Neskirkja átti þriðjung úr landi Eiðis. Í öðru lagi má benda á að þau rök Ólafs sem snúa að bæjarnafninu Lambastaðir eru mjög veik og kemur þar tvennt til.
Seltjarnarnes – herforningjaráðskort frá 1908.
Rannsóknir á bæjarnöfnum hafa sýnt að oftast má ætla að bæir sem bera einkvæð náttúrunöfn séu að jafnaði eldri en þeir bæir sem bera mannanöfn og endinguna “staðir”. Samkvæmt því má ætla að landnámsbær innnessins sé Eiði fremur en Lambastaðir. Hins vegar má benda á að e.t.v. er líklegra að Lambastaðir séu kenndir við lömb fremur en mannsnafnið Lambi. Björn Teitsson hefur sett fram þá tilgátu að Lambastaðir hafi byggst upp á rústum lambhúss, líklega á 14. eða 15. öld. Björn gerir þó enga tilraun til að skýra hvers vegna kirkjan átti ekki hlut í Lambastöðum líkt og í hinum hjáleigunum þremur.
Ef litið er á örnefni lögbýlanna á Seltjarnarnesi má sjá að auk Ness eru tveir bæir sem bera náttúrunöfn og samkvæmt örnefnakenningu mætti ætla að þeir væru eldri en hinir sem bera samsett heiti. Þetta eru Bakki og Eiði.25 Bæjarheitið Bygggarður bendir til að þar hafi verið garður um byggrækt áður en jörðin byggist upp en athygli vekur að af þeim jörðum sem hafa byggst upp á Seltjarnarnesi á eftir Nesi er Bygggarður hæst metin eða á 30 hdr og gæti það bent til að jörðin sé á meðal elstu bæja þó rétt sé að ítreka að munurinn á dýrleika er ekki mikil. Það sem einna helst styður kenningu Ólafs um háan aldur Lambastaða, auk kirkjumáldagans, eru selstöður nessins. Aðeins tvö býli á nesinu, höfuðbýlið Nes og Lambastaðir, áttu selstöðu svo vitað sé.
Seltjarnarnes – AMS-kort.
Í Jarðabók Árna og Páls kemur fram að Lambastaðir áttu selstöðu undir Selfjalli en Nes í Seljadal. Önnur býli á nesinu áttu ekki sérstakrar selstöður í upphafi 18. aldar og má vera að þannig hafi það alltaf verið. Þetta mætti auðveldlega túlka í þá átt að ítök Lambastaða hafi verið meiri en hinna býlanna á nesinu og jörðin þá elst á eftir Nesi.
Að samanlögðu er erfitt að fullyrða nokkuð um hvaða býli byggðist fyrst á eftir Nesi. Margar vísbendingar benda til að Eiði, Bygggarður og Bakki byggist fljótlega upp, líklega strax á 10. öld eða á fyrri hluta þeirrar 11. Hvort mögulegt er að Lambastaðir hafi byggst upp á undan býlunum þremur skal ósagt látið. Hvað sem segja má um nákvæman byggingatíma býlanna er ljóst að á 14. -15. öld eru greinilega auk Ness, að minnsta kosti fjögur býli í Nessókn.
Þegar skoðaðar eru þær upplýsingar sem tiltækar eru um byggð á Seltjarnarnesi fram að siðaskiptum vekur athygli að ekkert bænhús er í sókninni þó að algengt hafi verið að bænhús væru á öðru til þriðja hverju lögbýli frá fyrstu öldum. Þetta bænhúsaleysi má e.t.v. að hluta skýra með smæð sóknarinnar en ekki er ólíklegt að yfirburðir Ness í dýrleika, landgæðum og stærð spili einnig inni í og Nes hafi einfaldlega frá upphafi borið höfuð og herðar svo langt yfir aðra bæi í sókninni að ekkert hinna lögbýlanna hafi nokkru sinni náð valdastöðu innan hreppsins.
Nesstofa 1915.
Síðla á 15. öld eða snemma á þeirri 16. eignaðist Skálholtsstóll Nes en um siðaskipti (miðja 16. öld) lét stóllinn Nes og Eiði, sem þá var greinilega orðin sjálfstæð jörð, af hendi til konungs í skiptum fyrir aðrar jarðir.
Talið er Mýrarhús hafi verið byggð um 1600 en býlið varð lögbýli um 1700. Í Jarðabók Árna og Páls kemur fram að í Nessókn voru samtals 37 bústaðir og 158 íbúar 1703. Af þessum 37 bústöðum voru sjö lögbýli, 19 hjáleigur en fjórir bústaðir af öðrum toga (tómthús, húsmennskubýli o.s.frv.). Flestar af hjáleigum og tómthúsum á Seltjarnarnesi voru nafngreindar en Ólafur giskar á að þau býli sem höfðu nafn hafi verið eldri en þau sem ekkert höfðu. Flestra nafngreindu býlanna er getið í fyrsta sinn í Jarðabók Árna og Páls og því erfitt að rekja sögu þeirra lengra aftur. Ólafur gerir þó tilraun til að ráða í heiti þeirra og geta sér þannig til um tilurð þeirra og byggingartíma. Hann telur ekki ástæðu til að ætla að nokkur hjáleiganna sé eldri en frá 14. öld.
Þegar jarðabókin er gerð 1703 var engin jörð á Seltjarnarnesi bændaeign. Bakki og Bygggarður voru kirkjueignir en aðrar jarðir voru eign konungs. Eignarhald á flestum jörðum á Seltjarnarnesi hafi því færst frá bændum, sem virðast hafa átt meirihluta jarða á Seltjarnarnesi á 15. öld yfir á Skálholt og Viðeyjarklaustur, og síðar yfir til konungs.
Nesstofa 1969.
Árið 1703 tilheyrðu lögbýlunum sjö á Seltjarnarnesi 19 hjáleigur. Langflestar hjáleigur tilheyrðu Nesi, enda sjást yfirburðir þess gagnvart öðrum býlum á svæðinu á dýrleika seint á 17. öld, en þá var Nes dýrari jörð en öll önnur lögbýli í sókninni samanlagt. Að samanlögðu taldi Ólafur að helstu drættir byggðasögu Seltjarnarness væru ljósir þó að ritheimildir um svæðið væru heldur fátæklegar fram til 1400-1500. Hann segir ljóst að Reykjavík sé landnámsjörð alls hins forna Seltjarnarness en fljótlega eftir landnám hafi Nes byggst. Fram til loka 10. aldar telur Ólafur að Reykjavík hafa borið höfuð og herðar yfir Nes en hann telur Nes hafa náð undirtökum á svæðinu á 11. öld. Ástæður þess eru óljósar en þó telur Ólafur líklegast að 3-4 jarðir hafi á þeim tíma þegar verið byggðar út frá Reykjavík og það hafi þrengt að höfuðbólinu. Hann virðist telja hjáleigubyggð hefjast fyrir alvöru nokkru síðar í Nessókn sökum þess að þær hljóti að byggjast nokkru eftir að kirkjunni í Nesi var gefinn þriðjungur af landinu þar. Þessi röksemdafærsla er því höfuðatriði í umfjöllun Ólafs en ýmislegt hefur komið í ljós á síðustu áratugum sem gerir það að verkum að hana má draga í efa. Forn merkjagarður á Valhúsahæð bendir til byrjað hafi verið að skipta upp landi Ness fremur snemma.
Nesstofa 1982.
Þrátt fyrir að hjáleigubyggð yrði blómleg í Nessókn eins og í Reykjavík og e.t.v. á sama skeiði (ólíkt því sem Ólafur hélt fram) virðist Nes halda stöðu sinni sem höfuðból svæðisins allt fram á 18. öld þegar þéttbýlismyndun hefst í Reykjavík. Hvort sem Nesbóndinn skipti landi sínu niður af meiri kostgæfni eða að landkostir á nesinu voru einfaldlega betri til ábúðar þegar fram liðu stundir skal ósagt látið. Eftir stendur að Nesbændur ná til sín völdum og áhrifum á fyrstu öldunum eftir landnám og halda hlutverki sínu sem höfuðból Seltjarnarness hins forna allt fram til 18. aldar.
Þéttbýlismyndun hófst ekki fyrir alvöru á Nesi fyrr en eftir síðari heimstyrjöldina en hún átti sér þó talsverðan aðdraganda. Þegar jarðabók Árna og Páls var gerð [1703] voru 37 heimili á Seltjarnarnesi og 158 íbúar. Öll lögbýlin nema Nes og drjúgur hluti hjáleiganna voru mjög nærri sjó og þau býli sem stofnuð voru á 18., 19. og fram eftir 20. öld voru flest alveg við sjávarmál. Greinilegt er að nálægð við sjó var höfuðatriði sem haft var í huga við staðsetningu býlanna. Heimilunum á Seltjarnarnesi virðist hafa fækkað talsvert á 18. öld og í upphafi 19. aldar voru þau 20 talsins en íbúatalan hélst óbreytt. Ekki er að sjá miklar breytingar á íbúafjölda eða fjölda bústaða á nesinu á 19. öld en um 1900 hafði heimilum á nesinu aftur fjölgað og voru þau þá 35. Í kringum aldamótin 1900 var mikil útgerð stunduð frá Seltjarnarnesi en skútuútgerð lauk á fyrsta áratug 20. aldar og komu þar ýmsar ástæður til s.s. hafnleysi og aðstöðuleysi í landi.
Mýrarhús og Pálsbær.
Allt fram til 1925 voru flestir bústaðirnir reistir á gömlu hjáleigu- og tómthússtæðunum. Eftir 1925 hefst hinsvegar íbúðabyggð á Seltjarnarnesi á landi sem áður hafði verið nýtt til slægna og beitar. Eins og algengt er var sú þéttbýlisbyggð sem fyrst reis á Seltjarnarnesi blanda af bæjar- og sveitarmenningu. Húsin voru byggð við götur en útihús voru gjarnan á baklóðum og víða var sjósókn stunduð samhliða smávægilegum búskap.
Þéttbýlismyndun á Seltjarnarnesi hófst austast á nesinu og fyrsta jörðin sem formlega var skipt undir íbúðahúsabyggð var Lambastaðir. Á árunum 1930-1940 reis þar íbúðarhúsahverfi. Á vestanverðu nesinu reis fyrst þéttbýli við götuna Tryggvastaðabraut, sem síðar var breytt í Lindarbraut. Byggðin sem þar reis var í upphafi sumarhús en mörgum þeirra var fljótlega breytt í heildsársbústaði.
Frá upphafi byggðar á Seltjarnarnesi og fram yfir aldamótin 1900 var þungamiðja nessins á Framnesinu, í höfuðbólinu Nesi og hjáleigum hennar. Á árunum 1914-1939 var rekið útgerðarfélag í Melshúsum og voru umsvif í kringum það mikil. Líklega hafa þau umsvif átt sinn þátt í því að byggðamynstur á svæðinu tók að breytast eins mikið og raunin var og þungamiðja nessins að færast austur.
Í síðari heimstyrjöldinni voru umsvif hersins mikil á Seltjarnarnesi. Mest voru þar 4-5 braggahverfi; á og við Valhúsahæð þar sem lang stærsta braggahverfið (Grotta Camp) reis ásamt miklum eftirlits- og varnarstöðvum, í Suðurnesi og í Bollagörðum (RN Fixed Defence Statio) þar sem einnig voru eftirlitsstöðvar, hjá Hæðarenda (Boulogne Camp) og við Sæból (Sabol Camp) í Lambastaðahverfi. Ólíkt því sem víða gerðist í þéttbýli hér á landi í stríðslok myndaðist ekki íslenskt braggahverfi á Seltjarnarnesi. Ástæðan var sú að hreppsnefnd krafðist þess að braggarnir væru rifnir og fjarlægðir. Eina undantekningin frá þessu voru braggar í Hæðarenda sem þá tilheyrði Reykjavík. Þar var braggabyggð allt til 1970.
Hinn nýi Seltjarnarneshreppur varð formlega til í ársbyrjun 1948. Íbúar í honum voru um 500 og flestir þeirra bjuggu í Lambastaðahverfi þó einnig væri allþétt búseta á vestanverðu nesinu. Árið 1974 fékk Seltjarnarnes kaupstaðarréttindi og voru íbúar þá tæplega 2500, flestir í Stranda-, Nes- og Melhúsahverfi. Á síðustu þrjátíu árum hefur íbúatalan næstum tvöfaldast og byggð er nú þétt á öllu nesinu austan Ness.”
Lambastaðir
Lambastaðir – túnakort 1916.
Á jörðina er fyrst minnst um 1500 í skrá um landamerki milli Víkr á Seltjarnarnesi (Reykjavíkr), Örfæriseyjar, Eiðs og Lambastaða. Skrifað um 1570 (Bessastaðabók). Þar segir: “þadann og vestur j griot gard firir svnnann eidz tiornn og ofan þar sem gardvrinn geingvr sydvr j sio firir avstan lambastadi” DI VII 458.
Þann 10. mars 1553 er minnst á Lambastaði í staðfestingarbréfi Kristjáns konungs þriðja á veitingu þeirra jarða er Páll Hvítfeldr hafði lagt skólameistaranum í Skálholti. Þar segir: “Wii , Christiann etc. giiöre alle witherligt. att eptherthij oss elskelige Pouell Huitfeld. wor mannd oc thiennere. haffuer epther wor beffalling vdlaugd thette eptherschreffne goedtzs. paa vort lannd Islannd liggenndis. til scholemesters wnderhollning til Schalotzs(!) domkyrcke…. Lampestadom iiij köer.” DI XII 524.
Lambastaðir 1910.
3. júlí 1556 eru Lambastaðir meðal þeirra jarða sem færast úr eignarhaldi Skálholtsstóls og yfir til konungs í skiptum fyrir Bjarnanesjarðir sbr. “sub Anno gratiæ 1556. faustudaginn næstan eptter visitatio Mariæ j Skalholltti. vorum vier j hia saum og heyrdum aa ad Knut Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonsson. huer þa var settur af kongligu valldi yfer Skalholltt og Skalholltzsticktti til ad stiorna og regera heilax religionis vegna. ad eptter þui konunglig Maiestatis jinnsigludu brieffui sem vpp var lesid a alþingi. ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a Seltiarnarnesi og Alttanesi. hueriar ad voru j þad mund atta ad taulu hueriar ad suo heita. Nes. skilldinganes. Eidi. Lambastader. Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins med kugilldum og árligri afgiptt.” DI XIII 139.
Lambastaðasel.
1703: Dýrleiki óviss, konungseign. “Munnmæli eru að af þessari jörð sje til forna, so em hjáleiga, bygð jörðin Hrólfsskáli, en sann á því vita menn ekki,” JÁM III, 235. Hjáleigur 1703: Tjarnarhús, Melshús og voru þá báðar í byggð. Afbýli 1916: Melshús, Melstaður, Sanitas og Vegamót. Í Seltirningabók segir (bls. 103): “Um 1865 var jörðin seld undan Lambastöðum og hún þá talin vera 5 hundruð eða fjórðungur af verði heimajarðarinnar.”
Hrólfsskáli
Hrólfsskáli – túnakort 1916.
1703: Konungseign.
Jarðarinnar fyrst getið í jarðabók frá um 1584. Þá kemur fram að konugur seldi Hrólfsskála og Lambstaði fyrir þriðjung í Reykjavík. Í Jarðabókinni er Hrólfsskáli “hálfbýli kallað, því það hefur ekki fyrirsvar haft nema að helmingi mót lögbýlisjörðum inn til tveggja næstliðinna ára. Jarðadýrleiki er óviss.” “Munnmæli eru að af þessari jörð [Lambastöðum] sje til forna, so em hjáleiga, bygð jörðin Hrólfsskáli, en sann á því vita menn ekki,” JÁM III, 235-6
1703: “Túnin brýtur og fordjarfar sjáfargángur, so að ei er húsum óhætt. Engjar eru öngvar. Útigángur enginn og haglaust um sumur.” JÁM III, 237.
1916: Tún austara býlis 3,2 teigar, garðar 2300m2. Tún á vestara býli 2,8 teigar, garðar 1700m2. “Túnið allt sléttað, nema mýrlendi bletturinn og litlar blettir stórgrýttir. Utantúns kálg. stór og túnblettur lítill – talinn með.” Túnakort 1916.
Bakki
Bakkakot – Bakki og Bakkakot.
1703: “Backe, bygð í óskiftu heimalandi ness á Seltjarnarnesi og nú lögbýli kallað. Jarðardýrleiki er óviss.” JÁM III, 238. Neskirkjueign.
1397: Neskirkja á: “Þridiunginn i Heimalandi … Eidzlandi. Backa oc Byggardi.” (DI IV 108-109) Sjálfstæð jörð a.m.k. frá 14. öld en átti óskipt land með Nesi og taldist hjáleiga þaðan í jarðab. 1760. Á Bakka er aftur minnst í Gíslamáldaga um Nes 1575. Þar er aftur sagt að kirkjan í Nesi eigi þriðjung af heimalandi Bakka með rekum, skógum og afréttum (sbr. DI XV, 637).
Nes við Seltjörn
Nes, Knútborg nyrðri, Knúborg syðri og Litlibær – túnakort 1916.
120 hdr. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII, 9.
Í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum á Ströndum frá 1367 er minnst á Neskirkju: “Nesia sysla lix. Nichulas kirkia a seltiarnarnese a sex manna messuklæde. allt annad suo sem Vilchinsbok jnne helldur” Hítardalsbók DI III, 220. Á Neskirkju er einnig minnst 1379 í máldaga Jónskirkju í Vík (Reykjavík). Þar segir “Jonskirkia j vik aa land alltt at seli. landsælding og selalatur j erfærisey. sælding j akvrey. rekann allann a kirkivsandi. fiordvng reka j mots vid nes. eyngey og lavgarnes. vtan seltiornn og lavgarlæk.” DI III 340.
Til er máldagi Neskirkju frá 1397. Þar segir: “Nichulaskirkia i Seltiarnarnesi a: fiordung veida j Ellidaaum. þridiunginn i Heimalanndi med rekumm skogumm oc afriettumm. Eidzlandi. Backa oc Byggardi. Half Krossvyk ad vidreka. Herkistader ad vidreka ollumm. Arland nedra. Þar skal vera prestur oc diakn,” Máld. DI IV 108-109.
Frá árinu 1546 hefur varðveist bréf í fornbréfasafni um Neskirkju. Þar segir: “Eingeyar maldage Kirkian ä fiordung j öllum reka millum fossvogslækiar utan ad kirkiusande. og j seltiörn.” DI VII 52.
Árið 1546 kemur fram í Fornbréfasafni að Gizur biskup byggir Eyjólfi bónda P(áls)syni jörð dómkirkjunnar Nes á Seltjarnarnesi um þrenna tólf mánuði, með þeim greinum, er bréfið hermir. DI XI 527.
3. júlí 1556 er Nes meðal þeirra jarða sem færast úr eignarhaldi Skálholtsstóls og yfir til konungsí skiptum fyrir Bjarnanesjarðir sbr. “sub Anno gratiæ 1556. faustudaginn næstan eptter visitatio Mariæ j Skalholltti. vorum vier j hia saum og heyrdum aa ad Knut Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonsson. huer þa var settur af kongligu valldi yfer Skalholltt og Skalholltzsticktti til ad stiorna og regera heilax religionis vegna. ad eptter þui konunglig Maiestatis jinnsigludu brieffui sem vpp var lesid a alþingi. ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a Seltiarnarnesi og Alttanesi. hueriar ad voru j þad mund atta ad taulu hueriar ad suo heita. Nes. skilldinganes. Eidi. Lambastader. Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins med kugilldum og árligri afgiptt.” DI XIII 139.
1575: “Kirkian ad Nese ä Seltiarnarnese. a Thriðiung i heimalande. med [rekum. Skögum. afrettum. Eijdzlandj Backa og Bijggarde. Hälf Krossavijk ad vidreka. Herkestader ad vidreka øllum. Arland nedra. Jtem fiordung veidar i Ellida Äm.” Gíslamáldagar DI XV 637.
Nesstofa – Esja í bakgrunni.
26.5.1797: Neskirkja aflögð; (PP, 110) [konungsbréf]. Bændaeign þar til 1397-1546, Þá Skálholtsstólseign en 1556 varð hún konungseign. Kirkjan í Nesi átti upphaflega þriðjung í heimalandi, Bakka, Bygggarði, Eiði og Árlandi [síðar Ártún] en hlutur hennar í heimalandi, Eiði og Árland voru tekin undan en 2/3 af Bakka og Bygggarði voru látin í staðinn og töldust þær kirkjujarðir að öllu frá því á 16. öld. Bakki og Bygggarður höfðu óskipt land við Nes fram á þessa öld. Nesjörðinni hafa upphaflega fylgt skógar og afréttir og mögulega selstaða þar sem heitir Nessel. Grótta var hjáleiga, fyrst getið 1547-52. Bakki talin hjáleiga í jarðab. 1760.
1703 voru Nýibær, Jónshús, Gesthús, Þýskhús, Smiðshús, Móakot, Kot og Ráðagerði hjáleigur en heima við bæinn voru Bakrangur, Norðurbær, Jakobshús, Dugguhús og 1 ónafngr. tómthús. Seinna byggðust Knútsborg, Litlibær, Nýlenda og Bollagarðar og vel er hugsanlegt að þau hafi öll byggst upp á gömlum – bæjarstæðum eins og Jónshúss, Þýskhúss, Smiðshúss og Kots en staðsetning þessara býla er annars týnd. Nesi tilheyrði Akurey en í jarðab. 1803 er þar talin dúntekja og heyskapur. Nes var landlæknissetur frá 1760 til 1834.
Nesstofa.
Minnst er á Hafur-Björn sem bjó í Nesi í sambandi við landnám Ásbjörns Össurarsonar milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns í Landnámabók (H353) bls 395 ÍF I. Bærinn Nes virðist á fyrstu öldum jöfnum höndum nefndur Nes og Seltjarnarnes. Á Seltjarnarnes er minnst í nokkrum biskupasögum og Sturlungu en oft erfitt að skera úr um hvort átt er við allt Seltjarnarnes eða bæinn Nes þótt það síðarnefnda virðist oftar raunin. Seltjarnarnes er nefnt í Sturlungu (I. bindi, 184. kafla, bls. 253). Þar getur um atburði sem áttu að gerast 1216: “En um vorið um stefnudaga fór Snorri suður á Seltjarnarnes og hafði tvær ferjur af Akranesi og fjóra tigu manna á hvorri. Þeir létu fáa eina sjá er þeir fóru suður að nesinu”.
Nessel.
Af heimildum að dæma hefur Nes snemma verið ein af bestu jörðum landsins sbr.: “[1226]: Máldagi settr á alþíngi, um osttoll til Viðeyjar klaustrs af Kjalarnes þíngi. (Vottar að þessum máldaga voru m.a.:) Styrkár Sveinbjarnarson var merkr bóndi í Kjalarness þíngi; hans ætt er talin í Landnámab. v, 14 : Ísl. s. I, 320, og var hann kominn af ætt Íngólfs landnámsmanns; sonr hans var Hafrbjörn í Seltjarnarnesi, sem hafði mest bú og bezta hýbýla skipan á Íslandi af bændum í sinni tíð (Árna bisk. s. kap. 26) DI I 495. Á Nes er minnist í víða í biskupasögu Árna biskup.
1280: “Nú því at hann [Árni biskup]rýmði fyrir herra Ásgrími fór hann heim í Skálaholt ok var þar stundum en stundum í Seltjarnarnesi ok með honum Ellisif Þorgeirsdóttir ór Holti, þess er fyrr er nefndr.” Biskupasögur III, Árna Saga 58. kap. bls 83.
Nesstofa.
1280-1281: “Þann vetr var herra Loðinn ok með sveina sína í Seltjarnarnesi með fyrrnefndum Hafrbirni ok veitti hann allstórmannliga ok vóru þá kyrr ein tíðindi. Ok er vár kom fóru þeir Jón lögmaðr þann hlutalands sem ófarinn var um haustit, ok er dró at þingi bjogguz menn til ferðarinnar hverraf sínum heruðum. Herra Árni byskup reið ok til þings ok með honum mart lærðra manna en herra Loðinn ok allir handgengnir menn með honum.” Biskupasögur III, Árna Saga 62. kap. bls 86. (Svipaður texti er einnig í Sturlungasögu II í köflum 43 og 45 bls 810-811).
1550: Jtem komer Ion Grönlandt till en iiij manefar paa Seltenes wthen formandskop oc er her till skepet j tonde mell oc j tonde sijre oc mijn frj mand her Semen Gislessen fro Tolleüer Grimsen.
Fógetareikningar DI XII 184 Seltjarnarnes einnig nefnt í fógetareikningum árið 1548 DI XII 12.
16. apríl 1556: Erindisbréf Knúts hirðstjóra Steinssonar B. Á íslenzku. 8. Vm skipte a Alfftaness jordum. J attunda mata hefur Kong May. befalad Knute Steinssyne. ad taca til sijn allar þær jardir sem liggja ä Alfftanese og Seltiarnarnese er Skalhollt[s] stikte til heyrer. þo skal hann vtleggia aptur til jafnadar virdingar stiktinu so margar jardir og mikla rentu aff þeim sem vndir krununa liggia. Og Bæde j þessu sem odru leite Knutur Steinsson [kong maiestets gagnsemdar [og goda. epter hans fremstu magt og formegan. DI XIII 109 1916 er tvíbýli á bænum. Tún austara býlisins 4,96 teigar auk 0,5 teiga í Einingu. Tún vestara býlis voru 7,98 teigar, 0,57 teigar í útgræðslu auk 0,6 teiga í Einingu. Garðar austara býlis voru 380 m2 heima en 970 m2 norður við sjó. Garðar vestara býlis 1040 m2, norður við sjó 1390m2.
Grótta
Grótta – túnakort 1916.
Hjáleiga frá Nesi. Fyrst getið 1547-1548 í Leigna, landskylda og skreiðargjaldsreikningr Kristjáns skrifara af konungsjörðum. Þar segir: “Item met Lambage v legekiör. landskyldt xv öre. ij lege vj förenger smör dt. her er ij foder en ij ar gamell nödt oc iiij lamb oc aff foder en 3 ar gamell nöd oc iiij lam oc ij landskyldt j ar gamlle quege for xl alner oc j thönde öll for xx allner oc fich Thume v öre ij formandskop for en sexereng ij Gröthen” DI XII 111-112. Einnig er minnst á Gróttu í fógetareikningum árin 1548: DI XII 130, 1548-1549: DI XII 138, 1549-1550: DI XII 153, 1550: DI XII 184, 1552: DI XII 413, 421, 424 og var þá útræði þaðan.
Grótta 1961.
Þótti með betri jörðum á Nesinu á 18. öld en spilltist af flóðum, sennilega Básendaflóðinu 1799 og var í eyði um skeið á fyrri hluta 19. aldar. Fyrir flóðið mun bærinn hafa staðið á breiðu nesi.
1703: “Tún hjáleigunnar brýtur til stórskaða sjávarágángur. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 244.
1916: Tún 1,5 teigar, allt slétt. Garðar 740m2. “Túnið alt er umgirt sjógarði er sjór fellur að í miklum flóðum, helst að n.a. a. og s. Klappir og grjót hlífir vestur hliðinni og s.v. Gengin er grandi til lands um fjöru …” Túnakort 1916.
Bygggarður
Bygggarður – túnakort 1916.
Neskirkjueign. Sjálfstæð bújörð a.m.k. frá 14. öld. Fyrir 16. öld átti Neskirkja aðeins þriðjung í Bygggarði eins og heimalandinu. Útjörð Bygggarðs var óskipt með Nesi fram á þessa öld og hefur jörðin því byggst úr Neslandi.
1397: Neskirkja á: “Þridiunginn i Heimalanndi … Eidzlandi. Backa oc Byggardi.” (DI IV 108-109). Í hlutabók Kristjáns skrifara frá 1548 segir eftirfarandi: Jtem en lod paa en sexering bijgardhen (sbr. DI XII 130). Jörðin er einnig talin upp í Hlutabók Eggerts hirðsstjóra Hannessonar frá 1552-1553, en þar segir: “Jtem komer Byerne Raffensön tiill en vjeringh ij Biggaaren. Jtem sende iegh tiill en sexeringh ij Byggaren j tonde miell. Jtem sende iegh tiill en vjeringh ij Byggaren j tonde syre (sbr. DI XII 570, 581, 585).
Bygggarðar 1963.
1703 voru 4 ónafngreindar hjáleigur með Bygggarði. Í Seltirningabók segir: “Örnefnið bendir til kornræktar en ekkert er nánar um það vitað. Jörðin komst öll í eigu Neskirkju og eftir að hún var lögð niður, lenti Bygggarður í eigu Dómkirkjunnar í Reykjavík. Ábúð var á jörðinni um tíma eftir 1840 boðin upp og voru þá ábúendur þar fremur skamman tíma hver. Eftir að Nessöfnuður var stofnaður, fékk hann jörðina og loks keypti Seltjarnarneshreppur hana. Var landi hennar þá úthlutað undir iðnaðarsvæði.” Seltirningabók, 152.
Jörðin fór illa út úr Básendaveðrinu 1799 og er talið að búskaparskilyrði hafi versnað eftir það.
1703: “Túnin brýtur sjávargángur skaðlega, so að ei er görðum nje heyjum óhætt. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 247. 1916: Tún 2,7 teigar heima, 0,2 teigar í Eining. Garðar 600 m2.
Mýrarhús
Mýrarhús – túnakort 1916.
Dýrleiki óviss 1703, konungseign. “Mýrarhúsa er fyrst getið í jarðabók frá árunum 1633-34,” segir í Seltirningabók (bls. 157). Mýrarhús eru 1703 talin hálflenda; þau eru byggð úr stekk frá Eiði um 1600. Ö-Seltjarnarnes AG, 4.
Á 18. öld bjó Þórður Einarsson í Mýrarhúsum og var Þórður afkastamikill skipasmiður svo að höfundur Seltirningabókar ályktar að á seinni hluta 18. aldar hafi verið eins konar skipasmíðastöð í Mýrarhúsum (bls. 159.)
1703: “Túnin brýtur sjávargángur. Engjar eru öngvar. Útihagar næsta því öngvir.” JÁM III, 250. 1916: Tún 1,67 teigar, allt sléttað nema grjót og malarblettir, engin garður.
Eiði
Eiði – túnakort 1916.
1703: Dýrleiki óviss, konungseign.
1397 á Neskirkja: “Þridiunginn i Heimalanndi … Eidzlandi. Backa oc Byggardi.” (DI IV 108-109). Þann 10. mars 1553 er minnst á Eiði í staðfestingarbréfi Kristjáns konungs þriðja á veitingu þeirra jarða er Páll Hvítfeldr hafði lagt skólameistaranum í Skálholti. Þar segir: “Wii , Christiann etc. giiöre alle witherligt. att eptherthij oss elskelige Pouell Huitfeld. wor mannd oc thiennere. haffuer epther wor beffalling vdlaugd thette eptherschreffne goedtzs. paa vort lannd Islannd liggenndis. til scholemesters wnderhollning til Schalotzs(!) domkyrcke….. Eyde ij köer.” DI XII 524.
Eiði.
3. júlí 1556 er Eiði meðal þeirra jarða sem færast úr eignarhaldi Skálholtsstóls og yfir til konungsí skiptum fyrir Bjarnanesjarðir sbr. “sub Anno gratiæ 1556. faustudaginn næstan eptter visitatio Mariæ j Skalholltti. vorum vier j hia saum og heyrdum aa ad Knut Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonsson. huer þa var settur af kongligu valldi yfer Skalholltt og Skalholltzsticktti til ad stiorna og regera heilax religionis vegna. ad eptter þui konunglig Maiestatis jinnsigludu brieffui sem vpp var lesid a alþingi. ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a Seltiarnarnesi og Alttanesi. hueriar ad voru j þad mund atta ad taulu hueriar ad suo heita. Nes. skilldinganes. Eidi. Lambastader. Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins med kugilldum og árligri afgiptt.” DI XIII 139.
Árið 1575 kemur fram í Gíslamáldaga að kirkjan í Nesi eigi þriðjung af heimalandi Eiðis með rekum, skógum og afréttum (sbr. DI XV, 637).
1703: “Túnin brýtur sjór til stórmeina. Engjar eru öngvar. Hagar og útigangur í lakasta máta.” JÁM III, 251.
1916: Tún 3 teigar, allt sléttað, garðar 274 m2.
Í skýrslu um “Fornleifarannsóknir við Bygggarðsvör á Seltjarnarnesi 2004” segir af sjósókn Nesbúa:
Spil ofan við Bygggarðsvör 2002.
“Fáar minjar eru nú eftir um útgerð á Seltjarnarnesi. Sjóhús og naust eru horfin, en varir frá býlum má þó víða greina. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru þrjár verbúðir á jörðinni í Nesi reyndar nefndar með nafni, þ.e. Morastaðabúð, Hannesarbúð og Stórabúð í Suðurnesi, en þar fram undan má sjá móta fyrir vör á stórstraumsfjöru.
Ritaðar heimildir skortir að mestu um sjósókn Seltirninga þar til á 18. öld. Gera má þó ráð fyrir að þeir sem bjuggu á Seltjarnarnesi hafi stundað sjósókn allt frá landnámstíma.
Á 14. öld jókst útflutningur á fiski og jarðir við sjávarsíðuna sem höfðu útræði hækkuðu því í verði. Á 15. öld hófst baráttan milli Englendinga og Þjóðverja um fiskinn og á 16. öld komu þýskir kaupmenn sér upp bátum og gerðu út frá jörðum við Faxaflóa. Ætla má að þeir hafi rekið einhverja útgerð frá Seltjarnarnesi samanber nafnið á hjáleigunni Þýskhús, sem var í Nesi í upphafi 18. aldar.
Pálsbæjarvör.
Hér mætti skjóta inn almennt um mikilvægi fiskmetis fyrir afkomu þjóðarinnar á liðnum öldum eftirfarandi í Íslandslýsingu Odds Einarssonar Skálholtsbiskups frá því um 1590: “Næst á eftir mjólkurmat og kjöti af kvikfénaði er mikill hluti fæðu Íslendinga venjulegur fiskur. Er hann fyrst hertur nægilega í vindi og sól, þá barinn með lurkum eða fremur steinsleggjum, þar til hann er orðinn vel meyr og eftir það má svo á þörfum bera hann í ákveðnum skömmtum fyrir hvern einstakan, er að snæðingi situr og eta með smjöri sem brauðsígildi. Þessi fæða er talin hin heilnæmasta og eigi aðeins til að seðja hungrið, heldur og ágætlega til þess fallin að efla þrótt og fjör.” Þessi lýsing gildir einnig að mestu um mataræði allt frá landnámstíma, því þrátt fyrir akuryrkju framan af öldum, einkum byggrækt, kom harðfiskur að meira eða minna leyti í stað kornmatar að talið er.
Nýlenduvör.
Á 17. og 18. öld áttu útvegsbændur og leiguliðar á Seltjarnarnesi fjölda opinna skipa og þaðan voru einnig gerðir út svokallaðir konungsbátar. Fylgdi sú kvöð mörgum jörðum að ábúendur urðu að sjá um þessa konungsbáta svo lengi sem kóngsútgerð hélst, en Bessastaðavaldið hirti af þeim tekjur. Fjöldi vermanna safnaðist til Seltjarnarness á vertíðum. Meðal þeirra voru Borgfirðingar fjölmennir.
Við upphaf 19. aldar voru 25 býli í Seltjarnarneshreppi og af þeim voru öll nema 7 með einhverja skipaeign. Þessi áraskip voru smá, flest tveggja manna för. Upp úr miðri öldinni varð á þessu breyting. Farið var að gera út sexæringa og áttæringa og á þeim mátti sækja dýpra og fara lengra. Seltirningar fóru að stunda veiðar á miðum suður í Leiru og undan Vatnsleysuströnd. Ekki var þessi ágangur vel séður af Suðurnesjamönnum og risu af honum mótmælasamþykktir og málaferli. Af þessu að dæma hefur landinn löngum deilt um það hvernig fiskveiðiréttinum skuli hagað áður en landhelgin var útfærð stig af stigi í 200 mílur á liðinni öld og handhafar framkvæmdavaldsins komu á umdeildu fiskveiðikvótakerfi.
Nesvör.
Árið 1895 áttu Seltirningar um 40 opin skip en fimm árum síðar voru aðeins tvö eftir. Um 1885 fóru útvegsbændur á Seltjarnarnesi að taka sig saman um að kaupa þilskip eða skútur. Voru gjarnan tveir til þrír menn sem stóðu að hverju skipi. Fyrstu skipin voru skonnortur, 30-40 lestir að stærð. Upp úr 1895 var síðan farið að kaupa svokallaða kúttera frá Bretlandi, en þeir voru margir 80-100 lestir. Þó að skipin stækkuðu var ekki um breytingar að ræða á veiðunum. Áhöfnin á skútunum vann því ekki saman heldur dorgaði hver við sitt færi, enda netaveiðar ekki stundaðar almennt hér á landi fyrr en eftir aldamótin 1900. Fiskurinn var saltaður, fluttur heim á Nesið og þurrkaður þar og merki má m.a. sjá um það við Bygggarðsvörina og víðar á Seltjarnarnesi.
Árið 1904 náði skútuútgerð Seltirninga hámarki, og voru þá gerð út þaðan 10 þilskip. En það fór svipað með skútuútgerðina og útgerð opinna skipa, henni hrakaði furðufljótt. Árið 1909 var ekkert þilskip eftir og þegar kom fram á árin milli stríða stunduðu Seltirningar helst hrognkelsaveiði.”
Í yfirliti um “Skráðar minjar á Seltjarnarnesi” er sagt frá Neskirkju og -kirkjugarði:
Nes.
“Kirkja/kirkjugarður suðaustan við Nesstofu. Rústir eru ekki sjáanlegar á yfirborði. Þegar grafið var fyrir hitaveituskurði að Nesstofu árið 1979 fundust þarna grafir og veggjarhleðslur sem taldar eru vera frá kirkjugarðinum, og var svæðið þá lauslega athugað af safnverði á Þjóðminjasafni. Leifar grjóthlaðins veggjar utan um matjurtagarð virðast geta verið framhald veggjarins sem fannst 1979. Árið 1994 kannaði Línuhönnun hf. svæðið með jarðsjá að frumkvæði Rótarýklúbbs Seltjarnarness. Niðurstöður mælinganna þykja benda til þess að tekist hafi að afmarka útlínur kirkjugarðsins að hluta, og finna líklega staðsetningu kirkjunnar.
Kirkju í Nesi er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar um 1200. Elsti máldagi hennar, sem þekktur er, er frá 1397. Talið er að þegar hann var gerður hafi kirkjan í Nesi verið úr torfi. Hún var þá auðug að jörðum. Árið 1642 er Neskirkja sögð “stæðileg að máttarviðum”; sú kirkja var líklega að mestu leyti úr torfi og grjóti. Árið 1675 var svonefnd Úlfhildarkirkja reist, vegleg kirkja úr torfi og með miklu tréverki. Lýsing á henni er talin geta bent til þess að hún hafi verið útbrotakirkja, en þær voru sjaldgæfar hér. Úlfhildarkirkja er sögð illa farin 1780, og 1785 var enn reist ný kirkja í Nesi, sú síðasta sem þar stóð. Það var glæsileg timburkirkja, en árið 1797 var helgi aflétt af henni og Seltirningum gert að sækja kirkju í Reykjavík. Neskirkja fauk í Bátsendaveðrinu 1799.
Bjarni Pálsson – minnismerki við Nesstofu.
Kirkjugarðurinn umhverfis Neskirkju er fyrst nefndur í vísitasíu frá 1758; menn voru greftraðir þar að minnsta kosti til 1813.”
Á Mbl.is, 17. júlí 1994, segir; “Síðasta kirkjan við Nesstofu á Seltjarnarnesi fauk í Bátsendaveðrinu árið 1799“:
“Morgunblaðið sagði nýlega frá því að kirkjustæðið hefði verið staðsett nokkuð nákvæmlega með jarðsjártæki, sem virkar eins og ratsjá nema hvað því er beint í jörðina. Það er því ekki úr vegi að grípa niður í árbók Jóns Espólins, þar sem fjallað er um Bátsendaveður. Frásögnin er í kafla, sem ber nafnið “Vetrarþúngi, vedr ok brim.” Síðasta kirkjan við Nesstofu á Seltjarnarnesi fauk í Bátsendaveðrinu árið 1799: “Urdu því skadar hvervetna sem mestir máttu verda hér. Þá tók ofan at grundvelli kirkjuna at Nesi vid Seltjörn.”
Heimildir:
-Vikan 18.06.1987, Nesstofa – eitt elsta steinhús landsins, bls. 32-33.
-Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi, Fornleifastofnun Íslands 2006.
-Fornleifarannsóknir við Bygggarðsvör á Seltjarnarnesi 2004.
-Skráðar minjar á Seltjarnarnesi – http://www.seltjarnarnes.is/media/skipulag/Skradar-minjar.pdf
-Mbl.is, 17. júlí 1994 – Síðasta kirkjan við Nesstofu á Seltjarnarnesi fauk í Bátsendaveðrinu árið 1799 – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/146782/
-Beinafundur hjá Nesi við Seltjörn, Þjóðminjasafn Íslands 2000.
Grótta.