Færslur

Brunnur

Nes í Selvogi var lengi höfuðból. Bjuggu þar oft gildir bændur og efnuðust stundum vel af sjávarútvegi og sauðfjárbúskap. Um 1830 bjó þar bóndi sá, er Gísli hét Þorláksson: fæddur var hann í Selvogi um 1774 og dvaldist þar ævilangt. Hann virðist hafa verið í góðu áliti og hreppstjóri var hann Selvogsmanna um nokkurt skeið. Gísli var þríkvæntur og átti börn nokkur, en eigi koma þau við þessa sögu nema dóttir ein, sem Ólöf hét. Hana átti Gísli með miðkonu sinni, sem Ingveldur hét Gísladóttir. Ólöf var fædd í Nesi 9. október 1813 og dvaldist þar til 27 ára aldurs. Við fermingu fær hún þann vitnisburð hjá presti sínum, að hún sé “meðallagi gáfuð, lærði allt kverið smátt og stórt og hegðun skikkanleg.” Í æsku hafði hún þótt efnisstúlka, fríð sínum með mikið og glóbjart hár og hög vel til handa.

NesMilli Ness í Selvogi og Þorlákshafnar voru vináttubönd, hvorutveggja voru hreppstjóraheimili, að vísu var allt stærra og meira í sniðum í Þorlákshöfn, en þau áttu það sameiginlegt að bera af um alla alþýðumenningu.

Það mun hafa verið fastmælum bundið haustið 1834, að Ólöf í Nesi færi til dvalar að Þorlákshöfn. Var hún þá tvítug að aldri og átti að læra hannyrðir hjá maddömu Hólmfríði, konu Magnúsar Beinteinssonar. Mun Ólöf hafa dvalist í Höfninni vetrarlangt eða fram undir 1835.

Nes

Nes í Selvogi – túnakort.

Nú kemur ný persóna til sögunnar, og verður nokkuð greint frá henni. Bergur hét maður og var Guðmundsson, fæddur í Króki í Hraungerðishreppi 1797. Voru foreldrar hans Guðmundur Hannesson bóndi í Króki og kona hans Herdís Bergsdóttir frá Reynisvatni í Mosfellssveit. Bergur kvæntist 1823 Margréti Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti og byrjuðu þau búskap í Hvammsvík í Kjós. Þar eru þau talin búandi til ársins 1826. Síðasta árið var í félagsbúskap við Berg bróðir hans, Hannes, er síðar bjó að Hjalla í Ölfusi. Um þessar mundir sótti Bergur um leyfi með Hannesi bróður sínum að reisa nýbýli suðaustan undir Esjunni, en því synjað á þeim forsendum, að býlið myndi liggja á afréttarlöndum tveggja sýslna, lá og eigi “allskostar gott orð á þeim bræðrum”. Bergur varð snemma drykkfelldur og eigi við eina fjöl felldur, einkum í kvennamálum, en dugandi maður var hann talinn til verka og smiður góður. Með Margréti konu sinni átti Bergur tvö börn, skildu þau hjón síðar að borði og sæng, það var árið 1827. Annað barn þeirra dó í bernsku, en hitt komst til aldurs. Það var Þorsteinn, skipstjóri í Ytri-Njarðvík, f. 1823, og er margt dugandi fólk frá honum komið.

Tóftir

Tóftir við Nes.

Er Bergur hafði látið af búskap í Hvammsvík og skilið við konu sína, mun hann hafa verið á ýmsum stöðum, ýmist sem lausamaður ella í vinnumennsku. Árið 1835 er hann vinnumaður í Helli í Ölfusi hjá þeim hjónum Þorleifi Sæfinnssyni og Aldísi Vigfúsdóttur frá Fjalli á Skeiðum, systur Ófeigs ríka. Aldís þótti kona mikil fyrir sér og mælt, að bóndi hennar hefði stundum fullmikið konuríki. Veturinn sem Bergur dvaldist í Helli, gerðist það, að hann barnaði húsmóður sína. Barnið var mær og komst til fullorðinsára. Það var Guðrún á Grímslæk, f. 20. febrúar 1836. Hún giftist og átti margt barna, meðal þeirra var Marteinn Einarsson stórkaupmaður í Reykjavík. Til er saga um það, þegar Aldís í Helli hafði alið barnið, þá hafi Þorleifur maður hennar komið inn í baðstofuna og viljað líta á afkvæmið nýfætt. Þá átti Aldís að hafa sagt þetta, sem var í minnum haft: “Skiptu þér nú ekkert af þessu, við Bergur eigum þetta barn!” –

Veturinn 1835 um vertíðarbyrjun lagði Bergur leið sína út í Þorlákshöfn og falaðist eftir skipsrúmi. Samdist þá svo um, að hann gerðist háseti hjá hinum nafnkunna formanni Jóni Ólafssyni í Hraunshjáleigu, er stýrði einu af skipum Magnúsar Beinteinssonar. Lítt samdi þeim Bergi og Jóni formanni, og taldi Jón, að Bergur hefði ill áhrif á skipshöfnina. Þar kom, að Bergur stökk úr skiprúminu, en aðrir sögðu, að Jón formaður ræki hann, og var það óvanalegt í Þorlákshöfn. Mælt var, að Jón teldi sig feginn að vera laus við Berg, þótt dugandi sjómaður væri og allvel fiskinn, en vildi ekki vinna það fyrir, sökum ýmissa þverbresta í fari hans. Eigi hvarf Bergur úr Höfninni, þótt hann færi af skipi Jóns Ólafssonar. Gekk hann nú um sinn á milli formanna og fékk að róa hjá þeim einn og einn róður. Var margt um það skrafað, en Jón Ólafsson hafði í flimtingum við formenn þá, er leyfðu honum að fljóta með, sögðust þeir mundu það gera, meðan Magnús Beinteinsson gerði hann ekki “plássrækan”. Nokkru eftir að þessir atburðir gerðust, samdist svo á milli Bergs og Magnúsar bónda Magnússonar á Hrauni, að hann smíðaði veiðibát fyrir Magnús, en hann var sem kunnugt er sonur Magnúsar Beinteinssonar. En með því að í Þorlákshöfn var smíðahús og smiðja með nægum tækjum, bað Magnús á Hrauni föður sinn leyfis, að Bergur mætti vinna að smíðinni úti í Höfn. Gaf Magnús Beinteinsson leyfi til þess, þótt eigi væri honum um dvöl Bergs þar gefið, eftir að hann fór úr skiprúminu. Fékk Bergur nú að sofa á bæjardyralofti; voru þar tvö rúm ætluð ótignari gestum. Þar hafði Jón Ólafsson formaður sofið á vetrarvertíðum, áður en hann flutti að Hraunshjáleigu.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Það var eitt sinn, er Bergur hafði hafið bátssmíðina, að Jóni Ólafssyni varð gengið fyrir smiðjudyrnar í Þorlákshöfn. Sá hann þá, að hurð hneig að stöfum, en rauk úr strompi. Fýsti hann að vita, hver væri þar að smíðum, því að mjög hugaði hann hvatvíslega að öllum hlutum þar á staðnum, og var sem hann hefði auga á hverjum fingri, hvort sem hann var á landi eða sjó. Opnaði Jón nú smiðjudyrnar og birtist honum þá sjón, er hann starði á um stundarsakir sem steinilostinn. Var Bergur þar að hita byrðingsborð til beygingar yfir eldinum, en undir glóðinni blés heimasætan Ólöf frá Nesi. – Jón formaður gekk snúðugt á brott, án þess að mæla nokkurt orð. En fréttir hafði hann að segja í verbúðum þetta kvöld, er þóttu tíðindi, að Ólöf frá Nesi væri jafnframt hannyrðanáminu farin að stunda smiðjuverk og aðstoða Berg við bátasmíði. Um sömu mundir kom upp vísa þessi í Þorlákshöfn:

Er að smíða Bergur bát, –
bragðvís öllum konum.
Undurblíð og eftirlát
Ólöf virðist honum.

Nes

Nesborgir.

Eins og áður segir, hafði Bergur fengið að sofa í bæjardyraloftinu, og var hann þar einsamall. Það var eitt kvöld um háttatíma, að Magnúsi Beinteinssyni varð gengið fram til dyra að loka bænum og signa útihurð, sem venja hans var. Er hann hafði litið til veðurs og lokað bænum, hélt hann inn göngin. Þegar hann kom á móts við stigann upp í dyraloftið, virtist honum heyrast mannamál þar uppi. Hann staldraði snöggvast við og gekk síðan upp stigann að hurð þeirri, er var að sængurhúsinu. Var hún læst með skrá og stóð lykillinn í að utan. Magnús lauk hurðinni fyrirvaralaust upp og litaðist um hálfrökkvað hús. Lá Bergur þar í sæng sinni, en á rúmstokknum fyrir framan hann sat Ólöf frá Nesi og létu þau dátt hvort að öðru. En er Ólöf sá Magnús birtast í dyrunum, skipti það engum togum, að hún vatt sér eldsnöggt út og ofan stigann, svo að Magnús gat naumast áttað sig á viðbrögðunum, er hún skaust framhjá honum. – Einhvern pata hafði Magnús verið búinn að fá af samdrætti þeirra Bergs og Ólafar, en lítt trúað þeim sögum, álitið þær vera verbúðaslúður, er þagga þyrfti niður, en nú fannst honum hann fá fullar heimildir að söguburðinum. Hafði hann nú flutt ávítunarræðu nokkra yfir Bergi þarna í loftinu fyrir táldrátt við meyjuna. Kvað hann Berg skyldi tafarlaust næsta morgunn úr húsum víkja og eigi skyldi hann fá í verbúðum að vera. En eigi vildi hann reka hann á brott undir nóttina, dyraloftinu kvaðst hann nú læsa, svo að Bergur mætti ekki þaðan út komast án sinnar vitundar. Að því búnu gekk Magnús út, læsti hurðu og hafði lykilinn með sér. Einhverjir höfðu verið enn á fótum, er atburður þessi gerðist, og heyrt á samtal Magnúsar við Berg og barst sagan því út og beint til verbúðarmanna og þaðan flaug hún víða.

Nes

Nesborgir.

Næsta morgunn var Magnús árla á fótum, og var þá Bergur ferðbúinn. Fátt var um kveðjur við heimamenn og var fullyrt, að eigi hefði hann fengið tækifæri til að kveðja Ólöfu. Hélt Bergur þaðan að Hrauni og dvaldist þar um stund; var nú sem enn meira los kæmi á hann og slangraði hann um milli bæja í Hjallasókn og var ekkert dulur á dvöl sína í Þorlákshöfn og viðskiptin við heimasætuna frá Nesi. Fór svo fram um nokkrar vikur.

En það er af Ólöfu að segja, að hún dvaldist í Höfninni fram yfir sumarmál, en fór þá aftur heim að Nesi. Mælt var, að Magnúsi yrði það hugraun mikil, að hún skyldi hafa komist í kynni við Berg, því að nokkuð þótti litföróttur ferill hans. Ræddi hann þetta við Ólöfu með skynsamlegum fortölum, átaldi hana ekki, taldi hana nú reyndar sloppna úr klóm flagarans. En þar missást hinum hyggna Þorlákshafnarhúsbónda, sem nú mun sagt verða.

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Nokkru eftir að Bergur hafði orðið að víkja svo sviplega úr Höfninni, urðu menn þess varir, að Ólöfu barst sendibréf ofan úr Ölfusi. Eigi fóru sögur af því, að fólk innti hana eftir, hvaðan henni hefði borist bréfið og lá svo kyrrt um sinn. – En hér var það raunar Bergur, sem hafði tyllt sér einhvers staðar niður á flandri sínu og ritað Ólöfu bréf. Var efni þess innfjálgun mikil og þar tjáði hann henni, að eigi mætti hann lifa, án þess að ná fundi hennar. Og nú voru góð ráð dýr, eins og oft vill verða, þegar málum er svona komið Tiltók Bergur nú stað og stund, hvar þau mættu ná fundum saman og átt sem kallast á nútímamáli “stefnumót”. Og hann tiltók staðinn, sem hann taldi ákjósanlegan og öruggastan til samfundanna, en það var í Hleininni vestan við Hafnarberg. Bjart var orðið á nóttum og um annan tíma sólarhringsins var auðvitað ekki að ræða vegna mannaferða til þessa stefnumóts.

Nes

FERLIRsfélagar við gamla Nesvita.

Um klukkutíma gangur er heiman frá Þorlákshöfn út í Hleinina. Hún er af landi séð klapparhólsbunga há og mikil, en að framan standberg niður í sjó. Í gegnum hana þvera frá austri til vesturs er gjásprunga djúp og mikil með grasigrónum botni. Einhvern tíma í fyrndinni hefur hraunbungan klofnað og fremri hlutinn sjávarmeginn sigið frá, og hafa þá myndast göng í gegnum hana, eru þau sums staðar meir en mannhæðarhá. Til beggja handa þá inn er komið, er bergið víða með smástöllum og kvosum, þar sem máríerlur og smáfuglar byggja hreiður sín um varptímann. Hleinin er einn af sérkennilegustu stöðum, hvort sem á er litið af landi en þó einkum af sjó og ekki síst, þegar komið er inn í hana. Óvíða vermir sumarsólin betur á lognværum degi og friðsælli stað er vart hægt að hugsa sér. Ekkert glepur þar hugann nema bylgjugjálfrið undir bergveggnum og einstaka sinnum sjómávar er flögra þar yfir. Hleinin var athyglisverð sjófarendum og fiskimönnum á fyrri tíð. Framundan henni nokkuð undan er dýpi mikið og fiskisælt, og þar hlóðu formenn skip sín á fyrri tíð oft á stuttum tíma.

Selvogur

Selvogur – grafsteinn við Nes.

Nokkru eftir að heimsætunni frá Nesi hafði borist hið umgetna bréf frá Bergi, var það nótt eina, sem tiltekin hafði verið, að hún reis hljóðlega úr rekkju. Hún hefur sennilega haft á sér andvara nokkurn, ætlað fólki stundirnar, er það væri nýsofnað og svæfi sem fastast eftir vinnulangan dag. Hún laumaðist fáklædd niður loftstigann og þreif til utanyfirfata, er hún hafði falið um kvöldið, og smeygði sér í þau. Síðan laumaðist hún út úr bænum. Veður var kyrrt og milt. Ef til vill hefur einhver óróleiki bærst í brjósti hennar. En stefnt var til þess fundar, sem flestum mannlegum tilfinningum getur orðið yfirsterkari. Hún hljóp við fót og þótt sandurinn væri sums staðar gljúpur og léttstígir fætur hennar sykkju nokkuð í hann, sóttist ferðin furðu vel. Og ekki stóð á móttökum, sá kominn, er stefnt hafði henni þangað. Trúlega hefur hann verið mættur nokkru fyrr, og verið á gægjum milli vonar og ótta, hvort bitið yrði á öngul þann, er hann hafði á sinn hátt rennt í djúpið. Og stund samfundanna hefur eflaust liðið fljótt. Ekkert hefur truflað hana, nema ef verið hefur bylgjuskvaldrið undir Hleininni, sem orðið hefur eins konar undirspil athafnanna, er þarna gerðust. En skjótt hefur komið skilnaðarstund. Enginn veit nú, með hvaða hætti hún hefur gerst. Ætluðu þessar tvær persónur, hinn veraldvani maður, sem átti sér að baki næsta brosfellda sögu í kvennamálum, og hin tvítuga mær frá Nesi, sem ætla má að verið hafi lítt spjölluð af veröldinni og viðsjám hennar, að halda ástarfundum sínum áfram? Vafalítð hefur hún hugsað til þess, öðru máli má ætla að hafi gegnt um hann. En eitt er víst, að í Hleininni hittust þau ekki oftar. Og fyrir rismál var Ólöf komin aftur heim til Þorlákshafnar. Með sömu varkárni og hún hafði farið út úr bænum, læddist hún upp á baðstofuloftið og smeygði sér ofan í rúm sitt. Við það urðu einhverjir þó varir, sem voru farnir að losa svefninn. En eigi var því gaumur gefinn. Næsta dag sáu menn, að Ólöf var eitthvað miður sín, og þegar hún var innt eftir, hverju það sætti, kvaðst hún vera lítilsháttar lasin og jafnaði það sig, er frá leið. Nokkru síðar lauk dvöl Ólafar í Þorlákshöfn. Öllum hafði hún kynnst vel þar í vistinni, og kvöddu heimilismenn hana með söknuði. En þá hafði hún í trúnaði sagt einni vinkonu sinni í Höfninni af næturferðinni út í Hleinina, en sú gat ekki þagað yfir leyndarmálinu, og þá barst sagan út síðar meir.

Nes

Nesviti/Selvogsviti gamli.

Leið svo sumarið, að ekkert bar til tíðinda, sem nú er lengur munað. En um haustið gengu Selvogsmenn til altaris í Strandarkirkju. Þá var sálnahirðir þeirra séra Jón Vestmann. Hann var maður gáfaður og mannskyggn, einarður, en þó mildur í skapi. Ólöf í Nesi kraup við drottins borð eins og annað sóknarfólk í Selvogi. Það vakti almenna athygli í kirkjunni, að þegar hún reis upp af knéfallinu við gráturnar og gekk til sætis, var sem nokkurt fát kæmi á klerkinn og hik yrði á embættisgjörðinni og beindust rannsakandi augu hans að Ólöfu. Eftir embættið gáfu kirkjugestir henni flestir auga. Og því varð ekki leynt, sem klerkur hafði séð við útdeilinguna, stúlkan var ekki kona einsömul. Atburðurinn flaug út um alla sveitina og sama spurning var á allra vörum: hver ætti þungann, er hún gengi með. Ekki höfðu langir tímar liðið, þegar fréttin var komin til Þorlákshafnar.

“Signorinn”, Magnús Beinteinsson, setti hljóðann við þessa fregn, en eftir nokkra umhugsun lét hann söðla reiðhest sinn og tygjaðist reiðfötum. Hann hefur þá sjálfsagt farið í “bláu kvaíuna”, viðhafnar yfirhöfn sína, er hann bar jafnan til mannfunda, og förinni var stefnt út að Nesi í Selvogi. Fátt vissu menn, hvað gerðist í þeirri för. Sat Magnús lengi dags á einmælum við Gísla hreppstjóra, föður Ólafar, og síðla um kvöldið kom hann heim til Þorlákshafnar. Næsta dag bar gest að garði í Þorlákshöfn, það var Jón Ólafsson, formaður í Hraunshjáleigu, en hann mat Magnús mann mest þeirra, er verið höfðu í þjónustu hans. Jón snaraðist að Magnúsi og spurði hann almennra tíðinda. Magnús bað hann að ganga með sér inn í stofuna og læsti hann hurðinni, er þeir voru inn komnir. Ræddust þeir við og sagði Magnús Jóni, hversu komið væri fyrir Ólöfu og Bergur ætti barn það, er hún gengi með. Tók Magnús þá fram tvö staup, hellti á, kvað þá Jón skyldu drekka af og dreifa um stund andstreymi lífins. Að því búnu kvaddi Jón formaður og hélt leiðar sinnar.

Tíminn leið með sínum vanagangi. Eftir áramótin 1836, hinn 13. janúar, varð Ólöf í Nesi léttari. Hún fæddi sveinbarn, og var það vatni ausið eftir tvo daga og nefnt Jón. En ævidagar þessa barns urðu ekki margir. – Sama ár, 1836, ritar séra Jón Vestmann í kirkjubókina eftirfarandi: “Dáinn 14. september Jón Bergsson, dóttursonur hreppstjóra Gísla Þorlákssonar í Nesi, 36 vikna, úr landfarsótt.”

Nesviti

Nesviti.

Nú liðu svo fjögur ár, að engar sögur fara af Ólöfu. Hún dvaldist heima í Nesi og giftist ekki og verður horfið frá henni um sinn. En af Bergi er það að segja, að hann fór víða vistum um skeið, uns hann árið 1843 fluttist að Hraukhlöðu í Stokkseyrarhreppi og bjó þar til 1851. Hann dó í Einkofa á Eyrarbakka 5. mars 1861, 63 ára gamall “úr uppstígandi fótaveiki”, eins og komist er að orði í kirkjubókinni. Sem áður getur, átti Bergur tvö börn með konu sinni. Þá átti hann óskilgetinn son með Ingibjörgu Jónsdóttur, vinnukonu á Langstöðum í Flóa, og hét hann Gunnlaugur. Hann komst til þroskaára, en varð lítill lánsmaður, þótti snemma brellinn og hvinnskur og varð uppvís að gripdeildum. Þegar hann var vinnumaður að Laugardælum í Flóa stal hann ásamt félaga sínum hestum o.fl; ætluðu báðir að flýja til fjalla og gerast útilegumenn. Voru gripnir og dæmdir til þrælkunar í Kaupmannahafnarfestingu. Þaðan kom Gunnlaugur ekki aftur, mun hafa dáið áður en refsitímanum var lokið.

Nú kemur nýr maður til sögunnar. Hann hét Guðbrandur Torfason, fæddur 11. ágúst 1804 að Klafastöðum í Skilmannahreppi í Borgarfirði. Þar bjuggu þá foreldrar hans, Torfi Sveinsson og Margrét Guðbrandsdóttir, og áttu þau fleiri börn. Árið 1816 eru þau hjón búandi að Dægru í Garðasókn á Akranesi. Það ár er Guðbrandur sonur þeirra fermdur, 14 ára gamall. Fær hann þá þann vitnisburð, að hann sé sæmilega að sér og hlýðinn. Þetta sama ár virðist hann flytjast úr foreldrahúsum og er síðan á annan áratug á ýmsum bæjum í Borgarfirði í vinnumennsku. Virðist heldur óstöðugur í vistum. Árið 1833 er hann sagður vinnumaður á Vatnshamri í Andakílshreppi. Þá lýsir Sigríður nokkur Jónsdóttir á Kollslæk hann föður að barni, sem hún ól og skírt var Guðmundur, og gekkst Guðbrandur við því. Næsta ár er hann kominn að Mávahlíð og þá fyrst talinn bóndi, ógiftur. Bústýra hans er þá talin Elín Sigurðardóttir, 25 ára gömul, er hjá þeim tveggja ára sonur Guðbrandar og dóttir, sem Elín átti, 7 ára gömul. Eigi mun búskapur þeirra Guðbrandar og Elínar hafa staðið nema um tvö ár. Þá flytja þau frá Mávahlíð og virðist samvistum þeirra þá lokið: börn munu þau eigi hafa átt saman.

Nes

Nesfjara.

Árið 1837 var Stóri-Núpur í Árnessýslu veittur Guðmundi presti Vigfússyni og fluttist hann þangað sama ár. Séra Guðmundur var fæddur að Gullberastöðum í Borgarfirði og var uppvaxtarár sín þar í héraði. Vel getur því verið, að þeir Guðbrandur Torfason hafi verið eitthvað kunnugir og fluttist hann nú með presti austur að Stóra-Núpi. En eigi dvaldist hann þar nema eitt ár. Þaðan fór hann austur að Þúfu í Landeyjum og virðist dveljast þar næstu tvö ár, en flytur þá suður í Útskálasókn. En um sömu mundir er hann kominn að Nesi í Selvogi. Þar mun hann hafa verið sjómaður vetrarvertíðina 1840 og þar verða kynni með þeim Ólöfu að Nesi og Guðbrandi. Um vorið, hinn 17. maí 1840, eru þau gefin saman í Strandarkirkju, að afstöðnum lýsingum af predikunarstóli, Guðbrandur Torfason, 36 ára, sjómaður í Nesi og Ólöf Gísladóttir, 26 ára á sama bæ. – Liðið höfðu um fjögur ár frá því að hún lenti í ævintýrunum með Bergi Guðmundssyni, þar til hún komst í höfn hjónabandsins.

Nes

Nes – legsteinn.

Þau Ólöf og Guðbrandur settust ekki að í Selvognum heldur fluttust þau sama vorið og þau giftust til Grindavíkur. Þar settust þau að í einu tómthúsbýlanna, er hét Vallarhús. Þau eignuðust tvö börn saman. Má nú fara fljótt yfir sögu. Þau Guðbrandur og Ólöf bjuggu saman til æviloka eða í næstum aldarfjórðung. Þau munu ávallt hafa hokrað í þurrabúðarkotum, lengstum í Garðinum og Vogunum, og að líkindum oftast við þröngan kost, eins og raunar allur þorri fólks við svipuð lífsskilyrði á 19. öld. Ólöf dó á Brekku í Kálfatjarnarsókn 10. júlí 1874, 61 árs, en Guðbrandur tæpu ári seinna, hinn 3. mars 1875 í Tumakoti, 70 ára gamall.

Aðalheimildamaður minn að þessum frásagnarþætti var Þórður hinn fróði á Tannastöðum. Hann festi sjálfur frásöguna aldrei á blað, svo að ég vissi, en ég hripaði hana eitt sinn á blöð eftir honum jafnóðum og hann sagði frá og hreinritaði að kveldi. Var það einkum um veru Bergs í Helli og í Þorlákshöfn og stefnumótið í Hleininni. Fæðingardagar, dánardagar og ártöl, sem viðkoma fólkinu í þættinum, eru að sjálfsögðu úr kirkjubókum og fleiri heimildarritum.

Heimild:
-Saga Þorlákshafnar.
-http://www.olfus.is/Default.aspx?ObjectId=1|2&id=221&p=1&idx=7

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Hnúkar

Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.

Hnúkar

Tóft í Hnúkum.

Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.

Hnúkar

Hnúkar.

Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.

Hnúkar

Hnúkar – vatnsstæði.

Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

Hnúkar

Lóa í Hnúkum.

Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Selvogur
Gengið var um Nes í Selvogi í fylgd Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, til vesturs með ströndinni og yfir að Bjarnastöðum.
Nes er austasta býli í Selvogi. Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.

Nes

Legssteinn í kirkjugarðinum í Nesi.

Landnámsmaður í Selvogi var Þórir Haustmyrkur, sem hafði bú í Hlíð. Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.
Í Selvogi virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli var mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Á 11. öld er vitað um kirkju á Nesi. Kirkjurnar, sem vitað er um, eru á öllum dýrustu jörðunum. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum. Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 og að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða.

Nes

Brunnhús í Nesi,.

Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum, en margar jarðir þar komust í eigu Erlendunga; Þorvarðar Erlendssonar lögmanns (d. 1513) og afkomenda hans, sem margir bjuggu á þessum slóðum. Synir Þorvarðar, Vigfús og Erlendur áttu fjölda jarða á þessu svæði og bjó Erlendur (d. 1576) á Strönd og Guðbjörg dóttir hans (d. 1596) eftir hann. Sextánda öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750.

Nes

Í Nesi.

Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707, en önnur héldust í byggð. Ekki er ástæða að í Selvogi hafi orðið verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Selvogi fyrr en á þessari öld.

Bærinn í Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes. Fyrrum mun kirkjan í Nesi hafa staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu. Kirkjan var lögð niður 1706.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Síðustu sjóbúðir í Nesi voru niðri á kampinum, og sér fyrir þeim enn. Nesbrunnur eða Austurnesbrunnur er í Suðurtúni, beint suður af tröðunum. Hann er alltaf fullur af vatni. Þaðan lágu götur til bæjanna og allra hjáleiganna.
Vestar á kampinum ofan við vörina voru Nesborgir, þrjár fjárborgir. Vestasta borgin fór í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Enn sést hluti af hinum tveimur.
Í austri blasir Selvogsviti við, en hann var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn (1919) var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur. Hann var byggður 1931 og er 18 m hár.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Gísli Sigurðsson tók saman örnefnaskrá um Nes. Þar kemur m.a. fram að af bæjarstæðinu í Nesi hafi verið eitthvert fegursta útsýni í Selvogi. Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út. Austast í Hátúni var Stóra-Leður. Þar sjást enn tóftir, upp við túngarðinn. Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum. Það er nokkurn veginn uppistandandi enn. Beitarland frá Nesi, eins og öðrum bæjum í Selvogi, er í Selvogsheiði. Hún liggur neðan frá túngörðum allt vestur að Hlíðarfjalli, neðan Svörtubjarga, um Hnúkana og austur að hreppamörkum.

Nes

Nesborgin.

Ofan byggðarinnar er heiðinni skipt í Austurheiði, sem er Nesland, Miðheiði, sem er upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, og Vesturheiði eða Útheiði, sem er land Eimu og Vogsósa.
Frá túngarði í Nesi liggur sjávarkampur austur að vita. Hlaðinn garður er á honum, en hann nær ekki alla leið. Austast á kampinum var bær, sem hét Snjóhús
Gengið var að brunninum, niður að sjóbúðunum og síðan út með ströndinni að fjárborgunum, sem enn standa að hluta. Gengið var framhjá Guðnabæ, kíkt í brunninn í túninu og síðan haldið áfram yfir að Bjarnastöðum.
Þorkelsgerði

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Á túngarði austan Bjarnastaða var hlið, og lá þar um kirkjugatan frá Nesi og vestur um hjá Bjarnastöðum. “Kirkjugatan lá neðan við Harðhaus og ofan við Mosaflöt og Víðavöll”, eins og segir í örnefnaskrá.
Í fornleifakönnun um Bjarnastaði koma m.a. fram upplýsingar um Fornagarð í gegnum Selvog, ofan bæjarins. Árið 1821 segir að “máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu.”

Nes

Fornigarður við Nes.

Einnig segir í sömu lýsingu að “eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem hér var lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum nausynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”
Árið 1840 segir að “engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina.

Fornigarður

Selvogur – Fornigarður. Nesviti fjær.

Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.” Samkvæmt þessu voru læst hlið á vörslugarðinum að hverjum bæ.
Bjarnastaðavörin er neðan bæjarins. Þar er merki á klöpp, sem og “bindisteinar” við lendingu.
Fáir staðir við ströndina eru skemmtilegri til göngu en Selvogur. Þarna er sagan svo að segja við hvert fótmál. Í dag er Selvogur lifandi minjasafn – óspillt af mannanna hendi.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Djúpudalaborg

Ekið var að Strandarkirkju með viðkomu við dysjar Herdísar og Krýsu neðst í Kerlingadal. Við Strandarkirkju tók Kristófer kirkjuvörður vel á móti ferðalöngum. Leiddi hann þá í allan sannleika um kirkjuna, uppruna hennar og sögu.

Strandarkirkja

Strandarkirkja. FERLIRsfélgar mættir á staðinn.

Fram kom að skyggt fólk hafi komist að því að kirkjan hafi upphaflega verið byggð úr timbri er Gissur hvíti flutti til landsins frá Noregi skömmu eftir að kristni var lögtekin hér á landi. Kom hann á leið sinni við í Vestmannaeyjum og reisti þar kirkju, þá sömu og endurbyggð var þar fyrir skömmu, en lenti í hafvillum utan við Selvog. Komst hann þar í land ásamt áhöfn eftir að hafa heitið því að þar skyldi reist kirkju er og ef hann næði landi. Hann og áhöfn hans björguðust og reistu ofan við sjávarkambinn litla áheitakirkju er snéri stafni til hafs. Bekkir voru annars vegar í henni og altari innst.
Núverandi Strandarkirkja er frá árinu 1888 og hefur verið vel við haldið. Í henni má m.a. finna sakramentisbikar frá 1262 og altarisbikar frá um 1340. Þá gripi sýndi Kristófer auk margra fleiri.

Nes

FERLIRsfélagar við Nes í Selvogi. Standa á fæti gamla Nesvitans.

Gengið var að Nesi frá Bjarnastöðum og Guðnabæ, skoðaðar fjárborgir, sjóbúðir, brunnhús, gamli kirkjugarðurinn og rústir gamla bæjarins í Nesi. Kristófer lýsti gamla vörsugarðinum er náði frá Nesi ofan Selvogs að Vogsósum, en hann mun vera eitt allra elstu mannvirkja, sem enn eru sýnileg hér landi. Þá var haldið að Hellisþúfu og hellirinn, sem búið var í um tíma, skoðaður, gengið um Djúpadalshraun og skoðuð Djúpadalsborgin.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.