Upplýsingagjafi var að sjálfsögðu upplýstur þegar í stað um síðustu FERLIRsferð, enda manna fróðastur um það landssvæði. Viðbrögð hans voru eftirfarandi:
“Þið hafið greinilega verið óvenjufundvís á selin. Í örnefnalýsingu Saurbæjar er nefndur:
„Seldalur: Gróin laut í Hrauninu. Þar sér enn fyrir tóftum. Selið var frá Saurbæ.” Hraunið nefnist Saurbæjarhraun og sunnan og vestan tungu úr því hrauni, sem ég hygg að skilji að selin tvö, er lág (Hengladalalág) þar sem þjóðgatan forna fór um á leið sinni upp Kamba og þar var bílvegurinn einnig fyrrum (Eiríksvegur). Því miður hef ég ekki lagt mig eftir að finna selin en götuna gömlu hef ég rakið allt frá byggð í Hveragerði og upp á Kambabrún.
Hvar Gufudal er að finna er nokkuð vandsvarað. Reykjadalur hefst við Ölkelduháls og endar í Djúpagili en áin sem rennur um hann fellur í Hengladalaá (eða Hengladalsá) nokkru vestan grasflatarinnar sem kennd er við Vallasel.
Dalurinn sem Hengladala- og síðan Varmaá fellur um og Hamarinn afmarkar að sunnanverðu hefur ekki neitt viðurkennt nafn í Örnefnaskrám. Ölfusdalur er hann oft nefndur og Jónas frá Hriflu nefndur sem nafngjafi. Gufudalur er heiti á nýbýli sem Guðjón A. Sigurðsson byggði laust fyrir 1940 (1938?) á svæðinu milli Sauðár og Varmár. Það býli er þá suðaustur af Reykjadal og norðan Varmár. Best væri að við FERLIRsfélagar hittumst við tækifæri þannig að við gætum borið saman bækur okkar um hvar selja er helst von.” Selfossi 7. maí 2007.
Þess ber að geta að einn hinna þrautþjálfuðu FERLIRsfélaga var þegar í stað sendur út af örkinni og skoðaði hann þá alla vestanverða hlíðina undir Kömbunum. Hann fann þó engin önnur ummerki eftir selstöðu á því svæði, sem verður, að fenginni reynslu, að teljast nokkuð áreiðanleg tíðindi – því engir hafa meiri þjálfun eða eru líklegri til að finna mannvistarleifar en FERLIRsfélagar.
Í vikunni – sólksinssíðdegis – er ætlunin að skoða Vallasel austan ármóta Hengladálsáar og Reykjadalsáar svo og Núpasel að ofanverðum Núpum undir Núpafjalli, þar sem Seldalur nefnist skv. örnefnaskrá.