Herdísarvíkurhraunshellir
Stefnan var tekin suður og niður Herdísarvíkurhraun frá Sængurkonuhelli. Með í för var rúmlega 8 metra langur stigi sem og Björn Hróarsson, hellafræðingur, sá Íslendingur, sem ásamt félögum sínum, hafa hvað oftast fyrstir manna, skoðað hina ýmsustu staði undir yfirborði skagans.
HerdísarvíkurhraunshellirÆtlunin var að komast niður í Herdísarvíkurhraunshelli, sem SG kom auga á fyrir skömmu. Um er að ræða tiltölulega lítið op á sléttri hraunhellu skammt ofan við ströndina, en niðri virtist ókannað gímald. Hvað þar kynni að vera vissi enginn því ekki er vitað um nokkurn mann, hvorki lifandi né dauðann, sem þangað hefur komið. Þó er ljóst, að ef sá hinn sami hefur komist niður, hefur hann örugglega ekki komist lifandi sömu leið til baka. Og þótt landssvæðið sé ekki langt frá þéttbýlinu á Suð-Vesturlandi er þarna um algerlega ókannaðan stað að ræða á jarðkringlunni. Hér var því um frumkvöðlaför að ræða og líklega yrðu þeir, sem “innvolsið” litu augum, þeir fyrstu sem það gerðu. Það eru ekki margir ókannaðir staðir á Íslandi, en þó er vitað um nokkra, sem þarf að berja augum, suma reyndar með svolítilli fyrirhöfn.
Hellirinn er, sem fyrr segir, skammt ofan við Herdísarvíkurbjargið, svo aldrei var að vita hversu langt sjórinn gæti hafai náð að honum.
Opið er í rauninni vandfundið. Vörðubrot er þó norðan við það, líklega til að vara við hættunni, sem það gæti haft í för með sér. Í snjó eða lágrenningi gæti sá, sem væri þarna á ferð, auðveldlega horfið niður um gatið, án þess að nokkur yrði þess var – og allra síst hann sjálfur.
Þegar farið er niður í “gímald” sem þetta er mikilvægt að gera sér grein fyrir tilgangum, huga vel að öllum aðstæðum sem og öllum búnaði. Gera þarf ráð fyrir því að komast upp aftur að könnun lokinni. Lántakanda stigans var best treystandi til þessa því á honum hvíldi sú kvöð að koma honum samviskusamlega til skila.
HerdísarvíkurhraunshellirStiginn var útbúinn til niðurhals. Að því búnu fetuðu leiðangursmenn sig niður á við, þrep af þrepi. Snjóskafl var í botninum. Ýmsar tegundir mosa þöktu berg og steina. Í rauninni gæti þetta vel verið ævintýraheimur gróðurfræðinga því þarna voru ýmsar skuggsælar plöntur. Fallegur burkni óx t.d. undir opinu. Hreiður voru á syllum. Undir bergveggjunum féllu dropar í grunnar tjarnir. En hvorki var að sjá ummerki túpu eða hraunrása. Svo virtist sem þarna væri um að ræða tæmda kvikuþró undir storknaðri hraunhellu. Grjótið, sem fallið hafi niður úr þakinu gæti hafa lokað fæðurásinni, en ekki var að sjá glerjung eða merki um mikinn hita á veggjum.
Þótt Herdísarvíkurhraunshellir hafi ekki opnast inn í hraunrásir er hvelfingin merkileg út af fyrir sig. Og hún er ekki síst merkilegt fyrir það að hafa nú verið könnuð, 1132 árum eftir að fyrstu norrænu mennirnir fetuðu sig þarna með ströndinni í leit að öndvegissúlum þess fyrsta landnámsmanns, sem skv. seinni tíma ritum, er sagður hafa tekið sér fasta bólfestu ekki alllangt frá. Líklegt má þó telja að þá hafi ströndin verið mun utar en nú er og “gatið” því ekki verið í alfaraleið, hvorki þá né síðar. Og ólíklegt er að nokkur maður fari þarna niður næstu árin eða áratugina – jafnvel næstu 1132 árin.
“Landkönnun” voru fyrrum álitið bæði þarft og mikilvægt framlag til “sameignamyndunar” þjóðar. Flest fólk vildi vita sem mest og best um umhverfi sitt. En það var fyrrum… Í dag eru gildin önnur.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.