Dyravegur

Dyrafjöll eru á Hengilssvæðinu norðnorðaustan við Hengilinn, vestan Nesjavalla.

Dyravegur

Dyrnar á Dyravegi.

Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NASV og ganga út í Þingvallavatn.
Á Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast.

Sporhellan

Sporhella.

Eftir ísöld eru þekkt fjögur til fimm sprungugos á svæðinu. Síðast gaus fyrir um 2.000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Eldborg í Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi.
Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hvera-gerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Hún skiptist í tvær gosreinar. Önnur liggur um Henglafjöll, hin um Hrómundartind. Milli gosreinanna skilur Þverárdalur og Bitra sem fyllt hefur framhald dalsins til suðurs.
Hengilskerfið er yngst og virkast. Frá ísaldarlokum eru þekkt 4-5 sprungugos á þessu svæði. Síðast gaus fyrir um 2000 árum, er hraunið rann á Hellisheiði, og Nesjahraun í Grafningi. Þá gaus á 25 km langri sprungu, sem náði frá Eldborg undir Meitlinum, um Hellisheiði, Innstadal og norðaustur í Sandey í Þingvallavatni.

Dyravegur

Sporhella.

Síðast voru umbrot í Hengilskerfinu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubeltinu, sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og þaðan norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár, um 1-2 m.
Ætlunin er að ganga Dyraveginn fljótlega, frá Nesjavallavegi (Nesjavallarétt) að gatnamótum Austurvegar (Hellisheilarvegar) norðaustan við Lyklafell. Hér verður þó tekið svolítið forskot á sæluna og Sporhellunni lýst, en Dyravegur liggur um hana norðan Skeggjadals. Við Sporhelluna, sunnan Sporhelludals (og norðan Skeggjadals) liggur leiðin upp hálsinn á fleiri en einum stað, enda er Dyravegurinn ekki einsamall á þessum stað.

Sporhella

Gatan um Sporhellu.

Í Dyradal greinist Dyravegur í tvennt, en sameinast aftur í Dyrafjöllum. Annars vegar liggur leiðin um Dyrnar svonefndu, u.þ.b. tveggja til þriggja m breitt gil austnorðaustan í Dyradal og áfram uoo og yfir í Sporhelludali. Þar beygir sú gata til vinstri þar upp á Sporhelluna, sem fyrr er lýst. Sneiðingur sést í hlíðinni, en skriða hefur smám saman afmáð götuna á kafla. Uppi beygir gatan síðan til suðausturs og aftur til norðausturs. Þar eru gatnamót. Þarna er gatan djúpt mörkuð í móbergshelluna líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum, bæði á leiðinni, sem lýst var og til suðurs þar sem hin gatan kemur inn á hana. Sú gata liggur til suðurs inn Dyradal og síðan á ská upp hlíðina í honum austanverðum, upp í Skorhelludali.

Dyravegur

Sporhella.

Í stað þess að beygja þar til norðurs að hinni götunni liggur gatan áfram til austurs í sneiðinginn og síðan til norðurs, upp á móbergshelluna. Þarna er gatan einnig djúpt mörkuð í helluna. Fyrrnefnda leiðin er stikuð, en sú síðarnefnda ekki. Líklegt má telja, að hestalestir hafi farið sneiðinginn austan Sporhelludala og síðan upp á helluna síðarnefndu leiðina því hún er auðveldari yfirferðar, einkum fyrir hesta með birgðar. Þá gæti þetta hafa verið kúastígur fyrrum.

Sporhella

Sporhella – skilti.

Á skilti við Dyraveginn á Sporhellunni má lesa eftirfarandi: “Rásirnar sem hér sjást í berginu hafa markast af hófum hesta sem hér hafa farið um í aldanna rás. Þær eru minjar um Dyraveg, hinn forna lestarveg milli Grafnings og Reykjavíkur. Fyrir bílaöld var hesturinn eina farartækið og snemma urðu til aðalreiðgötur um sveitir og óbyggðir. Skemmtiferðir voru þá fátíðar og flestar ferðir voru farnar í nauðsynjaerindum. Fyrir utan búferlaflutninga vour slíkar ferðir mest lestarferðir, með ýmsar vörur milli sjávarsíðu og sveita. Slíkar ferðir hafa tíðkast allt frá fyrstu tíð og má ætla að Dyravegur hafi verið notaður allt frá landnámsöld.

Sporhella

Sporhella.

Dyravegur var notaður af bændum í Grafningi og uppsveitum Árnessþings sem leið áttu í ver og kaupstaði við Faxaflóa. Einnig var þessi leið notuð af Skálholtsbiskupum og áttu þeir vöruskemmur við Sogin þar sem lestirnar voru ferjaðar yfir (sjá meira HÉR og HÉR).
Þó að leiðin virðist nú ekki greiðfær var hún þó einna styst milli byggða í Árnessýslu og Kjalarnesþingi og auk þess liggur hún ekki eins hátt og Hellisheiðarvegur og af þeim sökum oftar fær.

Á vorin var skreið flutt úr verstöðvum á Suðurnesjum eftir Dyravegi en seinna á sumrin var farið í kaupstað.

Sporhella

Sporhella.

Helstu vörur sem fluttar voru til kaupstaðar voru ull, smjör og kjötskrokkar. Á móti sóttu menn byggingarefni, mjöl og járnvöru í kaupstaðina og frá 17. öld í vaxandi mæli sykur, kaffi og tóbak. Í timburflutningum var annar endi trjánna bundinn í klakk en hinn endinn látinn dragast með jörð.
Slíkt hefur verið afar þreytandi fyrir hestana en ekki mun hafa verið óalgengt að þeir hafi borið allt að 150 kílóa klyfjar. Ýmist voru þeir reknir eða teymdir. Lestirnar vour oft langar og klyfjahestarnir misjafnir að skapferli og burðum.
Dýrt var að hafa marga hesta á fóðrum yfir vetrarmánuðina og mikill munur var á meðferð áburðarhesta og reiðhesta.
DyravegurFlestir áburðarhestar voru settir út á guð og gaddinn yfir veturinn, fengu í mesta lagi moð sem kýrnar vildu ekki éta. Margir féllu úr hor. Í miklum harðindum átu hestar oft ýmislegt sem í raun er hreinasta viðurstyggð og andstætt eðli þeirra.
Þannig segir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson frá því í ferðabók sinni frá 18. öld að hestar hafi étið mold og viði í húsum, hárið hvor af öðrum og eyru af dauðum hestum.

Sporhella

Gatan um Sporhellu sunnanverða.

Af þessu má ljóst vera að oft hafi hestur þurft að líða fóðurskort og ekki lifað sældarlífi en um leið verið húsbændum sínum ómissandi í harðri lífsbaráttu.”
Tiltölulega auðvelt er að rekja Dyraveginn, eins og hann er skikaður um Sporhellu, en hafa ber í huga að vegurinn var miklu mun lengri og hafði bæði upphaf og endi – mun fjær.
Sjá meira um Dyraveg HÉR og HÉR.

Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-or.is

Sporhella

Gata um Sporhellu.