Sporhella

Eftirfarandi lýsing um Sköflung og nágenni er eftir Sigurð Kristinsson og birtist í Morgunblaðinu árið 1991:
skoflungur-221“Ganga má eftir hryggnum vestan Dyradals og halda beint til norðurs í Folaldadali, sem eru austan móbergskambs þess er Sköflungur nefnist. Verða þá á hægri hönd nokkrir tindar á hrygg vestan Sporhelludals. Í framhaldi þess hryggjar eru Hátindur (425 m) og Jórutindur og skal einnig hafa þá á hægri hönd. Við norðurenda Jórutinds liggur gata niður og er þar skemmtileg leið niður í Hestvík en í þetta sinn verður haldið áfram norður fyrir Jórugil og beygt sunnan Litla-Sandfells fram á brún Jórukleifar. Þar fæst afbragðs útsýn yfir vatn og hraun með fjallaklasa í bakgrunni til allra átta. Við gilið í kleifinni gerist þjóðsagan um bóndadótturina Jóru, sem var hið versta flagð. Er ljótleiki þeirrar sögu alger andstæða við útsýn þá er við blasir frá kleifinni. Í þessari útsýn er haldið til landnorðurs eftir Jórukleif og síðan eftir Svínahlíð, sem fer smálækkandi að Grafningsvegi, þar sem hann beygir frá Þingvallavatni og liggur upp fyrir vestan tún á Heiðabæ. En gönguleiðin liggur yfir veginn og síðan er vatninu fylgt allt á Rauðukusunes.
Almannagjá hefst þar í nesinu, nefnist fyrst Hrútagjá en síðar Lambagjá og Hestagjá heitir hlutinn næst fyrir sunnan Kárastaðastíg, þar sem vegurinn liggur niður í gjána. Kafgras er í botni Hestagjár. Mjög gott er að ganga eftir stíg, sem fylgir eystri og lægri brún gjárinnar bak við sumarbústaðina við vatnið.
Haitindur-221Einnig má fara í byrjun gegnum Dyr og ganga norður Sporhelludal, Illagil gengur norður frá honum og vestan þess eru Vegghamrar. Ganga má á brún þeirra og austan við Jórutind og Hátind að götunni áðurnefndu. Þarna eru nú ógrynni af berjum. Við Jórugeil er 60-80 m hækkun að fara upp á kleifina til að fá meiri útsýn og losna við akveginn. Síðan er leiðinni fylgt eins og áður er lýst.”

Önnur lýsing Sigurðar um svæðið umleikis má sjá í Morgunblaðinu árið 1992:
“Með nýja Nesjavallaveginum urðu aðgengilegar fjölmargar gönguleiðir um Mosfellsheiði, Dyrafjöll og á Hengil, sem gnæfir yfir á leið austur og er mikið eftirlæti fjallgöngumanna suðvestanlands. Hér verður þó ekki um hann fjallað en vikið að fylgifjöllum hans til landnorðurs, Dyrafjöllum, en þar ber hæst Kýrdalshrygg og Háhrygg.
Stuðst er við upplýsingar frá kunnugum manni, Guðmundi Jóhannessyni, sem bjó á Nesjavöllum árin 1924-1928 og síðan 30 ár í Króki í Grafningi. Hann dvelur nú í hárri elli í Reykjavík, er vel ern og hefur trútt minni.
jorutindur-221Til landnorðurs frá Hengli ganga Dyrafjöll, sem eru móbergshryggir með dalaskorum á milli. Næst Hengli er Kýrdalshryggur og ber einna hæst. Austan hans er Kýrdalur, sem nær upp undir austanverð klettabelti Hengils. Austan Kýrdalsins er svo hálendisbrúnin fyrir ofan gufuvirkjunarsvæðið, sem kennt er við Nesjavelli. Þar er frábær útsýn til austurs og norðausturs, sem einnig er nefnt landnorður hér um slóðir. Háhryggur er í framhaldi af Kýrdalshrygg. Milli þeirra er allmikill slakki og þar er gamli Dyravegurinn nærri Háhryggnum. Nesjavallavegur er þar einnig en nokkru nær Kýrdalshrygg. Austan við Háhrygg eru Svínahlíð og Rauðuflög, þar sem Dyravegur liggur niður rétt hjá Hjallatorfu, sem var fornt skógarítak Hjallakirkju í Ölfusi. Skógurinn er nú eyddur. Neðan Hjallatorfu og Rauðuflaga kemur svo láglendið við Nesjavelli.
Vestan Kýrdalshryggjar er Skeggjadalur, sem gengur inn og þrengist að Vörðuskeggja á norðurbrún Hengils. Í framhaldi dalsins er Sporhelludalur með móbergsklöpp, sem hestafætur hafa um aldir mótað í svo glögga götu að hún er nú hnédjúp og vel það. Þarna er Dyravegurinn. Í framhaldi til landnorðurs er alllangur dalur, sem heitir Vatnsstæði en er ranglega nefndur Sporhelludalur á kortum. í Vatnsstæðum er tjörn a einum stað. Í framhaldi Vatnsstæða er Illagil og Vegghamrar vestan þess. Er þá skammt niður að Grafningsvegi fyrir ofan Hestvík.

Dyradalur-221

Vestan Sporhelludals hallar vestur í Dyradal og liggur gamli vegurinn um þröngt skarð eða gljúfur niður í dalinn. Þarna heita Dyr og bera vegurinn, dalurinn og fjöllin nafn af þeim. Vestan Dyradals er miklu lægri og flatari háls að víðum flæmum Mosfellsheiðar. Þarna er Sköflungur í hánorðri en Dyradalshnúkur til hægri við hann og miklu nær.
Rismesti hnúkur Hengils, Vörðuskeggi, nýtur sín vel héðan séð, þar sem hann trónir eins og tröllaukin nautskrúna gegn norðanáttinni.
Nefndar verða nokkrar gönguleiðir, fyrst til suðurs upp að háfjallinu:
1. Eftir Kýrdal upp undir kletta í Hengli. Útsýn er til norðurs og austurs.
2. Eftir Kýrdalshrygg upp að Hengli. Útsýn er til vesturs, norðurs og austurs.
3. Eftir Skeggjadal, sem þrengist handa.
4. Eftir hryggnum vestan Skeggjadals. Útsýn vestur og norður.

Leiðir til norðurs:
a) Norður eftir háhrygg og er glæsileg sýn til flestra átta. Ganga má eftir endilöngum hryggnum og að Grafningsvegi.
b) Norður eftir Vatnsstæðum og síðar austan eða vestan Illagils. Er þá skammt á Grafningsveg fyrir ofan Hestvík. Mikill gróður er í Vatnsstæðum og skýlt í austan-og vestanáttum.
c) Eftir hálsinum vestan Dyradals norður í Folaldadali austan Sköflungs og eftir glöggri götu norðan Jórutinds og niður í Hestvík. Gatan er gamall heybandsvegur meðan heyjað var í Folaldadölum. Hér má velja um fjölda leiða eftir áhuga og aðstæðum. Ekki treystir undirritaður sér til að dæma um hver þeirra sé best eða skemmtilegust.”

Heimild:
-Morgunblaðið, Sigurður Kristinsson, 23. ágúst 1991, bls.  13.
-Morgunblaðið, Sigurður Kristinsson, 28. maí 1992, bls. 39.

Dyradalur

Dyradalur.