Sköflungur

Gengið var til norðurs norðan Nesjavallavegar skammt fyrir vestan Dyradal vestan Nesjavalla, um Folaldadali og Sköflung. Sköflungur er reyndar gamalt nafn á vegi milli Hafnarfjarðar og Þingvalla (sjá aðra lýsingu).

Sköflungur

Sköflungur.

Lagt var í’ann frá veginum skammt ofan við Dyradal, sem fyrr segir.
Línuveginum var fylgt til að byrja með þar sem hann liggur í norðaustur meðfram háspennulínu í nágrenninu. Þegar slóðinn fer að halda meira í austurátt var farið út af honum og gengið meðfram girðingu sem þar er, um hálsana í átt að tveimur stæðilegum tindum, Hátind og Jórutind.
Þar sem girðingin tók krappa beygju var farið yfir hana og fór þá að halla nokkuð undan fæti. Gengið var meðfram gili sem varð í veginum og það haft á vinstri hönd og því fylgt niður í Folaldadali.

Sköflungur

Sköflungur.

Gengið var þvert yfir dalina í átt að Sköflungi, sem rís nokkuð bratt upp úr dölunum, og ráðist til uppgöngu á hann. Ágætt er að miða á skarð sem er á milli tveggja tinda þar sem Sköflungur er hæstur.

Þegar upp er komið kom í ljós að Sköflungur er nokkuð mjór og brattur hryggur og ekki mikið svigrúm til að skrippla með góðu móti utan í honum. Ofan á honum er hins vegar dálítið grýtt og ekki mjög fljótfarið. Af Sköflungi er í öllu falli fallegt útsýni yfir Mosfellsheiðina og næsta nágrenni. Eftir hryggnum var síðan gengið til suðurs uns komið var aftur að Nesjavallaveginum þar sem gangan hófst.
Gangan var fremur auðveld, en útsýnið var margbrotið – fyrir augað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Dyradalur

Dyradalur.