Færslur

Dyrafjöll

Í “Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu II” frá árinu 1997 er m.a. fjallað um Dyrnar í Dyradal og Sporhelluna ofan Sporhelludala norðan Henglafjalla. Um Dyrnar segir:

Dyradalur

Dyradalur.

“Dyravegur var gamall lestavegur úr Grafningi til Reykjavíkur. Dyr eru austast í Dyradal, milli hamraveggja. Um þær liggur vegurinn, segir í örnefnalýsingu. Dyradalur er í landi Nesja en Dyrnar sjálfar, sem eru austanmegin í dalnum, munu vera í Nesjavallalandi. Þær eru skammt norðan við Nesjavallaveginn sem liggur um brekkuna ofan við þær og um þær liggur merkt gönguleið.
Dyrnar eru 15-20 m háar og aðeins um 2 m breiðar þar sem þær eru þrengstar vegna hruns, en víðast um 5-6 m. Austan við skarðið hefur hrunið mikið í það. Vestan við Dyrnar sjást reiðgötur sem beygja til suðurs með austurhlíð Dyradals og virðast stefna upp í fjallshlíðina hinumegin í dalnum, talsvert sunnar en vikið sem Nesjavallavegurinn liggur um.”

Dyr

Dyrnar í Dyradal.

Um Sporhelluna segir:
“Austur af Dyrunum er Sporhellan, móbergshellur með niðurgröfnum götuslóðum í móbergið, frá þeim tímum, er lestavegur lá úr Grafningnum, um Dyradal, til Reykjavíkur. Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður af honum kemur [svo] Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Α segir í örnefnalýsingum. Sporhellan er fleiri en ein, en dýpstar og lengstar eru rásirnar fyrir botni Sporhelludals, en þar norðan og vestan við eru líka rásir á nokkrum stöðum.

Sporhellan

Sporhellan – Vatnsstæðið fjær.

Vegurinn hlykkjast um dalshlíðar og skorninga, ýmist um grasmóa eða berar móbergsklappir og á þeim hafa rásirnar myndast. Sporhellan er á leið sem er framhald leiða til austurs. Víðast er aðeins ein rás en á nokkrum stöðum hafa þær kvíslast. Alls eru rásirnar 175 m langar, á 5 stöðum á um 500 m bili. Að vestan eru kaflarnir 112 m, 34 m, 8 m, 19 m og 2 m austast. Rásirnar eru víðast 20-30 cm breiðar í botninn og 10-40 cm djúpar.”

Í “Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi” er einnig fjallað um Dyraveg og Sporhelluna:

Sporhella

Sporhellan – Skeggjadalur fjær.

“Suður úr Foldadölum eru smáskörð og lyngmóar vestan við svokallaða Skriðu, sem er upp af miðdalnum. Þá er komið á Dyraveg, sem er þar suður úr og inn í Dyradal, sem er allur í Nesjalandi. Dyravegur var gamall lestavegur úr Grafningi til Reykjavíkur. Dyr eru austast í Dyradal, milli hamraveggja. Um þær liggur vegurinn.” segir í örnefnalýsingu. “Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður af honum kemur [svo] Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Vestur frá Sporhelludölum er Dyradalur. Eftir honum liggur Dyravegur.” “Við vesturendann á Háhrygg liggur Dyravegur. […] Dyravegur lá í gegnum [Litluvelli].” Dyravegur er merkt gönguleið eftir dalnum og upp að dyrunum í Nesjavallalandi. Dyrnar sjálfar eru í Nesjavallalandi. Frá dyrunum er 4,5 km í Botnadal og 3,6 km. að Nesjavöllum.”

Sporhella

Sporhellan.

Á skilti við Dyraveginn á Sporhellunni má lesa eftirfarandi: “Rásirnar sem hér sjást í berginu hafa markast af hófum hesta sem hér hafa farið um í aldanna rás. Þær eru minjar um Dyraveg, hinn forna lestarveg milli Grafnings og Reykjavíkur. Fyrir bílaöld var hesturinn eina farartækið og snemma urðu til aðalreiðgötur um sveitir og óbyggðir. Skemmtiferðir voru þá fátíðar og flestar ferðir voru farnar í nauðsynjaerindum. Fyrir utan búferlaflutninga vour slíkar ferðir mest lestarferðir, með ýmsar vörur milli sjávarsíðu og sveita. Slíkar ferðir hafa tíðkast allt frá fyrstu tíð og má ætla að Dyravegur hafi verið notaður allt frá landnámsöld.

Dyravegur var notaður af bændum í Grafningi og uppsveitum Árnessþings sem leið áttu í ver og kaupstaði við Faxaflóa. Einnig var þessi leið notuð af Skálholtsbiskupum og áttu þeir vöruskemmur við Sogin þar sem lestirnar voru ferjaðar yfir.

Sporhellan

Sporhellan.

Þó að leiðin virðist nú ekki greiðfær var hún þó einna styst milli byggða í Árnessýslu og Kjalarnesþingi og auk þess liggur hún ekki eins hátt og Hellisheiðarvegur og af þeim sökum oftar fær.

Á vorin var skreið flutt úr verstöðvum á Suðurnesjum eftir Dyravegi en seinna á sumrin var farið í kaupstað.
Helstu vörur sem fluttar voru til kaupstaðar voru ull, smjör og kjötskrokkar. Á móti sóttu menn byggingarefni, mjöl og járnvöru í kaupstaðina og frá 17. öld í vaxandi mæli sykur, kaffi og tóbak. Í timburflutningum var annar endi trjánna bundinn í klakk en hinn endinn látinn dragast með jörð.

Sporhellan

Sporhellan.

Slíkt hefur verið afar þreytandi fyrir hestana en ekki mun hafa verið óalgengt að þeir hafi borið allt að 150 kílóa klyfjar. Ýmist voru þeir reknir eða teymdir. Lestirnar vour oft langar og klyfjahestarnir misjafnir að skapferli og burðum.
Dýrt var að hafa marga hesta á fóðrum yfir vetrarmánuðina og mikill munur var á meðferð áburðarhesta og reiðhesta.
DyravegurFlestir áburðarhestar voru settir út á guð og gaddinn yfir veturinn, fengu í mesta lagi moð sem kýrnar vildu ekki éta. Margir féllu úr hor. Í miklum harðindum átu hestar oft ýmislegt sem í raun er hreinasta viðurstyggð og andstætt eðli þeirra.
Þannig segir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson frá því í ferðabók sinni frá 18. öld að hestar hafi étið mold og viði í húsum, hárið hvor af öðrum og eyru af dauðum hestum.
Af þessu má ljóst vera að oft hafi hestur þurft að líða fóðurskort og ekki lifað sældarlífi en um leið verið húsbændum sínum ómissandi í harðri lífsbaráttu.”

Skeggjadalur

Skeggjadalur.

Í Örnefnaskrá fyrir Nesjavelli eftir Guðmund Jóhannsson segir: “Þar suðvestur af [Hellu] er Dyradalshnjúkur og Dyradalur. Austast í honum eru Dyrnar, milli tveggja hamraveggja. Austur af Dyrunum er Sporhellan, móbergshellur með niðurgröfnum götuslóðum í móbergið, frá þeim tímum, er lestavegur lá úr Grafningnum, um Dyradal, til Reykjavíkur. Upp af þeim er Skeggjadalur og Skeggi. Suðaustur af Skeggjadal er Kýrdalshryggur, hár melhryggur með móbergi að vestan.

Dyradalur

Dyradalur.

Þar suður upp við Hengilinn er Kýrdalur. Þar var áður heyjað. Þar norður af heita Hryggir. Austur á þeim er Miðaftanshnúkur, eyktamark frá gamla bænum á Nesjavöllum.
Norðaustan í Hryggjum eru Rauðuflög. Þar lá lestavegur um þau til Dyradals.
Norður af Rauðuflögum er Svínahlíð. Þar upp af Háhryggur. Vestur af honum eru Sporhelludalir (norður af Sporhellu), grasgrónir dalbotnarnir.”

Henglafjöll

Dyrakambur.

Í skrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti; “Hengillinn og fjallgarðurinn kringum hann“, segir: “Hengillinn er stórt og hátt fjall. Hæsti hnúkur hans er nefndur í daglegu tali Vörðu-skeggi. Vestan í Henglin[um] er Marardalur, er hann neðan undir Vörðuskeggja. Vestan dalsins er fellið Þjófahlaup. Norðvestur frá Marardal eru Grashólar. Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður frá honum kemur (svo) Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Vestur frá Sporhelludölum er Dyradalur. Eftir honum liggur Dyravegur. Hjá Dyravegi er Dyradalshnúkur. Norðan við hann eru Folaldadalir. Vestan við Folaldadali er Sköflungur. Í vesturenda hans er Eggin.”

Heimildir:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu II: Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns, Árbæjarsafn (Fornleifastofnun Íslands 1997).
-Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi, 2018.
-Örnefnaskrá fyrir Nesjar.
-Örnefnaskrá fyrir Nesjavelli – Nesjavellir eftir Guðmund Jóhannsson, skrifað sept. 1949. Sigurður Jónsson hreppstjóri á Torfastöðum skráði.
-Hengillinn og fjallgarðurinn kringum hann; skráð hefur Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Sporhella

Eftirfarandi lýsing um Sköflung og nágenni er eftir Sigurð Kristinsson og birtist í Morgunblaðinu árið 1991:
skoflungur-221“Ganga má eftir hryggnum vestan Dyradals og halda beint til norðurs í Folaldadali, sem eru austan móbergskambs þess er Sköflungur nefnist. Verða þá á hægri hönd nokkrir tindar á hrygg vestan Sporhelludals. Í framhaldi þess hryggjar eru Hátindur (425 m) og Jórutindur og skal einnig hafa þá á hægri hönd. Við norðurenda Jórutinds liggur gata niður og er þar skemmtileg leið niður í Hestvík en í þetta sinn verður haldið áfram norður fyrir Jórugil og beygt sunnan Litla-Sandfells fram á brún Jórukleifar. Þar fæst afbragðs útsýn yfir vatn og hraun með fjallaklasa í bakgrunni til allra átta. Við gilið í kleifinni gerist þjóðsagan um bóndadótturina Jóru, sem var hið versta flagð. Er ljótleiki þeirrar sögu alger andstæða við útsýn þá er við blasir frá kleifinni. Í þessari útsýn er haldið til landnorðurs eftir Jórukleif og síðan eftir Svínahlíð, sem fer smálækkandi að Grafningsvegi, þar sem hann beygir frá Þingvallavatni og liggur upp fyrir vestan tún á Heiðabæ. En gönguleiðin liggur yfir veginn og síðan er vatninu fylgt allt á Rauðukusunes.
Almannagjá hefst þar í nesinu, nefnist fyrst Hrútagjá en síðar Lambagjá og Hestagjá heitir hlutinn næst fyrir sunnan Kárastaðastíg, þar sem vegurinn liggur niður í gjána. Kafgras er í botni Hestagjár. Mjög gott er að ganga eftir stíg, sem fylgir eystri og lægri brún gjárinnar bak við sumarbústaðina við vatnið.
Haitindur-221Einnig má fara í byrjun gegnum Dyr og ganga norður Sporhelludal, Illagil gengur norður frá honum og vestan þess eru Vegghamrar. Ganga má á brún þeirra og austan við Jórutind og Hátind að götunni áðurnefndu. Þarna eru nú ógrynni af berjum. Við Jórugeil er 60-80 m hækkun að fara upp á kleifina til að fá meiri útsýn og losna við akveginn. Síðan er leiðinni fylgt eins og áður er lýst.”

Önnur lýsing Sigurðar um svæðið umleikis má sjá í Morgunblaðinu árið 1992:
“Með nýja Nesjavallaveginum urðu aðgengilegar fjölmargar gönguleiðir um Mosfellsheiði, Dyrafjöll og á Hengil, sem gnæfir yfir á leið austur og er mikið eftirlæti fjallgöngumanna suðvestanlands. Hér verður þó ekki um hann fjallað en vikið að fylgifjöllum hans til landnorðurs, Dyrafjöllum, en þar ber hæst Kýrdalshrygg og Háhrygg.
Stuðst er við upplýsingar frá kunnugum manni, Guðmundi Jóhannessyni, sem bjó á Nesjavöllum árin 1924-1928 og síðan 30 ár í Króki í Grafningi. Hann dvelur nú í hárri elli í Reykjavík, er vel ern og hefur trútt minni.
jorutindur-221Til landnorðurs frá Hengli ganga Dyrafjöll, sem eru móbergshryggir með dalaskorum á milli. Næst Hengli er Kýrdalshryggur og ber einna hæst. Austan hans er Kýrdalur, sem nær upp undir austanverð klettabelti Hengils. Austan Kýrdalsins er svo hálendisbrúnin fyrir ofan gufuvirkjunarsvæðið, sem kennt er við Nesjavelli. Þar er frábær útsýn til austurs og norðausturs, sem einnig er nefnt landnorður hér um slóðir. Háhryggur er í framhaldi af Kýrdalshrygg. Milli þeirra er allmikill slakki og þar er gamli Dyravegurinn nærri Háhryggnum. Nesjavallavegur er þar einnig en nokkru nær Kýrdalshrygg. Austan við Háhrygg eru Svínahlíð og Rauðuflög, þar sem Dyravegur liggur niður rétt hjá Hjallatorfu, sem var fornt skógarítak Hjallakirkju í Ölfusi. Skógurinn er nú eyddur. Neðan Hjallatorfu og Rauðuflaga kemur svo láglendið við Nesjavelli.
Vestan Kýrdalshryggjar er Skeggjadalur, sem gengur inn og þrengist að Vörðuskeggja á norðurbrún Hengils. Í framhaldi dalsins er Sporhelludalur með móbergsklöpp, sem hestafætur hafa um aldir mótað í svo glögga götu að hún er nú hnédjúp og vel það. Þarna er Dyravegurinn. Í framhaldi til landnorðurs er alllangur dalur, sem heitir Vatnsstæði en er ranglega nefndur Sporhelludalur á kortum. í Vatnsstæðum er tjörn a einum stað. Í framhaldi Vatnsstæða er Illagil og Vegghamrar vestan þess. Er þá skammt niður að Grafningsvegi fyrir ofan Hestvík.

Dyradalur-221

Vestan Sporhelludals hallar vestur í Dyradal og liggur gamli vegurinn um þröngt skarð eða gljúfur niður í dalinn. Þarna heita Dyr og bera vegurinn, dalurinn og fjöllin nafn af þeim. Vestan Dyradals er miklu lægri og flatari háls að víðum flæmum Mosfellsheiðar. Þarna er Sköflungur í hánorðri en Dyradalshnúkur til hægri við hann og miklu nær.
Rismesti hnúkur Hengils, Vörðuskeggi, nýtur sín vel héðan séð, þar sem hann trónir eins og tröllaukin nautskrúna gegn norðanáttinni.
Nefndar verða nokkrar gönguleiðir, fyrst til suðurs upp að háfjallinu:
1. Eftir Kýrdal upp undir kletta í Hengli. Útsýn er til norðurs og austurs.
2. Eftir Kýrdalshrygg upp að Hengli. Útsýn er til vesturs, norðurs og austurs.
3. Eftir Skeggjadal, sem þrengist handa.
4. Eftir hryggnum vestan Skeggjadals. Útsýn vestur og norður.

Leiðir til norðurs:
a) Norður eftir háhrygg og er glæsileg sýn til flestra átta. Ganga má eftir endilöngum hryggnum og að Grafningsvegi.
b) Norður eftir Vatnsstæðum og síðar austan eða vestan Illagils. Er þá skammt á Grafningsveg fyrir ofan Hestvík. Mikill gróður er í Vatnsstæðum og skýlt í austan-og vestanáttum.
c) Eftir hálsinum vestan Dyradals norður í Folaldadali austan Sköflungs og eftir glöggri götu norðan Jórutinds og niður í Hestvík. Gatan er gamall heybandsvegur meðan heyjað var í Folaldadölum. Hér má velja um fjölda leiða eftir áhuga og aðstæðum. Ekki treystir undirritaður sér til að dæma um hver þeirra sé best eða skemmtilegust.”

Heimild:
-Morgunblaðið, Sigurður Kristinsson, 23. ágúst 1991, bls.  13.
-Morgunblaðið, Sigurður Kristinsson, 28. maí 1992, bls. 39.

Dyradalur

Dyradalur.

Hengill

Gengið var til suðurs frá ofan[vestan]verðum Dyradal og inn með vestanverðum Henglafjöllum [Hengilsfjöllum] þar sem þau mæta Mosfellsheiði. Þar sást vel hvar Dyravegurinn liðaðist niður heiðina áleiðis að Lyklafelli.
Útilegumannahellir í EngidalMargar þjóðleiðir lágu milli byggða um Hengilssvæðið fram eftir öldum. Hellisskarðsleið liggur frá Kolviðarhóli austur yfir Hellisheiði og niður hjá Reykjum í Ölfusi. Vegur milli hrauns og hlíðar, frá Kolviðarhóli, um Hellisskarð og síðan austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli yfir Bitru, um Þverárdal og niður hjá Króki eða Hagavík. Dyravegur, frá Elliðakoti við Nátthagavatn, austur yfir Mosfellsheiði norðan Lyklafells, um Dyradal og Rauðuflög og niður hjá Nesjavöllum.
Í Mbl. í júli 1981 má lesa eftirfarandi lýsingu um Dyraveginn: “Allt til þessa dags hefur þeim leiðum, sem forfeður okkar, mann fram af manni, fetuðu eftir í aldaraðir, verið lítill sómi sýndur. Við leggjum mikla áherslu á söfnun gamalla muna og varðveislu fornra bygginga og er það vel, en er það nokkur fjarstæða að viðhalda á sama hátt þessum gömlu götum, sem nú víða eru horfnar með öllu, en bera á sinn hátt þögult vitni um þá hörðu baráttu, sem þjóðin háði fyrir tilveru sinni? Í þeim flokki er Dyravegur. Frá fornu fari lá leiðin frá Þingvöllum suður með vatninu að vestan til Nesjavalla. 

Útilegumannahellir í Engidal

Þeir sem bjuggu austan við Sogið komu einnig að Nesjavöllum, eftir að hafa sundlagt hestana og farið á ferju yfir fljótið fyrir neðan Dráttarhlíð, þar sem Steingrímsstöð er nú. Þessa leið fóru Skálholtsmenn fyrrum, þegar þeir fluttu vistir að og frá biskupsstólnum, en sá staður þurfti mikils við, þegar umsvifin þar voru sem mest. Enda hlaut þessi leið nafnið Skálholtsmannavegur. Þegar þessar tvær leiðir höfðu sameinast á Nesjavöllum, lá hún vestur yfir Dyrafjöllin, þvert yfir Sporhelludal og Dyradal. Við Húsmúla greindist leiðin aftur. Þeir sem ætluðu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tóku stefnuna á Lyklafellið, en þeir sem ætluðu í Selvog eða á sunnanvert Reykjanes héldu suður með Húsmúlanum og stefndu á Lágaskarð austan við Stórameitil. Í þessari ferð skulum við kynnast Dyraveginum nokkru nánar. Við yfirgefum bílinn sunnan undir Húsmúlanum og göngum eftir Bolavöllum, sem eru að vestan við hann.
Engidalur ofanverðurÞar komum við fljótlega á grasivaxna götutroðninga, sýnileg merki þeirrar umferðar sem hér var fyrr á tímum. Troðningarnir eru skýrir og auðvelt að fylgja þeim, sem við gerum að sjálfsögðu. Brátt komum við inn í Engidal. Eftir honum fellur Engidalsáin, sem myndast úr smá lænum og uppsprettum er koma úr vesturhlíðum Hengilsins. Lengsta kvísl hennar kemur frá Marardal. Þangað liggur götuslóði, en annars er gamla gatan vestan við Marardalinn, en við tökum á okkur krók og Fyrirhleðslur í Marardalheimsækjum dalinn. Það er þess virði. Marardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði. Við höldum inn eftir dalnum og fikrum okkur svo upp bratta brekkuna og upp á norðurbrún hans. Þar blasir við allbreitt vik eða dalskvompa sem gengur inn í fjallið. Þar komum við aftur á gömlu götuna og henni fylgjum við eftir það. Úr þessu hækkar gatan og liggur upp brekkurnar til austurs og upp á vesturbrún Dyradalsins. Hann er ekki ósvipaður Marardal, hlíðabrattur og rennsléttur í botninn. Skuggamynd í MarardalHér er gatan skýr og glögg, sem einkum skal þakka sauðkindinni, sem ræður hér ríkjum í sumarhögunum. Gatan liggur þvert yfir dalinn og stefnir í skarð, milli tveggja kletta, í austurhlið hans. Þar komum við að hinum nafnkenndu dyrum, sem þessi leið er kennd við. Smálækur fellur um um Dyrnar, sem eru ekki nema ca. 2 m á breidd. Líklega á hann einhvern þátt í myndun Dyranna, en annars eru öll fjöll hér um slóðir mynduð úr móbergi, sem vatn og vindar vinna á jafnt og þétt. Tafsamt hefur verið að koma hestalestunum í gegn um dyrnar. Menn hafa orðið að taka klyfjarnar ofan, teyma hestana síðan í gegn um skarðið og láta svo aftur upp. En um það var ekki að fást, þetta var hluti af striti dagsins. Austan við Dyrnar eru einir þrír smádalir með bröttum hálsum á milli. Yfir þá liggur leiðin og hefur margur klyfjahesturinn trúlega svitnað ærlega á þeirri leið. En er þeir eru að baki opnast skyndilega nýtt útsýni. Þar blasa Nesjavellir við augum, Þingvallavatn og fjallahringurinn í norðri og austri. En sunnar bera hverareykir Hengilssvæðisins við loft.”
Þegar komið var inn í Engidal var byrjað á því að skoða tvö útilegumannaskjól þar í vestanverðum dalnum. Utan við munnana mátti sjá vordropa á móbergsstandi.
Ólafur Briem fjallar um útilegumenn á Reykjanesskaganum í bók sinni “Útilegumenn og óðar tóttir”. Bókin var gefin út árið 1959, en var síðan endurskoðuð og endurbætt í nýrri útgáfu 1983. MarardalurÍ eftirfarandi umfjöllun er stuðst við síðari útgáfuna.
“Fyrstu útilegumenn, sem um getur á Reykjanesfjallgarði, eru Eyvindur Jónsson úr Ölfusi – sem kalla mætti hinn eldra til aðgreiningar frá Fjalla-Eyvindi – og fylgikona hans: Margrét Símonardóttir.” Þessum hjúum er lýst annars staðar á vefsíðunni. Í alþingisbók 1768 er þess getið að manneskjur þessarar “urðu svo höndlaðar í einum hellir suður undan Erfiriseyjarseli (svo) í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris [árið 1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á nefndnum Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu…” Þetta ár tóku Eyvindur og Margrét út líkamlega refsingu í Kópavogi þann 3. desember fyrir útileguna og “hnígandi þjófnaðar atburði” og voru síðan afleyst af biskupnum í Skálholti.
Myndanir ofan DyradalsEkki leið á löngu þangað til að “þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útileguvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust.” Síðan voru þau bæði dæmd til dauða, og fór aftan fram 3. júlí 1678.
Í Setbergsannál segir að þau Eyvindur og Margrét hafi fundist “í helli á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellsveit og lifðu á kvikfjárstuld.” Í Fitjaannál segir, að þau hafi í síðara skiptið lagst út í Henglafjöllum. Hellirinn í Mosfellsheiði er að öllum líkindum hellirinn ofan við Lækjabotna er fyrr var nefndur, enda var það hluti af Mosfellslandi fyrrum. Hann gæti einnig verið annar tveggja í Henglinum. Í honum eru skútar á tveimur stöðum, hvor skammt frá öðrum. Á öllum stöðunum sjást enn hleðslur.
DyradalurLeitt hefur verið að því getum að hellir í hraunbólu sunnan við Þríhnúka gæti hafa verið bæli Eyvindar og Margrétar um tíma, en telja verður það ósennilegt. Umbúnaður á helli þessum var síðar “betrumbættur” og sett hurð á dyraopið. Náttúrulegur bálkur er inni og steinker í gólfi. Hins vegar er með þessa hranbólu líkt og aðrar; þær halda ekki vatni og væri því viðvarandi vist þarna verri en engin. Líklegt má telja að skjólið hafi um tíma verið notað af refaskyttum, sem lágum löngum við hlíðarnar, líkt og sjá má á tóftum undir þeim.
“Í höfða þeim í landi Villingavatns eru tveir hellar. Um þessa hella er til þjóðsaga, sem prentuð er í “Íslenskum sagnaþáttum” Guðna Jónssonar (VII, bls. 84-86) eftir handriti Magnúsar Magnússonar á Villingavatni. Í sögunni eru hellarnir nefndir Skinnhúfuhellir og Símonarhellir. Skinnhúfuhellir er norðaustan í Dráttarhlíð um 200-300 metra fyrir vestan stífluna, þar sem Sogið féll úr Þingvallavatni, miðja vega frá vatninu upp í Dyravegurinn á Mosfellsheiðiklettabrún. Hellirinn er fjögurra til fimm metra langur, tveggja metra breiður og manngengur að meira en hálfu leyti. Í áttina að Þingvallavatni eru manngengar dyr um það bil í hnéhæð frá hellisgólfi. Annað op er til hægri handar, þegar inn er gengið. Það hefur verið byrgt með grjótvegg, sem er hruninn að ofanverðu. Gólfið í Skinnhúfuhelli virðist hafa verið sléttað og mýkt með mosa. Samkvæmt sögunni er hellirinn kenndur við förukonu, sem kölluð var Elín skinnhúfa og lá þar úti skamma hríð um 1770. Um 100 metrum vestar er hellisgímald, sem nefnt er Símonarhellir, í sama berginu og sömu hæð. Mestan hluta leiðarinnar milli hellanna er mjótt þrep í brekkunni, en næst Símonarhelli er einstigi. Þjóðsagan kennir þennan helli við Símon nokkurn, smalamann á Villingavatni, sem var lagsmaður Elínar skinnhúfu.” Hér að framan er getið um að Eyvindur og Margrét hafi hafst við í hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign. Hér gætu þau hafa dvalið um sinn enda má berja þarna mannvistarleifar augum.
Dyrnar í DyradalÍ sögu Jóns Grunnvíkings er fjallað um Völustakk, útilegumann í Hengli. Þórður Sigurðsson á Tannastöðum sagði frá því í Lesbók Morgunblaðsins 1939 að hann hafi heyrt sem unglingur að útilegumenn, 6-7 saman, hefðu verið í Henglinum. “Þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hefði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þar skipshöfn, sem hefði gert níðingsverk, en aldrei heyrði ég, hver þau hefðu átt að vera.” Menn úr Ölvesi og Grafningi, 50 – 60,  tóku sig til og héldu með liðsafnað á hendur útilegumönnunum. Hellismenn tóku að flúja, hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af mesta ákafa og mest þeir er fótfráastir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan, en vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Við Þjófahlaupin voru allir hellismenn drepnir.”
VordropinnÞá var haldið yfir í Marardal eftir móbergsöxlinni. Syðst í dalnum eru hleðslur svo og skammt norðaustar. Þar skammt frá er skilti. Á því stendur: “Nautaréttir í Marardal – Marardalur er ákjósanlegt aðhald frá náttúrunnar hendi, enda aðeins ein leið greiðfær inn í hann. Hér voru nautaréttir fram undir 1860. Í þá daga voru nautgripir aðrir en mjólkandi kýr reknir á afrétt á Mosfellsheiði og hellisheiði á sumrin, einkum úr Ölfusi og Grafningi. Einnig var eitthvað umað naut kæmu lengra að og voru þau flest rekin úr Viðey. Réttardagur var 3. okóber, eða því sem næst, og voru það fáir en vaskir menn sem sáu um smölun og réttarstörf. Alls munu nautin hafa verið hátt í 200 að tölu þegar mest var. Þegar þau höfðu verið rekin inn í dalinn og þau skilin í hópa og aflaust hefur verið reynt meira á þolinmæði og líkamsburði en sundurdráttur í fjárréttum. Þá var hver hópur rekinn til síns heima. Nautin voru yfirleitt mörkuð á eyrum.”
Auk þess stendur: “Enn sjást glöggar hleðslur víða í sköðrum í hömrunum sem girða dalinn af. Skýrustu hleðslunar eru í suðurenda dalsins og í miðri austurhlið þar sem göngustígurinn liggur um. Þær áttu að varna því að nautin eða aðrar skepnur sem í haldi voour, slyppu. Getgátur eru um að mannýg naut hafi verið geymd í dalnum sumarlangt en samkvæmt lögum var bannað að reka slíkar skaðræðisskepnur á afrétt.
Nokkrir litlir hellar eru í berginu umhverfis Marardalinn. Að minnsta kosti einn þeirra var notaður sem skýli fyrir réttarmenn. Þessi hellir er skammt austan við götuna inn í dalinn, um þrjá metra uppi í hlíðinni. enn má sjá hlöggar hleðslur fyrir Skeggi gnæfir hæst á Henglihellismunnanum en þar hafa menn getað hvílt lúin bein í friði fyrir nautunum. Í fleiri hellum sjást mannaverk, til dæmis hleðsluleifar og áletranir eins og ártöl og fangamörk á veggjum.
Eftir að nautaréttir í Marardal voru aflagðar, héldu Ölfusungar áfra, að reka naut sín á afrétt en því var hætt um aldamótin 1900. Síðustu árin héldu nautin sig mest í Hengladölum en komu stunum niður í byggð og þóttu ekki beinlínis góðir gestir. Þau gátu gert usla í túnum og á engjum, veltu heysátum um koll og hentu heyinu í háaloft. Tímaferkt var að reka nautin til fjalls á ný og þurfti til þess fullgilda menn sem voru kunnugir leiðum um fjallið.”
Framangreint skjól var skoðað, en það er í austanverðum dalnum miðjum. Gróið er framan við hellisskúta, en innan við gróningana hefur verið ágætt skjól. Sandur og mold hafa safnast saman innan við grónar hleðslur. Staðnæmst var um stund í miðjum dalnum og hlustað á vorkomuna. Vorbrestirnir í ísskáninni á tjörn í sunnanverðum dalnum bergmáluðu milli veggjanna. Sumarið var óumdeilanlega framundan. Marardalslækurinn var í vexti, ef vöxt skyldi kalla.
Þegar komið var upp úr Marardal norðanverðum er fagurt útsýni yfir dalinn og utanvert umhverfið. Nú var Reykjaveginum fylgt um fjallsaxlirnar, um Skeggjadal og niður í Dyradal. Ægifagurt útsýni er til allra átta, auk þess sem Skeggi gnæfir tilkomumikill yfir dýrðinni í suðri.
Komið var niður á öxlina þar sem Dyravegurinn liggur yfir frá framangreindum stað og áleiðis niður í dalinn. Dyrnar í Dyradal eru í austanverðum dalnum. Innar er Sporhella, móbergsklöpp þar sem markað er fyrir fótum, hófum og klaufum liðinna alda er leið áttu um skarðið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Briem – Úilegumenn og auðar tóttir, 1983, bls. 142-169.
-Mbl 25. júlí 1981.

Dyradalur

Dyradalur – dyrnar.

 

Sköflungur

Gengið var til norðurs norðan Nesjavallavegar skammt fyrir vestan Dyradal vestan Nesjavalla, um Folaldadali og Sköflung. Sköflungur er reyndar gamalt nafn á vegi milli Hafnarfjarðar og Þingvalla (sjá aðra lýsingu).

Sköflungur

Sköflungur.

Lagt var í’ann frá veginum skammt ofan við Dyradal, sem fyrr segir.
Línuveginum var fylgt til að byrja með þar sem hann liggur í norðaustur meðfram háspennulínu í nágrenninu. Þegar slóðinn fer að halda meira í austurátt var farið út af honum og gengið meðfram girðingu sem þar er, um hálsana í átt að tveimur stæðilegum tindum, Hátind og Jórutind.
Þar sem girðingin tók krappa beygju var farið yfir hana og fór þá að halla nokkuð undan fæti. Gengið var meðfram gili sem varð í veginum og það haft á vinstri hönd og því fylgt niður í Folaldadali.

Sköflungur

Sköflungur.

Gengið var þvert yfir dalina í átt að Sköflungi, sem rís nokkuð bratt upp úr dölunum, og ráðist til uppgöngu á hann. Ágætt er að miða á skarð sem er á milli tveggja tinda þar sem Sköflungur er hæstur.

Þegar upp er komið kom í ljós að Sköflungur er nokkuð mjór og brattur hryggur og ekki mikið svigrúm til að skrippla með góðu móti utan í honum. Ofan á honum er hins vegar dálítið grýtt og ekki mjög fljótfarið. Af Sköflungi er í öllu falli fallegt útsýni yfir Mosfellsheiðina og næsta nágrenni. Eftir hryggnum var síðan gengið til suðurs uns komið var aftur að Nesjavallaveginum þar sem gangan hófst.
Gangan var fremur auðveld, en útsýnið var margbrotið – fyrir augað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Dyradalur

Dyradalur.