Dyravegur

Dyravegur var genginn frá Lyklafelli um Brekkuna, Dyradal og Sporhellu að Nesjavöllum, 18.6 km. Alls er vegurinn frá Elliðakoti að Nesjavöllum um 26 km ef farið er norður fyrir Lyklafell, en um 27 km ef farið er sunnan við Lyklafell. 

Dyravegur

Dyravegur lá að sjálfsögðu áfram til austurs. Að öllum um líkindum var hér um að ræða fyrstu ferð núlifandi Íslendinga um þessa fornu þjóðleið á þessum langa kafla. Hafa ber í huga að vegurinn er alls ekki auðrakinn þrátt fyrir mikla umferð fyrrum. Líklegt má telja að leiðin hafi nánast einungis verið farin að sumarlagi því rekja hefur þurft hana frá upphafi til enda eftir legu hennar. Einungis nokkrar vörður og vörðubrot eru á leiðinni, auk þess sem nokkur gatnamót, ef grannt er skoðað. Eitt vörðubrotið er t.d. við lækjarfarveg austan Lyklafells. Vörður eru á aflöngu holti miðja vegu og síðan er varða á öxl er nálgast tekur Hengilinn vestan við Dyradal. Vatnsstæði er nánast á miðri leið og má sjá hleðslur í því. Leifar af tóft eru þar hjá. Alls staðar er gatan þó vel greinileg, en mikilvægt er að hafa augun opin fyrir óvæntum stefnubreytingum. Ferðin var notuð til að hnitsetja götuna.
Austan Lyklafells greinast Dyravegur og Hellisheiðarvegur með glöggum skilum. Sá síðanefndi liggur síðan áfram til austurs upp með Múla, Kolviðarhóli og um Hellisskarð.
DyravegurDyravegur liggur frá Elliðakoti norðan við Nátthagavatn, austur yfir Mosfellsheiði norðan Lyklafells, um Dyradal og Rauðuflög og komið niður hjá Nesjavöllum. Þetta var aðalvegur þeirra sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu.
Í MBL 1991 er fjallað um “Dyraveginn” undir fyrirsögninni “Á leið um Dyraveg”.
“Allt til þessa dags hefur þeim leiðum, sem forfeður okkar, mann fram af manni, fetuðu eftir í aldaraðir, verið lítill sómi sýndur. Við leggjum mikla áherslu á söfnun gamalla muna og varðveislu fornra bygginga og er það vel, en er það nokkur fjarstæða að viðhalda á sama hátt þessum gömlu götum, sem nú víða eru horfnar með öllu, en bera á sinn hátt þögult vitni um þá hörðu baráttu, sem þjóðin háði fyrir tilveru sinni? Í þeim flokki er Dyravegur. Frá fornu fari lá leiðin frá Þingvöllum suður með vatninu að vestan til Nesjavalla. 

Dyravegur

Þeir sem bjuggu austan við Sogið komu einnig að Nesjavöllum, eftir að hafa sundlagt hestana og farið á ferju yfir fljótið fyrir neðan Dráttarhlíð, þar sem Steingrímsstöð er nú. Þessa leið fóru Skálholtsmenn fyrrum, þegar þeir fluttu vistir að og frá biskupsstólnum, en sá staður þurfti mikils við, þegar umsvifin þar voru sem mest. Enda hlaut þessi leið nafnið Skálholts-mannavegur. Þegar þessar tvær leiðir höfðu sameinast á Nesjavöllum, lá hún vestur yfir Dyrafjöllin, Varðaþvert yfir Sporhelludal og Dyradal. Við Húsmúla greindist leiðin aftur. Þeir sem ætluðu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tóku stefnuna á Lyklafellið, en þeir sem ætluðu í Selvog eða á sunnanvert Reykjanes héldu suður með Húsmúlanum og stefndu á Lágaskarð austan við Stórameitil. Í þessari ferð skulum við kynnast Dyraveginum nokkru nánar.
Við yfirgefum bílinn sunnan undir Húsmúlanum og göngum eftir Bolavöllum, sem eru að vestan við hann. Þar komum við fljótlega á grasivaxna götutroðninga, sýnileg merki þeirrar umferðar sem hér var fyrr á tímum. Troðningarnir eru skýrir og auðvelt að fylgja þeim, sem við gerum að sjálfsögðu. Brátt komum við inn í Engidal. Eftir honum fellur Engidalsáin, sem myndast úr smá lænum og uppsprettum er koma úr vesturhlíðum Hengilsins. Lengsta kvísl hennar kemur frá Marardal. Þangað liggur götuslóði, en annars er gamla gatan vestan við Marardalinn, en við tökum á okkur krók og heimsækjum dalinn. Það er þess virði.
DyravegurMarardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði. Við höldum inn eftir dalnum og fikrum okkur svo upp bratta brekkuna og upp á norðurbrún hans. Þar blasir við allbreitt vik eða dalskvompa sem gengur inn í fjallið. Þar komum við aftur á gömlu götuna og henni fylgjum við eftir það.
DyravegurÚr þessu hækkar gatan og liggur upp brekkurnar til austurs og upp á vesturbrún Dyradalsins. Hann er ekki ósvipaður Marardal, hlíðabrattur og rennsléttur í botninn. Hér er gatan skýr og glögg, sem einkum skal þakka sauðkindinni, sem ræður hér ríkjum í sumarhögunum. Gatan liggur þvert yfir dalinn og stefnir í skarð, milli tveggja kletta, í austurhlið hans. Þar komum við að hinum nafnkenndu dyrum, sem þessi leið er kennd við. Smálækur fellur um um Dyrnar, sem eru ekki nema ca. 2 m á breidd. 

Líklega á hann einhvern þátt í myndun Dyranna, en annars eru öll fjöll hér um slóðir mynduð úr móbergi, sem vatn og vindar vinna á jafnt og þétt.

VörðuleifarTafsamt hefur verið að koma hestalestunum í gegn um dyrnar. Menn hafa orðið að taka klyfjarnar ofan, teyma hestana síðan í gegn um skarðið og láta svo aftur upp. En um það var ekki að fást, þetta var hluti af striti dagsins. Austan við Dyrnar eru einir þrír smádalir með bröttum hálsum á milli. Yfir þá liggur leiðin og hefur margur klyfjahesturinn trúlega svitnað ærlega á þeirri leið. En er þeir eru að baki opnast skyndilega nýtt útsýni. Þar blasa Nesjavellir við augum, Þingvallavatn og fjallahringurinn í norðri og austri. En sunnar bera hverareykir Hengilssvæðisins við loft.
Lesandi góður. Hér hefur verið reynt að lýsa undurfagurri og fjölbreyttri gönguleið, en sjón er sögu ríkari. Ef þú hefur í hyggju að ganga Dyraveginn á góðum degi, skalt þú ætla þér heilan dag til þess, svo marga skoðunarverða og fjölbreytta staði er um að velja. En með eðlilegum gönguhraða og skynsamlegum hvíldum má ganga götuna á 5-6 klst. hið minnsta.”

Dyravegur

Hér var leið lýst vestan Hengilsins inn á Dyraveginn um Dyrafjöllin. Vegurinn á að vera stikaður frá Dyradal um Sporhellu að Nesjavöllum, en hann víða á leiðinni er farið út af gömlu götunni. Má t.d. nefna er komið er upp úr Dyrunum er þar tilbúinn stígur. Ef grannt er skoðað liggur gamla gatan ofar og beygir síðan til vinstri áleiðis að Sporhellunni. Þar hefur skriða fallið yfir götuna, en auðveldlega hefði verið hægt að bæta um betur. Áður en komið er að Sporhellunni millum Sporhelludala hefur verið lagður nýr stígur þar upp í stað þess að fylgja gömlu götunni til hægri. Ofar greinist gatan og hefur styttri hlutinn verið stikaður. Sá lengri er hins vegar miklu mun fallegri. Þegar hallar niður að Nesjavöllum leiðbeina stikur vegfarendum svo til beint niður hlíðina, en að sjálfsögðu fór hún þar í sneiðinga fyrrum.
DyradalurVestar, áður en komið er niður í Dyradal, er gamla gatan einnig sniðgengin, því hún er þar greinileg suðvestast í dalnum, en Reykjavegurinn hefur hins vegar verið stikuð sunnan hennar – að óþörfu.
Í þessari ferð var Dyravegurinn genginn “nánast sanni” frá Lyklafelli og ekki alltaf í förum stikaðrar leiðar um Dyrafjöllin.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Í tímaritinu Mána árið 1880 segir m.a. um austurvegina: ““Yfir Reykjanesfjallgarðinn liggja 7 alfaravegir, nyrðstur er Kaldadalsvegur milli fingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals [Miðdals] í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum i Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Grindaskörð milli Ölvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir voru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.”
Til gamans má geta þess að FERLIR reyndi að vekja athygli OR á möguleika þess að merkja og stika þessa leið, annars vegar milli Nesjavalla að Lyklafelli og hins vegar milli Kolviðarhóls að Elliðakoti, en áhuginn var enginn.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Mbl. 25. júlí 1981.
-Máni , 4.-5. tölublað – laugardagur, 31. janúar 1880 , bls. 33-34.

Dyravegur