Þorlákshöfn

Í Sjómannadagsblaðinu 1982 er fjallað um sögu Þorlákshafnar:

Höfundur Þorlákshafnar, höfðingjarnir tveir

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

“Þorlákshöfn mun draga nafn sitt af Þorláki helga, er biskup var í Skálholti (1139—1193) en þar mun hann hann hafa stigið á land, eftir að hafa tekið biskupsvígslu, árið 1178. Hann þótti hinn skörulegasti biskup og reyndi mjög að efla kirkjuvaldið, sem kunnugt er. Önnur sögn segir á hinn bóginn að bóndi í Þorlákshöfn, er þá hét Elliðahöfn, hefði heitið á Þorlák biskup í sjávarháska, að breyta nafni jarðarinnar, ef hann næði landi, heilu og höldnu.
Miklar sögur eru um útgerð og siglingu í Þorlákshöfn og talið að Ögmundur Pálsson, biskup, sem var í Skálholti 1521—1540 (d. 1541) hafi siglt skipi sínu, Súðinni í Þorlákshöfn, en hann var nafntogaður skipstjórnarmaður og réði yfir Súðinni, haffæru skipi, en hann sigldi sjálfur, meðal annars margsinnis til Noregs.
ÞorlákshöfnEkki er unnt að rekja hér langa útgerðarsögu Þorlákshafnar, en einkennileg tilviljun er það, að tveir frægðarmenn koma þar seinast við sögu, Þorleifur ríki á Háeyri, útvegsbóndi, kaupmaður og alþingismaður, er segja má að væri seinasti ábúandi í gamla stíl, meðan róið var á áraskipum, og Egill Gr. Thorarensen í Sigtúnum, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga, er menn nefndu oft Jarlinn í Sigtúnum. Hann fékk kaupfélagið til að kaupa Þorlákshöfn og er réttur faðir Þorlákshafnar eins og hún er í dag.
Svo skemmtilega vildi til, að við hér á blaðinu hittum að máli syni þessara tveggja höfðingja, þá Benedikt Thorarensen, framkvæmdastjóra hjá Meitlinum hf. og Sigurð Þorleifsson, Guðmundssonar á Háeyri, en báðir eiga þeir heimili í Þorlákshöfn, og ennfremur Gunnar Markússon, bókavörð, en hann er einnig fróður mjög um sögu staðarins.
Og á frásögnum þeirra og öðrum upplýsingum, rituðum, skal hér reynt að gjöra nokkra grein fyrir Þorlákshöfn að fornu og nýju, það er Þorlákshöfn Þorvaldar á Háeyri og Þorlákshöfn Egils í Sigtúnum.

Þorlákshöfn í byrjun aldar

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – kort.

Þorlákshöfn liggur í vesturjaðri Árnessýslu og svonefnt Hafnarnes skýlir höfninni í suðlægum og suðvestlægum áttum og síðan er landvar frá hendi náttúrunnar allt að ASA. Landsynningur eða suðaustanáttin var erfiðasta áttin, því þá stóð upp í víkina. Að norðan og austanverðu markar Skötubótin og síðan Hafnarskeið Þorlákshöfn, eða „Höfninni” bás, en fyrrgreint svæði, þótt opið sé, er einstakt í óvogskorinni og skjóllausri strönd Suðurláglendisins. Þorlákshöfn varð því snemma lífhöfn manna á þessum slóðum.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Þorleifur á Háeyri bjó í Þorlákshöfn á árunum 1914—1927 og gerði þar út. Í hans tíð munu skipin (áraskipin) flest hafa orðið 30 talsins. Þetta voru teinæringar, er sumir nefna 12 róin skip. Til eru góðar heimildir um skip í Þorlákshöfn á þessari öld og munu þau um aldamótin hafa verið um 20 talsins og árið 1901 voru þau 27. En flest urðu þau árið 1916, eða 30, en úr því fer skipum að fækka í Þorlákshöfn.
Nýir tímar fóru í hönd í útgerð, og menn leituðu á aðra staði, þar sem náttúruhafnir voru fyrir skútur og togara. Árið 1923 voru aðeins 5 skip eftir, sem réru frá Þorlákshöfn. Vélbátaútgerð var ekki stunduð í tíð Þorleifs á Háeyri. Bryggja var engin og allt varð að bera. Róið var út í saltiskip og saltið borið í sekkjum í hús og fiskinum var skipað út með sama hætti, róið var í skip. Út og uppskipun fór fram við Hellurnar, Norðurhellu og Suðurhellu. Aðallega var þó skipað út við Suðurhelluna, því þar var fiskinum pakkað í húsi, er þar stóð, og nefnt var Bakkapakkhús, en Einarshafnarverslun átti það hús. Saltinu var skipað upp í báðar varirnar, Norðurvör og Suðurvör, en á báðum stöðunum voru salthús.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Mjög fjölmennt var í Þorlákshöfn á vertíðum og að meðtöldu heimilisfólkinu hjá Þorleifi, mun hafa verið á fimmta hundrað manns í Þorlákshöfn á vetrarvertíð.
Sjómennirnir, eða skipshafnirnar bjuggu í sjóbúðum, sem voru grjótbyrgi með bárujárnsþaki. Veggir voru úr torfi og grjóti, áður en bárujárnið kom til sögunnar, voru sjóbúðirnar með torfþaki, eins og flest önnur hús á Íslandi. Upphitun var engin, en prímus var notaður við eldamennsku, sem aðallega mun hafa verið sú að laga kaffi. Sjóbúðin var eitt herbergi og flet meðfram veggjum og sváfu tveir í hverju fleti. Aðkomumennirnir voru flestir úr Ölfusinu og austan úr Árnessýslu. Margir komu frá Eyrarbakka, og ennfremur réru þarna Rangæingar.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – sjóbúð.

Þorleifur á Háeyri gerði út nokkra báta og verkaði fisk af sínum bátum og einnig tók hann að sér fiskverkun fyrir Einarshafnarverslun á Eyrarbakka. Fyrstu árin að minnsta kosti.
Í tíð Þorleifs voru tvö íbúðarhús í Þorlákshöfn. Gamli bærinn, sem svo var nefndur og svo tvílyft timburhús, eða íbúðarhús, bárujárnsklætt, sem stóð framar.
Umsvif Þorleifs á Háeyri í Þorlákshöfn voru mikil en fóru minnkandi. Hann þraukaði þó þarna til ársins 1927, en þá voru skipin aðeins orðin fjögur. Þorleifur fluttist síðan til Reykjavíkur og varð þar fisksölustjóri. Hann andaðist árið 1942.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – róðraskip um 1890.

Áraskipin voru á netaveiðum, einvörðungu, í tíð Þorleifs. Þá var hætt að verka í skreið á Íslandi, nema harðfisk til heimabrúks.
Allur fiskur var saltaður, og það sem ekki var saltað til útflutnings, var svokallaður matfiskur, morkinn fiskur og fiskur með lýti. Hann var hafður til manneldis og seldur í sveitirnar. Þorskhausar voru þurrkaðir og seldir innanlands.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúð um 1917.

Þess má þó geta, að þorskanet voru fyrst notuð í Þorlákshöfn árið 1907. Sjómennskan var erfið og aldrei höfðu menn með sér bita á sjóinn, ekki einu sinni þótt tvíróið væri sama daginn, eða þríhlaðið, sem oft kom fyrir, ef verið var á leirnum, sem svo var nefnt. Fengust þá of 12000 fiskar á skip sama daginn, og þegar róið var hrærðu menn í þorski með árunum og oft gogguðu menn fiska upp úr sjónum á leiðinni í land.
Þorlákshöfn
Merkileg tilraun var gerð í Þorlákshöfn árið 1922, en þá reyndi frægur aflamaður Nes-Gísli (Gísli Jónsson) að veiða þorsk í hringnót. Gísli hafði þríhlaðið skip sitt þennan dag. Þegar lokið var við að landa, héldu þeir út með hringnót, sem gjörð var úr trolltvinna. Nóttina höfðu þeir á einu skipi, en kunnu ekki með að fara, enda sveitamenn, eins og flestir þeir sem réru á áraskipum á þessum stað. Þeir köstuðu nótinni og fengu 60 fiska. Ekki hugkvæmdist þeim að nota tvö skip til að kasta nótinni, en það er önnur saga. Er þetta líklega í fyrsta skipti, sem gerð er tilraun til þorskveiða með nót hér á landi. Ekki mun nótinni þó hafa verið kastað nema einu sinni.
Þess má einnig geta, að Gísli í Nesi, varð fyrstur manna til að nota þorskanet í Þorlákshöfn, en áður fóru skipin með lóðir.
Síðasti bóndinn í Þorlákshöfn var Guðmundur Jónsson, en hann flutti að Eyði-Sandvík í Flóa árið 1940. Þá lagðist sveitabúskapur af í Þorlákshöfn. Skúli Þorleifsson var ráðsmaður í Þorlákshöfn 1942—1943 og viðloðandi þar um skeið.
Lítil útgerð mun hafa verið í Þorlákshöfn í tíð Guðmundar Jónssonar.

„Nú skal byggja borg”
ÞorlákshöfnSem áður sagði, þá eru það einkum tveir héraðshöfðingjar, er setja svip sinn á Þorlákshöfn á þessari öld. Annar þeirra Þorleifur á Háeyri sér hina eldfornu útgerð áraskipa liðast í sundur í straumi tímans, hinn Egill í Sigtúnum tekur að sér að leiða Þorlákshöfn til nýrrar tíðar. Báðir þessir menn voru orðnir að þjóðsögu, áður en þeir voru allir, sem er fremur sjaldgæft á Íslandi, og ekki hafa þeir heldur meiðst í endurminningunni. — Standa þar fyrir sínu. Sem áður sagði þraukaði Þorleifur á Háeyri til ársins 1927 í Þorlákshöfn, enda staðurinn búinn að vera í bili, sem viðunandi verstöð.
Þá verða tímamót í sögu Þorlákshafnar. Árið 1929 mun fyrst hafa verið reynt að gjöra bryggju í Þorlákshöfn, og var hún 20 metra löng. Ekki skal fullyrt um gagnsemi hennar, en árið 1934 kaupir Kaupfélag Árnesinga jörðina. Um þetta segir Guðmundur Daníelsson, rithöfundur í grein á þessa leið. (Stytt):
„Á stjórnarfundi Kaupfélags Árnesinga 2. apríl 1934 var samþykkt að festa kaup á jörðinni Þorlákshöfn með þeim mannvirkjum, sem þar voru. Kaup þessi voru í upphafi mest hugsuð til að hefja útgerð í atvinnubótaskyni, hef ég einhvers staðar lesið, en tel mjög hæpið. Aftur á móti mun hafa vakað fyrir Agli að bæta svo lendingarskilyrði, að þar yrði brátt hægt að skipa upp flestum vörum Sunnlendinga, það er að segja að byggja hafskipahöfn.
Árið 1935 lét Egill kaupfélagið hefja útgerð í Þorlákshöfn. Ólafur bóndi Þorláksson á Hrauni í Ölfusi er einn af örfáum Íslendingum, kannski sá eini, sem vitni varð að því, þegar Egill kom fyrsta sinni út í Þorlákshöfn til þess að ræða við eina formann staðarins um væntanleg kaup K.Á. á jörðinni, umsvif og atvinnurekstur þar. Ólafur segir frá þessu í minningargrein, sem hann skrifaði um Egil látinn:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – hafnaraðstaðan fyrrum.

„Það mun hafa verið síðari hluta vetrar 1933, að ég var við sjóróðra á vertíð í Þorlákshöfn, þá tvítugur unglingur. Staðurinn var þá kominn í slíka niðurníðslu, að aðeins einn bátur (opin trilla) reri þarna frá verstöðinni, þrátt fyrir það að þarna rétt upp við landsteina var sjórinn svo morandi af fiski, að einn daginn fengum við til dæmis á fjórða þúsund fiska, þrátt fyrir þær aðstæður sem þá voru fyrir hendi. Og þeir sem við þetta unnu voru aðeins menn úr nágrenninu. Slík var nú trúin orðin á framtíð staðarins.
ÞorlákshöfnÞað var snemma morguns einn dag áður en farið var á sjó, að inn í verbúðina vatt sér maður einn gustmikill og mikilúðlegur, og af honum sindraði orka og fjör. Hér var þá kominn forstjóri hins unga kaupfélags, sem nýbúið var að stofna í héraðinu. Maður þessi tók sér sæti á rúmi formanns og fékk sér hressilega í nefið. Síðan tóku þeir tal saman, og fór ég að leggja við eyra. Egill sagðist nú vera kominn í þeim erindagjörðum að skoða Þorlákshöfn, því að hann hefði hugsað sér að láta kaupfélagið kaupa jörðina. Síðan hann að lýsa á sinn alkunna hátt öllum þeim möguleikum, sem þarna væru fyrir hendi og verkefnum sem biðu þess að verða leyst. Og ég, unglingurinn, hlustaði þarna sem bergnuminn og fannst sem ég hlýddi á ævintýri „Þúsund og einnar nætur.”
Og kaupfélagsstjórinn var ekki að tvínóna við hlutina fremur en endranær. Strax um sumarið var hafizt handa um lendingarbætur og síðan útgerð. Fyrst í smáum stíl en síðan vaxandi. Þannig hefur þróunin haldið áfram, að vísu með nokkru hléi á stríðsárunum (þá dró „Bretavinnan” til sín allt fáanlegt vinnuafl). En að lokinni styrjöldinni komst nýr og aukinn skriður á uppbyggingu Þorlákshafnar, og ekki hefur orðið lát á því síðan.”
Um þennan þátt í frumlegu og stórtæku sköpunarstarfi Egils á vegum verklegra framkvæmda hefur Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu þetta að segja:
„Egill Thorarensen gleymdi ekki sjónum og gjöfum hans. Hann var líka vel minnugur hafnlausu strandarinnar, sem umlykur mesta samfellda búnaðarhérað landsins. Hann sá, að höfn yrði að byggja í hinni gömlu verstöð við Eyrarbakkabugt, sem helguð var hinum sæla Þorláki biskupi, og hann sá fyrir sér stóra hafnarborg rísa upp á hinni gróðurlausu örfoka sandströnd. Og hann lét ekki sitja við hugsanir og orðin tóm, það gerði hann aldrei. K.Á. keypti þessa niðurníddu verstöð, hóf hafnarbætur og útgerð, þar sem fiskurinn gengur upp í landsteina á vetrarvertíð, svo að þríróa má hvern dag, þegar gæftir eru.
Þorlákshöfn
Eftir stríðið, sem endaði 1945, endurreisti Egill í annað sinn útgerð í Þorlákshöfn, og þá stofnaði hann sjálfur, K.Á., SÍS og fleiri aðilar hlutafélagið Meitilinn í Þorlákshöfn. Áður, árið 1938, hafði Egill látið K.Á. hefja þar byggingu hafskipahafnar. Að heimsstyrjöldinni lokinni vaknaði almennur áhugi á lengingu þessa hafnargarðs, sem kominn var. Þar með taldi Egill, að málið væri í rauninni orðið ofviða einu kaupfélagi, því að vissulega stefndi hann að hafskipahöfn með öruggri legu fyrir 40 til 50 stóra fiskibáta. Þá vann Egill það þrekvirki, sem ég persónulega er viss um, að enginn lifandi maður á Íslandi hefði getað leikið eftir honum: að fá Árnes- og Rangárvallasýslur til að kaupa Þorlákshöfn, það er að segja jörðina og hafnarmannvirkin. Meitillinn hélt aftur á móti áfram að vera hlutafélag. Þetta gerðist árið 1946. Hafnarnefnd var sett á laggirnar og formaður hennar kosinn Páll Hallgrímsson sýslumaður. Helmingur nefndarinnar mun hafa verið búsettur austan Þjórsár, meðal annarra sýslumaðurinn, Björn Fr. Björnsson.
ÞorlákshöfnNú var settur kraftur á framkvæmdirnar, og sýslusjóðir urðu auðvitað að galopna pyngjur sínar — og dugði stundum ekki til. Þá tókst Agli jafnvel að fá stjórn Mjólkurbús Flóamanna til að hlaupa undir bagga, eitt sinn þegar mikið reið á að koma niður bryggjukerum, sem búið var að steypa í landi.. . .” Samþykkti Mjólkurbúið að leggja til 5 milljónir króna, sem var mikið fé á þessum tíma.
Samkvæmt upplýsingum Benedikts Thorarensen, framkvæmdastjóra, þá hóf Kaupfélag Árnesinga hafnargerð þegar árið 1934 og stóð sú framkvæmd til ársins 1946. Gerður var varnargarður í Norðurvör og ennfremur var hafist handa um gerð Suðurvarargarðs árið 1938, sem árið 1940 var orðinn 75 metra langur. Á þessum árum var hafin útgerð trillubáta og dekkbáta og reist var fiskhús til að salta aflann.
Voru verslunarhús Vesturbúðarinnar á Eyrarbakka flutt til Þorlákshafnar og endurreist þar. Trillurnar lönduðu aflanum við Norðurvararbryggju.
Árið 1950 urðu enn þáttaskil í sögu Þorlákshafnar. Keyptir voru fimm þilfarsbátar og einn 100 tonna bátur. Annars skammtaði höfnin stærð bátanna, og voru þeir 20—30 tonn hver. Minni bátarnir lágu fyrir legufærum, en stærri bátar voru á útilegu.
Næsti áfangi er svo að árið 1960 en þá byggði Meitillinn hraðfrystihús. Annar þáttur hafnarsögunnar var sá, að Sambandið setti snemma upp fóðurblöndunarstöð og landaði fóðurvörum, og Olíufélagið hf. setti upp olíugeyma og sendi olíu með skipum til Þorlákshafnar, en mikið hagræði var að geta landað varningi og skipað út vörum í Þorlákshöfn. Var t.d. mestu af föngum Búrfellsvirkjunar skipað upp í Þorlákshöfn, svo dæmi séu nefnd um almennt gildi hafnarinnar á þessum árum. Þá var Þorlákshöfn notuð til mjólkurflutninga út í Vestmannaeyjar og er enn.

Takmarkinu náð — Höfnin fullgerð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1960 – Meitillinn.

Árið 1960 voru miklar framkvæmdir á vegum sýslufélaganna, sem nú áttu Þorlákshöfn. Fengið var lánsfé með ríkisábyrgð, en árið 1965 var Þorlákshöfn gjörð að landshöfn. Síðan er svo lokið við hafnargerðina með stórátaki í kjölfar Vestmannaeyjagossins.
Benedikt Thorarensen lýsir þessu svo í grein er hann ritaði í Sjómannablaðið Víking árið 1978:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1965.

„Eftir eldgosið í Heimaey í janúar 1973, leit helzt út fyrir, að Þorlákshöfn yrði að taka við hluta Vestmannaeyjaflotans, og opnuðust þá möguleikar á lántöku hjá Alþjóðabankanum til uppbyggingar hafnarinnar í Þorlákshöfn. Höfnin var þá reyndar þegar alltof þröng orðin fyrir heimaflotann, en skipin stækkuðu og þurftu meira pláss.
Gifta hafnar heilags Þorláks var mikil morguninn eftir gosnóttina, þegar um 5000 eyjaskeggjar komust hér á fastalandið slysalaust með fiskibátum sínum og annarra, þ.á m. bátum héðan, sem legið höfðu í Eyjum daginn áður vegna óveðurs. Frá kl. 8 árdegis fram yfir hádegi munu hartnær 1 þús. manns á klukkustund hafa stokkið uppá bryggjurnar hér. Það var mikið lán.
Verksamningur um gerð nýrrar hafnar var undirritaður við Ístak h.f. 9/10 ’74, og þegar hafist handa. Á verðlagi þess árs átti verkið að kosta um 710 millj. Er óhætt að segja, að þetta vandasama verk hafi í öllum meginatriðum gengið samkvæmt áætlun.
Þorlákshöfn
1975, síðla hausts, var lokið hættulegasta áfanga hafnargerðarinnar, Suðurvarargarðs. Alls fóru í gerð beggja hafnargarðanna um 2900 steinakkeri (dolosar) sem vega hver um níu lestir eða alls 26.000 tonn. Um 380 þús. rúmmetrar af grjóti, af ýmsum ákveðnum stærðum fóru í garðana. Þá varbyggt ferjulægi fyrir ferjuskipið Herjólf, sem vígði svo höfnina hausið 1976 með því að slíta borða, sem strengdur hafði verið fyrir hafnarkjaftinn. Ferja þeirra eyjamanna hefur því verið starfrækt um tvö ár, og allt gengið vel.” Síðan víkur Benedikt að vegamálum, nauðsyn á vegi með bundnu slitlagi til Reykjavíkur, en þeirri framkvæmd er nú lokið, þótt ýmsum hafi þótt miða heldur seint.
Nú því er við að bæta, að Þorlákshöfn hefur reynst vel. Þaðan eru gerðir út um 25 bátar og þrír togarar, en auk þess leggur fjöldi aðkomubáta þar upp afla, og á þessa vertíð munu um 50 skip landa afla í Þorlákshöfn.” -JG

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1982, Þorlákshöfn, bls. 31-41.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.