Hverahlíð

Samkvæmt nákvæmum upplýsingum átti flak C64 herflugvélar að vera 3 km suðvestan við Núpafjall. Sú vél var sögð hafa verið á leið frá Vestmannaeyjum er hún hvarf. Þrátt fyrir leitir og eftirgrennslan fundust engin ummerki flugvélaflaks á þeim slóðum. Fræðimenn könnuðust heldur ekki við slysið. Það mun nú samt hafa orðið þann 22. okt. 1944 um kl. 15:00 skv. amerískum skráningarbókum frá þessum tíma. Um var að ræða ameríska herflugvél. Með henni fórust fimm menn, fjórir farþegar og flugmaðurinn.

C64

Vestan við Núpafjall á einnig að vera flugvélaflak, við rætur Skálafells, sunnan Hverahlíðar (Tröllahlíðar). Í Mbl. 9. mars 1948 er sagt frá hvarfi Anson-flugvélar í eigu Loftleiða er var á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur þann 7. s.m. Tveimur dögum síðar fannst flakið með dularfullum hætti. Með henni fórust fjórir menn, þ.a. þrír frá Vestmannaeyjum.
FERLIR hefur ekki náð að staðsetja umrædd flugvélaflök þrátt fyrir leitir. Að þessu sinni var m.a. ætlunin að skoða betur Suðurferðargötur (Skógarmannveginn) og hlaðinn húsgrunn í Hverahlíð.
Gengið var til vesturs með Hverahlíð og inn í Lakakrók suðaustan við vesturhorn hlíðarinnar. Lakahnúkar eru skammt vestnorðvestar. Krókurinn eru grasi vaxið dallendi. Suðvestan hans taka við Lakadalir, lægri og með enn meira graslendi, alla leið að Stóra-Sandfelli. Sunnan þess eru Sanddalir neðan Eldborgar utan í Meitlum og Innbruninn neðar, hluti af Eldborgarhrauni.
Suðurferðagata Þarna um dalina liggur Lakastígur (Lákastígur), greiðfærasta leiðin milli Þrengsla og vestanverðrar Hellisheiðar. Reyndar er um Lágaskarðsleið að ræða því hún liggur Lágaskarð sem er þarna mitt á milli.
Gengið var upp á vesturbrún Norðurhálsa, en svo nefnist næsti stallur á undirhlíðum Skálafells ofan Hverahlíðar. Þegar upp er komið má sjá hversu víðlent svæðið er, mosaþýfi, smáhæðir og stallar er hallar að brúnum. Haldið var inn að Trölladal og áfram til austurs með norðurbrún Tröllahlíðar að norðurhlíð Skálafells.
Þar varð stefnubreyting, gengið að norðurbrún Norðurhálsa og þeim fylgt til vesturs. Tilkomumikið útsýni er af hálsunum til austurs yfir Núpafjall og að Ingólfsfjalli sem og til norðurs yfir að Ölkelduhálsi og Reykjafelli. Þórdrunuafleiðingar gufuaflsborana og kvöldsólarlitbrigðin gáfu svæðinu ævintýralegt ásýndaryfirbragð, en rafmagnsmöstrin eyðilögðu áleitanina.
Skálin norðan í fellinu sást vel í kvöldsólinni, auk þess drykkjarsteinar (-skálar) voru við hvert fótmál.
Litið var á hverja hæð og hvern hól, fylgst gaumgæfilega með brúnum og hlíðum, en hvergi vottaði fyrir braki úr flugvél. Þá var gengið með rótum Skálafells og upp á austuröxl þess, alveg upp að fjallstoppsrótum, en hvergi voru ummerki að sjá. Öxlin er mosagróin, en víða má sjá malarskellur. Austur af öxlinni er gilskorningur og suður af henni djúpur sanddalur.
Skálafell er 574 metrar á hæð. Þjóðsaga (skráð 1703) segir að “Upp á [Hverahlíð] er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur.” Árið 1840 segir annars staðar að “.. . sunnanvert á [Hellisheiði] er Skálafell – dregur það nafn af skála Ingólfs, sem mælt er þar hafi staðið, þó ekki sjáist menjar hans. so hér verði greint .. .”
Húsgrunnur Á Hengilssvæðinu er nokkuð um minjar eftir umsvif í sumarbithögum en fleiri minjar eru þó tengdar samgöngum því margar fjölfarnar þjóðleiðir liggja um svæðið. Fornleifastofnun Íslands gerði fornleifakönnun á rannsóknarsvæðinu við Hverahlíð 2005. Samkvæmt niðurstöðum hennar liggur forn leið, Suðurferðagötur, undir Hverahlíðinni og eru þær sumstaðar nokkuð greinilegar. Þá kom í ljós að áður tilgreind staðsetning á Ölkelduhálsréttinni var röng og hleðslur undan húsi fundust í Hverahlíðinni.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að: “heimild er um gamla götu til norðurs inn á Hellisheiði austan Hverahlíðar.” Skógarmannavegur mun vera frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig hefur hún verð nefnd Suðurferðagata sbr. framangreint. “Leiðin hefur svo legið áfram um Smjörþýfi og síðan sameinast leiðinni “Milli hrauns og hlíðar” í Fremstadal undir Svínahlíð.
Í greinargerð Fornlefastofnunar Íslands um fornleifar á áhrifasvæði Hellisheiðarvirkjunar Stóra-Skarðsmýrarfjall, Ölkelduháls og Hverahlíð kemur eftirfarandi fram: “Fyrirhuguð er stækkun á orkuvinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar og bora vinnsluholur á Stóra-Skarðsmýrarfjalli sem er norðan við núverandi virkjunarsvæði. Einnig eru fyrirhugaðar rannsóknarborholur við Ölkelduháls og undir Hverahlíð, ásamt því að vegir verða lagðir að borholum… Vettvangskönnun var gerð dagana 23., 24., og 30. apríl af Oddgeiri Hanssyni, en Adolf Friðriksson, fornleifafræðingur, hafði yfirumsjón með verkinu. Fornleifastofnun gerði árið 1997 svæðisskráningu fyrir afréttaland Ölfushrepps, og aðalskráningu árið eftir. Við aðalskráningu á afréttarlandinu voru skráðir 64 minjastaðir. Flestir minjastaðanna eru á eða við bæjarstæði Kolviðarhóls, en aðrir eru dreifðir um afréttina.
Hverahlíð Árið 2001 vann Fornleifastofnun stutta greinargerð vegna tilraunaborana á svæðinu, og árið 2003 voru gerðar tvær fornleifakannanir, annars vegar í júlí vegna framkvæmda við Hellisheiðarvirkjun, og hins vegar í október vegna lagningar hitaveituæðar frá Kolviðarhóli til Reykjavíkur. Við undirbúning voru fyrirliggjandi heimildir og skráning athuguð. Farið var á vettvang og ofangreind svæði skoðuð. Gengið var skipulega um svæðin og leitað sýnilegra ummerkja um fornleifar.”
Við fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu kom eftirfarandi fram: Eftir rækilega athugun á heimildum og á vettvangi hefur komið í ljós að engar minjar er að finna á Stóra-Skarðsmýrarfjalli. Þar er að mestu uppblásinn melur, ísaldargrús að sunnan, en stórgrýttara að norðanverðu. Fjallið er að mestu gróðursnautt, einungis þunnir mosaflákar á stöku stað, einkum er horft til norðurs yfir fyrirhugað borsvæði á Stóra-Skarðsmýrarfjalli.
“Kunnugt var um einn minjastað á Ölkelduhálsi, svokallaða Ölkelduhálsrétt. Hún mun ekki vera í sérstakri hættu vegna fyrirhugaðra borframkvæmda. Það skal þó tekið fram að réttin virðist ranglega merkt inn á kort, sem haft var til hliðsjónar á vettvangi. Á kortinu er hún merkt inn norðan við veginn sem liggur yfir Ölkelduháls, en er í raun á miðju hverasvæðinu sunnan við hann. Hvað sem því líður þá er ekki aðrar fornminjar að finna á þessu svæði. Engar fornleifar var heldur að finna á vestara borsvæðinu við Kýrgil.
Við Hverahlíð eru þrjár fornleifar. Hyggja þarf sérstaklega að tveimur þeirra vegna borframkvæmdanna. Fyrst skal nefna gamla Hellisheiðarveginn, sem er skammt suður af núverandi þjóðvegi. Hann er að stofni til frá 1894-57 og upphlaðinn á köflum. Þótt vegurinn sé vissulega í þó nokkurri fjarlægð frá hinu fyrirhugaða borsvæði undir Hverahlíð, er mögulegt að hann geti lent í uppnámi ef vegur verður lagður að borholunni eða vegna annars rasks og framkvæmda sem kunna að fylgja borholuframkvæmdum…
Drykkjarsteinn Næst skal nefna gamla troðninga, sem liggja frá austri til vesturs skammt frá rótum Hverahlíðar. Er líklega um að ræða svonefnda Suðurferðagötu sem einnig nefndist Skógargata og var aðalreiðleiðin til Reykjavíkur: Suðurferðagata lá upp með Vindleysu að austan , upp Grjótin fyrir vestan Lambakró, upp Sandhrygg milli Háleita, yfir Smalaskarðsbrekkur innst, rétt fyrir innan Selás, að Hlíðarhorni, spölkorn inn með Hverahlíð og austur á þjóðveginn á Hellisheiði.
Suðurferðagata hét hún af því hún var farin suður til Reykjavíkur, en Skógargata af því að hún var farin áleiðis upp í Grafning til að sækja skóg. Þegar vagnfær leið var rudd af þjóveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn, upp úr 1910, lagðist niður umferð um Suðurferðagötu.
Suðurferðagata liggur á svipuðum slóðum og fyrirhugað borholustæði undir Hverahlíð og gæti því mögulega verið í hættu vegna framkvæmda þar.
Að síðustu skal nefna húsarústir, sem eru á dálitlum hjalla undir Hverahlíð, fast austan við hverasvæðið sem þar er, og hlíðin er kennd við. Annars vegar er um að ræða greinilegan sökkul undan húsi, hlaðinn úr grágrýti og skiptist hann í fimm hólf eða herbergi. Einnig má greina hlaðnar “útidyratröppur” við norðvesturhorn rústarinnar. Hins vegar er um að ræða greinilega gólfplötu undan húsi sem einnig er gerð úr grágrýti og er hún um 1,5 m vestan við fyrrnefndu bygginguna. Virðist sem þessi bygging hafi verið byggð yfir hver, því greinilega rýkur upp úr miðri plötunni. Að svo stöddu er ekki vitað um hlutverk þessara mannvirkja en líklega eru þau ung.” Teikning af rústunum undir Hverahlíð fylgir greinargerðinni. Um var að ræða skíðaskála, sem brann. Annar slíkur var inn við Lágaskarð. Hann hlaut sömu örlög.
Suðurferðavegur Í stuttu máli er niðurstaða fornleifakönnunarinnar sú að hinar fyrirhuguðu rannsókarholur eru á afréttarlandi þar sem afar lítið er um forn mannvirki. Engar áður óþekktar minjar komu í ljós við vettvangskönnun utan húsarústanna undir Hverahlíð.
Samkvæmt lýsingum Björns Indriðasonar á flakið af Ansonvélinni að vera neðst í suðaustanverðu Skálafelli. Þar hefði verið brak fyrir allnokkrum árum.
Sá maður, sem tók þátt í leitinni að flugvélinni á sínum tíma var Smári Karlsson, flugstjóri. Hann sá hvar hún hafði brotlent í Skálafelli. Að sögn Smára kom vélin niður í öxlina er hallar út úr fellinu til austurs – að Hveragerði. Upp af öxlinni tekur toppur Skálafells við og undir henni er rót fellsins. Brakið hafði dreifst víða um hlíðina. Sjálfur hefði hann ekki komið á slysstaðinn, en hann taldi ólíklegt að nokkuð brak úr vélinni væri enn sýnilegt á vettvangi. Loftleiðamenn hefðu eflaust tekið mest af því til rannsókna, auk þess sem mjög veðrasamt er þarna á öxlinni.
Leitin að framangreindum flugvélaflökum mun halda áfram. Spurnir hafa borist af braki úr flugvél í Lakadal við Stóra-Sandfell (sjá HÉR).

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_afrettur.htm
-http://www.or.is/media/files/SK-HVE-1004%20f%20vef.pdf
-http://www.or.is/media/files/7.%20Fornleifar.pdf
-Fornleifakönnun FÍ – Orri Vésteinsson 1998 og 2001; Adolf Friðriksson og Uggi Ævarsson.
-Smári Karlsson.
-Björn Indriðason.

C64