Færslur

Herdísarvíkurhraunshellir
Stefnan var tekin suður og niður Herdísarvíkurhraun frá Sængurkonuhelli. Með í för var rúmlega 8 metra langur stigi sem og Björn Hróarsson, hellafræðingur, sá Íslendingur, sem ásamt félögum sínum, hafa hvað oftast fyrstir manna, skoðað hina ýmsustu staði undir yfirborði skagans.
HerdísarvíkurhraunshellirÆtlunin var að komast niður í Herdísarvíkurhraunshelli, sem SG kom auga á fyrir skömmu. Um er að ræða tiltölulega lítið op á sléttri hraunhellu skammt ofan við ströndina, en niðri virtist ókannað gímald. Hvað þar kynni að vera vissi enginn því ekki er vitað um nokkurn mann, hvorki lifandi né dauðann, sem þangað hefur komið. Þó er ljóst, að ef sá hinn sami hefur komist niður, hefur hann örugglega ekki komist lifandi sömu leið til baka. Og þótt landssvæðið sé ekki langt frá þéttbýlinu á Suð-Vesturlandi er þarna um algerlega ókannaðan stað að ræða á jarðkringlunni. Hér var því um frumkvöðlaför að ræða og líklega yrðu þeir, sem “innvolsið” litu augum, þeir fyrstu sem það gerðu. Það eru ekki margir ókannaðir staðir á Íslandi, en þó er vitað um nokkra, sem þarf að berja augum, suma reyndar með svolítilli fyrirhöfn.
Hellirinn er, sem fyrr segir, skammt ofan við Herdísarvíkurbjargið, svo aldrei var að vita hversu langt sjórinn gæti hafai náð að honum.
Opið er í rauninni vandfundið. Vörðubrot er þó norðan við það, líklega til að vara við hættunni, sem það gæti haft í för með sér. Í snjó eða lágrenningi gæti sá, sem væri þarna á ferð, auðveldlega horfið niður um gatið, án þess að nokkur yrði þess var – og allra síst hann sjálfur.
Þegar farið er niður í “gímald” sem þetta er mikilvægt að gera sér grein fyrir tilgangum, huga vel að öllum aðstæðum sem og öllum búnaði. Gera þarf ráð fyrir því að komast upp aftur að könnun lokinni. Lántakanda stigans var best treystandi til þessa því á honum hvíldi sú kvöð að koma honum samviskusamlega til skila.
HerdísarvíkurhraunshellirStiginn var útbúinn til niðurhals. Að því búnu fetuðu leiðangursmenn sig niður á við, þrep af þrepi. Snjóskafl var í botninum. Ýmsar tegundir mosa þöktu berg og steina. Í rauninni gæti þetta vel verið ævintýraheimur gróðurfræðinga því þarna voru ýmsar skuggsælar plöntur. Fallegur burkni óx t.d. undir opinu. Hreiður voru á syllum. Undir bergveggjunum féllu dropar í grunnar tjarnir. En hvorki var að sjá ummerki túpu eða hraunrása. Svo virtist sem þarna væri um að ræða tæmda kvikuþró undir storknaðri hraunhellu. Grjótið, sem fallið hafi niður úr þakinu gæti hafa lokað fæðurásinni, en ekki var að sjá glerjung eða merki um mikinn hita á veggjum.
Þótt Herdísarvíkurhraunshellir hafi ekki opnast inn í hraunrásir er hvelfingin merkileg út af fyrir sig. Og hún er ekki síst merkilegt fyrir það að hafa nú verið könnuð, 1132 árum eftir að fyrstu norrænu mennirnir fetuðu sig þarna með ströndinni í leit að öndvegissúlum þess fyrsta landnámsmanns, sem skv. seinni tíma ritum, er sagður hafa tekið sér fasta bólfestu ekki alllangt frá. Líklegt má þó telja að þá hafi ströndin verið mun utar en nú er og “gatið” því ekki verið í alfaraleið, hvorki þá né síðar. Og ólíklegt er að nokkur maður fari þarna niður næstu árin eða áratugina – jafnvel næstu 1132 árin.
“Landkönnun” voru fyrrum álitið bæði þarft og mikilvægt framlag til “sameignamyndunar” þjóðar. Flest fólk vildi vita sem mest og best um umhverfi sitt. En það var fyrrum… Í dag eru gildin önnur.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Herdísarvíkurhraunshellir

Haldið var niður Herdísarvíkurhraunið sunnan við Sængurkonuhelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a. um Sængurkonuhelli: “Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krísuvíkurhrauns eða Krísuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.” Sú gamla gata er enn djúpt mörk í helluhraunið.
Í annarri örnefnalýsingur segir að : “Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.”
Í fyrstu virtist “skútinn” sá ‘arna varla merkilegur; en ryðbrunnið vaskafat innan við annars sléttgólfaðan munnann gaf þó ákveðna vísbendingu. Þegar áræðnir hellamenn frá HERFÍ könnuðu gripinn reyndist þar fyrir innan um a.m.k. 150 metra langur hellir með hinum ýmsu litbrigðum og hraunmyndunum, s.s. hraunstráum og dropsteinum.
Við fyrirhugaða könnun á Herdísarvíkurhraunshelli var átta metra langur stigi hafður með í farteskinu – minnug þess að í síðustu ferð þangað (Herdísarvíkurhellir I) niður eftir dugðu fjórir metrarnir skammt niður í hyldýpið.
Ekki er var óraunhæft að álykta að þarna væri um að ræða sömu rás og Sængurkonuhellir hafði fóður úr. Klifið er við Sýslustein og Klifhraun austan við. Sængurkonuhellir er skammt austan undir hraunbrúninni svo allt virtist þetta koma heim og saman.
Nú var sem sagt ætlunin að klifra niður í djúpt jarðfallið skammt ofan við ströndina austan Herdísarvíkur. Í þeim tilgangi átti stiginn að koma að góðum notum.
En enn einu sinni reyndist stiginn hins vegar of stuttur (sjá lokatilraunina – Herdísarvíkurhellir III).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Herdísarvíkurhraunshellir

Eftirfarandi boð komu frá einum FERLIRsþátttakanda eftir ferð hans um Herdísarvíkursvæðið:

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

“Fann skemmtilegt gat neðarlega í Herdísarvíkurhrauni, þar 3-4 m í botn og nokkuð gímald. Býst svo sem ekki við því að þarna séu neinar fallegar myndanir, landið er svo slétt. Fáið samt hnitið ef einhver er í stuði með stiga.” Með upplýsingunum fygldu viðeigandi hnit af staðnum.
Lagt var stað með fjögurra metra langan stiga niður Herdísarvíkurhraun frá Sængurkonuhelli neðan við Lyngskjöld (á Klifhæð) með stefnu á gatið. Á leiðinni var gengið yfir gömlu þjóðleiðina milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur þar sem hún liðast fallega um lyng- og kjarrivaxið mosahraunið. Hraunið neðan við Klifhæðina er nokkuð slétt og auðvelt yfirferðar. Rjúpur sáust kúra undir klettum.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Þegar komið var að u.þ.b tveggja fermetra gatinu skammt ofan við Háaberg, vestan við Rauðhól, eftir 20 mín. gang með hjálp staðsetningartækis, reyndist stiginn aumlega stuttur. Hann var því lagður til hliðar, en þess í stað rýnt niður í gímaldið. Það virtist a.m.k. 8 metra djúpt. Hægt væri að komast af með 6 metra stiga með því að forfæra hann, en fullnægjandi langur væri ákjósanlegastur. Undirliggjandi undirbúi virtist gefa ofanlítendum góðan gaum.
Við yfirlitsskoðun á niðurfallinu í “Herdísarvíkurhraunshelli” kom í ljós að þarna niðri kunna að leynast lágar rásir, norður og suður. Í undirniðrinu vestanverðu virtist myrkur undir stórum steinum. Burkni vex á syllum og fagurgrænn mosagróður vex í slikju niðri í dagsskímunni.

Herísarvíkurhraunshellir.

Herdísarvíkurhraunshellir.

Við skoðun á næsta umhverfi fannst rás, með því að forfæra steina inn undir brún skammt norðaustar, í ílöngu stóru jarðfalli. Þar er hægt að komast inn á slétt gólf á lágri rás. Einnig liggur rás til norðurs um gat skammt norðar. Þetta þarf allt að skoða betur.
Þegar gengið var upp slétt mosavaxið helluhraunið, áleiðis að vörðuðu greni, sást mórauð tófa skjótast á harðahlaupum austur yfir hraunið skammt ofar. Einhver grenjaskyttan hefði fengið “kikk” út úr því að sjá krýlið þarna á hlaupum, en FERLIRsþátttakendum fannst það bara samsvara landslaginu nokkuð vel. Greinilegur selstígur liggur á ská til suðvesturs niður slétt helluhraunið frá þjóðleiðinni að Herdísarvíkurseli. Gatan er merkt (stein á stein (S.G)). Margt var að skoða í lygnunni – hvort sem var um að ræða flóru, jarðfræði eða fánu.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Vestar er úfið apalhraun Eldborgarhraunanna. Innundir því, í eldra hrauninu, er m.a. Bálkahellir sem og hellar í sömu hraunrás ofan og vestan við hann. Ofan við þjóðveginn, svo til beint norðan við Herdísarvíkurhaunshelli er Sængukonuhellir. Hans er getið í heimildum og í honum fundust mannvistarleifar þegar fyrst var að komið í seinni tíð. Allt er það þó enn ósnert. Hellirinn fannst að kvöldlagi og enginn svaraði í síma Fornleifaverndar þegar reynt var að tilkynna fundinn, enda ekki símasamband austan við Sveifluháls. Ef FERLIR ætti að tilkynna alla þá fornleifafundi, sem hann hefur uppgötvað í gegnum tíðina, væri símareikningurinn orðinn ansi hár. Gildandi lög þarfnast því endurskoðunar, eða a.m.k. gildandi starfsfyrirkomulag.
En þetta var nú útidúr til að fylla upp í rými fyrir seinni myndina, sem fylgir þessum skrifum.
Farið verður fljótlega aftur á vettvang – og þá með nógu langan stiga.
Frábært veður – logn og hiti. Gangan tók 1 klst og 40 mín.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.