Færslur

Herdísarvík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948 er lýsing Herdísarvíkur eftir Ólaf Þorvaldsson. Hér lýsir hann svæðinu frá Olnboga að Seljabót, auk Gamlavegi:
herdisarvik-997“Olnboginn sprengir allar öldur, sem að honum sækja, og leysir þær upp í brimúða, sem stígur hátt til lofts eins og ægilegur goshver, og er oft tilkomumikið á að horfa. Þegar hvasst er af suðvestri og vestri og sjór stór, er talið, að Olnboginn “verji víkina”, — hann er brimbrjótur Herdísarvíkur, hann þarf ekkert viðhald, og ólíklegt, að úr sér gangi fyrst um sinn. Norðvestur af Olnboganum, nokkuð uppi á hrauninu, sem má teljast slétt þar um slóðir, eru tveir langir, en lágir hólar, Langhólar. Á Olnboganum sveigist ströndin til vesturs, og er samfellt berg á alllöngum kafla, Háaberg. Skammt frá brún þess, austar en á miðju, er stakur hóll, Hvíthóll. Þegar Háabergi sleppir, sem mun láta nærri að sé um 20 mín. gang vestan Hvítháls, lækkar bergið, og landið breytist, er sléttara og samfelldari gróður, og er þá komið á Seljabót. Vestan hennar gengur hár brunahryggur í sjó fram, Seljabótarnef. Þar eru landamerki milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, þaðan beina línu í Sýslustein, sem síðar mun nefndur.

Gamlivegur-21

Nyrzt á Seljabót uppi við háa brunabrún, eru nokkrar gamlar húsarústir, og eru það leifar húsa frá þeim tíma, að haft var þarna í seli frá Herdísarvík. Á sléttum hellum á Seljabót sjást enn fornar refagildrur úr hraunhellum. Af Seljabót held ég svo austur hraun og fer Gamlaveg, sem liggur frá eystra horni Geitahlíðar, “niður á milli hrauna”, niður á Seljabót austast; er þá Seljabótarbruni á hægri hönd, en Kolhraun á vinstri. Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið. Þá er austarlega kemur á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af sér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann hafa hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, Herdísarvík í Árnessýslu eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 133-134.

Herdisarvik-998

Herdísarvíkurfjall.

Höfði

Illugi Jökulsson tók eftirfarandi saman um Einar Benediktsson. Frásögnin birtist í Vísi árið 1980:
“Einar Benediktsson hefur alla tíð verið umdeildur, jafnt sem skáld og sem manneskja. Nú, 40 árum eftir dauða sinn, er honum enn í lófa lagið að vekja upp heitar deilur og óvægnar, rétt eins og meðan hann var í fullu fjöri. Aldrei verður honum borið á brýn að hafa verið meðalmenni, hversu sem mönnum þykir annars til um hann.
Einar-25Einar Benediktsson fæddist á Elliðavatni 31. október 1864, af merku foreldri. Faðir hans var Benedikt Sveinsson, dómari í Landsyfirréttinum og skörungur í stjórnmálum, og móðir hans Katrín Einarsdóttir. Þau skildu er Einar var barn að aldri og bjó Einar lengst af hjá föður sínum. Hann varð síðan stúdent frá lærða skóla Reykjavíkur 1884 og sigldi til Kaupmannahafnar til náms í lögfræði. Námsferill hans varð slitróttur vegna veikinda og lauk hann ekki námi fyrr en árið 1892.
Vegna ýmissa áhugamála hans utan lögfræðinnar og svo talsverðrar hneigðar til að njóta lystisemda Hafnarlífsins náði hann aðeins 2. einkunn og kom honum það í koll síðar er hann fór að leita embættis. Telur Sigurður Nordal það hafa haft sín áhrif á örlög hans. Síðan segir Sigurður: „Eins og að líkum lætur, kom Einar til Reykjavíkur haustið 1894 með tvær hendur tómar. Faðir hans hafði gert vel að kosta hann til náms og var ekki aflögufær fram yfir það, enda Einar kominn á þann aldur, að honum var ætlandi að sjá sér farboða. En höfuðstaðurinn var líka fátækur og allt annað en vænlegur vettvangur embættislausum lögfræðingi. Var fram að þessu eins dæmi að nokkur lögfræðingur reyndi að draga fram lífið í Reykjavík án málaflutningsréttinda við yfirréttinn, eða nokkurrar fastar stöðu, eins og Einar færðist í fang. Hann sótti um ýmis sýslumannsembætti árangurslaust en fékk loks málflutningsréttindin 1898, eftir fjögurra ára dvöl í Reykjavík.
Vitað er, að Einar fór, undir eins og hann var kominn til Reykjavíkur, að fást við þau lögfræðistörf, sem honum var heimilt að stunda og munu hafa verið fábreytt og lítt févænleg, en auk þess kaup og sölu fasteigna. Annars fara meiri sögur af öðrum störfum hans en brauðstritinu. Samt er haft eftir honum, að árstekjur hans á Reykjavíkurárunum hafi komist upp í 25 þúsund krónur. Þetta var þá mikið fé, eins og ráða má af því, að 1902 seldi Einar stórhýsið í Glasgow fyrir einmitt þessa upphæð og árslaun ráðherra íslands, frá 1904, voru alls 12000 kr. En jafnvel þótt þessi sögusögn um tekjur Einars kunni að vera eitthvað orðum aukin, er áreiðanlegt, að síðari ár sín í Reykjavík hafði hann allgóð fjárráð og fór ekki dult með. Þegar hann kvæntist, 1899, stofnaði hann ríkmannlegt heimili eftir því sem þá gerðist hér á landi. Hann fór í kostnaðarsöm ferðalög, bæði utan lands og innan, ýmist einn eða með konu sína, og barst yfirleitt allmikið á. Það var því alls ekki til þess að bæta afkomu sína, sem hann sótti um Rangárvallasýslu 1904 og fékk veitingu fyrir henni. Enda lét hann þá svo um mælt, að embættislaunin væru sér ekki meira en hæfilegir vasapeningar”.
Einar-26Nú er nauðsynlegt að fara býsna fljótt yfir sögu. Einar var umsvifamikill í Rangárvallasýslu en lét af sýslumannsembættinu þegar árið 1907, vegna þess að hann meiddist fæti og þoldi því ekki þau miklu ferðalög á hestum sem embættinu voru nauðsynleg. Hann fluttist því aftur til Reykjavíkur sem á þessum árum var ört vaxandi bær og var það mjög að skapi Einars sem hugði á stórar framkvæmdir. Sigurður Nordal segir: „Ekki er að efa, að hann hafi ætlað sér að bera þar ríflegri hlut frá borði en tiltök voru hér heima. En hitt er jafnvíst, að nú hugsaði hann um annað og meira: að færa Íslendingum heim í garð það stórfé, sem eitt gat dugað þjóðinni til viðreisnar. Aðstaða til að hrinda þessu áleiðis var allt of óhæg með búsetu á Íslandi. Einar fluttist þegar haustið 1907 til Edinborgar og átti síðan fjórtán ár lengstum heimili erlendis”.
Nú er þess að geta að Einar gat lítils stuðnings vænst af valdsmönnum á Íslandi. Hann hafði litla stjórnarhylli og hafði snemma vakiö tortryggni og fjandskap þegar fyrsti orðrómur gekk um fossakaup hans. Flýtti Alþingi sér þá að gera ráðstafanir til að takmarka leigu og sölu fallvatna. Þó hann hefði einatt mikið fé umleikis var fjárhagur hans ekki traustari en svo að áföll fyrirtækja hans snertu hann illa. Nordal segir: „Hann átti sér í rauninni ekki annan bakhjall en trúna á stórfellda framtíðarmöguleika Íslands, gáfur sinar og persónutöfra”.
Einar Benediktsson mæddist í mörgu. Hann hugði á stórframkvæmdir en lítið eða ekkert tókst honum. Hann stóð í blaðamennsku um tíma og kostaði ýmis blöð, hann drap niður fæti í pólitík og tók upp merki föður síns í baráttunni gegn Valtýskunni, og telja má hann einn aðalstofnanda Landvarnarflokksins. Hann barðist ötulega fyrir sjálfstæði en mun þó hvorki hafa verið skilnaðar- né lýðveldissinni og þótti nokkuð til um sinn kóng. Þá vildi hann beita sér fyrir því að Íslendingar tækju upp loftskeytatækni Marconis og fékk stuðning til þess erlendis frá. Að vísu varð Stóra norræna ritsímafélagið ofan á en Sigurður Nordal telur að öll þessi umsvif og trúnaður sá og rausn, sem hið auðuga Marconifélag sýndi honum, hafi átt sinn þátt í því að koma róti á hann, sannfæra hann um, hverju hann gæti orkað einn síns liðs, og ýta svo undir hann að leggja á tæpari vöð.
Valgerdur-25Efalítið er Einar Benediktsson einna kunnastur nú fyrir fossamálið en linnulaust frá 1906 til 1925 reyndi hann að vekja athygli Íslendinga á þeim möguleikum sem í vatnsorkunni fælust og sýndi þar stórhug svo undrum sætir. Hann vildi hefja orkuframleiðslu úr fallvötnunum og var árið 1914 stofnað hlutafélagið Titan til virkjunar Þjórsár. Það var gert í samvinnu við Norðmenn og var fyrirtæki þetta þvílíkrar stærðar að erfitt er að henda reiður á, jafnvel nú. Ýmissa orsaka vegna fóru öll þessi tröllauknu áform út um þúfur, m.a. vegna kreppu sem skall á í Noregi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Voru það ekki fyrstu vonbrigði Einars, né hin síðustu. Loks stóð svo Einar um margra ára skeið í allslags fyrirtækjamakki við Breta, hann leitaði að gulli hér á landi og vildi leggja Grænland undir íslensk yfirráð. Alls staðar var sama sagan: Vonbrigði. Enda má leiða að því rök að hreint og klárt fjármálavit Einars hafi ekki verib nándar nærri ámóta og hugsjónir hans. Eins og gefur að skilja fjallar bók Sigurðar Nordals að miklu leyti um kvæði Einars, enda þau líklega óbrotgjarnasti minnisvarðinn um hann. Um þau eru ekki tök á að margræða hér. En gefum nú Sigurði Nordal seint og um síðir orðið:
„Einar Benediktsson kvæntist árið 1899, þá tæplega hálffertugur, en Valgerður kona hans réttra átján ára. Einar og Valgerður eignuðust sex börn og lifðu fimm þeirra föður sinn.
Frú Valgerður var glæsileg kona og sómdi sér vel við hlið manns síns. Þótt Einar væri umhyggjusamur heimilisfaðir, var staða hennar oft allerfið vegna tíðra búferlaflutninga og mikilla fjarvista húsbóndans. Annars ferðuðust þau hjónin líka talsvert saman, og á utanvistarárunum komu þau stundum með alla fjölskylduna heim til Íslands.
Um áramótin 1921-22, þegar telja má að Einar væri alkominn heim, settist hann að í Þrúðvangi við Laufásveg en það hús átti tengdamóðir hans. Þar stóð heimilið nokkur ár með miklum brag rausnar og híbýlaprýði. En smám saman tóku hagir Einars að þrengjast, og þegar tengdamóðir hans þurfti sjálf á húsi sínu að halda haustið 1927, urðu þau Valgerður í bili að flytjast í lítið leiguhúsnæði. Þau fóru bæði til Noregs undir árslokin, og varð Valgerður þar eftir, þegar Einar hvarf heim til Íslands. Voru þau þá skilin að samvistum, þótt lögskilnaður þeirra væri ekki gerður fyrr en síðar.
Katrin-25Frá 1928 til- 1930 var Einar áfram í Reykjavík og bjó við heldur órífleg kjör. En nú var komin til sögu sú kona, sem átti eftir að verða stoð hans og stytta til æviloka, frú Hlín Johnson. Hún hafði um fermingaraldur heyrt og séð Einar Benediktsson fyrir norðan, hann jafnan síðan verið henni hugfólgnari en aðrir menn og skáldskapur hans að sama skapi. En þau hittust ekki að máli fyrr en því nær 40 árum síðar. Þá hafði Hlín átt mikil örlög, verið gift og eignast átta börn, misst mann sinn, dvalist nokkur ár í Kanada, tekið sér ferð á hendur til Argentínu og unnið fyrir sér og börnum sínum af óbilandi kjarki og dugnaði. En upp úr 1930 voru þau uppkomin, og frá þeim tíma helgaði hún Einari líf sitt og starf.
Í árslok 1930 fóru þau Einar og Hlín utan, alla leið suður til Túnis, og komu úr því ferðalagi vorið 1932. Þá réb Einar því, að þau settust að á hinu forna stórbýli, Herdísarvik, sem ásamt Krýsuvík, var eignarjörð hans. Þar komu þau sér upp litlu og vistlegu húsi og höfðu nokkurn búskap. Þó að Einari væri á seinustu Reykjavíkurárum sínum stundum svo fátt skotsilfurs, að hann seldi smám saman þær bækur sínar, sem honum var ekki fast í hendi með, átti hann lengi nokkrar fasteignir, og kom það honum í góðar þarfir síðar. Árið 1935 gaf Einar Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, bækur sínar og húsgögn til minningar um föður sinn.
Herdísarvík var á þessum tíma mjög afskekkt, langt til næstu bæja og vegir þangað ógreiðfærir.
Fyrstu ár sín í Herdísarvík kom Einar stöku sinnum til Reykjavíkur, og um sjötugsafmæli sitt fór hann síðustu utanför sína, til Hafnar, og var þá enn hinn ernasti. En eftir þetta fór kröftum hans smáhnignandi, án þess að hann þjáðist né legðist rúmfastur. Mátti heita, að dauðinn, sem honum hafði staðið svo mikill beygur af á fyrri árum, sýndi skáldinu það tillæti að nálgast hægt og hljóðlega. Hann andaðist 12. janúar 1940, liðlega hálfáttræður.”

Heimild:
-Vísir 12. apríl 1980, bls. 4-5.

Herdísarvík

Herdísarvík – yngri bærinn.

Í örnefnalýsingu GS fyrir Herdísarvík segir m.a. af gömlu alfaraleiðinni til vesturs; “Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn:  Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif.
KlifshaedarhellirNú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.”
Áður hafði Klifshæðin verið skoðuð og þá fannst hellir í grónu jarðfalli. Við opið var emileraður koppgjörningur. Nánari skoðun á þessum helli gaf til kynna áhugaverða yfirborðshraunrás með þrengingum og ýmsum sætindum, litadýrð og dropsteinum.
Við nánari leit í Klifhæðinni austanverði kom í ljós tilgreindur hellisskúti er reyndist vera um 30 m Hruthraunrás. Opið er tiltölulega lítið (um 1.00×0.60 cm), nokkra metra austan við götuna og er það greinilega merkt með litlum skófvöxnum vörðum. Skjólið er manngegnt undir opinu, en lækkar er
inn dregur. Þetta skjól virðist hafa verið þekkt fyrrum þótt það sé alls ekki augljóst í dag, þrátt fyrir vörðunefnurnar.
Með í för var Guðni Gunnarsson, núverandi formaður Hellarannsóknarfélags Íslands.

Heimildir m.a.:
Gísli Sigurðsson -Örnefnalýsing fyrir Herdísarvík.

Herdísarvíkurvegir

Herdísarvíkurvegir. ÓSÁ

 

Herdísarvík

“Herdísarvík er býli í Selvogi, vestast Selvogsjarða og allra jarða í Árnessýslu. Er nú í eyði. Jörðin var lengi eign Krýsuvíkurkirkju.

Herdísarvík

Herdísarvíkurtjörn.

Herdísarvíkurbær stóð vestarlega í Herdísarvíkurtúni, Vesturtúni svonefndu, undir svonefndum Skyggni, sem var klöpp, aflöng, og sneri suðaustur-norðvestur. Neðst bæjarhúsanna voru stofan og bæjardyrnar undir einu og sama þaki. Bak við stofuna var búrið, en fram af bæjardyrunum var eldhúsið. Þar framan við á vinstri hönd voru göngin og þrjú þrep upp að ganga í baðstofuna, sem var fimm stafgólfa, en hlutuð í þrennt. Miðhlutinn, sem var eitt stafgólf, frambaðstofan, er var á hægri hönd, er inn var komið, og aðalbaðstofan á vinstri hönd. Baðstofurnar voru hver fyrir sig tveggja stafgólfa, langar og rúmgóðar. Bak við eða norðan við eldhúsið var fjósið fyrir tvær kýr og kálf.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Á lágum hól nær vatninu voru þessi hús: Smiðja, hjallur og austur af þeim var pakkhús.
Þegar komið er yfir Rásina, blasa við rústir gamla Herdísarvíkurbæjarins, en hann lagðist af í miklum flóðum 25. febrúar 1925. Fram undan bænum var vik, er nefnist Heimavör. Hér mun hafa verið um að ræða aukanafn á Rásinni. Þá er í Vesturtúninu eykta-markið Nónklöpp. Fram undan bænum var hóll, er gekk undir ýmsum nöfnum, svo sem Smiðjuhóll, þar var smiðjan; Hjallhóll, þar stóð hjallur, og geymsla var þar ýmiss konar matfanga; Öskuhóll var hóll þessi einnig kallaður, því þangað var askan borin frá bænum og kastað í tjörnina.

Herdísarvík

Herdísarvík – þurrkgarðar.

Eins og áður segir, gerði mikið flóð í Selvogi og Herdísarvík 25. febrúar 1925. Flæddi þá inn í bæinn og gerði flóðið mikinn usla. Bæinn tók þá af, hjallinn og smiðjuna. Fór þá margt til spillis, bæði matvara, áhöld ýmiss konar og mikill hluti innbús þeirra hjóna, Þórarins Árnasonar og konu hans, Ólafar. Frú Ólöf hafði af sjálfsdáðum lært esperanto, og skiptist hún á bréfum og póstkortum við ýmsa esperantista víða um heim. Átti hún dragkistu, þar sem hún geymdi allt þetta. Fór það allt til spillis í flóði þessu. Mátti um árabil finna bréf og bréfspjöld á esperanto upp um allt hraun, í holum og hellisskútum. Fór þar mörg vinarkveðjan forgörðum.

Herdísarvík

Herdísarvík – Stoðhola í elstu bæjartóftinni.

Upp frá Kattatjörn stóðu útihúsin. Efst var hesthúsið, sem eftir flóðið var breytt í fjós fyrir þessar tvær kýr, sem hægt var að fóðra af túninu. Þá kom Stóra-Lambhúsið og Litla-Lambhúsið, sem einnig var notað sem heyhlaða. Þá kom hrútakofi, sem síðar var breytt í sjóbúð, Krýsuvíkursjóbúð eða Guðmundarbúð, kennd við Guðmund Jónsson bónda í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhverfi. Guðmundur var lengi formaður á skipi, er reri frá Herdísarvík á vetrarvertíðum.
Í þessa sjóbúð fluttust þau Þórarinn og Ólöf eftir flóðið mikla 1925. Byggðu þá upp baðstofu, tveggja rúma langa með eldhúsi vestur af. Litla-Lambhúsið varð þá að bæjardyrum og göngum.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Frá bænum, milli Skyggnis og Hjallhóls, lá heimreiðin, gata ofan frá aðaltúngarðshliðinu. Til hægri við heimreiðina var svo aðalvatnsbólið, nefndist Kattatjörn. Þar þraut oft vatn í miklum þurrkasumrum. Upp af vatnsbólinu var svo Urðin, lábarin stórgrýtisurð, til vitnis um, að þangað hefur sjór fallið einhvern tíma á löngu liðnum öldum. Urð þessi liggur síðan vestur og út, vestur fyrir túngarð og þar langt vestur á hraun.

Heimagarðurinn var matjurtagarður ofanvert og lítið eitt framan bæjarins. Stígurinn lá norður milli bæjarhúsanna og smiðjunnar að útihúsunum, sem stóðu spölkorn norðan bæjarins. Þar voru þessi hús: Fjós og hesthúskofi, Lambhúsið stóra, Lambhúsið litla, sem líka var notað sem hlaða, og síðan kom hrútakofi, sem seinna var stækkaður, og þar var sjóbúð, sem kölluð var Krísuvíkursjóbúð.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Þar norður af er svo Herdísarvíkurhúsið, en þar bjó síðast Einar skáld Benediktsson, og var húsið allt eins kallað Einarshús, eða þá kennt við seinni konu hans og nefnt Hlínarhús, og voru ekki fleiri byggingar í Herdísarvíkurtúni.
Túnið var lítið og lá um klappir og lægðir, mun ekki hafa verið grasgefið, því jarðvegurinn var grunnur. Túnið var að ofan girt grjótgörðum, en skiptist um túnhliðið bak við bæinn í Vesturtún og Austurtún eða Háatún, þó lítill munur væri á hæðinni. Auk aðalhliðsins var vesturhlið og austurhlið. Fram undan túninu var svo Herdísarvíkurtjörn. Rétt innan við vesturtúngarðinn var Sauðatangi. Rétt innan við þennan tanga lágu hólmar tveir fram í tjörnina.

Herdísarvík

Vatnshólmi.

Vatnshólmi nefndist sá ytri, en hinn innri Þvottahólmi, Þvotthóll eða Brúarhólmi. Milli hólma og lands var svo Rásin og yfir hana brúin. Séra Jón Vestmann [prestur í Selvogi 1811-1843] nefnir í sóknarlýsingu sinni Varghól og Varghólsbrunn. Mun hér vera um sömu staði að ræða. Túngarðar lágu um túnið, vesturtúngarður að vestan, norðurtúngarður ofan bæjarins og austurtúngarður að austan. Skarðið var á vesturtúngarði. Bæjarhliðið var ofan bæjarins. Fjárhúshlið var rétt við útihúsin, og svo var hlið ofan Einarshúss, sem ég kalla Jöfurshlið. Þar um gekk skáldjöfurinn, er hann tók sér hressingargöngur um nágrennið.

Herd´siarvíkurtjörn

Brú og gerði í Herdísarvíkurtjörn.

Herdísarvíkurtjörn lá framan túnsins, milli þess og Kampsins, og var nefnd Tjörnin ekki síður, stundum var í henni veiði. Vestri tjarnarendinn náði nokkuð vestur fyrir túngarðsendann vestari. Rétt innan við hann var lítill tangi, er lá fram í Tjörnina, hét Sauðatangi. Þar austan við var lítið vik, og þar í tveir litlir hólmar, Vatnshólminn og hinn, sem Þvottahóll var nefndur eða Brúarhóll, en milli hólma og lands var Rásin og yfir hana brúin.
Varghólsbrunnur er nefndur í sóknarlýsingu séra Jóns Vestmanns, og þá hefur þar verið Varghóll og var í Tjörninni. Þá kom vik fram af bænum, og var þar Heimavörin, þá kom Öskuhóll, og var þangað borin askan.

Herd´siarvík

Herdísarvík – tóftir elsta bæjarins.

Þá kom Hjallhóllinn, öðru nafni Smiðjuhóllinn, og Tungan þar fyrir innan með lágu garðlagi. Austan við hana Hestaklettur, þar austan við Hestavik og upp af því Hestaviksvör og Hestahvammur. Þar austur af var Bolaklettur og þá tjarnarendinn eystri, sem lá nokkuð austur fyrir túngarðsendann eystri.
Í Vesturtúni var Nónklöpp, en bak við Skyggni var Kattatjörn, sem þraut í þurrkum á sumrum. Milli Kattatjarnar og útihúsanna var Urðin með lábörðu stórgrýti. Sýnilega hefur sjávarkampurinn forðum tíð verið þarna, því bæði grjótið í Urðinni og klettarnir, sem ganga fram í Tjörnina, er mjög lábarið.

Herdísarvík

Herdísarvík – Langsum og Þversum í Austurtúninu.

Austurtúnið var allt eins kallað Hátún. Stígurinn frá bænum að útihúsunum lá áfram austur túnið, og var þá nefndur Sjávarstígurinn, út um Austurtúngarðshliðið, sem lá alveg niður við austurtjarnarendann. Hér fyrir austan taka við Gerðin, sem voru tvö, Vestragerði og Eystragerði. Einnig var talað um Vestragerðistún og Eystragerðistún. Herdísarvíkurgerðin var líka nafn á þessu svæði. Gerðin voru umgirt miklum grjótgarði, sem kallaður var Langigarður. Hlaðinn að mestu af manni, er Arnór hét, austan frá Ási í Ytri-Hrepp. Á garðinum var svo Langagarðshlið. Garður þessi var stundum kallaður Vitlausigarður eða Langavitleysa.

Herdísarvík

Herdísarvík

Krókur myndaðist, þar sem saman komu eystri túngarður og Langigarður, þar stóð Fjárréttin nýja og er enn notuð. Niður með eystri túngarði var sjóbúð, kölluð Ólabúð, og við hana Ólabúðarbyrgi. Sjávarstígurinn lá með austurtjarnarenda niður á Kamp, en af honum lá annar stígur, Gerðisstígurinn, austur um Gerðin. Búðirnar gömlu voru rétt við stíginn, en þar eru nú rústir einar. Lítið eitt austar er lágur klapparhryggur, sem heitir Hryggur, og þar á tvær gamlar sjóbúðir, Hryggjarbúðir, og stóð önnur framar en hin, kallaðar Hryggjarbúðin fremri, sú er stóð nær sjónum, og Hryggjarbúðin efri. Austan við Hrygginn var lægð, slétt, kölluð Dalurinn. Þar var skiptivöllur. Á Dalnum var vestar Skiparéttin, þar sem skipin voru höfð milli vertíða, og Fjárréttin gamla. Má enn sjá góðar hleðslur þessara mannvirkja.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Herdísarvíkursjóbúðir stóðu saman sunnan í hrygg, lábörðum, norðan Dalsins. Þær voru nefndar ýmsum nöfnum eftir formönnum, sem þær byggðu ár hvert. Aðeins ein er nú með þaki, en hinar vel stæðilegar. Bjarnabúð, Guðmundarbúð, kennd við Guðmund Jónsson í Nýjabæ í Krísuvík. Halldórsbúð, kennd við Halldór í Klöpp í Selvogi og var einnig nefnd Dórabúð. Guðmundarbúð var einnig kölluð Gamlabúð og þá Stórbúð. Þá var Símonarbúð og Hjálmholtsbúð og Krísuvíkurbúð önnur en sú, sem stóð heima við útihúsin. Bjarnabúð mun einhvern tíma á árum 1920 eða þar um kring hafa verið gerð að fjárhúsi og garði hlaðinn eftir búðinni endilangri, sem enn sér merki. Nú er aðeins ein þessara búða með þaki.

Herdísarvík

Herdísarvík 1940-1950.

Gerðisgarður skipti Gerðunum í tvennt, og þar á var Gerðisgarðshlið. Í Eystragerðinu voru tvö stór fjárhús. Það vestra hét Þversum og lá þvert suður-norður og hitt lengra burtu, Langsum, lá austur-vestur.

Herdísarvíkurkampur liggur milli Herdísarvíkurtjarnar og sjávar. Hann er lægstur vestur undir hrauni, og þar flæðir sjór yfir og stundum inn í Tjörn, en svo hækkar hann austur. Sjávarkampur er hann nefndur eða aðeins Kampur.
Fram undan kampinum voru í fjörunni Básar austast, þá komu Gjögrin. Þar er fjaran mjög óslétt með Gatklettinum. En vestan Gjögra, milli þeirra og Herdísarvíkurkamps, var svo Herdísarvíkurvör. Hér var allgott til lendingar skipum. Þau stóðu efst í kampinum upp undir Hryggjarbúðum. Rétt utan við vörina tók við Bótin eða Herdísarvíkurbót. Þá kom Leiran. Austarlega á henni var blindsker, sem nefndist Prettur. Þar utar kom svo Herdísarvík, þar var jafnan fiskisæld mikil og því stutt að róa að jafnaði.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Upp af Vörinni var Herdísarvíkurnaustið. Þar voru fiskabyrgin, þar sem fiskurinn var kasaður, má þar enn sjá hleðslur. Það var einnig í eina tíð Sundtréð, en sunnan vararinnar Vararklöppin. Yfir í Básum var hlykkjótt renna, sem nefndist Skökk. Þar var oft skipum lent í lá-deyðu, en austast í Básum voru svokölluð Löngusker, en svo tók við Breiðibás með Markakletti fram í sjó og Breiðabásarkampi áðurnefndum. Á hraunbrúninni ofan Breiðabásarkamps er Hellir eða Fjárhellir, þar leitaði fé sér skjóls oft og tíðum. Á brunanum var mikið um fiskigarða. Þangað báru vermenn fiskinn úr kösunum til þurrkunar. Þeir eru sjálfsagt nokkrir kílómetrar að lengd, ef mældir væru, því þeir eru bæði ofan og neðan vegarins. Þarna gefur einnig að líta gömlu alfaraleiðina, hestaslóð aldanna, fjölfarin fram um 1950. Austur undir landamerkjum stóð í eina tíð Sundvarðan eystri. Þegar sundvörðuna á kampinum og þessa bar saman, þá var rétt tekin leiðin inn í Vörina.

Herdísarvík

Hlínargarður.

Í klöppunum ofan húshliðsins, Jöfurshlið, var í hrauninu Kátsgjóta. Frá aðaltúngarðshliðinu lá Kýrgatan eða Kúavegur. Miðja vegu milli túns og fjalls var Kýrvarðan eða Kúavarðan. Út og upp frá Vesturtúngarði var gjóta með vatni í, kölluð Hvolpatjörn. Þegar komið var út úr Vesturtúngarðshliði, var á hægri hönd svokallaður Nýigarður, matjurtargarður. En stígurinn nefndist Brunnastígur, þegar hér var komið. Hér voru tjarnir út frá vesturenda Herdísarvíkurtjarnar, og nefndust þær Brunnar. Yfir þá lágu Stiklurnar, sem einnig nefnast Steinbogi. Vestan úr hrauninu lá Langitangi út í Brunna. Úr Herdísarvík liggur Brunnrásin inn í Brunna. Í stórstraumi og við sjávarflóð mikil flæðir sjór hér inn, og hækkar þá vatns- eða sjávarborðið í Herdísarvíkurtjörn að miklum mun, samanber flóðið mikla 25. febrúar 1925.

Herdísarvík

Herdísarvík – yngri bærinn.

Rétt sunnan við Brunna eru fjárborgirnar tvær, nefnast Borgin efri og Borgin neðri. Kartöflugarðar voru í Borgunum og nefndust Borgagarðar. Á klöppum rétt utar var svo varða, eyktamark, Hádegisvarða, einnig nefnd Sundvarða. Þá var rétt tekin stefna í Vörina, þegar skutur skips sneri í vörðu þessa, en stafn í Sundvörðuna á kampinum upp af Vörinni.
Nú taka við gjögur mikil og klappir, en ofan við eru Flatirnar allt út á Alboga, þar um liggja fjárgöturnar, sem líka voru Selsgötur til Herdísarvíkursels í Seljabót. Frá Alboga beygir ströndin til vesturs, og nefnist þar Háaberg.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg.

Spölkorn vestan Alboga er Háabergsgjóta, mikið gjögur, þar sem sjórinn spýtist upp í stórbrimi, líkt og gos úr hver. Háaberg er eggslétt hraunklöpp, en uppi á klöppinni liggja víða gríðarstórir steinar, sem brimið hefur brotið úr berginu og velt upp á klappirnar. Í norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar, Langhóll fremri og Langhóll efri.
Á Alboga beygir ströndin til Háabergs. Ofanvert við það er djúp gjóta, Háabergsgjóta. Eftir berginu eru Háabergsflatir allt vestur í Seljabót. Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er staður þessi nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar, og þarna rétt hjá er hellir, Seljabótarhellir. Þá er þess að geta, að í máldaga Strandarkirkju má finna nafnið Selstaður, og hygg ég þar sé átt við þennan stað.

Herdísarvík

Herdísarvík – túngarður.

Norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar, Langhóll fremri og Langhóll efri. Þá er Hvíthóll upp af Háabergi. Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp frá Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar. Milli Kolhrauns og Seljabótarbruna, en yfir suðurenda þess, liggur landamerkjalínan.
Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu. Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.
Herdísarvíkurhraun eru mikil og ná ofan frá fjalli allt niður að sjó, og er rétt að deila þeim nokkuð. Herdísarvíkurhraunið eldra er klapparhraun og er fornt mjög. Herdísarvíkurhraunið yngra er það hraun, sem runnið hefur fram vestan Lyngskjaldar, og Herdísarvíkurbruni, sem liggur austan bæjarins og hefur runnið ofan um Mosaskarð í sjó fram. Þar eru fiskigarðarnir. Herdísarvíkurfjall rís hátt yfir hraunbreiðuna með bröttum skriðum og ókleifum hömrum ofan þeirra.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

Lyngskjöldur er vestast í fjallinu, en hann er nefndur Skjöldur í gömlum landamerkjalýsingum. Þá er Fálkageiri, gróðurtunga í skriðunum, og Fálkahamar. Þar er og Fálkageiraskarðsstígur; Fálkagil er nafn, sem finna má á landakortum. Breiðigeiri er austar í fjallsbrekkunum. Grænaflöt liggur undir fjallsrótunum, og upp af henni er Grænuflatarskarð, og liggur fjárgata um skarðið. Herdísarvíkurfjallsskriður liggja þar austar allt að Mosaskarði. Þar upp af er Bæjarhamar, og ofan brúna er Geldingatorfa. Þá kemur Klaufhamar og austar Sundhamar. Þar eru bryggjur, sem fé fór eftir, og lenti þá oft í sjálf-heldu. Stallar voru þessar bryggjur kallaðar. Varð oft að síga þar eftir fénu. Brúnir voru Herdísarvíkurfjallsbrúnir nefndar. Mosaskarð var austan fjallsins með Mosaskarðsstíg. Þar rann fé niður, er fjallið var smalað. Austast í Mosaskarði var svo Hamragerði, þar um lá landamerkjalínan úr Breiðabás. Svörtubjörg kölluðu útróðrarmenn fjallið af sjó, var þangað oft dimmt að líta.

Herdísarvíkurvegir

Herdísarvíkurvegir. ÓSÁ

Eru þá nefnd örnefni þau, sem Herdísarvík tilheyra, nema uppi á fjallinu, en þau heyra undir afrétt og verða þar talin.
Svartbaksklettur er klettur í fjöru við Alboga. Fálkageiraskarð er skarðið, sem stígurinn liggur um.
Herdísarvík liggur við sjó, vestust allra jarða Árnessýslu.
Vesturmörk Herdísarvíkur eru þessi: Seljabótarnef í Seljabót við Seljabótarhelli. Þar eru hreppamörk Selvogshrepps og Grindavíkurhrepps, landamerki Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu. Þaðan liggur landa-merkjalínan upp flatt klapparhraun upp um Herdísarvíkurhraun vestra í Sýslustein, rétt ofan vegarins. Þaðan í Lyngskjöld eða Skjöld, lyngvaxna brekku, bratta og umflotna hraunum á báðar hendur. Þaðan um Sandfellið neðra og Sandfellið efra og þaðan í Eldborg, fagurgerðan gíg, þaðan í Kistufell, sem einnig er gígur mikill og sérkennilegur, þaðan um Draugahlíðar vesturenda þeirra, í Kóngsfellið, Litla-, eldvarp, sem snýr útrennslisdyrum til suðausturs.

Herdísarvík

Herdísarvík – markasteinn.

Að austan eru landamerkin sem hér segir: Merkisteinn í fjöru, þaðan um mikinn malarkamp, sem nefnist Breiðibás eða Breiðabásarkampur, upp um Herdísar-víkurhraunið eystra upp í Mosaskarð, um svonefnt Hamraskarð, þaðan upp um Mosaskarðsbrúnir, þaðan um Vesturása og síðan, sem leið liggur, í Litla-Kóngsfell.
Eru þá talin örnefni þau, sem tilheyra Herdísarvíkurlandi eftir því, sem mér hefur tjáð það fólk, sem bezt mátti vita, Ólafur Þorvaldsson, er bjó í Herdísarvík á árunum 1928 til 1934.”

-Gísli Sigurðsson skráði.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur gefinn af FERLIR.

Stakkavík

Eftirfarandi eru glefsur úr handrituðum minningum Sigurðar Þorlákssonar, trésmiðs í Hafnarfirði.
Kristmundur Þorláksson
Sigurður var bróðir Kristmundar í Stakkavík, síðar á Brunnastöðum. Í minningum sínum segir hann m.a. frá uppvextinum, sveitardvöl meðal ókunnugra á Vestfjörðum, vinnumennsku í Herdísarvík á fyrri hluta 20. aldar, verbúðarlífinu þar, upphaf búskapar Kristmundar í Stakkavík, lífsbaráttunni og mannlífinu í Hafnarfirði o.fl. Hér verður getið um dvöl hans í Herdísarvík hjá Þórarni bónda Árnasyni.

Í minningunum kemur fram að faðir Sigurðar var Þorlákur Guðmundsson, fæddur á Eyvindarstöðum á Álftanesi, 16. mars 1842. Móðir Sigurðar var Anna Sigríður Davíðsdóttir frá Bakka í Vatnsdal, fædd 9. júlí 1856. Systkini Sigurðar voru Júlíus (1881), Kristmundur (1883), Anna (1886), Sigríður Rósa (1889), Sigurður Gunnlaugur (1891) og Una Jarþrúður (1896). Ekki er getið um fæðingarár Sigurðar.

Stakkavík

….“Kristmundur bróðir minn var mikill áhugamaður fyrir sauðfé. Hann var búinn að eignast fáeinar kindur, en honum þótti ekki gott að hafa þær í bænum. Kaldársel var þá komið í eyði, en fjárhúskofi stóð þar uppi. Hann fékk afnot af Kaldárseli og fór með kindur sínar þangað og hafði þær þar ein 2 til 3 ár. Þetta hlýtur að hafa verið erfitt, að gegna fénu þar, og eiga heima í Hafnarfirði og stunda þar vinnu, og ganga fram og til baka…”
“…Kristmundur var þá vinnumaður í Hvassahrauni, hann fór með mér að Herdísarvík, við fórum þangað gangandi. Þrúða systir mín var þar þá. Við fórum snemma á sunnudagsmorgni, og þegar við komum að Herdíasarvík, fréttum við að verið væri að ferma hana í Strandarkirkju, svo við héldum áfram þangað, og vorum við ferminguna. Það merkilega skeði, að hún þekkti mig, sú eina af mínu fólki, þó var hún aðeins 5 ára þegar ég fór vestur. Ég dvaldi rúman mánuð fyrir sunnan og nú kom að því að fara vestur aftur….”.

Stóra-Eldborg

FERLIRsfélgar – Stóra-Eldborg að baki.

“….Ég var hjá foreldrum mínum um veturinn, en það var frekar lítið að gera. Þrúða systir mín var þá vinnukona í Herdísarvík, svo ég tók mig til og fór í heimsókn til hennar. Þetta var á jólaföstunni. Ég fór klukkan 8 um morguninn á stað og ætlaði að fara Grindarskörð yfir fjallið. Ég vissi nokkurn veginn afstöðuna, en hafði aldrei farið þessa leið áður. Ég fór í góðu veðri að heiman, en þegar upp að fjallinu kom, skall á þreifandi bilur, en lygn. Síðan held ég upp á fjallið. Eftir góða stund kem ég að gjótu, sem mér virtist vera gamall eldgígur. Eftir 1 ½ tíma kem ég á sama stað og endurtekur sig þrisvar. Þá sé ég að ég er orðinn villtur, tek mig því til og gref holu í snjóinn með löngum broddstaf, sem ég var með og leggst og ligg þarna eina 4 tíma. Mér leið ekkert illa, nema mér var kalt á fótum, en gat náð skónum af mér og gat haft fæturna í sokkaleggjunum og þá leið mér betur. Ég var vel búinn svo að mér var ekki kalt.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Það var kominn talsverður skafl yfir mig, en ég hafði nóg loft, hafði stöngina til að rétta upp úr skaflinum.
Nú fór ég að brjótast upp úr fönninni, en ekkert vissi ég hvar ég var staddur, eða hvert halda skyldi. Ég taldi að stutt væri til Herdísarvíkur. Þegar upp úr fönninni kom frusu fötin mín, því það voru svo þykk vaðmálsföt, og var mér því erfitt um gang, held samt áfram, en veit ekkert hvert halda skal.
Klukkan 8 um morguninn eftir er ég kominn niður í Lækjarbotna rétt fyrir ofan Hafnarfjörð, þar þekkti ég mig. Svo það er nú skammt heim. Ég var orðinn bæði þreyttur og svangur, búinn að vera sólarhring í túrnum og oftast á labbi. Ekki hafði ég hugmynd um hvar ég hafði farið ofan af fjallinu, að líkindum fyrir austan Grindarskörð, því fjallið er allstaðar svo bratt annars staðar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Tveimur árum síðar, þegar ég var að smala, rakst ég á staðinn þar sem ég gróf mig í fönnina, fann stafinn, hann hafði brotnað þegar ég var að grafa mig í fönnina. Það var í Brennisteinsfjöllunum, einn eða tvö tíma frá Herdísarvík.
Svona fór um sjóferð þá, en ekki dugði að hætta við ferðina. Eftir jólin bauðst mér samfylgd með manni sem var að fara til Krýsuvíkur og slóst ég í ferð með honum, og fór svo einn þaðan til Herdísarvíkur. Þetta er auðvitað helmingi lengri leið. Nú gekk allt vel, og ég komst til Herdísarvíkur, og var þar nokkra daga.
Síðan varð mér samferða til baka Indriði Guðmundsson, sem var þá vinnumaður þar.
Í Herdísarvík bjó þá Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar, sýslumanns frá Kirkjubæjarklaustri, síðar bóndi í Krýsuvík. Kona Þórarins var Ólaf Sveinsdóttir. Hann spurði mig hvort ég vildi ekki koma til sín vinnumaður í vor. Ég sló til og fór þangað um vorið. Þrúða fór þaðan sama vorið, og fór þá til foreldra okkar. Þarna var margt fé, um 6 til 7 hundruð ær. Það gekk úti allan veturinn. Það var erfitt að smala því á vorin, því bæði var mikil yfirferð, og féð villt. Við vorum tveir við smalamennskuna á vorin. Þetta vor vorum við Indriði saman. Það gekk vel hjá okkur því við vorum samhentir við það. Það var smalað daglega og rekið í rétt, og rúið, og mörkuð lömb, sem ekki var búið að marka í haganum.

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.

Mér þótti skrýtið fyrirkomulag hjá Þórarni, að þegar maður var búinn að hafa mikið fyrir að koma því heim, að hleypa því út úr réttinni, klukkan 10 á kvöldin, það sagði hann að hefði alltaf verið vani hjá sér. “Þetta þykir mér ljótur vani”, sagði ég. “Maður er búinn að hafa það mikið fyrir að koma því heim”. Ég sagði, að mér fynndist sjálfsagt, að hleypa ekki út úr réttinni fyrr en búið væri að rýja það sem væri orðið það fyldið, að hægt væri að taka af því ullina.
Meiningin hjá auminga karlinum var auðvitað að hlífa okkur við of löngum vinnutíma. En þetta var mjög vitlaust fyrirkomulag. “Það er þá best að bæta úr því, úr því að þið óskið eftir því”. Þetta var mjög gott heimili og húsbændurnir ágætis manneskjur.

Herdísarvík

Vinnufólk í Herdísarvík.

Á heimilinu voru húsbændurnir, við smalarnir tveir, það er að segja tvo mánuði, hinn tímann einn, og gömul kona, sem Hólmfríður hét. Hún var búin að vera 30 ár vinnukona hjá föður Þórarins, svo þegar hann hætti að búa fór hún til Þórarins, og gaf honum Prófentu sína, það var svo kallað þegar gamalt fólk afhenti, ef það átti eitthvað til, og áttu þá húsbændurnir að sjá fyrir þeim til dauðadags, án þess að borga því kaup. Þetta var dygðugt hjú, og ágætis kerling. Hún hefur verið komin yfir sjötugt þegar ég var þarna. Hún var hjá þeim til dauðadags.
Þórarinn sagði mér, að þegar hún var hjá foreldrum hans, á sínum yngri árum, hefðu maður beðið hennar sér til konu. Áður en hún lofaðist honum, fer hún til sýslumanns, og segir honum frá þessu og spyr hann hvernig honum lítist á þetta. Hann ráðlagði henni að eiga ekkert við þetta. “Auðvitað af því að hann vildi ekki missa hana”, sagði Þórarinn og hún var kyrr og giftist aldrei.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Það var mikið borðað af kjöti í Herdísarvík, vanalega þrisvar á dag. Til miðdags var alltaf kjötsúpa, elduð úr tómri mjólk. Á morgnana var kalt kjöt og hveitibrauð og silungur á vorin og sumrin, aldrei annar fiskur. Á kvöldin brauð, slátur og kjöt. Kjötsúpan var alla daga ársins, jóladaginn eins og aðra daga. Ég varð aldrei leiður á kjötsúpunni, enda var kjötið mjög vel verkað, húsmóðirin sjálf saltaði alltaf kjötið, og tókst það mjög vel.
Það var venja að slátra til heimilisins 75 til 100 lömbum á haustin, svo það mátti heita sæmilegar byrðir handa fjórum manneskjum. Fimmti maðurinn var tvo mánuði. Um vorið sagði ég einhvern tímann við Þórarinn að mér finndist lélegt að umgangast svona margt fé og eiga enga kind sjálfur.

Herdísarvík

Herdísarvík.

“Já, það er nú satt”, segir hann og fer og nær í kind, og segir: “Þessa máttu eiga”. Ég var ekkert sérlega hrifin af henni, og segi: “Ég hefði nú helst viljað velja mér hana sjálfur”.
“Jæja, þá skalt þú gera það”. Ég sá að hann móðgaðist við mig aumingja karlinn, hann hafði nefnilega mjög lítið vit á kindum að mér fannst, og hefur náttúrlega valið mér það besta sem honum fannst.
Eftir að búið var að smala og rýja um vorið, fór Indriði og var ég þá einn eftir með gamla fólkinu. Þetta var nú dálítið einmanalegt, því maður sá ekki mann utan heimilisfólið, svo mánuðum skipti. Trjáreki var þarna töluverður og var það notað til eldsneytis, að mestu leiti, og varð að reiða það heim af fjörunum, og saga það og höggva í eldinn. Svo byrjaði búskapurinn, það voru tvö tún, heimatúnið, og svo nefnt Gerði, þar sem fjárhúsin voru, þau gáfu af sér um 200 hesta af heyi, engar útengjar voru.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

Á bænum voru 2 kýr og 2 hestar, 6 til 7 hundruð ær, vanalega sett á 100 lömb á haustinn. Féð gekk úti allan veturinn, og var aldrei gefin heytugga. Mest voru tekin á gjöf 10 lömb, og þá lítin tíma.
Um haustið kom Kristmundur bróðir í heimsókn til mín. Hann var þá búinn að vera nokkur ár vinnumaður norður í Húnavatnssýslu, og átti þar margt fé og tvo hesta. Hann hafði fargað fénu og bar sig nú aumlega, að eiga enga kind. Hann sagðist eiga mikið af peningum. Hann sagðist vilja fara til Manitopa, og vildi fá mig með sér. “Ég á nóga peninga fyrir okkur báða”, sagði hann, en ég var ekkert hrifinn af því. Hann langaði til að vera nálægt mér.

Stakkavík

Stakkavík – gerði.

Næsti bær við Herdísarvík er Stakkavík. Þar bjó ekkja með tveimur börnum sínum uppkomnum, Láru og Gísla. Hún hét Valgerður Scheving. Hún hafði lítið bú, eitthvað um 30 ær, 1 hest og 1 kú. Sonur hennar var mjög duglegur maður, en lítið hneigður fyrir búskap, því hugurinn hneigðist að sjónum.
Nú vildi Valgerður ná sér í vinnumann svo Kristmundur réði sig fyrir næsta ár. Um veturinn réri hann í Grindavík. Hann kom til mín áður en hann fór í verið. Hann sagði: “Mikið leiðist mér að eiga enga kind, geturðu ekki útvegað mér eina rollu hjá Þórarni”? Það gerði ég, og býst við að honum hafi liðið betur á eftir. Svo bað hann mig um að geyma sparisjóðsbókina sína, meðan hann væri í verinu, “en ef ég kem ekki aftur, máttu ega hana”, sagði hann.

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

Um lokin kom hann, og fór þá að Stakkavík. Um haustið brá hann sér austur í Landssveit og keypti sér 50 veturgamlar ær, og 10 fyrir mig. Það þótti nú nokkuð mikið að vinnumaður skyldi hafa 50 ær og hest, eða hérumbil helmingi fleira en húsbændurnir.
Næsta ár giftist hann Láru, dóttur Valgerðar. Þá var komin í eyði næsti bær, Hlíð. Tók hann hana á leigu og nitjaði báðar jarðirnar, þar var nefnilega töluvert stórt tún, og nokkrar útengjar, en í Stakkavík var mjög lítið tún. Honum búnaðist þarna mjög vel, og fjáreignin komst upp í 6 hundruð síðar. Það var töluverð silungsveiði í vatninu, en það var mjög erfitt að búa þarna.

Stakkavík

Stakkavíkurrétt.

Um þetta leyti komu menn að máli við Þórarinn, sem höfðu hug á að gera út skip til sjóróðra í Herdísarvík. Áður hafði verið gert út þaðan fyrir mörgum árum. Hann var nú ekkert hrifinn af því, hann sagði mér að það hefði eiginlega engin heimilisfriður verið, þegar útgerðin var þar.
En hann gekkst inn á það, að leyfa þeim uppsátur fyrir hálfan hlut af skipi, ef þeir gengust inn á það, ef þeir ættu erindi við sig, þá kæmi ekki nema einn maður af skipi, og helst sami maðurinn. Nú var hafist handa að byggja verbúðirnar, þær voru byggðar milli túns og Gerðis, veggir úr torfi og grjóti, með torf þaki, gluggi á suðurstafni, fyrir ofan dyrnar, lengd 12 álnir og breidd 6 álnir. Rúm voru 4 öðru megin meðfram veggjum, og hinum megin 3. Þetta var pláss fyrir 13 menn og sváfu tveir í rúmmi, nema formaðurinn einn.

Stakkavík

FERLIRsfélagar í Stakkavík.

Þarna voru 6 búðir, sambyggðar með þykkum grjótvegg á milli, í öllum búðunum voru moldargólf, þar skammt frá var og salthús, það var timburhús.
Það var byrjað að róa þarna veturinn 1914. Það voru 6 tólfróin skip með 13 manna áhöfn, svo það fjölgaði heldur betur mannskapnum í Herdísarvík um veturinn. Átroðningur var ekki mikill af þessum mönnum, enda fyrirfram ákveðið að svo yrði ekki.
Næsta vor fór ég í kaupavinnu að Brúsastöðum í Þingvallasveit….”.
“Næsta vetur reri ég í Herdísarvík hjá Gísla í Stakkavík. Við vorum 13 á skipinu. Það var skipt á 16 staði hver maður lagði sér til 2 net, en útgerðin stjóra og stjórafæri og ból og bólfæri, og tók einn hlut fyrir það, svo var bátshlutur og formannshlutur.

Stakkavík

Stakkavík 2009.

Mat þurfti maður að hafa til vertíðarinnar. Brauðin, sem voru rúgbrauð, hengdum við upp í salthúsinu og geymdust þau furðu vel, smjör og kæfu geymdum við í skrínum sem hafðar voru fyrir ofan mann í kojunum. Prímus var til að hita á kaffi og svo suðum við stundum fisk.

Í Herdísarvík var fremur góð lending, nema í suðaustanátt. Ef brim var, seiluðum við fiskinn útá, fiskurinn var dreginn upp á svonefndar seilarólar og dreginn svo að landi, síðan þræddur á byrgðarólar í hæfilega bagga og borinn á bakinu, á þann stað sem gert var að aflanum.

Stakkavík

Stakkavík – minningarskjöldur.

Það var töluvert langt hjá okkur, um tíu mínútna gangur, svo var aflanum skipt, í svonefnd köst, voru tveir menn um kastið og gerðu þeir svo að í félagi. Skipin voru sett upp með gangspili sem var efst á kambinum, það var trésílvalningur með járnbolta innan í sem lék í járnlegu, spækur voru fjórar sem gengu inn í sívalninginn, í brjósthæð, síðan var gengið í kring, bandið, sem fest var í bátinn, vafðist um sívalninginn þar til báturinn var kominn nógu hátt upp. Tveir menn studdu bátinn meðan hann var settur upp, og einn maður lagði fyrir, sem svo var kallað, hvalbein og tréhlunna. Það var mikið léttara að setja, ef kjölurinn skarst ekki niður í mölina. Það var eingöngu róið með net, mig minnir að við fengjum 300 fiska í hlut yfir vertíðina….”..

-Úr handritaðri bók Sigurðar, “Gamlar minningar” – Sigurður Þorláksson, trésmiður frá Hafnarfirði – útgefið 1980.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Refur

Ætlunin var að ganga frá Sýslusteini í Lyngskjöld og leita uppi greni, sem þar á að hafa verið.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Á þeim slóðum átti svonefnt þrætugreni að vera, en það var nefnt svo vegna þess að hvorki Selvogsmenn né Grindvíkingar töldu grenið vera í þeirra landi. Heyrir það til undantekninga að bændur afneiti landi því oftar en ekki hafa þeir deilt um yfirráð á slíkum svæðum. Bréfaskrifti fóru á millum hreppsnefndanna vegna þessa þar sem ítrekaðar voru skyldur hvorrar fyrir sig að vinna grenið. Ástæðan var fyrst og fremst sú að grenið var á ystu mörkum sveitarfélaganna og langt að fara fyrir báða aðila, þó heldur lengra fyrir Grindvíkinga. Líklegt mátti því telja að Lyngskjaldargrenið hafi verið það greni er olli framangreindum deilum fyrrum, nefnt “Þrætugreni”. Hafa ber í huga að akvegur þarna var fyrst gerður um miðjan fimmta áratug síðustu aldar. Að sögn kunnugra er grenið við landamerkjavörðu á “Skildi” og eiga hlaðin byrgi skyttu að vera nálægt greninu.

Lyngskjaldargreni-1

Ólafur Þorvaldsson, síðasti bóndinn í Herdísarvík, getur um Lyngskjaldargrenið í lýsingu sinni af Herdísarvík: “…Vestan Klifhæðar er geil af eldra hrauni með miklum lynggróðri, en vestan hennar samfelld brunabreiða, sem runnið hefur ofan af fjalli vestan Lyngskjaldar. Austarlega í þessari brunabreiðu, en ofan vegar, er stór, stakur hraungrýtissteinn, og er hér Sýslusteinn, auðþekktur sökum stærðar og einstæðingsskapar. Sýslusteinn er á mörkum milli Árnes- og Gullbringusýslu, og þá einnig merkjasteinn milii Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Úr Sýslusteini liggja sýslumerki yfir Lyngskjöld, sem er bunga í brún fjallsins, og hefur yngsta hraunið runnið ofan af fjallinu, austan hans og vestan. Gren er á Lyngskildi, austan marka, Lyngskjaldargren. Meiri gróður er í Lyngskildi en umhverfis hann, t. d. mikið um eini, og er oft á haustin gott þar til einiberja…”
Mosavaxið hraun liggur neðan, ofan og beggja vegna Lyngskjaldar. Hann er í eldra greiðfærara helluhrauni. Svæðið hallar snarlega upp á stall vestan Herdísarvíkurfjalls. Hallinn er lyng- og hrísvaxinn. Þegar upp á hann er komið tekur við fyrrnefnt tiltölulega slétt hellurhraun. Ofar eru rásir og í þeim nokkir litlir hellar. Stallurinn er kjörið grenjasvæði því alls staðar má sjá op á yfirborðsrásum.

Þrætugrenin

Hleðslur við Þrætugrenin.

Lyngskjaldargrenið (-grenin) er rétt fyrir ofan hallann, fremst á stallinum, vestast í honum. Lítil varða er ofan við brúnina og síðan má sjá hvert opið á greninu á fætur öðru. Þau eru öll merkt með tveimur steinum. A.m.k. tvö byrgi refaskyttu eru sitt hvoru megin við grenjasvæðið. Meginopið er í nokkurs konar “urð” skammt suðaustan við efra byrgið. Innan við það var skít að sjá, en hvergi var fiður eða önnur nýleg ummerki eftir ref í eða við grenin. Talsvert var af rjúpu í nágrenninu, sem bendir fremur til þess að refur hafist ekki við í greninu um þessar mundir. Hnit voru tekin. Af afstöðunni má ætla að grenið sé nokkurn veginn á sýslumörkunum fyrrnefndu, en þó heldur innan Selvogslands ef eitthvað er.

Þrætugrenin

Eitt þrætugrenjanna.

Refur hefur löngum verið veiddur á Reykjanesskaga. Í frétt í Morgunblaðinu 1987 segir m.a. um tófuveiðar á Reykjanesskaganum: “Tófu fjölgar ört í Gullbringusýslu að sögn refaskyttu sem fréttaritari Morgunblaðsins hefur rætt við. Refaskytturnar hafa fellt um 70 tófur í vor, og virðast tófurnar vera um allt. Einar Þórðarson refaskytta í Vatnsleysustrandarhreppi segir til dæmis að tófurnar séu við bæjardyrnar hjá sér á Vatnsleysu. Tófur hafa verið felldar við Innri-Njarðvík, úti á Reykjanesi og víðar. Þá hafa tófur sést víða, t.d. innan Varnarliðs-stöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.
Einar Þórðarson og Lárus Kristmundsson refaskyttur í Vatnsleysustrandarhreppi hafa fellt 22 tófur í vor, sem er mesti fjöldi að minnsta kosti um langt skeið. Á síðasta ári felldu þeir 16 tófur alls. í vor fundu þeir tvöfalt greni í Hvassahrauni, það er að þar voru tvær læður í greninu. Á Vatnsleysuströnd hafa dauð lömb fundist við tófugreni.
MelrakkiÍsólfur Guðmundsson, bóndi í Ísólfsskála, refaskytta í Grindavíkurlandi, hefur fellt 17 tófur í vor. Hann skaut 3 tófuyrðlinga í einu skoti við tófugreni á Vatnsheiði. Í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hluta hafa verið felldar 10 tófur úr 2 grenjum í vor að sögn Sigurðar Erlendssonar
refaskyttu. Hermann Ólafsson og Sveinbjörn Guðmundsson refaskyttur í Hafnahreppi hafa fellt samtals 20 tófur í vor, þar af eru 3 tófur er voru felldar í Njarðvíkurlandi.
Samtals hafa því 6 tófur verið felldar í ár, sem er svipaður fjöldi og á síðastliðnu ári. Að sögn Páls Hersteinssonar veiðistjóra voru felldar samtals 38 tófur í Gullbringusýslu árið 1985 og 31 árið 1984. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra var veiðin frá árinu 1975 eftirfarandi: Árið 1975 voru felldar 8 tófur í sýslunni, en árið 1976 voru þær 5, árið 1977 var engin tófa veidd, en þær urðu samtals 7 árið 1978, 1979 var engin tófa felld, en árið 1980 voru þær 2, árin 1981 og 1982 voru engar tófur veiddar í sýslunni en árið eftir hófst fjölgun, þá voru veiddar 11 tófur, árið eftir 31.”

Þrætugrenin

Skjól refskyttu við Þrætugrenin.

Og svolítill fróðleikur um tófuna: Talið er að tófan hafi sest að á Íslandi í lok ísaldar, fyrir um það bil 10 þúsund árum, en talið er að hún hafi komið hingað á hafís.
Fullvaxinn refur getur orðið tæpur metir á lengd, skrokkurinn ekki nema 56-60 cm. Og þyngdin getur orðið allt að 6 kg. Læðurnar eru yfirleitt léttari.
Til eru nokkur litarafbrigði af Íslenska heimskautarefnum en aðallitirnir eru mórautt og hvítt. Dýr af mórauðakyninu eru dökkbrún allt árið en geta verið með hvítan blett eða rák á bringu. Á sumum mórauðu dýrunum getur feldurinn orðið upplitaður á vorin, svo að hann sýnist ljósbrúnn eða grábrúnn. Dýr af hvíta afbrigðiðu eru aftur á móti grábrún á baki og ljósbrún á kvið á sumrin, en þau eru alhvít á vetrum. Mórauða afbrigðið er algengast á Íslandi þegar á heildina er litið. Trýni refsins er alltaf svart og eyrun upprétt. Refir ganga úr hárunum tvisvar á ári. Þeir skipta yfir í sumarfeldinn á tímabilinu frá miðjum maí til miðjan júní. Vetrarfeldur fullorðinna dýra vex út aftur í byrjun vetrar og er að vaxa eitthvað fram yfir áramót.

Þrætugreni

Skjól refaskyttu við Þrætugrenin.

Húsakynni tófunnar er kallað greni. Greni tófunnar eru margvísleg. Greni hennar eru víðast í stór-grýtisurðum neðarlega í fjallshlíðum eða í hraunrásum. Vitað er með vissu að mörg greni hafa verið notuð áratugum saman, þótt ekki sé það á hverju ári.
Tófan gýtur að jafnaði um miðjan maí eftir c/ 52 daga meðgöngu. Afkvæmi tófunnar kallast yrðlingar.
Meðal gotstærð íslensku tófunnar er 5-6 yrðlingar. Þeir fæðast blindir en augun opnast eftir 15 daga. Yrðlingarnir eru alveg háðir móðurmjólkinni fyrstu þrjár vikurnar en þá byrja þeir að éta kjöt. Læðan venur þá síðan af spena við 6-10 vikna aldur.
Báðir foreldrar hjálpast að við uppeldið. 

Vembla

Fyrstu þrjár vikurnar fer læðan lítið frá greninu og steggurinn sér að mestu einn um aðdrætti. Refaparið notar afmarkað heimasvæði sem það fer um í ætisleit og reynir að verja gegn öðrum refum. Heimasvæði sem varið er fyrir öðrum dýrum sömu tegundar er nefnt óðal. Bæði kynin merkja óðalið með þvagi á áberandi stöðum.
Yrðlingarnir taka smám saman að fara í stuttar og síðar lengri ferðir frá greninu. Þegar þeir eru orðnir um það bil tólf vikna gamlir, sem er venjulega snemma í ágúst, eru þeir oft farnir að dreifa sér og sofa á daginn í holum og glufum sem ekki teljast eiginleg greni. Næstu fjórar vikurnar eykst sjálfstæði þeirra og síðast er vitað til að refur hafi fært yrðlingum fæðu í lok ágúst þegar yrðlingarnir voru tæplega 14 vikna gamlir. Í byrjun september virðast þeir vera farnir að finna alla sína fæðu sjálfir.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.

 Um miðjan september taka fyrstu yrðlingarnir að yfirgefa óðal foreldranna. Steggir virðast fara fyrr en læður.
Fæðan fer eftir aðstæðum, ýmislegt sjórekið, hrognkelsi, kræklingur, fuglar, egg, hreindýrahræ, rjúpur, þangflugnapúpur, ber, hagamýs o.fl.
Fá dýr eiga sér eins margar nafngiftir og refurinn á Íslandi.
Önnur Íslensk heiti eru: Djangi, djanki, dýr, dratthali, fjallarefur, fjallrefur, gráfóta, heimskautarefur, holtaþór, lágfóta, melrakki, melkraki, rebbali, rebbi, refur, skaufhali, skolli, tófa, tæfa, vargur og vembla.
Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinn notuð sem verslunarvara.. Um tíma var bændum gert skylt að stunda grenjaleit á jörðum sínum og afréttum á eigin kostnað, þótt veiðimönnum væri greitt fyrir veiðina.”
Til baka var gengið eftir torsóttri fjárgötu undir Lyngskildi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1943-1948. Herdísarvík í Árnessýslu, eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 134.
-Morgunblaðið 14.07.1987, bls. 26.
-Villt spendýr, bls. 74-85.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.

Herdísarvíkurhraunshellir

Haldið var niður Herdísarvíkurhraunið sunnan við Sængurkonuhelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a. um Sængurkonuhelli: “Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krísuvíkurhrauns eða Krísuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.” Sú gamla gata er enn djúpt mörk í helluhraunið.
Í annarri örnefnalýsingur segir að : “Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.”
Í fyrstu virtist “skútinn” sá ‘arna varla merkilegur; en ryðbrunnið vaskafat innan við annars sléttgólfaðan munnann gaf þó ákveðna vísbendingu. Þegar áræðnir hellamenn frá HERFÍ könnuðu gripinn reyndist þar fyrir innan um a.m.k. 150 metra langur hellir með hinum ýmsu litbrigðum og hraunmyndunum, s.s. hraunstráum og dropsteinum.
Við fyrirhugaða könnun á Herdísarvíkurhraunshelli var átta metra langur stigi hafður með í farteskinu – minnug þess að í síðustu ferð þangað (Herdísarvíkurhellir I) niður eftir dugðu fjórir metrarnir skammt niður í hyldýpið.
Ekki er var óraunhæft að álykta að þarna væri um að ræða sömu rás og Sængurkonuhellir hafði fóður úr. Klifið er við Sýslustein og Klifhraun austan við. Sængurkonuhellir er skammt austan undir hraunbrúninni svo allt virtist þetta koma heim og saman.
Nú var sem sagt ætlunin að klifra niður í djúpt jarðfallið skammt ofan við ströndina austan Herdísarvíkur. Í þeim tilgangi átti stiginn að koma að góðum notum.
En enn einu sinni reyndist stiginn hins vegar of stuttur (sjá lokatilraunina – Herdísarvíkurhellir III).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Herdísarvík

Ein frægasta ær síðari tíma er Herdísarvíkur-Surtla. Hún var í eigu Hlínar Johnson frá Herdísarvík á Reykjanesi.
SurtlaSurtla var svört, eins og nafnið gefur til kynna, og hafði einstakt lag á að gera menn sárfætta og reiða.
Í fjárskiptum vegna mæðiveikinnar haustið 1951 var svæðið frá Þjórsá að Hvalfirði hreinsað af fé, fyrir utan eina svarta kind og lamb hennar sem náðust ekki. Eftir áramótin náðist lambið þegar það örmagnaðist í einum eltingaleiknum en Surtla slapp ávallt burt. Hún sást nokkrum sinnum en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fulltrúa fjárskiptayfirvalda virtist engin leið að ná henni, hún ýmist stakk menn af í klettum sem voru öðrum ófærir eða þá að hún fannst ekki þegar til átti að taka.
Haustið 1952 gripu yfirvöld til örþrifaráða. Lagt var fé til höfuðs Surtlu. Hver sem næði skepnunni, dauðri eða lifandi fengi 2000 krónur í verðlaun. Eftir Fornagatalangan eltingaleik tveggja leitarhópa laugardaginn 30. ágúst féll Surtla fyrir byssuskoti, en þá hafði hún stokkið niður klettahamar sem var ófær öllum venjulegum skepnum. Surtla var felld í þriðja skoti og var í þremur reifum. Höfði hennar var skilað inn á skrifstofu sauðfjárveikivarna og vígalauna krafist. Aðalfyrirsögnin á forsíðu Tímans 2. sept. 1952 hljómaði þannig: Surtla lögð að velli í Herdísarvíkurfjalli á laugardagskvöld.
Ekki ríkti almenn ánægja með fall Surtlu því mörgum fannst að kindin ætti skilið að fá að lifa lengur, vegna þrautseigju hennar og harðskeytni, auk þess sem greinilegt var að hún þjáðist ekki af mæðiveiki. Fjölmargir skrifuðu greinar í blöð þar sem Surtlu var minnst auk þess sem vísur og ljóð voru ort um hana og endalok ævi hennar, en í þeim flestum fengu vígamennirnir bágt fyrir verkið. Það er greinilegt að kindin hefur orðið mörgum táknmynd frelsis og áræðni hennar vakti þjóðarathygli. Höfuð Surtlu er í dag í eigu Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis og hangir uppi á Rannsóknarstöðinni að Keldum.

Heimild:
-http://www.strandir.is/saudfjarsetur/frodl-fraegarkindur1.htm

Surtla

Surtla á Keldum.

Herrdísarvík

Sje farið frá Krýsuvík, austur í Herdísarvík, liggur vegurinn ofan við Arnarfell og yfir sand að Geitahlíð. Hún er 386 metra há og efst á henni er þríhyrningamælinga varða herforingjaráðsins.
herdisarvik-222Svo liggur leiðin meðfram hlíðinni Og yfir Deildarháls, milli hennar Og Eldborgar (180 m.), sem er gamall eldgígur. Framan við er hraun, allt út á Krýsuvíkurberg og nokkuð úti í hrauninu er annar gamall eldgígur (122 m.). Síðan liggur vegurinn milli hrauna og hlíðar, austur að Sýslusteini, en þar mætast Árnessýsla og Gullbringusýsla og þar eru einnig landamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Er þarna víða fallegt, hraunið talsvert gróið og smákjarr víða og hunangsilmur úr jörð, eins og Grelöð sagði, enda bregður manni við eftir gróðurleysið umhverfis Krýsuvík. Frá Sýslusteini liggur vegurinn yfir hraunið. Eru þar víða sljettar hraunhellur á löngum köflum, en það er merkilegt við þær, að eftir þeim eru djúpar, troðnar hestagötur, sem sýna að þarna hefir verið meiri umferð áður. „Ennþá sjást í hellum hófaförin, harðir fætur ruddu braut í grjóti”. Hið sama sjer maður einnig í hellum víða hjá Undirhlíðum á leiðinni frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Mun skáldið hatfa haft þær einkennilegu götur í huga, er það kvað “Skúlaskeið”? Sá, sem einu sinni hefur sjeð þær, gleymir þeim trauðla aftur. Og þegar bílar og önnur nýtísku farartæki hafa gert hesta óþarfa til flutninga og ferðalaga, og allar aðrar hestagötur eru löngu grónar, þá eru þessar götur í hörðum klöppunum enn til minja um þá daga, þegar hesturinn var þarfasti þjónninn og á hontum var alt flutt, sem flytja þurfti bæja, bygða og landshorna á milli.
Fyrir austan Sýslustein taka við báar hamrahlíðarar á vinstri hönd og ná þær óslitið alla leið austur að Hlíðarvatni. Klettarnir eru háir, svartir og ógrónir, og þótt þeir sjeu skammt frá sjó, verpir bjargfugl þar ekki. Mun því valda gróðurleysið, að hann kann þar ekki við sig. Hamrabrúnirnar eru 210—250 metra yfir sjó og sýnast gnæfandi háar vegna þess, hvað hraunið er lágt fyrir framan. Undir þeim eru skiður miklar, því að mikið hrynur úr þeim. Í jarðskjálftanum, sem varð þegar hverinn mikli í Krýsuvík braust út, haustið 1924, varð svo geysilegt hrunn í þessum björgum, að undir tók í fjöllunum víðs vegar í grend og laust upp svo miklum rykmekki, að ekki glórði í hamrana lengi dags. — Daginn eftir var mökkurinn enn sýnilegur, en hafði þá borist út yfir Herdísarvíkina.
hedisarvik-223Má enn sjá stórar ljósleitar skellur í björgunum hingað og þangað. Er það sárin eftir bjarghrunið. Til marks um, hvað það var mikið, segja kunnugir menn, að hefði það borið að í náttmyrkri, myndi allir hamrarnir hafa verið til að s.á sem eitt eldhaf, vegna neistaflugsins. Það er sömu söguna að segja um leiðina milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og flestar aðrar leiðir um Reykjanes, að þar er ekkert vatn, hvorki pollur nje lind frá sleppir bæjarlæknum í Krýsuvík og þangað til kemur að Herdísarvíkurtjörn, sem bærinn stendur við.
Tjörnin er ekki stór, en ljómandi falleg. Hún hefir ekkert afrensli, en í henni er fljóð og fjara vegna þess að sjór síast í gegn um kampinn, sem er fyrir framan hana. Þó fylgist ekki að flóð og fjara í tjörninni og sjónum, heldur er þar alt seinna. Með hálfútföllnum sjó er t. d. háflóð í tjörninni. og mun það stafa af því, hvað sjórinn or lengi að síast í gegnum sævarkampinn. Fyrir 70— 75 árum var flutt bleikja í tjörnina og hefir hún þrifist þar vel og er þar tiltölulega mikil veiði, þegar tekið er tillit til þess, hvað tjörnin er lítil. Silungurinn, sem nú veiðist er vænn, 5—6 pund hver. Veiðina tók þó undan einu sinni, og lá við sjálft að hún mindi alveg fara forgörðum, og skal þess getið bráðum. Í tjörninni er líka mikið af ál. Er hann vænn, en hefir ekki verið veiddur til þessa. Andir og æðarfugl sækja í tjörnina og munu eyða miklu af hrognum og silungsseiðuni. Áður voru ernir og tíðir gestir, en nú sjást þeir ekki fremur þar en annars staðar.
hedisarvik-224Herdísarvíkurbær er snotur þótt ekki sje hann stór. Þar er baðstofa, bygð forkunnar vel og úr völdum viðum að mestu. Er það unninu rekaviður þar úr fjörunni. Tvöföld súð er í baðstofunni og tróð á milli. Bærinn stendur á ofurlítilli flöt rjett á tjarnarbakkanum og stendur lágt. Hefir það oft hefnt sín að hann stendur ekki hærra, því að þegar stormflóð koma af hafi, gengur sjór yfir malarkambinn, inn í tjörnina og fyllir hana svo, að hún flóir yfir alla bakka og inn í bæ. Stórfenglegasta flóðið kom veturinn 1925. Þá gerði hafstorm í stórstraum og belgdi sjóinn inn á víkina, svo að hann gekk yfir allan kambinn og langt út í hraun í allar áttir. Flóðið kom þegar inn í bæinn óg varð fólkið að flýja þaðan. Bóndi tók eitthvað af sængurfötum og batt þau upp í sperrukverk. Hafðist fólkið svo við, meðan mesta flóðið var, í hlöðu úti á túninu, og stendur hún miklu hærra en bærinn. En þó komst flóðið þangað. Þegar fjaraði og fólkið leitaði til bæjarins, voru sængurfötin uppi í sperrukverkinni rennblaut og sýndi það að baðstofan hafði fylst af sjó upp í mæni. Og þungi vatnsins inni í bænum hafði orðið svo mikill þegar fjaraði frá úti, að hann sprengdi gaflinn úr baðstofunni fram á hlað, og skolaði vatnið þar út með sjer körfustól og ýmsum öðrum húsgögnum, sem var í baðstofunni. Austan við bæinn stóð stór timburskemma á háum grunni og var í henni geymt mikið af þungavöru. Þó var flóðið svo aflmikið, að það velti skemmunni um koll og setti hana rjett fyrir framan fjósdyrnar, svo að ekki varð komist í fjósið í í nokkra daga. Eftir þetta mikla flóð hvarf silungur úr tjörninni um nokkur ár. Ætla menn að ýmist hafði flóðið skolað honum alt sjávar, eða þá víðsvegar upp um hraun.

herdisarvik-225

Eitthvað hefir þó orðið eftir af hrognum og seiðum, því að nú er veiðin orðin álíka mikil og hún var áður.
Herdísarvík er gæðajörð til lands og sjávar. Þar gengur sauðfje sjálfala allan ársins hring, ef ekki koma þeim mun harðari klakavetur. Fjörubeit er góð og varla tekur fyrir beit í hrauninu, enda kem ur það sjer vel, því að ekki er hægt að slá eitt einasta högg utan túngarðs. En fjárgeymsla er mjög erfið. Ólafur Þorvaldsson, sem þar býr nú, hefir rausnarbúi og er fyrirmyndarbragur á öllu hjá honum. Hann setur um 500 fjár á, vetur hvern. En hann segir, að ekki veiti af tveimur fullorðnum mönnum til þess að fylgja fjenu allan veturinn, myrkranna á milli, bæði í fjöru og hrauni, að koma því í hús á kvöldin og til beitar snemma á morgnana. Haun kveðst þó oftast taka lömb á gjöf, og í vetur öll lömbin nema 20, sem gengu algerlega úti, en þau bera af öllum hinum, enda munu þau hafa verið tápmest. En hjer er sama sagan nú og annars staðar, að sauðfjárræktin er dýr, en veitir lítið í aðra hönd. Það er af sú tíðin er menn gátu fætt og klætt sig og sína með afurðum 50—60 fjár. Í haust varð Ólafur að borga 150 dilka upp í landskuld og kaup eins manns. Hugsið ykkur það, 150 dilka fyrir utan alt, sem þurfti til bús að leggja!
Túnin í Herdísarvík eru tvö og fást af þeim í meðalári um 170 hestar. Ekki kemur til mála að tvíslá, því að kúnum þarf að beita á túnin undir eins og þau eru hirt, því að kúahagar eru þar engir, og hestahagar ekki heldur. Veitti ekki að að gefa kúm og hestum allan ársins hring. Hestar eru því verstu ómagar þarna, en ekki verður komist hjá því að hafa þá, vegna þess hvað bærinn er afskektur og langt til aðdrátta. Nú seinustu árin hefir Óafur þó fengið vörur” sínar með bíl til Grindavíkur og þaðan með “trillubáti” til Herdísarvíkur. Er það kostnaðarsamt, en verður þó ódýrara heldur en að flytja alt á hestum þessa löngu leið, og verða fyrir vikið að hafa marga hesta á fóðrum.
Í Herdísarvík eru miklar og merkilegar fornleifar frá þeim tímum, er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar standa enn fornar sjóbúðatættur frá þeim tíma er allur fiskur var hertur, og í brunahrauni austan við bæinn og alla leið upp undir fjall má líta óteljandi hraungarða hvern við annan, hlaðna af manna höndum. Þetta er þurkreiturinn, þar sem fiskurinn var hertur. Fiskverkunaraðferðin í þá daga var þannig, að fiskurinn var fyrst slægður og flattur og síðan „kasaður”. Þótti það mikill vandi að kasa vel og öll verkun komin undir því. Ekkert vatn mátti komast í fiskinn og hann varð að kasast þannig, að hann yrði ekki „maltur” við þurkinn, en til þess þurfti allur safi að síga úr honum áður en hann var breiddur til þerris. Fiskurinn var kasaður þannig, að eftir að hann var flattur, var hann lagður saman aftur og stungið niður á hnakkakúluna, hver fiskur utan á annan og skaraðir þannig, að vatn gæti ekki komist á milli þeirra. Í þessum kösum stóðu þeir svo allan veturinn, eða þangað til vorþurrkar komu. Þá voru þeir bornir á bakinu upp um alt hraun og breiddir á garðana. Var þetta oft langur burður, en sá var kostur við það að hafa þerrigarðana úti í brunanum, að minni hætta var á, að fje færi í fiskinn, en það er sólgið í hann, ef það kemst á bragðið.
Herdisarvik-226Af hinum fornu sjóbúðum er nú fátt eftir, en þær nafa verið rambyggilega hlaðnar úr brimsorfnu hnullungagjóti og standa þykkir veggirnir lítt hrundir enn í dag. Eru sumar búðirnar 30 fet á lengd að innanmáli og má á því sjá, að þar hafa verið stórar skipshafnir. Svo lagðist útgerð að mestu niður í Herdísarvík um alllangt skeið, svo að þar var oft ekki nema eitt skip. En fyrir aldamótin hófst útgerð þar aftur með nýjum krafti. Veturinn 1896 gengu þaðan t. d. 8 skip. En þá var fiskverkunar-aðferðin hreytt, og var þá farið að salta allan fisk. Nú risu þarna upp nýjar sjóbúðir og standa tvær þeirra enn, en annari hefir verið breytt í hlöðu, hinni í fjárhús og verður því ekki lengur sjeð hvernig umhorfs hefir verið þar inni, meðan þetta voru mannabústaðir.
Allir sjóbúðaveggir eru hlaðnir út hnullungagrjóti og þykkir mjög. Búðirnar eru 30—40 fet að innanmáli og munu oft hafa verið 15—16 manns í hverri, því að þá var róið þarna á tíæringum og auk þess voru landmenn við söltun og aðgerð og svo þjónusta. Búðirnar snúa frá norðri til suðurs Og á suðurstafni eru dyr og reft þar yfir með þrælsterkum viðum. Stafnar eru hlaðnir úr gróti, eins og veggir og mænisás lagður á milli þeirra og nokkrar stoðir undir, sem standa auðvitað á miðju gólfi. Í sumum sjóbúðum voru sperrur og skarsúð, en flestar munu hafa verið þannig, að síreft hefir verið báðum megin á mænisás úr klofnum rekaviði. Hafa raftarnir verið nokkuð mislangir og sköguðu því sumir út úr þekjunni, sitt á hvað. Heldur munu sjóbúðir þessar hafa verið óvistlegar, en sjálfsagt hefir verið hlýtt í þeim.
Fram á sjávarkamhinn er þyrping af húsarústum. Nokkuð af þeim hefir sjórinn brotið, en sumar tætturnar standa óhaggaðar. Þarna var salt- og beitugeymsla, lýsisgeymsla o. s. frv., en beitt munu menn hafa úti, engu síður en inni. Er þar til marks um það, sem sagt er um áleitni sauðfjár við útróðramenn. að þeir máttu ekki víkja sjer frá beitutrogunum inn í sjóbúðirnar. Gerði þeir það, þá var ,,kind á hverjum öngli” þegar þeir konm út aftur.
herdisarvik-227Herdísarvík var löngum happasælt fiskver. Oftast nær var ekki róið lengra en út á víkina og fékst þó góður afli. Á seinni árum voru menn farnir að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þar oftast beint úr hafi, og voru þær taldar bestar þegar ekki fylgdi síli. Eftir sumarmál var fiskur vanur að draga sig frá landi út í svonefndar “Forir” og aflaðist þá oft vel þar í vertíðarlok.
Nú hefir engin útgerð verið í Herdísarvík um mörg ár, en fiskur gengur þar að ekki síður en áður. Er þar til marks um, að í vetur reru þar tveir menn um tíma á svolitlu bátkríli. Fóru þeir rjett fram fyrir landsteinana með handfæri og drógu þar bandóðan rígaþorsk. Voru þeir fljótir að hlaða, því að báturinn lá með horðstokknum þegar komnir voru í hann 100 fiskar. En alls fengu þeir um 1500 til hlutar — og alt fast upp við landsteinana.
Þegar maður heyrir slíkt, verður manni á að hugsa hvort ekki mundi það borga sig betur að taka upp á slíkum stöðum gömlu veiðiaðferðina á opnum skipum og gömlu fiskverkunaraðferðina, að herða fiskinn, heldur en að láta verstöðvarnar ónotaðar og helga sig hinni rándýru vélbátaútgerð og hinni enn þá dýrari saltfiskverkun.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 10. júlí 1932, bls. 205-207.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Selvogsgata

Í úrskurði Óbyggðanefndar (mál nr. 6/2004) er m.a. fjallað um Herdísarvík í Ölfusi:

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs af Herdísarvík.

“Herdísarvíkur er getið í rekaskrá Strandarkirkju í Selvogi sem er talin vera frá árinu 1275. Í máldaga Krýsuvíkurkirkju sem einnig er talinn frá því um 1275 kemur fram að Herdísarvík tilheyri kirkjunni í Krýsuvík.
Hinn 28. júní 1448 útnefndi Steinmóður Viðeyjarábóti og officialis Skálholtskirkju tólf presta dóm á prestastefnu í Skálholti. Jón Oddsson prestur á Þingvöllum hafði kært töku á sjöttungi hvals er rekið hafði í Herdísarvík. Þessi dómur fjallar eingöngu um rekarétt og skógarítak og er því ekki tekinn upp.

Herdísarvík

Herdísarvík – herforingjaráðskort.

Hinn 27. september 1563 lagði Páll Stígsson hirðstjóri niður sóknarkirkju í Krýsuvík að undirlagi Gísla biskups Jónssonar. Við það færðust bæði Krýsuvík og Herdísarvík undir forræði Skálholts.
Krýsuvík er að finna í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar þó svo að kirkjan hafi verið lögð niður árið 1563. Þar segir sem fyrr að Herdísarvík tilheyri kirkjunni í Krýsuvík.
Jarðabók Árna og Páls yfir Selvog var tekin saman árið 1706. Þar er að finna eftirfarandi umsögn um Herdísarvík: “Skóg á jörðin lítinn og þó er hann nýttur til kolgjörðar heimabónda, hvorki er hann til að ljá nje selja, en mjög til að bjarga kvikfje í heyskorti. Sami skógur brúkast og til eldiviðar.
Lýngrif brúkast og til eldiviðar. Berjalestur hefur stundum til nokkurs hagnaðar verið.” …

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Herdísarvík var seld með Krýsuvík undan Skálholtsstóli 8. ágúst 1787.
Í lýsingu séra Jóns Vestmanns í Vogsósum á Selvogsþingum frá 1840 koma meðal annars eftirfarandi upplýsingar fram um Herdísarvík: “Hlíðar, Stakkavíkur og Herdísarvíkur hagar mæta stórum áföllum af grjótkasti og skriðum úr fjallinu, því þeir allir bæir eiga þar land, en hafa þó flatlendishaga ásamt. Á öllum nútöldum bæjum er heyskapur mikið lítill, … en útigangshagar samt so góðir, að trúa má þeim fyrir skepnunum, þegar jörð er auð”.
Herdísarvík, sem var áður stólsjörð, var eign Krísuvíkurkirkju samkvæmt Jarðatali Johnsens frá 1847.
Í jarðamatinu frá 1849 er að finna svohljóðandi lýsingu á jörðinni Herdísarvík: “Uthagar miklir og góðir til fjalls og fjöru og skógur til egin þarfa og nokkurrar miðlunar. Vetrarbeit góð. … smalamennska fremur hæg og dýrbítur mikill”.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ. Gamla og nýja landamerkjalínan sjást á uppdrættinum.

Skýrslan sýnir einnig jarðamatið, þar sem meðal annars stendur: “Dýrbítur er einúngis þessari jörð til galla og slægiuleysi; allt annað er henni vel gefið, og bætist slægiuleysið upp af vetrarbeitinni, sem aldrei bregðst”. …
Hinn 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu Herdísarvíkur.
Lýsingin, sem var þinglesin 3. júní 1889, er svohljóðandi: “Maríu kirkja í Krísuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík”.

Breiðabás

Í Breiðabás

Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: “Að austanverðu, milli tjeðrar jarðar og kirkjujarðarinnar Stakkavíkur: bein stefna úr Breiðabás (= Helli samkvæmt máldögunum) sem er fjöruvik nokkurt ekki allskamt fyrir austan Herdísarvík, með litlum hellisskúta í hrauninu fyrir ofan, í Kongsfell, sem er gömul, ekki há, grámosavaxin eldborg umhverfis aflangan djúpan gíg, til hægri handar við þjóðveg úr Selvogi til Hafnarfjarðar góðan spöl fyrir austan Kerlingarskarð, nálægt veginum.
Að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram”.
Kirkjan á þriðjung hvalreka og allann annann reka fyrir landi jarðarinnar frá Breiðabás að Seljabótarnefi og sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). Ítök sem aðrir eiga í jörðinni Herdísarvík eru þessi:

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – náma.

1. Tveir þriðjungar hvalreka … eign Strandakirkju í Selvogi.
2. Allir brennisteinsnámar sem finnast í landi jarðarinnar með öllum þeim „málmjarðartegundum“ öðrum er námarnir kunna að geyma, hagagöngu fyrir hross í „vanalegum bithögum og áfangastöðum“ rjetti til vegagjörða og húsabygginga með „hæfilegum maturtagarði“ sem „nauðsynlegt“ er til þess að geta yrkt námana o. sv. fr. allt samkvæmt afsalsbrjefi 30. september og 4. Októb. 1858. Ítak þetta tilheyrir þrotabúi hins íslenzka brennisteins og koparfjelags. Undir lýsinguna skrifa Á. Gíslason og E. Sigfússon prestur í Vogsósum.
Í fasteignamatinu 1916-1918 segir um Herdísarvík: “Landamerki vafalaus. …
Beitilandið er víðlent, fjalllendi, hraun og heiði, mjög kjarngott, snjólétt, skjólgott, ágætt vetrarland fyrir sauðfé … Smalamenska erfið”.
Um Herdísarvík segir meðal annars í fasteignamatinu 1932:
“Beitiland jarðarinnar er talið nokkuð gott og í meðallagi víðlent. Einnig kemur fram að jörðin eigi rétt til uppreksturs í afrétt sveitarinnar. Jörðin verður fyrir ágangi afréttarfjár. Hvað varðar landamerki Herdísarvíkur þá greinir skýrsluhöfundur frá því að þar sem hann sé nýfluttur á jörðina þá hafi hann ekki ennþá fengið útskrift úr landamerkjaskrá sýslunnar. Hann veit hins vegar ekki til þess að neinn ágreiningur sé varðandi jörðina.

Herdísarvík

Gamla girðingin úr Seljabót í Lyngskjöld. Í landamerkjalýsingu Herdísarvíkur 1886 og Krýsuvíkur 1890, í Litla-Kóngsfell lá ekki um svonefndan Sýslustein sem sýslumenn Gullbringu- og Kjósarsýslu og Árnessýslu höfðu árið 1832 ákveðið sem sýslumörk. Sýslusteinn er ekki nefndur í landamerkjabréfunum.

Háskóli Íslands, eigandi Herdísarvíkur, fór fram á það árið 1979(?) að landamerki Herdísarvíkur og Krýsuvíkur yrðu ákvörðuð. Við vettvangsferð 6. júní 1979 kom í ljós að sjónhending úr Seljabótarnefi, sem er kennileiti í landamerkjalýsingu Herdísarvíkur 1886 og Krýsuvíkur 1890, í Litla-Kóngsfell lá ekki um svonefndan Sýslustein sem sýslumenn Gullbringu- og Kjósarsýslu og Árnessýslu höfðu árið 1832 ákveðið sem sýslumörk. Sýslusteinn er ekki nefndur í landamerkjabréfunum. Í greinargerð 25. júní 1979 lagði sýslumaður Gullbringusýslu til að mörk Krýsuvíkur yrðu ákveðin þannig: Bein lína úr Seljabótarnefi í Sýslustein, þaðan bein lína í Litla-Kóngsfell.”

Selvogsgata

Litla-Kóngsfell.

Aðilar málsins, annars vegar sýslunefnd Árnessýslu vegna sýslufélagsins, hreppsnefnd Selvogshrepps vegna sveitarfélagsins og Háskóli Íslands, sem eigandi Herdísarvíkur, og hins vegar bæjarstjórn Grindavíkurkaupstaðar vegna bæjarfélagsins, sýslunefnd Gullbringusýslu, fyrir hönd sýslufélagsins sem eiganda Krýsuvíkurlands að mörkum Árnessýslu, og loks landbúnaðarráðuneytið fyrir hönd ríkisins, sem eiganda ýmissa réttinda í Krýsuvíkurlandi, komu sér saman um eftirfarandi:
1. Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi. …
Staðsetning (hnit) samkvæmt mælikerfi Landmælinga Íslands er þessi:
Litla Kóngsfell: X-682760,0 Y-390000.0
Sýslusteinn: X-692533,8 Y-378925,4.
Seljabóta<r>nef: X-692603,2 Y-376523,0.
2. Hreppamörk Selvogshrepps falla saman við sýslumörkin.
3. Mörk jarðanna Herdísarvíkur og Krýsuvíkur falla einnig saman við mörk Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar. …
Landamerkjabréfið var undirritað af málsaðilum 25. og 29. janúar og 16. febrúar 1980 og staðfest af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

[Framangreind ákvörðun er arfavitlaus].
Í kröfulýsingu vegna Herdísarvíkur, dags. 1. júní 2004, er vegna landamerkjalýsinga vestustu jarða í Selvogi vísað til lýsingar Almenningsskóga Álftanesshrepps frá 21. júní 1849, sem þinglesin var 22. sama mánaðar. Lýsingin er svohljóðandi:
“Með því mjer er á hendur falið í brjefi til mín af 19 Juni næstliðið ár frá viðkomandi herra sýslumanni [T. Guðmundsen, yfirstrikað] að boði Stiftamtsins umsjón þess almennings, sem er að finna í Alptaneshrepp, þá orsakast jeg til að lysa þess almennings takmörkum fyrir alþyðu á manntalsfundinum í Görðum innan sama hrepps, sem jeg veit glöggast fráskilið annara eignum og er því að álíta sjerskilið almennings sameignar land gamlra lögbílisjarða í Alptaneshrepp, hvers takmörk eru þessi. Fyrst milli Garðakirkju fjall<l>lands, ur steinhusi suður í Markagil á Marraka eður undirhlíðum þaðan á Hæðstaholt, á Dauðadölum á annan veg ur Dauðadölum norður í Húsfell af Húsfelli upp á Þríhnjuka þaðan á suðurenda Blafella, á milli afrjetta Alptanes og se<l>tjarnarneshreppa. A milli Gullbríngu og Arnessyslna af Bláfjöllum vestur á Kistufell. A milli Alptaneshrepps og almennings og Krísivíkur landa af Kistufelli niður á syðra Horn á Fagradals brún þaðan í Marrakagil, so í þúfu á fjallinu eina þaðan í Helguflöt norðaná Buðarhólum. A milli jarðanna Heimalands og afrjettar af Buðarhólum eptir Buðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús. Þetta ofantalið afrjettar og almennings land, sem er að finna fráskilið annara eignum lísi jeg til rjettarins fullkomnari úrskurðar gamallra lögbylisjarðajarða afrjettar að öðru nafni almenníngsland í Alptaneshrepp með öllum þeim herlegheitum sem þar er að finna. Eptir hverri rjettarins skipan hjer ofantaldri eg skyldast að fyrirbjóða og aðvara hvern þann mann sem ekki hefur fullkomið tilkall til almenningsítaks alla brukun hverju nafni sem heitir, innan ofantaldra takmarka að vitni þíngvitnanna og allra þeirra er orð mín heyra.”

Þrætugrenið var fyrrum á landamerkjum Árnessýslu og Gullbringusýslu. Um það liggur gamla girðingin upp úr Seljabót, sem nú er að mestu horfin.

Heimildir:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 6/2004; Ölfus – Herdísarvík.
-https://obyggdanefnd.is/wp-content/uploads/04_2004-6_urskurdur.pdf

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið.