Borgarhóll

Eftirfarandi frétt birtist í Fréttablaðinu 22. sept. 2008 undir yfirskriftinni “Felldu ferðamannavörtur”.
Leiðsögumenn„Þetta er mikilvæg aðgerð sem miðar að því að vekja athygli á einu versta náttúrusóða- vandamáli síðari tíma,“ segir Ari Arnórsson leiðsögumaður, sem á föstudaginn stóð fyrir vörtuhreinsun meðfram Krýsuvíkurvegi.
Vörtur eru vörður sem ferðamenn hlaða á ferðamannastöðum. Þó að flestar þeirra séu í smærri kantinum var sú stærsta sem Ari og félagar felldu á föstudaginn einn og hálfur metri á hæð.
„Vörður og vörðubrot eru menningarverðmæti sem ekki má hrófla við en vörtur eru ómenningarlýti sem hreinsa þarf jafnóðum,“ segir Ari.
Umfjöllun Fréttablaðsins var í kjölfar fréttar á vef Félags leiðsögumanna þann 19. sept. 2008, sem hljóðaði svo undir yfirskriftinni “Leiðsögumenn felldu 1200 ferðamannavörtur”:

Ísólfsskálavegur

„Þetta er mikilvæg aðgerð sem miðar að því að vekja athygli á einu versta náttúrusóðavandamáli síðari ára,“ segir Ari Arnórsson leiðsögumaður sem í dag stóð fyrir vörtuhreinsun (vörðuhreinsun) á Krýsuvíkurvegi. Gott framtak, segir form. Félags leiðsögum.
„Vörturnar eru miklu meira og stærra vandamál í náttúru Íslands heldur en skógarhögg í leyfisleysi, rusl, hávaði og varðeldar,“ segir Ari. „Ég tók þátt í þessu þarfa náttúruverndarátaki vegna þess að mér þykir vænt um náttúruna eins og hún er og vil stuðla að góðri umgengni ferðamanna um náttúruna,“ segir Þórunn, eini þátttakandinn sem ekki er leiðsögumaður.
„Vörtur hlaðnar af ferðamönnum á ferðamannastöðum eru lýti í náttúrunni. Fyrir mér eru vörður í náttúrunni samskonar lýti og graff í borginni,“ segir Stefán. „Vörtur eru og hafa verið vandamál á ýmsum ferðamannastöðum víðsvegar um landið um langt skeið og of lítið að gert til að stemma stigu við þeim. Hins vegar trúi ég því að fagmenntaðir landverðir og fagmenntaðir leiðsögumenn upp til hópa fordæmi vörður ferðamanna og taki virka afstöðu með náttúrunni. Það er verðugt umhugsunarefni að ferðamenn hlaða vörður á ýmsum vinsælum ferðamannastöðum í meira mæli en áður, að því að mér virðist.”

Vörtur

„Í mínum huga eru ferðamannavörtur eins og krabbamein, þegar það er byrjað heldur það bara áfram,“ segir Rakel Jónsdóttir. Ragnheiður Björnsdóttir, formaður Félags leiðsögumanna, fagnar framtaki Ara. „Það er sjálfsagt að vekja athygli á þessu vaxandi vandamáli. Mér finnst óþarfi að hlaða vörðum út um allar trissur. Reyndar finnst mér vörður  eiga rétt á sér á sumum stöðum, eins og til dæmis landamerki og leiðarvísar, en alls ekki hvar sem er. Vörðuvandamálið er að sumu leyti af sama meiði og þegar ferðamenn kasta smápeningum í gjár og hveri. Hvort tveggja finnst mér mikið líti í náttúru Íslands.“
Á vefsíðu reykjanesguide.is þann 20. mars 2007 sagði um “Vörðurnar á Borgarhól”: “Margir sem ferðast um Reykjanes reka upp stór augu þegar komið er að Borgarhóli við veginn milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Þar gefur að líta tugi, jafnvel hundruð misstórra steinvarða sem eru á víð og dreif um svæðið. Ekki er svo að þetta sé af náttúruvöldum, eða að þetta sé fornar minjar, heldur hafa þær skotið upp kollinum, ein af annari, síðustu 4-5 ár. Ferðalangar sem eiga leið þar hjá hafa sett saman litla vörðu til minningar um ferðir sínar og er nú svo komið að vart er þverfótandi fyrir vörðum. Að vísu var ein varða á Borgarhól en sú markaði svæði Reykjanesfólkvangs.

Vörtur

Engu að síður er gaman að koma á Borgarhól og þetta er skemmtileg sjón. Vitað er um einn svipaðan stað á landinu, en nálægt Vík í Mýrdal hafa ferðalangar reist sér litlar vörður og þykir það boða gæfu á ferð um svæðið.”
Í rauninni mætti segja fleira slæmt um þann gjörning að fella “vörturnar” á Borgarhól en þá, sem þær hlóðu. Flestir geta verið sammála um að ekki eigi að hlaða vörður (sjá HÉR) einungis til minningar um að viðkomandi hafi komið þangað. Þannig hefur Borgarhóll orðið náttúrulegt altari ferðamanna, sem vildu votta hinu sérstæða umhverfi Krýsuvíkursvæðisins virðingu sína. Gjörningurinn hefur því orðið til af góðum hug, en ekki meðvituðu virðingarleysi fyrir umhverfinu.
VörturHér var ekki um eiginlegar vörður að ræða heldur einungis nokkra steina á steinum (vörtur) á mjög afmörkuðu svæði. Með tímanum hafði myndast á Borgarhól þyrping smávarða eftir ferðalanga um Ísólfsskálaveg, en leiðin er og hefur verið mjög vinsæl ferðamannaleið, ekki síst meðal útlendinga. Eftir að smávörðurnar komu til á annars eyðilegum hólnum hafa æ fleiri staðnæmst á honum og gefið umhverfinu gaum. Minnismerkin, sem má líta á sem nokkurs konar gjörning (listaverk) með þátttöku fjölda manns, hafa og orðið mörgum eftirminnilegt myndefni. Umhverfi hólsins hafði verið látið í friði, t.d. hlaðin forn fjárborg, sem er þar vestan í hólnum. Undir hólnum lá gamla gatan milli Krýsuvíkur og Húshólma. Á hólnum voru tvö vörðubrot til merkis um gömlu leiðina milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur (sjá HÉR). Þær höfðu fram til þessa verið látnar í friði – þangað til núna. Í “átaki” leiðsögumanna varð þeim raskað, sem reyndar er bæði mikil synd og gæti hugsanlega varðað refsingu.

Vörtur

“Vörtur” þær er hafa verið umfjöllunarefni hér að framan hafa ekki verið vandamál á Reykjanesskaganum og því óskiljanlegt að þar skuli hafa verið látið til skarar skríða í þeim efnum. Nær hefði verið að beina athyglinni að einstökum vörðum, sem fólk hefur verið að hlaða hingað og þangað í algeru tilgangsleysi, en leyfa ferðamönnum að hafa afmarkað svæði fyrir sig til að hlaða vörtur, líkt og verið hefur á Borgarhól. Ætla mætti, með þessum gjörningi, að leiðsögumönnum væri illa við að Reykjanesskaginn skuli njóta aðdráttarafls ferðamanna. Fyrst viðbrögðin voru þessi við litlum vörtum mætti spyrja; Hver ætli viðbrögðin hefðu verið ef ÞETTA mannvirki hefði verið reist á Borgarhól?
Leiðsögumönnum er vinsamlegast bent, vilji þeir beita sér á svæðinu, á mun nærtækara og mikilvægara viðfangsefni til að takast á við – utanvegaakstri með tilheyrandi umhverfisspjöllum.
Á vefsíðu leiðsögumanna er könnun með spurningunni: “Ég er mótfallin/n því að ferðamenn hlaði vörður”. Út frá viðbrögðum þátttakenda er síðan dregin ályktun um viðhorf þeirra sömu til fyrrnefndra “varta”, sem er bara allt annar hlutur. Og loks má benda leiðsögumönnum á að Borgarhóll er ekki við Krýsuvíkurveginn eins og lesa má út úr fréttinni.

Heimildir:
-frettabladid.is 22.09.2008, bls. 1
-http://www.touristguide.is/
-reykjansguide.is
-myndir; æbj á flickr.com/photos/purephotos/2599305140

Borgarhólaborg

Borgarhólaborg.