Færslur

“Nefvörður” hafa jafnan valdið ferðalöngum um fornar þjóðleiðir töluverðum vangavöltum.
Nefvarða við Gamla ÞingvallaveginnVörðurnar þær eru hins vegar ekki svo flókið fyrirbæri að ástæða sé að velta vöngum yfir þeim.
Í Tilskipun Danakonungs, Kristjáns VII, 29. apríl 1776 um “Frumvarp til tilskipunar um vegina á Íslandi” segir í 14. gr.:
“Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag. skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annari, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur eða annað merki á þeirri hlíð, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leíðbeiningar.”
Af framangreindri ástæðu eru enn til vörður hér á landi er hlaðnar voru í kjölfar tilskipunarinnar.  Slík vörðugerð náði hámarki með heimsókn Danakonungs árið 1907, en lagðist síðan smám saman af, einkum í kjölfar bílvæðingarinnar…

Skipsstígur

Nefvarða við Skipsstíg.

Hleypt hefur verið af stokkunum Umbótakeppni í umdæmi Grindavíkur. Leikreglur eru þær að liðsheild tekur að sér umbætur í einhverju er telja má til gagns er lýtur að útivistar-, umhverfis- og/eða söguminjum í umdæmi Grindavíkur.

Efr-innsiglingarvarðan

Að þeim loknum skorar liðsheildin á aðra tiltekna að gera hið sama innan tilgreindra tímamarka og svo koll af kolli. Fylgst verður með áhuga og árangri viðkomandi liða og fjallað um hvorutveggja á vefsíðunni www.grindavik.is.
Keppnin hófts á því að FERLIR, félagsskapur um útivist,  umhverfi, sögu og  minjar á Reykjanesskaganum (sjá
www.ferlir.is) tók að sér að lagfæra skemmdir, sem orðið höfðu á Efri-innsiglingarvörðunni við Hóp, en vörðurnar eru og hafa verið eitt af meginsérkennum Grindavíkur frá því þær voru hlaðnar af sjófarendum inn í Hópið til leiðsagnar eftir að rás fyrir báta hafði verið grafin inn í það árið 1939.
Efri-innsiglingarvarðan, sem er um fimm metra há og fjórir metrar í ummál, hafði orðið fyrir hnjaski í jarðskjálfta tveimur árum fyrr og grjóthleðslan hrunið úr henni bæði að norðvestan- og austanverðu. Að sjá var toppurinn og við það að falla niður, auk þess sem varðan hafði öll að hluta gengið til. Um tvennt var að velja; að láta vörðuna afskiptalausa og leyfa henni að falla saman í grjóthrúgu (með það fyrir augum að hlaða hana frá grunni, þ.e. hlaða nýja vörðu) eða gera við skemmdina og reyna þannig að viðhalda hinu upprunalega mannvirki að svo miklu leyti sem það var hægt.

Efr-innsiglingarvarðan - 2

Í marsmánuði árið 2010 barst erindi til bæjarráðs Grindavíkur um nauðsyn þess að lagfæra þyrfti Efri-innsiglingarvörðuna, ekki síst vegna slysahættu er af hruninu stafaði. Erindinu var vísað til Umhverfisnefndar. Á 122. fundi nefndarinnar var vakin athygli á málinu og lagt til að leitað yrði tilboða í að færa vörðuna í upprunalegt horf. FERLIR sendi nefndinni erindi og bauðst til að taka að sér verkið – endurgjaldslaust. Nokkrir FERLIRsfélagar höfðu tekið þátt í grjóthleðslunámskeiði í Vogum árið áður og töldu sig geta framkæmt verkið án vandkvæða.
Á 123. fundi Umhverfisnefndar Grindavíkur 11. mars s.á. var málið tekið fyrir með afbrigðum: “Eins og fram kom í síðustu fundargerð eru töluverðar skemmdir á Efri Hópsvörðu og stafar af henni slysahætta. Ómar Smári Ármannsson hjá FERLIR hafði samband og bjóðast FERLIRsfélagar að taka að sér verkið endurgjaldslaust. Nefndin þiggur þetta höfðinglega boð fyrir hönd bæjarins og felur formanni nefndarinnar að vera FERLIR innan handar við framkvæmd verksins.”

Efr-innsiglingarvarðan - 3

Þann 8. apríl framkvæmdu FERLIRsfélagar verkið og má segja að Efri-innsiglingarvarðan við Hóp sé nú jafnsett og hún var fyrir skemmdirnar. Að vísu er varðan, sem hlaðin er í halla, gengin til að hluta líkt og sjá má á henni sunnanverði. Úr því verður ekki bætt nema rífa hana í sundur stein fyrir stein og endurhlaða að nýju. Ef ástæða þykir til þess síðar mun FERLIR fúslega taka að sér verkið, en eins og varðan er núna er sá hinn sami sómi að henni og áður var.
Í framhaldi af umbótunum á Efri-innsiglingarvörðunni í Grindavík skorar FERLIR á félaga í Björgunarsveit Grindavíkur (Þorbirni) að byggja göngubrú yfir Rásina ofan við Stóru-Bót og auðvelda þannig íbúum og gestum þeirra að nýta hið fagra og sagnaríka umhverfi Gerðisvallanna. Göngubrúna má gera á einfaldan hátt, t.d. með föstum járnlykkjum beggja vegna og tréstaur er lægi á milli þeirra og gæti mætt bæði fjöru og flóði. Sveitin hefur einn mánuð til að framkvæma verkið og að því loknu býðst henni að skora á hvern þann annan er getur auðveldlega án mikils tilkostnaðar látið gott af sér leiða til úrbóta v/útivist-, sögu- og minjar í umdæmi Grindavíkur. FERLIRsfélagar eru tilbúnir að aðstoða við framkvæmdina.
Eða eins og björgunarsveitarmaðurinn sagði: “Þetta er ekki spurning um hvað samfélagið getur gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir samfélagið”.
Því miður daufheyrðist björgunarsveitarfólkinu í Grindavík við hugmyndinni.

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

Nú er Neðri Hópsvarðan fallin. Hver tekur að sér viðgerð hennar; bæjarstjórinn? eða björgunarsveitarfólkið? Nei, það verður FERLIRsfólkið, sem mun láta að sér kveða við varðveislu þessara sögulegra minja í Grindavík – líkt og svo oft fyrrum…
Efr-innsiglingarvarðan - 5

Hvalsnesleið

Frumvarp Alþings til vegaumbóta 1857: Samþykkt sem tilskipun af konungi 1861; 12. gr.-  vörðubendill:

Arnastigur-501Þegar horft er til varða á þétthlöðnum hesta- og vagnvegum Reykjanesskagans, s.s. Skipsstíg, Árnastíg og Prestastíg (Skógfellavegur og Sandakravegur urðu aldrei ruddir sem að vagnvegir) má jafnan sjá stein (vörðustein) standa út úr heillegustu vörðunum. Þetta vekur jafnan athygli „vegfarenda“, en fáir hafa velt fyrir sér tilgangnum, sem hlýtur að hafa verið einhver? Þetta eru vörður sem hlaðnar eru eftir 1861 skv. þágildandi skipan konungs (frá 15. mars 1861) sbr.  áður nefnd tillögudrög Alþingis að vegaumbótarlaga frumvarpi frá 1857: „12. gr.: „Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag, skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annari, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur, eður annað merki, á þeirri hlið, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leiðbeiningar“.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn.

 

Gamli Þingvallavegur

Ekki er langt síðan FERLIR fylgdi Gamla Þingvallaveginum frá Krókatjörn og upp á Háamel á Mosfellsheiði þar sem tóftir gamals greiðahúss voru skoðaðar. Nú var ætlunin að leita uppi tóftir sæluhúss ofan við Moldbrekkur skammt norðaustan við Háamel og í leiðinni skoða Þrívörður ofan við Heiðartjörn, Berserkjavörðuna og tóftir af hlöðnu sæluhúsi við gamla veginn.

Berserkjavarða

Berserkjavarða við Gamla Þingvallaveginn.

Samkvæmt kortum liggja gamlar götur þvers og kurs um heiðina, en mestur er Gamli Þingvallavegurinn, sem lagður var um 1880. Á honum eru fallega hlaðin ræsi á allnokkrum stöðum, fallega hlaðin steinbrú, sennilega ein sú elsta á landinu og heillagar vörður og fyrrnefnt sæluhús við sýslumörkin efst á heiðinni. Vegurinn var lagfærður við konungskomuna árið 1907 og viðhaldið allt til ársins 1930.

Tóftir sæluhússins eru á klapparhrygg nokkru norðan við Þrívörður. Þær eru ranglega merktar inn á landakort. Tóftirnar eru ca. 5×8 m. Hurðaropið snýr mót suðvestri. Stór varða er vestan við húsið. Sýsluvörðurnar tvær eru enn vestar. Frá húsinu sér í vörður norður heiðina, áleiðis suður fyrir Leirvogsvatn.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga. Það var laugardagur, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Veður var blítt um morguninn, frostlaust, en þung færð vegna snjóa.

Illaklif

Varða við Illaklif.

Þegar þeir fóru frá Kárastöðum var slíkt þíðviðri að vatn draup af upsum, en þegar komið var vestur í Vilborgarkeldu brast skyndilega á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt.

Vermennirnir kusu samt að freista þess að halda áfram í þeirri von að finna sæluhúsið vestan við Þrívörður eða ná til bæja í Mosfellsdal. Sæluhúsið fundu þeir ekki og héldu áfram meðan þróttur vannst, þó klæði þeirra, blaut eftir þíðviðrið og ösl í ófærðinni, frysi í stokk.

Mosfellsheiði

Sæluhúsið í Moldarbrekkum 1896 – Daniel Bruun.

Mennirnir voru flestir orðnir örmagna alllöngu fyrir dagsetur og grófu sig því fönn undir Illaklifi ofan við Leirvogsvatn, nema tveir sem gátu haldið sér uppréttum og vakandi alla næstu nótt. Hinir sofnuðu og féllu í ómegin, fennti í kaf og frusu fastir við snjóinn.

Er leið að morgni tókst hinum vakandi að vekja félaga sína, sem enn voru lífs, og rífa þá upp úr snjónum. Voru 12 á lífi er dagaði. Þá herti veðrið enn og létust nú þrír í viðbót í höndum félags inna. Hinir brutust af stað og náðu fimm þeirra til bæjar í Bringum um miðjan morgun. Voru þeir svo þrekaðir að þeir gáðu ekki í fyrst að segja til þeirra sem ókomnir voru eða lágu dauðir uppi á heiðinni.

Mosfellsheiði

Jón Svamþórsson í Gamla sæluhúsinu við Seljadalsleið.

En jafnskjótt og húsráðanda á Bringum varð ljóst hvað hafði gerst, sendi hann eftir hjálp á næstu bæi, en fór sjálfur að leita þeirra sem enn kynnu að vera á lífi. Fann hann tvo þeirra villta er drógu eða hálfbáru tvo örmagna félaga sína með sér.  Annar þeirra dó þó í höndum þeirra. Fórust þannig sex af þeim fjórtán, sem lagt höfðu upp í byrjun og þeir sem af komust voru flestir kalnir til stórskemmda og urðu örkulma lengi, sumir ævilangt. Hinir látnu fundust daginn eftir og voru jarðsettir að Mosfelli.

Mennirnir fimm urðu úti við hól við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. Rennur lækur þar niður að vatninu, sem sjaldan frýs. Fylgdi frásögn eftirlifanda að óneining hefði komið upp í hópnum hvert halda skyldi.

Illaklif

Skjól við Illaklif.

Sá sem hraustastur var, þekkti vel til og best slapp úr hrakningunum iðraðist þess jafnan að hafa ekki yfirgefið hópinn strax up kvöldið og reynt að brjóast til bæja eftir hjálp. Þessi atburður sýnir vel hversu alvarlegar afleiðingar vondur útbúnaður og fáfræði á ferðalögum gat haft í för með sér þegar í harðbakkan slær. En hann getur líka verið þörf áminning um um að ferðalög, um ekki lengri veg, geta verið varasöm ef ekki er allrar varúðar gætt og ferðabúnaður í góðu lagi. Auk þess má vel læra af honum þá lexíu að þegar allir vilja ráða för getur villan orðið þess meiri. Nauðsynlegt er að að láta þann ráða, sem mesta reynslu og besta þekkingu hefur á staðháttum.
Mennirnir, sem létust, eru grafnir í einni röð í ómerktum gröfum undir kirkjuveggnum í Mosfellskirkju.

Sæluhús

Sæluhúsið við gamla Þingvallaveginn árið 1998.

Þrívörður eru vestan við Þórðargil, ofan við svonefndar Þrívörðulautir við Þrívörðuhrygg. Hjá vörðunum lá hin gamla leið til Þingvalla. Vörðurnar þrjár mynda þríhyrning á klapparholti. Þaðan er gott útsýni niður heiðina til austurs. Þessar vörður sjást vel þegar komið er að austan með stefnu á hábrún heiðarinnar. Austasta varðan er mest um sig, en sú vestasta stendur hæst. Þær eru allar úr lagi gengnar. Fallega hlaðin leiðarvarða er suðaustan við Þrívörður.
Við Gamla Þingvallaveginn, á hábrún þar sem útsýni er best til Þingvalla, stendur gamalt steinhlaðið sæluhús.

Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegur; hleðslur gamla sæluhússins.

Steinarnir í veggina eru tilhöggnir líkt og eru í Alþingishúsinu. Sennilega hafa þeir verið fluttir þangað á sleðum að vetrarlagi. Fróðlegt væri að fá nánari upplýsingar um hús þetta. Líklegt þykir að það hafi verið byggt við konungskomuna og verið notað við för konungs þessa leið til Þingvalla árið 1907. Nú er það að mestu hrunið, einungis mótar fyrir neðstu steinaröðum. Konungur fór um veginn með fríðu föruneyti. Sjálfur reið hann langleiðina, en eftir fylgdu vagnar með kost og klósett. Sögðu templaranir í sveitinni að rekja hefði mátt slóðina eftir föruneyti kóngs þar sem eftir lágu tómar kampavínsflöskur í götunni.

Berserkjavarða er austarlega við Gamla Þingvallaveginn. Nafnið er hvorki fornt né kennt við hálftröll eða vígamenn. Vorið 1908 voru tveir unglingspiltar með viðlegu á heiðinni að hlaða vörður með fram veginum. Þessir piltar voru þeir Ólafur Magnússon frá Eyjum í Kjós og Jónas

Magnússon, bóndi í Stardal. Þeir voru rétt innan við tvítugt. Þetta var í kauptíð og margt ferðamann á leið suður og sunnan.

Gamli Þingvallavegur

Gamli – Þingvallavegur – varða.

Áðu þeir gjarnan hjá vegamönnum, hvíldu hesta sína og þáðu kaffisopa. Þarna bar að ónefndan bónda austan úr Laugardal og fannst piltum hann vera með óþarflega herralæti og húsbóndahátt við þá, líkt og þeir væru hans þjónar en ekki gestgjafar. Kom þeim ásamt um, að rétt væri að gjöra honum einhvern grikk, ef hann kæmi við á leið úr kaupstaðnum. Tveim dögum síðar bar hann aftur að tjaldi þeirra, eitthvað við skál og ekki síður heimtufrekur og herralegur en í fyrra skiptið. En nú brá svo við að piltar voru stimamýktin holdtekin og til þjónustu reiðubúnir í hvívetna. Yfir kaffibollum dró ferðamaður upp axlarfulla flösku af brennivíni, fékk sér gúlsopa og bauð piltum að dá sér bragð. Þeir kváðust, sem satt var, vera slíkum drykk alls óvanir en dreyptu þó örlítið á pyttlunni.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn.

Fylgdu þeir síðan komumanni til hests hans og gengu með honum á leið, skínandi af vinsemd. Að skilnaði var þeim aftur boðið bragð, en þegar þeir höfðu fengið flöskuna í hendur kviknaði eitthvað við nára hestins, sem tók viðbragð og hentist af stað. En þegar reiðmaður hafði n áð valdi á gæðingi sínum og náð flösku sinni, lá hún galtóm milli þúfna og piltar farnir sína leið. Var þá fátt um kveðjur. En sakir kátínu yfir vel heppnuðu bragði, að senda hinn heimtufreka kaupstaðafara þurrbrjósta sinn veg, og þó kannski öllu fremur vegna óþekktra kynna af áhrifum Bakkusar konungs, rann á pilta mesta kraftaæði og voru þó hraustir fyrir, ekki síst Ólafur, sem var afarmenni að kröftum. Veltu þeir með járnkörlum gríðarstóru bjargi úr holtinu þangað sem varða skyldi standa, færðu ofan á það annan klett og þar upp á lyftu þeir þeim þriðja. Var þá varðan hlaðin, rúmlega mannhæðahá. Verkstjóri þeirra hló þegar hann sá vegsummerkin og kvað þá mestu berserki. Fékk varðan þetta nafn síðan.

Þingvallavgegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Um tíma voru einungis tveir steinar í vörðunni, en nú hefur hún verið lagfærð og efsta steininum aftur komið á sinn stað. Ljóst er að þeir, sem hlóðu vörðuna, hafa verið vel rammir af afli, enda engra aukvisa að gera slíkt. Þessi varða er öðruvísi en aðrar vörður við Gamla Þingvallaveginn. Hinar eru vel til myndaðar, svipaðar að hæð og með vegprestum.
Gamli Þingvallavegurinn er nú fornleif. Vegurinn, ræsin, brýrnar, sæluhúsin, vörðurnar og KM-steinarnir eru minjasafn hinnar gömlu vegagerðar milli höfuðbýlis og þingstaðar – Þingvalla – þar sem fléttast saman gamlar þjóðleiðir og minnismerki þeim tengdum.
Þegar staðið er efst á Mosfellsheiði er auðvelt að setja sig í spor vermannanna að austan forðum daga. Fárra kennileita er á að byggja þegar hríð og bylur hylur útsýn og varla er þar skjól að finna þegar á reynir.
Frábært veður. Betra gerist það ekki á heiðum uppi á þessum árstíma. Og þvílíkt útsýni…..

Heimild m.a.:
-Árbók F.Í. 1986.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Nú er svo komið að efri innsiglingarvarðan við Hóp þarfast aðhlynningar.
Varðan laskaðist í jarðskjálfta fyrr á árinu og æ síðan hefur grjót Neðri Sundavarðanverið að hrinja smám saman innan úr henni.
Innsiglingarvörðurnar inn í Hópið eru tvær, auk Hópsheiðarvörðu. Þær eru bæði miklar um sig og háar eftir því. Þegar Hópsrifið var grafið inn 1939 svo nota mætti Hópið sem lægi fyrir stærri skip (árabáta og vélbáta) voru vörðurnar hlaðnar. Þær hafa æ síðan verið eitt af meginkennileitum Grindavíkur – gulmálaðar í seinni tíð. Margir nafngreindir Gindvíkingar komu að hleðslunum. Þær er þó einungis ysta lagið, þ.e. það sýnilega, en að innanverðu eru vörðurnar kasthlaðnar. Það er ástæðan fyrir svo skjótri forfáun efri innsiglingarvörðunnar (skammt neðan við Austurveg). Í fyrstu hrundi ysta hleðslulagið og þá var ekki að sökum að spyrja – innvolsið fylgdi á eftir. Nú er svo komið að meir og meir hrinur innan úr vörðunni. Skammt er því að bíða að efri hluti hennar falli niður í heilu lagi – nema eitthvað verði að gert, t.d. með því að endurhlaða sárið og fylla að nýju.
Nokkru eftir að framangreint var skrifað hrundi úr neðri Hópsvörðunni, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.

Hópsvarða

Hópsvarðan neðri.

 

Gluggavarða

Vörður hafa verið til marga hluta nytsamlegar hér á landi frá aldaöðli. Hliðstæðar vörður, með sambærilegan tilgang og hér eru, má t.d. finna í Noregi og á Suðureyjum, en auk þess á Grænlandi og í Nýfundnalandi.

Berserkjavarða

Berserkjavarða við Gamla Þingvallaveginn.

Ástæður fyrir gerð varðanna og tilgangur hefur jafnan verið margskonar. Vörður eru nær undantekningarlaust hlaðnar úr grjóti, fengnu á staðnum, oft ferkantaðar (Skógfellastígur næst Grindavík), en einnig hringlaga (ofan við Auðnasel) eða tilviljunarkennar, með “stelpu- og strákalagi” (Hafnir, Merkines, Prestastígur og Strandarheiði) eða með öðru lagi og misjafnlega háar, allt frá einu umfari til tuga. Þær voru hlaðnar sem vegvísar (vegprestar) til að leiðbeina ferðafólki rétta leið, t.d. í vondum veðrum (þoku, snókomu eða skafrenningi), til heilla (að kasta steini í dys eða vörðu hafði tvenns konar merkingu – a) að halda þeim, er þar var dysjaður, niðri eða b) að öðlast fararheill. Þær voru einnig reistar sem minningarmörk (um fólk, sem dó á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. Þyrluvarðan, Ólafsvarða og Stúlkuvarða), til gamans (sérkennileg varða á Strandarheiði, í Katlahrauni eða við Reykjanesbrautina þar sem tvöfölduninni líkur að vestanverðu (samskonar varða er skammt ofar í heiðinni, miklu mun eldri)) og til gagns (varða ofan við Merkines þar sem legið var fyrir ref (varðan notuð sem “útsýnisgluggi”) og varða ofan við Brunnastaði, en í henni er refagildra).

Brúnavörður

Brúnavörður.

Vörður voru líka oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. frá sjó (Brúnavörður) eða sem mið að ákveðnum stað eða sjóleið (yfirleitt mjög stórar eða háttstandandi), á landamerkjum (til að aðgreina mörk jarða eða svæða), við greni (oft litlar (kannski steinn á steini) og yfirleitt þrjár stutt frá hverri annarri – grenið í miðjunni), við upphaf vega eða vegamóta (og þá oft tvær eða þrjár hlið við hlið (fór eftir fjölda gatna, sem komu þar saman s.s. Rauðamelsstígur, Óttarstaðaselsstígur og Skógargata), ofan við mannvirki (selin) eða tiltekinn stað (fjárskjól – vatnsstæði eða jarðfall og sprungur þar sem fé gat leynst við leitir), við brýr yfir sprungur eða farartálma, sem leiðarmerki eða innsiglingamerki (Hóp við Grindavík, Þórkötlustaðanes, Nesjar), og þannig mætti lengi telja. Beinakerlingar eða skilaboðavörður voru t.a.m. ekki óþekktar.

Prestavarða

Prestsvarða.

Nafnkenndar vörður á Reykjanesskaganum eru 184 talsins, auk allra þeirra hundruða, sem fylgja röðum gamalla gatna og kennimerkjum. Fyrrum var regla á hlutunum, sbr. það að vörður voru jafnan allar sömu megin við götu. Þannig var auðveldara að fylgja þeim, einkum við slæmar aðstæður. Oft var steinhella höfð út úr vörðunni götumegin (Hvalsnesleiðin, Árnastígur). Svo var einnig oft á gatnamótum.
Í seinni tíð má æ oftar sjá fólk hlaða vörður, yfirleitt skammt utan alfaraleiða. Þessar vörður eiga væntanlega að vera minnisvarðar fólksins um veru þess á þessum stað á tilgreindum tíma. Eftir að fólkið er farið gefur varðan sjálf í rauninni ekkert til kynna, nema að vera öðrum til ama og afleiðingar. Hafa ber í huga að fyrrum voru vörður hlaðnar til leiðbeininga fyrir aðra, en ekki einungis þá, sem hlóðu þær.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Strangt til tekið má víst ekki endurhlaða gamlar fallnar vörður, en þó hefur það nú verið gert víða um land, s.s. við gömlu Sprengisandsleiðina, Skógfellaleiðina að hluta og Árnastíg að hluta og víða hefur fólk lagt stein í “lágvaxnar” vörður til að gera þær sýnilegri á ný. Hafa ber í huga að gömlu föllnu vörðurnar standa enn fyrir sínu. Glöggskyggnir sjá vel þessar jarðlægu “grjóthringi” á jörðinni og geta fylgt þeim eins og til var ætlast. Skiptir þá engu hversu háreyst hrúgan er.
Jarðskjálftar og frostveðrun hafa oft leikið vörður grátt. Lengst hafa þær staðið, sem reistar hafa verið á klöpp. Bæði er það að frostveðrunin nær ekki til þeirra líkt og systra þeirra, sem hlaðnar hafa verið á mold- eða melbornu undirlagi, en auk þess skiptir máli hvernig “sveiflan” í svæðisbundum jarðskjálftum liggur.

Prestastígur

Varða við Presthól hjá Prestastíg.

Þá standast t.d. vörður úr hraungrýti betur “áreiti” en þær vörður, sem hlaðnar hafa verið úr sléttum grágrýtishellum auk þess sem vörður eru einfaldlegar misjafnlega gamlar. Þannig standa t.a.m enn margar vörður, sem hlaðnar voru við Hlíðarveginn á fjórða áratugi 20. aldar, á meðan nær allar vörðurnar á Selvogsgötunni eru fallnar, en á milli leiðanna eru einungis nokkrir tugi metra.

Þjóðsögur eru til um vörður, likt og annað dulumhjúpað. Þannig segir t.d. að sá sem færir til landamerkjavörðu skal að honum látnum dæmdur til að bera grjót til eilífðarnóns. Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að var við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök “tiltekt” trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á “réttum” gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á.
Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum – og öfugt.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smala.

Má sem dæmi nefna þjóðsöguna um Herdísi og Krýsu. Vörður voru hlaðnar í Kerlingadal um landamerkjastríð þeirra – að þeim látnum. Sjá má þær enn við gömlu þjóðleiðina. Í niðurlagi sögunnar segir að “nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.”
Þá má nefna vörðunar á Vörðufelli.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Þar segir m.a. að “svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.
En nokkru eftir þetta er sagt að prestur hafi farið austur á Selvogsheiði og numið staðar á felli einu lágu; hafi hann þá byggt þar upp fjarska margar vörður og sagt að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur og heitir fellið síðan Vörðufell”.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn.

Í seinni tíð hafa gamlar vörður verið endurhlaðnar. Oft hefur þá verið tilviljun háð hvoru megin gömlu götunnar þar hafa verið hlaðnar. Víða má þó enn sjá leifar af gömlu vörðunni.
Fyrrum var hverjum vinnufærum manni gert skylt að vinna hluta úr ári við garð- eða grjóthleðslu. Hægt var og að skylda búandi menn til að hlaða vörður. Þannig krafðist presturinn í Höfnum, sem einnig var prestur í Grindavík, þess af bændum þar í sveitum að hver þeirra skyldi hlaða a.m.k. eina vörðu og jafnvel tvær á þeirri leið, sem síðan varð nefnd Prestastígur. Vörðurnar voru með jöfnu millibili, nokkurn veginn jafn háar og allar sömu megin við götuna. Þó er ein varða ólíkar hinum. Það er varðan á Presthól. Hún er klofin. Segja má að vörðuröðin lýsi vel samfélaginu og fólkinu, sem það mótar; flestar öðrum líkar, en þó ekki án undantekninga. Einn hleðslumaðurinn hefur ákveðið að gera sína vörðu öðruvísi og kannski meira eftir sínu höfði. Eflaust hefur það kostað mikla umræðu og jafnvel fordæmingu á sínum tíma, en í dag er þetta sú varða, sem vekur hvað mesta athygli og er hvað eftirminnilegust á þessari 16 km löngu leið.

Gömlu Hafnir

Stelpuvarða ofan við Gömlu-Hafnir.

Út frá vísindalegum og akademískum forsendum væri eflaust hægt, með mikilli vinnu, að finna bæði tilefni og hugmyndir fyrir “vörðugerð” fyrri tíma, jafnvel allt frá upphafi landnáms sem og samlíkingar við vörður hér á landi og annars staðar – þaðan sem landnámsmennirnir eru taldir hafa komið – og farið. Niðurstaðan, hversu merkileg sem hún kynni að verða, myndi eflaust vekja athygli fárra, en varla fjöldans. Í hans augum hafa vörður bara verið vörður og tæplega þó.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Þegar “æft” fólk leggur af stað í leiðangur með það fyrir augum að “endurfinna” eitthvað, sem um er getið í örnefnaskrám, sóknarlýsingum, munnmælum eða öðrum heimildum, treystir það jafnan á kennileitin í landslaginu (sem yfirleitt er hvert öðru líkt). Þá er fyrst og fremst skyggnst eftir vörðunum. Ástæðan er sú að fólk hafði fyrrum tilhneigingu til að “merkja” tiltekna staði, sem það vildi, að þeirra fólk gæti fundið aftur með sem minnstri fyrirhöfn. Örnefnin voru mikilvægur leiðarvísir, en vörðurnar gáfu nákvæma staðsetningu til kynna. Því má með sanni segja að vörðunar hafi verið það sem GPS-eða umferðarmerkin eru núna.

Bláfellsháls

Dysin á Bláfellshálsi.

Ein merkilegasta varðan hér á landi er án efa dysin á Bláfellshálsi. Á meðal ferðamanna gengur sú saga að varðan sé ævagömul. Sú hefð hefur myndast að ferðalangar kasta steini í vörður þeim til heilla á löngum leiðum. Staðreyndin um vörðuna á Bláfellshálsi er hins vegar sú að upphaf hennar má rekja til þess að Eiríkur Þorsteinsson frá Fellskoti var að smala á hálsinum á sjöunda áratug 20. aldar þegar gat kom á annað stígvélið hans. Hann skildi stígvélið þar eftir, en hróflaði áður grjóthrúgu yfir það. Síðan sáu ferðalangar, sem að komu, vörðuna á hálsinum, sem er táknrænn áfangi á leiðinni, og bættu um betur, minnugir sögninni um heillamerki.
Þetta er nú bara svolítill fróðleikur um vörður svo engan reki í vörðurnar ef um verður spurt. Þetta ætti a.m.k. að varða leiðina að aukinni vitneskju – því markmiðið er jú að vita meira og meira, meira í dag en í gær.

Gluggavarða

Glugggvarða á Mosfellsheiði.

Selvogur

Farið var í Selvoginn. Gengið var að flaki vélbátsins Varðar sem liggur í stórgrýtisurð skammt fyrir austan Selvogsvita. Bátinn rak upp í brimi árið 1956 og fórust allir sem um borð voru, fimm menn.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Flakið er illa farið en stefnishlutinn, með lúkarnum, er eftir og nokkuð þarna frá er afturdekkið, skreytt með ryðguðu dráttarspili.
Þátttakendur fengu sér kaffisopa og meðlæti þarna við flakið, með útsýni út yfir hafið og landið, böðuð í sólskini.
Þegar einn FERLIRs félaginn stóð upp, féll hann afturábak og kláraðist þannig úr könnunni yfir hann. Þar sem FERLIRs menn eru orðnir ýmsu vanir í þessum ferðum lét hann þetta ekki aftra sér í að fá aftur í könnuna. Teygði hann sig síðan í girnilega brauðsneið með áleggi. Skipti þá engum togum að brauðsneiðin var slegin úr höndum hans og féll hún niður í stórgrýtið. Annar FERLIRs félagi missti síðan kaffikrúsina sína niður í grjótið, þó án þess að hún brotnaði. Þátttakendur þökkuðu fyrir móttökurnar þótt í gletnara lægi væru. En allir voru sammála um að þarna vildu þeir ekki eiga næturstað fyrst svona fjörugt sé í glaða sólskini.
Gengið var að Nesi og skoðaðar þær miklu minjar sem þarna eru.

Nes

Nes – legsteinn.

Mikið hefur verið leitað að legsteini þeim sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður með meiru, hafði bjargað undan jarðýtunni um miðja síðustu öld, þegar bóndinn í Nesi var að byggja hlöðu og fjós.
Vitað var að þarna hafði verið kirkjugarður og kirkja sem var endanlega aflögð 1706 en síðastur var þar grafinn Jón Jónsson, bóndi í Nesi. Hann andaðist árið 1702. Síra Jón Vestmann hefir þessa athugasemd um Jón bónda en hann ritaði m.a. “Lýsingu Selvogsþinga árið 1840”
“Hann byggði sér skemmu úr kirkjutóftarrústinni frá forntíð og var að bón hans loks grafinn í skemmunni”. (Landnám Ingólfs, Guðni Jónsson).
Nokkrar fleiri heimildir eru um kirkju í Nesi.

Nes

Nes í Selvogi.

Forn maldage:
(1313) “Maraíu kirkia j Nese og hins helga mangvs jarls: og ins sæla Thorlaks biskups og hinnar helgv Katerynv meyjar er (Finnr) Bjarnmason liet goira. a xx hvundrvd j heima landeog tielld vmm kirkiv . smelltan kross og annann steindann. Alltarisklædi iij. kluckur iiij og fimta brotna. kertastikur ij. og glodarker. elldbera. lysisolv. og Alltaris mvnnlavg. skiov. og stavckvl. og handklæde tuo. og peturs skrift. ij kyr. a og kirkia” (Fornleifaskráning í Ölfusi)

Máld (1313) 1397: Maríukirkja j Nesi …a .xxc j heimalandi, iij. kyr oc vj. ær…lofadur gropttur heimamonnum oc fatækum monnum í Nesi, tyund liggur þar til heimmanna oc af Biarnastodum.
(Fornl.sk. í Ö)

Selvogur

Selvogs-Jói með nýfundna legsteininn.

Kristófer fann þrjá legsteina, tvo stóra og einn lítinn sem hann taldi vera legstein frá barni. Var hann með kross.
Fyrir nokkrum árum ætlaði hann að ná í steinana en fann þá aðeins tvo þá stóru og fór með þá á minjasafn á Selfossi. Litla steininn fann hann ekki.
Nú þurfti ekki að leita, einn FERLIRs félaginn gkk beint að steininum þar sem hann var hálfniðurgrafinn við niðurfallinn vegginn á hlöðunni. Blasti krossinn í steininum við, moldfylltur.
Kristófer var látinn vita af fundinum og ætlar hann að huga að steininum ef einhverjar framkvæmdir verða þarna á staðnum. Hann var sammála FERLIRs félögum um að þessi steinn ætti ekki heima upp í hillu á minjasafni heldur fái að vera í sínu rétta umhverfi, gamla kirkjugarðinum í Nesi, með mannlífstónað öldugljálfrið við ströndina.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Stúlknavarða

Heiti: Fjöldi: Fundið:x Staðsetning:
Alfaraleiðavörður 10 x Alfaraleið
Arnarbæli 1 x Hjöllum
Auðnaselsvarða 1 x utan leiða
Árnavarða 1 x Strandarhæð
Balavarða – landam. 1 x Bala
Bárðarvarða 1 x Ísólfsskála
Bergsvarða 1 x Ísólfsskála
Brandsvarða 1 x v/Skógfellaveg
Brúnavörður 2 x v/v Húshólma
Dagmálavarða 1 Hafnarfirði
Dauðsmannsvarða I 1 x ofan við Fuglavík
Dauðsmannsvarða II 1 x ofan v/Sandgerði
Digravarða 1 x ofan v/Sandgerði
Digravarða 1 x Selvogi
Eiríksvarða 1 x Svörtubjörgum
Eiríksvarða 1 x Arnarfelli
Engidalsvarða – landam. 1 x Engidal
Eyrarhraunsvarða 1 x Mölum
Gatvarða 1 x Vatnsleysustr.heið.
Gunnhildur 1 x Vífilstaðahlíð
Hádegishólsvarða – landam.1 x Garðahrauni
Hellisholtsshellisvarða 1 x Hellisholti
Hemphólavarða 1 x Hemphól
Hlíðarendavarða 1 x Þorlákshöfn
Hópsvarða (Heiðarvarða) 1 x á Hópsheiði
Kershellisvarða 1 x v/Kershelli
Ketilsvarða 1 x v/Ketilsstíg
Kolbeinsvarða -árt. – 17241 x Vogastapa
Kúavarða 1 Herdísarvík
Landavarða 1 x n/v Nesjar
Leið 1 Selvogi
Ljúf 1 Selvogi
Lönguhlíðavarða 1 x hæst á Lönguhl.
Másbúðarvarða 1 x v/Nesjar
Miðdegishólsvarða – landam. 1 x Garðahrauni
Miðmundarvarða – eyktarm.1 Þorbjarnastaðir
Mjóavarða 1 x Básendum
Nónvarða 1 x Keflavík
Ólafsvarða 1 x v/Ólafsgjá
Ósavarðan 1 x a/Ósabotna
Prestavarða – leturst. 1 x ofan við Leiru
Rauðhólsselsvarða 1 x v/Þórustaðastíg
Sjávarvörður 1 við mót Hlíðarv.
Sjónarhóll 1 x ofan Garðs
Skálavarða 1 x Selvogi
Skyggnisþúfa 1 x vestan Seljabóta
Smalavörður 5 x Vörðufelli
Snjóthúsavarða 1 x ofan v/Selvog
Stapavarða – landm. 1 x Stapanum
Stapaþúfa 1 x Vatnsleysu
Stefánsvarða – áletrun 1 x v/almenningsleið
Stelpur 2 x ofan við Kirkjuhöfn
Stokkavíkursundsvarða 1 x Þorkelsgerði
Stóruvarða 1 Selvogi
Strandarhæðarvarða 1 x Strandarhæð
Strákur 1 x ofan við Merkines
Strákur 1 x v/Prestastíginn
Stúlkuvarðan – AGH – 1773 1 x Njarðvíkurheiði
Tvíburar 2 x v/Flekkuvíkurselsst.
Tvívörður 2 x Selvogsgata
Tyrkjavarða 1 x v/v. Grindavík
Tyrkjavarða 1 x Vörðufelli
Tyrkjavörður 15 x Vogaheiði
Útvogsvarða 1 x Selvogi
Vatnshólavarða 1 x ofan v/Fuglavík
Vatnshólsvarða 1 x ofan við Gufuskála
Þorlákshafnav. 2 x v/Þorlákshafnar
Þrívörður 3 x ofan við Kirkjuból
Þyrluvarða 1 x Vatnsleysu

Á bak við nafn er falin GPS-punktur.