Hleypt hefur verið af stokkunum Umbótakeppni í umdæmi Grindavíkur. Leikreglur eru þær að liðsheild tekur að sér umbætur í einhverju er telja má til gagns er lýtur að útivistar-, umhverfis- og/eða söguminjum í umdæmi Grindavíkur.

Efr-innsiglingarvarðan

Að þeim loknum skorar liðsheildin á aðra tiltekna að gera hið sama innan tilgreindra tímamarka og svo koll af kolli. Fylgst verður með áhuga og árangri viðkomandi liða og fjallað um hvorutveggja á vefsíðunni www.grindavik.is.
Keppnin hófts á því að FERLIR, félagsskapur um útivist,  umhverfi, sögu og  minjar á Reykjanesskaganum (sjá
www.ferlir.is) tók að sér að lagfæra skemmdir, sem orðið höfðu á Efri-innsiglingarvörðunni við Hóp, en vörðurnar eru og hafa verið eitt af meginsérkennum Grindavíkur frá því þær voru hlaðnar af sjófarendum inn í Hópið til leiðsagnar eftir að rás fyrir báta hafði verið grafin inn í það árið 1939.
Efri-innsiglingarvarðan, sem er um fimm metra há og fjórir metrar í ummál, hafði orðið fyrir hnjaski í jarðskjálfta tveimur árum fyrr og grjóthleðslan hrunið úr henni bæði að norðvestan- og austanverðu. Að sjá var toppurinn og við það að falla niður, auk þess sem varðan hafði öll að hluta gengið til. Um tvennt var að velja; að láta vörðuna afskiptalausa og leyfa henni að falla saman í grjóthrúgu (með það fyrir augum að hlaða hana frá grunni, þ.e. hlaða nýja vörðu) eða gera við skemmdina og reyna þannig að viðhalda hinu upprunalega mannvirki að svo miklu leyti sem það var hægt.

Efr-innsiglingarvarðan - 2

Í marsmánuði árið 2010 barst erindi til bæjarráðs Grindavíkur um nauðsyn þess að lagfæra þyrfti Efri-innsiglingarvörðuna, ekki síst vegna slysahættu er af hruninu stafaði. Erindinu var vísað til Umhverfisnefndar. Á 122. fundi nefndarinnar var vakin athygli á málinu og lagt til að leitað yrði tilboða í að færa vörðuna í upprunalegt horf. FERLIR sendi nefndinni erindi og bauðst til að taka að sér verkið – endurgjaldslaust. Nokkrir FERLIRsfélagar höfðu tekið þátt í grjóthleðslunámskeiði í Vogum árið áður og töldu sig geta framkæmt verkið án vandkvæða.
Á 123. fundi Umhverfisnefndar Grindavíkur 11. mars s.á. var málið tekið fyrir með afbrigðum: “Eins og fram kom í síðustu fundargerð eru töluverðar skemmdir á Efri Hópsvörðu og stafar af henni slysahætta. Ómar Smári Ármannsson hjá FERLIR hafði samband og bjóðast FERLIRsfélagar að taka að sér verkið endurgjaldslaust. Nefndin þiggur þetta höfðinglega boð fyrir hönd bæjarins og felur formanni nefndarinnar að vera FERLIR innan handar við framkvæmd verksins.”

Efr-innsiglingarvarðan - 3

Þann 8. apríl framkvæmdu FERLIRsfélagar verkið og má segja að Efri-innsiglingarvarðan við Hóp sé nú jafnsett og hún var fyrir skemmdirnar. Að vísu er varðan, sem hlaðin er í halla, gengin til að hluta líkt og sjá má á henni sunnanverði. Úr því verður ekki bætt nema rífa hana í sundur stein fyrir stein og endurhlaða að nýju. Ef ástæða þykir til þess síðar mun FERLIR fúslega taka að sér verkið, en eins og varðan er núna er sá hinn sami sómi að henni og áður var.
Í framhaldi af umbótunum á Efri-innsiglingarvörðunni í Grindavík skorar FERLIR á félaga í Björgunarsveit Grindavíkur (Þorbirni) að byggja göngubrú yfir Rásina ofan við Stóru-Bót og auðvelda þannig íbúum og gestum þeirra að nýta hið fagra og sagnaríka umhverfi Gerðisvallanna. Göngubrúna má gera á einfaldan hátt, t.d. með föstum járnlykkjum beggja vegna og tréstaur er lægi á milli þeirra og gæti mætt bæði fjöru og flóði. Sveitin hefur einn mánuð til að framkvæma verkið og að því loknu býðst henni að skora á hvern þann annan er getur auðveldlega án mikils tilkostnaðar látið gott af sér leiða til úrbóta v/útivist-, sögu- og minjar í umdæmi Grindavíkur. FERLIRsfélagar eru tilbúnir að aðstoða við framkvæmdina.
Eða eins og björgunarsveitarmaðurinn sagði: “Þetta er ekki spurning um hvað samfélagið getur gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir samfélagið”.
Því miður daufheyrðist björgunarsveitarfólkinu í Grindavík við hugmyndinni.

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

Nú er Neðri Hópsvarðan fallin. Hver tekur að sér viðgerð hennar; bæjarstjórinn? eða björgunarsveitarfólkið? Nei, það verður FERLIRsfólkið, sem mun láta að sér kveða við varðveislu þessara sögulegra minja í Grindavík – líkt og svo oft fyrrum…
Efr-innsiglingarvarðan - 5