Gengið frá frá hálsinum ofan við Latfjall, norðvestur yfir Tófubruna. Sést móta fyrir gamla veginum (Hlínarveginum) skammt sunnar. Ofar eru fallegir, litskrúðgir klepra- og gjallgígar. Þeir eru hluti gígaraðar, sem liggur autan með austanverðum Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).
Ögmundarhraun mun hafa komið úr gígaröðinni, sem nær alllangt til norðurs. Eftir stutta áframhaldandi göngu var komið að háum misgengisveggjum Stóra Hamradals undir hálsinum. Undir veggnum, sunnarlega, er gömul hlaðin rétt. Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði að hún hafi jafnan verið notuð við rúningar.
Ögmundarhraun er neðan við Latfjall. Hraunið er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið gegnt Ísal og a.m.k. einn bær og önnur mannvirki grófust undir því.
Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.
Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli.
Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum. Þetta var upphaflega eitt landnám.
Þórir haustmyrkur nam þetta svæði allt, setti Hegg son sinn niður í Vogi (sem nú kallast Selvogur), en bjó sjálfur í Krýsuvík. Bær hans mun hafa staðið þar sem nú heitir Húshólmi niðri undir Hælsvík. Þennan bæ tók Ögmundarhraun af þegar það rann fram, og í óbrennishólmanum Húshólma má enn sjá veggi og bæjarrústir koma fram undan hrauninu. Er það full sönnun þess, að hraunið hafi runnið eftir landnámstíð og tekið þarna af bæ, sem oft er nefndur „gamla Krýsuvík”.
Í hólmanum er á einum stað nefnd Kirkjulág og bendir til þess að þarna hafi verið kirkja. Þar er og glöggur garður um 900 fet á lengd. Eftir þetta hraunflóð halda menn að bærinn hafi verið fluttur upp til fjallanna, þar sem hann stóð síðan og kallaðist Krýsuvík.
Talið er að Ögmundarhraun sé komið úr nær 100 eldgígum hjá suðurendanum á Núpshlíðarhálsi. Bæði Jónas Hallgrímsson og Þorvaldur Thoroddsen hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hraun þetta hafi runnið 1340. Er því hér um að ræða sama hraunið sem Gísli biskup Oddsson segir að „runnið hafi til hafs við sjávarsveit þá, er kallast Selvogur”. Verður þá allt auðskilið. Selvogsnafnið hefir náð yfir alla ströndina í landnámi Þóris haustmyrkurs.
Þekkt er sagan af Ögmundi, viðskipti hans við bónda og gatnagerð um hraunið. Dys hans má sjá við austurjarðar þess.
Efni m.a. af:
http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360