Vörður

Eftirfarandi skrif “um fjallvegu, vörður og sæluhús” má lesa í tímaritinu Mána 1880: “Til þess að greiða samgöngur og tryggja félagsskap milli sveita og héraða má fyrst telja þjóðveguna.

Varda-22

Félög vor og samtök eru lítil, og kemur það víst að nokkru leyti til af því, að land vort er strjálbyggt og örðugt yfirferðar, en vegir eigi nógu greiðir, og tefur það allmikið fyrir samtökum, samgöngum og félögum milli sveita og sýslna. Hvervetna erlendis þar sem fylgi og félagsskapur er mestur milli þjóðanna þar eru líka þjóðvegimir greiðastir, löndin sljett, árnar skipgengar, grafin sýki, byggðar járnbrautir o. s.
frv. Hér er eigi um neitt þesskonar að tala; land vort er fjöllótt, árnar straumharðar, og margar vatnslitlar, en brimgarður og og sker fyrir mynni þeirra, og víðast er það að sá sem vill ferðast milli sveita eða sýslna verður að fara yfir dali, hóla, fjöll og firnindi, og verður það opt mjög tilfinnanlegt í illum veðrum, er ætíð má búast við á fjallvegum einkum á vetrum.

varda-23

Nú er þó svo komið hjá oss að mikil lögun er komið á marga fjallvegu og þeir orðnir góðir yfirferðar á sumrum, og hefir nú á síðastliðnum 10 árum allmiklu fé verið kostað til vegabóta, og erum vér vissir um að meiri hluta alþýðu þykir því fé vel varið, og hafa orðið að góðum notum, en samt sem áður eru vegirnir ófullkomnir, þar eð þeir flestir eru að eins sumarvegir. Vér Íslendingar þurfum eigi síður greiða vegu um landið á vetrum og opt er það að þá þarf maður helst að reyna á þá. Á vetrum er slétt yfir alla vegu af snjó og ís, og þótt vegirnir séu hlaðnir upp, er það opt að eigi sést til þeirra fyrir snjó. Einnig er það líka að ef maður, eins og opt Vagnvegur-21kemur fyrir, á vetrum, tekur af sér króka með því að ganga beinnan vegurinn liggur, að hann á þá opt illt með að finna veginn, ef hann eigi er gagnkunnugur honum, en af slíku geta menn opt komist í vandræði og jafnvel beðið bana, ef misjöfn eru veður; til þess að ráða bót á slíku ættu sýslunefndir að fara að hugsa um það efni og sjá svo um að hlaðnar væru vissar vörður á fjallvegum, er ferðamenn gætu óhultir farið eptir, til þess að komast áfram leið sína til byggða; vörðurnar þyrftu að vera þéttar, svo að þær sæjust glöggt þó illt væri veður og kafald; það sjá allir að nauðsyn er á einhverjum vissum leiðarvísi fyrir ferðamenn á vetrum, er svo opt eru á ferð, þar sem samgöngur milli héraða eru nokkuð að aukast, einkum póstferðir, og menn eru sendir með áríðandi bréf og sendingar, er fljótt og áreiðanlega eiga að komast til skila.
Vagnvegur-22Erlendis eru víða vitar, er sjómenn og landfarar beina leið sína eptir, en að hafa vita hér sýnist óhugsandi, sakir ýmsra annmarka. Vér viljum telja hér nokkra hina helstu fjallvegu, er óumflýjanlegt er að fara yfir, og nauðsyn væri að hlaðnar væru vissar vörður á, fyrir pósta og aðra ferðamenn að rjetta sig eptir á vetrum. Allir þessir vegir eru langir og illir yfirferðar og mjög villugjarnir.
Þegar lengra er haldið áfram yfir Suðurlandið, má telja Reykjanesfjallgarðinn; yfir hann liggja 7 alfaravegir. Nyrðstur er Kaldadalsvegur milli Þingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði
milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum i Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni,
þá Grindaskörð milli Ólvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir eru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.
villuvarda-21Nokkrir af vegum þeim, er áður eru taldir, hafa reyndar fengið allgóða lögun, en hvergi nærri fullkomna til þess, að þeir gætu heitið vetrarvegir, þar eð flesta þeirra vantar sæluhús og vörður eða einhver glögg einkenni, er ferðamenn gætu óhultir rétt sig eptir, ef veður eru misjöfn. Það sjá allir hvað póstferðirnar eru nauðsynlegar, og án þeirra getur enginn félagsskapur né samgöngur orðið að góðum notum, en það sjá líka allir hve örðuga og geigvænlega leið póstar eiga fyrir höndum á vetrum, er þeir í tvísýnu veðri og illri færð eins og þá opt kemur fyrir, verða að ferðast um þessar heiðar og eyðimerkur til þess að ná til byggða. Vörður þær, er hlaðnar eru á fjallvegum eiga að hafa áttavita, það er að segja út úr tveimur hliðum vörðunnar eiga að standa þrep, er snúi hvort frá öðru í gagnstæðar áttir t. d. úr suðurhlið og norðurhlið vörðunnar, og ætti eigi lengra að vera milli varðanna en svari 30—40 föðmum; best væri að vörðurnar væru hlaðnar skammt frá veginum en þó allar á sömu hlið við hann, og ætti einkum að sjá svo til, að þær gætu staðið nokkuð hátt, svo eigi þyrfti að óttast fyrir að snjó legði yfir þær; ef þær stæðu mjög nærri veginum, ætlum vér hættara við að þær kynnu fremur að falla ef ógætilega væri hjá þeim farið.

villuvarda-22

Þótt vegir séu hlaðnir upp, þarf engu síður vörður við þá, ef þeir liggja yfir óbyggðir. Sæluhús eru ómissandi á mörgum fjallvegum hér, og það er undarleg vanhirða þjóðarinnar, að eigi skuli sæluhús enn vera orðin almennari í
mestu alfara óbyggðum landsinsenþaueru, og flestir þeir sæluhúskofar, er til eru, eru hafðir mannlausir, svo þeir undir eins fúna niður, og verða að litlum notum. í nokkrum óbyggðum landsins er þar á móti gnægð af villuvörðum, er nauðsynlegt væri að felldar væru niður til grunna. Vér viljum taka til dæmis hér syðra heiðina, er liggur frá Vogastapa og suður á Garðskaga, milli Hafna, Rosmhvalsneshrepps, Garðs, Leiru, Keflavíkur og Njarðvíka. Heiði þessi er allstór, smáhólótt, og ákaflega villugjörn, en svo að segja er varða þar á hverjum hól, og verða þær að líkindum fleiri mönnum að bana, en illt loptslag þar, draugar og staupagjafir í Keflavík, sem hingað til hefir verið álitið að væri orsök til þess, að svo margir hafa orðið úti og dáið þar í heiðinni. Ef vissar vörður væru í heiði þessari, er vel mætti rekja sig eptir og engar villuvörður (draugar í heiðinni) í kring, mundu færri verða þar úti. Villuvörður þessar hafa smalar eða þeir er staðið hafa yfir fé að líkindum hlaðið sér til dægrastyttingar, en eigi gætt þeirra afleiðinga, er verða kynni af verki þeirra fyrir ókunna ferðamenn.”

Heimild:
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 3. tbl. bls. 21-22.
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 4.-5. tbl, bls. 34-35.
-Máni, 1. árg 1879-1880, 8. tbl. bls.60-61.

Varda-21