Grindavík

Eins og fram kemur á vefsíðu FERLIRs voru, að venju tvær, innsiglingavörður, önnur ofan við hina, hlaðnar sem mið að lendingum fyrrum.

Efri innsiglingarvardan vorid 2014

Efri innsiglingarvarðan vorið 2014.

Vörðurnar stóru (gulmáluðu) við Hóp eru þar engar undantekningar. Þær voru hlaðnar árið 1939 í framhaldi af inngreftri um ósinn inn í Hópið í Grindavík. Með því náðu Grindvíkingar að skapa sér hið ákjósanlegasta lægi fyrir nýgerða vélbáta sína. Í framhaldinu fylgdi hanargerð á hafnargerð ofan.
Í fyrstu voru vörðurnar bara eins og hverjar aðrar innsiglingar-vörður; mið af hafi til að rata rétta leið til lægis að róðrum loknum.
Komið var fyrir siglutrjám á vörðunum og á þeim voru innsiglingarmerki. Ekki eru til heimildir um hverjir hlóðu þessar vörður árið 1939, en eflaust voru það handhægir Grindvíkingar þess tíma. Í viðtali við Sigurð Garðarsson, fæddur ’34 á Sólbakka í Þórkötlustaðahverfi sagði hann að árið 1947 hefði hann, sem þá var ári fyrir fermingu, ásamt Benedikti Benónýsyni frá þórkötlustöðum, hræst steypuna í vörðuna og í framhaldi af því hefði hún verið gulmáluð að “framanverðu”. “Þetta var fyrsta launaða vinnan mín, enda bara strákpjakki”.

Efri innsiglingarvarðan 2014-endurgerd

Efri innsiglingarvarðan eftir viðgerð.

Stuttu síðar voru reistir staurar við vörðurnar og á þá sett ljós; grænt, hvítt og grænt. Gáfu þau sæfarendum innsiglingarstefnuna til kynna á nóttu sem degi. Síðar voru reist járnmöstur í þeirra stað með viðeigandi leiðbeiningarljósum fyrir sæfarendur. Steinsteyptur mastursfóturinn sést enn ofan við efri vörðuna fyrrnefndu.
Um vorið árið 2014 hrundi nánast hálf efri innsiglingavarðan við Hóp. Síðdegis í maímánuði sama ár löguðu FERLIRsfélagar innsiglingar-vörðuna. Hún átti 75 ára afmæli á árinu. Verkið var unnið í sjálfboðavinnu – enda kennileitið eitt helsta tákn útvegssögu Grindavíkur í gegnum tíðina – auk þess sem árlegi sjómannadagurinn var framundan. Minna gat það ekki verið…
Hafa ber í huga að mikilvægt er að varðveita vörður, eða kennileiti sem þessi – ekki síst í sögulegum skilningu viðkomandi bæjarfélaga. Grindavík er og hefur verið útvegsbændasamfélag frá örófi alda. Ástæðulaust er að gleyma því, jafnvel þótt minjar þess hverfi smám saman. Tómas Þorvaldsson, útgerðarmaður í Grindavík, nú látinn, lagði í lifandi lífi mikla áherslu á þetta atriði. Máli sínu til stuðnings nefndi hann Títublaðavörðuna við Skipsstíginn; fyrstu stóru vörðuna götuna ofan Járngerðarstaða. Sagði hann þá áhrínisorð til Grindvíkinga að halda þyrfti vörðunni þeirri við svo vegfarendum til og frá bænum myndi vel farnast. Á meðan Tómas lifði var vörðunni ávallt við haldið, en í dag er hún nánast gróið sjálfgildi. Vonandi mun nýstofnað minjafélag í Grindavík huga sérstaklega að þessum merkilegu þáttum sögu bæjarfélagsins.

Hópsvarða

Efri-Hópsvarðan í viðgerð 2010.

 

Heimildir:
-Sigurður Garðarsson.
-Tómas Þorvaldsson.